Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 87. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Prentað upp.

Þskj. 87  —  87. mál.
Flutningsmenn.




Frumvarp til laga



um breytingu á lögum, nr. 66/1995, um grunnskóla.

Flm.: Björgvin G. Sigurðsson, Einar Már Sigurðarson, Mörður Árnason,


Katrín Júlíusdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir,
Helgi Hjörvar, Guðrún Ögmundsdóttir.


    1. gr.

    2. málsl. 1. mgr. 46. gr. laganna fellur brott.

2. gr.

    Lög þessi öðlist gildi 1. janúar 2007.

Greinargerð.


    Með frumvarpi þessu leggja flutningsmenn til að samræmd lokapróf í grunnskólum verði lögð af.
    Samræmd lokapróf í grunnskólum eru að mati flutningsmanna tímaskekkja. Allt of mikil áhersla er lögð á þau í kennslunni og áhrif þeirra á skólastarf og nemendur eru neikvæð. Samfylkingin telur að endurskoða þurfi fyrirkomulag samræmdra lokaprófa í grunnskólum með það að markmiði að leggja þau af. Þess í stað ætti að auka verulega vægi verklegra greina og þeirra greina sem þjálfa börn í mannlegum samskiptum.
    Samræmd lokapróf í mörgum greinum er mikil miðstýring í skólastarfi. Þangað færist meginþungi kennslunnar og skólastarfið snýst í of miklum mæli um samræmdu greinarnar. Aðrar greinar sitja eftir og þar með margir nemendur.
    Prófin skapa álag sem mörg ungmenni ráða illa við eða ekki. Fram hafa komið sláandi dæmi um börn sem hafa ekki ráðið við álagið og hlotið af því mikinn skaða. Börn taka þann óvægna samanburð sem samræmd lokapróf eru mörg hver afar nærri sér enda er um að ræða afgerandi flokkun og röðun á börnum á viðkvæmasta aldri. Sérstaklega kemur þetta illa við viðkvæmari börn með laka félagslega stöðu sem þarf sérstaklega að vernda og halda hlífiskildi yfir.     Bestu nemendurnir og sterkustu einstaklingarnir fara sem betur fer auðveldlega í gegnum þetta ferli. Það eru hin sem bíða skaðann og það eru oft börn sem síðar hætta í framhaldsskóla án þess að ljúka námi og lenda mörg hver utan garðs í lífinu, sum hver af því að menntakerfið veitti þeim ekki þann stuðning sem þurfti. Þarna valda samræmd próf miklu. Aðrar og mildari leiðir eru færar til að kanna árangur barna og skóla en samræmd lokapróf. Þær leiðir ætti að fara.
    Með samræmdu prófunum eru börn flokkuð í hópa eftir árangri. Sum lenda í fyrsta flokki, önnur í öðrum og þriðja. Þannig upplifa börnin þessa flokkun sem svo fylgir þeim út í lífið. Skaðinn er oft umtalsverður og á engan hátt réttlætanlegur í þágu þeirrar miðstýringaráráttu menntamálayfirvalda að allir skuli vera eins.
    Samræmd lokapróf hafa tíðkast lengi en lítið hefur borið á gagnrýnni umræðu um gildi þeirra, tilgang og árangur af notkun þeirra sem mælitækis á færni nemenda þegar þeir ljúka skyldunámi grunnskólans.
    Í rauninni er einn helsti tilgangur samræmdu prófanna að vera eins konar inntökupróf í framhaldsskólana. Sem slík eru þau vafasamt tæki og til eru betri og sanngjarnari leiðir til að velja nemendur í þá skóla. Það er einnig mál framhaldsskólanna sjálfra, rétt eins og það er mál háskólanna að velja og takmarka inn í þá. Í reglugerð nr. 98/2000 er kveðið á um innritun nemenda í framhaldsskóla. Við niðurfellingu samræmdra prófa á lokaári í grunnskóla þarf að breyta þeim ákvæðum reglugerðarinnar sem gerir þær kröfur til nemenda að hafa lokið samræmdum prófum með tiltekinni lágmarkseinkunn. Jafnframt verði felld brott reglugerð nr. 414/2000, sbr. 333/2005, um fyrirkomulag og framkvæmd samræmdra lokaprófa í 10. bekk í grunnskólum.
    Með þessari tillögu leggja flutningsmenn til að aðrar leiðir verði farnar til kanna stöðu og getu nemenda á lokaári grunnskóla í stað samræmdra lokaprófa en sú breyting er eitt af grundvallaratriðum framsækinnar skólastefnu.