Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 86. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 86  —  86. mál.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum um tekjuskatt, nr. 90/2003.

Flm.: Jóhanna Sigurðardóttir, Ögmundur Jónasson,


Guðjón A. Kristjánsson, Ágúst Ólafur Ágústsson.


1. gr.

    Við 2. tölul. A-liðar 7. gr. laganna bætist svohljóðandi málsliður: Framlög og styrkir til einstaklinga úr styrktar- og sjúkrasjóðum stéttarfélaga teljast ekki til tekna.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 132. löggjafarþingi en varð ekki útrætt og er því flutt á ný óbreytt.
    Með frumvarpinu er lögð til sú breyting á 7. gr. laga um tekjuskatt að framlög og styrkir til einstaklinga úr styrktar- og sjúkrasjóðum stéttarfélaga teljist ekki til tekna samkvæmt lögunum og verði því skattfrjáls.
    Í svari fjármálaráðherra við fyrirspurn fyrsta flutningsmanns á 132. löggjafarþingi (644. mál) kemur fram að nærri ellefu þúsund einstaklingar hafi greitt samanlagt 263 millj. kr. í tekjuskatt og útsvar af styrkjum úr sjúkra- og styrktarsjóðum stéttarfélaganna árið 2004. Alls námu styrkirnir 852 millj. kr. árið 2004, en veittar voru skattalegar ívilnanir sem námu 122 millj. kr. á grundvelli 65. gr. laga um tekjuskatt, en sú grein heimilar skattyfirvöldum að lækka greiðslur, t.d. vegna skerðingar á gjaldþoli framteljanda vegna veikinda. Forsendur slíkra ívilnana eru þær að viðkomandi sýni fram á að hann hafi orðið fyrir verulegri tekjuskerðingu vegna veikinda sinna og geti ekki séð fyrir sér.
    Einnig kom fram í svari fjármálaráðherra að styrkirnir hafi ætíð verið skattskyldir, en frá 1. júlí 2001 hafi þeir verið staðgreiðsluskyldir, og að með auknum styrkjum stéttarfélaga og betri forskráningu á framtöl hafi skattlagning vegna þeirra aukist hin síðari ár.
    Flutningsmenn telja skattlagninguna óréttláta og telja eðlilegt að sjúkrastyrkirnir séu skattfrjálsir þar sem sjóðirnir séu í raun sameiginlegur sparnaður sem fólk hafi komið sér upp. Þá geti það ekki talist eðlilegt að fólk sé skattlagt vegna greiðslna sem það fær upp í kostnað vegna veikinda. Flutningsmenn benda jafnframt á að ýmis stéttarfélög telja skattlagninguna fráleita, m.a. vegna þess að þeir fjármunir sem þau verja í sjúkrastyrki spara samfélaginu mikinn kostnað.