Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 60. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 60  —  60. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um einstaklingsmiðaðan framhaldsskóla.

Flm.: Einar Már Sigurðarson, Björgvin G. Sigurðsson, Katrín Júlíusdóttir,


Mörður Árnason, Össur Skarphéðinsson, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að skipa starfshóp til að vinna að tillögum með eftirfarandi að markmiði:
          að tryggja sem best tengsl milli grunn- og framhaldsskóla,
          að nám í framhaldsskóla taki betur mið af þörfum einstaklinganna,
          að skil á milli skólastiga verði nemendum áreynslulítil,
          að hærra hlutfall hvers árgangs skili sér í framhaldsskólann og ljúki þaðan námi.
    Starfshópurinn verði skipaður fulltrúum frá framhaldsskólum, grunnskólum, sveitarfélögum og menntamálaráðuneyti. Starfshópurinn skili tillögum sínum eigi síðar en 1. mars 2007.


Greinargerð.


    Allir geta lært. .Markmið tillögunnar er að nám í framhaldsskólum verði í auknum mæli miðað við þarfir hvers einstaklings. Þær leiðir sem Samfylkingin vill fara til að ná því markmiði eru:
          að fræðsluskylda verði til 18 ára aldurs,
          að minnka sem kostur er skil á milli skólastiga,
          að auka valfrelsi nemenda við samsetningu náms á kostnað kjarnagreina,
          að allar greinar verði jafngildar til lokaprófs, hvort sem um verklegt eða bóklegt nám er að ræða.
.     Skýrt dæmi um þann mikla árangur sem hægt er að ná með einstaklingsmiðun náms og auknu flæði á milli skólastiga er að finna í Hafnarfirði. Þar er unnið að tilraunverkefni til fimm ára sem byggist á samningi við menntamálayfirvöld um sérstaka fjölgreinabraut við Lækjarskóla í Hafnarfirði í samstarfi við Flensborgarskólann og Iðnskólann í Hafnarfirði. Brautin er framhaldsskólabraut við grunnskóla og er framhald af frumgreinanámi skólans. Um er að ræða tveggja ára framhaldsbraut fyrir nemendur sem ekki kjósa að fara hefðbundna leið í framhaldsnámi og hætt er við að flosni upp úr námi. Á brautinni er lögð áhersla á verklegar greinar en nemendur stunda einnig bóklegt nám í samræmi við námskrá framhaldsskóla.
    Þarna er að mati flutningsmanna gott dæmi um aukið flæði á milli skólastiga, valfrelsi nemenda á milli hefðbundinna bóklegra greina og verklegra. Að sníða námið með þessum hætti að þörfum einstaklinganna telja flutningsmenn eina árangursríkustu leiðina til að vinna gegn brottfalli úr skóla. Aðalatriðið er að unnið sé að sömu markmiðum á báðum skólastigum þannig að nemendur fái nám við hæfi og í samfellu og kostnaður og rekstur skólastiga hjá ríki og sveitarfélögum komi ekki í veg fyrir að nemendur fái þjónustu við hæfi.
    Því leggja flutningsmenn ríka áherslu á að frelsi skólanna verði aukið þannig að þeim verði gert kleift að sinna þörfum hvers nemenda. Ef nemandi hefur fundið sig í ákveðnu námi í grunnskóla hafi hann möguleika að halda áfram á sömu leið í framhaldsskóla, þetta á jafnt við þá nemendur sem gengur vel í skóla og hina sem ver gengur.
    Markmiðin eru að:
          Fræðsluskylda verði að 18 ára aldri.
          Framhaldsskólinn verði einstaklingsmiðaðri og öllum aðgengilegur.
          Aðgreiningu á milli skólastiga verði eytt, flæði aukið á milli þeirra og tryggt að hver nemandi fari á þeim hraða sem honum hentar í gegnum skólakerfið.
          Stóraukið val verði hjá nemendum um samsetningu náms og bundinn.kjarni verði aðeins í íslensku, stærðfræði og ensku.
          Allar námsgreinar verði jafn gildar til lokaprófs.
.
Framhaldsskóli fyrir alla.
    Flutningsmenn tillögunnar telja mikilvægt að framhaldskólarnir fái aukið frelsi til að laga sig að þörfum nemenda, t.d. með auknu námsframboði í verk- og listgreinum og að þeim nemendum sem hentar að fara hraðar í gegnum námið sé gert það mögulegt.
    Rannsóknir sýna að drengir virðast eiga sérstaklega erfitt uppdráttar í efri hluta grunnskóla og byrjun framhaldsskóla en m.a. þess vegna eru þeir mun líklegri en stúlkurnar til að hætta í skóla áður en.námslokum er náð. Við þessu þarf að bregðast enda ætti það að vera undantekningarlaus regla að öll börn njóti fræðslu og formlegarar menntunar til a.m.k. 18 ára aldurs. Nauðsynlegt er að ráðast í samræmdar aðgerðir með fræðsluskyldu allra ungmenna til 18 ára aldurs að markmiði.
    Einstaklingsmiðun náms þar sem nemendur og skólar hafa frelsi til að setja saman nám að þörfum hvers nemanda er lausn á margvíslegum vanda innan skólakerfisins og gefur von um betra skólakerfi þar sem þorri hvers árgangs lýkur formlegri menntun í framhaldsskóla.
.
Framhaldsskólinn fluttur til sveitarfélaga.
    Reynslan sýnir að eftir að grunnskólinn var færður til sveitarfélaganna batnaði hann verulega. Hann var kominn þangað sem hann á að vera, þar sem nærþjónustan er og á heima. Tölur undirstrika.þetta en framlög til grunnskóla og leikskóla hafa hækkað verulega á síðustu árum og starfsemi þeirra og þjónusta batnað. Framlög Íslendinga til þessara skólastiga eftir að sveitarfélögin tóku við grunnskólanum eru nú á meðal þeirra hæstu í heimi. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu OECD. Hins vegar eru framlög til háskóla og framhaldsskólastigsins undir meðallagi. Háskólastigið er raunar í 19. sæti á listanum. Því telja flutningsmenn nauðsynlegt að fara sömu leið nú með framhaldsskólann og gert var með grunnskólann fyrir áratug.
    Til að stíga fyrstu skrefin í þessa átt mun Samfylkingin leggja fram frumvarp til breytinga á lögum um framhaldsskóla þess efnis að menntamálaráðuneytinu verði heimilað að gera samninga við sveitarfélög um rekstur framhaldsskóla.