Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 31. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Prentað upp.

Þskj. 31  —  31. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar



um stofnun heimilis fyrir fjölfatlaða einstaklinga á Suðurnesjum.

Flm.: Gunnar Örlygsson, Drífa Hjartardóttir, Guðjón Hjörleifsson,
Kjartan Ólafsson, Hjálmar Árnason.


    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra, í samráði við samtök sem vinna að málefnum fatlaðra, að hefja undirbúning að stofnun heimilis fyrir fjölfatlaða einstaklinga er verði staðsett á Suðurnesjum.
    Stefnt verði nú þegar að úrlausn fyrir einstaklinga sem eru á neyðarlista hjá Svæðisskrifstofu fatlaðra á Reykjanesi og eigi síðar en árið 2008 verði búsetuúrræði fyrir fjölfatlaða einstaklinga komin í viðunandi horf.

Greinargerð.


    Með þingsályktunartillögu þessari beinir Alþingi því til félagsmálaráðherra að hann hefjist handa við stofnun heimilis fyrir fjölfatlaða einstaklinga á Suðurnesjum. Skal ráðherra hafa samráð við aðila sem beita sér fyrir réttindum fatlaðra, svo sem Þroskahjálp, Svæðisskrifstofu fatlaðra á Reykjanesi, Samband sveitarfélaga á Suðurnesjum og önnur félagasamtök eða stofnanir sem geta lagt málinu lið.
    Einstaklingar á biðlista eftir búsetu sem eru með lögheimili í Grindavík, Reykjanesbæ, Sandgerði eða Vogum eru nú 18 talsins. Á aldrinum 18 ára og eldri eru tólf á biðlista og þar af eru tveir fjölfatlaðir, fjórir með geðfötlun og sex með annars konar fötlun (þroskahömlun o.fl.). Börn á biðlistum, þ.e. einstaklingar yngri en 18 ára, eru alls sex. Þar af er einn fjölfatlaður einstaklingur, tveir með einhverfu og þrír með annars konar fötlun (þroskahömlun, atferlistruflun o.fl.).
    Staðan er þannig að einn hinna fullorðnu einstaklinga er á neyðarlista og þarf framtíðarúrræði sem allra fyrst, þrír einstaklingar eru vistaðir tímabundið úti á landi en þrír eða fjórir geðfatlaðir fá búsetuúrræði snemma árs 2007. Tvö barnanna eru í brýnni þörf fyrir búsetuúrræði nú þegar. Hins vegar þola hin einhverja bið til viðbótar. Öll þessi börn njóta stoðúrræða á borð við stuðningsfjölskyldur og skammtímavistun.
    Á þessari upptalningu má sjá að brýn þörf er á búsetuúrræðum fyrir fjölfatlaða einstaklinga á Suðurnesjum.