Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 73. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 73  —  73. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um aukna þjónustu við ungbarnafjölskyldur.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir,
Guðrún Ögmundsdóttir, Valdimar L. Friðriksson.


    Alþingi ályktar að fela félagsmálaráðherra í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga að láta kanna hvernig auka megi þjónustu við ungbarnafjölskyldur frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til barn kemst á leikskóla. Sérstaklega verði kannaður kostnaður við að lengja fæðingarorlof í áföngum um sex mánuði og að börn komist á leikskóla við 15 mánaða aldur.
    Skýrsla með kostnaðaráætlun og tillögur um framkvæmd verkefnis verði lögð fyrir Alþingi á haustþingi 2007.

Greinargerð.


    Brýnasta hagsmunamál ungbarnafjölskyldna er að ríki og sveitarfélög vinni að frekari framþróun á uppbyggingu dagvistarúrræða á vegum sveitarfélaga annars vegar og lengra fæðingarorlofi hins vegar. Afar mikilvægt er að þessir aðilar taki upp samvinnu um markmið og leiðir til að náð verði heildarsýn og samfellu í þjónustu við ungbarnafjölskyldur þar sem stefnt verði að því í áföngum að brúa það bil sem myndast hefur frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til börn komast á leikskóla.
    Staðan nú er sú að margir foreldrar eiga í miklum vandræðum með að brúa bilið fyrir dagvistun barna sinna þegar þeir fara aftur á vinnumarkað að loknu fæðingarorlofi, en fæðingarorlof er nú samtals níu mánuðir hjá hjónum og sambýlisfólki en sex mánuðir hjá einstæðum foreldrum. Í stærstu sveitarfélögunum er algengast að börn fái pláss á leikskóla 18 mánaða gömul, þannig að þarna þarf að brúa níu mánaða bil hjá hjónum og sambýlisfólki og tólf mánaða bil hjá einstæðum foreldrum. Þjónusta dagmæðra við þennan aldurshóp og niðurgreiðsla sveitarfélaga á greiðslum foreldra til dagmæðra hefur vissulega veitt foreldrum ómetanlega aðstoð. Engu að síður er það mat flutningsmanna að huga eigi að framtíðarskipulagi þessara mála, sem felast ætti í samvinnu ríkis og sveitarfélaga til að koma til móts við þarfir ungbarnafjölskyldna á tímabilinu frá því að fæðingarorlofi lýkur og þar til leikskóli tekur við. Í fyrsta lagi með því að kanna möguleika á að lengja fæðingarorlof í áföngum um sex mánuði, þannig að það verði samtals 15 mánuðir, og í öðru lagi að börn komist fyrr á leikskóla eða við 15 mánaða aldur, þ.e. þegar fæðingarorlofi lyki.
    Með fæðingarorlofslögunum var stigið stórt skref í málefnum fjölskyldunnar og til að auka jafnrétti milli kynjanna. Jafnvel þótt heimilt sé að veita launalaust leyfi ef foreldrar kjósa að vera lengur með nýfæddu barni sínu en fæðingarorlofslög leyfa, þá hafa fæstir foreldrar efni á því að hverfa af vinnumarkaði strax þegar fæðingarorlofi lýkur. Í VII. kafla laga um fæðingar- og foreldraorlof eru ákvæði um að foreldrar skuli eiga rétt á foreldraorlofi að hámarki í 13 vikur og gert ráð fyrir að heimilt verði að taka það allt þar til barnið nær átta ára aldri. Í lögunum er ekki gert ráð fyrir að foreldraorlofi fylgi réttur til greiðslu launa úr Fæðingarorlofssjóði né að gert sé ráð fyrir að starfsmaður haldi launum meðan á foreldraorlofi stendur. Ekki hefur verið kannað kerfisbundið hve mikið þessi heimild er nýtt en allt bendir til þess að um tiltölulega fá tilfelli sé að ræða, þar sem heimildinni fylgja ekki greiðslur af neinu tagi.
    Nokkur sveitarfélög hafa hugað að þessum málum, bæði með beinum mánaðargreiðslum og lækkun á inntökualdri barna á leikskóla. Flutningsmenn telja varhugavert að innleiða mánaðarlegar greiðslur eða styrki eins og ákveðnir hafa verið af bæjaryfirvöldum í Kópavogi frá lokum fæðingarorlofs þar til barn fær leikskólavist. Það gæti seinkað framþróun fæðingarorlofslaganna og tafið fyrir því að sveitarfélög byggi upp leikskóla fyrir börn yngri en 18 mánaða. Sú leið sem hér er lögð til tryggir meira valfrelsi hjá báðum foreldrum, bæði gagnvart vinnumarkaði og umönnun barna. Heimgreiðslur til foreldra ganga einnig gegn þeim mikilvægu jafnréttissjónarmiðum að báðir foreldrar komi að umönnun barna. Hér er um lágar greiðslur að ræða, t.d. 30 þús. kr. á mánuði í Kópavogi, og þær verða enn lægri þegar greiddur hefur verið af þeim skattur, þannig að þær duga í langflestum tilvikum ekki til að foreldrar geti valið þá leið að vera með börnum sínum heima eða haft möguleika að fara aftur á vinnumarkaðinn eftir að fæðingarorlofi lýkur. Svona lágar greiðslur gætu leitt til þess að það væru fyrst og fremst konurnar sem yrðu heima með börnunum.
    Mikilvægt er að bæði ríki og sveitarfélög fari sameiginlega yfir þá kosti sem fyrir hendi eru í málinu og meti kostnaðaráhrif þeirra en tillaga þessi gengur út á að félagsmálaráðherra láti kanna í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga hvernig auka megi þjónustu við ungbarnafjölskyldur. Bent er á tvær leiðir í því sambandi en fleiri gætu samhliða komið til greina eins og að styrkja og efla dagmæðrakerfið. Auk þess að huga að lengra fæðingarorlofi er brýnt að skoða þá annmarka sem upp hafa komið á núverandi fæðingarorlofslögum en um það hafa þingmenn Samfylkingarinnar flutt sérstakt þingmál.