Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 41. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Prentað upp.

Þskj. 41  —  41. mál.
Flutningsmenn.




Tillaga til þingsályktunar



um þjóðfána Íslendinga í þingsal Alþingis.

Flm.: Guðmundur Hallvarðsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir,
Ásta Möller, Birkir J. Jónsson, Björgvin G. Sigurðsson, Dagný Jónsdóttir,
Drífa Hjartardóttir, Einar Oddur Kristjánsson, Guðjón Hjörleifsson,
Guðjón Ólafur Jónsson, Guðjón A. Kristjánsson, Guðlaugur Þór Þórðarson,
Guðrún Ögmundsdóttir, Gunnar Örlygsson, Helgi Hjörvar, Hjálmar Árnason,
Jóhann Ársælsson, Jón Gunnarsson, Kjartan Ólafsson, Kristinn H. Gunnarsson,
Kristján L. Möller, Magnús Þór Hafsteinsson, Mörður Árnason,
Sigurður Kári Kristjánsson, Sigurjón Þórðarson, Sigurrós Þorgrímsdóttir,
Sæunn Stefánsdóttir, Valdimar L. Friðriksson, Ögmundur Jónasson,
Össur Skarphéðinsson.


    Alþingi ályktar að í þingsal Alþingis skuli vera þjóðfáni Íslendinga.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var áður flutt á 131. og 132. löggjafarþingi. Þá fylgdi því svohljóðandi greinargerð:
    „Við setningu Alþingis, 131. löggjafarþings, 1. október 2004, vakti athygli alþingismanna hve vel hefur til tekist með lagfæringu, lýsingu og endurbætur á þingsal. Glæsilegt form og nálgun þess sem í upphafi var byggt er öllum þeim sem að komu til sóma.
    En hvernig má það vera að innan veggja Alþingis, hvar rætt er um eflingu, vegsemd og gildi þingsins í íslensku þjóðlífi, skuli þjóðfáni vor ekki hafinn til vegs og virðingar?
    „Fáninn er tákn fullveldis vors. Fáninn er ímynd þeirra hugsjóna sem þjóð vor á fegurstar. Hvert stórverk, sem unnið er af oss, eykur veg fánans, hvort sem það er unnið á höfunum, í baráttunni við brim og úfnar öldur eða á svæði framkvæmdanna eða í vísindum og fögrum listum. Því göfugri sem þjóð vor er því göfugri verður fáni vor. Vegur hans og frami er frægð þjóðar vorrar.“ (Úr ræðu Sigurðar Eggerz fjármálaráðherra sem gegndi störfum forsætisráðherra 1. desember 1918 þegar Ísland varð fullvalda ríki.)
    Í tengslum við heimsóknir þjóðhöfðingja hingað til lands hafa birst fréttamyndir í sjónvarpi frá viðkomandi landi og þingi þar sem að öllu jöfnu er áberandi þjóðfáni landsins við forsæti eða ræðustól.
    Þess var minnst 17. júní, á þjóðhátíðardegi Íslendinga, að 19. júní ætti hinn fagri íslenski fáni 90 ára afmæli. Hinn 1. júlí sl. voru 124 ár liðin frá því að Alþingi var sett í fyrsta sinn í Alþingishúsinu. Íslendingar státa sig af elsta löggjafarþingi veraldar, eru stoltir af þjóðfána sínum sem í 90 ár hefur af stjórnendum Alþingis þess tíma ekki verið talinn gegn og gildur innan veggja Alþingis.
    Með lögum nr. 67/1998, um breyting á lögum nr. 34 17. júní 1944, um þjóðfána Íslendinga, voru heimildir til að nýta þjóðfánann rýmkaðar. Var það m.a. gert til að aflétta ofverndun íslenska þjóðfánans og stuðla að því að gera hann sýnilegri.
    Alla daga þá Alþingi starfar eru beinar útsendingar sjónvarps frá þingsal og verður ekki annað sagt en að mikil blæbrigði yrðu á sjónvarpsmynd og ásýnd önnur ef þjóðfáni Íslendinga væri sýnilegur við eða nærri forsetastól.
    Flutningsmenn telja það mjög við hæfi að þjóðfáni Íslendinga skipi veglegan sess í þingsal Alþingis. Það yrði hinu háa Alþingi til sóma, sem og þjóðfána vorum til vegs og virðingar.“