Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 43. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 43  —  43. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um störf án staðsetningar á vegum ríkisins.

Flm. Össur Skarphéðinsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Kristján L. Möller,
Þórunn Sveinbjarnardóttir, Jóhann Ársælsson, Margrét Frímannsdóttir.


    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skilgreina öll störf á vegum ríkisins sem unnt er að vinna að mestu eða öllu leyti óháð staðsetningu, m.a. í því skyni að:
          jafna aðstöðu fólks til að sækja um og sinna margvíslegum störfum á vegum hins opinbera,
          auka möguleika fólks af landsbyggðinni til að gegna störfum á vegum ríkisins með því að gera hæfu fólki mögulegt að búa víðar en í sveitarfélagi viðkomandi stofnunar,
          stækka hóp hæfra umsækjanda um störf á vegum ríkisins,
          auka skilvirkni og draga úr kostnaði í opinberum rekstri.
    Tekið verði sérstaklega fram í auglýsingum frá ríkinu þegar störf án staðsetningar eru laus til umsóknar.

Greinargerð.


    Áætlað er að störf hjá stofnunum og fyrirtækjum í eigu ríkisins séu um 25–30 þúsund talsins. Stærstur hluti þessara starfa er í stofnunum á höfuðborgarsvæðinu. Stór hluti þeirra er alfarið eða að mestu leyti unninn í háþróuðum fjarskiptakerfum og því í eðli sínu óháður staðsetningu. Ör tækniþróun leiðir jafnframt til þess að sífellt fjölgar þeim störfum hlutfallslega sem hægt er að vinna fjarri hefðbundinni starfsstöð innan miðstöðva viðkomandi stofnana. Með tiltölulega einföldum hætti mætti því nýta sér þessa þróun til að minnka verulega þann kostnað sem stofnanir og fyrirtæki ríkisins bera af dýru skrifstofuhúsnæði í höfuðborginni, breikka þann hóp hæfra starfsmanna sem ríkið ætti kost á að ráða til starfa og síðast en ekki síst að jafna um leið aðstöðu landsmanna til að starfa hjá hinu opinbera. Flutningsmenn leggja sérstaka áherslu á þann jöfnuð sem framkvæmd þessarar tillögu mundi skapa á milli landsbyggðar og þéttbýlis.
    Ef reiknað er með að 20% ríkisstarfa geti talist óháð staðsetningu og að árleg starfsmannavelta sé 6–7% má gera ráð fyrir að um 300–400 slík störf losni á ári hverju. Á áratug mundu því 3000–4000 störf án staðsetningar losna til umsóknar. Þessi störf ættu að mati flutningsmanna að standa öllum landsmönnum jafnt til boða óháð búsetu. Því er lagt til í þingsályktunartillögu þessari að slík störf verði auðkennd sérstaklega í starfsauglýsingum ríkisins. Flutningsmenn leggja jafnframt áherslu á að fram komi sérstök hvatning til þeirra sem búa fjarri viðkomandi stofnunum, t.d. með því að í auglýsingu segi: „Þetta starf hefur verið skilgreint sem starf óháð staðsetningu. Landsbyggðarfólk er sérstaklega hvatt til að sækja um.“
    Engin nýleg úttekt er til yfir hve mörg störf á vegum ríkisins og stofnana þess mætti í ljósi tækniþróunarinnar skilgreina sem störf án staðsetningar. Flutningsmenn telja ekki ólíklegt að það hlutfall gæti verið mun hærra en 20%. Sömuleiðis er ekki ólíklegt að í kjölfar frumkvæðis í þessa veru af hálfu ríkisins mundu stóru sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu sjá sér hag í að fylgja fordæmi þess. Flutningsmenn árétta sérstaklega að nú þegar hafa nokkur einkafyrirtæki stigið skref í þessa átt með ágætum árangri. Forysta ríkisins á þessu sviði gæti því orðið fleiri einkaaðilum sterk hvatning til hins sama.
    Undanfarin missiri hafa verið gerðar tilraunir til að flytja opinberar stofnanir út á land til að efla þar fjölbreytt atvinnulíf. Þetta hefur gefist afar misjafnlega, stofnanir hafa verið rifnar upp með rótum og óskráð þekking þeirra tapast. Einnig hefur borið á því að mökum starfsmanna stofnana hafi ekki boðist störf við hæfi á hinum nýju slóðum en skilyrði um búsetu hafa eðlilega takmarkað möguleika stofnananna á hæfum umsækjendum. Sú aðferð, sem hér er lögð til í því skyni að jafna möguleika fólks á landsbyggðinni til starfa hjá ríkinu, gjörbreytir þeirri stöðu og opnar nýja möguleika. Hjón verða ekki lengur bundin því að finna vinnu í sama sveitarfélagi og sömuleiðis verður stofnunum gert kleift að velja úr stærri hópi hæfra umsækjenda. Þetta á ekki síður við um þær stofnanir sem staðsettar eru utan stórra þéttbýlisstaða.
    Ljóst er að ungt fólk af landsbyggðinni sem farið hefur í framhaldsnám hefur iðulega þurft að flytja í þéttbýlið til að finna starf við sitt hæfi. Kannanir sýna þó að umtalsverður hluti þess mundi kjósa að lifa og starfa í heimabyggð sinni ef heppileg atvinnutækifæri væru fyrir hendi. Þetta hefur sogað ungt fólk frá heimabyggð til höfuðborgar og einnig leitt til þess að menntunarstig í dreifbýlinu er talsvert lægra en á höfuðborgarsvæðinu. Þessi þróun hefur leitt til enn meiri einhæfni og fábreyttari tækifæra í hinum dreifðu byggðum. Störf án staðsetningar á vegum hins opinbera gætu verið mikilvægt skref í þá átt að snúa þessari þróun við, og gera fólki um leið kleift að njóta lífsgæðanna á landsbyggðinni án þess að glata tækifærum til að gegna mikilvægum, vel launuðum störfum á vegum ríkisins.