Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 33. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 33  —  33. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu, nr. 57/1998, með síðari breytingum, og raforkulögum, nr. 65/2003, með síðari breytingum.

Flm.: Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Mörður Árnason, Þórunn Sveinbjarnardóttir,


Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta R. Jóhannesdóttir,
Björgvin G. Sigurðsson, Einar Már Sigurðarson, Guðrún Ögmundsdóttir,
Helgi Hjörvar, Jóhann Ársælsson, Jóhanna Sigurðardóttir, Jón Gunnarsson,
Katrín Júlíusdóttir, Kristján L. Möller, Lúðvík Bergvinsson, Margrét Frímannsdóttir,
Rannveig Guðmundsdóttir, Valdimar L. Friðriksson, Össur Skarphéðinsson.


1. gr.
              

    Við lög um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu bætist ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. 4. gr. um frumkvæði iðnaðarráðherra að rannsóknum og leit að auðlindum og heimild hans til að heimila öðrum rannsóknir og leit, 3. mgr. 5. gr. um fyrirheit um forgang að nýtingarleyfi, 1. málsl. 1. mgr. 6. gr. um veitingu nýtingarleyfis, og síðari hluta 2. málsl. 17. gr. um sérstök skilyrði í nýtingarleyfi, skal iðnaðarráðherra hverju sinni leita heimildar þingsins fyrir framangreindum leyfisveitingum og ráðstöfunum með sérstakri þingsályktunartillögu. Þessari málsmeðferð skal fylgt þar til Rammaáætlun um náttúruvernd hefur hlotið samþykki á Alþingi.


2. gr.

    Við raforkulög bætist nýtt ákvæði til bráðabirgða, svohljóðandi:
    Þrátt fyrir 1. málsl. 1. mgr. 4. gr. um veitingu virkjunarleyfis, 2. mgr. 5. gr. um skilyrði fyrir útgáfu virkjunarleyfis, 4. mgr. 5. gr. um samrekstur vatnsafls- og jarðgufuvirkjana, fyrirvara um leyfi til annars aðila og endurskoðun ákvæða virkjunarleyfis, 32. gr. um framsal leyfisveitingarvalds og 34. gr. um málsmeðferð ráðherra, skal iðnaðarráðherra hverju sinni leita heimildar þingsins fyrir framangreindum leyfisveitingum og ráðstöfunum með sérstakri þingsályktunartillögu. Þessari málsmeðferð skal fylgt þar til Rammaáætlun um náttúruvernd hefur hlotið samþykki á Alþingi.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta er flutt samhliða þingsályktunartillögu um gerð rammaáætlunar um náttúruvernd. Með frumvarpinu er lagt til að iðnaðarráðherra beri undir Alþingi ákvarðanir sínar um veitingu rannsóknar- og nýtingarleyfa samkvæmt lögum um rannsóknir og nýtingu á auðlindum í jörðu og veitingu virkjunaleyfa samkvæmt raforkulögum. Skal þetta gert með sérstakri þingsályktunartillögu. Skal ráðherra fylgja þessari málsmeðferð þar til rammaáætlun um náttúruvernd hefur hlotið samþykki í þinginu.