Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 277. máls.

Þskj. 287  —  277. mál.



Frumvarp til laga

um opinber innkaup.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1. ÞÁTTUR
Almenn ákvæði.
I. KAFLI
Tilgangur, orðskýringar og gildissvið.
1. gr.
Tilgangur laganna.

    Tilgangur laga þessara er að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu.

2. gr.
Orðskýringar.

    Merking orða í lögum þessum er sem hér segir:
     1.      Almenn fjarskiptaþjónusta: Fjarskiptaþjónusta sem yfirvöld hafa sérstaklega falið einu eða fleiri fjarskipafyrirtækjum að veita.
     2.      Almennt fjarskiptanet: Kerfi fyrir almenn fjarskipti sem gerir kleift að flytja merki milli skilgreindra nettengipunkta með rafþræði, örbylgjum, ljóstækniaðferðum eða öðrum rafsegulaðferðum.
     3.      Almennt útboð: Innkaupaferli þar sem hvaða fyrirtæki sem er getur lagt fram tilboð.
     4.      Bjóðandi: Fyrirtæki sem lagt hefur fram tilboð í útboði, svo sem í almennu eða lokuðu útboði, samningskaupum eða samkeppnisviðræðum.
     5.      Fjarskiptaþjónusta: Þjónusta sem að hluta eða öllu leyti felst í því að beina merkjum um almenna fjarskiptanetið með fjarskiptaaðferðum öðrum en hljóðvarpi eða sjónvarpi.
     6.      Fyrirtæki: Samheiti, notað til einföldunar, yfir verktaka, seljanda vöru og veitanda þjónustu.
     7.      Gagnvirkt innkaupakerfi: Fyllilega rafrænt ferli við algeng innkaup sem mögulegt er að gera á almennum markaði þannig að kröfum kaupanda sé fullnægt, enda sé ferlið tímabundið og, meðan á því stendur, opið öllum fyrirtækum sem fullnægja skilyrðum fyrir þátttöku í kerfinu og lagt hafa fram kynningarboð í samræmi við skilmála.
     8.      Hönnunarsamkeppni: Ferli sem gerir kaupanda kleift að afla áætlunar eða hönnunar, einkum á sviði skipulags lands og bæja, húsagerðarlistar og verkfræði eða gagnavinnslu, sem valin hefur verið af dómnefnd eftir samkeppni sem farið hefur fram með eða án verðlauna.
     9.      Lokað útboð: Innkaupaferli þar sem hvaða fyrirtæki sem er getur sótt um taka þátt í, en þar sem aðeins þau fyrirtæki sem valin hafa verið af kaupanda geta lagt fram tilboð.
     10.      Miðlæg innkaupastofnun: Opinber aðili skv. 3. gr. sem aflar vöru og/eða þjónustu fyrir aðra kaupendur eða gerir verksamninga eða rammasamninga um verk, vörur eða þjónustu ætlaða öðrum kaupendum.
     11.      Nettengipunktur: Allar efnislegar tengingar og tækniforskriftir varðandi aðgang að þeim sem eru hluti af almenna fjarskiptanetinu og nauðsynlegar eru fyrir aðgang og skilvirk fjarskipti um viðkomandi net.
     12.      Opinber aðili eða kaupandi: Ríki, sveitarfélög, stofnanir þeirra og samtök og aðrir opinberir aðilar skv. 3. gr.
     13.      Opinberir samningar: Allir samningar sem falla undir 1. mgr. 4 gr.
     14.      Rafrænar aðferðir: Notkun rafræns búnaðar til að vinna (þar á meðal með stafrænni samþjöppun) og geyma gögn sem eru send, er miðlað og tekið við með rafþræði, útvarpi, ljóstækniaðferðum eða öðrum rafsegulaðferðum.
     15.      Rafrænt uppboð: Endurtekið ferli þar sem ný og lægri verð, og/eða ný verðgildi fyrir ákveðin atriði í tilboðum, eru sett fram með rafrænum hætti, eftir að kaupandi hefur tekið fulla afstöðu til þeirra í upphafi, þannig að unnt er að meta þau með sjálfvirkum aðferðum.
     16.      Rammasamningur: Samningar við einn eða fleiri bjóðendur þar sem magn og umfang samnings er að meira eða minna leyti ótilgreint, en kaupendur, einn eða fleiri, skuldbinda sig til að kaupa af þeim þá vöru, þjónustu eða verk sem samningurinn kveður á um, m.a. hvað varðar gæði, tækni, þjónustu, afhendingartíma og verð á samningstímanum.
     17.      Ritaður eða skriflegur: Hvers konar tjáning sem samanstendur af orðum eða tölum sem lesa má, kalla má fram og miðla, þar á meðal upplýsingar sem miðlað er og varðveittar eru með rafrænum aðferðum.
     18.      Sameiginlegt innkaupaorðasafn (CPV): Tilvísunarflokkunarkerfi sem gildir um opinbera samninga og var samþykkt með reglugerð framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins (EB) nr. 2195/2002 ásamt því sem samræmi við aðrar gildandi skrár var tryggt. Ef upp kemur mismunandi túlkun um gildissvið laga þessara vegna ósamræmis milli þessarar skrár og NACE-skrárinnar, sbr. I. viðauka tilskipunarinnar, eða vegna ósamræmis milli skrárinnar og CPC-skrárinnar, sbr. II. viðauka tilskipunarinnar, skulu NACE-skráin og CPC-skráin hafa forgang.
     19.      Samkeppnisviðræður: Innkaupaferli sem hvaða fyrirtæki sem er getur sótt um að taka þátt í og felst í því að kaupandi stýrir viðræðum við þau fyrirtæki sem valin hafa verið til að taka þátt í ferlinu, allt með það að markmiði að þróa einn eða fleiri valkosti sem mætt geta kröfum hans, enda séu þessar kröfur lagðar til grundvallar þegar umsækjendum er boðið að leggja fram tilboð.
     20.      Samningskaup: Þegar kaupandi ræðir við fyrirtæki sem hann hefur valið samkvæmt fyrirframákveðnu ferli og semur um skilmála samnings við eitt eða fleiri fyrirtæki.
     21.      Sérleyfissamningur um verk: Verksamningur þar sem endurgjald fyrir verk felst annaðhvort eingöngu í rétti til að nýta sér verkið eða í rétti til að nýta sér verkið ásamt fjárgreiðslu frá kaupanda.
     22.      Sérleyfissamningur um þjónustu: Þjónustusamningur þar sem endurgjald fyrir þjónustu felst annaðhvort eingöngu í rétti til að nýta sér þjónustuna eða í rétti til að nýta sér þjónustuna ásamt fjárgreiðslu frá kaupanda.
     23.      Staðall: Forskrift sem samþykkt er af viðurkenndri staðlastofnun og beita má endurtekið og að staðaldri án þess að skylt sé að fara eftir henni. Staðall er opinbert skjal og ætlaður til frjálsra afnota.
     24.      Tilskipunin: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/18/EB um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga frá 31. mars 2004, eins og hún var tekin upp í EES-samninginn með ákvörðum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006 sem birt var 7. september 2006 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandins nr. 44/2006.
     25.      Verksamningar eða opinberir verksamningar: Allir samningar sem falla undir 2. mgr. 4. gr.
     26.      Verktaki, seljandi vöru og veitandi þjónustu: Einstaklingur eða lögaðili, þar á meðal opinberir aðilar, eða hópur slíkra einstaklinga og/eða aðila sem bjóða fram á markaði framkvæmd verks, vöru og/eða þjónustu.
     27.      Vörusamningar eða opinberir vörusamningar: Allir samningar sem falla undir 3. mgr. 4. gr.
     28.      Þátttakandi: Fyrirtæki sem leitar eftir því að taka þátt í lokuðu útboði, samningskaupum eða samkeppnisviðræðum.
     29.      Þjónustusamningar eða opinberir þjónustusamningar: Allir samningar sem falla undir 4. mgr. 4. gr.
     30.      Örútboð: Innkaupaferli þar sem kaupandi leitar, með hæfilegum fyrirvara, skriflegra tilboða meðal tiltekinna rammasamningshafa um skilmála sem ekki hefur verið mælt fyrir um í viðkomandi rammasamningi og lýkur jafnan með samningi við þann bjóðanda sem leggur fram besta tilboðið á grundvelli þeirra valforsendna sem fram koma í útboðsskilmálum rammasamningsins.

3. gr.
Opinberir aðilar sem lögin taka til.

    Lög þessi taka til ríkis, sveitarfélaga, stofnana þeirra og annarra opinberra aðila, sbr. 2. mgr. Lögin taka einnig til samtaka sem þessir aðilar, einn eða fleiri, kunna að hafa með sér.
    Aðili telst opinber ef hann getur borið réttindi og skyldur að lögum og sérstaklega hefur verið stofnað til hans í því skyni að þjóna almannahagsmunum, enda reki hann ekki starfsemi sem jafnað verður til starfsemi einkaaðila, svo sem á sviði viðskipta eða iðnaðar. Auk þess skal eitthvert eftirfarandi atriða eiga við um hann:
     a.      Starfsemi hans er að mestu leyti rekin á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila. Miðað skal við að aðili sé að mestu leyti rekinn á kostnað ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila ef opinber fjármögnun nemur meira en 50% af árlegum rekstrarkostnaði.
     b.      Hann lýtur yfirstjórn ríkis eða sveitarfélaga, stofnana þeirra eða annarra opinberra aðila.
     c.      Hann lýtur sérstakri stjórn sem ríki eða sveitarfélög, stofnanir þeirra eða aðrir opinberir aðilar skipa að meiri hluta.
    Þeir opinberu aðilar sem taldir eru upp í 1. viðbæti ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006, sem birt var 7. september 2006 í EES-viðbæti Stjórnartíðinda ESB nr. 44/2006, skulu allir teljast opinberir aðilar í skilningi þessarar greinar.

4. gr.
Samningar sem lögin taka til.

    Lög þessi taka til skriflegra samninga um fjárhagslegt endurgjald sem einn eða fleiri kaupendur skv. 3. gr. gera við eitt eða fleiri fyrirtæki og hafa að markmiði framkvæmd verks, sölu vara eða veitingu þjónustu í skilningi laganna.
    Til verksamninga teljast samningar sem hafa að markmiði framkvæmd, eða framkvæmd og hönnun, á þeim verkum sem annars vegar greinir í I. viðauka tilskipunarinnar en hins vegar verkum, eða framkvæmd verks, með hvers konar aðferðum sem svara eiga til krafna sem kaupandi hefur sett fram. Með verki í þessum skilningi er átt við afrakstur mannvirkjagerðar eða verkfræðilegra aðferða sem getur, sem slíkur, þjónað efnahagslegu eða tæknilegu hlutverki.
    Til vörusamninga teljast aðrir samningar en ræðir um í 2. mgr. sem hafa að markmiði kaup, leigu eða fjármögnunarleigu, með eða án kaupréttar, á vörum. Samningur sem felur í sér tilfallandi ísetningu eða uppsetningu vöru telst vörusamningur.
    Til þjónustusamninga teljast samningar sem ekki eru verk- eða vörusamningar og hafa að markmiði veitingu þjónustu sem tilgreind er í II. viðauka tilskipunarinnar. Ef samningur nær bæði til kaupa á vöru og þjónustu í skilningi II. viðauka tilskipunarinnar skal hann teljast þjónustusamningur ef sá þáttur samningsins sem lýtur að þjónustu nemur hærri fjárhæð en vöruþátturinn. Samningur sem hefur að markmiði veitingu þjónustu í skilningi II. viðauka tilskipunarinnar og felur í sér tilfallandi verk í skilningi I. viðauka tilskipunarinnar, með hliðsjón af meginmarkmiði samningsins, skal teljast þjónustusamningur.

5. gr.
Samningar á sviði varnarmála.

    Lög þessi gilda um samninga á sviði varnarmála skv. 123. gr. samningsins um Evrópska efnahagssvæðið ef ekki er kveðið á um annað í lögum.

6. gr.
Samningar sem sérstaklega eru undanskildir gildissviði laganna.

    Lögin taka ekki til þjónustusamninga er varða:
     a.      Kaup eða leigu, gegn hvers konar fjárhagslegu endurgjaldi, á jörð, byggingum sem þegar hafa verið reistar eða öðrum fasteignum eða réttindum yfir þeim. Samningar um fjármálaþjónustu sem gerðir eru fyrir, eftir eða samhliða samningnum um kaup eða leigu á fasteign falla þó undir gildissvið laganna.
     b.      Kaup, þróun og framleiðslu á dagskrárefni fyrir útvarp og sjónvarp eða samninga um útsendingartíma.
     c.      Gerðardóma og sáttameðferðir.
     d.      Fjármálaþjónustu í tengslum við útgáfu, sölu, kaup eða aðilaskipti að verðbréfum eða öðrum sambærilegum gögnum og þjónustu seðlabanka.
     e.      Vinnusamninga.
     f.      Rannsókn og þróun á þjónustu, að frátöldum samningum þar sem kaupendur bera allan kostnað af þjónustunni og hafa einkarétt á að njóta góðs af árangrinum í starfsemi sinni.
    Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki hagi innkaupum sínum samkvæmt lögum þessum einnig við gerð þeirra samninga sem greinir í 1. mgr.

7. gr.
Samningar stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu.

    Lögin taka ekki til samninga sem undanþegnir eru tilskipun nr. 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu, sbr. 3.–7. gr. þeirrar tilskipunar, eins og hún hefur verið tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæði, sbr. ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006, sem birt var 7. september 2006 í EES-viðbæti Stjórnartíðinda ESB nr. 44/2006, sbr. 2. mgr. 5. gr., 19. gr., 26. gr. og 30. gr. þeirrar tilskipunar.
    Ákvæði XIV. og XV. kafla laga þessara gilda um samninga sem þeir kaupendur gera sem reka eina eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi sem um getur í 3.–7. gr. þeirrar tilskipunar sem um ræðir í 1. mgr. og eru gerðir vegna reksturs þeirrar starfsemi. Að öðru leyti taka lögin ekki til innkaupa þessara aðila.
    Ráðherra skal í reglugerð mæla fyrir um innkaup þeirra aðila sem greinir í 1. mgr., til samræmis við skuldbindingar íslenska ríkisins á sviði opinberra innkaupa samkvæmt samningnum um Evrópska efnahagssvæðið og öðrum milliríkjasamningum.

8. gr.
Samningar á sviði fjarskipta.

    Lögin taka ekki til samninga sem hafa það að meginmarkmiði að stofna til eða reka almennt fjarskiptanet eða sjá almenningi fyrir einni eða fleiri fjarskiptaþjónustu.

9. gr.
Leynilegir samningar og samningar sem krefjast sérstakra öryggisráðstafana.

    Lögin taka ekki til samninga sem lýstir eru leynilegir eða ef sérstökum öryggisráðstöfunum verður að beita við framkvæmd þeirra í samræmi við gildandi lög og stjórnvaldsfyrirmæli eða ef grundvallarhagsmunir ríkisins krefjast þess.

10. gr.
Samningar sem gerðir eru á grundvelli milliríkjasamninga.

    Lögin taka ekki til samninga sem lúta öðrum reglum um opinber innkaup og gerðir eru á grundvelli milliríkjasamnings íslenska ríkisins við eitt eða fleiri ríki utan Evrópska efnahagssvæðisins, eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu, um kaup á vörum eða verkum til sameiginlegra framkvæmda eða hagnýtingar verka ríkjanna eða kaup á þjónustu sem ætluð er til sameiginlegra framkvæmda eða hagnýtingar áætlunar ríkjanna, enda sé slíkur samningur tilkynntur Eftirlitsstofnun EFTA.
    Lögin taka ekki til samninga á grundvelli milliríkjasamnings um setu herliðs þegar í hlut eiga fyrirtæki með staðfestu á Evrópska efnahagssvæðinu eða í öðrum ríkjum.
    Lögin taka ekki til samninga sem gerðir eru samkvæmt sérstökum reglum alþjóðlegra stofnana um innkaup.

11. gr.
Sérleyfissamningar um þjónustu.

    Að undanskilinni 14. gr. laganna gilda þau ekki um sérleyfissamninga um þjónustu. Ráðherra er þó heimilt með reglugerð að setja reglur um gerð sérleyfissamninga um þjónustu að því er varðar ríkið og ríkisstofnanir.

12. gr.
Samningar sem gerðir eru á grundvelli einkaréttar.

    Lögin taka ekki til þjónustusamninga sem gerðir eru við aðila eða félag aðila sem sjálfir teljast kaupendur eða á grundvelli einkaréttar sem þeir njóta samkvæmt lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum sem eru í samræmi við reglur samningsins um Evrópska efnahagssvæðið.

13. gr.
Kostnaðarþátttaka opinberra aðila.

    Fylgja skal ákvæðum laga þessara við gerð samninga að jafnvirði 6.242.000 evra eða meira, án virðisaukaskatts, sem kaupendur niðurgreiða meira en 50% þegar um er að ræða samninga um húsbyggingar og aðra mannvirkjagerð í skilningi I. viðauka tilskipunarinnar og einnig þegar samningur felur í sér byggingarframkvæmdir fyrir sjúkrahús, íþrótta- og tómstundaiðkun, skóla og háskóla og opinbera stjórnsýslu.
    Þegar um er að ræða þjónustusamninga að jafnvirði 249.000 evra eða meira, án virðisaukaskatts, sem kaupendur niðurgreiða meira en 50% og tengjast verksamningi sem fellur undir 1. mgr. skal einnig fylgja ákvæðum laga þessara.
    Hlutaðeigandi opinber aðili skal tryggja að farið sé að lögum þessum þegar annar aðili gerir samning sem fellur undir 1. eða 2. mgr. Sama á við ef opinber aðili gerir samning fyrir hönd slíks aðila eða hefur umsjón með gerð samnings.

II. KAFLI
Almennar reglur.
14. gr.
Jafnræði fyrirtækja við gerð samninga.

    Gæta skal jafnræðis og gagnsæis við opinber innkaup. Óheimilt er að mismuna fyrirtækjum á grundvelli þjóðernis eða af öðrum sambærilegum ástæðum.
    Það telst ekki andstætt jafnræði að áskilja að vara sé afhent, þjónusta veitt eða verk unnið á tilteknum stað, enda byggist slíkur áskilnaður á málefnalegum ástæðum.

15. gr.
Þeir sem njóta réttar samkvæmt lögunum.

    Réttar samkvæmt lögum þessum njóta fyrirtæki með staðfestu í einhverju ríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu. Þessi fyrirtæki skulu þó aldrei njóta lakari réttar en fyrirtæki frá öðrum ríkjum. Réttar samkvæmt lögum þessum njóta einnig fyrirtæki frá öðrum ríkjum að því marki sem þau eiga að njóta slíkra réttinda á grundvelli milliríkjasamnings sem íslenska ríkið hefur gert.
    Í reglugerð er heimilt að setja reglur til innleiðingar samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup og annarra milliríkjasamninga um opinber innkaup sem íslenska ríkið kann að gerast aðili að.

16. gr.
Bann við mismunun við veitingu sérréttar.

    Ef öðrum aðila en kaupanda í skilningi laga þessara er veittur sér- eða einkaréttur til að veita opinbera þjónustu skal tryggja með þeirri athöfn sem kveður á um réttinn, svo sem í viðkomandi lögum, stjórnvaldsfyrirmælum eða stjórnsýslusamningi, að aðilinn virði regluna um bann við mismunun á grundvelli þjóðernis við gerð vörusamninga í tengslum við starfsrækslu þjónustunnar.

17. gr.
Trúnaðarskylda.

    Kaupanda er óheimilt að láta af hendi upplýsingar sem fyrirtæki hefur lagt fram sem trúnaðarupplýsingar. Til slíkra upplýsinga teljast einkum tækni- og viðskiptaleyndarmál auk þeirra atriða í tilboði sem leynt skulu fara.
    Ákvæði 1. mgr. á ekki við ef annað leiðir af fyrirmælum laganna, sbr. einkum þau ákvæði sem kveða á um skyldu til að birta opinberlega tilkynningu um gerð samnings á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 4. mgr. 35. gr. tilskipunarinnar, og upplýsa þátttakendur og bjóðendur um tiltekin atriði, sbr. 41. og 71. gr. tilskipunarinnar, sem og skyldu til að veita kærunefnd útboðsmála upplýsingar, sbr. 5. mgr. 95. gr.
    Ákvæði 1. mgr. hefur ekki áhrif á skyldu opinbers aðila til að leggja fram upplýsingar á grundvelli upplýsingalaga.

18. gr.
Samningar bundnir við ákveðna hópa.

    Heimilt er að takmarka rétt til þátttöku í útboði við verndaða vinnustaði eða miða samning við að framkvæmd samningsins fari fram samkvæmt áætlun um verndaða vinnustaði þar sem flestir starfsmenn eru fatlaðir þannig að þeir geta ekki sinnt starfi á venjulegum vinnumarkaði vegna starfsorkuskerðingar.
    Ef innkaup eru yfir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins, sbr. 3. þátt, skal vísa til 19. gr. tilskipunarinnar í tilkynningu um innkaup.

2. ÞÁTTUR
Opinber innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins.
III. KAFLI
Gildissvið þessa þáttar.
19. gr.

    Ákvæði þessa þáttar taka til opinberra innkaupa undir þeim viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins sem birtar eru í reglugerð skv. 78. gr.
    Ákvæði þessa þáttar taka ekki til innkaupa sveitarfélaga, stofnana þeirra, annarra opinberra aðila á þeirra vegum, sbr. 2. mgr. 3. gr., eða samtaka sem þessir aðilar kunna að hafa með sér. Ákvæði þessa þáttar taka ekki til gerðar sérleyfissamninga undir þeim viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins sem birtar eru í reglugerð skv. 78. gr. Ráðherra er þó heimilt í reglugerð að setja reglur um gerð sérleyfissamninga undir þessum viðmiðunarfjárhæðum, m.a. ákveða að þá skuli gera að undangengnu tilteknu innkaupaferli. Um gerð sérleyfissamninga yfir framangreindum viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins gilda ákvæði 80. gr. og þær reglur sem þar er vísað til.
    Um framkvæmd hönnunarsamkeppni gilda ákvæði 37. gr.

IV. KAFLI
Innlendar viðmiðunarfjárhæðir.
20. gr.
Viðmiðunarfjárhæðir.

    Öll innkaup á vörum yfir 5.000.000 kr. og kaup á þjónustu og verkum yfir 10.000.000 kr. skal bjóða út eða gera í samræmi við þau innkaupaferli sem nánar er kveðið á um í V. kafla.
    Fjárhæðir skv. 1. mgr. skulu breytast annað hvert ár í samræmi við breytingar á vísitölu neysluverðs, í fyrsta sinn 1. janúar 2009. Heimilt skal að færa fjárhæðir þessar upp þannig að þær standi á heilu þúsundi. Ráðherra skal með hæfilegum fyrirvara auglýsa opinberlega þær breytingar sem verða á viðmiðunarfjárhæðum samkvæmt þessari grein.

21. gr.
Þjónusta sem undanskilin er útboðsskyldu.

    Samninga um kaup á þjónustu sem tilgreind er í I. viðauka B tilskipunarinnar er ekki skylt að bjóða út eða gera í samræmi við þau innkaupaferli sem kveðið er á um í V. kafla laganna. Við kaup á þessari þjónustu skal þó ávallt gæta jafnræðisreglu 14. gr. svo og ákvæða 40. gr. um tækniforskriftir.
    Nú hefur samningur það að markmiði að afla þjónustu sem tilgreind er bæði í I. viðauka B tilskipunarinnar og í I. viðauka A tilskipunarinnar og er þá skylt að fylgja ákvæðum laga þessara um útboð og aðrar innkaupsaðferðir ef sá þáttur samningsins sem fellur undir I. viðauka A tilskipunarinnar er verðmætari en sá þáttur samningsins sem fellur undir I. viðauka B tilskipunarinnar. Að öðrum kosti er aðeins skylt að gæta ákvæða 40. gr. um tækniforskriftir svo og jafnræðisreglu 14. gr.
    Ráðherra getur með reglugerð ákveðið að ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum sé skylt að bjóða út innkaup sín eða gera þau í samræmi við þau innkaupaferli sem kveðið er á um V. kafla laganna.

22. gr.
Innkaup undir innlendum viðmiðunarfjárhæðum.

    Við innkaup undir þeim viðmiðunarfjárhæðum sem birtar eru í auglýsingu skv. 20. gr. skal kaupandi ávallt gæta hagkvæmni og gera samanburð meðal sem flestra fyrirtækja. Slíkur samanburður skal jafnan gerður bréflega eða með rafrænum hætti. Við þessi innkaup skal virða jafnræðisreglu 14. gr. svo og ákvæði 40. gr. um tækniforskriftir.

23. gr.
Útreikningur virðis samninga, rammasamninga og gagnvirkra innkaupakerfa.

    Við útreikning á áætluðu virði samnings skal miða við þá heildarfjárhæð sem kaupandi kemur til með að greiða fyrir innkaup, að frátöldum virðisaukaskatti. Við þennan útreikning skal taka tillit til heildarfjárhæðar, þar á meðal hvers konar valfrjálsra ákvæða og hugsanlegrar endurnýjunar samnings.
    Ef kaupandi gerir ráð fyrir því að inna af hendi viðbótargreiðslu (bónus) eða greiða þátttakendum eða bjóðendum aukalega skal taka tillit til þess við útreikning á áætluðu virði samnings.
    Útreikningur skal miðast við þann tíma þegar tilkynning er send til opinberrar birtingar eða þegar kaupandi hefst handa við innkaupaferli við þær aðstæður að ekki er skylt að tilkynna opinberlega um innkaup.
    Óheimilt er að skipta upp verki eða innkaupum á vöru og/eða þjónustu í því skyni að innkaup verði undir viðmiðunarfjárhæðum.

24. gr.
Útreikningur virðis verksamninga.

    Við útreikning á áætluðu virði verksamnings skal miða við kostnað við verkið auk verðmætis aðfanga sem kaupandi lætur bjóðanda í té við verkið.

25. gr.
Útreikningur virðis vörusamninga.

    Við útreikning á áætluðu virði vörusamnings skal telja kostnað vegna flutnings vöru með í vöruverði. Ef vara er keypt „frí á skipsfjöl“ (fob) í erlendri höfn skal þó ekki telja flutning með í vöruverði.
    Þegar um er að ræða samninga um fjármögnunarleigu, leigu eða kaupleigu á vörum skal reikna virði með eftirfarandi hætti:
     a.      Þegar samningur er tímabundinn til 12 mánaða eða skemur skal miða við heildarsamningsfjárhæð. Þegar samningur er bundinn til lengri tíma skal miðað við heildarfjárhæð auk virðis varanna við lok samningstímans.
     b.      Þegar samningur er ótímabundinn eða óvíst er hver samningstíminn verður skal miða við heildargreiðslur samkvæmt samningnum í 48 mánuði.

26. gr.
Útreikningur virðis þjónustusamninga.

    Þegar um er að ræða tryggingarþjónustu skal miða virði samnings við fjárhæð iðgjalda og aðra þóknun sem greidd er. Þegar um er að ræða banka- og fjármálaþjónustu skal miða við fjárhæð gjalda, umboðslauna og vaxta auk annarrar þóknunar. Þegar um er að ræða samninga um hönnun skal miðað við fjárhæð gjalda, umboðslauna og aðra þóknun sem greidd er.
    Þegar um er að ræða samninga þar sem heildarfjárhæð er ótilgreind skal reikna virði út með eftirfarandi hætti:
     a.      Þegar samningur er gerður til 48 mánaða eða skemmri tíma skal miða við áætlaða samningsfjárhæð allan gildistíma samningsins.
     b.      Þegar samningur er ótímabundinn eða óvíst er hver samningstíminn verður skal miða við heildargreiðslur samkvæmt samningnum í 48 mánuði.

27. gr.
Innkaup sem skipt er upp.

    Þar sem innkaupum á verki eða þjónustu er skipt upp í fleiri sjálfstæða samninga, sem gerðir eru samtímis, skal miða við samanlagt virði allra samninganna. Sama á við þegar innkaupum á vöru af sömu tegund er skipt upp í fleiri sjálfstæða samninga sem gerðir eru samtímis. Sé samanlagt virði allra samninganna yfir viðmiðunarfjárhæðum skal líta svo á að verðgildi hvers og eins samnings sé einnig yfir viðmiðunarmörkum.
    Þegar heildarvirði samninga sem greinir í 1. mgr. er yfir viðmiðunarfjárhæðum er þrátt fyrir ákvæði málsgreinarinnar heimilt að gera einstaka samninga án útboðs fyrir allt að 20% af samanlagðri heildarfjárhæð samnings.

28. gr.
Útreikningur virðis viðvarandi eða endurnýjanlegra vöru- og þjónustusamninga.

    Þegar um er að ræða viðvarandi samninga eða samninga sem endurnýja á innan tiltekins tíma skal reikna áætlað virði út með eftirfarandi hætti:
     a.      Annaðhvort með hliðsjón af heildarfjárhæð áþekkra samninga á undangengnu fjárhagsári eða síðustu 12 mánuðum að teknu tilliti til breytinga á magni og verði fyrir næstkomandi 12 mánuði.
     b.      Eða með hliðsjón af áætluðum kostnaði fyrir næstu 12 mánuði, eða lengra tímabil ef því er að skipta, frá því að vara eða þjónusta er fyrst innt af hendi.
    Óheimilt er að nota sérstakar aðferðir við útreikning í því skyni að komast hjá útboðsskyldu.

29. gr.
Áætlun virðis rammasamninga og gagnvirkra innkaupakerfa.

    Þegar um er að ræða rammasamning eða gagnvirkt innkaupakerfi skal miða virði við heildarfjárhæð allra samninga, án virðisaukaskatts, sem gert er ráð fyrir að gera á gildistíma rammasamnings eða gagnvirks innkaupakerfis.

V. KAFLI
Innkaupaferli.
30. gr.
Meginreglan um almennt eða lokað útboð.

    Í öllum öðrum tilvikum en greinir í 31.–33. gr. skulu innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum 20. gr. fara fram á grundvelli almenns eða lokaðs útboðs samkvæmt nánari reglum VI., VII., VIII. og IX. kafla. Einnig er heimilt að kaupa inn á grundvelli rammasamnings skv. 34. gr. og gagnvirks innkaupakerfis skv. 35. gr. þótt innkaup séu yfir viðmiðunarfjárhæðum.

31. gr.
Samkeppnisviðræður.

    Þegar um er að ræða sérlega flókna samninga og kaupandi telur að notkun almenns eða lokaðs útboðs sé því til fyrirstöðu að unnt sé að gera samning er heimilt að beita ákvæðum þessarar greinar. Um „sérlega flókinn samning“ í skilningi þessarar greinar er að ræða þegar ekki er mögulegt með hlutlægum hætti að skilgreina þau tæknilegu atriði sem fullnægt geta þörfum eða markmiðum kaupanda, sbr. b-, c- og d-lið 3. mgr. 40. gr., og/eða kaupandi getur ekki skilgreint lagalega eða fjárhagslega gerð framkvæmdar. Ákvörðun um gerð samnings skal eingöngu tekin á grundvelli forsendna fyrir vali fjárhagslega hagkvæmasta tilboðs.
    Kaupandi skal birta opinberlega útboðsauglýsingu þar sem fram koma þarfir og kröfur kaupanda, en þessi atriði skal skilgreina nánar í auglýsingunni sjálfri og/eða skýringargögnum.
    Kaupandi hefur viðræður við þátttakendur, sem valdir hafa verið til þátttöku í samræmi við ákvæði VII. kafla og 56. gr., með það fyrir augum að slá föstu með hvaða hætti þörfum hans verður best fullnægt. Í þessum viðræðum er heimilt að ræða öll atriði væntanlegs samnings við útvalda þátttakendur.
    Meðan á viðræðum stendur skal kaupandi tryggja að jafnræðis sé gætt meðal þátttakenda, sérstaklega að þátttakendum sé ekki mismunað með því að veita upplýsingar sem gera stöðu sumra þátttakenda betri en annarra. Kaupanda er óheimilt að upplýsa þátttakanda um lausnir eða aðrar trúnaðarupplýsingar sem annar þátttakandi hefur sett fram, án samþykkis viðkomandi.
    Kaupandi getur ákveðið að ferlið muni fara fram í fleiri áföngum til þess að fækka fjölda þeirra lausna sem fjallað er um. Slík fækkun lausna skal grundvallast á forsendum fyrir vali tilboðs sem settar hafa verið fram í útboðsauglýsingu eða skýringargögnum. Taka skal fram í tilkynningu eða skýringargögnum að þessi háttur kunni að vera hafður á.
    Kaupandi skal halda viðræðum áfram þar til hann hefur afmarkað þá lausn eða þær lausnir sem geta fullnægt þörfum hans, eftir atvikum eftir að hafa borið þær saman, ef það reynist nauðsynlegt.
    Þegar kaupandi hefur lýst því yfir að viðræðum sé lokið og tilkynnt það þátttakendum skal hann gefa þátttakendum kost á að leggja fram endanleg tilboð með hliðsjón af þeirri lausn eða lausnum sem kynntar hafa verið og skýrðar meðan á viðræðum stóð. Þessi tilboð skulu hafa að geyma öll þau atriði sem nauðsynleg eru til að hrinda samningi í framkvæmd. Heimilt er þátttakendum að skýra, skilgreina og laga til tilboð sín eftir beiðni kaupanda. Slíkar skýringar, skilgreiningar og lagfæringar eða viðbótarupplýsingar mega þó ekki fela í sér breytingar á grundvallarþáttum tilboðs, eða tilkynningu til bjóðenda um að gera tilboð, þannig að samkeppni sé raskað eða um mismunun verði að ræða.
    Kaupandi skal meta tilboð á grundvelli þeirra forsendna fyrir vali tilboðs sem fram komu í upphaflegri útboðsauglýsingu eða skýringargögnum og skal velja hagkvæmasta tilboð í samræmi við ákvæði 72. gr. Kaupanda er heimilt að óska eftir því að sá þátttakandi sem átt hefur hagkvæmasta boð skýri atriði í tilboði sínu eða staðfesti tilteknar skuldbindingar sem þar hafa komið fram, enda leiði það ekki til þess að grundvallarþáttum í tilboðinu, eða útboðsauglýsingu, sé breytt þannig að samkeppni sé raskað eða um mismunun verði að ræða.
    Kaupanda er heimilt að kveða á um verðlaun eða greiða þátttakendum fyrir þátttöku sína í viðræðum.

32. gr.
Samningskaup að undangenginni útboðsauglýsingu.

    Ef ekkert lögmætt tilboð berst í almennu eða lokuðu útboði eða samkeppnisviðræðum, öll tilboð eru óaðgengileg eða þátttakendum eða bjóðendum er vísað frá á grundvelli ákvæða VII. kafla er heimilt að viðhafa samningskaup að undangenginni útboðsauglýsingu, enda sé upphaflegum skilmálum útboðsins ekki breytt í verulegum atriðum. Þó þarf ekki að birta útboðsauglýsingu ef öllum þátttakendum eða bjóðendum, sem uppfylltu skilyrði VII. kafla og lögðu fram gild tilboð í áður auglýstu útboði, er boðið að taka þátt í samningskaupum.
    Samningskaup að undangenginni opinberri birtingu útboðsauglýsingar eru einnig heimil í eftirfarandi tilvikum:
     a.      Þegar ómögulegt er að áætla heildarkostnað fyrir fram vegna eðlis verks, þjónustu eða vöru eða áhættu samfara innkaupum sem gera áætlun kostnaðar ómögulega.
     b.      Þegar um er að ræða þjónustu, einkum þjónustu á sviði hugverka eða rannsókna og þróunar, að svo miklu leyti sem ekki er unnt að skilgreina kröfur til hins keypta með það mikilli nákvæmni að mögulegt sé að gera upp á milli tilboða samkvæmt þeim reglum sem gilda í almennu eða lokuðu útboði.
     c.      Þegar um er að ræða verk sem eingöngu eru unnin vegna rannsókna, tilrauna eða þróunar og ekki í ágóðaskyni eða til þess að mæta kostnaði vegna rannsókna og þróunarverkefna.
    Þegar um er að ræða samningskaup sem grundvallast á 1. eða 2. mgr. skal kaupandi ræða við þátttakendur um þau tilboð sem þeir hafa lagt fram með það fyrir augum að laga þau að þeim kröfum sem gerðar eru í tilkynningu, tækniforskriftum og öðrum útboðsgögnum, ef um þau er að ræða, og velja hagkvæmasta tilboð í samræmi við ákvæði 72. gr.
    Meðan á viðræðum stendur skal kaupandi tryggja að jafnræðis sé gætt milli þátttakenda, sérstaklega að þátttakendum sé ekki mismunað með því að veita upplýsingar sem gera stöðu ákveðinna þátttakenda betri en annarra.
    Kaupandi getur ákveðið að samningskaupaferlið muni fara fram í fleiri áföngum til þess að fækka þátttakendum. Slík fækkun skal grundvallast á forsendum fyrir vali tilboðs sem settar hafa verið fram í útboðsauglýsingu eða útboðsskilmálum. Taka skal fram í útboðsauglýsingu eða útboðsskilmálum að þessi háttur kunni að vera hafður á.

33. gr.
Samningskaup án undangenginnar útboðsauglýsingar.

    Samningskaup án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar eru heimil í eftirfarandi tilvikum án tillits til þess hvort um er að ræða innkaup á verki, vöru eða þjónustu:
     a.      Þegar engin tilboð, engin gild tilboð eða engar tilkynningar um þátttöku berast vegna almenns eða lokaðs útboðs, enda sé í endanlegum samningi ekki vikið í verulegum atriðum frá upphaflegum skilmálum útboðsgagna.
     b.      Þegar aðeins eitt fyrirtæki kemur til greina af tæknilegum eða listrænum ástæðum eða sökum þess að um lögverndaðan einkarétt er að ræða.
     c.      Þegar innkaup eru algerlega nauðsynleg vegna aðkallandi neyðarástands sem stafar af ófyrirsjáanlegum atburðum og ekki er unnt að standa við fresti í almennu útboði, lokuðu útboði eða samningskaupum skv. 32. gr. Þær aðstæður sem vísað er til sem aðkallandi neyðarástands mega ekki undir neinum kringumstæðum vera á ábyrgð kaupanda.
    Þegar um er að ræða innkaup á vörum eru samningskaup án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar heimil í eftirfarandi tilvikum:
     a.      Þegar um er að ræða vörur sem eingöngu eru framleiddar vegna rannsókna, tilrauna, athugana eða þróunar. Þetta nær þó ekki til fjöldaframleiðslu sem ætlað er að skila hagnaði eða endurheimta rannsóknar- og þróunarkostnað.
     b.      Þegar um er að ræða viðbótarvörur sem annaðhvort er ætlað að koma að hluta til í stað venjulegra birgða eða búnaðar eða eru aukning á venjulegum birgðum eða búnaði og val á nýjum bjóðanda mundi skuldbinda kaupanda til að kaupa efni sem hefðu aðra tæknilega eiginleika og samræmdust illa eldri tæknibúnaði eða leiddu til óeðlilega mikilla tæknilegra erfiðleika við rekstur og viðhald. Slíkir samningar, svo og endurnýjaðir samningar, skulu að jafnaði ekki gilda lengur en þrjú ár.
     c.      Þegar um er að ræða vörur sem skráðar eru og keyptar í kauphöll.
     d.      Þegar um er að ræða vörur sem eru á sérlega góðum kjörum, annaðhvort frá seljanda sem er að hætta starfsemi eða frá skiptastjóra þrotabús eða fyrirtæki sem er í greiðslustöðvun eða nauðasamningum.
    Þegar um er að ræða innkaup á þjónustu eru samningskaup án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar heimil þegar gera á samning eftir samkeppni um hönnun þar sem kveðið var á um að skylt væri að semja við þá þátttakendur, einn eða fleiri, sem sigruðu í keppninni. Ef um fleiri sigurvegara er að ræða er skylt að bjóða öllum sem sigra í hönnunarsamkeppni að taka þátt í viðræðum.
    Þegar um er að ræða innkaup á verki eða þjónustu eru samningskaup án opinberrar birtingar útboðsauglýsingar heimil í eftirfarandi tilvikum:
     a.      Þegar um er að ræða viðbótarverk eða viðbótarþjónustu sem ekki var gert ráð fyrir í áður umsömdu verki og nauðsynlegt er, vegna áður ófyrirsjáanlegra aðstæðna, að sami aðili sjái um, enda sé ekki unnt að skilja verkið eða þjónustuna frá áður umsömdu verki af tæknilegum og fjárhagslegum ástæðum án stórfelldra vandkvæða fyrir kaupanda. Sama á við ef viðbótarverk eða viðbótarþjónusta er óhjákvæmileg til að ljúka áður umsömdu verki eða þjónustu. Samanlagt verðgildi samninga um viðbótarverk eða viðbótarþjónustu skal ekki nema hærri fjárhæð en helmingi af upphaflegri samningsfjárhæð.
     b.      Þegar um er að ræða nýtt verk eða þjónustu sem felur í sér endurtekningu á sambærilegu verki eða þjónustu og sami kaupandi hefur áður samið um við fyrirtæki í almennu eða lokuðu útboði, enda séu þessi verk eða þjónusta í samræmi við þá upprunalegu áætlun sem upphaflegi samningurinn kvað á um. Þegar útboð fer fram á grundvelli upprunalegrar áætlunar skal taka fram að þessari aðferð við innkaup kunni að verða beitt og skal taka mið af áætluðum kostnaði við þessi verk eða þjónustu þegar viðmiðunarfjárhæð er reiknuð út, sbr. IV. kafla. Þessari innkaupsaðferð má aðeins beita innan þriggja ára frá því að upphaflegur samningur var gerður.

34. gr.
Rammasamningar.

    Rammasamninga skal gera í samræmi við þau innkaupaferli sem mælt er fyrir um í lögum þessum. Val á samningsaðilum í rammasamningsútboði skal grundvallast á forsendum fyrir vali tilboðs, sbr. 72. gr. Í rammasamningi er heimilt að ákveða að kaupendur séu ekki skuldbundnir til að skipta eingöngu við aðila rammasamnings við þau innkaup sem samningur tekur til, enda séu slík frávik tilgreind í útboðsgögnum.
    Við einstök innkaup á grundvelli rammasamnings skal fylgja ákvæðum 3. og 4. mgr. Aðeins er heimilt að gera einstaka samninga á grundvelli rammasamnings við þau fyrirtæki sem upphaflega voru aðilar rammasamnings. Við gerð einstakra samninga á grundvelli rammasamnings er óheimilt að gera verulegar breytingar á skilmálum rammasamnings, einkum þegar um er að ræða rammasamning sem um ræðir í 4. mgr.
    Gildistími rammasamnings má ekki vera lengri en fjögur ár nema í undantekningartilvikum sem helgast af málefnalegum ástæðum, einkum þeim sem tengjast efni rammasamningsins. Kaupanda er óheimilt að misnota rammasamning eða nota hann til að koma í veg fyrir, takmarka eða hindra samkeppni.
    Ef rammasamningur er gerður við eitt fyrirtæki skulu einstakir samningar á grundvelli rammasamnings rúmast innan skilmála rammasamningsins. Við gerð einstakra samninga er kaupanda heimilt að ráðfæra sig skriflega við rammasamningshafa og óska eftir viðbótum við tilboð hans ef það er nauðsynlegt.
    Ef rammasamningur er gerður við fleiri en eitt fyrirtæki skulu rammasamningshafar vera a.m.k. þrír, enda séu fyrir hendi nægilega mörg fyrirtæki í rammasamningsútboði sem fullnægja hæfisskilyrðum og/eða tilboð sem fullnægja skilmálum rammasamningsútboðsins.
    Ef skilmálar rammasamnings eru ákveðnir er heimilt að gera einstaka samninga við rammasamningshafa í samræmi við ákvæði rammasamnings. Ef skilmálar rammasamnings eru að einhverju leyti óákveðnir skal fara fram örútboð milli rammasamningshafa, eftir atvikum eftir að skilmálar eða tæknilegar kröfur hafa verið skýrðar nánar, allt í samræmi við eftirfarandi reglur:
     a.      Við gerð hvers einstaks samnings skal kaupandi ráðfæra sig skriflega við þá rammasamningshafa sem efnt gætu samninginn.
     b.      Kaupandi skal ákveða tilboðsfrest sem er nægilega langur til að rammasamningshafar geti gert tilboð vegna þess samnings sem um er ræða. Við mat á lengd frests skal taka tillit til hversu flókið efni samningsins er svo og sendingartíma.
     c.      Tilboð rammasamningshafa skulu vera skrifleg og efni þeirra skal vera trúnaðarmál þar til tilboðsfrestur hefur runnið út.
     d.      Kaupandi skal velja á milli tilboða rammasamningshafa á grundvelli valforsendna sem fram hafa komið í skilmálum rammasamnings.

35. gr.
Gagnvirk innkaupakerfi.

    Gagnvirku innkaupakerfi skal einungis koma á fót að undangengnu almennu útboði í samræmi við þær reglur sem um slík útboð gilda. Allir bjóðendur sem fullnægt hafa skilyrðum skv. VII. kafla og sett hafa fram kynningarboð í samræmi við útboðsskilmála og önnur hugsanleg útboðsgögn skulu eiga rétt á aðild að gagnvirku innkaupakerfi. Lagfæra má kynningarboð hvenær sem er, enda fullnægi það útboðsskilmálum. Þegar gagnvirku innkaupakerfi er komið á fót skal eingöngu stuðst við rafrænar aðferðir í samræmi við 2.–5. mgr. 68. gr.
    Þegar gagnvirku innkaupakerfi er komið á fót skal kaupandi:
     a.      Birta opinberlega útboðsauglýsingu þar sem fram kemur að um gagnvirkt innkaupakerfi sé að ræða.
     b.      Tilgreina m.a. í útboðsskilmálum eðli innkaupa samkvæmt kerfinu auk nauðsynlegra upplýsinga um kerfið, þann rafræna búnað sem nota á ásamt tæknilegu fyrirkomulagi varðandi tengingu við kerfið og tækniforskriftir í því sambandi.
     c.      Veita með rafrænum hætti ótakmarkaðan, beinan og fullan aðgang að útboðsskilmálum og öðrum hugsanlegum útboðsgögnum frá og með birtingu útboðsauglýsingar til og með þess tíma er kerfið fellur úr gildi. Kaupandi skal í tilkynningu tilgreina vefslóð þar sem hægt er að nálgast umrædd gögn.
    Meðan á gildistíma gagnvirks innkaupakerfis stendur skal kaupandi gefa öllum fyrirtækjum kost á að setja fram kynningarboð og fá aðgang að innkaupakerfi með þeim skilyrðum sem um ræðir í 1. mgr. Kaupandi skal hafa tekið afstöðu til bjóðanda innan 15 daga frá því að kynningarboð var sett fram. Heimilt er að framlengja þennan frest svo framarlega sem engin tilboð berist á sama tíma. Kaupandi skal tilkynna bjóðanda sem sækir um aðild að innkaupakerfi eins fljótt og kostur er um aðild hans að kerfinu eða höfnun á kynningarboði hans.
    Gerð sérhvers samnings í gagnvirku innkaupakerfi skal fara fram á grundvelli tilkynningar þar sem óskað er eftir tilboðum. Áður en endanleg útboðsauglýsing er gefin út skal kaupandi gefa út einfaldaða útboðsauglýsingu þar sem öllum áhugasömum fyrirtækjum er boðið að leggja fram kynningarboð skv. 3. mgr. innan frests sem skal ekki vera skemmri en 15 dagar frá sendingardegi. Kaupandi skal ekki halda útboði áfram fyrr en afstaða hefur verið tekin til allra kynningarboða sem borist hafa innan þessa frests.
    Kaupandi skal gefa öllum bjóðendum sem aðild hafa fengið að gagnvirku innkaupakerfi kost á að leggja fram tilboð vegna tiltekins samnings sem gera á innan kerfisins. Kaupandi skal í þessu skyni tiltaka frest til að leggja fram tilboð. Kaupandi skal grundvalla val tilboðs á hagkvæmasta tilboði samkvæmt forsendum fyrir vali tilboðs sem fram komu í útboðstilkynningu vegna stofnunar innkaupakerfisins. Þessar forsendur má skilgreina nánar í sérstakri útboðsauglýsingu vegna tiltekins samnings.
    Gildistími gagnvirks innkaupakerfis má ekki vera lengri en fjögur ár nema í undantekningartilvikum sem helgast af málefnalegum ástæðum. Kaupanda er óheimilt að misnota gagnvirkt innkaupakerfi eða nota það til að koma í veg fyrir, takmarka eða hindra samkeppni. Ekki er heimilt að heimta gjald vegna umsókna um aðild að innkaupakerfi eða aðildar að því.

36. gr.
Samningar um hönnun og byggingu félagslegs húsnæðis á vegum hins opinbera.

    Þegar um er að ræða hönnun og byggingu félagslegs húsnæðis, þar sem umfang, tími og eðli verksins gerir það nauðsynlegt að skipulagning sé frá upphafi byggð á nánu samstarfi innan verkefnahóps, sem í eiga sæti fulltrúar hins opinbera, sérfræðingar og verktakar, er heimilt að velja bjóðanda samkvæmt sérstöku útboðsferli sem hafi það að markmiði að sá sem best fellur inn í verkefnahópinn verði fyrir valinu.
    Kaupandi skal setja fram lýsingu á verki í útboðsauglýsingu með eins nákvæmum hætti og unnt er með það fyrir augum að áhugasöm fyrirtæki geti gert sér raunhæfa hugmynd um framkvæmdina. Jafnframt skal kaupandi, í samræmi við ákvæði VII. kafla um val á bjóðendum, setja fram kröfur um persónulegt, tæknilegt, efnahagslegt og fjárhagslegt hæfi þátttakenda.

37. gr.
Tilhögun hönnunarsamkeppni.

    Ákvæði þessarar greinar gilda um hönnunarsamkeppni þar sem samanlagt virði verðlauna og/eða annarra greiðslna til þátttakanda er yfir viðmiðunarfjárhæðum vegna þjónustukaupa skv. 20. gr.
    Þegar hönnunarsamkeppni er haldin sem liður í kaupum á þjónustu skal taka tillit til heildarvirðis samnings, án virðisaukaskatts, auk þeirra greiðslna sem um ræðir í 1. mgr. Þegar hönnunarsamkeppni er haldin og kaupandi hefur ekki afsalað sér heimild til að gera þjónustusamning með samningskaupum skv. a-lið 2. mgr. 33. gr. að aflokinni hönnunarsamkeppni skal einnig taka tillit til heildarvirðis mögulegs þjónustusamnings, án virðisaukaskatts, auk þeirra greiðslna sem um ræðir í 1. mgr. Um hönnunarsamkeppni yfir viðmiðunarfjárhæðum, sem fram koma í reglugerð skv. 78. gr., fer skv. 81. gr. og þeim reglum sem þar er vísað til.
    Óheimilt er að takmarka aðgang að hönnunarsamkeppni með vísan til þjóðernis eða búsetu á ákveðnu svæði eða einskorða aðgang við annaðhvort lögaðila eða einstaklinga.
    Kaupandi sem hyggst halda hönnunarsamkeppni skal birta opinberlega auglýsingu um hana. Í auglýsingu eða skýringargögnum, sem vísað er til í auglýsingu, skulu koma fram upplýsingar um tilhögun keppninnar, forsendur fyrir vali þátttakenda, ef fjöldi þeirra er takmarkaður, og forsendur fyrir vali áætlunar eða tillögu. Við gerð auglýsingar og birtingu skal að öðru leyti farið eftir reglum um útboðsauglýsingar og birtingu þeirra, eftir því sem við á.
    Tilkynna skal þátttakendum í hönnunarsamkeppni um niðurstöður keppninnar. Ef birting upplýsinga mundi hindra löggæslu, vera andstæð almannahagsmunum eða stofna í hættu lögmætum viðskiptahagsmunum tiltekins fyrirtækis, hvort heldur er einkarekins eða í opinberri eigu, eða gæti hindrað samkeppni milli veitenda þjónustu er ekki skylt að birta upplýsingar.
    Ef ákveðið er að takmarka fjölda þátttakenda í hönnunarsamkeppni við ákveðinn fjölda skal gæta jafnræðis með því setja fram málefnalegar forsendur fyrir vali þátttakenda. Fjöldi þátttakenda skal alltaf vera nægilegur til að tryggja raunhæfa samkeppni.
    Dómnefnd skal aðeins skipuð einstaklingum sem eru óháðir þátttakendum í samkeppni. Þar sem tiltekinnar menntunar eða starfshæfni er krafist af þátttakendum skal a.m.k. einn þriðji hluti dómnefndarmanna hafa þá menntun eða sambærilega starfshæfni.
    Dómnefnd skal vera sjálfstæð í ákvörðunum og áliti sínu. Hún skal kanna áætlanir og tillögur, sem þátttakendur leggja fram, eingöngu á grundvelli forsendna sem eru tilgreindar í tilkynningu um samkeppni, sbr. 3. mgr. Dómnefnd skal færa fundargerð, sem allir dómnefndarmenn skulu undirrita, þar sem fram kemur mat á hverri tillögu ásamt athugasemdum eða atriðum sem talin eru þarfnast skýringar. Heimilt er að gefa þátttakendum kost á að svara spurningum sem dómnefnd hefur áður fært til bókar í því skyni að skýra atriði í tillögu. Spurningar dómnefndar og svör þátttakenda skulu koma fram í endanlegri fundargerð dómnefndar.

VI. KAFLI
Útboðsgögn.
38. gr.
Almennir skilmálar.

    Útboðsgögn skulu innihalda allar nauðsynlegar upplýsingar til að bjóðanda sé unnt að gera tilboð. Eftirfarandi atriði skulu koma fram í útboðsgögnum eftir því sem við á:
     a.      Lýsing á útboðinu þar sem kveðið er á um magn og annað sem máli skiptir.
     b.      Nafn kaupanda og allar upplýsingar um samskipti við umsjónaraðila útboðsins.
     c.      Framsetning tilboða.
     d.      Upptalning á útboðsgögnum.
     e.      Tilboðstími og hvar og hvenær tilboð verða opnuð.
     f.      Afhendingar- eða framkvæmdatími.
     g.      Gildistími tilboða.
     h.      Greiðslur, verðbætur og tryggingar ef því er að skipta.
     i.      Gögn til sönnunar á fjárhagslegri og tæknilegri getu sem bjóðandi skal leggja fram eða kann að verða krafinn um, sbr. 49. og 50. gr.
     j.      Meðhöndlun fyrirspurna frá væntanlegum bjóðendum.
     k.      Afhendingarskilmálar.
     l.      Á hvaða tungumáli eða tungumálum skila skuli tilboðum.
     m.      Forsendur fyrir vali tilboða.
     n.      Hvort leyfilegt sé að bjóða í aðeins hluta af fyrirhuguðum innkaupum.
     o.      Hvort frávikstilboð séu heimil og þá hver séu skilyrði fyrir gerð þeirra, þar á meðal hverjar séu þær lágmarkskröfur sem slík tilboð þurfi að fullnægja.
     p.      Frestur kaupanda til að taka tilboði.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari reglur um gerð og frágang útboðsgagna.

39. gr.
Tilboðsblað.

    Tilboðsblað skal vera hluti útboðsgagna og skal það vera þannig úr garði gert að tilboð séu sett fram á sama hátt og þannig samanburðarhæf.
    Ráðherra er heimilt með reglugerð að setja nánari reglur um gerð og frágang tilboðsblaða.

40. gr.
Tækniforskriftir.

    Tækniforskriftir eins og þær eru nánar skilgreindar í 1. lið VI. viðauka tilskipunarinnar skulu koma fram í útboðsgögnum, svo sem útboðsauglýsingu eða útboðsauglýsingu, útboðsskilmálum eða fylgigögnum með þeim. Þar sem því verður við komið skal skilgreina þessar forskriftir þannig að tekið sé tillit til viðmiða um aðgengi fatlaðra eða miðað við hönnun fyrir hvers konar notendur.
    Tækniforskriftir skulu veita bjóðendum jöfn tækifæri. Þær mega ekki leiða til ómálefnalegra hindrana á samkeppni við opinber innkaup.
    Að svo miklu leyti sem annað kemur ekki fram í óundanþægum innlendum reglum, sem eru í samræmi við skuldbindingar íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum, skal kveða á um tækniforskriftir á einhvern eftirgreindan hátt:
     a.      Með tækniforskrift eins og það hugtak er skilgreint í VI. viðauka tilskipunarinnar ásamt tilvísun til einhvers af eftirfarandi í þeirri forgangsröð sem hér greinir:
                  1.      innlendra staðla sem fela í sér innleiðingu á evrópskum stöðlum,
                  2.      evrópsks tæknisamþykkis,
                  3.      sameiginlegra tækniforskrifta,
                  4.      alþjóðlegra staðla,
                  5.      annarra tæknilegra tilvísunarkerfa sem evrópskar staðlastofnanir hafa komið á fót.
             Ef framangreind gögn eru ekki fyrir hendi er heimilt að vísa til íslenskra staðla, íslensks tæknisamþykkis eða íslenskra tækniforskrifta sem tengjast hönnun, útreikningi og framkvæmd verks og notkun vöru. Hverri tilvísun skal fylgja orðalagið „eða jafngildur“ eða sambærilegt orðalag.
     b.      Með lýsingu á virkni eða kröfum til hagnýtingar, þar á meðal kröfum til eiginleika sem tengjast umhverfinu. Slík viðmið verða þó að vera nægilega nákvæm til að gera bjóðendum kleift að gera sér grein fyrir efni samnings og gera kaupanda mögulegt að gera upp á milli tilboða.
     c.      Með lýsingu á virkni eða kröfum til hagnýtingar, sbr. b-lið, þó þannig að tækniforskriftir sem fjallað er um í a-lið séu notaðar til að kanna hvort kröfum um þessi atriði sé fullnægt.
     d.      Með því að vísa til forskrifta, sbr. a-lið, um suma eiginleika og með því að vísa til frammistöðu eða krafna til hagnýtingar, sbr. b-lið, um aðra.
    Ef kaupandi nýtir heimild í a-lið 3. mgr. getur hann ekki vísað frá tilboði á þeim grundvelli að vara eða þjónusta sem boðin er fram sé í ósamræmi við tækniforskriftir, enda sýni bjóðandi fram á, með einhverjum viðeigandi hætti, að lausnir hans fullnægi með sambærilegum hætti þeim kröfum sem leitast er við að fullnægja með hlutaðeigandi tækniforskriftum. Sönnun með viðeigandi hætti í framangreindum skilningi gæti falist í tæknilegri lýsingu framleiðanda eða prófunarskýrslu frá viðurkenndri stofnun.
    Ef kaupandi nýtir sér heimild í 3. mgr. til að slá föstum tækniforskriftum með lýsingu á virkni eða kröfum til hagnýtingar getur hann ekki vísað frá tilboði í verk eða þjónustu sem er í samræmi við innlenda staðla sem innleiða evrópska staðla eða í samræmi við evrópskt tæknisamþykki, sameiginlegar tækniforskriftir, alþjóðlegan staðal eða önnur tæknileg tilvísunarkerfi sem evrópskar staðlastofnanir hafa komið á fót, enda fjalli þessar forskriftir um þá virkni eða kröfur um hagnýtingu sem kaupandi hefur slegið fastri. Í tilboði sínu verður bjóðandi að sýna fram á það með viðeigandi hætti, þannig að kaupandi telji það fullnægjandi, að verk, vara eða þjónusta sem er í samræmi við staðal fullnægi kröfum kaupanda um frammistöðu og hagnýtingu. Sönnun með viðeigandi hætti í framangreindum skilningi gæti falist í tæknilegri lýsingu framleiðanda eða prófunarskýrslu frá viðurkenndri stofnun.
    Ef kaupandi gerir kröfu um eiginleika sem tengjast umhverfinu með tilliti til virkni eða krafna til hagnýtingar, sbr. b-lið 3. mgr., getur hann notast við sérstakar tækniforskriftir, eða hluta slíkra forskrifta, sem skilgreindar eru með evrópskum, alþjóðlegum eða innlendum umhverfismerkjum eða öðrum umhverfismerkingum, enda sé eftirfarandi skilyrðum fullnægt:
     a.      Að þessar forskriftir séu til þess fallnar að skilgreina eiginleika vöru eða þjónustu sem er efni samnings.
     b.      Að þær kröfur sem liggja til grundvallar umhverfismerki byggist á vísindalegum upplýsingum.
     c.      Að umhverfismerking sé veitt á grundvelli málsmeðferðar sem allir sem eiga hagsmuna að gæta, svo sem ríkisstofnanir, neytendur, framleiðendur, dreifendur og umhverfissamtök, geta tekið þátt í.
     d.      Að umhverfismerking sé aðgengileg öllum hlutaðeigandi aðilum.
    Kaupandi getur kveðið svo á að gert sé ráð fyrir að vara og þjónusta sem hefur umhverfismerkingu fullnægi tækniforskrift sem fram kemur í útboðsskilmálum. Kaupandi verður þó einnig að taka til greina aðra sönnun um að þessum kröfum sé fullnægt, svo sem tæknilega lýsingu framleiðanda eða prófunarskýrslu frá viðurkenndri stofnun.
    Með viðurkenndum stofnunum í skilningi þessarar greinar er átt við rannsóknar- og kvörðunarstofur og vottunar- og eftirlitsstofnanir sem fullnægja þeim evrópsku stöðlum sem við eiga. Kaupandi skal taka til greina vottorð frá viðurkenndri stofnun í öðru ríki Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríki stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu.
    Tækniforskriftir skulu ekki vísa til sérstakrar gerðar, framleiðanda, sérstakrar vinnslu, vörumerkja, einkaleyfa, tegundar, uppruna eða framleiðslu með þeim afleiðingum að hlutur ákveðinna fyrirtækja er gerður betri en annarra eða ákveðin fyrirtæki eru útilokuð frá þátttöku í opinberum innkaupum, enda helgist slík tilvísun ekki beinlínis af efni samnings. Í undantekningartilvikum er tilvísun sem þessi heimil þegar lýsing á efni samnings er ekki möguleg skv. 3. og 4. mgr., enda fylgi slíkri tilvísun orðalagið „eða jafngildur“ eða sambærilegt orðalag.

41. gr.
Frávikstilboð.

    Ef kaupandi hyggst meta tilboð á grundvelli fjárhagslegrar hagkvæmni, en ekki eingöngu verðs, er kaupanda heimilt að leyfa bjóðendum að gera frávikstilboð.
    Kaupandi skal taka fram í útboðsauglýsingu hvort frávikstilboð eru heimil, sbr. einnig o- lið 38. gr., en að öðrum kosti eru frávikstilboð óheimil. Aðeins frávikstilboð sem fullnægja lágmarkskröfum kaupanda samkvæmt útboðsgögnum, sbr. o-lið 38. gr., er heimilt að taka til umfjöllunar.
    Þegar um er að ræða vöru og þjónustukaup er kaupanda sem hefur leyft frávikstilboð óheimilt að hafna frávikstilboði á þeirri forsendu einni að samningur, ef hann yrði gerður, yrði þjónustusamningur í stað vörusamnings eða vörusamningur í stað þjónustusamnings.

42. gr.
Undirverktaka.

    Heimilt er að krefjast þess í útboðsgögnum að bjóðandi upplýsi hvaða hluta samnings hann hyggst láta þriðja aðila framkvæma sem undirverktaka og hvaða undirverktaka sá aðili hyggst nota. Upplýsingar bjóðanda um undirverktaka skulu ekki hafa áhrif á ábyrgð bjóðanda gagnvart kaupanda.

43. gr.
Skilyrði sem tengjast framkvæmd samnings.

    Kaupanda er heimilt að kveða á um sérstök skilyrði, einkum varðandi félagsleg og umhverfisleg atriði, sem tengjast framkvæmd samnings, enda séu þessi skilyrði í samræmi við reglur EES-samningsins og hafi verið tilgreind í útboðsauglýsingu eða útboðsskilmálum.

44. gr.
Skyldur sem tengjast sköttum, umhverfisvernd, réttindum launþega og vinnuvernd.

    Kaupanda er heimilt að upplýsa í útboðsskilmálum hjá hvaða stofnun eða stofnunum þátttakendur eða bjóðendur geta aflað sér upplýsinga um skyldur sínar varðandi skatta, umhverfisvernd, réttindi launþega og vinnuvernd og önnur skilyrði fyrir starfsemi á Íslandi eða því sveitarfélagi þar sem verk á að vinnast eða þjónustu á að inna af hendi á samningstímanum.
    Kaupandi sem veitt hefur þær upplýsingar sem greinir í 1. mgr. skal óska eftir því við þátttakendur eða bjóðendur að þeir taki fram að þeir hafi tekið tillit til skyldna sinna varðandi réttindi launþega, vinnuvernd og önnur skilyrði fyrir starfsemi á Íslandi eða því sveitarfélagi þar sem verk á að vinnast eða þjónustu á að inna af hendi þegar þeir gerðu tilboð sitt.
    Ákvæði 1. mgr. er ekki því til fyrirstöðu að beitt sé ákvæðum 73. gr. um óeðlilega lág tilboð.

45. gr.
Forsendur kaupanda fyrir vali tilboðs.

    Forsendur fyrir vali tilboðs skulu annaðhvort miðast eingöngu við lægsta verð eða fjárhagslega hagkvæmni frá sjónarhóli kaupanda. Forsendur sem liggja til grundvallar mati á fjárhagslegri hagkvæmni skulu tengjast efni samnings, t.d. gæðum, verði, tæknilegum eiginleikum, útliti, notkunareiginleikum, umhverfislegum eiginleikum, rekstrarkostnaði, rekstrarhagkvæmni, viðhaldsþjónustu, afhendingardegi og afhendingartímabili eða lokum framkvæmdar samnings.
    Í útboðsauglýsingu, útboðsgögnum eða skýringargögnum, eða þegar um er að ræða samkeppnisviðræður, skal tilgreina forsendur fyrir vali tilboðs eins nákvæmlega og framast er unnt. Í forsendum má ekki vísa til annarra atriða en staðreynd verða á grundvelli gagna sem bjóðendur leggja fram eða með öðrum hlutlægum hætti.
    Í þeim gögnum sem greinir í 2. mgr. skal tilgreina hlutfallslegt vægi hvers viðmiðs sem vísað er til sem forsendu fyrir vali tilboðs. Þetta vægi má setja fram sem ákveðið bil með hæfilegum hámarksvikmörkum. Ef ómögulegt er að tilgreina tiltekið vægi forsendna af ástæðum sem hægt er að sýna fram á skal raða forsendum í röð eftir mikilvægi.

VII. KAFLI
Hæfi þátttakenda og bjóðenda í opinberum innkaupum.
46. gr.
Almennar reglur um fyrirtæki.

    Óheimilt er að vísa frá þátttakanda eða bjóðanda með vísan til þess að innlendar reglur áskilji að veitandi þjónustu þurfi að vera annaðhvort einstaklingur eða lögaðili, enda sé þátttakandanum eða bjóðandanum heimilt að veita þá þjónustu sem til stendur að kaupa samkvæmt lögum staðfesturíkis síns. Þegar um er að ræða þjónustusamninga, eða verksamninga ásamt vörusamningum sem fela einnig í sér þjónustu og/eða eftirlit og uppsetningu, er heimilt að krefjast þess af lögaðila að hann tilgreini í tilboði eða þátttökutilkynningu nöfn og starfsmenntun þeirra starfsmanna sem munu sjá um framkvæmd samningsins.
    Fleiri fyrirtækjum er heimilt að standa að tilboði eða þátttökutilkynningu sameiginlega, enda teljast þau þá bera sameiginlega ábyrgð á efndum samnings. Óheimilt er kaupanda að krefjast þess að slíkur hópur fyrirtækja stofni til sérstaks lögákveðins rekstrarforms nema það sé nauðsynlegt fyrir fullnægjandi framkvæmd samnings. Kaupanda er þó heimilt að krefjast þess að eitt fyrirtæki komi fram fyrir hönd hinna við framkvæmd samnings og standi kaupanda öll skil.

47. gr.
Persónulegar aðstæður þátttakanda eða bjóðanda.

    Þátttakandi eða bjóðandi sem hefur verið sakfelldur með endanlegum dómi fyrir eftirtalin afbrot skal útilokaður frá gerð opinbers samnings:
     a.      þátttöku í skipulögðum brotasamtökum,
     b.      spillingu,
     c.      sviksemi,
     d.      peningaþvætti.
Eftir því sem við á skulu kaupendur óska eftir því að þátttakendur eða bjóðendur leggi fram gögn um þau atriði sem greinir í a–d-lið. Hafi kaupandi efasemdir um persónulegar aðstæður þátttakanda eða bjóðanda er honum heimilt að beina fyrirspurn til þar til bærra yfirvalda í því skyni að fá nauðsynlegar upplýsingar um þessi atriði. Ef upplýsingar varða þátttakanda eða bjóðanda frá öðru ríki er heimilt að óska eftir samvinnu við þar til bær yfirvöld í viðkomandi ríki. Með hliðsjón af lögum þess ríkis skal fyrirspurn beinast að einstaklingum og/eða lögaðilum, þar á meðal, ef við á, forstjórum fyrirtækja og hvers konar einstaklingum sem hafa heimild til fyrirsvars, ákvörðunartöku eða stjórnunar viðkomandi þátttakanda eða bjóðanda.
    Heimilt er að útiloka fyrirtæki frá opinberum samningi sem eitthvað af eftirfarandi á við:
     a.      Bú fyrirtækis er undir gjaldþrotaskiptum eða félagi hefur verið slitið, það hefur fengið heimild til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða er í annarri sambærilegri stöðu.
     b.      Óskað hefur verið gjaldþrotaskipta eða slita á fyrirtæki, það hefur leitað heimildar til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða er í annarri sambærilegri stöðu.
     c.      Fyrirtæki hefur með endanlegum dómi verið fundið sekt um refsivert brot í starfi.
     d.      Fyrirtæki hefur sýnt alvarlega vanrækslu í starfi sem kaupanda er unnt að sýna fram á.
     e.      Fyrirtæki er í vanskilum með lífeyrissjóðsiðgjöld eða sambærileg lögákveðin gjöld.
     f.      Fyrirtæki er í vanskilum með opinber gjöld eða sambærileg lögákveðin gjöld.
     g.      Fyrirtæki hefur gefið rangar upplýsingar um fjárhagslega og tæknilega getu sína eða hefur ekki lagt slíkar upplýsingar fram.
Við mat á því hvort a–g-liður á við um fyrirtæki skal litið til þess hvort um sé að ræða sömu rekstrareiningu, með sömu eða nær sömu eigendur í sömu eða nær sömu atvinnustarfsemi á sama markaði, án tillits til þess hvort fyrirtækið hafi skipt um kennitölu eða verið stofnað að nýju. Í þessu skyni er heimilt að kanna viðskiptasögu stjórnenda og helstu eigenda.
    Ef fyrirtæki er krafið um sönnun um þau atriði sem greinir í 1. mgr. eða a-, b-, c-, e- eða f-lið 2. mgr. skal eftirfarandi metið sem fullnægjandi sönnun:
     a.      Að því er varðar skilyrði 1. mgr. og a-, b- og c-liðar 2. mgr., framlagning sakavottorðs, vottorðs dómstóls eða, ef þessi vottorð eru ekki tiltæk, sambærilegs vottorðs frá stjórnvaldi eða dómstóli í uppruna- eða heimaríki viðkomandi fyrirtækis sem sýnir að umræddum skilyrðum sé fullnægt.
     b.      Að því er varðar e- og f-lið 2. mgr., vottorð gefið út af þar til bæru stjórnvaldi í viðkomandi ríki.
    Ef heimaríki fyrirtækis gefur ekki út skjöl eða vottorð sem þessi, eða slík skjöl og vottorð ná ekki yfir öll þau tilvik sem greinir í 1. mgr. og a-, b- og c-lið 2. mgr., skal þess í stað meta fullgildan eið eða drengskaparheit sem bjóðandi hefur unnið um umrædd atriði fyrir dómara eða yfirvaldi, lögbókanda eða þar til bæru fagfélagi í heimaríki sínu.
    Fjármálaráðuneytið skal útbúa skrá yfir þau innlendu stjórnvöld og stofnanir sem bær eru til að gefa út þau skjöl, vottorð eða yfirlýsingar sem um ræðir í 3. mgr. og senda hana Eftirlitsstofnun EFTA. Slík tilkynning skal ekki fara í bága við lög um persónuvernd.

48. gr.
Starfsréttindi.

    Þess má krefjast að innlent fyrirtæki sýni fram á að það sé skráð í fyrirtækjaskrá. Þegar um er að ræða fyrirtæki frá öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkjum stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu má krefjast þess að fyrirtæki sýni fram á fullnægjandi skráningu í heimaríki sínu með eiði eða vottorði skv. IX. viðauka A tilskipunarinnar þegar um er að ræða verksamninga, IX. viðauka B tilskipunarinnar þegar um er að ræða vörusamninga og IX. viðauka C tilskipunarinnar þegar um er að ræða þjónustusamninga.
    Þegar um er að ræða gerð þjónustusamninga og bjóðendur eða þátttakendur þurfa að hafa sérstakt leyfi eða vera meðlimir í tilteknum samtökum til að mega veita hlutaðeigandi þjónustu í heimaríki sínu er heimilt að krefjast þess að þeir sýni fram á að þeir hafi viðeigandi leyfi eða séu félagar í viðeigandi samtökum.

49. gr.
Fjárhagsstaða bjóðanda.

    Fjárhagsstaða fyrirtækis skal vera það trygg að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Ekki skal krefjast frekari gagna um sönnun á fjárhagslegri getu en nauðsynlegt er með hliðsjón af eðli og umfangi fyrirhugaðra innkaupa. Að jafnaði getur fyrirtæki fært sönnur á fjárhagslega getu sína með því að leggja fram eitt eða fleiri eftirfarandi gagna:
     a.      Viðeigandi upplýsingar frá bönkum eða, þar sem það á við, gögn um verktryggingu eða aðra tryggingu fyrir skaðleysi kaupanda af hugsanlegum vanefndum fyrirtækis.
     b.      Endurskoðaða ársreikninga fyrri ára eða útdrátt úr þeim ef krafist er birtingar efnahagsreiknings samkvæmt lögum staðfesturíkis fyrirtækis.
     c.      Yfirlýsingu um heildarveltu fyrirtækis og, eftir því sem við á, hlutdeild þeirrar vöru, þjónustu eða verks sem fellur undir samning, vegna þriggja undangenginna fjárhagsára, þó þannig að taka ber tillit til þess hvenær fyrirtæki var stofnsett eða hvenær það hóf starfsemi og að hvaða marki þessar upplýsingar eru aðgengilegar.
    Fyrirtæki getur, eftir því sem við á og vegna gerðar tiltekins samnings, byggt á fjárhagslegri getu annarra aðila án tillits til lagalegra tengsla fyrirtækisins við þessa aðila. Ef þetta er gert skal fyrirtæki sýna kaupanda fram á að það muni hafa nauðsynlega fjármuni til ráðstöfunar, t.d. með þeim hætti að hlutaðeigandi fyrirtæki stofni sameiginlega sérstakt félag í þessu skyni.
    Með sömu skilyrðum og greinir í 46. gr. geta fleiri fyrirtæki sem standa að þátttökutilkynningu eða tilboði byggt sameiginlega á fjárhagslegri getu þeirra.
    Í útboðsauglýsingu eða útboðsgögnum skal koma fram hvaða gögn skv. 1. mgr. krafist er að fyrirtæki leggi fram eða kunni á síðari stigum að verða beðið um að leggja fram. Einnig skal tilgreina önnur gögn um fjárhagslega getu ef því er að skipta.
    Þegar bjóðandi er ófær um að leggja fram þau gögn sem greinir í 1. mgr. er honum heimilt að sýna fram á fjárhagslega getu sína með öðrum gögnum sem kaupandi telur fullnægjandi.

50. gr.
Tæknileg geta.

    Tæknileg geta fyrirtækis skal vera það trygg að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Eftir því sem nauðsynlegt er vegna eðlis, umfangs, mikilvægis eða ætlaðrar notkunar verks, þjónustu eða vöru getur fyrirtæki fært sönnur á tæknilega getu sína með eftirfarandi gögnum:
     a.      i.    Með lista yfir þau verk sem fyrirtæki hefur annast síðastliðin fimm ár ásamt vottorðum um fullnægjandi efndir stærstu verksamninga þegar um er að ræða innkaup á verki. Í þessum vottorðum skal koma fram virði, dagsetning og staðsetning verks ásamt upplýsingum um hvort verk var unnið fagmannlega og lokið með fullnægjandi hætti. Þar sem við á skal það stjórnvald sem gefur út vottorð senda það milliliðalaust til kaupanda.
             ii.    Með lista yfir helstu vörusendingar eða þjónustu sem veitt hefur verið síðastliðin þrjú ár ásamt upplýsingum um virði vöru eða þjónustu, viðtakendur, hvort sem þeir eru opinberir eða einkaaðilar, þegar um er að ræða innkaup á þjónustu og vörum. Þegar viðtakandi vöru eða þjónustu hefur verið opinber aðili skal sönnun um afhendingu vörunnar eða þjónustunnar gefin með vottorði sem viðkomandi kaupandi gefur út eða staðfestir með áritun sinni. Þegar viðtakandi vöru eða þjónustu hefur verið einkaaðili skal sönnun um afhendingu vörunnar eða þjónustunnar gefin með vottorði viðkomandi einkaaðila eða, ef þetta er ekki unnt, yfirlýsingu fyrirtækisins sjálfs.
     b.      Með tilvísun til þeirra tæknimanna eða tæknilegu aðila, hvort sem þeir heyra beinlínis undir fyrirtæki eða ekki, sem koma munu að framkvæmd samnings, einkum þeirra sem bera ábyrgð á gæðaeftirliti og framkvæmd verks þegar um er að ræða verksamninga.
     c.      Með lýsingu á tæknibúnaði, aðferðum til að tryggja gæði og aðstöðu til athugana og rannsókna.
     d.      Þegar um er að ræða vöru eða þjónustu sem er margbrotin eða sem aflað er í sérstökum tilgangi: með skoðun kaupanda á framleiðslugetu seljanda vöru eða tæknilegri getu veitanda þjónustu ásamt skoðun á rannsóknaraðstöðu og gæðaeftirliti bjóðanda ef nauðsyn ber til. Þar til bær opinber aðili í staðfesturíki fyrirtækis getur annast umrædda skoðun fyrir hönd kaupanda í samræmi við þær reglur sem gilda um slíkan aðila.
     e.      Með upplýsingum um menntun og starfsréttindi þjónustuveitanda eða verktaka og/eða starfsmanna fyrirtækis, einkum þeirra sem bera munu ábyrgð á viðkomandi þjónustu eða vinnu við verk.
     f.      Þegar um er ræða verksamninga og þjónustusamninga í þeim tilvikum þar sem það á við: með upplýsingum um þær umhverfisstjórnunaraðgerðir sem fyrirtæki getur beitt við framkvæmd samnings.
     g.      Með yfirlýsingu um meðalfjölda starfsmanna og fjölda manna í stjórnunarstöðum hjá þjónustuveitanda eða verktaka síðastliðin þrjú ár.
     h.      Með yfirlýsingu um þau tæki, verksmiðju eða tæknibúnað sem þjónustuveitandi eða verktaki hefur aðgang að til framkvæmdar samnings.
     i.      Með upplýsingum um það hlutfall samnings sem þjónustuveitandi eða verktaki hyggst fela öðrum aðila.
     j.      Þegar um er að ræða vöru: með sýnishornum, lýsingum eða ljósmyndum þannig að unnt sé að staðreyna að vara sé fullnægjandi eða með vottun frá opinberri gæðaeftirlitsstofnun eða viðurkenndri stofnun um að vara sé í samræmi við þær tækniforskriftir eða staðla sem vísað hefur verið til.
    Fyrirtæki getur, eftir því sem við á og vegna gerðar tiltekins samnings, byggt á tæknilegri getu annarra aðila án tillits til lagalegra tengsla fyrirtækisins við þessa aðila. Ef þetta er gert skal fyrirtæki sýna kaupanda fram á að það muni hafa aðgang að nauðsynlegri tækni fyrir framkvæmd samningsins, t.d. með þeim hætti að hlutaðeigandi fyrirtæki stofni sameiginlega sérstakt félag í þessu skyni.
    Með sömu skilyrðum og greinir í 46. gr. geta fleiri fyrirtæki sem standa að þátttökutilkynningu eða tilboði byggt sameiginlega á tæknilegri getu þeirra.
    Þegar um er að ræða vörusamninga sem fela í sér ísetningu og uppsetningu, veitingu þjónustu og/eða framkvæmd verks er heimilt að meta sérstaklega getu fyrirtækis til þess að veita þjónustuna, sjá um uppsetninguna eða vinna verkið, einkum með hliðsjón af hæfni, skilvirkni, reynslu og áreiðanleika.
    Í útboðsauglýsingu eða útboðsgögnum skal koma fram hvaða gögn skv. 1. mgr. krafist er að fyrirtæki leggi fram eða kunni á síðari stigum að verða beðið um að leggja fram.

51. gr.
Gæðastaðlar.

    Þar sem kaupandi krefst þess að gefið sé út vottorð af óháðum aðila til staðfestingar á því að fyrirtæki fullnægi ákveðnum gæðavottunarstöðlum skal vísað til evrópskra gæðavottunarkerfa sem grundvallast á viðeigandi evrópskum stöðlum, enda hafi þessir staðlar verið staðfestir af stofnun sem fullnægir skilyrðum evrópskra staðla til slíkrar staðfestingar. Kaupendur skulu taka gild sambærileg vottorð sem gefin eru út af stofnunum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og ríkjum stofnsamnings EFTA. Þeir skulu einnig taka gild önnur gögn, sem fyrirtæki leggur fram, sem veita sambærilega sönnun fyrir því að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar með tilliti til gæðakrafna.

52. gr.
Umhverfisstaðlar.

    Þar sem kaupandi krefst þess að gefið sé út vottorð af óháðum aðila til staðfestingar á því að fyrirtæki fullnægi ákveðnum umhverfisstjórnunarstöðlum, sbr. f-lið 2. mgr. 50. gr., skal vísað til umhverfisstjórnunarkerfis Bandalagsins (EMAS) eða til umhverfisstjórnunarstaðla sem grundvallast á viðeigandi evrópskum eða alþjóðlegum stöðlum, sem staðfestir hafa verið af stofnunum sem samræmast reglum EES-samningsins, eða viðeigandi evrópskum eða alþjóðlegum stöðlum um vottun. Kaupendur skulu taka gild sambærileg vottorð sem gefin eru út af stofnunum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins og ríkjum stofnsamnings EFTA. Þeir skulu einnig taka gild önnur gögn, sem fyrirtæki leggur fram, sem veita sambærilega sönnun fyrir því að fullnægjandi ráðstafanir hafi verið gerðar með tilliti til umhverfisstjórnunar.

53. gr.
Framlagning viðbótargagna og upplýsinga.

    Kaupanda er heimilt að gefa fyrirtæki færi á því að auka við framkomin gögn skv. 47.–52. gr. eða skýra þau á hvaða stigi útboðs sem er.

54. gr.
Opinberir listar um viðurkennd fyrirtæki og vottorð opinberra og einkaréttarlegra stofnana.

    Fyrirtæki, sem skráð eru á opinberum listum yfir viðurkennda verktaka, seljendur eða þjónustuveitendur eða vottuð sem slík af opinberum eða einkaréttarlegum stofnunum í öðrum ríkjum Evrópska efnahagssvæðisins eða ríkjum stofnsamnings EFTA, geta, með staðfestri skráningu á viðkomandi lista eða vottorði, fært sönnur á að eftirfarandi skilyrðum sé fullnægt, enda sé ekki annað leitt í ljós:
     a.      Að fyrirtæki fullnægi skilyrðum 1. mgr. og a-, d- og g-liðar 2. mgr. 47. gr.
     b.      Að fyrirtæki fullnægi skilyrðum 48. gr.
     c.      Að fyrirtæki fullnægi skilyrðum b- og c-liðar 49. gr.
     d.      Að fyrirtæki fullnægi skilyrðum 1. málsl. a-liðar og b-, e- og g-liðar 2. mgr. 50. gr. svo og h-liðar sömu málsgreinar að því er varðar verktaka.
     e.      Að fyrirtæki fullnægi skilyrðum 2. málsl. a-liðar og b-, c-, d- og j-liðar 2. mgr. 50. gr. að því er varðar seljendur vöru.
     f.      Að fyrirtæki fullnægi skilyrðum 2. málsl. a-liðar og c–i-liðar 2. mgr. 50. gr. að því er varðar veitendur þjónustu.
    Óheimilt er að vefengja upplýsingar sem skráning á lista eða vottorð ber með sér án sérstakrar ástæðu. Að því er varðar greiðslu lífeyrissjóðsiðgjalda og skatta má þó hvenær sem er krefjast viðbótarvottorðs af skráðu fyrirtæki.
    Kaupendur skulu beita 1. og 2. mgr. til hagsbóta þeim fyrirtækjum sem staðfestu hafa í einhverju ríki Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu og skráð eru á lista þar.

VIII. KAFLI
Framkvæmd opinberra innkaupa.
55. gr.
Auglýsing útboða.

    Skylt er að auglýsa almennt útboð, þar á meðal almennt rammasamningsútboð, með áberandi hætti þannig að öll áhugasöm fyrirtæki geti tekið þátt í útboði. Í útboðsauglýsingu skulu koma fram nægilega miklar upplýsingar til að fyrirtæki geti tekið afstöðu til þess hvort þau hyggjast taka þátt í útboði.
    Samtímis því, eða eftir að auglýst er, getur kaupandi hvatt tiltekna aðila til þátttöku í útboði. Ekki má þó veita slíkum aðilum aðrar upplýsingar en fram koma í tilkynningu um útboð.

56. gr.
Forval við lokuð útboð, samkeppnisviðræður og samningskaup.

    Við lokað útboð, samkeppnisviðræður og samningskaup að undangenginni opinberri auglýsingu skal velja þátttakendur með forvali í samræmi við ákvæði þessarar greinar.
    Auglýsa skal tilkynningu um forval með áberandi hætti þannig að öll áhugasöm fyrirtæki geti tekið þátt í forvali. Í auglýsingu skulu koma fram nægilega miklar upplýsingar til að fyrirtæki geti tekið afstöðu til þess hvort þau hyggjast taka þátt í forvali og eftirfarandi útboði.
    Í forvali er heimilt að takmarka fjölda þeirra sem valdir eru til að taka þátt í útboði, samkeppnisviðræðum eða samningskaupum, enda hafi nægilega margir þátttakendur tekið þátt í forvali. Í tilkynningu um forval skulu koma fram þau málefnalegu og óhlutdrægu skilyrði eða reglur sem leggja á til grundvallar við val þátttakenda í forvali, lágmarksfjölda þeirra svo og hámarksfjölda þeirra ef það á við.
    Í forvali vegna lokaðs útboðs skulu þátttakendur sem valdir eru til að leggja fram tilboð ekki vera færri en fimm. Í forvali vegna samningskaupa eftir opinbera birtingu útboðsauglýsingar og vegna samkeppnisviðræðna skulu þátttakendur ekki vera færri en þrír. Fjöldi þátttakenda sem valdir eru skal ætíð vera nægilegur til að tryggja raunverulega samkeppni.
    Kaupandi skal gefa a.m.k. jafnmörgum þátttakendum kost á að taka þátt í útboði og svarar til þess lágmarksfjölda sem hann hefur áður tiltekið. Ef ekki er fyrir hendi nægjanlegur fjöldi þátttakenda sem fullnægir skilyrðum forvals til að vera valinn, eða ekki er fyrir hendi nægjanlegur fjöldi þátttakenda sem fullnægir kröfum um getu, er kaupanda heimilt að halda útboði áfram með því að gefa þeim sem fullnægðu þessum kröfum kost á að taka þátt í útboði. Ekki er heimilt að gefa fyrirtækjum sem ekki tóku þátt í forvali kost á að taka þátt í útboði á þessu stigi. Sama á við um þá þátttakendur sem ekki fullnægðu kröfum um hæfi.
    Þegar kaupendur nýta sér heimildir til að fækka tilboðum eða fjölda þátttakenda í samkeppnisviðræðum eða samningskaupum að undangenginni opinberri birtingu tilkynningar, sbr. 31. og 32. gr., skal ákvörðun um slíkt grundvallast á valforsendum sem fram hafa komið í útboðsauglýsingu, skilmálum eða skýringargögnum. Á lokastigi slíkra innkaupa skal fjöldi þátttakenda vera nægilega mikill til að tryggja raunhæfa samkeppni að svo miklu leyti sem um nægilegan fjölda tilboða eða hæfra þátttakenda er að ræða.

57. gr.
Frestur til að skila tilboðum.

    Tilboðstími skal vera nægjanlega langur til að bjóðendur geti undirbúið tilboð.

58. gr.
Frestur í almennu útboði.

    Frestur til að leggja fram tilboð í almennu útboði skal vera minnst fimmtán almanaksdagar. Frestur reiknast frá deginum eftir að útboðsauglýsing er birt að meðtöldum opnunardegi. Allir almanaksdagar eru taldir með.

59. gr.
Frestir í lokuðu útboði, samkeppnisviðræðum og samningskaupum.

    Frestur til að skila þátttökubeiðnum í forvali vegna lokaðs útboðs, samkeppnisviðræðna eða samningskaupa að undangenginni opinberri birtingu útboðsauglýsingar skal vera minnst fimmtán almanaksdagar. Frestur reiknast frá deginum eftir að útboðsauglýsing er birt að meðtöldum opnunardegi.
    Þeim sem valdir hafa verið í forvali vegna lokaðs útboðs skal gefa minnst tíu almanaksdaga frest til að leggja fram tilboð. Frestur reiknast frá þeim degi þegar útboðsgögn eru send út. Að öðru leyti gilda sömu reglur um ákvörðun frests og við almenn útboð.

60. gr.
Hraðútboð.

    Ef nauðsynlegt er að hraða útboði af ástæðum sem kaupanda verður ekki um kennt er heimilt að víkja frá þeim frestum sem greinir í 58. og 59. gr. Frestur til að skila tilboðum skal þó aldrei vera skemmri en sjö almanaksdagar frá birtingu auglýsingar.

61. gr.
Afhending gagna.

    Útboðsgögn skulu vera tilbúin til afhendingar innan þriggja daga frá birtingu útboðsauglýsingar.

62. gr.
Vettvangsskoðun.

    Ef ekki er unnt að gera tilboð án þess að bjóðendur eða þátttakendur skoði vettvang, eða ef boðið er upp á vettvangsskoðun, skal lengja tilboðsfrest sem nemur eðlilegum tíma til vettvangsskoðunar ef þess er óskað af bjóðendum eða þátttakendum.

63. gr.
Fyrirspurnir og athugasemdir á tilboðstíma.

    Ef óskað er eftir ítarlegri gögnum eða nánari skilgreiningu á útboðsgögnum eða öðrum gögnum tengdu útboði skal fyrirspurn vera komin til kaupanda eða umsjónarmanns útboðs, ef um hann er að ræða, eigi síðar en sjö almanaksdögum áður en tilboðsfrestur rennur út.
    Telji kaupandi tilefni til að senda ný gögn eða svara fyrirspurn skv. 1. mgr. skal senda gögnin eða fyrirspurnina ásamt svörum við henni til allra sem hafa óskað eftir og fengið send útboðsgögn. Ný gögn eða skýringar skulu vera komin til bjóðenda eða þátttakenda eigi síðar en fjórum almanaksdögum áður en tilboðsfrestur rennur út.
    Allar fyrirspurnir, athugasemdir við útboð og tilkynningar skulu vera skriflegar, sbr. þó 68. gr.

64. gr.
Tilboð afturkölluð.

    Bjóðandi getur afturkallað tilboð sitt áður en tilboð eru opnuð, enda sé það gert skriflega eða með öðrum jafntryggum hætti.

65. gr.
Opnun tilboða frestað.

    Þurfi að fresta opnun tilboða skal það gert með að minnsta kosti fjögurra almanaksdaga fyrirvara. Séu færri en fjórir dagar fram að opnun er óheimilt að boða frestun heldur skal haldinn opnunarfundur og skráð hverjir skila inn tilboði, án þess að opna tilboðin. Þeim sem skiluðu tilboði verður einum boðin áframhaldandi þátttaka.

66. gr.
Afhending tilboða.

    Skriflegum tilboðum skal skilað í lokuðu umslagi og þarf nafn og aðsetur bjóðanda að koma fram á umslaginu ásamt heiti útboðs og númeri ef því er að skipta. Um tilboð sem gerð eru með rafrænum aðferðum fer skv. 68. gr.
    Séu tilboð send með pósti eða í símbréfi er bjóðandi ábyrgur fyrir því að þau komist í réttar hendur fyrir opnun tilboða.
    Leyfilegt er að skila eingöngu inn heildartilboðsupphæð ef einingarverð og önnur tilskilin gögn fylgja í lokuðu umslagi eða eru sannanlega komin í póst degi áður en tilboð eru opnuð. Bjóðandi getur síðan óskað eftir því að einingarverð verði ekki tekin til skoðunar nema tilboð hans komi til álita.
    Tilboð skal vera undirritað af þar til bærum aðila.

67. gr.
Gerð frávikstilboða.

    Sé frávikstilboð gert skal geta þess sérstaklega á tilboðsblaði að um slíkt tilboð sé að ræða. Með frávikstilboði skal fylgja skýr og greinargóð lýsing á því í hvaða atriðum vikið sé frá tæknilegri lýsingu útboðsgagna.

68. gr.
Form tilboða og annarra samskipta kaupanda og bjóðenda.

    Öll samskipti og upplýsingagjöf sem vísað er til í þessari grein má fara fram með pósti, símbréfi, rafrænum aðferðum skv. 4. og 5. mgr., símleiðis við þær aðstæður sem um ræðir í 6. mgr. eða með samsetningu þessara miðla, allt eftir ákvörðun kaupanda.
    Þær samskiptaaðferðir sem kaupandi velur skulu vera almennt aðgengilegar og ekki hindra aðgang fyrirtækis að útboði.
    Samskipti, miðlun og geymsla upplýsinga skal fara fram með þeim hætti að tryggt sé að gögn séu óbreytt frá upprunalegri gerð. Auk þess skal tryggt að nafnleynd tilboða eða tilkynninga um þátttöku sé ekki rofin og kaupandi geti aðeins kynnt sér efni tilboða eða þátttökutilkynninga eftir að tilboðsfrestur eða frestur til að leggja fram þátttökutilkynningu er liðinn.
    Sá búnaður sem notaður er við rafræn samskipti, svo og tæknilegir eiginleikar búnaðar, skal vera almennt aðgengilegur og samhæfður við þá upplýsinga- og miðlunartækni sem er í almennri notkun. Búnaðurinn má ekki vera þess eðlis að hann leiði til mismununar fyrirtækja.
    Eftirfarandi reglur gilda um tæki sem notuð eru fyrir rafræna sendingu og móttöku tilboða og þátttökutilkynninga:
     a.      Upplýsingar um skilyrði fyrir rafrænni sendingu tilboða og þátttökutilkynninga, þar á meðal upplýsingar um dulkóðun, skulu vera aðgengilegar öllum áhugasömum aðilum. Þessi tæki skulu einnig fullnægja þeim kröfum sem fram koma í X. viðauka tilskipunarinnar.
     b.      Heimilt er í samræmi við lög um rafrænar undirskriftir, nr. 28/2001, að gera kröfu um að tilboði fylgi fullgild rafræn undirskrift.
     c.      Áður en tilboðsfrestur eða frestur til að skila þátttökutilkynningu rennur út skulu bjóðendur eða þátttakendur leggja fram þau gögn sem greinir í 47.–52. gr. og 54. gr. ef þau eru ekki til í rafrænu formi.
    Eftirfarandi reglur gilda um sendingu þátttökutilkynningar:
     a.      Tilkynningu um þátttöku í útboði má gera skriflega eða símleiðis.
     b.      Ef tilkynning um þátttöku er gerð símleiðis skal senda skriflega staðfestingu áður en frestur fyrir móttöku tilkynningar er liðinn.
     c.      Kaupandi getur krafist að þátttökutilkynning sem berst með símbréfi eða rafrænum hætti sé staðfest þegar slíkt er nauðsynlegt til þess að fyrir liggi lögfull sönnun að þessu leyti. Allar slíkar kröfur, ásamt frestum til að senda staðfestingu með pósti eða rafrænum hætti, skulu koma fram í útboðsauglýsingu.

69. gr.
Opnun tilboða.

    Bjóðendum skal vera heimilt að vera við opnun tilboða og eiga þeir rétt á að eftirfarandi upplýsingar séu lesnar upp eftir því sem þær koma fram í tilboðum:
     a.      Nafn bjóðanda.
     b.      Heildartilboðsupphæð.
     c.      Hvort tilboð sé sett fram sem frávikstilboð.
    Nú eru tilboð lögð fram með rafrænum hætti og er þá nægilegt að bjóðendum sé tilkynnt um þau atriði sem greinir í 1. mgr. eftir lok tilboðsfrests.
    Tilboð sem berast of seint skulu send bjóðendum óopnuð ásamt skýringu á ástæðum þess að þau eru endursend.
    Ráðherra getur með reglugerð sett sérstakar reglur um opnun tilboða sem sett eru fram með rafrænum hætti, enda sé gætt þeirra reglna sem fram koma í 68. gr.

70. gr.
Rafræn uppboð.

    Kaupanda er heimilt að kaupa inn með rafrænu uppboði samkvæmt nánari ákvæðum þessarar greinar.
    Þegar um er að ræða almennt eða lokað útboð eða samningskaup skv. 1. mgr. 32. gr. og unnt er að slá útboðsskilmálum föstum með nákvæmni getur kaupandi ákveðið að samningur verði gerður með rafrænu uppboði. Að uppfylltum sömu skilyrðum er heimilt að notast við rafrænt uppboð þegar samkeppni fer fram milli fleiri rammasamningshafa skv. 4. mgr. 34. gr. og við útboð í gagnvirku innkaupakerfi skv. 35. gr. Rafrænt uppboð skal miðast annaðhvort við verð, þegar forsendur fyrir vali tilboðs eru lægsta verð, eða verð og/eða önnur atriði í tilboði sem fram hafa komið í útboðsskilmálum, þegar forsendur fyrir vali tilboðs eru fjárhagslega hagkvæmasta boð.
    Kaupandi sem ákveður að halda rafrænt uppboð skal lýsa þeirri fyrirætlun sinni í útboðsauglýsingu. Í útboðsskilmálum skulu m.a. koma fram upplýsingar um eftirfarandi atriði:
     a.      Verðgildi þeirra atriða sem uppboðið lýtur að, enda séu þessi atriði þess eðlis að unnt sé að meta vægi þeirra með tölum eða hlutföllum.
     b.      Hvers konar takmörk á verðgildi þeirra atriða sem heimilt er að vísa til í tilboði samkvæmt útboðsskilmálum varðandi hið keypta.
     c.      Upplýsingar sem bjóðendum munu verða veittar meðan á rafrænu uppboði stendur og hvenær þær verða veittar, eftir því sem við á.
     d.      Viðeigandi upplýsingar um hið rafræna uppboðskerfi.
     e.      Skilyrði fyrir tilboðum bjóðenda, einkum varðandi lágmarksbreytingu á nýju tilboði bjóðanda ef um slíkt skilyrði er að ræða.
     f.      Viðeigandi upplýsingar um þann rafræna búnað sem notaður er ásamt upplýsingum um hvernig og að uppfylltum hvaða tæknilegum kröfum bjóðandi getur tengst rafrænu uppboðskerfi.
    Áður en rafrænt uppboð hefst skal kaupandi að fullu taka afstöðu til framkominna tilboða bjóðenda í samræmi við forsendur fyrir vali tilboðs og vægi þeirra. Öllum bjóðendum sem lagt hafa fram gild tilboð skal samtímis gefinn kostur á því að leggja fram ný verð og/eða verðgildi. Í tilkynningu til bjóðenda skulu koma fram allar nauðsynlegar upplýsingar um hvernig viðkomandi bjóðandi skal tengjast rafrænu uppboðskerfi ásamt upplýsingum um upphafsdag og upphafstíma rafræns uppboðs. Rafrænu uppboði má skipta í fleiri áfanga. Rafrænt uppboð skal ekki hefjast fyrr en tveimur virkum dögum eftir að tilkynning var send bjóðendum.
    Þegar gera á samning á grundvelli fjárhagslega hagkvæmasta tilboðs skal fylgja tilkynningu til bjóðanda mat á tilboði hans sem fram hefur farið í samræmi við 72. gr. Í tilkynningu skal einnig koma fram reiknilíkan sem nota á í rafrænu uppboði til að ákveða sjálfkrafa röð tilboða á grundvelli nýrra verða og/eða verðgilda sem boðin hafa verið. Reiknilíkan skal taka tillit til vægis allra forsendna sem skilgreina fjárhagslega hagkvæmasta tilboð eins og þessar forsendur hafa verið tilgreindar í útboðsauglýsingu eða útboðsgögnum. Hugsanleg vikmörk vægis við mat verðgildis sem fram hafa komið í útboðsauglýsingu eða útboðsgögnum skal skilgreina sem fast verðgildi. Ef frávikstilboð eru heimil skal setja fram sérstakt reiknilíkan fyrir hvert leyfilegt frávik.
    Í hverjum áfanga rafræns uppboðs skal kaupandi láta bjóðendum í té nægilegar upplýsingar svo að þeir geti metið niðurröðun tilboðs síns á hvaða tímamarki sem er. Kaupendur geta einnig upplýst bjóðendur um önnur atriði sem varða verð eða verðgildi sem sett hafa verið fram, enda hafi þetta komið fram í útboðsskilmálum. Kaupendur geta einnig upplýst um fjölda bjóðenda í viðkomandi áfanga uppboðs. Kaupanda er þó ekki undir neinum kringumstæðum heimilt að upplýsa um nafn bjóðenda á hvaða stigi uppboðs sem er.
    Kaupandi skal ljúka rafrænu uppboði á einn eða fleiri eftirfarandi hátta:
     a.      Með því að tilgreina fyrir fram ákveðinn dag og tíma um lok uppboðs í tilkynningu þar sem bjóðanda var gefinn kostur á að taka þátt í uppboði,
     b.      Þegar ekki berast fleiri verð eða verðgildi sem fullnægja kröfum um lágmarksbreytingar. Við þessar aðstæður skal taka fram í tilkynningu, þar sem bjóðanda var gefinn kostur á að taka þátt í uppboði, þann frest sem látinn verður líða frá því að síðasta tilboð barst þar til uppboði er lokið.
     c.      Þegar þeim áföngum uppboðs sem kveðið var á um í tilkynningu, þar sem bjóðanda var gefinn kostur á að taka þátt í uppboði, hefur verið lokið.
Þegar kaupandi ákveður að ljúka uppboði í samræmi við c-lið, eftir atvikum einnig með vísan til þeirrar aðferðar sem um getur í b-lið, skal tímaáætlun fyrir hvern áfanga uppboðs koma fram í tilkynningu þar sem bjóðanda var gefinn kostur á að taka þátt í uppboði.
    Þegar rafrænu uppboði hefur verið lokið skal kaupandi velja hagkvæmasta tilboð sem fram hefur komið við uppboðið í samræmi við 72. gr. Kaupanda er óheimilt að misnota rafrænt uppboð eða beita því í því skyni að koma í veg fyrir, hindra eða hafa áhrif á samkeppni eða til þess að breyta andlagi samnings eins og það var kynnt bjóðendum í útboðsauglýsingu og skilgreint í útboðsskilmálum.

IX. KAFLI
Val tilboðs.
71. gr.
Þau tilboð sem koma til greina.

    Við ákvörðun kaupanda um gerð samnings skal eingöngu litið til gildra tilboða, þar á meðal gildra frávikstilboða, frá fyrirtækjum, sem ekki hefur verið vísað frá skv. 47. og 48. gr., sem fullnægja kröfum um fjárhagslega stöðu og faglega og tæknilega getu og önnur atriði, sbr. 49.–54. gr., og valin hafa verið til að gera tilboð í samræmi við reglur 56. gr. ef um forval hefur verið að ræða.

72. gr.
Mat á hagkvæmasta boði.

    Við val á tilboði skal gengið út frá fjárhagslega hagkvæmasta boði. Hagkvæmasta tilboð er það boð sem er lægst að fjárhæð eða það boð sem fullnægir þörfum kaupanda best samkvæmt þeim forsendum sem settar hafa verið fram í útboðsgögnum, sbr. 45. gr.
    Óheimilt er að meta tilboð á grundvelli annarra forsendna en fram koma í útboðsgögnum, sbr. 45. gr.
    Heimilt er að velja fleiri en eitt tilboð sé kaupum skipt í fleiri sjálfstæða hluta í útboðsgögnum.

73. gr.
Óeðlilega lág tilboð.

    Þegar tilboð virðist óeðlilega lágt með hliðsjón af vöru, verki eða þjónustu sem kaupa á skal kaupandi óska skriflega eftir nánari upplýsingum um grundvöll tilboðs sem hann telur skipta máli. Þessar upplýsingar geta einkum varðað eftirfarandi:
     a.      Fjárhagslegar forsendur mannvirkjagerðar, vöruframleiðslu eða þjónustu.
     b.      Tæknilegar lausnir sem valdar hafa verið og/eða hvers konar óvenjulega hagstæðar aðstæður bjóðanda við framkvæmd verks, sölu vöru eða veitingu þjónustu.
     c.      Frumleika lausna bjóðanda við framkvæmd verks, sölu vöru eða veitingu þjónustu.
     d.      Samræmi við reglur um réttindi launþega og vinnuvernd á þeim stað þar sem framkvæmd verks, sala vöru eða veiting þjónustu fer fram.
     e.      Möguleika bjóðanda á því að öðlast ríkisstyrki.
    Kaupandi skal ganga úr skugga um forsendur tilboðs á grundvelli þeirra gagna sem bjóðandi hefur lagt fram eftir að hafa ráðfært sig við bjóðanda.
    Þegar kaupandi kemst að þeirri niðurstöðu að tilboð sé óeðlilega lágt vegna þess að bjóðandi njóti ríkisstyrkja verður boði hans því aðeins hafnað að bjóðanda hafi ekki tekist, innan hæfilegs frests sem ákveðinn var eftir að bjóðanda var gefinn kostur á að tjá sig, að sýna fram á að ríkisstyrkur hafi verið löglega veittur. Ef tilboði er hafnað af þessum ástæðum skal kaupandi tilkynna Eftirlitsstofnun EFTA um ákvörðun sína.
    Kaupanda er skylt að rökstyðja ákvörðun um að hafna tilboði á þeim grundvelli að það sé óeðlilega lágt. Upplýsingar sem kaupandi fær samkvæmt þessari grein skal fara með sem trúnaðarmál.

74. gr.
Höfnun tilboðs.

    Kaupandi telst hafa hafnað tilboði ef hann er búinn að semja við annan aðila, gildistími tilboðs er liðinn án þess að óskað hafi verið eftir framlengingu tilboðs eða öllum tilboðum hefur verið hafnað formlega.
    Kaupanda er óheimilt að nýta hugmyndir eða tilboð bjóðanda á nokkurn hátt eftir að því hefur verið hafnað.

75. gr.
Tilkynning og rökstuðningur höfnunar tilboðs og annarra ákvarðana.

    Kaupandi skal tilkynna þátttakendum eða bjóðendum um ákvarðanir um gerð rammasamnings, val tilboðs eða aðgang að gagnvirku innkaupakerfi, eins fljótt og mögulegt er. Í tilkynningu skal koma fram, eftir því sem við á, rökstuðningur fyrir ákvörðun um að gera ekki rammasamning, taka engu tilboði þrátt fyrir útboð eða hefja að nýju útboð eða stofna til gagnvirks innkaupakerfis. Þennan rökstuðning skal kaupandi veita skriflega ef þess er óskað.
    Eftir beiðni skal kaupandi, eins fljótt og mögulegt er, veita rökstuðning fyrir ákvörðun sinni sem hér segir:
     a.      Upplýsa ber þátttakanda, sem ekki hefur verið valinn til að gera tilboð, um ástæður þess að umsókn hans var hafnað.
     b.      Upplýsa ber bjóðanda um ástæður þess að tilboði hans var hafnað. Ef tilboði hefur verið hafnað með vísan til þess að tilboð var í ósamræmi við tækniforskriftir, sbr. 4. og 5. mgr. 40. gr., skal rökstyðja hvers vegna tilboð telst ekki fullnægja kröfum tækniforskrifta eða hvers vegna það er ófullnægjandi með tilliti til krafna um virkni og hagnýtingu.
     c.      Upplýsa skal bjóðanda, sem lagt hefur fram gilt tilboð, um eiginleika og kosti þess tilboðs sem kaupandi valdi og nafn bjóðanda sem var valinn eða rammasamningshafa.
    Beiðni um rökstuðning skv. 2. mgr. skal bera fram innan 14 daga frá því að bjóðanda var tilkynnt ákvörðun og skal rökstuðningur liggja fyrir eigi síðar en fimmtán dögum eftir að beiðni um það barst kaupanda eða umsjónarmanni útboðs. Í rökstuðningi skal þó ekki upplýsa um atriði sem vísað er til í 1. mgr. varðandi val tilboðs, gerð rammasamnings eða aðgengi að gagnvirku innkaupakerfi ef upplýsingagjöf gæti torveldað löggæslu. Sama á við ef upplýsingagjöf gengur að öðru leyti gegn almannahagsmunum eða mundi skaða lögmæta viðskiptahagsmuni einstakra fyrirtækja, einkarekinna eða opinberra, eða samkeppni milli þeirra.

76. gr.
Samþykki tilboðs.

    Þegar um er að ræða innkaupaferli sem lýkur með vali kaupanda á tilboði skulu líða a.m.k. tíu dagar frá því að ákvörðun um val tilboðs er tilkynnt þar til tilboð er endanlega samþykkt. Stytta má þennan frest við hraðútboð skv. 60. gr. og falla frá honum ef mjög brýnt er að gera samning þegar í stað.
    Tilboð skal samþykkja endanlega með skriflegum hætti innan gildistíma þess og er þá kominn á bindandi samningur á grundvelli útboðsgagna og tilboðs bjóðanda.
    Heimilt er að gera sérstakan samning um kaup á vöru, þjónustu eða verki á grundvelli útboðsins eftir að tilboð hefur verið samþykkt, en ekki skal þá breyta grundvallarþáttum tilboðs þannig að samkeppni sé raskað eða um mismunun verði að ræða.
    Þegar kominn er á samningur skv. 1. mgr. skal það tilkynnt öllum bjóðendum án tafar.

77. gr.
Gerviverktaka.

    Verktaka og undirverktaka er óheimilt að gera samning um undirverktöku við einstaka starfsmenn eða starfshópa í þeim tilvikum þar sem um ráðningarsamband er að ræða eða það á við samkvæmt venju og eðli máls.

3. ÞÁTTUR
Opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu.
X. KAFLI
Gildissvið þessa þáttar, heimild til setningar stjórnvaldsfyrirmæla o.fl.
78. gr.
Viðmiðunarfjárhæðir fyrir opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu.

    Ákvæði þessa þáttar og stjórnvaldsfyrirmæli sem sett hafa verið með heimild í ákvæðum hans gilda um opinber innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum sem ráðherra skal birta í íslenskum krónum í reglugerð í samræmi við 7., 8. og 9. gr. tilskipunarinnar. Einnig skal í reglugerð birta þær viðmiðunarfjárhæðir sem um ræðir í 1. mgr. 35. gr. tilskipunarinnar svo og viðmiðunarfjárhæðir vegna gerðar sérleyfissamninga um verk, sbr. 56. og 63. gr. tilskipunarinnar, og viðmiðunarfjárhæðir vegna hönnunarsamkeppni, sbr. 67. gr. tilskipunarinnar. Við ákvörðun viðmiðunarfjárhæða skal taka tillit til breytinga sem kunna að hafa verið gerðar skv. 78. gr. tilskipunarinnar, enda hafi hlutaðeigandi gerðir verið teknar upp í EES-samninginn. Endurskoða skal viðmiðunarfjárhæðir á tveggja ára fresti, í fyrsta sinn 31. janúar 2008.
    Ráðherra setur með reglugerð reglur um útboðsauglýsingar og aðrar tilkynningar vegna innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu til samræmis við þær gerðir sem vísað er til í XVI. viðauka við EES-samninginn. Ráðherra er einnig heimilt með reglugerð að setja nánari reglur um opinber innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum skv. 1. mgr., enda samræmist þær ákvæðum tilskipunarinnar og öðrum skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum.

79. gr.
Framkvæmd opinberra innkaupa yfir viðmiðunarfjárhæðum EES.

    Við framkvæmd opinberra innkaupa yfir viðmiðunarfjárhæðum skv. 78. gr. skal fylgja ákvæðum 35.–43. gr. tilskipunarinnar og þeim reglum sem þar er vísað til, eftir atvikum eins og þeim kann að hafa verið breytt skv. 79. gr. tilskipunarinnar. Að öðru leyti skal farið að reglum 2. þáttar laganna með eftirtöldum frávikum:
     a.      Ef nýta á heimild 2. mgr. 27. gr. til að gera samninga fyrir hluta af innkaupum án útboðs fyrir allt að 20% af samanlagðri heildarfjárhæð samnings skal verðgildi hlutans ekki vera hærra en jafngildi 80.000 evra að því er varðar vöru- og þjónustusamninga og 1 milljónar evra að því er varðar verksamninga.
     b.      Þegar um er að ræða innkaup á þjónustu skv. II. viðauka B tilskipunarinnar, sbr. 21. og 22. gr. tilskipunarinnar, skal senda skýrslu um gerð samnings samkvæmt nánari ákvæðum 4. mgr. 35. gr. tilskipunarinnar.
     c.      Skilyrði þess að samningskaup án undangenginnar útboðsauglýsingar fari fram, sbr. a- lið 1. mgr. 33. gr., er að tilkynning um notkun þessarar heimildar sé send Eftirlitsstofnun EFTA ef þess er óskað.
     d.      Ef nýta á heimild 36. gr. vegna samninga um hönnun og byggingu húsnæðis á vegum hins opinbera skal fylgja ákvæðum 35., 36., 38., 39., 41., 42. og 43. gr. tilskipunarinnar.
     e.      Ef skilyrðum er fullnægt til að stytta fresti skv. 8. mgr. 38. gr. tilskipunarinnar er heimilt að stytta frest skv. 1. mgr. 76. gr. eða falla alfarið frá honum þegar mjög brýnt er að gera samning þegar í stað.
    Þegar um er að ræða samninga sem ekki falla undir 1. mgr. er kaupanda allt að einu heimilt að láta birta útboðsauglýsingu.

XI. KAFLI
Reglur um gerð sérleyfissamninga um verk og hönnunarsamkeppni.
80. gr.
Sérleyfissamningar um verk yfir viðmiðunarfjárhæðum EES.

    Við gerð sérleyfissamninga um verk að áætluðu verðgildi sem er jafnt eða yfir viðmiðunarfjárhæð vegna slíkra samninga, sbr. reglugerð um viðmiðunarfjárhæðir sem sett er skv. 78. gr., skal fylgja ákvæðum 56.–65. gr. tilskipunarinnar.

81. gr.
Hönnunarsamkeppni yfir viðmiðunarfjárhæðum EES.

    Við framkvæmd hönnunarsamkeppni sem varðar verðgildi sem er jafnt eða yfir viðmiðunarfjárhæð vegna slíkrar samkeppni, sbr. reglugerð um viðmiðunarfjárhæðir sem sett er skv. 78. gr., skal fylgja ákvæðum 66.–74. gr. tilskipunarinnar.

XII. KAFLI
Skýrslur, Eftirlitsstofnun EFTA o.fl.
82. gr.
Skýrslur um opinber innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum EES.

    Fjármálaráðuneytið skal útbúa skýrslu í samræmi við 75. og 76. gr. tilskipunarinnar og senda hana Eftirlitsstofnun EFTA. Heimilt er í reglugerð að kveða nánar á um hvaða aðilar skuli senda fjármálaráðuneytinu skýrslur um innkaup sín og hvaða upplýsingar skuli koma fram í skýrslunum.

83. gr.
Rannsókn Eftirlitsstofnunar EFTA.

    Telji Eftirlitsstofnun EFTA að um augljóst brot á reglum Evrópska efnahagssvæðisins um opinber innkaup sé að ræða getur hún hafið rannsókn á ætluðu broti. Innan 30 daga frá tilkynningu Eftirlitsstofnunar EFTA um ástæður fyrir því áliti að augljóst brot hafi átt sér stað skal kaupandi senda Eftirlitsstofnuninni staðfestingu á því að bætt hafi verið úr brotinu, greinargerð um ástæður þess að engar úrbætur hafi verið gerðar eða tilkynningu um að innkaupaferli og gerð samnings hafi verið stöðvuð um stundarsakir. Fjármálaráðherra getur stöðvað um stundarsakir útboð eða gerð samnings í tilefni af tilkynningu Eftirlitsstofnunar EFTA samkvæmt þessari grein.
    Þegar kaupandi hefur tilkynnt Eftirlitsstofnun EFTA um að innkaupaferli hafi verið stöðvað um stundarsakir skal kaupandi tilkynna stofnuninni um það þegar stöðvun er aflétt eða innkaupaferli vegna sömu innkaupa, að hluta eða í heild, er hafið á ný. Í þessari tilkynningu skal greint frá því að úrbætur hafi verið gerðar eða færðar fram ástæður fyrir því hvers vegna það hefur ekki verið gert.

4. ÞÁTTUR
Stjórnsýsla, meðferð kærumála, o.fl.
XIII. KAFLI
Yfirstjórn opinberra innkaupa og starfsemi innkaupastofnunar.
84. gr.
Yfirstjórn opinberra innkaupa.

    Opinber innkaup heyra undir fjármálaráðherra sem fer með framkvæmd laga þessara.

85. gr.
Ríkiskaup.

    Á vegum ríkisins skal rekin miðlæg innkaupastofnun, Ríkiskaup. Stofnunin annast innkaup fyrir ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki, rannsakar sameiginlegar þarfir á vörum og þjónustu og beitir sér fyrir samræmdum innkaupum til þarfa ríkisins. Einnig skal stofnunin láta í té aðstoð og leiðbeiningar um útboð og innkaup eftir því sem þörf krefur. Komi upp ágreiningur um ákvörðun við val á tilboðum milli Ríkiskaupa sem umsjónaraðila útboðs og kaupanda er heimilt að vísa ágreiningnum til fjármálaráðuneytisins.
    Ríkiskaup ráðstafa eignum ríkisins sem ekki er lengur þörf fyrir samkvæmt nánari ákvörðun fjármálaráðherra.
    Ríkiskaup gera rammasamninga fyrir hönd ríkisins og annast útboð og önnur innkaupaferli sem fram fara á vegum ríkisstofnana vegna innkaupa, hvort heldur er yfir viðmiðunarfjárhæðum skv. 20. eða 78. gr. Fjármálaráðherra getur þó heimilað einstökum ríkisstofnunum að annast eigin innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum.

86. gr.
Lögmæti innkaupa og ábyrgð á innkaupum sem fram fara á vegum Ríkiskaupa.

    Kaupandi sem aflað hefur verks, vöru eða þjónustu í gegnum Ríkiskaup telst hafa fullnægt skyldum sínum samkvæmt lögum þessum að svo miklu leyti sem Ríkiskaup hafa gert það.
    Áður en innkaupaferli hefst á vegum Ríkiskaupa er stofnuninni heimilt að krefjast þess að fyrir liggi samningur þar sem m.a. er kveðið á um ákvörðunartöku og skaðabótaábyrgð vegna innkaupaferlis.

87. gr.
Markmið í rekstri Ríkiskaupa.

    Ríkiskaup skulu leitast við að tryggja hagkvæmni við innkaup ríkisins. Markmiði þessu skal náð með því að:
     a.      þróa hágæða þjónustustofnun á sviði opinberra innkaupa með starfsfólki sem býr yfir þekkingu og reynslu á sviði innkaupa fyrir ríkisstofnanir,
     b.      þróa verklag við útboð og innkaup sem tryggir jafnræði bjóðenda og virka samkeppni,
     c.      auka framleiðni og einföldun í opinberum innkaupum með nútímalegu innkaupakerfi, útboðum og samræmdum innkaupum,
     d.      auðvelda viðskiptatengsl milli birgja og ríkisstofnana,
     e.      miðla þekkingu og reynslu til ríkisstofnana til að fullnægja sem best viðskiptalegum þörfum ríkisins.

88. gr.
Forstjóri Ríkiskaupa.

    Fjármálaráðherra skipar forstjóra til fimm ára í senn. Forstjóri annast daglegan rekstur Ríkiskaupa, ber ábyrgð á fjárreiðum stofnunarinnar og reikningshaldi. Forstjóri gerir fjárhagsáætlun stofnunarinnar og mótar stefnu um helstu áherslur, verkefni og starfshætti stofnunarinnar. Forstjóri ræður starfslið stofnunarinnar.

89. gr.
Gjaldskrá Ríkiskaupa.

    Ríkiskaup selur ríkisstofnunum og ríkisfyrirtækjum þjónustu sína samkvæmt gjaldskrá sem fjármálaráðherra setur, að fengnum tillögum forstjóra Ríkiskaupa. Gjaldskráin skal miðast við að tekjur standi undir rekstri stofnunarinnar.

90. gr.
Ábyrgðarmaður innkaupa.

    Ráðuneyti og stofnanir og fyrirtæki í eigu ríkisins skulu skipa sérstakan starfsmann sem skal vera ábyrgðarmaður innkaupa. Honum ber að fylgjast með að innkaup viðkomandi ráðuneytis, stofnunar eða fyrirtækis séu í samræmi við gildandi lög og reglur um opinber innkaup og innkaupastefnu ríkisins. Ábyrgðarmaður innkaupa heyrir beint undir forstöðumann.

XIV. KAFLI
Kærunefnd útboðsmála.
91. gr.
Hlutverk og skipan kærunefndar útboðsmála.

    Í kærunefnd útboðsmála eiga sæti þrír menn sem ráðherra skipar til fjögurra ára í senn. Varamenn skulu skipaðir á sama hátt. Formaður nefndarinnar og varamaður hans skulu fullnægja skilyrðum laga til að gegna embætti héraðsdómara. Aðrir nefndarmenn skulu hafa alhliða reynslu og þekkingu á viðskiptum. Nefndarmenn skulu vera óháðir hagsmunum ríkis eða annarra opinberra aðila. Við skipan nefndarinnar skal ráðherra hafa samráð við helstu samtök sem hafa hagsmuna að gæta við framkvæmd laganna.
    Hlutverk kærunefndar útboðsmála er að leysa með skjótum og óhlutdrægum hætti úr kærum fyrirtækja vegna ætlaðra brota á lögum þessum, þar á meðal þeim ákvæðum tilskipunarinnar sem vísað er til í lögunum, og reglum settum samkvæmt þeim.
    Nefndin er sjálfstæð í störfum sínum. Úrskurðum hennar og ákvörðunum samkvæmt lögum þessum verður ekki skotið til annarra stjórnvalda.
    Að beiðni fjármálaráðuneytis eða tiltekins kaupanda er kærunefnd útboðsmála heimilt að gefa ráðgefandi álit á tilteknum innkaupum þótt engin kæra hafi borist.

92. gr.
Sérfræðileg ráðgjöf.

    Nefndinni er heimilt að kalla sér til ráðgjafar og aðstoðar sérfróða aðila ef hún telur þörf á. Skulu þeir aðilar starfa með kærunefndinni eftir nánari ákvörðun formanns eða varaformanns sem ákveður þeim þóknun fyrir starfann.

93. gr.
Málskotsréttur.

    Heimild til að skjóta málum til nefndarinnar hafa þau fyrirtæki sem njóta réttinda samkvæmt lögum þessum og hafa lögvarða hagsmuni af úrlausn máls.
    Heimilt er kæranda að framselja kæruheimild sína til félags eða samtaka sem gæta hagsmuna hans.

94. gr.
Kærufrestur.

    Kæra skal borin skriflega undir kærunefnd útboðsmála innan fjögurra vikna frá því að kærandi vissi eða mátti vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur brjóta gegn réttindum sínum. Alltaf er þó heimilt að bera kæru undir kærunefnd útboðsmála innan 15 daga frá því að rökstuðningur skv. 75. gr. er veittur. Fyrir hverja kæru skal kærandi greiða kærugjald að fjárhæð 50.000 kr.
    Í kæru skulu koma fram upplýsingar um kæranda, þann aðila sem kæra beinist að (varnaraðila) og ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem er kærð. Í kæru skulu koma fram kröfur kæranda ásamt stuttri lýsingu málsatvika og málsástæðna og rökstuðningur. Kröfugerð kæranda skal lúta að úrræðum nefndarinnar skv. 96. og 97. gr.
    Ef kæra fullnægir ekki skilyrðum 2. mgr. skal kærunefndin beina því til kæranda að bæta úr annmörkum innan hæfilegs frests. Verði kærandi ekki við því skal kærunefndin vísa kærunni frá.
    Kærunefnd er jafnan heimilt að beina því til kæranda að leggja fram frekari gögn eða upplýsingar máli til skýringar ef hún telur málið ekki nægilega upplýst og setja honum ákveðinn frest í því skyni.

95. gr.
Meðferð kæru og gagnaöflun.

    Nú er kæra tæk til efnismeðferðar skv. 94. gr. og gefur nefndin þá varnaraðila kost á að tjá sig um efni kærunnar. Ef Ríkiskaup eða önnur miðlæg innkaupastofnun í skilningi laga þessara hefur annast innkaup telst sú stofnun varnaraðili við meðferð máls fyrir nefndinni.
    Nú hefur annað fyrirtæki, svo sem annar bjóðandi í útboði eða þátttakandi í forvali vegna lokaðs útboðs, samkeppnisviðræðum eða samningskaupum, beinna og verulegra hagsmuna að gæta af niðurstöðu máls hjá nefndinni og skal þá einnig gefa þessum aðila kost á að tjá sig um efni kærunnar.
    Kæranda skal jafnan gefinn stuttur frestur til að tjá sig um athugasemdir varnaraðila og annarra sem gefinn hefur verið kostur á að tjá sig.
    Málflutningur skal vera skriflegur, en heimilt er nefndinni að gefa aðilum kost á að færa fram athugasemdir munnlega.
    Nefndin getur krafist þess að málsaðilar leggi fram öll þau gögn og aðrar upplýsingar sem málið varðar. Sinni kærandi ekki slíkri kröfu er heimilt að vísa kæru hans frá þegar í stað. Sinni varnaraðili ekki slíkri kröfu má meta tómlæti hans honum í óhag við úrlausn málsins.
    Afl atkvæða nefndarmanna ræður niðurstöðu máls. Minnihlutaatkvæði skal fylgja nefndaráliti ef því er að skipta. Formaður eða varaformaður stýrir störfum nefndarinnar. Þegar nefndarmenn eru eigi sammála um niðurstöðu ræður meiri hluti niðurstöðu máls. Ef nefndin þríklofnar í afstöðu sinni, eða niðurstaða getur eigi ráðist af atkvæðamagni, ræður atkvæði formanns.
    Kærunefnd skal kveða upp úrskurð um kæru eins fljótt og auðið er og eigi síðar en einum mánuði eftir að henni hafa borist athugasemdir kæranda skv. 3. mgr. ef því er að skipta.
    Um meðferð kærumála fyrir nefndinni fer að öðru leyti eftir stjórnsýslulögum, nr. 37/1993.

96. gr.
Stöðvun innkaupaferlis eða samningsgerðar um stundarsakir.

    Nú telur nefndin að verulegar líkur séu á því að brotið hafi verið gegn lögum þessum, þar á meðal þeim ákvæðum tilskipunarinnar sem vísað er til í lögunum, eða reglum settum samkvæmt þeim við tiltekin innkaup, og getur hún þá, eftir kröfu kæranda, stöðvað innkaupaferli eða gerð samnings þar til endanlega hefur verið skorið úr kæru.
    Varnaraðila skal að jafnaði gefinn skammur frestur til að tjá sig um hugsanlega stöðvun innkaupaferlis eða stöðvun samningsgerðar um stundarsakir. Víkja má frá þessu ef um er að ræða skýrt og augljóst brot.
    Aðili máls getur krafist þess að nefndin rökstyðji ákvörðun samkvæmt þessari grein skriflega hafi slíkur rökstuðningur ekki fylgt ákvörðuninni þegar hún var tilkynnt.

97. gr.
Úrræði kærunefndar útboðsmála.

    Nefndin getur með úrskurði fellt úr gildi ákvörðun kaupanda vegna opinberra innkaupa að hluta eða í heild, sbr. þó 100. gr. Nefndin getur lagt fyrir kaupanda að bjóða út tiltekin innkaup, auglýsa útboð á nýjan leik eða að fella niður tiltekna ólögmæta skilmála í útboðsgögnum.
    Nefndin getur látið uppi álit sitt á skaðabótaskyldu varnaraðila gagnvart kæranda, en tjáir sig ekki um fjárhæð skaðabóta.
    Nefndin getur ákveðið að varnaraðili greiði kæranda kostnað við að hafa kæruna uppi. Ef kæra er bersýnilega tilefnislaus eða höfð uppi í þeim tilgangi að tefja fyrir framgangi opinberra innkaupa getur nefndin úrskurðað kæranda til að greiða málskostnað sem rennur í ríkissjóð.
    Ef ekki er farið að úrskurði nefndarinnar skv. 1. mgr. er henni heimilt að ákveða að leggja dagsektir á þann sem úrskurður beinist að. Sektir geta numið allt að 500.000 kr. fyrir hvern dag sem líður án þess að farið sé að úrskurði nefndarinnar. Ef úrskurði er skotið til dómstóla byrja dagsektir ekki að falla á fyrr en dómur er endanlegur.
    Dagsektir skv. 4. mgr. renna í ríkissjóð. Gera má aðför, án undangengins dóms, til fullnustu dagsekta og úrskurðar um málskostnað skv. 3. mgr.

98. gr.
Dómsmál til ógildingar á úrskurðum kærunefndar útboðsmála.

    Nú vill kærandi, varnaraðili eða annar aðili sem lögvarinna hagsmuna á að gæta ekki una úrskurði kærunefndar útboðsmála og getur hann þá höfðað mál til ógildingar hans fyrir dómstólum. Mál skal höfðað innan sex mánaða frá því að aðilinn fékk eða mátti fá vitneskju um ákvörðun kærunefndar.
    Ef mál er höfðað til ógildingar á úrskurði kærunefnd útboðsmála skal kærunefndinni ekki stefnt til varnar. Að öðru leyti fer um varnaraðild að slíkum málum samkvæmt almennum reglum.

99. gr.
Starfsreglur fyrir kærunefnd útboðsmála o.fl.

    Kærunefnd útboðsmála getur sett nánari reglur, sem ráðherra staðfestir, um framlagningu gagna, málsmeðferð fyrir nefndinni og birtingu úrskurða.

XV. KAFLI
Gildi samninga og skaðabætur.
100. gr.
Ógilding samninga.

    Eftir að bindandi samningur skv. 76. gr. er kominn á verður hann ekki felldur úr gildi eða honum breytt þótt ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs eða gerð samnings hafi verið ólögmæt.
    Nú gerir kaupandi samning þótt innkaupaferli, útboð eða samningsgerð hafi verið stöðvuð skv. 96. gr. og er þá allt að einu heimilt að ógilda samninginn og beita þeim úrræðum sem greinir í 97. gr.
    Um gildi samninga, sem stofnað er til samkvæmt lögum þessum, fer að öðru leyti eftir almennum reglum fjármunaréttar.

101. gr.
Skaðabótaskylda.

    Kaupandi er skaðabótaskyldur vegna þess tjóns sem brot á lögum þessum, þar á meðal þeim ákvæðum tilskipunarinnar sem vísað er til í lögunum, og reglum settum samkvæmt þeim hefur í för með sér fyrir fyrirtæki. Fyrirtæki þarf einungis að sanna að það hafi átt raunhæfa möguleika á að verða valið af kaupanda og möguleikar þess hafi skerst við brotið. Bótafjárhæð skal miðast við kostnað við að undirbúa tilboð og taka þátt í útboði.
    Um skaðabætur vegna brota á lögum þessum og reglum settum samkvæmt þeim fer að öðru leyti eftir almennum reglum.

XVI. KAFLI
Lagaskil, gildistaka, brottfall laga o.fl.
102. gr.
Innleiðing tilskipunarinnar.

    Lög þessi fela í sér innleiðingu á tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/18/EB frá 31. mars 2004 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga eins og hún var tekin upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið með ákvörðum sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006 sem birt var 7. september 2006 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins nr. 44/2006.

103. gr.
Afstaða stjórnsýslulaga til opinberra innkaupa.

    Ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um hæfi gilda um ákvarðanir sem teknar eru samkvæmt lögum þessum. Að öðru leyti gilda stjórnsýslulög ekki um ákvarðanir sem teknar eru samkvæmt lögum þessum.

104. gr.
Almenn heimild til setningar stjórnvaldsfyrirmæla.

    Fjármálaráðherra er heimilt að setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara.

105. gr.
Lagaskil vegna opinberra innkaupa.

    Um innkaup sem hafa verið auglýst fyrir gildistöku laga þessara fer samkvæmt lögum nr. 94/2001, um opinber innkaup. Miða skal við opinbera birtingu útboðsauglýsingar eða áætlaða móttöku þátttakenda á tilkynningu ef um er að ræða innkaupaferli þar sem útboðsauglýsingar eru ekki birtar opinberlega.

106. gr.
Lagaskil vegna starfsemi kærunefndar útboðsmála.

    Lög þessi gilda um meðferð kærunefndar útboðsmála á kærum sem berast nefndinni eftir gildistöku laga þessara.
    Skipanir núverandi nefndarmanna í kærunefnd útboðsmála skulu haldast þrátt fyrir gildistöku laga þessara. Starfsreglur kærunefndar útboðsmála skulu einnig halda gildi sínu þar til nýjar starfsreglur kærunefndarinnar hafa tekið gildi.

107. gr.
Gildistaka.

    Lög þessi öðlast þegar gildi. Um leið falla úr gildi lög nr. 94/2001, um opinber innkaup, með síðari breytingum.


Fylgiskjal.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2004/18/EB
frá 31. mars 2004
um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 47. gr. (2. mgr.), 55. gr. og 95. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndarinnar ( 2 ),
með hliðsjón af áliti svæðanefndarinnar ( 3 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4 ) á grundvelli sameiginlegs texta sáttanefndarinnar frá 9. desember 2003,
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Í tengslum við nýjar breytingar sem gera þarf á tilskipunum ráðsins 92/50/EBE frá 18. júní 1992 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra samninga um kaup á þjónustu ( 5 ), 93/36/EBE frá 14. júní 1993 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra samninga um vörukaup ( 6 ) og 93/37/EBE frá 14. júní 1993 um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga ( 7 ), en þessar breytingar eru nauðsynlegar til að mæta kröfum þeim um einföldun og nútímavæðingu sem bæði samningsyfirvöld og rekstraraðilar settu fram í andsvörum sínum við grænbókinni sem framkvæmdastjórnin samþykkti 27. nóvember 1996, skal, til glöggvunar, endursemja tilskipanirnar og steypa þeim saman í einn texta. Þessi tilskipun er byggð á dómaframkvæmd dómstólsins, einkum að því er varðar forsendur fyrir vali tilboðs, sem skýrir möguleika samningsyfirvalda á því að uppfylla þarfir almennings sem málið varðar, t.d. á sviði umhverfis- og/eða félagsmála, að því tilskildu að slíkar forsendur tengist efni samningsins, veiti samningsyfirvaldi ekki ótakmarkað valfrelsi, séu skýrt orðaðar og í samræmi við grundvallarreglurnar sem nefndar eru í 2. forsendu.
2)          Samningar, sem eru gerðir í aðildarríkjunum fyrir hönd ríkisins eða svæðis- eða staðaryfirvalda og annarra aðila sem lúta stjórn opinberra lögaðila, falla undir meginreglur sáttmálans, einkum meginregluna um frjálsa vöruflutninga, meginregluna um staðfesturétt og meginregluna um frelsi til að veita þjónustu og reglur sem af þeim leiða, t.d. meginreglurnar um jafna meðferð, bann við mismunun, gagnkvæma viðurkenningu, meðalhófsregluna og meginregluna um gagnsæi. Sé um að ræða opinbera samninga sem fara yfir tiltekið verðmæti er þó rétt að setja ákvæði, sem eru byggð á þessum meginreglum, um að samræma, á vettvangi Bandalagsins, reglur um útboð og gerð samninga í einstökum ríkjum í Bandalaginu til að tryggja áhrif meginreglnanna og sjá til þess að opnað sé fyrir samkeppni í opinberum innkaupum. Þessi samræmingarákvæði ber því að túlka bæði samkvæmt fyrrgreindum meginreglum og öðrum reglum sáttmálans.
3)          Slík samræmingarákvæði skal laga, eftir því sem unnt er, að núgildandi reglum og starfsvenjum í hverju einstöku aðildarríki.
4)          Ef aðili, sem heyrir undir opinberan rétt, tekur þátt í útboðsferli opinbers samnings sem bjóðandi skulu aðildarríkin tryggja að það valdi engri röskun á samkeppni gagnvart einkaaðilum sem eru jafnframt bjóðendur.
5)          Samkvæmt 6. gr. sáttmálans ber að fella kröfur um umhverfisvernd inn í skilgreiningu og framkvæmd á stefnu Bandalagsins og starfsemi, sem um getur í 3. gr. sáttmálans, einkum með það fyrir augum að efla sjálfbæra þróun. Í þessari tilskipun er því skýrt hvernig samningsyfirvöld geta stuðlað að vernd umhverfisins og sjálfbærri þróun og jafnframt tryggt að besta hlutfall milli gæða og verðs náist í samningum.
6)          Ekkert í þessari tilskipun á að koma í veg fyrir að gerðar verði ráðstafanir eða framfylgt verði ráðstöfunum sem eru nauðsynlegar til að vernda allsherjarreglu, almennt siðgæði, almannaöryggi, heilbrigði, líf manna og dýra eða varðveita plöntur, einkum með tilliti til sjálfbærrar þróunar, að því tilskildu að þessar ráðstafanir samrýmist sáttmálanum.
7)          Með ákvörðun ráðsins 94/800/EB frá 22. desember 1994 um samþykki af hálfu Evrópubandalagsins, að því er varðar málefni sem falla undir valdsvið þess, á samningunum sem náðust í Úrúgvælotu marghliða samningaviðræðnanna (1986 til 1994) ( 8 ) var einkum samþykktur samningurinn um opinber innkaup, sem gerður var innan vébanda Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, hér á eftir nefndur „samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar“, en hann er gerður í þeim tilgangi að setja marghliða ramma um jafnvæg réttindi og skyldur í tengslum við opinbera samninga með það fyrir augum að auka frelsi í alþjóðaviðskiptum og efla þau.
        Í ljósi alþjóðlegra réttinda og skuldbindinga Bandalagsins, sem leiðir af samþykkt samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, gildir það fyrirkomulag sem þar er skilgreint um bjóðendur og vörur frá þriðju löndum sem hafa undirritað þann samning. Samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hefur ekki bein áhrif. Samningsyfirvöld, sem eru bundin af samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem fara að þessari tilskipun og beita ákvæðum hennar gagnvart rekstraraðilum í þriðju löndum sem hafa undirritað samninginn, skulu því uppfylla ákvæði samnings Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Einnig er rétt að þessi samræmingarákvæði tryggi rekstraraðilum í Bandalaginu þátttökuskilyrði í opinberum innkaupum sem eru allt eins hagstæð og þau skilyrði sem bjóðast rekstraraðilum í þriðju löndum sem hafa undirritað samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
8)          Áður en útboðsferli samnings hefst geta samningsyfirvöld, með tæknilegum skoðanaskiptum, leitað ráða eða þegið ráð sem geta komið að gagni við gerð útboðsskilmála en þó því aðeins að slík ráðgjöf verði ekki til þess að hindra samkeppni.
9)          Í ljósi þess hve opinberir verksamningar eru fjölbreytilegir skulu samningsyfirvöld geta valið um hvort þau gera samning um hönnun og framkvæmd verks aðgreint eða sameiginlega. Þessari tilskipun er ekki ætlað að segja fyrir um hvort gera skuli samning sameiginlega eða aðgreint. Ákvörðun um hvort samningur skuli gerður aðgreint eða sameiginlega skal tekin með tilliti til gæðaviðmiðana og hagrænna viðmiðana sem kunna að vera ákveðnar í landslögum.
10)          Samningur skal því aðeins teljast opinber verksamningur að efni hans varði sérstaklega framkvæmd þeirra verka sem tilgreind eru í I. viðauka, jafnvel þótt samningurinn taki til annarrar þjónustu sem er nauðsynleg til að unnt sé að vinna þessi verk. Opinberir þjónustusamningar geta við ákveðnar aðstæður náð yfir verk, einkum þegar um er að ræða rekstur fasteigna. Ef slík verk tengjast meginefni samningsins, og eru því hugsanlega afleiðing af eða viðbót við hann, telst það þó ekki gild ástæða fyrir því að flokka samninginn sem opinberan verksamning að hann taki til slíkra verka.
11)          Setja skal fram skilgreiningu Bandalagsins á rammasamningum ásamt sérstökum reglum um rammasamninga sem eru gerðir í tengslum við samninga sem falla undir gildissvið þessarar tilskipunar. Þegar samningsyfirvald gerir rammasamning í samræmi við ákvæði þessarar tilskipunar, einkum að því er varðar auglýsingar, tímafresti og skilyrði fyrir framlagningu tilboða, getur það, samkvæmt þessum reglum, gengið til samninga á grundvelli og innan gildistíma slíks rammasamnings, annaðhvort með því að nota skilmála rammasamningsins eða, ef ekki hafa allir skilmálar verið ákveðnir fyrir fram í rammasamningnum, með því að bjóða aðilum að rammasamningnum að leggja á ný fram tilboð varðandi þá skilmála sem ekki voru ákveðnir áður. Ef óskað er eftir nýjum tilboðum skal fara að ákveðnum reglum sem hafa þann tilgang að tryggja nauðsynlegan sveigjanleika og að almennar meginreglur séu virtar, einkum meginreglan um jafna meðferð. Af sömu ástæðu gilda skilmálar rammasamningsins ekki lengur en í fjögur ár nema í tilvikum sem samningsyfirvöld geta fært gild rök fyrir.
12)          Stöðugt er unnið að því að þróa nýja rafræna innkaupatækni. Slík tækni stuðlar að aukinni samkeppni og hagræðingu í opinberum innkaupum, einkum vegna þess að notkun hennar sparar bæði tíma og fjármuni. Samningsyfirvöld geta nýtt sér rafræna innkaupatækni, að því tilskildu að slík not samrýmist reglunum sem settar eru með þessari tilskipun og meginreglunum um jafna meðferð, bann við mismunun og gagnsæi. Í því samhengi getur tilboð, sem bjóðandi leggur fram, einkum þegar óskað er eftir nýjum tilboðum í tengslum við rammasamning eða virkt innkaupakerfi, verið í formi rafræns vörulista bjóðanda ef bjóðandinn nýtir sér þær samskiptaaðferðir sem samningsyfirvald hefur valið í samræmi við 42. gr.
13)          Í ljósi hinnar öru útbreiðslu rafrænna innkaupakerfa ber að setja viðeigandi reglur nú þegar til að gera samningsyfirvöldum kleift að nýta til fulls þá möguleika sem slík kerfi bjóða upp á. Með þetta í huga er nauðsynlegt að skilgreina fyllilega rafrænt, virkt innkaupakerfi fyrir algeng innkaup og mæla fyrir um sérstakar reglur um uppsetningu og rekstur slíks kerfis til að tryggja réttláta meðferð allra rekstraraðila sem vilja taka þátt. Sérhverjum rekstraraðila, sem leggur fram kynningarboð í samræmi við útboðsskilmála og uppfyllir forsendur fyrir vali, skal vera heimilt að nýta sér slíkt kerfi. Þessi innkaupatækni gerir samningsyfirvaldi kleift, með því að koma upp skrá yfir bjóðendur sem þegar hafa verið valdir og gefa nýjum bjóðendum kost á því að taka þátt, að velja úr sérlega breiðum hópi bjóðenda með notkun hins rafræna búnaðar og tryggja um leið hámarksnýtingu opinbers fjármagns með víðtækri samkeppni.
14)          Þar sem líkur eru á því að notkun rafrænna uppboða fari vaxandi er rétt að setja fram skilgreiningu Bandalagsins á þeim þau og að um þau gildi sérstakar reglur til að tryggja að þau fari fram í fullu samræmi við meginreglurnar um jafna meðferð, bann við mismunun og gagnsæi. Því er æskilegt að sett verði ákvæði um að slík rafræn uppboð verði aðeins notuð þegar um er að ræða verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga sem hægt er að ákvarða nákvæmar forskriftir fyrir. Þetta á einkum við um endurnýjaða vöru- verk- og þjónustusamninga. Af sömu ástæðu skal einnig vera hægt að ákveða viðeigandi flokkun bjóðenda á öllum stigum rafræns uppboðs. Þegar kostur gefst á því að nota rafræn uppboð gerir það samningsyfirvöldum kleift að hvetja bjóðendur til að bjóða nýtt og lægra verð og, þegar tilboð er valið á grundvelli fjárhagslega hagkvæmasta tilboðs, að fara fram á úrbætur í öðrum þáttum tilboðsins en verðinu. Til að tryggja samræmi við meginregluna um gagnsæi má einungis taka með í rafrænt uppboð þá þætti sem hægt er að meta sjálfvirkt með rafrænum aðferðum án allra afskipta og/eða samþykkis samningsyfirvalds, þ.e. aðeins þá þætti sem setja má fram sem magn svo að unnt sé að tilgreina þá í tölum eða sem hlutfall. Hins vegar skal ekki taka með í rafrænum uppboðum þau svið tilboða sem varða þætti sem ekki er hægt að setja fram í tölum. Þar af leiðandi skal ekki halda rafræn uppboð þegar um er að ræða tiltekna verksamninga og þjónustusamninga sem fela í sér framkvæmd á sviði hugverka, s.s. hönnun verka.
15)          Í aðildarríkjunum hafa þróast tilteknar, miðstýrðar innkaupaaðferðir. Ýmis samningsyfirvöld hafa það hlutverk að annast innkaup og gerð opinberra samninga eða rammasamninga fyrir önnur samningsyfirvöld. Vegna hins mikla innkaupamagns ættu þessar aðferðir að leiða til aukinnar samkeppni og hagræðingar í opinberum innkaupum. Þess vegna ber að ákveða skilgreiningu Bandalagsins á miðlægum innkaupastofnunum sem samningsyfirvöld nýta sér. Einnig ber að skilgreina hvaða skilyrði samningsyfirvöld, sem kaupa verk vörur og/eða þjónustu með milligöngu miðlægrar innkaupastofnunar, skulu uppfylla svo að þau teljist hafa farið að ákvæðum þessarar tilskipunar, að teknu tilliti til meginreglnanna um bann við mismunun og jafna meðferð.
16)          Svo að tekið sé tillit til mismunandi aðstæðna í aðildarríkjunum er aðildarríkjunum það í sjálfsvald sett hvort þau veita samningsyfirvöldum heimild til að nýta sér rammasamninga, miðlægar innkaupastofnanir, virk innkaupakerfi, rafræn uppboð eða samkeppnisviðræður eins og skilgreint er og kveðið á um í þessari tilskipun.
17)          Því fleiri viðmiðunarfjárhæðir sem notaðar eru við beitingu samræmingarákvæðanna, því meiri vandkvæði hefur það í för með sér fyrir samningsyfirvöld. Með tilliti til myntbandalagsins skal enn fremur setja þessar viðmiðunarfjárhæðir fram í evrum. Í samræmi við það skal setja viðmiðunarfjárhæðir fram í evrum á þann hátt að það einfaldi beitingu slíkra ákvæða og tryggi um leið að farið sé að ákvæðum um viðmiðunarfjárhæðir sem mælt er fyrir um í samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar og tilgreindar eru sem sérstök dráttarréttindi (SDR). Í þessu sambandi er einnig rétt að setja ákvæði um reglubundna endurskoðun á viðmiðunarfjárhæðum sem eru settar fram í evrum til að laga þær, eftir atvikum, að hugsanlegum breytingum á gengi evru gagnvart sérstökum dráttarréttindum.
18)          Með tilliti til beitingar útboðsreglna þessarar tilskipunar og vegna eftirlits er best að skipta þjónustusviðinu í flokka sem svara til tiltekinnar flokkunar í sameiginlegu flokkunarkerfi og raða þeim í tvo viðauka, II. viðauka A og II. viðauka B, eftir því hvaða kerfi þeir falla undir. Að því er varðar þjónustu í II. viðauka B skulu ákvæði þessarar tilskipunar ekki hafa áhrif á beitingu Bandalagsreglna sem gilda sérstaklega um viðkomandi þjónustu.
19)          Að því er varðar opinbera þjónustusamninga skal full beiting þessarar tilskipunar takmarkast, á aðlögunartímabili, við samninga þar sem ákvæði tilskipunarinnar gera kleift að nýta alla möguleika á auknum viðskiptum yfir landamæri. Fylgjast skal með samningum um aðra þjónustu á þessu aðlögunartímabili áður en ákvörðun er tekin um að beita þessari tilskipun til fulls. Því er nauðsynlegt að skilgreina fyrirkomulag á slíku eftirliti. Það fyrirkomulag skal jafnframt gera hlutaðeigandi aðilum kleift að fá aðgang að viðeigandi upplýsingum.
20)          Opinberir samningar, gerðir af samningsyfirvöldum sem starfa á sviði vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu og sem varða slíka starfsemi, falla undir gildissvið tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/17/EB frá 31. mars 2004 um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu ( 9 ). Samningar, sem samningsyfirvöld gera í tengslum við þjónustustarfsemi vegna sjó- og strandflutninga og flutninga á ám og vötnum, skulu þó falla undir gildissvið þessarar tilskipunar.
21)          Vegna virkrar markaðssamkeppni í fjarskiptageiranum í kjölfar þess að Bandalagsreglur, sem miða að því að auka frelsi í þeim geira, eru komnar til framkvæmda skal undanskilja opinbera samninga á því sviði frá gildissviði þessarar tilskipunar svo fremi að þeir séu fyrst og fremst gerðir til að samningsyfirvöld geti stundað tiltekna starfsemi í fjarskiptageiranum. Slík starfsemi er skilgreind í samræmi við skilgreiningar sem notaðar eru í 1., 2. og 8. gr. tilskipunar ráðsins 93/38/EBE frá 14. júní 1993 um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti ( 10 ), á þann hátt að þessi tilskipun gildir ekki um samninga sem hafa verið undanþegnir gildissviði tilskipunar 93/38/EBE skv. 8. gr. hennar.
22)          Gera þarf ráð fyrir tilvikum þar sem hægt er að láta hjá líða að beita samræmingaraðgerðum af ástæðum sem tengjast ríkisöryggi eða ríkisleynd eða vegna sérstakra reglna um gerð samninga, sem byggja á milliríkjasamningum varðandi herstöðvar, eða reglna sem gilda sérstaklega um alþjóðastofnanir.
23)          Samkvæmt 163. gr. sáttmálans ber að hvetja til rannsókna og tækniþróunar til að renna stoðum undir vísinda- og tæknigrundvöll iðnaðar í Bandalaginu og með því að opna aðgang að opinberum þjónustusamningum er stuðlað að því að þetta markmið náist. Þessi tilskipun gildir ekki um sameiginlega fjármögnun rannsóknar- og þróunarverkefna: rannsóknar- og þróunarsamningar falla því ekki undir þessa tilskipun nema þeir komi einungis samningsyfirvöldum til góða í eigin starfsemi og að því tilskildu að þjónustan, sem er veitt, sé að öllu leyti launuð af samningsyfirvaldinu.
24)          Á sviði þjónustu hafa samningar um kaup eða leigu á fasteignum, eða rétt til slíkrar eignar, séreinkenni sem valda því að óheppilegt er að beita reglum um opinber innkaup.
25)          Við gerð opinberra samninga um tiltekna hljóð- og myndmiðlunarþjónustu fyrir hljóðvarp og sjónvarp skal taka tillit til menningarlegra og félagslegra þátta sem valda því að ekki er heppilegt að beita reglum um opinber innkaup. Af þeim sökum skal gera undantekningu vegna opinberra þjónustusamninga um kaup, þróun, framleiðslu eða sameiginlega framleiðslu á efni sem er tilbúið til notkunar og aðra undirbúningsþjónustu, t.d. varðandi handrit eða listræna framkvæmd, sem nauðsynleg er fyrir framleiðslu efnisins, svo og vegna samninga varðandi útsendingartíma. Þessi undantekning skal þó ekki gilda um afhendingu tæknilegs búnaðar sem er nauðsynlegur fyrir framleiðslu, sameiginlega framleiðslu og útsendingu slíks efnis. Með útsendingu er átt við sendingu og miðlun um einhvers konar rafrænt net.
26)          Gerðardóms- og sáttameðferð er vanalega veitt af aðilum eða einstaklingum sem eru tilnefndir eða valdir á einhvern þann hátt sem ekki getur fallið undir reglur um innkaup.
27)          Í samræmi við samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar nær fjármálaþjónusta, sem fellur undir þessa tilskipun, ekki til gerninga sem varða peninga- eða gengisstefnu, ríkisskuldir, stjórnun opinberra sjóða eða annað sem varðar viðskipti í verðbréfum eða aðra fjármálagerninga; einkum á það við um viðskipti samningsyfirvalda í því skyni að afla fjár eða eiginfjár. Samningar, sem tengjast útgáfu, kaupum, sölu eða framsali verðbréfa eða annarra fjármálagerninga, falla því ekki undir hana. Þjónusta seðlabanka er einnig undanþegin gildissviði hennar.
28)          Atvinna og störf eru grundvallaratriði þegar tryggja á jöfn tækifæri fyrir alla og stuðla að félagslegum samruna. Í því sambandi eru verndaðir vinnustaðir og áætlanir um verndaða vinnu mikill stuðningur við aðlögun eða enduraðlögun fatlaðs fólks á vinnumarkaðnum. Hins vegar er hugsanlegt að slíkir vinnustaðir nái ekki samningum við venjulegar samkeppnisaðstæður. Þess vegna er rétt að setja ákvæði um að aðildarríkin geti bundið réttinn til þátttöku í útboði vegna opinberra samninga slíkum vinnustöðum eða bundið framkvæmd samninga áætlunum um verndaða vinnu.
29)          Tækniforskriftirnar, sem opinberir innkaupsaðilar setja fram, skulu veita ráðrúm til þess að opna fyrir samkeppni í opinberum innkaupum. Þess vegna á að vera hægt að leggja fram tilboð þar sem gefinn er kostur á fjölbreyttum, tæknilegum lausnum. Því ætti að vera unnt að setja fram tækniforskriftir sem kröfur um nothæfi og hagnýtingu og samningsyfirvöld skulu, þegar vísað er til Evrópustaðla eða, þegar þeir eru ekki til, landsstaðla, taka gild tilboð sem eru byggð á jafngildu fyrirkomulagi. Leyfa skal bjóðendum að leggja fram hvers konar sönnunargögn til að sýna að tilboð séu jafngild. Samningsyfirvöld skulu geta rökstutt allar ályktanir þess efnis að ekki hafi verið um jafngild tilboð að ræða í tilteknu tilviki. Samningsyfirvöld, sem vilja hafa ákveðnar umhverfiskröfur í tækniforskriftum tiltekins samnings, geta mælt fyrir um eiginleika er varða umhverfið, s.s. tiltekna framleiðsluaðferð, og/eða tiltekin umhverfisáhrif vöru- eða þjónustuhópa. Þau geta notað, en eru ekki skyldug til þess að nota, viðeigandi forskriftir sem eru skilgreindar í umhverfismerkjum á borð við evrópska umhverfismerkið, (fjöl-)þjóðleg umhverfismerki eða hvaða önnur umhverfismerki sem er, að því tilskildu að kröfur varðandi merkið séu settar fram og samþykktar á grundvelli vísindalegra gagna og notuð málsmeðferð sem hagsmunaaðilar, s.s. stofnanir ríkisins, neytendur, framleiðendur, dreifingaraðilar og umhverfisstofnanir, geta nýtt sér og að því tilskildu að merkið sé aðgengilegt og tiltækt öllum hlutaðeigandi aðilum. Samningsyfirvöld skulu, þegar unnt er, mæla fyrir um tækniforskriftir á þann hátt að tekið sé tillit til viðmiðana um aðgang fatlaðra eða hönnun sem hæfir öllum notendum. Tækniforskriftirnar skulu settar fram á skýran hátt svo að öllum bjóðendum sé það ljóst hvað felst í þeim kröfum sem samningsyfirvöld gera.
30)          Frekari upplýsingar varðandi samninga skulu, samkvæmt venju í aðildarríkjum, veittar í útboðsgögnum fyrir hvern samning eða í jafngildu skjali.
31)          Það getur reynst ógerlegt fyrir samningsyfirvöld, sem vinna að mjög flóknum verkefnum, án þess að þau hafi gert nokkur mistök, að skilgreina leiðir til að uppfylla þarfir sínar eða meta hvað í boði er á markaðnum af tæknilegum og/eða fjárhagslegum og lagalegum lausnum. Þessi staða getur einkum komið upp við framkvæmd mikilvægra, samþættra verkefna á sviði grunnvirkja í flutningum, stórra tölvuneta eða verkefna sem fela í sér flókna og skipulagsbundna fjármögnum þar sem ekki er hægt að skilgreina fjármálahliðina og lagalegu hliðina fyrir fram. Sé ekki hægt að gera slíka samninga sem almenna eða lokaða útboðssamninga skal kveða á um sveigjanlega útboðsaðferð sem bæði tryggir samkeppni á milli rekstraraðila og kemur einnig til móts við þá þörf að samningsyfirvöld ræði allar hliðar samningsins við hvern og einn þátttakanda. Þessa aðferð má þó ekki nota á þann hátt að það takmarki eða raski samkeppni, t.d. með því að breyta einhverjum grunnþáttum tilboðanna, setja fram nýjar, mikilvægar kröfur á hendur bjóðandanum, sem verður fyrir valinu, eða með því að velja einhvern annan bjóðanda en þann sem leggur fram fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið.
32)          Rétt er að setja ákvæði um undirverktöku til að auðvelda litlum og meðalstórum fyrirtækjum að taka þátt í opinberum innkaupum.
33)          Skilyrði varðandi framkvæmd samnings eru samrýmanleg þessari tilskipun að því tilskildu að þau hafi ekki, beint eða óbeint, mismunun í för með sér og séu tilgreind í útboðstilkynningu eða í útboðsgögnum. Þau geta m.a. verið sett í þeim tilgangi að stuðla að starfsþjálfun á vinnustað, ráðningu starfsfólks sem á í sérstökum erfiðleikum með að komast á vinnumarkaðinn, baráttu gegn atvinnuleysi eða umhverfisvernd. Til dæmis má nefna kröfur, sem gilda meðan á framkvæmd samningsins stendur, um að ráða umsækjendur sem hafa verið lengi atvinnulausir eða gera ráðstafanir til að þjálfa atvinnulaust eða ungt fólk, um að fylgja í meginatriðum ákvæðum grundvallarsamninga Alþjóðavinnumálastofnunarinnar (ILO), að því gefnu að slík ákvæði hafi ekki verið leidd í landslög, og að ráða fleiri fatlaða einstaklinga en kveðið er á um í landslögum.
34)          Gildandi lög, reglur og kjarasamningar, bæði innanlands og á vettvangi Bandalagsins, á sviði ráðningarskilmála og öryggis í starfi, gilda meðan á framkvæmd opinbers samnings stendur, að því tilskildu að slíkar reglur og beiting þeirra sé í samræmi við lög Bandalagsins. Varðandi starfsemi, sem teygir sig yfir landamæri, þar sem starfsmenn frá einu aðildarríki veita þjónustu í öðru aðildarríki í tengslum við framkvæmd opinbers samnings er mælt fyrir um lágmarksskilyrði, sem gistilandið þarf að virða í tengslum við slíka útsenda starfsmenn, í tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 96/71/EB frá 16. desember 1996 um störf útsendra starfsmanna í tengslum við veitingu þjónustu ( 11 ). Ef ákvæði eru um þetta í innlendum lögum má líta á það sem alvarlegt misferli eða brot á siðareglum af hálfu viðkomandi rekstraraðila ef ákvæðin eru ekki virt og getur það valdið því að hann verði útilokaður frá útboðsferli opinbers samnings.
35)          Í ljósi nýrrar þróunar í upplýsinga- og fjarskiptatækni og þess að hún getur einfaldað birtingu samninga og aukið skilvirkni og gagnsæi innkaupaferlisins skulu rafrænar aðferðir settar jafnfætis hefðbundnum aðferðum í fjarskiptum og upplýsingaskiptum. Þær aðferðir og sú tækni, sem valið er að nota, skal, eftir því sem unnt er, vera samrýmanleg þeirri tækni sem notuð er í öðrum aðildarríkjum.
36)          Til að tryggja þróun virkrar samkeppni á sviði opinberra samninga er nauðsynlegt að útboðstilkynningar samningsyfirvalda aðildarríkja séu birtar alls staðar í Bandalaginu. Upplýsingarnar í þessum tilkynningum skulu gera rekstraraðilum í Bandalaginu kleift að meta hvort þeir hafi áhuga á fyrirhuguðum samningum. Þess vegna ber að veita þeim nægilegar upplýsingar um viðfang samningsins og skilyrði sem honum fylgja. Því ber að tryggja á viðeigandi hátt að opinberar tilkynningar verði sýnilegri, t.d. með því að nota stöðluð eyðublöð fyrir útboðstilkynningar og sameiginlegt innkaupaorðasafn (CPV) sem kveðið er á um í reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 2195/2002 ( 12 ) að skuli vera tilvísunarflokkunarkerfi fyrir opinbera samninga. Í lokuðum útboðum er tilgangur auglýsinga einkum sá að gera verktökum í aðildarríkjum kleift að lýsa áhuga sínum á samningum með því að leita eftir boði samningsyfirvalda um að leggja fram tilboð samkvæmt settum skilyrðum.
37)          Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 1999/93/EB frá 13. desember 1999 um ramma Bandalagsins varðandi rafrænar undirskriftir ( 13 ) og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/31/EB frá 8. júní 2000 um tiltekna lagalega þætti þjónustu, einkum rafrænna viðskipta, í tengslum við upplýsingasamfélagið á innri markaðnum („tilskipun um rafræn viðskipti“) ( 14 ) skulu, í samhengi þessarar tilskipunar, gilda um flutning upplýsinga með rafrænum aðferðum. Í reglum um opinber innkaup og gildandi reglum um þjónustusamkeppni eru gerðar strangari kröfur um öryggi og þagnarskyldu en í þessum tilskipunum. Samkvæmt því skal búnaður fyrir rafræna móttöku tilboða, þátttökutilkynninga, áætlana og verkefna uppfylla tilteknar viðbótarkröfur. Af þeim sökum ber að hvetja til notkunar rafrænna undirskrifta, einkum háþróaðra, rafrænna undirskrifta, eftir því sem unnt er. Auk þess geta valfrjáls faggildingarkerfi myndað heppilegan ramma um bætta vottunarþjónustu fyrir þennan búnað.
38)          Notkun rafrænna aðferða sparar tíma. Þess vegna ber að setja ákvæði um styttingu lágmarksfrests ef rafrænum aðferðum er beitt, þó með því skilyrði að þau samrýmist sérstökum ákvæðum um flutningsaðferðir sem notaðar verða í Bandalaginu.
39)          Athugun á hæfi bjóðenda í almennum útboðum, og þátttakenda í lokuðum útboðum og samningskaupum að undangenginni birtingu útboðstilkynningar og í samkeppnisviðræðum og við val bjóðenda og þátttakenda, skal fara fram við gagnsæ skilyrði. Þess vegna skal tilgreina hvaða viðmiðanir um bann við mismunun samningsyfirvöld geta stuðst við þegar þau velja samkeppnisaðila og hvaða aðferðir rekstraraðilar geta notað til að sanna að þeir hafi uppfyllt þessar viðmiðanir. Með tilliti til gagnsæis skal einnig krefjast þess að samningsyfirvöld tilgreini, um leið og samningur er boðinn út, hvaða valforsendur þau muni nota og þá sérstöku hæfni sem hugsanlegt er að þau krefjist af rekstraraðilum svo að þeir geti tekið þátt í útboðinu.
40)          Samningsyfirvöld geta takmarkað fjölda þátttakenda í lokuðum útboðum og samningskaupum, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar, og einnig í samkeppnisviðræðum. Slík takmörkun á fjölda þátttakenda skal vera á grundvelli hlutlægra viðmiðana sem eru tilgreindar í útboðstilkynningunni. Þessar hlutlægu viðmiðanir gefa ekki endilega til kynna vægi. Þegar um er að ræða viðmiðanir, sem tengjast persónulegri stöðu rekstraraðila, getur nægt að í útboðstilkynningunni sé almennt vísað til þeirra atriða sem um getur í 45. gr.
41)          Í samkeppnisviðræðum og samningskaupum, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar, skulu samningsyfirvöld, í ljósi þess sveigjanleika sem kann að vera þörf á og mikils kostnaðar við slíkar innkaupaaðferðir, hafa leyfi til að láta innkaupin fara fram í nokkrum áföngum til að fækka smám saman, á grundvelli fyrirfram tilgreindra valforsendna, þeim tilboðum sem þau þurfa áfram að ræða eða semja um. Þessi fækkun skal, að svo miklu leyti sem fjöldi viðeigandi tilboða eða þátttakenda leyfir, tryggja raunverulega samkeppni.
42)          Viðeigandi Bandalagsreglur um gagnkvæma viðurkenningu prófskírteina, vottorða eða annarra sönnunargagna um formlega menntun og hæfi gilda þegar krafist er sönnunar á sérstakri menntun og hæfi vegna þátttöku í innkaupaferli eða hönnunarsamkeppni.
43)          Forðast skal að gera opinbera samninga við rekstraraðila sem hafa tekið þátt í glæpasamtökum eða hafa verið fundnir sekir um spillingu eða sviksemi, sem hefur beinst gegn fjárhagslegum hagsmunum Evrópubandalaganna, eða fundnir sekir um peningaþvætti. Ef við á skulu samningsyfirvöld krefjast þess að þátttakendur eða bjóðendur leggi fram viðeigandi skjöl og ef þau hafa efasemdir varðandi persónulega stöðu þátttakanda eða bjóðanda geta þau leitað eftir samstarfi við þar til bær yfirvöld í viðkomandi aðildarríki. Slíkir rekstraraðilar skulu útilokaðir um leið og samningsyfirvöld fá vitneskju um úrskurð sem hefur fallið vegna slíkra brota í samræmi við innlend lög og hefur því dómsígildi. Ef ákvæði eru um það í landslögum má líta á það sem brot á siðareglum af hálfu viðkomandi rekstraraðila eða alvarlegt misferli ef hann fer ekki að umhverfislögum eða lögum um ólögmætt samkomulag í opinberum samningum og það hefur verið staðfest með endanlegum úrskurði eða jafngildri ákvörðun.
        Sé ekki farið að innlendum ákvæðum til framkvæmdar tilskipunum ráðsins 2000/78/EB ( 15 ) og 76/207/EBE ( 16 ) um jafna meðferð starfs manna, og það hefur verið staðfest með endanlegum úrskurði eða jafngildri ákvörðun, getur það talist brot á siðareglum af hálfu viðkomandi rekstraraðila eða alvarlegt misferli.
44)          Í tilvikum þar sem verkið eða þjónustan er þess eðlis að það gefur ástæðu til að beita ráðstöfunum eða kerfum umhverfisstjórnar á meðan á framkvæmd opinbers samnings stendur er hægt að krefjast þess að slíkum ráðstöfunum eða kerfum sé beitt. Umhverfisstjórnunarkerfi, hvort sem þau eru skráð samkvæmt Bandalagsgerningum, eins og t.d. reglugerð (EB) nr. 761/2001 ( 17 ) (EMAS) eða ekki, geta sýnt hvort rekstraraðilinn hefur tæknilega getu til að framkvæma samninginn. Auk þess skal samþykkja lýsingu á þeim ráðstöfunum, sem rekstraraðili framkvæmir til að tryggja sama stig umhverfisverndar, sem sönnun sem kemur í stað skráðra umhverfisstjórnunarkerfa.
45)          Þessi tilskipun gerir aðildarríkjunum kleift að koma upp opinberri skrá yfir verktaka, birgja og þjónustuveitendur eða vottunarkerfi opinberra aðila eða einkaaðila og þar eru sett ákvæði um áhrif slíkrar skráningar eða vottunar í útboðsferli í öðru aðildarríki. Að því er varðar opinberar skrár yfir samþykkta rekstraraðila er mikilvægt að taka tillit til dómaframkvæmdar dómstólsins í tilvikum þar sem rekstraraðili, sem tilheyrir ákveðnum hópi, vitnar til efnahagslegrar, fjárhagslegrar eða tæknilegrar getu annarra fyrirtækja í hópnum til stuðnings umsókn sinni um skráningu. Í því tilviki þarf rekstraraðilinn að sanna að hann hafi í raun aðgang að þessum tilföngum allan gildistíma skráningarinnar. Að því er þessa skráningu varðar getur aðildarríki því ákveðið hvaða kröfur þurfi að uppfylla og einkum, ef verktakinn vitnar t.d. til fjárhagsstöðu annars fyrirtækis í hópnum, getur aðildarríkið krafist þess að það fyrirtæki taki á sig ábyrgð, ef nauðsyn krefur einn fyrir alla og allir fyrir einn.
46)          Val tilboða skal fara fram á grundvelli hlutlægra forsendna sem tryggja að farið sé að meginreglunum um gagnsæi, bann við mismunun og jafna meðferð og sem tryggja að tilboð séu metin á grundvelli virkrar samkeppni. Þess vegna er rétt að leyfa aðeins notkun tveggja valforsendna: „lægsta verð“ og „fjárhagslega hagkvæmasta tilboð“.
        Til að tryggja að farið sé að meginreglunni um jafna meðferð við val á tilboði ber að mæla fyrir um þá skyldu – í samræmi við dómaframkvæmd – að tryggja nauðsynlegt gagnsæi svo að unnt sé að veita öllum bjóðendum eðlilegar upplýsingar um forsendur og fyrirkomulag við mat á því hvaða tilboð sé fjárhagslega hagkvæmast. Það er því skylda samningsyfirvalda að gefa upp forsendur fyrir vali á tilboði og hlutfallslegt vægi hverrar forsendu með nægilegum fyrirvara svo að bjóðendur viti af því þegar þeir semja tilboð sín. Samningsyfirvöld geta gert undantekningu frá því að tilgreina vægi forsendna fyrir vali á tilboði þegar gildar ástæður eru fyrir því, sem þau verða að geta rökstutt, og ekki er unnt að meta vægið fyrir fram, einkum þegar um er að ræða flókna samninga. Í slíkum tilvikum verða þau að tilgreina forgangsröð forsendna eftir mikilvægi þeirra.
        Ef samningsyfirvöld ákveða að gera samning við þann sem leggur fram fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið skulu þau meta tilboðin með tilliti til þess hvaða tilboð felur í sér besta hlutfallið á milli gæða og verðs. Með þetta í huga skulu þau ákvarða fjárhagslegar forsendur og gæðaforsendur sem eiga að gera kleift að ákvarða hvaða tilboð sé fjárhagslega hagkvæmast fyrir samningsyfirvöld, á heildina litið. Ákvörðun þessara forsendna er háð efni samningsins því að á grundvelli þeirra á að vera hægt að meta þá framkvæmd sem felst í hverju tilboði í ljósi þess hvert efni samningsins er, eins og skilgreint er í tækniforskriftunum, og einnig að ákvarða hlutfallið milli gæða og verðs hjá hverjum bjóðanda.
        Til að tryggja jafna meðferð skulu forsendur fyrir vali tilboðs vera þannig að hægt sé að bera saman tilboð og meta þau hlutlægt. Ef þessi skilyrði eru uppfyllt geta fjárhagslegar forsendur og gæðaforsendur fyrir vali tilboðs, t.d. það að uppfylla umhverfiskröfur, gert samningyfirvaldi kleift að uppfylla þarfir almennra borgara, sem málið varðar, eins og tekið er fram í skilmálum samningsins. Samkvæmt sömu skilyrðum getur samningsyfirvald notað forsendur, einkum til að koma til móts við þarfir sem eru skilgreindar í skilmálum samningsins, sem eiga að uppfylla félagslegar kröfur sérlega illa settra hópa fólks sem viðtakendur eða notendur verksins, vörunnar eða þjónustunnar, sem samningurinn er gerður um, tilheyra.
47)          Þegar um er að ræða opinbera þjónustusamninga mega valforsendur ekki hafa áhrif á beitingu innlendra ákvæða um þóknun fyrir tiltekna þjónustu, t.d. þjónustu sem arkitektar, verkfræðingar eða lögfræðingar veita og, að því er opinbera vörusamninga varðar, beitingu innlendra ákvæða um fast verð á skólabókum.
48)          Samþykkja þarf tiltekin tæknileg skilyrði, einkum að því er varðar tilkynningar og tölulegar skýrslur og einnig flokkunarkerfið sem er notað og skilyrði fyrir tilvísun í það flokkunarkerfi, og breyta þeim í samræmi við breyttar tæknikröfur. Einnig þarf að uppfæra skrána yfir samningsyfirvöld í viðaukunum. Því er rétt að komið verði á fót sveigjanlegu og hröðu samþykktarferli í þessum tilgangi.
49)          Nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun skulu gerðar í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 18 ).
50)          Reglugerð ráðsins (EBE, KBE) nr. 1182/71 frá 3. júní 1971 sem setur reglur um hvernig reikna ber tímabil, dagsetningar og fresti ( 19 ) gildir við útreikning á frestum sem fjallað er um í þessari tilskipun.
51)          Þessi tilskipun hefur ekki áhrif á skyldur aðildarríkjanna að því er varðar fresti, sem settir eru í XI. viðauka, til lögleiðingar og beitingar tilskipunum 92/50/EBE, 93/36/EBE og 93/37/EBE.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

EFNISYFIRLIT

I. BÁLKUR
Skilgreiningar og meginreglur
1. gr. —        Skilgreiningar
2. gr. —        Meginreglur um val tilboða
3. gr. —        Veiting sérstakra réttinda eða einkaréttar: ákvæðið um bann við mismunun
II. BÁLKUR
Reglur um opinbera samninga
I. KAFLI
Almenn ákvæði
4. gr. —        Rekstraraðilar
5. gr. —        Skilyrði í tengslum við samninga sem eru gerðir á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar
6. gr. —        Trúnaðarkvaðir
II. KAFLI
Gildissvið
1. þáttur — Viðmiðunarfjárhæðir
7. gr. —        Viðmiðunarfjárhæðir fyrir opinbera samninga
8. gr. —        Samningar sem samningsyfirvöld niðurgreiða um meira en 50%
9. gr. —        Aðferðir til að reikna út áætlað verðmæti opinberra samninga, rammasamninga og virkra innkaupakerfa
2. þáttur — Sérstakar aðstæður
10. gr. —        Innkaup til varnarmála
11. gr. —        Opinberir samningar og rammasamningar, gerðir af miðlægum innkaupastofnunum
3. þáttur — Samningar sem falla ekki undir tilskipunina
12. gr. —        Samningar á sviði vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu
13. gr. —        Sérstakar undantekningar á fjarskiptasviðinu
14. gr. —        Leynilegir samningar og samningar sem krefjast sérstakra öryggisráðstafana
15. gr. —        Samningar sem eru gerðir samkvæmt alþjóðareglum
16. gr. —        Sérstakar undantekningar
17. gr. —        Sérleyfissamningar um þjónustu
18. gr. —        Þjónustusamningar sem gerðir eru á grundvelli einkaréttar
4. þáttur — Sérstakt fyrirkomulag
19. gr. —        Samningar sem eru bundnir við ákveðna hópa
III. KAFLI
Reglur um opinbera þjónustusamninga
20. gr. —        Þjónustusamningar sem eru skráðir í II. viðauka A
21. gr. —        Þjónustusamningar sem eru skráðir í II. viðauka B
22. gr. —        Blandaðir þjónustusamningar sem varða bæði þjónustu sem er tilgreind í II. viðauka A og II. viðauka B
IV. KAFLI
Sérstakar reglur sem gilda um útboðsskilmála og útboðsgögn
23. gr. —        Tækniforskriftir
24. gr. —        Frávikstilboð
25. gr. —        Undirverktaka
26. gr. —        Skilyrði sem tengjast framkvæmd samnings
27. gr. —        Skyldur varðandi skatta, umhverfisvernd, vinnuvernd og vinnuskilyrði
V. KAFLI
Útboðsaðferðir
28. gr. —        Almennt útboð, lokað útboð, samningskaup og samkeppnisviðræður
29. gr. —        Samkeppnisviðræður
30. gr. —        Samningskaup að undangenginni birtingu útboðstilkynningar
31. gr. —        Samningskaup án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar
32. gr. —        Rammasamningar
33. gr. —        Virk innkaupakerfi
34. gr. —        Opinberir verksamningar: sérstakar reglur um byggingu félagslegs húsnæðis
VI. KAFLI
Reglur um birtingu og gagnsæi
1. þáttur — Birting tilkynninga
35. gr. —        Tilkynningar
36. gr. —        Form og aðferð við birtingu tilkynninga
37. gr. —        Birting án skyldu
2. þáttur — Frestur
38. gr. —        Tilboðsfrestur og frestur til að leggja fram þátttökutilkynningu
39. gr. —        Almenn útboð: útboðsskilmálar, viðbótargögn og upplýsingar
3. þáttur — Efni upplýsinga og sendingaraðferðir
40. gr. —        Boð um að leggja fram tilboð, taka þátt í viðræðum eða gera samning
41. gr. —        Upplýsingar til þátttakenda og bjóðenda
4. þáttur — Samskipti
42. gr. —        Reglur um samskipti
5. þáttur — Skýrslur
43. gr. —        Efni skýrslna
VII. KAFLI
Framkvæmd útboðs
1. þáttur — Almenn ákvæði
44. gr. —        Athugun á hæfi og vali þátttakenda og vali tilboða
2. þáttur — Forsendur fyrir hæfismiðuðu vali
45. gr. —        Persónulegar aðstæður þátttakanda eða bjóðanda
46. gr. —        Starfsréttindi
47. gr. —        Efnahagsleg og fjárhagsleg staða
48. gr. —        Tæknileg og fagleg geta
49. gr. —        Gæðastaðlar
50. gr. —        Umhverfisstjórnunarstaðlar
51. gr. —        Viðbótargögn og upplýsingar
52. gr. —        Opinber skrá yfir samþykkta rekstraraðila og vottun frá opinberum og einkaréttarlegum stofnunum
3. þáttur — Val tilboðs
53. gr. —        Forsendur fyrir vali tilboðs.
54. gr. —        Rafræn uppboð
55. gr. —        Óeðlilega lág tilboð
III. BÁLKUR
Reglur um opinbera sérleyfissamninga um verk
I. KAFLI
Gildandi reglur um opinbera sérleyfissamninga um verk
56. gr. —        Gildissvið
57. gr. —        Samningar sem eru undanþegnir gildissviði tilskipunarinnar
58. gr. —        Birting tilkynninga um opinbera sérleyfissamninga um verk
59. gr. —        Frestur
60. gr. —        Undirverktaka
61. gr. —        Viðbótarverk sem samið er um við sérleyfishafa
II. KAFLI
Reglur um samninga, gerða af sérleyfishafa sem er samningsyfirvald
62. gr. —        Gildandi reglur
III. KAFLI
Reglur um samninga, gerða af sérleyfishafa sem er ekki samningsyfirvald
63. gr. —        Reglur um birtingu: viðmiðunarfjárhæðir og undantekningar
64. gr. —        Birting tilkynninga
65. gr. —        Tilboðsfrestur og frestur til að leggja fram þátttökutilkynningu
IV. BÁLKUR
Reglur um hönnunarsamkeppni
66. gr. —        Almenn ákvæði
67. gr. —        Gildissvið
68. gr. —        Starfsemi sem er undanþegin gildissviði tilskipunarinnar
69. gr. —        Tilkynningar
70. gr. —        Form og aðferð við birtingu tilkynninga um samkeppni
71. gr. —        Samskiptaaðferðir
72. gr. —        Val samkeppnisaðila
73. gr. —        Samsetning dómnefndar
74. gr. —        Ákvarðanir dómnefndar
V. BÁLKUR
Skyldan að veita tölulegar upplýsingar, framkvæmdavald og lokaákvæði
75. gr. —        Skyldan að veita tölulegar upplýsingar
76. gr. —        Efni tölulegra skýrslna
77. gr. —        Ráðgjafarnefnd
78. gr. —        Endurskoðun viðmiðunarfjárhæða
79. gr. —        Breytingar
80. gr. —        Framkvæmd
81. gr. —        Eftirlitskerfi
82. gr. —        Niðurfelling
83. gr. —        Gildistaka.
84. gr. —        Viðtakendur
VIÐAUKAR
I. viðauki —        Skrá yfir starfsemi sem um getur í b-lið 2. mgr. 1. gr.
II. viðauki —        Þjónusta sem um getur í d-lið 2 mgr. 1. gr.
II. viðauki A
II. viðauki B
III. viðauki —        Skrá yfir stofnanir og flokka stofnana sem heyra undir opinberan rétt eins og um getur í annarri undirgrein 9. mgr. 1. gr.
IV. viðauki —        Yfirvöld á vegum ríkisins
V. viðauki —        Skrá yfir vörur sem um getur í 7. gr. með tilliti til samninga sem samningsyfirvöld gera á sviði varnarmála
VI. viðauki —        Skilgreining tiltekinna tækniforskrifta
VII. viðauki: —        Upplýsingar sem eiga að koma fram í tilkynningum
VII. viðauki A —        Upplýsingar sem eiga að koma fram í tilkynningum um opinber útboð
VII. viðauki B —        Upplýsingar sem eiga að koma fram í tilkynningum um sérleyfi varðandi opinber verk
VII. viðauki C —        Upplýsingar sem eiga að koma fram í útboðstilkynningum sérleyfishafa, sem eru ekki samningsyfirvöld, vegna verksamninga
VII. viðauki D —        Upplýsingar sem eiga að koma fram í tilkynningum um hönnunarsamkeppni
VIII. viðauki —        Atriði varðandi birtingu
IX. viðauki —        Skrár
IX. viðauki A —        Opinberir verksamningar
IX. viðauki B —        Opinberir vörusamningar
IX. viðauki C —        Opinberir þjónustusamningar
X. viðauki —        Kröfur varðandi búnað fyrir rafræna móttöku tilboða, þátttökutilkynninga og áætlana og verkefna í hönnunarsamkeppni
XI. viðauki —        Frestur til lögleiðingar og beitingar (80. gr.)
XII. viðauki —        Samsvörunartafla

I. BÁLKUR
SKILGREININGAR OG MEGINREGLUR
1. gr.
Skilgreiningar

1.     Í þessari tilskipun gilda skilgreiningarnar sem settar eru fram í 2.–15. mgr.
2.     a)    „opinberir samningar“: skriflegir samningar, fjárhagslegs eðlis, sem einn eða fleiri rekstraraðilar og eitt eða fleiri samningsyfirvöld gera sín á milli og eru verksamningar, vörusamningar eða þjónustusamningar í skilningi þessarar tilskipunar,
    b)    „opinberir verksamningar“: opinberir samningar sem fjalla annaðhvort um framkvæmd eða bæði hönnun og framkvæmd verka sem tengjast einhverri þeirri starfsemi sem um getur í I. viðauka eða verk eða hvers konar framkvæmd verks sem svarar til þeirra krafna sem samningsyfirvaldið setur fram. „Verk“ er heildarafrakstur af byggingarframkvæmdum eða mannvirkjagerð sem getur, sem slíkt, þjónað fjárhagslegu eða tæknilegu hlutverki,
    c)    „opinberir vörusamningar“: opinberir samningar, aðrir en þeir sem um getur í b-lið, um kaup, langtíma- eða skammtímaleigu eða kaupleigu á vörum, með eða án kaupréttar.
        Opinber samningur um vöruafhendingu, sem einnig felur í sér tilfallandi ísetningu og uppsetningu, skal teljast „opinber vörusamningur“,
    d)    „opinberir þjónustusamningar“: opinberir samningar, aðrir en opinberir verk- og vörusamningar, sem varða veitingu þeirrar þjónustu sem um getur í II. viðauka.
        Opinber samningur, sem varðar bæði vörur og þjónustu í skilningi II. viðauka, skal teljast „opinber þjónustusamningur“ ef verðmæti viðkomandi þjónustu er meira en verðmæti vörunnar sem samningurinn nær til.
        Opinber samningur, sem varðar þjónustu skv. II. viðauka og felur í sér starfsemi skv. I. viðauka, sem er einungis tilfallandi viðbót við meginefni samningsins, skal teljast opinber þjónustusamningur.
3.     „Opinber sérleyfissamningur um verk“: samningur sömu tegundar og opinber verksamningur, að því undanskildu að endurgjald fyrir verk, sem á að vinna, felst annaðhvort eingöngu í rétti til að hagnýta verkið eða í þeim rétti ásamt greiðslu fjár.
4.     „Sérleyfissamningur um þjónustu“: samningur sömu tegundar og opinber þjónustusamningur, að því undanskildu að endurgjald fyrir þjónustu, sem á að veita, felst annaðhvort eingöngu í rétti til að hagnýta þjónustuna eða í þeim rétti ásamt greiðslu fjár.
5.     „Rammasamningur“: samningur eins eða fleiri samningsyfirvalda við einn eða fleiri rekstraraðila sem er gerður í þeim tilgangi að ákveða skilmála samninga sem gerðir verða á tilteknu tímabili, einkum að því er varðar verð og, ef við á, fyrirhugað magn.
6.     „Virkt innkaupakerfi“: fyllilega rafrænt ferli við algeng innkaup, búið eiginleikum sem almennt eru fyrir hendi á markaðnum og uppfylla kröfur samningsyfirvaldsins, sem er tímabundið og allan gildistímann opið öllum rekstraraðilum sem uppfylla valforsendur og hafa lagt fram kynningarboð í samræmi við skilmála.
7.     „Rafrænt uppboð“: endurtekið ferli þar sem nýtt og lægra verð og/eða nýtt verðmæti tiltekinna þátta í tilboðum er sett fram með rafrænum hætti, sem hefst eftir að full afstaða hefur verið tekin til tilboðanna í upphafi og gerir mögulegt að flokka þau með sjálfvirkum matsaðferðum.
Þar af leiðandi skal ekki halda rafræn uppboð þegar um er að ræða tiltekna þjónustusamninga og verksamninga sem fela í sér framkvæmd á sviði hugverka, s.s. hönnun verka.
8.     Hugtökin „verktaki“, „birgir“ og „þjónustuveitandi“ merkja hvern þann einstakling, lögaðila eða opinberan aðila eða hóp slíkra aðila og/eða stofnana sem bjóða framkvæmd verka og/eða verk, vörur og þjónustu á markaðnum.
Hugtakið „rekstraraðili“ er notað jafnt um verktaka, birgja og þjónustuveitendur. Það er einungis notað til einföldunar.
Rekstraraðili, sem hefur lagt fram tilboð, nefnist „bjóðandi“. Sá sem hefur leitað eftir boði um að taka þátt í lokuðu útboði, samningskaupum eða samkeppnisviðræðum nefnist „þátttakandi“.
9.     „Samningsyfirvöld“: ríkis-, svæðis- eða staðaryfirvöld, stofnanir, sem heyra undir opinberan rétt og samtök sem eru mynduð af einu eða fleiri slíkum yfirvöldum eða einni eða fleiri stofnunum sem heyra undir opinberan rétt.
„Stofnun, sem heyrir undir opinberan rétt,“ er stofnun:
a)    sem komið er á fót í þeim sérstaka tilgangi að fullnægja þörfum almennings en starfar hvorki á sviði iðnaðar né viðskipta,
b)    sem hefur réttarstöðu lögaðila og
c)    er fjármögnuð að mestu leyti af ríkis-, svæðis- eða staðaryfirvöldum, eða öðrum stofnunum sem heyra undir opinberan rétt, eða stofnunum þar sem starfsemin er undir eftirliti slíkra stofnana, eða stofnunin hefur stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn þar sem meiri hluti stjórnarmanna er skipaður af ríkis-, svæðis- eða staðaryfirvöldum eða öðrum stofnunum sem heyra undir opinberan rétt.
Í III. viðauka er að finna skrár, þó ekki tæmandi, yfir stofnanir og flokka stofnana sem heyra undir opinberan rétt og uppfylla forsendurnar sem um getur í a-, b- og c-lið annarrar undirgreinar. Aðildarríki skulu tilkynna framkvæmdastjórninni reglulega um allar breytingar á skrám sínum yfir stofnanir og flokka stofnana.
10.     „Miðlæg innkaupastofnun“: samningsyfirvald sem:
—    aflar vöru og/eða þjónustu fyrir samningsyfirvöld eða
—    gerir opinbera samninga eða rammasamninga um verk, vöru eða þjónustu fyrir samningsyfirvöld.
11.     a)    „Almennt útboð“: ferli þar sem öllum rekstraraðilum, sem hafa áhuga, er heimilt að gera tilboð.
    b)    „Lokað útboð“: ferli þar sem allir rekstraraðilar geta óskað eftir þátttöku en aðeins þeir rekstraraðilar, sem samningsyfirvald býður þátttöku, geta lagt fram tilboð.
    c)    „Samkeppnisviðræður“: ferli, þar sem allir rekstraraðilar geta tilkynnt um þátttöku, þar sem samningsyfirvald á viðræður við þá þátttakendur sem hafa fengið aðgang að ferlinu með það fyrir augum að finna einn eða fleiri heppilega kosti, sem uppfylla kröfur þess, sem lagðir eru til grundvallar þegar völdum þátttakendum er boðið að leggja fram tilboð.
        Varðandi notkun ferlisins, sem nefnt er í fyrstu undirgrein, telst opinber samningur vera „sérlega flókinn“ þegar samningsyfirvöld:
        —    geta ekki á hlutlægan hátt skilgreint tæknilegar leiðir í samræmi við b-, c- eða d-lið 3. mgr. 23. gr. sem geta uppfyllt þarfir þeirra eða markmið, og/eða
        —    geta ekki á hlutlægan hátt ákvarðað lagalegan og/eða fjárhagslegan ramma um verkefnið.
    d)    „Samningskaup“: ferli þar sem samningsyfirvöld hafa samráð við rekstraraðila sem þau hafa valið og semja um samningsskilmála við einn eða fleiri þeirra.
    e)    „Hönnunarsamkeppni“: ferli sem gerir samningsyfirvaldi kleift að fá til afnota áætlun eða hönnun, einkum á sviði borgar- og landsbyggðarskipulags, byggingarlistar og mannvirkjagerðar eða gagnavinnslu, sem valin er af dómnefnd eftir að efnt hefur verið til samkeppni með eða án verðlauna.
12.     „Skriflegt“: hvers konar tjáning með orðum eða tölum sem hægt er að lesa, endurgera og miðla. Þar með má telja upplýsingar sem hægt er að senda og geyma með rafrænum aðferðum.
13.     „Rafrænar aðferðir“: notkun rafræns búnaðar til vinnslu (þ.m.t. með stafrænni samþjöppun) og geymslu gagna sem eru send, flutt og móttekin með rafþræði, þráðlaust, með ljóstæknilegum aðferðum eða með öðrum rafsegulaðferðum.
14.     „Sameiginlegt innkaupaorðasafn (CPV)“: tilvísunarflokkunarkerfi sem gildir fyrir opinbera samninga eins og það var samþykkt með reglugerð (EB) nr. 2195/2002 en jafnframt gætt samsvörunar við önnur flokkunarkerfi sem fyrir eru.
Ef upp kemur mismunandi túlkun á gildissviði þessarar tilskipunar vegna ósamræmis á milli flokkunarkerfanna CPV og NACE, (atvinnugreinaflokkun EB), sem fjallað er um í I. viðauka, eða á milli flokkunarkerfanna CPV og CPC (aðalvöruflokkun Sameinuðu þjóðanna) (bráðabirgðaútgáfa), sem tilgreind eru í II. viðauka, skulu NACE-kerfið og CPC- kerfið hafa forgang.
15.     Í 13. gr., a-lið 57. gr. og b-lið 68. gr. er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
a)    „almennt fjarskiptanet“: grunnvirki almennra fjarskipta sem gerir kleift að flytja merki á milli skilgreindra nettengipunkta með rafþræði, örbylgjum, ljóstæknilegum aðferðum eða öðrum rafsegulaðferðum,
b)    „nettengipunktur“ allar efnislegar tengingar og tækniforskriftir varðandi aðgang að þeim sem eru hluti af almenna fjarskiptanetinu og nauðsynlegar fyrir aðgang og skilvirk fjarskipti um viðkomandi net,
c)    „almenn fjarskiptaþjónusta“: fjarskiptaþjónusta sem aðildarríkin hafa sérstaklega falið einni eða fleiri fjarskiptastofnunum,
d)    „fjarskiptaþjónusta“: þjónusta sem að nokkru eða öllu leyti felst í því að senda og beina merkjum um almenna fjarskiptanetið með fjarskiptaaðferðum, öðrum en hljóðvarpi eða sjónvarpi.

2. gr.
Meginreglur um val tilboða

Rekstraraðilar skulu fá jafna meðferð, án mismununar og á gagnsæjan hátt, hjá samningsyfirvöldum.

3. gr.
Veiting sérstakra réttinda eða einkaréttar: ákvæði um bann við mismunun

Ef samningsyfirvald veitir öðrum aðila en samningsyfirvaldi sérstök réttindi eða einkarétt til að veita opinbera þjónustu skal kveðið á um það í þeim lögum, sem slíkur réttur er byggður á, að sá aðili fari að meginreglunni um bann við mismunun á grundvelli þjóðernis þegar hann gerir samning við þriðja aðila í tengslum við þá þjónustu.

II. BÁLKUR
REGLUR UM OPINBERA SAMNINGA
I. KAFLI
Almenn ákvæði
4. gr.
Rekstraraðilar

1.     Ekki skal hafna þátttakendum eða bjóðendum, sem eiga rétt á að veita viðeigandi þjónustu samkvæmt lögum aðildarríkisins þar sem þeir hafa staðfestu, af þeirri ástæðu einni að þess er krafist í lögum aðildarríkisins þar sem samningurinn er gerður að þátttakendur eða bjóðendur einskorðist við annaðhvort einstaklinga eða lögaðila.
Ef um er að ræða opinbera þjónustu- og verksamninga svo og opinbera vörusamninga, sem taka að auki til þjónustu og/eða ísetningar- eða uppsetningarstarfs, er hægt að krefjast þess að lögaðilar tilgreini, í tilboði eða þátttökutilkynningu, nöfn og faglegt hæfi starfsmanna sem eiga að bera ábyrgð á framkvæmd viðkomandi samnings.
2.     Hópar rekstraraðila geta lagt fram tilboð eða leitað eftir þátttöku. Samningsyfirvöld geta ekki krafist þess að þessir hópar taki upp ákveðið rekstrarform að lögum til að geta lagt fram tilboð eða þátttökutilkynningu en þó er hægt að krefjast þess að hópur, sem hefur verið valinn og gerður við hann samningur, taki upp ákveðið rekstrarform að lögum ef það er nauðsynlegt til að unnt sé að framkvæma samninginn á fullnægjandi hátt.

5. gr.
Skilyrði í tengslum við samninga sem eru gerðir á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar

Þegar samningsyfirvöld velja úr tilboðum skulu aðildarríkin beita skilyrðum sín á milli sem eru jafn hagstæð þeim skilyrðum sem þau setja rekstraraðilum í þriðju löndum við framkvæmd samningsins um opinber innkaup (hér á eftir nefndur samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar) sem gerður var í Úrúgvælotu marghliða samningaviðræðnanna. Í því skyni skulu aðildarríkin hafa samráð sín á milli, innan ráðgjafarnefndarinnar um opinbera samninga sem um getur í 77. gr., um það hvaða ráðstafanir beri að gera samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.

6. gr.
Trúnaðarkvaðir

Með fyrirvara um ákvæði þessarar tilskipunar, einkum ákvæði um tilkynningaskyldu í tengslum við niðurstöður útboðs og upplýsingar til þátttakenda og bjóðenda, sem getið er í 4. mgr. 35. gr. og 41. gr., og í samræmi við landslög sem samningsyfirvaldið heyrir undir, skal samningsyfirvaldið ekki afhenda upplýsingar sem það hefur fengið frá rekstraraðilum ef þeir hafa merkt þær sem trúnaðarmál. Slíkar upplýsingar fela einkum í sér tæknileg leyndarmál eða viðskiptaleyndarmál og þá þætti tilboða sem eru trúnaðarmál.

II. KAFLI
Gildissvið
1. þáttur
Viðmiðunarfjárhæðir
7. gr.
Viðmiðunarfjárhæðir fyrir opinbera samninga

Þessi tilskipun gildir um opinbera samninga sem falla ekki undir undantekningarákvæðin, sem kveðið er á um í 10. og 11. gr. og 12.–18. gr., og þar sem áætlað verðmæti án virðisaukaskatts er jafnt eða meira en eftirfarandi viðmiðunarfjárhæðir:
a)    162 000 evrur þegar um er að ræða opinbera vöru- og þjónustusamninga, aðra en þá sem falla undir þriðja undirlið b-liðar, gerða af samningsyfirvöldum sem eru skráð sem yfirvöld á vegum ríkisins í IV. viðauka en sé um að ræða opinbera vörusamninga, gerða af samningsyfirvöldum sem starfa á sviði varnarmála, skal þetta aðeins gilda um samninga varðandi vörur sem falla undir V. viðauka,
b)    249 000 evrur
    —    þegar um er að ræða opinbera vöru- og þjónustusamninga sem eru gerðir af öðrum samningsyfirvöldum en þeim sem eru tilgreind í IV. viðauka,
    —    þegar um er að ræða opinbera vörusamninga sem eru gerðir af samningsyfirvöldum, sem eru tilgreind í IV. viðauka og starfa á sviði varnarmála, ef þessir samningar varða vörur sem eru ekki tilgreindar í V. viðauka,
    —    þegar um er að ræða opinbera þjónustusamninga sem eru gerðir af samningsyfirvaldi og varða þjónustu sem tilgreind er í 8. flokki í II. viðauka A, fjarskiptaþjónustu í 5. flokki, sem hefur samsvarandi stöðu í CPV-flokkuninni og CPC-tilvísunarnúmerin 7524, 7525 og 7526, og/eða þjónustu sem er tilgreind í II. viðauka B,
c)    6 242 000 evrur þegar um er að ræða opinbera verksamninga.

8. gr.
Samningar sem samningsyfirvöld niðurgreiða um meira en 50%

Tilskipun þessi gildir um útboð og gerð:
a)    samninga sem eru niðurgreiddir beint af samningsyfirvöldum um meira en 50% og áætlað verðmæti þeirra, án virðisaukaskatts, er 6 242 000 evrur eða meira,
    —    ef mannvirkjagerð í skilningi I. viðauka er innifalin í þessum samningum,
    —    ef þessir samningar ná til byggingaframkvæmda sem eru sjúkrahús, íþrótta- og tómstundamannvirki, skólar og háskólar og opinberar byggingar,
b)    þjónustusamninga sem eru niðurgreiddir beint af samningsyfirvöldum um meira en 50% og áætlað verðmæti þeirra, án virðisaukaskatts, er 249 000 evrur eða meira og sem tengjast verksamningi í skilningi a-liðar.
Aðildarríkin skulu gera allar nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að samningsyfirvöld, sem niðurgreiða slíka samninga, tryggi að farið sé að ákvæðum þessarar tilskipunar ef einn eða fleiri aðrir aðilar gera samning og að samningsyfirvöld hlíti jafnframt sjálf ákvæðum þessarar tilskipunar ef þau gera samning fyrir hönd annars aðila.

9. gr.
Aðferðir til að reikna út áætlað verðmæti opinberra samninga, rammasamninga og virkra innkaupakerfa

1.     Útreikningur á áætluðu verðmæti opinbers samnings skal byggjast á heildarfjárhæð, sem samningsyfirvald áætlar að beri að greiða, án virðisaukaskatts. Við þennan útreikning skal taka tillit til áætlaðrar heildarfjárhæðar, þ.m.t. til hvers konar valréttar og hugsanlegra ákvæða um endurnýjun samningsins.
Þegar samningsyfirvald ákveður verðlaun eða greiðslur til þátttakenda eða bjóðenda skal það taka tillit til þeirra við útreikning á áætluðu verðmæti samningsins.
2.     Þessi áætlun skal vera í gildi á þeim tíma þegar útboðstilkynning er send, eins og kveðið er á um í 2. mgr. 35. gr., eða, í tilvikum þar sem slíkrar tilkynningar er ekki krafist, á þeim tíma þegar samningsyfirvaldið hefur útboðsferlið.
3.     Óheimilt er að skipta upp framkvæmdum eða fyrirhuguðum innkaupum á tilteknu magni vöru og/eða þjónustu til að komast hjá beitingu þessarar tilskipunar.
4.     Varðandi opinbera verksamninga skal, við útreikning á áætluðu verðmæti, taka tillit bæði til kostnaðar við verkið og áætlaðs heildarverðmætis vara sem eru nauðsynlegar til að framkvæma verkið og samningsyfirvöld fá verktakanum til ráðstöfunar.
5.     a)    Þegar hægt er að skipta fyrirhugaðri framkvæmd eða fyrirhuguðum kaupum á þjónustu í aðgreinda hlutasamninga, sem eru gerðir samtímis, skal taka tillit til áætlaðs heildarverðmætis allra slíkra hlutasamninga.
        Ef samanlagt verðmæti hlutasamninganna er jafnt viðmiðunarfjárhæðinni, sem mælt er fyrir um í 7. gr., eða meira skal þessi tilskipun gilda um hvern samningshluta.
        Samningsyfirvöld geta þó gert undanþágu frá slíkri beitingu ef áætlað verðmæti hlutasamninganna, án virðisaukaskatts, er minna en 80 000 evrur fyrir þjónustu eða 1 milljón evrur fyrir framkvæmdir, að því tilskildu að samanlagt verðmæti þessara hlutasamninga fari ekki yfir 20% af samanlögðu verðmæti allra hlutasamninganna.
    b)    Þegar hægt er að skipta tilboði um kaup á líkum vörum í aðgreinda hlutasamninga, sem eru gerðir samtímis, skal taka tillit til áætlaðs heildarverðmætis allra slíkra hlutasamninga við beitingu a- og b-liðar 7. gr.
        Ef samanlagt verðmæti hlutasamninganna er jafnt viðmiðunarfjárhæðinni, sem mælt er fyrir um í 7. gr., eða meira skal þessi tilskipun gilda um hvern samningshluta.
        Samningsyfirvöld geta þó gert undanþágu frá slíkri beitingu ef áætlað verðmæti hlutasamninganna, án virðisaukaskatts, er minna en 80 000 evrur, að því tilskildu að samanlagt verðmæti þessara hlutasamninga fari ekki yfir 20% af samanlögðu verðmæti allra hlutasamninganna.
6.     Varðandi opinbera vörusamninga í tengslum við, langtíma- eða skammtímaleigu, eða kaupleigu á vörum skal leggja eftirfarandi verðmæti til grundvallar þegar áætlað verðmæti samningsins er reiknað út:
a)    þegar um er að ræða tímabundna samninga, áætlað heildarverðmæti opinberra samninga, sem gilda í 12 mánuði eða skemur, eða, ef samningur gildir lengur en í 12 mánuði, heildarverðmætið auk áætlaðs verðmætis eftirstöðva,
b)    verðmæti hvers mánaðar, margfaldað með 48, þegar um er að ræða ótímabundna, opinbera samninga eða samninga sem ekki er hægt að tímasetja nákvæmlega.
7.     Sé um að ræða opinbera vöru- eða þjónustusamninga, sem eru gerðir með reglulegu millibili eða sem á að endurnýja innan tiltekins tíma, skal leggja eftirfarandi til grundvallar þegar áætlað verðmæti samningsins er reiknað út:
a)    annaðhvort samanlagt raunvirði sams konar samninga, sem hafa verið gerðir í áföngum á síðustu 12 mánuðum eða á síðasta fjárhagsári, leiðrétt, ef unnt er, með tilliti til magn- eða verðbreytinga sem gætu orðið á 12 mánuðum eftir að fyrsti samningurinn er gerður,
b)    eða áætlað heildarverðmæti síðari samninga sem eru gerðir á 12 mánuðum eftir fyrstu afhendingu eða á fjárhagsárinu ef það er lengra en 12 mánuðir.
Ekki má velja aðferð við útreikning áætlaðs verðmætis opinbers samnings í þeim tilgangi að samningurinn verði undanþeginn gildissviði þessarar tilskipunar.
8.     Varðandi opinbera þjónustusamninga skal leggja eftirfarandi verðmæti til grundvallar þegar áætlað verðmæti samningsins er reiknað út:
a)    fyrir þjónustu á eftirfarandi sviðum:
    i)    vátryggingaþjónusta: greidd iðgjöld og aðrar greiðslur,
    ii)    bankastarfsemi og önnur fjármálaþjónusta: þóknun, umboðslaun, vextir og aðrar greiðslur,
    iii)    hönnunarsamningar: þóknun, umboðslaun og aðrar greiðslur,
b)    fyrir þjónustusamninga þar sem heildarfjárhæð er ótilgreind:
    i)    ef um er að ræða tímabundinn samning sem er gerður til 48 mánaða eða skemmri tíma: heildarverðmæti samningsins allan gildistímann,
    ii)    þegar um er að ræða ótímabundna samninga eða samninga sem gilda lengur en í 48 mánuði: verðmæti hvers mánaðar, margfaldað með 48.
9.     Varðandi rammasamninga og virk innkaupakerfi skal verðmætið, sem miðað er við, vera áætlað hámarksverðmæti allra samninga, án virðisaukaskatts, sem fyrirhugað er að gera á gildistíma rammasamningsins eða virka innkaupakerfisins.

2. þáttur
Sérstakar aðstæður
10. gr.
Innkaup til varnarmála

Tilskipun þessi gildir um opinbera samninga sem samningsyfirvöld gera á sviði varnarmála, sbr. þó 296. gr. sáttmálans.

11. gr.
Opinberir samningar og rammasamningar, gerðir af miðlægum innkaupastofnunum

1.     Aðildarríkin geta mælt fyrir um að samningsyfirvöldum sé heimilt að kaupa verk, vörur og/eða þjónustu frá miðlægri innkaupastofnun eða með milligöngu hennar.
2.     Samningsyfirvöld, sem kaupa verk, vörur og/eða þjónustu frá miðlægri innkaupastofnun eða með milligöngu hennar, í tilvikum sem um getur í 10. mgr. 1. gr., teljast hafa farið að ákvæðum þessarar tilskipunar svo fremi að miðlæga innkaupastofnunin hafi farið að ákvæðum hennar.

3. þáttur
Samningar sem falla ekki undir tilskipunina
12. gr.
Samningar á sviði vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu

Þessi tilskipun gildir ekki um opinbera samninga, sem eru gerðir samkvæmt tilskipun 2004/17/EB af samningsyfirvöldum, sem reka eina eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi sem um getur í 3.–7. gr. þeirrar tilskipunar, og eru gerðir vegna reksturs þeirrar starfsemi, og ekki heldur um opinbera samninga sem eru undanþegnir gildissviði þeirrar tilskipunar skv. 5. gr. (2. mgr.) og 19., 26. og 30. gr. hennar.
Þessi tilskipun gildir þó áfram um opinbera samninga, sem gerðir eru af samningsyfirvöldum sem stunda eina eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi sem um getur í 6. gr. tilskipunar 2004/17/EB, og sem eru gerðir vegna þeirrar starfsemi, svo fremi að viðkomandi aðildarríki nýti sér þann kost, sem um getur í annarri undirgrein 71. gr. tilskipunarinnar, að fresta beitingu hennar.

13. gr.
Sérstakar undantekningar á fjarskiptasviðinu

Þessi tilskipun gildir ekki um opinbera samninga þar sem megintilgangurinn er að veita samningsyfirvöldum leyfi til að bjóða fram almenn fjarskiptanet eða nýta sér þau eða veita almenningi eina eða fleiri tegundir fjarskiptaþjónustu.

14. gr.
Leynilegir samningar og samningar sem krefjast sérstakra öryggisráðstafana

Þessi tilskipun gildir ekki um opinbera samninga sem aðildarríki lýsir yfir að séu leynilegir, þegar beita verður sérstökum öryggisráðstöfunum við framkvæmd þeirra í samræmi við gildandi lög og stjórnsýslufyrirmæli í viðkomandi aðildarríki eða þegar þess er krafist til að vernda grundvallarhagsmuni í því aðildarríki.

15. gr.
Samningar sem eru gerðir samkvæmt alþjóðareglum

Þessi tilskipun gildir ekki um opinbera samninga sem falla undir aðrar útboðsreglur og eru gerðir:
a)    á grundvelli milliríkjasamnings á milli aðildarríkis og eins eða fleiri þriðju landa, sem gerður er í samræmi við sáttmálann og tekur til vöru eða verks, sem áformað er að undirritunarlöndin noti við sameiginlega framkvæmd eða hagnýtingu verks, eða þjónustu, sem áformað er að undirritunarlöndin noti við sameiginlega framkvæmd eða hagnýtingu verkefnis; tilkynna skal um alla samninga til framkvæmdastjórnarinnar sem getur ráðfært sig við ráðgjafarnefndina um opinbera samninga sem um getur í 77. gr.,
b)    á grundvelli milliríkjasamnings í tengslum við setu herliðs þegar í hlut eiga fyrirtæki í aðildarríki eða þriðja landi,
c)    á grundvelli sérstakra reglna alþjóðastofnunar.

16. gr.
Sérstakar undantekningar

Tilskipun þessi gildir ekki um opinbera þjónustusamninga sem varða:
a)    kaup eða leigu lands, bygginga eða annarra fasteigna, óháð fjármögnunarleiðum, eða rétt til þeirra; tilskipun þessi gildir þó um samninga um fjármálaþjónustu, í hvaða formi sem er, sem eru gerðir fyrir, eftir eða samhliða samningi um kaup eða leigu,
b)    kaup, þróun, framleiðslu eða sameiginlega framleiðslu útvarpsrekenda á dagskrárefni til útsendingar né heldur um samninga sem varða útsendingartíma,
c)    gerðardóms- og sáttagerðarþjónustu,
d)    fjármálaþjónustu í tengslum við útgáfu, sölu, kaup eða framsal verðbréfa eða annarra fjármálagerninga, einkum þegar um er að ræða viðskipti samningsyfirvalda í því skyni að afla fjár eða eigin fjár og þjónustu seðlabanka,
e)    ráðningarsamninga og
f)    aðra rannsóknar- og þróunarþjónustu en þá sem er eingöngu til hagsbóta fyrir samningsyfirvöld í þeirra eigin starfsemi, að því tilskildu að þjónustan, sem er veitt, sé að öllu leyti launuð af samningsyfirvaldinu.

17. gr.
Sérleyfissamningar um þjónustu

Þessi tilskipun gildir ekki um sérleyfissamninga um þjónustu skv. 4. mgr. 1. gr., sbr. þó 3. gr.

18. gr.
Þjónustusamningar sem gerðir eru á grundvelli einkaréttar

Þessi tilskipun gildir ekki um opinbera þjónustusamninga sem samningsyfirvald gerir við annað samningsyfirvald eða við samtök samningsyfirvalda á grundvelli einkaréttar sem þessir aðilar hafa samkvæmt lögum eða stjórnsýslufyrirmælum sem hafa verið birt og samrýmast sáttmálanum.

4. þáttur
Sérstakt fyrirkomulag.
19. gr.
Samningar sem eru bundnir við ákveðna hópa

Aðildarríkin geta bundið réttinn til að taka þátt í opinberu útboðsferli við verndaða vinnustaði eða kveðið á um að slíkir samningar skuli framkvæmdir innan ramma áætlana um verndaða vinnu ef flestir starfsmennirnir eru fatlaðir einstaklingar sem geta ekki, vegna þess hvers eðlis eða hve alvarleg fötlunin er, stundað störf við venjulegar aðstæður.
Vísa skal í þetta ákvæði í útboðstilkynningu.

III. KAFLI
Reglur um opinbera þjónustusamninga
20. gr.
Þjónustusamningar sem eru skráðir í II. viðauka A

Samningar þar sem markmiðið er að veita þjónustu, sem tilgreind er í II. viðauka A, skulu gerðir í samræmi við 23.–55. gr.

21. gr.
Þjónustusamningar sem eru skráðir í II. viðauka B

Samningar þar sem markmiðið er að veita þjónustu, sem tilgreind er í II. viðauka B, skulu einungis heyra undir 23. gr. og 4. mgr. 35. gr.

22. gr.
Blandaðir þjónustusamningar sem varða bæði þjónustu sem er tilgreind í II. viðauka A og II. viðauka B

Samningar, sem varða bæði þjónustu sem er tilgreind í II. viðauka A og II. viðauka B, skulu gerðir skv. 23.–55. gr. þegar verðmæti þjónustunnar, sem tilgreind er í II. viðauka A, er meira en verðmæti þjónustunnar sem tilgreind er í II. viðauka B. Í öðrum tilvikum skulu samningar gerðir skv. 23. gr. og 4. mgr. 35. gr.

IV. KAFLI
Sérstakar reglur sem gilda um útboðsskilmála og útboðsgögn
23. gr.
Tækniforskriftir

1.     Tækniforskriftirnar, sem eru skilgreindar í 1. lið VI. viðauka, skulu koma fram í útboðsskjölum, s.s. útboðstilkynningum, útboðsgögnum eða viðbótargögnum. Þegar unnt er skal skilgreina þessar tækniforskriftir á þann hátt að tekið sé tillit til forsendna um aðgang fatlaðra eða hönnun sem hæfir öllum notendum.
2.     Tækniforskriftir skulu veita bjóðendum jafna aðgangsmöguleika og skulu ekki fela í sér órökstuddar hindranir í vegi fyrir því að opinber innkaup séu opnuð fyrir samkeppni.
3.     Með fyrirvara um lögboðnar, innlendar tæknireglur, svo fremi að þær samrýmist lögum Bandalagsins, skulu tækniforskriftirnar settar fram á eftirfarandi hátt:
a)    með tilvísun til tækniforskrifta, sem eru skilgreindar í VI. viðauka, og, í eftirfarandi forgangsröð, til landsstaðla sem hafa verið settir til lögleiðingar Evrópustöðlum, evrópsks tæknisamþykkis, sameiginlegra tækniforskrifta, alþjóðlegra staðla, annarra tæknilegra tilvísunarkerfa, sem evrópskar staðlastofnanir hafa komið á fót, eða, þegar ekkert af þessu er fyrir hendi, til landsstaðla, innlends tæknisamþykkis eða innlendra tækniforskrifta um hönnun, útreikning og framkvæmd verks og notkun vöru. Orðin „eða jafngilt“ skulu fylgja hverri tilvísun,
b)    eða sem kröfur um nothæfi eða hagnýtingu; hið síðarnefnda getur náð til umhverfiseiginleika. Slíkar breytur verða þó að vera nægilega nákvæmar til að bjóðendur geti gert sér grein fyrir inntaki samningsins og samningsyfirvöld geti gert samning,
c)    eða sem kröfur um nothæfi eða hagnýtingu, eins og getið er um í b-lið, og vísað til forskriftanna, sem getið er um í a-lið, til að sýna að reiknað sé með að þessar kröfur um nothæfi eða hagnýtingu hafi verið uppfylltar,
d)    eða með því að vísa til forskriftanna, sem getið er um í a-lið, fyrir tiltekna eiginleika og til krafna um nothæfi eða hagnýtingu, sem getið er um í b- lið, fyrir aðra eiginleika.
4.     Ef samningsyfirvald nýtir þann kost að vísa til forskriftanna, sem um getur í a-lið 3. mgr., getur það ekki vísað frá tilboði af þeirri ástæðu að varan og þjónustan, sem er boðin, sé í ósamræmi við forskriftirnar, sem það vísaði til, ef bjóðandinn færir sönnur á það í tilboði sínu, með einhverjum viðeigandi hætti sem er fullnægjandi að mati samningsyfirvaldsins, að lausnir þær sem hann leggur til uppfylli á jafngildan hátt kröfurnar sem eru ákvarðaðar í tækniforskriftunum.
Sönnun með viðeigandi hætti getur falist í tækniskjölum frá framleiðanda eða prófunarskýrslu frá viðurkenndri stofnun.
5.     Ef samningsyfirvald nýtir þann kost, sem kveðið er á um í 3. mgr., að mæla fyrir um kröfur um nothæfi eða hagnýtingu getur það ekki vísað frá tilboði um verk, vörur eða þjónustu sem er í samræmi við landsstaðal til lögleiðingar Evrópustaðli, evrópskt tæknisamþykki, sameiginlega tækniforskrift, alþjóðlegan staðal eða tæknilegt tilvísunarkerfi sem evrópsk staðlastofnun hefur komið á fót ef þessar forskriftir varða kröfurnar um nothæfi eða hagnýtingu sem yfirvaldið hefur mælt fyrir um.
Í tilboði sínu verður bjóðandi að sanna, með einhverjum viðeigandi hætti sem er fullnægjandi að mati samningsyfirvaldsins, að verkið, varan eða þjónustan, sem er í samræmi við staðalinn, uppfylli kröfur samningsyfirvaldsins um nothæfi eða hagnýtingu.
Sönnun með viðeigandi hætti getur talist vera tækniskjöl frá framleiðanda eða prófunarskýrsla frá viðurkenndri stofnun.
6.     Ef samningsyfirvöld mæla fyrir um umhverfiseiginleika í formi krafna um nothæfi eða hagnýtingu, eins og um getur í b-lið 3. mgr., geta þau notað nákvæmar forskriftir eða, ef nauðsyn krefur, hluta þeirra eins og skilgreint er fyrir evrópsk eða (fjöl-)þjóðleg umhverfismerki eða einhver önnur umhverfismerki, að því tilskildu:
—    að þessar forskriftir séu til þess fallnar að skilgreina eiginleika vöru eða þjónustu sem samningurinn fjallar um,
—    að kröfur, sem liggja að baki merkinu, byggist á vísindalegum upplýsingum,
—    að umhverfismerkin séu samþykkt á grundvelli málsmeðferðar sem allir hagsmunaaðilar, s.s. ríkisstofnanir, neytendur, framleiðendur, dreifingaraðilar og umhverfisstofnanir, geta tekið þátt í og
—    að umhverfismerkin séu aðgengileg öllum hlutaðeigandi aðilum.
Samningsyfirvöld geta mælt fyrir um að vörur og þjónusta, sem hafa fengið umhverfismerki, teljist uppfylla tækniforskriftirnar sem mælt er fyrir um í útboðsgögnum; þau skulu samþykkja hvers konar önnur viðeigandi sönnunargögn, s.s. tæknileg skjöl frá framleiðanda eða prófunarskýrslur frá viðurkenndri stofnun.
7.     „Viðurkenndar stofnanir“ í skilningi þessarar greinar eru prófunar- og kvörðunarstofur og vottunar- og skoðunaraðilar sem fullnægja gildandi Evrópustöðlum.
Samningsyfirvöld skulu samþykkja vottorð frá viðurkenndum stofnunum með staðfestu í öðrum aðildarríkjum.
8.     Tækniforskriftir skulu ekki vísa til sérstakrar tegundar eða grunns eða tiltekins vinnsluferlis né heldur til vörumerkja, einkaleyfa, gerða eða sérstaks uppruna eða framleiðslu með það fyrir augum að halda fram eða útiloka tiltekin fyrirtæki eða tilteknar vörur, sé ekki rökstuðningur fyrir því í efni samningsins. Í undantekningartilvikum er slík tilvísun leyfð ef nægilega nákvæm og skiljanleg lýsing á efni samningsins skv. 3. og 4. mgr. er ekki möguleg; orðin „eða jafngilt“ skulu fylgja slíkri tilvísun.

24. gr.
Frávikstilboð

1.     Ef forsenda fyrir samningsgerð er fjárhagslega hagstæðasta tilboðið geta samningsyfirvöld heimilað bjóðendum að leggja fram frávikstilboð.
2.     Samningsyfirvöld skulu geta þess í útboðstilkynningu hvort þau heimila frávikstilboð eða ekki: sé það ekki gert eru frávikstilboð óheimil.
3.     Samningsyfirvöld, sem heimila frávikstilboð, skulu, í útboðsgögnum, gera grein fyrir lágmarkskröfum sem þarf að uppfylla í frávikstilboðum og öllum sérkröfum varðandi framlagningu þeirra.
4.     Samningsyfirvöld skulu einungis taka til greina frávikstilboð sem uppfylla tilskildar lágmarkskröfur.
Í útboðum vegna opinberra vöru- eða þjónustusamninga geta samningsyfirvöld, sem hafa heimilað frávikstilboð, ekki vísað frávikstilboði frá af þeirri ástæðu einni að ef það tilboð yrði fyrir valinu yrði annaðhvort gerður þjónustusamningur fremur en vörusamningur eða vörusamningur fremur en þjónustusamningur.

25. gr.
Undirverktaka

Í útboðsgögnum getur samningyfirvald óskað eftir því, eða óskað eftir því að kröfu aðildarríkis, að bjóðandi tilgreini í tilboði sínu hvaða hluta samningsins hann hyggst láta þriðju aðila framkvæma sem undirverktaka og hverjir það eru.
Þessar upplýsingar skulu ekki hafa áhrif á ábyrgð rekstraraðilans sem er aðalverktaki.

26. gr.
Skilyrði sem tengjast framkvæmd samnings

Samningsyfirvöld geta mælt fyrir um sérstök skilyrði varðandi framkvæmd samnings, að því tilskildu að þau samrýmist lögum Bandalagsins og séu tilgreind í útboðstilkynningu eða útboðsskilmálum. Skilyrði um framkvæmd samnings geta einkum varðað félagsleg málefni og umhverfismál.

27. gr.
Skyldur varðandi skatta, umhverfisvernd, vinnuvernd og vinnuskilyrði

1.     Samningsyfirvald getur tilgreint í útboðsgögnum, eða tilgreint að kröfu aðildarríkis, þá stofnun eða stofnanir sem þátttakandi eða bjóðandi getur fengið viðeigandi upplýsingar hjá um skyldur varðandi skatta, umhverfisvernd, ákvæði um vinnuvernd og vinnuskilyrði sem gilda í aðildarríkinu, á svæðinu eða á staðnum þar sem framkvæma á verkið eða veita þjónustuna og sem eiga að gilda um verk sem eru framkvæmd á byggingarstað eða um þjónustu sem er veitt meðan á framkvæmd samningsins stendur.
2.     Samningsyfirvald, sem veitir upplýsingarnar sem um getur í 1. mgr., skal óska eftir því við bjóðendur eða þátttakendur í útboðsferli að þeir staðfesti að þeir hafi, í tilboði sínu, tekið tillit til skyldna varðandi ákvæði um vinnuvernd og vinnuskilyrði, sem gilda á staðnum þar sem verkið verður framkvæmt eða þjónustan veitt.
Fyrsta undirgreinin er með fyrirvara um beitingu ákvæða 55. gr. um rannsókn á óeðlilega lágum tilboðum.

V. KAFLI
Útboðsaðferðir
28. gr.
Almennt útboð, lokað útboð, samningskaup og samkeppnisviðræður

Þegar gera á opinberra samninga skulu samningsyfirvöld beita innlendum útboðsaðferðum sem eru lagaðar að efni þessarar tilskipunar.
Þau skulu gera þessa samninga á grundvelli almennra eða lokaðra útboða. Við sérstakar aðstæður, sem skýrt er kveðið á um í 29. gr., geta samningsyfirvöld gert opinbera samninga á grundvelli samkeppnisviðræðna. Í þeim sérstöku tilvikum og við þær aðstæður sem sérstaklega er getið um í 30. og 31. gr. geta þau gengið til samningskaupa með eða án útboðstilkynningar.

29. gr.
Samkeppnisviðræður

1.     Ef um er að ræða sérlega flókna samninga geta aðildarríkin kveðið á um að samningsyfirvöldum sé heimilt, ef þau telja að ekki sé hægt að gera samning á grundvelli almenns eða lokaðs útboðs, að gera hann á grundvelli samkeppnisviðræðna í samræmi við þessa grein.
Opinber samningur skal gerður eingöngu á grundvelli valforsendu um fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið.
2.     Samningsyfirvöld skulu birta útboðstilkynningu þar sem fram koma þarfir þeirra og kröfur sem þau skulu skilgreina í tilkynningunni og/eða í skýringargögnum.
3.     Samningsyfirvöld skulu hefja viðræður við þátttakendur, sem valdir hafa verið í samræmi við viðeigandi ákvæði 44.–52. gr., með það að markmiði að finna og skilgreina heppilegustu aðferðirnar við að uppfylla þarfir sínar. Í þessum viðræðum geta þau rætt öll atriði samningsins við valda þátttakendur.
Í viðræðunum skulu samningsyfirvöld tryggja að allir bjóðendur fái jafna meðferð. Einkum skulu þau gæta þess að veita ekki upplýsingar á þann hátt að bjóðendum sé mismunað þannig að staða sumra þeirra verði betri en annarra.
Samningsyfirvöldum er óheimilt að upplýsa aðra þátttakendur um fyrirhugaðar lausnir eða aðrar trúnaðarupplýsingar, sem þátttakandi í viðræðunum hefur veitt, án samþykkis hans.
4.     Samningsyfirvöld geta ákveðið að samningsferlið fari fram í nokkrum áföngum til að fækka þeim lausnum sem fjalla þarf um í samningsviðræðum; það má gera á grundvelli valforsendna í útboðstilkynningu eða skýringargögnum. Tekið skal fram, í útboðstilkynningu eða skýringargögnum, að unnt sé að nýta þennan kost.
5.     Samningsyfirvaldið skal halda áfram slíkum viðræðum þar til fundist hefur lausn eða lausnir sem geta uppfyllt þarfir þeirra og lausnirnar hafa verið bornar saman ef það er nauðsynlegt.
6.     Þegar samningsyfirvöld hafa lýst því yfir að viðræðum sé lokið og tilkynnt þátttakendum um það skulu þau gefa þátttakendum kost á að leggja fram endanleg tilboð á grundvelli þeirrar lausnar eða lausna sem kynntar hafa verið og skýrðar meðan á viðræðum stóð. Þessi tilboð skulu hafa að geyma öll atriði sem krafist er og eru nauðsynleg fyrir framkvæmd verkefnisins.
Þessi tilboð má skýra, skilgreina og lagfæra ef samningsyfirvaldið fer þess á leit. Slíkar skýringar, skilgreiningar, lagfæringar eða viðbótarupplýsingar mega þó ekki fela í sér breytingar á grundvallarþáttum tilboðs eða boðs um að leggja fram tilboð þar eð slík frávik eru líkleg til að raska samkeppni eða ýta undir mismunun.
7.     Samningsyfirvöld skulu meta tilboð, sem þeim berast á grundvelli valforsendna, sem mælt er fyrir um í útboðstilkynningu eða skýringargögnum og skulu þau velja fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið í samræmi við 53. gr.
Samningsyfirvaldi er heimilt að óska eftir því að bjóðandi, sem hefur lagt fram fjárhagslega hagstæðasta tilboðið, skýri ákveðin atriði í tilboðinu eða staðfesti skuldbindingar sem felast í tilboðinu, að því tilskildu að það hafi ekki í för með sér breytingar á veigamiklum atriðum í tilboðinu eða boðinu um að leggja fram tilboð og að ekki sé hætta á að það raski samkeppni eða ýti undir mismunun.
8.     Samningsyfirvöldum er heimilt að ákveða verðlaun eða greiðslur til þátttakenda í viðræðunum.

30. gr.
Samningskaup að undangenginni birtingu útboðstilkynningar

1.     Samningsyfirvöld geta gert opinbera samninga á þann hátt að ganga til samningskaupa að undangenginni birtingu útboðstilkynningar í eftirfarandi tilvikum:
a)    þegar um er að ræða ófullnægjandi tilboð, sem lögð eru fram í tengslum við almenn eða lokuð útboð eða samkeppnisviðræður, eða tilboð sem eru óviðunandi samkvæmt innlendum ákvæðum, sem samrýmast 4., 24., 25., 27. gr. og VII. kafla, að því tilskildu að upphaflegum skilmálum samningsins sé ekki breytt í veigamiklum atriðum.
    Samningsyfirvöld þurfa ekki að birta útboðstilkynningu ef þau taka með í samningskaupum alla þá bjóðendur, og enga aðra, sem uppfylla forsendur 45.–52. gr. og sem lögðu fram tilboð í samræmi við formlegar kröfur um tilboðsferli í undanfarandi almennu eða lokuðu útboði eða samkeppnisviðræðum,
b)    í undantekningartilvikum, þegar verk, vara eða þjónusta er af því tagi eða fylgir slík áhætta að ekki reynist unnt að áætla heildarkostnað fyrir fram,
c)    þegar um er að ræða þjónustu, m.a. þjónustu í 6. flokki II. viðauka A og hugverk, t.d. hönnun verka, ef þjónustan, sem veita á, er þess eðlis að ekki er unnt að skilgreina útboðsskilmála af nægilegri nákvæmni til að hægt sé að gera samning á grundvelli besta tilboðs samkvæmt reglum um almenn eða lokuð útboð,
d)    þegar um er að ræða opinbera verksamninga um verk sem eru eingöngu unnin vegna rannsókna, tilrauna eða þróunar og ekki í ágóðaskyni eða til þess að mæta kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna.
2.     Í tilvikum, sem um getur í 1. mgr., skulu samningsyfirvöld ræða við bjóðendur um þau tilboð sem þeir hafa lagt fram með það fyrir augum að laga þau að kröfunum sem samningsyfirvöld hafa sett fram í útboðstilkynningu, útboðsskilmálum og viðbótargögnum, ef einhver eru, og leita besta tilboðsins í samræmi við 1. mgr. 53. gr.
3.     Í viðræðunum skulu samningsyfirvöld tryggja að jafnræðis sé gætt meðal allra bjóðenda. Einkum skulu þau gæta þess að veita ekki upplýsingar á þann hátt að bjóðendum sé mismunað þannig að staða sumra þeirra verði betri en annarra.
4.     Samningsyfirvöld geta ákveðið að samningsferlið fari fram í nokkrum áföngum til að fækka þeim tilboðum, sem fjalla þarf um í samningsviðræðum, með því að beita valforsendunum í útboðstilkynningu eða útboðsskilmálum. Taka skal fram í útboðstilkynningu eða útboðsskilmálum hvort unnt sé að nýta þennan kost.

31. gr.
Samningskaup án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar

Samningsyfirvöld geta gert opinbera samninga með samningskaupum án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar í eftirfarandi tilvikum:
1)    að því er varðar opinbera verksamninga, opinbera vörusamninga og opinbera þjónustusamninga:
    a)    ef engin tilboð eða engin gild tilboð eða engar umsóknir hafa borist vegna almenns eða lokaðs útboðs, að því tilskildu að ekki hafi verið vikið frá upphaflegum samningsskilmálum í veigamiklum atriðum og að framkvæmdastjórninni sé send skýrsla, ef hún óskar eftir því,
    b)    þegar aðeins er unnt að gera samning við einn tiltekinn rekstraraðila af tæknilegum eða listrænum ástæðum eða þegar vernda þarf einkarétt,
    c)    ef það er algerlega nauðsynlegt og ekki er hægt, af knýjandi ástæðum sem viðkomandi samningsyfirvöld gátu ekki séð fyrir, að standa við fresti sem gilda við almenn eða lokuð útboð eða samningkaup, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar, eins og um getur í 30. gr. Aðstæðurnar, sem skírskotað er til sem knýjandi, mega ekki undir neinum kringumstæðum skrifast á reikning samningsyfirvalds,
2)    að því er varðar opinbera vörusamninga:
    a)    þegar um er að ræða vörur sem eru eingöngu framleiddar vegna rannsókna, tilrauna, athugana eða þróunar; þetta ákvæði nær ekki til fjöldaframleiðslu sem er ætlað að skila hagnaði eða mæta kostnaði vegna rannsóknar- og þróunarverkefna,
    b)    þegar um er að ræða viðbótarvörur frá upphaflegum birgi sem annaðhvort er ætlað að koma að hluta til í stað venjulegra birgða eða búnaðar eða eru viðbót við venjulegar birgðir eða búnað og val á nýjum birgi myndi skuldbinda samningsyfirvald til að kaupa efni sem hefðu aðra tæknilega eiginleika og leiddu því til ósamhæfis eða óeðlilega mikilla tæknilegra erfiðleika við rekstur og viðhald; slíkir samningar, svo og endurnýjaðir samningar, skulu að jafnaði ekki gilda lengur en í þrjú ár,
    c)    þegar um er að ræða vörur sem eru skráðar og keyptar á vörumarkaði,
    d)    þegar um er að ræða kaup á vörum á sérlega góðum kjörum, annaðhvort hjá birgi sem er að hætta starfsemi sinni eða bústjóra eða skiptastjóra við þrotabúsmeðferð, nauðasamninga eða svipaða málsmeðferð samkvæmt innlendum lögum eða reglum,
3)    að því er varðar opinbera þjónustusamninga, þegar viðkomandi samningur er gerður að lokinni samkeppni um hönnun og skylt er, samkvæmt gildandi reglum, að semja við sigurvegarann eða einn sigurvegaranna í keppninni verður, í síðarnefnda tilvikinu, að bjóða öllum sigurvegurunum að taka þátt í samningaviðræðum,
4)    að því er varðar opinbera verksamninga og opinbera þjónustusamninga:
    a)    þegar um er að ræða viðbótarverk eða -þjónustu sem ekki var gert ráð fyrir í verkefninu sem var upphaflega áætlað eða í upphaflegum samningi en sem hafa, vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna, orðið nauðsynleg fyrir framkvæmd verksins eða þjónustunnar sem þar er lýst, að því tilskildu að samningurinn sé gerður við rekstraraðilann sem annast framkvæmd þessa verks eða þjónustu:
         —    þegar ekki er unnt að aðskilja slíkt viðbótarverk eða –þjónustu frá upphaflega samningnum af tæknilegum eða fjárhagslegum ástæðum án þess að valda samningsyfirvöldum miklum óþægindum,
              eða
         —    þegar slík viðbótarverk eða þjónusta eru alveg nauðsynleg fyrir framkvæmd upphaflega samningsins þótt unnt sé að aðskilja verkið eða þjónustuna frá honum.
    Samanlagt verðmæti samninga, sem gerðir eru vegna viðbótarverka eða viðbótarþjónustu, má þó ekki fara yfir 50% af verðmæti upphaflega samningsins,
    b)    þegar um er að ræða nýtt verk eða þjónustu sem felur í sér endurtekningu á svipuðu verki eða þjónustu og sama samningsyfirvald samdi upphaflega um við sama rekstraraðila, að því tilskildu að slíkt verk eða þjónusta sé í samræmi við grunnverkefnið sem upphaflegi samningurinn var gerður um á grundvelli almenns eða lokaðs útboðs.
        Þegar fyrra verkefnið er boðið út skal taka fram að þessari aðferð kunni að verða beitt og samningsyfirvöld skulu taka tillit til áætlaðs heildarkostnaðar síðari verka eða þjónustu þegar þau beita ákvæðum 7. gr.
        Þessari aðferð má aðeins beita innan þriggja ára frá gerð upphaflega samningsins.

32. gr.
Rammasamningar

1.     Aðildarríkin geta kveðið á um að samningsyfirvöldum sé heimilt að gera rammasamninga.
2.     Hafi samningsyfirvöld í hyggju að gera rammasamning skulu þau fylgja starfsreglunum, sem um getur í þessari tilskipun, á öllum stigum fram að gerð samnings sem er byggður á rammasamningnum. Við val á aðilum að rammasamningum skal beita valforsendunum sem eru ákveðnar í samræmi við 53. gr.
Samningar, sem eru byggðir á rammasamningi, skulu gerðir í samræmi við aðferðirnar sem mælt er fyrir um í 3. og 4. mgr. Einungis má beita þessum aðferðum í samningum á milli samningsyfirvalda og rekstraraðila sem voru upphaflega aðilar að rammasamningnum.
Þegar gerðir eru samningar á grundvelli rammasamnings mega samningsaðilar undir engum kringumstæðum gera verulegar breytingar á skilmálunum, sem mælt er fyrir um í þeim rammasamningi, og alls ekki í tilvikum sem um getur í 3. mgr.
Gildistími rammasamnings má ekki vera lengri en fjögur ár nema í undantekningartilvikum sem eiga sér m.a. gilda stoð í efni rammasamningsins.
Samningsyfirvöld mega ekki misnota rammasamninga eða nota þá á þann hátt að það komi í veg fyrir, takmarki eða raski samkeppni.
3.     Ef rammasamningur er gerður við einn rekstraraðila skulu samningar, sem eru byggðir á þeim samningi, gerðir innan ramma þeirra skilmála sem mælt er fyrir um í rammasamningnum.
Við gerð slíkra samninga geta samningsyfirvöld ráðfært sig skriflega við rekstraraðila rammasamningsins og óskað eftir viðbótum við tilboð hans ef þörf krefur.
4.     Ef rammasamningur er gerður við fleiri en einn rekstraraðila verða þeir að vera a.m.k. þrír talsins, að því tilskildu að fyrir hendi séu nægilega margir rekstraraðilar sem uppfylla valforsendur og/eða nægilega mörg fullnægjandi tilboð.
Samninga, sem eru byggðir á rammasamningi við fleiri en einn rekstraraðila, má gera annaðhvort:
—    með þeim skilmálum, sem mælt er fyrir um í rammasamningnum, án þess að nýtt boð um að leggja fram tilboð sé sent eða
—    ef ekki hefur verið mælt fyrir um alla skilmála í rammasamningnum, eftir að aðilarnir hafa lagt fram ný tilboð á grundvelli sömu skilmála, sem skulu skýrðir nánar ef það er nauðsynlegt, og, eftir atvikum, á grundvelli annarra skilyrða sem um getur í útboðsskilmálum rammasamningsins í samræmi við eftirfarandi reglur:
    a)    við gerð hvers samnings skulu samningsyfirvöld ráðfæra sig skriflega við þá rekstraraðila sem hafa burði til að framkvæma samninginn,
    b)    samningsyfirvöld skulu ákveða tilboðsfrest sem er hæfilega langur til að bjóðendur geti lagt fram tilboð vegna hvers einstaks samnings, að teknu tilliti til þess hve flókið efni samningsins er, hve langan tíma það tekur að leggja fram tilboð og annarra slíkra þátta,
    c)    tilboð skulu vera skrifleg og efni þeirra skal vera trúnaðarmál þar til tilgreindur frestur til að svara þeim er útrunninn,
    d)    samningsyfirvöld skulu gera samning við þann bjóðanda sem leggur fram besta tilboðið á grundvelli þeirra valforsendna sem koma fram í útboðsskilmálum rammasamningsins.

33. gr.
Virk innkaupakerfi

1.     Aðildarríkin geta kveðið á um að samningsyfirvöldum sé heimilt að nýta sér virk innkaupakerfi.
2.     Þegar samningsyfirvöld koma á fót virku innkaupakerfi skulu þau fara að reglum um almenn útboð á öllum stigum fram til þess að gerður er samningur samkvæmt því kerfi. Allir bjóðendur, sem uppfylla valforsendur og hafa lagt fram kynningarboð í samræmi við útboðsskilmála og önnur möguleg viðbótargögn, skulu hafa aðgang að kerfinu; endurbæta má kynningarboð hvenær sem er, að því tilskildu að þau samrýmist áfram útboðsskilmálum. Þegar kerfinu er komið á fót og gerðir samningar samkvæmt því skulu samningsyfirvöld eingöngu nýta sér rafrænar aðferðir í samræmi við 2.–5. mgr. 42. gr.
3.     Þegar virku innkaupakerfi er komið á fót skulu samningsyfirvöld:
a)    birta útboðstilkynningu þar sem skýrt er tekið fram að um virkt innkaupakerfi sé að ræða,
b)    tilgreina m.a. í útboðsskilmálum hvers konar innkaup séu fyrirhuguð samkvæmt þessu innkaupakerfi og einnig nauðsynlegar upplýsingar um kerfið, rafeindabúnaðinn sem er notaður og tæknilegt fyrirkomulag og forskriftir varðandi tengingar við kerfið,
c)    veita með rafrænum hætti, ótakmarkaðan, beinan og fullan aðgang að útboðsskilmálum og öllum viðbótargögnum frá og með birtingu útboðstilkynningar og fram að þeim tíma þegar kerfinu er lokað og skulu tilgreina, í tilkynningunni, veffang þar sem hægt er að nálgast umrædd gögn.
4.     Samningsyfirvöld skulu, allan þann tíma sem aðgangur að virka innkaupakerfinu er opinn, gefa öllum rekstraraðilum kost á því að leggja fram kynningartilboð og fá aðgang að kerfinu með þeim skilyrðum sem um getur í 2. mgr. Þau skulu ljúka mati sínu innan 15. daga frá því að kynningarboðið er lagt fram. Þau geta þó framlengt frestinn, að því tilskildu að ekkert útboð fari fram á meðan.
Samningsyfirvöld skulu upplýsa bjóðandann, sem um getur í fyrstu undirgrein, eins fljótt og unnt er, um það hvort hann hafi fengið aðgang að virka innkaupakerfinu eða hvort kynningarboði hans hafi verið hafnað.
5.     Hver einstakur samningur skal gerður á grundvelli útboðs. Áður en útboð fer fram skulu samningsyfirvöld birta einfaldaða útboðstilkynningu þar sem öllum hlutaðeigandi rekstraraðilum er boðið að leggja fram kynningarboð í samræmi við 4. mgr. innan frests sem má ekki vera skemmri en 15 dagar, reiknað frá þeim degi er einfaldaða tilkynningin var send út. Samningsyfirvöld geta ekki haldiðáfram með tilboðið fyrr en þau hafa lokið mati á öllum kynningarboðum sem hafa borist fyrir þann tíma.
6.     Samningsyfirvöld skulu bjóða öllum bjóðendum, sem hafa fengið aðgang að kerfinu, að leggja fram tilboð fyrir hvern einstakan samning sem gera á innan kerfisins. Í þessu skyni skulu þau setja frest til að leggja fram tilboð.
Þau skulu gera samning við þann bjóðanda sem leggur fram besta tilboðið á grundvelli valforsendna, sem koma fram í útboðstilkynningunni, þar sem tilkynnt er að virku innkaupakerfi hafi verið komið á fót. Þessar forsendur má skilgreina nánar, ef við á, í boðinu sem um getur í fyrstu undirgrein.
7.     Virkt innkaupakerfi má ekki hafa lengri gildistíma en fjögur ár nema í vel rökstuddum undantekningartilvikum.
Samningsyfirvöld mega ekki nota þetta kerfi til að koma í veg fyrir, takmarka eða raska samkeppni.
Ekki má leggja nein gjöld á hlutaðeigandi rekstraraðila eða þá sem eiga aðild að kerfinu.

34. gr.
Opinberir verksamningar: sérstakar reglur um byggingu félagslegs húsnæðis

Þegar um er að ræða opinbera samninga í tengslum við hönnun og byggingu félagslegs húsnæðis og nauðsynlegt er, vegna þess hve verkið er umfangsmikið, flókið og tekur langan tíma, að áætlanir séu frá upphafi byggðar á nánu samstarfi hóps, sem í eru fulltrúar samningsyfirvalda, sérfræðingar og verktakinn sem á að bera ábyrgð á framkvæmd verksins, er hægt að samþykkja sérstakt útboðsferli svo að unnt sé að velja þann verktaka sem er líklegastur til að falla inn í hópinn.
Í útboðstilkynningunni skulu samningsyfirvöld einkum lýsa verkinu, sem á að framkvæma, eins nákvæmlega og unnt er til að áhugasamir verktakar geti gert sér rétta hugmynd um framkvæmdina. Enn fremur skulu samningsyfirvöld setja fram kröfur um persónulegt, tæknilegt, efnahagslegt og fjárhagslegt hæfi þátttakenda í útboðstilkynningu í samræmi við forsendur fyrir hæfismiðuðu vali sem um getur í 45.–52. gr.
Þegar slíkt ferli er samþykkt skulu samningsyfirvöld beita 2., 35., 36., 38., 39., 41., 42., 43. og 45.–52. gr.

VI. KAFLI
Reglur um birtingu og gagnsæi
1. þáttur
Birting tilkynninga
35. gr.
Tilkynningar

1.     Samningsyfirvöld skulu veita upplýsingar um eftirfarandi í kynningartilkynningu, sem framkvæmdastjórnin birtir eða samningsyfirvöld birta sjálf í „upplýsingaskrá kaupanda“, eins og lýst er í b- lið 2. liðar VIII. viðauka:
a)    varðandi vörur, áætlað heildarverðmæti samninganna eða rammasamninganna fyrir hvert vörusvið sem þau hyggjast gera samning um næstu 12 mánuði þar sem áætlað heildarverðmæti, að teknu tilliti til ákvæða 7. og 9. gr., er 750 000 evrur eða meira.
    Samningsyfirvöld ákvarða vörusvið með tilvísun til CPV-flokkunarkerfisins,
b)    varðandi þjónustu, áætlað heildarverðmæti samninganna eða rammasamninganna fyrir hvern þjónustuflokk, sem er skráður í II. viðauka A, sem þau hyggjast gera samning um næstu 12 mánuði, þar sem áætlað heildarverðmæti, að teknu tilliti til ákvæða 7. og 9. gr., er 750 000 evrur eða meira,
c)    varðandi verk, helstu einkenni samnings eða rammasamnings, sem þau hyggjast gera, þar sem áætlað verðmæti er jafnt viðmiðunarfjárhæðinni sem er tilgreind í 7. gr. eða meira, að teknu tilliti til 9. gr.
Senda skal tilkynningarnar, sem um getur í a- og b- lið, til framkvæmdastjórnarinnar eða birta þær í upplýsingaskrá kaupanda eins fljótt og unnt er eftir að nýtt fjárhagsár er hafið.
Senda skal tilkynninguna, sem um getur í c-lið, til framkvæmdastjórnarinnar eða birta hana í upplýsingaskrá kaupanda eins fljótt og unnt er eftir að samþykkt hefur verið áætlun um fyrirhugaða verksamninga eða rammasamninga samningsyfirvalda.
Samningsyfirvöld, sem birta kynningartilkynningu í upplýsingaskrá kaupanda, skulu senda framkvæmdastjórninni rafræna tilkynningu um birtingu kynningartilkynningar í upplýsingaskrá kaupanda í samræmi við það snið og þær sérstöku aðferðir við sendingu tilkynninga sem settar eru fram í 3. lið VIII. viðauka.
Birting tilkynninga, sem um getur í a-, b- og c-lið, er einungis skyldubundin þegar samningsyfirvöld nýta heimild sína til að stytta tilboðsfrest eins og mælt er fyrir um í 4. mgr. 38. gr.
Þessi málsgrein gildir ekki um samningskaup án undangenginnar birtingar útboðstilkynningar.
2.     Samningsyfirvöld, sem hyggjast gera opinberan samning eða rammasamning á grundvelli almenns útboðs, lokaðs útboðs eða, við aðstæður sem mælt er fyrir um í 30. gr., á grundvelli samningskaupa, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar eða á grundvelli samkeppnisviðræðna með þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í 29. gr., skulu láta vita af fyrirætlun sinni með útboðstilkynningu.
3.     Samningsyfirvöld, sem hyggjast koma á fót virku innkaupakerfi, skulu láta vita af fyrirætlun sinni með útboðstilkynningu.
Samningsyfirvöld, sem hyggjast gera samning á grundvelli virks innkaupakerfis, skulu láta vita af fyrirætlun sinni með einfaldaðri útboðstilkynningu.
4.     Samningsyfirvöld, sem hafa gert opinberan samning eða rammasamning, skulu senda tilkynningu um niðurstöður útboðs eigi síðar en 48 dögum eftir að tilboð er valið eða rammasamningur gerður.
Þegar um er að ræða rammasamning, sem er gerður í samræmi við 32. gr., ber samningsyfirvöldum ekki skylda til að senda tilkynningu um niðurstöður útboðs fyrir hvern samning sem er byggður á þeim rammasamningi.
Samningsyfirvöld skulu senda tilkynningu um niðurstöður útboðs, sem grundvallast á virku innkaupakerfi, innan 48 daga frá því að niðurstöður liggja fyrir. Þau hafa þó heimild til að safna slíkum tilkynningum saman og senda þær ársfjórðungslega. Í því tilviki skulu þau senda samsafnaðar tilkynningar innan 48 daga frá lokum hvers ársfjórðungs.
Þegar um er að ræða opinbera samninga um þjónustu, sem er tilgreind í II. viðauka B, skulu samningsyfirvöld tilgreina, í tilkynningunni, hvort þau samþykkja birtingu þeirra. Þegar um slíka þjónustusamninga er að ræða skal framkvæmdastjórnin setja reglur um vinnslu tölulegra skýrslna á grundvelli slíkra tilkynninga og um birtingu slíkra skýrslna í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 77. gr.
Heimilt er að halda eftir tilteknum upplýsingum um gerð samnings eða rammasamnings ef birting slíkra upplýsinga kynni að hindra framkvæmd laga eða ganga á annan hátt gegn almannahagsmunum eða gæti skaðað lögmæta viðskiptahagsmuni opinberra eða einkarekinna rekstraraðila eða réttmæta samkeppni þeirra á milli.

36. gr.
Form og aðferð við birtingu tilkynninga

1.     Í tilkynningum skulu koma fram upplýsingarnar, sem getið er um í VII. viðauka A, og, eftir því sem við á, hvers konar upplýsingar aðrar, sem samningsyfirvöld telja gagnlegar, á stöðluðu eyðublaði sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 77. gr.
2.     Tilkynningar, sem samningsyfirvöld senda framkvæmdastjórninni, skulu sendar annaðhvort með rafrænum aðferðum, í samræmi við það snið og þær sendingaraðferðir sem eru tilgreindar í 3. lið VIII. viðauka, eða á annan hátt. Þegar um er að ræða hraðútboð, sem fjallað er um í 8. mgr. 38. gr., skal senda tilkynningar annaðhvort með símbréfi eða með rafrænum aðferðum í samræmi við það snið og þær sendingaraðferðir sem eru tilgreindar í 3. lið VIII. viðauka.
Tilkynningar skulu birtar í samræmi við tæknilegar kröfur um birtingu sem settar eru fram í a- og b-lið 1. liðar VIII. viðauka.
3.     Tilkynningar, sem eru samdar og sendar með rafrænum aðferðum, í samræmi við það snið og þær sendingaraðferðir sem eru tilgreindar í 3. lið VIII. viðauka, skulu birtar eigi síðar en fimm dögum eftir að þær eru sendar.
Tilkynningar, sem eru ekki sendar með rafrænum aðferðum í samræmi við það snið og þær sendingaraðferðir sem eru tilgreindar í 3. lið VIII. viðauka, skulu birtar eigi síðar en 12 dögum eftir að þær eru sendar eða, þegar um er að ræða hraðútboð sem um getur í 8. gr. 38. gr., eigi síðar en fimm dögum eftir að þær eru sendar.
4.     Útboðsatilkynningar skulu birtar í fullri lengd á opinberu tungumáli Bandalagsins sem samningsyfirvald velur og skal einungis sá texti, sem er birtur á þessu upprunalega tungumáli, vera gildur texti. Birta skal samantekt á mikilvægum þáttum hverrar tilkynningar á öðrum, opinberum tungumálum Bandalagsins.
Bandalagið ber kostnað af birtingu framkvæmdastjórnarinnar á slíkum tilkynningum.
5.     Óheimilt er að birta tilkynningar og efni þeirra á innlendum vettvangi fyrir þann dag sem þær eru sendar til framkvæmdastjórnarinnar.
Tilkynningar, sem eru birtar á innlendum vettvangi, skulu ekki innihalda aðrar upplýsingar en þær sem koma fram í tilkynningum, sem eru sendar til framkvæmdastjórnarinnar, eða í upplýsingaskrá kaupanda samkvæmt fyrstu undirgrein 1. mgr. 35. gr. en í þeim skal getið um það hvaða dag tilkynningin er send til framkvæmdastjórnarinnar eða hvenær hún birtist í upplýsingaskrá kaupanda.
Ekki má birta kynningartilkynningu í upplýsingaskrá kaupanda fyrr en tilkynning hefur verið send til framkvæmdastjórnarinnar um að birting verði í því formi; í henni skal getið um sendingardag.
6.     Tilkynningar, sem eru ekki sendar með rafrænum aðferðum, í samræmi við það snið og þær sendingaraðferðir sem eru tilgreindar í 3. lið VIII. viðauka, skulu ekki vera lengri en u.þ.b. 650 orð.
7.     Samningsyfirvöld verða að geta sannað hvaða dag tilkynningar eru sendar.
8.     Framkvæmdastjórnin skal gefa samningsyfirvöldum staðfestingu á því að upplýsingarnar, sem sendar voru, hafi verið birtar og tiltaka daginn sem þær birtust. Slík staðfesting skal vera sönnunargagn um birtingu.

37. gr.
Birting án skyldu

Samningsyfirvöld geta, í samræmi við 36. gr., birt tilkynningar um opinbera samninga sem falla ekki undir kröfur um birtingu sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun.

2. þáttur
Frestur
38. gr.
Tilboðsfrestur og frestur til að leggja fram þátttökutilkynningu

1.     Þegar samningsyfirvöld setja tilboðsfrest og frest til að leggja fram þátttökutilkynningar skulu þau einkum taka tillit til þess hve flókið efni samningsins er og hve langan tíma þarf til að semja tilboð, sbr. þó lágmarksfrest sem kveðið er á um í þessari grein.
2.     Þegar um er að ræða almenn útboð skal tilboðsfrestur vera að lágmarki 52 dagar frá sendingardegi útboðstilkynningar.
3.     Þegar um er að ræða lokuð útboð, samningskaup, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar sem um getur í 30. gr., og samkeppnisviðræður:
a)    skal skilafrestur þátttökutilkynninga vera að lágmarki 37 dagar frá sendingardegi útboðstilkynningar.
b)    skal tilboðsfrestur í lokuðu útboði vera að lágmarki 40 dagar frá sendingardegi boðs um að leggja fram tilboð.
4.     Ef samningsyfirvöld hafa birt kynningartilkynningu er almenna reglan sú að heimilt er að stytta lágmarksfrest til að leggja fram tilboð skv. 2. mgr. og b- lið 3. mgr. í 36 daga en aldrei svo mikið að hann verði styttri en 22 dagar.
Í almennu útboði reiknast frestur frá sendingardegi útboðstilkynningar og í lokuðu útboði frá sendingardegi boðs um að leggja fram tilboð.
Leyfa skal styttan frest, sem um getur í fyrstu undirgrein, að því tilskildu að kynningartilkynningin hafi að geyma allar upplýsingar, sem krafist er í VII. viðauka A að séu í útboðstilkynningunni, svo fremi að þær upplýsingar séu tiltækar á þeim tíma sem tilkynningin er birt og að kynningartilkynningin hafi verið send til birtingar minnst 52 dögum og mest 12 mánuðum fyrir sendingardag útboðstilkynningarinnar.
5.     Ef tilkynningar eru samdar og sendar með rafrænum aðferðum í samræmi við það snið og þær sendingaraðferðir, sem eru tilgreindar í 3. lið VIII. viðauka, er heimilt að stytta tilboðsfrest í almennum útboðum, sem um getur í 2. og 4. mgr., og frest til að leggja fram þátttökutilkynningu, sem um getur í a-lið 3. mgr., í lokuðum útboðum, samningskaupum og samkeppnisviðræðum, um sjö daga.
6.     Heimilt er að stytta tilboðsfrest, sem um getur í 2. mgr. og b-lið 3. mgr., um fimm daga ef samningsyfirvald býður ótakmarkaðan, beinan og fullan, rafrænan aðgang að útboðsgögnum og öllum viðbótargögnum frá og með birtingardegi tilkynningarinnar, í samræmi við VIII. viðauka, og í texta tilkynningarinnar kemur fram veffangið þar sem hægt er að nálgast þessi gögn.
Heimilt er að bæta þessari styttingu á fresti við styttinguna sem um getur í 5. mgr.
7.     Ef útboðsskilmálar og fylgiskjöl eða viðbótarupplýsingar eru af einhverjum ástæðum ekki afhent innan þeirra tímamarka, sem eru sett í 39. og 40. gr., þótt beðið hafi verið um þessi gögn með góðum fyrirvara, eða, ef ekki er unnt að gera tilboð fyrr en að lokinni vettvangsskoðun eða athugun á fylgiskjölum útboðsgagna á vettvangi, skal lengja tilboðsfrest svo að allir viðkomandi rekstraraðilar geti kynnt sér allar upplýsingar sem eru nauðsynlegar við gerð tilboðs.
8.     Þegar um að ræða lokuð útboð og samningskaup, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar sem um getur í 30. gr., og ógerlegt er að veita frest sem mælt er fyrir um í þessari grein, vegna tímaskorts, geta samningsyfirvöld sett:
a)    frest til að leggja fram þátttökutilkynningu, sem má ekki vera styttri en 15 dagar frá sendingardegi útboðstilkynningarinnar og ekki styttri en 10 dagar ef tilkynningin er send með rafrænum aðferðum, í samræmi við það snið og þær sendingaraðferðir sem eru tilgreindar í 3. lið VIII. viðauka,
b)    og, ef um er að ræða lokuð útboð, tilboðsfrest sem skal ekki vera skemmri en 10 dagar, reiknað frá dagsetningu boðs um að leggja fram tilboð.

39. gr.
Almenn útboð: útboðsskilmálar, viðbótargögn og upplýsingar

1.     Í almennum útboðum, þar sem samningsyfirvöld veita ekki ótakmarkaðan, beinan og fullan, rafrænan aðgang, í samræmi við 6. mgr. 38. gr., að útboðsskilmálum og fylgiskjölum, skal senda útboðsskilmála og fylgiskjöl til rekstraraðila innan sex daga frá því að þátttökutilkynning berst, að því tilskildu að tilkynningin hafi verið lögð fram hæfilega löngu fyrir síðasta skiladag tilboða.
2.     Samningsyfirvöld eða þar til bærar stofnanir skulu láta í té viðbótarupplýsingar sem tengjast útboðsskilmálum og öll fylgiskjöl eigi síðar en sex dögum fyrir síðasta skiladag tilboða, að því tilskildu að beðið hafi verið um þessar upplýsingar með góðum fyrirvara.

3. þáttur
Efni upplýsinga og sendingaraðferðir
40. gr.
Boð um að leggja fram tilboð, taka þátt í viðræðum eða gera samning

1.     Í lokuðum útboðum, samkeppnisviðræðum og samningskaupum, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar í skilningi 30. gr., skulu samningsyfirvöld bjóða völdum þátttakendum, samtímis og skriflega, að leggja fram tilboð sín eða ganga til samninga eða, þegar um er að ræða samkeppnisviðræður, að taka þátt í viðræðunum.
2.     Boð til þátttakenda skal hafa að geyma annaðhvort:
—    afrit af útboðsskilmálum eða skýringargögnum ásamt öllum fylgiskjölum eða
—    vísun í aðgang að útboðsskilmálum og öðrum gögnum sem eru tilgreind í fyrsta undirlið ef beinn aðgangur er veittur að þeim með rafrænum aðferðum í samræmi við 6. mgr. 38. gr.
3.     Ef annar aðili en samningsyfirvaldið, sem ber ábyrgð á útboðinu, hefur útboðsskilmála, skýringargögn og/eða fylgiskjöl af einhverju tagi undir höndum skal koma fram, í boðinu, hvar hægt er að fá þessa skilmála, skýringargögn og fylgiskjöl og, ef við á, frestur til að leggja fram beiðni um þessi gögn og hvaða fjárhæð ber að greiða fyrir þau, svo og greiðsluskilmálar. Þar til bær stofnun skal þegar í stað senda þessi gögn til rekstraraðilans sem óskar eftir þeim.
4.     Samningsyfirvöld eða þar til bær stofnun skal senda viðbótarupplýsingar um útboðsskilmála, skýringargögn eða fylgiskjöl eigi síðar en sex dögum fyrir síðasta skiladag tilboða, að því tilskildu að beðið hafi verið um þessar upplýsingar með góðum fyrirvara. Sé um að ræða lokað útboð eða hraðútboð skal þessi frestur vera fjórir dagar.
5.     Auk þess verður a.m.k. að koma fram í boði um að leggja fram tilboð, taka þátt í viðræðum eða ganga til samninga:
a)    tilvísun til útboðstilkynningar sem hefur verið birt,
b)    síðasti skiladagur tilboða, heimilisfangið sem senda á tilboðin til og upplýsingar um á hvaða tungumáli eða tungumálum þau skuli vera,
c)    sé um að ræða samkeppnisviðræður, dagsetning og heimilisfangið þar sem viðræður hefjast og tungumálið eða tungumálin sem eru notuð,
d)    upplýsingar um það hvaða skjöl eigi hugsanlega að láta fylgja með, annaðhvort til stuðnings yfirlýsingum, sem unnt er að sannreyna og sem bjóðandi hefur sett fram, í samræmi við 44. gr., eða til að auka við upplýsingar, sem um getur í þeirri grein, og samkvæmt skilyrðum sem mælt er fyrir um í 47. og 48. gr.,
e)    hlutfallslegt vægi forsendna fyrir gerð samnings eða, ef við á, forgangsröð slíkra forsendna ef það er ekki tilgreint í útboðstilkynningu, útboðsskilmálum eða skýringargögnum.
Ef samningur er gerður samkvæmt reglunum, sem mælt er fyrir um í 29. gr., skulu upplýsingarnar, sem um getur í b-lið hér að framan, þó ekki koma fram í boði um að taka þátt í viðræðum en þær skulu koma fram í boði um að leggja fram tilboð.

41. gr.
Upplýsingar til þátttakenda og bjóðenda

1.     Samningsyfirvöld skulu, eins fljótt og unnt er, upplýsa þátttakendur og bjóðendur um ákvarðanir sem hafa verið teknar varðandi gerð rammasamnings, val tilboðs eða aðgang að virku innkaupakerfi, þ.m.t. ástæður fyrir ákvörðun um að gera ekki rammasamning eða samning þótt útboð hafi farið fram eða hefja útboðsferli á nýjan leik eða að koma á fót virku innkaupakerfi; samningsyfirvöld skulu veita þessar upplýsingar skriflega að fenginni beiðni.
2.     Að fenginni beiðni viðkomandi aðila skal samningsyfirvald, eins fljótt og unnt er, upplýsa:
—    hvern og einn þátttakanda um ástæður fyrir því ef umsókn hans er hafnað,
—    hvern og einn bjóðanda um ástæður fyrir því ef tilboði hans er hafnað, þ.m.t., í tilvikum sem um getur í 4. og 5. mgr. 23. gr., ástæður fyrir því ef það ákvarðar að jafngildisákvæðið sé ekki uppfyllt eða að verk, vörur eða þjónusta uppfylli ekki kröfur er varða nothæfi eða hagnýtingu,
—    hvern og einn bjóðanda sem hefur gert fullnægjandi tilboð, um eiginleika og hlutfallslega kosti tilboðsins sem er valið og einnig nafn þess bjóðanda sem varð fyrir valinu eða nöfn aðila að rammasamningnum.
Þetta má undir engum kringumstæðum taka lengri tíma en 15 daga frá móttöku skriflegrar beiðni.
3.     Samningsyfirvöld geta þó ákveðið að halda eftir tilteknum upplýsingum, sem um getur í 1. gr., um gerð samnings eða rammasamnings eða aðgang að virku innkaupakerfi ef birting slíkra upplýsinga kynni að hindra framkvæmd laga eða ganga á annan hátt gegn almannahagsmunum eða gæti skaðað lögmæta viðskiptahagsmuni opinberra eða einkarekinna rekstraraðila eða réttmæta samkeppni á milli þeirra.

4. þáttur
Samskipti
42. gr.
Reglur um samskipti

1.     Öll samskipti og upplýsingaskipti, sem um getur í þessum bálki, mega fara fram með pósti, símbréfum, rafrænum aðferðum skv. 4. og 5. mgr., símleiðis, í þeim tilvikum og við þær aðstæður sem um getur í 6. mgr., eða með samsetningu þessara miðla að vali samningsyfirvalds.
2.     Samskiptamiðlarnir, sem valdir eru, skulu vera almennt aðgengilegir og skulu ekki hindra aðgang rekstraraðila að útboðsferlinu.
3.     Samskipti og miðlun og geymsla upplýsinga skal vera með þeim hætti að heilleiki gagna og leynd tilboða og þátttökutilkynninga sé varðveitt og að samningsyfirvöld kanni ekki efni tilboða og þátttökutilkynninga fyrr en fresturinn til að leggja þau fram er runninn út.
4.     Búnaður, sem er notaður í rafrænum samskiptum, svo og tæknilegir eiginleikar hans, skal vera þannig að engum sé mismunað og vera almennt aðgengilegur og innbyrðis samhæfður þeirri upplýsinga- og fjarskiptatækni sem er almennt í notkun.
5.     Eftirfarandi reglur gilda um tæki sem notuð eru fyrir rafræna sendingu og móttöku tilboða og um tæki fyrir rafræna móttöku þátttökutilkynninga:
a)    Upplýsingar um forskriftir, sem eru nauðsynlegar fyrir rafræna framlagningu tilboða og þátttökutilkynninga, þ.m.t. dulkóðun, skulu vera aðgengilegar öllum hlutaðeigandi aðilum. Tæki fyrir rafræna móttöku tilboða og þátttökutilkynninga skulu enn fremur vera í samræmi við kröfur sem koma fram í X. viðauka.
b)    Aðildarríkjum er heimilt, samkvæmt 5. gr. tilskipunar 1999/93/EB, að krefjast þess að rafrænum tilboðum fylgi fullgild rafræn undirskrift í samræmi við 1. mgr. þeirrar greinar.
c)    Aðildarríkin geta innleitt valfrjáls faggildingarkerfi eða viðhaldið þeim með það fyrir augum að bæta vottunarþjónustu fyrir þessi tæki.
d)    Áður en tilboðsfrestur eða frestur til að skila þátttökutilkynningu rennur út skulu bjóðendur eða þátttakendur leggja fram skjöl, vottorð og yfirlýsingar sem um getur í 45.–50. gr. og 52. gr. ef þau eru ekki til í rafrænu formi.
6.     Eftirfarandi reglur gilda um sendingu þátttökutilkynninga:
a)    tilkynna má skriflega eða símleiðis um þátttöku í opinberu útboði,
b)    ef tilkynnt er um þátttöku í síma skal senda skriflega staðfestingu áður en skilafrestur tilkynninga er útrunninn,
c)    samningsyfirvöld geta krafist þess að þátttökutilkynning, sem berst með símbréfi, sé staðfest með pósti eða með rafrænum hætti ef það er nauðsynlegt vegna lögfullrar sönnunar. Samningsyfirvald skal láta vita um allar slíkar kröfur í útboðstilkynningu og um frest til að senda staðfestingu með pósti eða með rafrænum hætti.

5. þáttur
Skýrslur
43. gr.
Efni skýrslna

Fyrir hvern samning, hvern rammasamning og hvert virkt innkaupakerfi, sem er komið á fót, skulu samningsyfirvöld semja skriflega skýrslu þar sem koma skal fram a.m.k. eftirfarandi:
a)    nafn og heimilisfang samningsyfirvalds og efni og verðmæti samningsins, rammasamningsins eða virka innkaupakerfisins,
b)    nöfn þeirra þátttakenda eða bjóðenda sem urðu fyrir valinu og ástæðurnar fyrir vali þeirra,
c)    nöfn þeirra þátttakenda eða bjóðenda sem vísað var frá og ástæðurnar fyrir frávísun þeirra,
d)    ástæður fyrir frávísun tilboða sem reynast vera óeðlilega lág,
e)    nafn þess bjóðanda sem varð fyrir valinu og ástæðurnar fyrir því að tilboð hans var valið og hvaða hluta samningsins eða rammasamningsins bjóðandinn, sem valinn var, hyggst fá þriðju aðila til að vinna sem undirverktaka, ef það er vitað,
f)    við samningskaup, aðstæðurnar sem um getur í 30. og 31. gr. og eru rökstuðningur fyrir notkun þessa innkaupaferlis,
g)    að því er varðar samkeppnisviðræður, aðstæðurnar sem mælt er fyrir um í 29. gr. og eru rökstuðningur fyrir notkun þessa innkaupaferlis,
h)    ef nauðsyn krefur, ástæðurnar fyrir því að samningsyfirvöld hafa ákveðið að gera ekki samning eða rammasamning eða koma á fót virku innkaupakerfi.
Samningsyfirvöld skulu gera viðeigandi ráðstafanir til að skrá framkvæmd rafrænna aðferða við val tilboða.
Skýrslan eða meginefni hennar skal send til framkvæmdastjórnarinnar ef hún óskar eftir því.

VII. KAFLI
Framkvæmd útboðs
1. þáttur
Almenn ákvæði
44. gr.
Athugun á hæfi og vali þátttakenda og vali tilboða

1.     Tilboð skulu valin á grundvelli forsendna, sem mælt er fyrir um í 53. og 55. gr., að teknu tilliti til 24. gr., eftir að samningsyfirvöld hafa athugað hæfi rekstraraðilanna, sem voru ekki undanskildir skv. 45. og 46. gr., í samræmi við forsendur um efnahagslega og fjárhagslega stöðu, faglega og tæknilega þekkingu eða getu sem um getur í 47.–52. gr. og, þar sem við á, reglur um bann við mismunun og forsendur sem um getur í 3. mgr.
2.     Samningsyfirvöld geta krafist þess að þátttakendur og bjóðendur uppfylli kröfur um lágmarksgetu í samræmi við 47. og 48. gr.
Umfang upplýsinganna, sem um getur í 47. og 48. gr., og sú lágmarksgeta sem krafist er vegna tiltekins samnings, skal vera í tengslum við og í réttu hlutfalli við efni samningsins.
Þetta lágmark skal tilgreint í útboðstilkynningunni.
3.     Við lokað útboð, samningskaup að undangenginni birtingu útboðstilkynningar og samkeppnisviðræður geta samningsyfirvöld takmarkað fjölda hæfra þátttakenda sem þau bjóða að leggja fram tilboð eða að ganga til samninga eða viðræðna, að því tilskildu að hæfir þátttakendur séu nógu margir. Í útboðstilkynningu skulu samningsyfirvöld tilgreina þær hlutlægu og óhlutdrægu forsendur eða reglur sem þau hyggjast beita, lágmarksfjölda þátttakenda sem þau hyggjast bjóða og, ef við á, hámarksfjölda. Í lokuðu útboði skulu þátttakendur ekki vera færri en fimm. Við samningskaup, að undangenginni birtingu útboðstilkynningar, og í samkeppnisviðræðum skulu þátttakendur ekki vera færri en þrír. Þátttakendur skulu ætíð vera nægilega margir til að tryggja raunverulega samkeppni.
Samningsyfirvöld skulu bjóða a.m.k. jafnmörgum aðilum þátttöku í útboði og sá lágmarksfjöldi er sem áður var tiltekinn. Ef þátttakendur, sem standast valforsendur og lágmarkskröfur um getu, eru færri en tiltekinn lágmarksfjöldi þátttakenda geta samningsyfirvöld haldið útboðsferli áfram á þann hátt að gefa þeim þátttakanda eða þátttakendum, sem uppfylla kröfur, kost á að leggja fram tilboð. Samningsyfirvöldum er óheimilt að gefa fyrirtækjum, sem óskuðu ekki eftir þátttöku í útboðsferli eða uppfylla ekki kröfur um getu, kost á að leggja fram tilboð í því sama útboðsferli.
4.     Ef samningsyfirvöld nýta sér heimild til að fækka þeim lausnum sem ræða þarf, eða tilboðum sem samið er um, eins og kveðið er á um í 4. mgr. 29. gr. og 4. mgr. 30. gr., skulu þau gera það með því að beita valforsendum sem koma fram í útboðstilkynningu, útboðsskilmálum eða skýringargögnum. Á lokastigi ferlisins skal fjöldi þátttakenda vera nægilega mikill til að tryggja raunverulega samkeppni að svo miklu leyti sem um er að ræða nægilegan fjölda tilboða eða hæfra þátttakenda.

2. þáttur
Forsendur fyrir hæfismiðuðu vali
45. gr.
Persónulegar aðstæður þátttakanda eða bjóðanda

1.     Þátttakandi eða bjóðandi, sem hefur verið sakfelldur með endanlegum dómi sem samningsyfirvaldi er kunnugt um, af einni eða fleiri af þeim ástæðum sem fram koma hér á eftir, skal útilokaður frá því að gerður sé við hann opinber samningur:
a)    þátttöku í glæpasamtökum eins og skilgreint er í 1. mgr. 2. gr. sameiginlegrar aðgerðar ráðsins 98/733/DIM ( 20 ),
b)    spillingu eins og skilgreint er í 3. gr. gerðar ráðsins frá 26. maí 1997 ( 21 ) annars vegar og 1. mgr. 3. gr. sameiginlegrar gerðar ráðsins 98/742/DIM ( 22 ) hins vegar,
c)    sviksemi í skilningi 1. gr. samningsins um vernd fjárhagslegra hagsmuna Evrópubandalaganna ( 23 ),
d)    peningaþvætti eins og það er skilgreint í 1. gr. tilskipunar ráðsins 91/308/EBE frá 10. júní 1991 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til að stunda peningaþvætti ( 24 ).
Aðildarríkin skulu skilgreina framkvæmdarákvæði fyrir þessa grein í samræmi við landslög og með hliðsjón af lögum Bandalagsins.
Þau geta ákveðið undanþágur frá kröfunum, sem um getur í fyrstu undirgrein, vegna forgangskrafna í þágu almennings.
Varðandi þessa málsgrein skulu samningsyfirvöld, ef við á, biðja þátttakendur eða bjóðendur um að leggja fram skjölin, sem um getur í 3. mgr., og geta einnig, ef þau hafa efasemdir um persónulegar aðstæður þátttakendanna eða bjóðendanna, leitað til þar til bærra yfirvalda um upplýsingar, sem þau telja nauðsynlegar og sem varða persónulegar aðstæður viðkomandi þátttakenda eða bjóðenda. Ef upplýsingarnar varða þátttakanda eða bjóðanda, sem hefur staðfestu í öðru aðildarríki en samningsyfirvaldið, getur samningsyfirvaldið leitað eftir samstarfi við þar til bær yfirvöld í því ríki. Með hliðsjón af landslögum í aðildarríkinu þar sem þátttakendur eða bjóðendur hafa staðfestu varða slíkar fyrirspurnir lögaðila og/eða einstaklinga, þ.m.t., ef við á, forstjóra fyrirtækja og aðra aðila sem hafa heimild til fyrirsvars, ákvarðanatöku eða stjórnunar í fyrirtæki þátttakanda eða bjóðanda.
2.     Heimilt er að útiloka rekstraraðila frá þátttöku í útboði:
a)    ef fyrirtæki rekstraraðila er gjaldþrota eða félagi hefur verið slitið, ef bú þess hefur verið tekið til skiptameðferðar, ef það hefur fengið heimild til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar, ef það hefur lagt niður starfsemi tímabundið eða er í sambærilegri stöðu vegna álíka meðferðar samkvæmt innlendum lögum og reglum,
b)    ef óskað hefur verið gjaldþrotaskipta, slita á fyrirtæki eða skiptameðferðar eða ef leitað hefur verið eftir heimild til nauðasamninga eða greiðslustöðvunar eða ef óskað er eftir álíka meðferð samkvæmt innlendum lögum eða reglum,
c)    ef fyrirtækið hefur verið fundið sekt um refsivert brot á siðareglum í starfsgreininni með úrskurði, sem hefur dómsígildi, í samræmi við lagaákvæði í landinu þar sem brotið er framið,
d)    ef fyrirtækið hefur gerst sekt um alvarlegt misferli í starfgrein sinni sem samningsyfirvaldi er unnt að sýna fram á,
e)    ef fyrirtækið hefur ekki staðið skil á greiðslum til almannatrygginga eins og því ber samkvæmt lögum landsins þar sem það hefur staðfestu eða lögum í landi samningsyfirvalds,
f)    ef fyrirtækið hefur ekki staðið skil á skattgreiðslum samkvæmt lögum landsins þar sem það hefur staðfestu eða lögum í landi samningsyfirvalds,
g)    ef fyrirtækið hefur gerst sekt um alvarlegar rangfærslur við veitingu upplýsinganna sem krafist er samkvæmt þessum þætti eða hefur ekki veitt upplýsingarnar. Aðildarríkin skulu skilgreina framkvæmdarákvæði fyrir þessa grein í samræmi við landslög og með hliðsjón af lögum Bandalagsins.
3.     Samningsyfirvöld skulu samþykkja eftirfarandi sem fullnægjandi sönnun þess að ekkert af þeim tilvikum, sem eru tilgreind í 1. mgr. eða a-, b-, c-, e- eða f-lið 2. mgr., eigi við um fyrirtæki rekstraraðila:
a)    að því er varðar 1. mgr. og a-, b-, og c-lið 2. mgr., framlagning sakavottorðs eða, að öðrum kosti, jafngilds skjals sem er gefið út af þar til bæru dóms- eða stjórnvaldi í upprunalandi eða heimalandi fyrirtækisins, sem sýnir að þessum kröfum er fullnægt,
b)    að því er varðar e- og f-lið 2. mgr., vottorð sem þar til bært yfirvald í viðkomandi aðildarríki gefur út.
Ef slík skjöl eða vottorð eru ekki gefin út í viðkomandi ríki, eða ef þau ná ekki yfir öll þau tilvik sem tilgreind eru í 1. mgr. og a-, b- og c-lið 2. mgr. getur eiðsvarin yfirlýsing viðkomandi aðila komið í stað þeirra eða, í þeim aðildarríkjum þar sem ekki er kveðið á um slíka eiðsvarna yfirlýsingu, drengskaparheit sem viðkomandi gefur í viðurvist þar til bærs dóms- eða stjórnvalds eða, þar sem við á, lögbókanda eða hjá þar til bærri fag- eða viðskiptastofnun í heimalandi eða síðasta dvalarlandi þess aðila.
4.     Aðildarríkin skulu tilnefna þar til bær yfirvöld og stofnanir til að gefa út skjölin, vottorðin og yfirlýsingarnar, sem um getur í 3. mgr., og tilkynna framkvæmdastjórninni um það. Slíkar tilkynningar eru með fyrirvara um lög um gagnavernd.

46. gr.
Starfsréttindi

Heimilt er að krefjast þess að hver rekstraraðili, sem hyggst taka þátt í opinberu útboði, sýni fram á að hann sé skráður í firmaskrá eða verslunarskrá, eins og mælt er fyrir um í aðildarríkinu þar sem það hefur staðfestu, eða gefi eiðsvarna yfirlýsingu eða vottorð eins og lýst er í IX. viðauka A varðandi opinbera verksamninga, í IX. viðauka B varðandi opinbera vörusamninga og í IX. viðauka C varðandi opinbera þjónustusamninga.
Þegar um er að ræða opinberra þjónustusamninga, og þátttakendur og bjóðendur þurfa að hafa sérstaka heimild eða vera félagar í tilteknum samtökum til að mega veita viðkomandi þjónustu í heimalandi sínu, getur samningsyfirvaldið krafist þess að þeir sýni fram á að þeir hafi slíka heimild eða séu félagar í slíkum samtökum.

47. gr.
Efnahagsleg og fjárhagsleg staða

1.     Að jafnaði skal vera hægt að færa sönnur á efnahagslega og fjárhagslega stöðu rekstraraðila með einni eða fleiri eftirfarandi aðferðum:
a)    með viðeigandi yfirlýsingu frá bönkum eða, þar sem við á, sönnunargögnum um viðeigandi starfsábyrgðartryggingu,
b)    með því að framvísa efnahagsreikningi eða útdrætti úr honum ef krafist er birtingar efnahagsreiknings samkvæmt landslögum í landinu þar sem rekstraraðilinn hefur staðfestu,
c)    með yfirlýsingu um heildarveltu fyrirtækisins og, eftir því sem við á, veltuna á því sviði sem fellur undir samninginn á síðustu þremur fjárhagsárum að hámarki, eftir því hvaða dag fyrirtækið var stofnað eða rekstur hafinn, ef þessar upplýsingar um veltu eru tiltækar.
2.     Rekstraraðili getur, eftir því sem við á og vegna tiltekins samnings, byggt á getu annarra aðila án tillits til þess hver lagaleg tengsl hans eru við þessa aðila. Í því tilviki skal rekstraraðilinn sýna samningsyfirvaldinu fram á að hann muni hafa yfir að ráða nauðsynlegum tilföngum, t.d. með því að leggja fram skuldbindingu frá þessum aðilum þar að lútandi.
3.     Með sömu skilyrðum getur hópur rekstraraðila, sem um getur í 4. gr., byggt á getu þátttakenda í hópnum eða annarra aðila.
4.     Samningsyfirvöld skulu tilgreina, í útboðstilkynningu eða boði um að leggja fram tilboð, hvaða gögn skv. 1. mgr. þau gera kröfu um og hvaða annarra gagna kunni að verða krafist.
5.     Ef rekstraraðili getur ekki, af einhverri gildri ástæðu, lagt fram þau gögn sem samningsyfirvöld krefjast getur hann sýnt fram á efnahagslega og fjárhagslega stöðu sína með öðrum gögnum sem samningsyfirvaldið telur fullnægjandi.

48. gr.
Tæknileg og fagleg geta

1.     Tæknileg og fagleg geta fyrirtækja skal metin og prófuð í samræmi við 2. og 3. mgr.
2.     Rekstraraðili getur sannað tæknilega getu sína með einni eða fleiri af eftirfarandi aðferðum, allt eftir eðli, magni, mikilvægi eða fyrirhugaðri notkun verksins, vörunnar eða þjónustunnar:
a)    i)    með skrá yfir þau verk sem unnin hafa verið á undanförnum fimm árum ásamt vottorðum um fullnægjandi efndir mikilvægustu verksamninganna. Í þessum vottorðum skal koma fram verðmæti, dagsetning og staðsetning verka ásamt upplýsingum um hvort þau hafi verið unnin í samræmi við faglegar reglur og lokið með fullnægjandi hætti. Þar sem við á skal þar til bært yfirvald afhenda samningsyfirvaldi þessi vottorð milliliðalaust,
    ii)    með skrá yfir helstu vörusendingar eða þjónustu sem veitt hefur verið á þremur undanförnum árum ásamt upplýsingum um fjárhæðir, dagsetningar og viðtakendur, hvort heldur um er að ræða opinbera aðila eða einkaaðila. Sönnun um afhendingu vöru og þjónustu skal veitt:
         —    ef viðtakandinn er opinbert samningsyfirvald, í formi vottorðs sem þar til bært yfirvald gefur út eða staðfestir með áritun,
         —    ef viðtakandinn er kaupandi sem er einkaaðili, með vottorði kaupanda eða, ef það er ekki unnt, með yfirlýsingu rekstraraðilans sjálfs,
b)    með tilvísun til tæknimanna eða þeirra tæknilegu aðila sem koma að málinu, hvort sem þeir heyra beint undir fyrirtæki rekstraraðilans eða ekki, einkum þeirra sem bera ábyrgð á gæðaeftirliti og, þegar um er að ræða opinbera verksamninga, þeirra sem verktaki getur leitað til vegna framkvæmdar verksins,
c)    með lýsingu á tæknibúnaði og þeim ráðstöfunum sem birgir eða þjónustuveitandi hefur gert til að tryggja gæði ásamt lýsingu á aðstöðu fyrirtækisins til athugana og rannsókna,
d)    þegar um er að ræða vöru eða þjónustu sem er margbrotin eða, í undantekningartilvikum, er veitt í sérstökum tilgangi, með athugun á framleiðslugetu birgis eða tæknilegri getu þjónustuveitanda og, ef þörf krefur, á aðstöðu hans til athugana og rannsókna og ráðstöfunum hans til gæðaeftirlits og annast samningsyfirvöld þessa athugun eða, fyrir hönd þeirra, þar til bær, opinber aðili í landinu þar sem birgir eða þjónustuveitandi hefur staðfestu, með fyrirvara um samþykki þess aðila,
e)    með upplýsingum um menntun og faglegt hæfi þjónustuveitandans eða verktakans og/eða stjórnenda fyrirtækisins, einkum hæfi þess eða þeirra aðila sem bera ábyrgð á veitingu þjónustunnar eða stjórn verksins,
f)    þegar um er að ræða opinbera verksamninga og þjónustusamninga, og einungis þegar það á við, með tilvísun til þeirra umhverfisstjórnunaraðgerða sem rekstraraðilinn getur beitt við framkvæmd samningsins,
g)    með yfirlýsingu um árlegan meðalfjölda starfsmanna hjá þjónustuveitanda eða verktaka og fjölda manna í stjórnunarstöðum á undanförnum þremur árum,
h)    með yfirlýsingu um þau tæki, vélakost og tæknibúnað sem þjónustuveitandi eða verktaki hefur til umráða við framkvæmd samnings,
i)    með tilvísun til þess hlutfalls samnings sem þjónustuveitandi mun hugsanlega fela undirverktaka,
j)    að því er varðar vöru:
    i)    með sýnishornum, lýsingum og/eða ljósmyndum sem unnt á að vera að votta ef samningsyfirvald krefst þess,
    ii)    með vottorðum frá opinberri gæðaeftirlitsstofnun eða viðurkenndri stofnun sem staðfestir að varan, sem er skýrt skilgreind með tilvísunum í tilteknar forskriftir og staðla, sé í samræmi við þessar forskriftir og staðla.
3.     Rekstraraðili getur, eftir því sem við á og vegna tiltekins samnings, byggt á getu annarra aðila án tillits til þess hver lagaleg tengsl hans eru við þessa aðila. Í því tilviki skal hann sýna samningsyfirvaldinu fram á að hann muni hafa yfir að ráða þeim tilföngum sem eru nauðsynleg fyrir framkvæmd samningsins, t.d. með þeim hætti að aðilarnir stofni sameiginlega sérstakt fyrirtæki til að rekstraraðilinn hafi aðgang að nauðsynlegum tilföngum.
4.     Með sömu skilyrðum getur hópur rekstraraðila byggt á getu þátttakenda í hópnum eða annarra aðila eins og um getur í 4. gr.
5.     Þegar um er að ræða opinbera vörusamninga sem fela í sér ísetningu eða uppsetningu, þjónustu og/eða framkvæmd verks er heimilt að meta getu rekstraraðila, til að veita þjónustuna eða annast uppsetninguna eða verkið, einkum með hliðsjón af færni þeirra, skilvirkni, reynslu og áreiðanleika.
6.     Samningsyfirvöld skulu tiltaka, í útboðstilkynningu eða boði um að leggja fram tilboð, hvaða gögn skv. 2. mgr. þau óska að lögð verði fram.

49. gr.
Gæðastaðlar

Ef samningsyfirvöld krefjast þess að lögð séu fram vottorð frá óháðum aðila, sem staðfestir að rekstraraðilinn uppfylli tiltekna gæðastaðla, skulu þau vísa til gæðakerfa sem grundvallast á viðeigandi kerfi Evrópustaðla sem hefur fengið vottun stofnunar sem stenst kröfur um vottun samkvæmt Evrópustaðlakerfinu. Samningsyfirvöld skulu viðurkenna jafngild vottorð frá stofnunum sem hafa staðfestu í öðrum aðildarríkjum. Þau skulu einnig samþykkja önnur sönnunargögn frá rekstraraðilum um sambærilegar ráðstafanir til að tryggja gæði.

50. gr.
Umhverfisstjórnunarstaðlar

Ef samningsyfirvöld krefjast þess, í tilvikum sem um getur í f-lið 2. mgr. 48. gr., að lögð séu fram vottorð frá óháðum aðila, sem staðfestir að rekstraraðilinn uppfylli tiltekna umhverfisstjórnunarstaðla, skulu þau vísa til umhverfisstjórnunarkerfis Bandalagsins (EMAS) eða til umhverfisstjórnunarstaðla sem grundvallast á viðeigandi evrópskum eða alþjóðlegum stöðlum sem eru vottaðir af stofnunum sem starfa í samræmi við lög Bandalagsins eða viðeigandi evrópska eða alþjóðlega vottunarstaðla. Þau skulu viðurkenna jafngild vottorð frá stofnunum sem hafa staðfestu í öðrum aðildarríkjum. Samningsyfirvöld skulu einnig samþykkja önnur sönnunargögn um sambærilegar ráðstafanir varðandi umhverfisstjórnun, sem rekstraraðilar leggja fram.

51. gr.
Viðbótargögn og upplýsingar

Samningsyfirvald getur krafist þess að rekstraraðilinn bæti við eða skýri vottorð og skjöl sem eru lögð fram samkvæmt 45.–50. gr.

52. gr.
Opinber skrá yfir samþykkta rekstraraðila og vottun frá opinberum og einkaréttarlegum stofnunum

1.     Aðildarríkin geta innleitt annaðhvort opinberar skrár yfir samþykkta verktaka, birgja eða þjónustuveitendur eða vottun frá opinberum eða einkaréttarlegum vottunaraðilum.
Aðildarríkin skulu laga skilyrðin fyrir skráningu í þessar skrár, ásamt skilyrðum fyrir útgáfu vottorða frá vottunaraðilum, að ákvæðum 45. gr. (1. mgr.), 45. gr. (a–d-liðar og g-liðar 2. mgr.), 46. gr., 47. gr. (1., 4. og 5. mgr.), 48. gr. (1., 2. 5. og 6. mgr.), 49. gr. og, ef við á, 50. gr.
Aðildarríkin skulu einnig laga þau að 47. gr. (2. mgr.) og 48. gr. (3. mgr.) þegar um er að ræða skráningarumsóknir frá rekstraraðilum sem eru hluti af hópi og sem sýna fram á að þeir ráði yfir tilföngum sem hin fyrirtækin í hópnum hafa fengið þeim til ráðstöfunar. Í þeim tilvikum skulu þessir rekstraraðilar sanna fyrir yfirvaldinu, sem innleiðir opinberu skrána, að þeir ráði yfir þessum tilföngum út allan gildistíma vottorðs sem staðfestir að þeir séu skráðir í opinberu skrána og að allt það tímabil muni þessi fyrirtæki uppfylla áfram kröfur um hæfismiðað val sem mælt er fyrir um í greinunum, sem um getur í annarri undirgrein, sem rekstraraðilar bera fyrir sig í tengslum við skráningu sína.
2.     Rekstraraðilar, sem eru skráðir í opinberar skrár eða hafa fengið vottorð, geta, í hverju útboði, afhent samningsyfirvaldi vottorð um skráningu sem er gefið út af þar til bæru yfirvaldi eða vottorð sem þar til bær vottunaraðili gefur út. Í þessum vottorðum skulu koma fram þær upplýsingar sem gerðu þeim kleift að fá skráningu eða vottorð og flokkun samkvæmt skránni.
3.     Samningsyfirvöld annarra aðildaríkja skulu ekki ganga út frá því að vottuð skráning þar til bærra aðila í opinberum skrám eða vottorð, gefið út af vottunaraðila, sé til marks um hæfi nema að því er varðar 45. gr. (1. mgr. og a–d-lið og g-lið 2. mgr.), 46. gr. 47. gr. (b- og c-lið 1. mgr.) og 48. gr. (i-lið a- liðar, b-lið, e-lið, g-lið og h-lið 2. mgr.) þegar um er að ræða verktaka, (ii-lið a-liðar, b-lið, c-lið, d-lið og j-lið 2. mgr.), þegar um er að ræða birgja og (ii-lið a- liðar og c–i-lið 2. mgr.) þegar um er að ræða þjónustuveitendur.
4.     Ekki er hægt að vefengja upplýsingar, sem rekja má til skráningar í opinberum skrám eða vottunarskráningar, án rökstuðnings. Að því er varðar greiðslu iðgjalda til almannatrygginga og skatta er þó heimilt að krefjast viðbótarvottorðs frá skráðum rekstraraðilum við hvert útboð.
Samningsyfirvöld hinna aðildarríkjanna skulu einungis beita 3. mgr. og fyrstu undirgrein þessarar málsgreinar til hagsbóta þeim rekstraraðilum sem hafa staðfestu í aðildarríkinu þar sem opinbera skráin er haldin.
5.     Ekki er heimilt, varðandi skráningu rekstraraðila frá öðrum aðildarríkjum í opinberri skrá eða vottun sem þeir fá hjá stofnunum sem um getur í 1. mgr. að krefjast frekari sannana eða yfirlýsinga, annarra en þeirra sem innlendir rekstraraðilar eru krafðir um og skulu þær ávallt miðast við það sem kveðið er á um skv. 45.–49. gr. og, ef við á, 50. gr.
Þó er ekki hægt að skylda rekstraraðila frá öðrum aðildarríkjum til að fá slíka skráningu eða vottun til að geta tekið þátt í opinberu útboði. Samningsyfirvöld skulu viðurkenna jafngild vottorð frá stofnunum sem hafa staðfestu í öðrum aðildarríkjum. Þau skulu einnig samþykkja annars konar jafngild sönnunargögn.
6.     Rekstraraðilar geta, hvenær sem er, óskað eftir því að fá skráningu í opinbera skrá eða vottorð. Þeir skulu látnir vita, áður en langt um líður, um ákvörðun yfirvaldsins, sem heldur skrána, eða þar til bærs vottunaraðila.
7.     Vottunaraðilarnir, sem um getur í 1. mgr., skulu fara að evrópskum vottunarstöðlum.
8.     Aðildarríkjum, sem halda opinberar skrár, og vottunaraðilum, sem um getur í 1. mgr., ber skylda til að upplýsa framkvæmdastjórnina og hin aðildarríkin um heimilisfang stofnunarinnar sem senda á umsóknir til.

3. þáttur
Val tilboðs
53. gr.
Forsendur fyrir vali tilboðs.

1.     Með fyrirvara um innlend lög og stjórnsýslufyrirmæli er varða þóknun fyrir tiltekna þjónustu skulu forsendur, sem samningsyfirvöld byggja á við val þess aðila sem opinber samningur er gerður við, vera annaðhvort:
a)    þegar fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið er valið að mati samningsyfirvaldsins, ýmsar forsendur sem tengjast efni viðkomandi opinbers samnings, t.d. gæði, verð, tæknileg atriði, útlit og notagildi, umhverfiseiginleikar, rekstrarkostnaður, kostnaðarhagkvæmni, þjónusta eftir verklok og tæknileg aðstoð, afhendingardagur og afhendingartími eða frestur til að ljúka verki, eða
b)    lægsta verð eingöngu.
2.     Samningsyfirvöld skulu tilgreina í útboðstilkynningu eða útboðsgögnum, í tilvikum sem um getur í a- lið 1. mgr., eða, þegar um er að ræða samkeppnisviðræður, í skýringargögnum, hvert mat þeirra er á hlutfallslegu vægi hverrar forsendu sem valin er til að ákvarða fjárhagslega hagstæðasta tilboðið, sbr. þó ákvæði þriðju undirgreinar.
Þetta vægi má setja fram sem ákveðið bil með hæfilegum hámarksvikmörkum.
Ef samningsyfirvald telur að ekki sé unnt að styðjast við vægi vegna skorts á sönnunum skal yfirvaldið tilgreina forsendurnar í forgangsröð eftir mikilvægi þeirra í útboðstilkynningu eða útboðsgögnum eða, þegar um er að ræða samkeppnisviðræður, í skýringargögnum.

54. gr.
Rafræn uppboð

1.     Aðildarríkin geta kveðið á um að samningsyfirvöldum sé heimilt að nota rafræn uppboð.
2.     Þegar um er að ræða almenn eða lokuð útboð eða samningskaup skv. a-lið 1. mgr. 30. gr. geta samningsyfirvöld ákveðið að opinber samningur skuli gerður að undangengnu rafrænu uppboði þegar unnt er að ákvarða útboðsskilmála af nákvæmni.
Við sömu aðstæður er heimilt að halda rafrænt uppboð þegar aðilar að rammasamningi fá nýtt boð um að leggja fram tilboð eins og kveðið er á um í öðrum undirlið annarrar undirgreinar 4. mgr. 32. gr., og í útboðum þar sem gera á samning samkvæmt virka innkaupakerfinu sem um getur í 33. gr.
Rafrænt uppboð skal grundvallast:
—    annaðhvort eingöngu á verði, ef samningur er gerður á grundvelli lægsta verðs,
—    eða á verði og/eða nýju verðmæti tilboðsþátta sem tilgreint er í útboðsskilmálum, ef samningur er gerður á grundvelli fjárhagslega hagkvæmasta tilboðs.
3.     Samningsyfirvöld, sem ákveða að halda rafrænt uppboð, skulu geta þess í útboðstilkynningu.
Í útboðsskilmálum skulu meðal annars koma fram upplýsingar um eftirtalin atriði:
a)    þá þætti þar sem verðmætið liggur til grundvallar í rafrænu uppboði, að því tilskildu að slíkir þættir séu mælanlegir og hægt sé að setja þá fram í tölum eða hundraðshlutum,
b)    hvers konar takmarkanir sem hægt er að setja á verðmæti á grundvelli mats á skilmálum er varða efni samningsins,
c)    upplýsingarnar sem bjóðendur eiga að hafa aðgang að á meðan rafræna uppboðið stendur yfir og, eftir því sem við á, hvenær þeir fá aðgang að þeim,
d)    viðeigandi upplýsingar um rafræna uppboðsferlið,
e)    skilyrði sem bjóðendur verða að uppfylla til að geta lagt fram tilboð og einkum hvaða lágmarksmunar sé krafist á milli tilboða, eftir því sem við á,
f)    viðeigandi upplýsingar um rafræna búnaðinn sem notaður er og um fyrirkomulag og tækniforskriftir fyrir tengingu við hann.
4.     Áður en rafrænt uppboð hefst skulu samningsyfirvöld leggja fullt, fyrsta mat á tilboðin í samræmi við forsendu eða forsendur fyrir vali tilboðs og það vægi sem er ákveðið fyrir þær.
Öllum bjóðendum, sem hafa lagt fram gild tilboð, skal samtímis boðið, með rafrænum hætti, að bjóða nýtt verð og/eða verðmæti; í boðinu skulu koma fram allar viðeigandi upplýsingar varðandi tengingu hvers og eins við rafeindabúnaðinn, sem er notaður, ásamt upplýsingum um upphafsdag og upphafstíma rafræna uppboðsins. Rafræna uppboðinu má skipta í nokkra áfanga sem eru teknir fyrir hver á fætur öðrum. Rafræna uppboðið getur ekki hafist fyrr en tveimur virkum dögum eftir að boðin eru send út.
5.     Ef gera á samning á grundvelli fjárhagslega hagkvæmasta tilboðs skulu fylgja boðinu niðurstöður úr fullu mati á viðkomandi tilboði sem fer fram í samræmi við það vægi sem kveðið er á um í fyrstu undirgrein 2. mgr. 53. gr.
Í boðinu skal einnig koma fram hvaða reiknilíkan á að nota í rafrænu uppboði til að ákvarða sjálfkrafa endurflokkun tilboða á grundvelli nýs verðs og/eða verðmætis. Þetta líkan skal taka tillit til vægis allra forsendna sem eru settar til að ákvarða fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið eins og tilgreint er í útboðstilkynningu eða útboðsskilmálum; í því augnamiði skulu þó hugsanleg vikmörk skilgreind fyrir fram sem föst gildi.
Ef frávikstilboð eru heimiluð skal hafa sérstakt líkan fyrir hvert frávik.
6.     Í hverjum áfanga rafræns uppboðs skulu samningsyfirvöld þegar í stað láta öllum bjóðendum í té a.m.k. nægilegar upplýsingar til að þeir hafi vitneskju um stöðu sína í flokkuninni hverju sinni. Samningsyfirvöld geta einnig veitt aðrar upplýsingar sem hafa komið fram um önnur atriði varðandi verð og verðmæti, að því tilskildu að þær upplýsingar komi fram í útboðsskilmálum. Þau geta einnig, hvenær sem er, tilkynnt um fjölda bjóðenda í viðkomandi áfanga uppboðs. Þeim er þó aldrei heimilt að upplýsa um nafn bjóðenda á neinu stigi rafræns uppboðs.
7.     Samningsyfirvöld skulu loka rafrænu uppboði með einhverju af eftirfarandi:
a)    í boði um að taka þátt í uppboði er tilgreindur fyrir fram ákveðinn dagur og tími fyrir lok uppboðs,
b)    þegar ekki berst lengur nýtt verð eða verðmæti sem uppfyllir kröfur um lágmarksmun. Í því tilviki skulu samningsyfirvöld tiltaka, í boði um að taka þátt í uppboði, þann tíma sem látinn verður líða frá því að tekið er á móti síðasta tilboði og þar til rafræna uppboðinu er lokað,
c)    þegar þeim áföngum uppboðs, sem hafa verið tilteknir í boði um að taka þátt í uppboði, er lokið.
Ef samningsyfirvöld hafa ákveðið að loka rafrænu uppboði í samræmi við c-lið, og hugsanlega einnig samkvæmt þeirri aðferð sem mælt er fyrir um í b-lið, skal tímaáætlun fyrir hvern áfanga uppboðsins koma fram í boði um að taka þátt í uppboðinu.
8.     Þegar rafrænu uppboði hefur verið lokað skulu samningsyfirvöld gera samning í samræmi við 53. gr. á grundvelli niðurstaðna úr rafræna uppboðinu.
Samningsyfirvöld mega ekki nota rafrænt uppboð á ótilhlýðilegan hátt og ekki heldur á þann hátt að það komi í veg fyrir, takmarki eða raski samkeppni eða breyti efni samningsins eins og það var sett fram í birtri útboðstilkynningu og skilgreint í útboðsskilmálum.

55. gr.
Óeðlilega lág tilboð

1.     Ef tilboð vegna tiltekins samnings virðast óeðlilega lág miðað við vöru, verk eða þjónustu skal samningsyfirvald, áður en það getur vísað þessum tilboðum frá, óska eftir nákvæmri, skriflegri lýsingu á þeim efnisþáttum tilboðsins sem það telur skipta máli.
Þessar upplýsingar geta einkum varðað:
a)    hagkvæmni byggingaraðferðar, framleiðsluferlis eða þjónustu,
b)    tæknilegar lausnir, sem hafa verið valdar, og/eða hvers konar óvenjulega hagstæðar aðstæður bjóðanda við framkvæmd verks, afhendingu vöru eða veitingu þjónustu,
c)    frumleika í tillögum bjóðanda varðandi verk, vöru eða þjónustu,
d)    samræmi við gildandi ákvæði um vinnuvernd og vinnuskilyrði á staðnum þar sem framkvæmd verks, afhending vöru eða veiting þjónustu fer fram,
e)    möguleika bjóðanda á því að fá ríkisstyrki.
2.     Samningsyfirvöld skulu sannreyna þessa efnisþætti með viðræðum við bjóðanda, að teknu tilliti til þeirra gagna sem hafa verið lögð fram.
3.     Ef samningsyfirvald kemst að raun um að tilboð sé óeðlilega lágt vegna þess að bjóðandi hafi fengið ríkisstyrk er ekki hægt að vísa tilboðinu frá af þeirri ástæðu einni fyrr en samningsyfirvaldið hefur átt viðræður við bjóðanda og hann reynist, að loknum hæfilegum fresti sem samningsyfirvaldið setur, ófær um að sanna að viðkomandi styrkur hafi verið veittur lögum samkvæmt. Ef samningsyfirvald vísar tilboði frá við þessar aðstæður skal það tilkynna framkvæmdastjórninni um það.

III. BÁLKUR
REGLUR UM OPINBERA SÉRLEYFISSAMNINGA UM VERK
I. KAFLI
Gildandi reglur um opinbera sérleyfissamninga um verk
56. gr.
Gildissvið

Þessi kafli gildir um alla opinbera sérleyfissamninga um verk sem samningsyfirvöld gera þar sem verðmæti samningsins er 6 242 000 evrur eða meira.
Verðmætið skal reiknað í samræmi við gildandi reglur um opinbera verksamninga sem skilgreindir eru í 9. gr.

57. gr.
Samningar sem eru undanþegnir gildissviði tilskipunarinnar

Þessi bálkur gildir ekki um opinbera sérleyfissamninga um verk:
a)    sem eru gerðir í tilvikum sem um getur í 13., 14. og 15. gr. þessarar tilskipunar varðandi opinbera verksamninga,
b)    sem eru gerðir af samningsyfirvöldum sem stunda eina eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi, sem um getur í 3.–7. gr. tilskipunar 2004/17/EB, þegar þessi sérleyfi eru veitt til að stunda þá starfsemi.
    Þessi tilskipun gildir þó áfram um opinbera sérleyfissamninga um verk, sem eru gerðir af samningsyfirvöldum, sem stunda eina eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi sem um getur í 6. gr. tilskipunar 2004/17/EB, og eru gerðir vegna þeirrar starfsemi, svo fremi að viðkomandi aðildarríki nýti sér þann kost sem um getur í annarri undirgrein 71. gr. hennar til að fresta beitingu hennar.

58. gr.
Birting tilkynninga um opinbera sérleyfissamninga um verk

1.     Samningsyfirvöld, sem hyggjast gera opinberan sérleyfissamning um verk, skulu láta vita af fyrirætlun sinni með tilkynningu.
2.     Í tilkynningum um opinbera sérleyfissamninga um verk skulu koma fram upplýsingarnar, sem um getur í VII. viðauka C, og, eftir því sem við á, hvers konar upplýsingar aðrar, sem samningsyfirvöld telja gagnlegar, í samræmi við stöðluð eyðublöð sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt samkvæmt málsmeðferð sem um getur í 2. mgr. 77. gr.
3.     Tilkynningar skulu birtar í samræmi við 2.–8. mgr. 36. gr.
4.     Ákvæði 37. gr. um birtingu tilkynninga gilda einnig um opinbera sérleyfissamninga um verk.

59. gr.
Frestur

Þegar samningyfirvöld hyggjast gera opinbera sérleyfissamninga um verk skal skilafrestur umsókna um sérleyfi ekki vera styttri en 52 dagar, reiknað frá sendingardegi tilkynningarinnar, að undanteknum þeim tilvikum sem fjallað er um í 5. mgr. 38. gr.
Beita skal ákvæði 7. mgr. 38. gr.

60. gr.
Undirverktaka

Samningsyfirvaldið getur annaðhvort:
a)    krafist þess að sérleyfishafi geri samninga við þriðja aðila, sem samsvara minnst 30% af heildarverðmæti verksins sem væntanlegur sérleyfissamningur tekur til, og gefa um leið umsækjendum færi á að hækka það hlutfall; þetta lágmarkshlutfall skal tilgreina í sérleyfissamningnum,
b)    eða farið fram á að umsækjendur um sérleyfissamninga tilgreini, í tilboði sínu, þann hundraðshluta heildarverðmætis verks þess sem gera á sérleyfissamning um og sem þeir hyggjast fela þriðja aðila.

61. gr.
Viðbótarverk sem samið er um við sérleyfishafa

Þessi tilskipun gildir ekki um viðbótarverk sem hvorki var gert ráð fyrir í upphaflega sérleyfisverkefninu né í upphaflegum samningi en sem hafa, vegna ófyrirsjáanlegra aðstæðna, orðið nauðsynleg fyrir framkvæmd verksins sem þar er lýst og sem samningsyfirvaldið hefur samið um við sérleyfishafann, að því tilskildu að samningurinn sé gerður við rekstraraðilann sem annast framkvæmd slíks verks:
—    þegar ekki er unnt að aðskilja slík viðbótarverk frá upphaflega samningnum af tæknilegum eða fjárhagslegum ástæðum án þess að valda samningsyfirvöldum miklum óþægindum,
—    þegar slík verk eru alveg nauðsynleg fyrir framkvæmd upphaflega samningsins þótt unnt sé að aðskilja þau frá honum.
Samanlagt verðmæti samninga, sem gerðir eru vegna viðbótarverka, má þó ekki fara yfir 50% af fjárupphæð upphaflega sérleyfissamningsins um verk.

II. KAFLI
Reglur um samninga, gerða af sérleyfishafa sem er samningsyfirvald
62. gr.
Gildandi reglur

Ef sérleyfishafi er samningsyfirvald, eins og um getur í 9. mgr. 1. gr., skal hann fara að ákvæðum um opinbera verksamninga, sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, þegar um er að ræða verk sem þriðju aðilar framkvæma.

III. KAFLI
Reglur um samninga, gerða af sérleyfishafa sem er ekki samningsyfirvald
63. gr.
Reglur um birtingu: viðmiðunarfjárhæðir og undantekningar

1.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar ráðstafanir til að tryggja að opinberir sérleyfishafar, sem eru ekki samningsyfirvöld, beiti þeim reglum um birtingu sem skilgreindar eru í 64. gr. þegar þeir gera verksamninga við þriðju aðila ef verðmæti slíkra samninga er 6 242 000 evrur eða meira.
Birting er þó ekki nauðsynleg þegar samningur um opinberar framkvæmdir fullnægir þeim skilyrðum sem tilgreind eru í 31. gr. þessa samnings.
Verðmæti samninga skal reiknað í samræmi við gildandi reglur um opinbera verksamninga sem mælt er fyrir um í 9. gr.
2.     Fyrirtækjahópar, sem hafa verið myndaðir með það fyrir augum að fá sérleyfi, eða fyrirtæki í tengslum við þá, skulu ekki teljast til þriðju aðila.
„Tengt fyrirtæki“ er fyrirtæki sem sérleyfishafi getur haft bein eða óbein yfirráð yfir eða fyrirtæki sem getur öðlast yfirráð yfir sérleyfishafanum eða sem er, ásamt sérleyfishafa, undir yfirráðum annars fyrirtækis á grundvelli eignarhalds, fjárhagslegrar þátttöku eða gildandi reglna. Fyrirtæki telst hafa yfirráð yfir öðru fyrirtæki þegar það, beint eða óbeint:
a)    á meirihluta skráðs hlutafjár í hlutaðeigandi fyrirtæki,
b)    ræður yfir meirihluta atkvæða sem fylgja hlutabréfum sem fyrirtækið gefur út eða
c)    hefur rétt til að skipa meira en helming fulltrúa í stjórn, framkvæmdastjórn eða eftirlitsstjórn fyrirtækisins.
Tæmandi skrá yfir slík fyrirtæki skal fylgja umsókn um sérleyfi. Skrána skal uppfæra í samræmi við síðari breytingar á tengslum milli fyrirtækjanna.

64. gr.
Birting tilkynninga

1.     Sérleyfishafar verksamnings, sem eru ekki samningsyfirvöld en hyggjast gera verksamninga við þriðju aðila, skulu láta vita af fyrirætlun sinni með tilkynningu.
2.     Í tilkynningum skulu koma fram upplýsingarnar, sem um getur í VII. viðauka C, og, eftir því sem við á, hvers konar aðrar upplýsingar, sem sérleyfishafar verksamnings telja gagnlegar, í samræmi við stöðluð eyðublöð sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt samkvæmt málsmeðferð sem um getur í 2. mgr. 77. gr.
3.     Tilkynningin skal birt í samræmi við 2.–8. mgr. 36. gr.
4.     Einnig skal beita ákvæðum 37. gr. um valfrjálsa birtingu tilkynninga.

65. gr.
Tilboðsfrestur og frestur til að leggja fram þátttökutilkynningu

Í verksamningum, gerðum af sérleyfishöfum sem eru ekki samningsyfirvöld, skal frestur til að leggja fram þátttökutilkynningu, sem sérleyfishafi ákveður, ekki vera skemmri en 37 dagar frá sendingardegi útboðstilkynningar og tilboðsfrestur ekki skemmri en 40 dagar frá sendingardegi útboðstilkynningar eða boðs um að leggja fram tilboð.
Beita skal ákvæðum 5., 6. og 7. mgr. 38. gr.

IV. BÁLKUR
REGLUR UM HÖNNUNARSAMKEPPNI
66. gr.
Almenn ákvæði

1.     Reglur um tilhögun hönnunarsamkeppni skulu vera í samræmi við 66.–74. gr. og skulu sendar þeim sem hafa áhuga á því að taka þátt í keppninni.
2.     Aðgangur að hönnunarsamkeppni má ekki takmarkast við:
a)    yfirráðasvæði eða hluta af yfirráðasvæði aðildarríkis,
b)    það að þátttakendur séu annaðhvort einstaklingar eða lögaðilar þótt þess kunni að vera krafist í lögum aðildarríkisins þar sem samkeppnin er haldin.

67. gr.
Gildissvið

1.     Eftirtaldir aðilar halda hönnunarsamkeppni í samræmi við ákvæði þessa bálks:
a)    samningsyfirvöld sem eru skráð sem yfirvöld á vegum ríkisins í IV. viðauka, frá og með viðmiðunarfjárhæð sem skal vera 162 000 evrur eða meira,
b)    samningsyfirvöld sem eru ekki skráð í IV. viðauka, frá og með viðmiðunarfjárhæð sem skal vera 249 000 evrur eða meira,
c)    öll samningsyfirvöld, frá og með viðmiðunarfjárhæð sem skal vera 249 000 evrur eða meira þar sem samkeppnin varðar þjónustu í 8. flokki II. viðauka A, fjarskiptaþjónustu í 5. flokki, þar sem CPV-númerin samsvara CPC-tilvísunarnúmerunum 7524, 7525 og 7526. og/eða þjónustu sem er tilgreind í II. viðauka B,
2.     Þessi bálkur gildir um:
a)    hönnunarsamkeppni sem efnt er til með það fyrir augum að gera opinberan þjónustusamning,
b)    hönnunarsamkeppni þar sem þátttakendur fá verðlaun og/eða greiðslur.
Í tilvikum, sem um getur í a-lið, merkir viðmiðunarfjárhæð áætlað verðmæti opinbera þjónustusamningsins án virðisaukaskatts, þ.m.t. öll verðlaun og/eða greiðslur til þátttakenda.
Í tilvikum, sem um getur í b-lið, merkir viðmiðunarfjárhæð heildarfjárhæð verðlauna og greiðslna, þ.m.t. áætlað verðmæti opinbers þjónustusamnings án virðisaukaskatts sem kynni að vera gerður síðar skv. 3. mgr. 31. gr. ef samningsyfirvaldið undanskilur ekki slíkan samning í tilkynningu um samkeppnina.

68. gr.
Starfsemi sem er undanþegin gildissviði tilskipunarinnar

Þessi bálkur gildir ekki um:
a)    hönnunarsamkeppni í skilningi tilskipunar 2004/17/EB sem er haldin af samningsyfirvöldum, sem stunda eina eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi sem um getur í 3.–7. gr. þeirrar tilskipunar, og er haldin með tilliti til áframhaldandi rekstrar þeirrar starfsemi, og ekki heldur um samkeppni sem er undanþegin gildissviði þessarar tilskipunar.
    Þessi tilskipun gildir þó áfram um hönnunarsamkeppni sem haldin er af samningsyfirvöldum, sem stunda eina eða fleiri tegundir þeirrar starfsemi sem um getur í 6. gr. tilskipunar 2004/17/EB, og er haldin vegna þeirrar starfsemi, svo fremi að viðkomandi aðildarríki nýti sér þann kost sem um getur í annarri undirgrein 71. gr. hennar til að fresta beitingu hennar,
b)    samkeppni sem er haldin í sömu tilvikum og um getur í 13., 14. og 15. gr. þessarar tilskipunar varðandi opinbera þjónustusamninga.

69. gr.
Tilkynningar

1.     Samningsyfirvöld, sem hyggjast halda hönnunarsamkeppni, skulu láta vita af fyrirætlun sinni með tilkynningu um samkeppnina.
2.     Samningsyfirvöld, sem hafa haldið hönnunarsamkeppni, skulu senda tilkynningu um úrslit samkeppninnar í samræmi við 36. gr. og þau skulu geta fært sönnur á sendingardaginn.
Ef afhending upplýsinga um niðurstöður hönnunarsamkeppni kynni að hindra framkvæmd laga, ganga gegn almannahagsmunum eða gæti skaðað lögmæta viðskiptahagsmuni tiltekinna, opinberra eða einkarekinna fyrirtækja eða réttmæta samkeppni milli þjónustuveitenda er ekki skylt að birta slíkar upplýsingar.
3.     Ákvæði 37. gr. um birtingu tilkynninga gilda einnig um samkeppni.

70. gr.
Form og aðferð við birtingu tilkynninga um samkeppni

1.     Í tilkynningum, sem um getur í 69. gr., skulu koma fram upplýsingarnar, sem um getur í VII. viðauka D, í samræmi við staðlað eyðublað tilkynninga sem framkvæmdastjórnin hefur samþykkt í samræmi við málsmeðferð skv. 2. mgr. 77. gr.
2.     Tilkynningarnar skulu birtar í samræmi við 2.–8. mgr. 36. gr.

71. gr.
Samskiptaaðferðir

1.     Ákvæði 1., 2. og 4. mgr. 42. gr. gilda um öll samskipti sem tengjast hönnunarsamkeppni.
2.     Samskipti, upplýsingaskipti og geymsla upplýsinga skulu vera með þeim hætti að tryggður sé heilleiki og leynd allra upplýsinga, sem þátttakendur í samkeppni láta í té, og að dómnefnd athugi ekki efni áætlana og tillagna fyrr en eftir að frestur til að leggja þær fram er útrunninn.
3.     Eftirfarandi reglur gilda um búnað til rafrænnar móttöku áætlana og tillagna:
a)    upplýsingar um forskriftir, sem eru nauðsynlegar fyrir rafræna framlagningu áætlana og tillagna, þ.m.t. dulkóðun, skulu vera aðgengilegar öllum aðilum sem málið varðar, tæki fyrir rafræna móttöku áætlana og tillagna skulu enn fremur vera í samræmi við kröfur sem koma fram í X. viðauka,
b)    aðildarríkin geta innleitt valfrjáls faggildingarkerfi eða viðhaldið þeim með það fyrir augum að bæta vottunarþjónustu fyrir þessi tæki,

72. gr.
Val samkeppnisaðila

Ef hönnunarsamkeppni er bundin við takmarkaðan fjölda þátttakenda skulu samningsyfirvöld mæla fyrir um skýrar valforsendur án mismununar. Þátttakendur skulu ætíð vera nægilega margir til að tryggja raunverulega samkeppni.

73. gr.
Samsetning dómnefndar

Dómnefnd skal aðeins skipuð einstaklingum sem eru óháðir þátttakendum í samkeppninni. Ef tiltekinnar, faglegrar menntunar og hæfis er krafist af þátttakendum í samkeppni skal a.m.k. einn þriðji hluti dómnefndarmanna hafa þá sömu eða sambærilega menntun og hæfi.

74. gr.
Ákvarðanir dómnefndar

1.     Dómnefndin skal vera sjálfstæð í ákvörðunum og áliti sínu.
2.     Hún skal rannsaka áætlanir og tillögur, sem þátttakendur leggja fram, undir nafnleynd og eingöngu á grundvelli forsendna sem eru tilgreindar í tilkynningu um samkeppni.
3.     Dómnefndin skal skrá flokkun sína á tillögum eftir kostum þeirra í skýrslu, sem nefndarmenn undirrita, ásamt athugasemdum nefndarinnar og þeim atriðum sem kunna að þarfnast skýringar.
4.     Halda verður nafnleynd þar til álit eða ákvörðun dómnefndar liggur fyrir.
5.     Þátttakendum kann að vera boðið, ef þörf krefur, að svara spurningum sem dómnefndin hefur skráð í fundargerð til að skýra einhverja þætti tillagnanna.
6.     Rita skal ítarlega fundargerð af viðræðum dómnefndarmanna og þátttakenda.

V. BÁLKUR
SKYLDAN AÐ VEITA TÖLULEGAR UPPLÝSINGAR, FRAMKVÆMDAVALD OG LOKAÁKVÆÐI
75. gr.
Skyldan að veita tölulegar upplýsingar

Til að unnt sé að meta árangurinn af beitingu þessarar tilskipunar skulu aðildarríkin, eigi síðar en 31. október ár hvert, senda framkvæmdastjórninni tölulega skýrslu sem, í samræmi við 76. gr., er samin sérstaklega fyrir hverja tegund samnings, opinbera vörusamninga, þjónustusamninga og verksamninga sem samningsyfirvöld hafa gert árið áður.

76. gr.
Efni tölulegra skýrslna

1.     Í tölulegri skýrslu skulu a.m.k. koma fram eftirfarandi upplýsingar varðandi hvert og eitt samningsyfirvald sem tilgreint er í IV. viðauka:
a)    fjöldi og verðmæti samninga sem eru gerðir og falla undir þessa tilskipun,
b)    fjöldi og heildarverðmæti samninga sem eru gerðir á grundvelli undanþágu frá samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
Sundurliða skal liðina, sem um getur í a-lið fyrstu undirgreinar, á eftirfarandi hátt ef unnt er:
a)    útboðsferli sem notuð eru og
b)    fyrir hvert ferli, verk sem tilgreind eru í I. viðauka og vörur og þjónusta sem tilgreind er í II. viðauka, sett fram samkvæmt flokkun CPV- flokkunarkerfisins,
c)    þjóðerni rekstraraðilans sem samningur er gerður við.
Ef samningarnir hafa verið gerðir á grundvelli samningskaupa skulu upplýsingarnar, sem um getur í a-lið fyrstu undirgreinar, einnig sundurliðaðar eftir aðstæðum sem um getur í 30. og 31. gr. og þar skal tilgreina fjölda og verðmæti samninga sem eru gerðir í því aðildarríki eða þriðja landi sem er heimaland verktakans sem varð fyrir valinu.
2.     Í tölulegri skýrslu skulu a.m.k. koma fram eftirfarandi upplýsingar um hvern flokk samningsyfirvalda sem er ekki tilgreindur í IV. viðauka:
a)    fjöldi og verðmæti þeirra samninga sem eru gerðir, sundurliðað í samræmi við aðra undirgrein 1. mgr.,
b)    heildarverðmæti samninga sem eru gerðir á grundvelli undanþágu frá samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
3.     Í tölulegri skýrslu skulu koma fram allar aðrar tölulegar upplýsingar sem krafist er samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
Upplýsingarnar, sem um getur í fyrstu undirgrein, skulu ákvarðaðar í samræmi við ákvæði 2. mgr. 77. gr.

77. gr.
Ráðgjafarnefnd

1.     Framkvæmdastjórnin skal njóta aðstoðar ráðgjafarnefndarinnar um opinbera samninga sem stofnuð var með 1. gr. ákvörðunar 71/306/EBE ( 25 ) (hér á eftir kölluð „nefndin“).
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda ákvæði 3. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB í samræmi við ákvæði 8. gr. hennar.
3.     Nefndin setur sér starfsreglur.

78. gr.
Endurskoðun viðmiðunarfjárhæða

1.     Framkvæmdastjórnin skal sannreyna viðmiðunarfjárhæðirnar, sem ákveðnar eru í 7. gr., annað hvert ár eftir gildistöku þessarar tilskipunar og skal, ef þörf krefur, endurskoða þær í samræmi við ákvæði 2. mgr. 77. gr.
Útreikningur á þessum viðmiðunarfjárhæðum skal byggjast á meðaldaggengi evrunnar, tilgreint sem sérstök dráttarréttindi (SDR), á 24 mánaða tímabili sem lýkur á síðasta degi ágústmánaðarins næst á undan endurskoðuninni sem tekur gildi 1. janúar. Viðmiðunarfjárhæðir, sem eru endurskoðaðar þannig, skulu, ef þörf krefur, jafnaðar niður að næsta þúsundi evra til að tryggja að tekið sé tillit til gildandi viðmiðunarfjárhæða samkvæmt samningi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar, sem eru tilgreindar sem sérstök dráttarréttindi.
2.     Samtímis endurskoðuninni skv. 1. mgr. skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við ákvæði 2. mgr. 77. gr., aðlaga:
a)    viðmiðunarfjárhæðirnar, sem ákveðnar eru í a-lið fyrstu undirgreinar 8. gr., í 56. gr. og í fyrstu undirgrein 1. mgr. 63. gr., að endurskoðuðum viðmiðunarfjárhæðum fyrir opinbera verksamninga,
b)    viðmiðunarfjárhæðirnar, sem ákveðnar eru í b-lið fyrstu undirgreinar 8. gr. og í a-lið 1. mgr. 67. gr., að endurskoðuðum viðmiðunarfjárhæðum fyrir opinbera þjónustusamninga sem gerðir eru af samningsyfirvöldum sem um getur í IV. viðauka,
c)    viðmiðunarfjárhæðirnar, sem ákveðnar eru í b- og c-lið 1. mgr. 67. gr., að endurskoðuðum viðmiðunarfjárhæðum fyrir opinbera þjónustusamninga sem eru gerðir af samningsyfirvöldum sem eru ekki talin með í IV. viðauka.
3.     Viðmiðunarfjárhæðirnar, sem eru ákveðnar skv. 1. mgr. í innlendum gjaldmiðli aðildarríkis, sem er ekki aðili að myntbandalaginu, skulu að jafnaði leiðréttar annað hvert ár frá 1. janúar 2004 að telja. Útreikningur á slíkum viðmiðunarfjárhæðum skal byggjast á meðaldaggengi þess sama gjaldmiðils, tilgreint í evrum, á 24 mánaða tímabili sem lýkur á síðasta degi ágústmánaðarins næst á undan endurskoðuninni sem tekur gildi 1. janúar.
4.     Framkvæmdastjórnin skal birta endurskoðuðu viðmiðunarfjárhæðirnar, sem um getur í 1. mgr., og verðmæti þeirra í innlendum gjaldmiðli, sem um getur í 3. mgr., í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins í upphafi næsta nóvembermánaðar eftir endurskoðun.

79. gr.
Breytingar

1.     Framkvæmdastjórnin getur breytt eftirfarandi í samræmi við ákvæði 2. mgr. 77. gr.:
a)    tæknilegri útfærslu á reikniaðferðum sem eru settar fram í annarri undirgrein 1. mgr. 78. gr. og í 3. mgr. 78. gr.,
b)    reglum um samningu, sendingu, móttöku, þýðingu, söfnun og dreifingu tilkynninga sem um getur í 35., 58., 64. og 69. gr. og tölulegra skýrslna sem kveðið er á um í fjórðu undirgrein 4. mgr. 35. gr. og í 75. og 76. gr.,
c)    sérstökum reglum um tilvísun, í tilkynningum, til tiltekinnar stöðu í CPV-flokkunarkerfinu,
d)    skrám yfir aðila og flokka aðila í III. viðauka, sem falla undir opinberan rétt, þegar það er nauðsynlegt á grundvelli tilkynninga frá aðildarríkjunum,
e)    skrám yfir yfirvöld á vegum ríkisstjórna í IV. viðauka eftir því hvaða aðlaganir eru nauðsynlegar til að samningur Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar gildi,
f)    tilvísunarnúmerum til flokkunarkerfis, sem sett eru fram í I. viðauka, svo fremi að það breyti ekki efnislegu gildissviði þessarar tilskipunar, og reglum um tilvísun, í tilkynningum, til tiltekinnar stöðu í því flokkunarkerfi,
g)    tilvísunarnúmerum til flokkunarkerfis, sem sett eru fram í II. viðauka, svo fremi að það breyti ekki efnislegu gildissviði þessarar tilskipunar, og reglum um tilvísun í tilkynningum til tiltekinnar stöðu í því flokkunarkerfi innan þjónustuflokka sem skráðir eru í viðaukanum,
h)    reglum um sendingu og birtingu gagna sem um getur í VIII. viðauka á grundvelli tækniþróunar eða af stjórnunarlegum ástæðum,
i)    tæknilegum atriðum og eiginleikum búnaðar fyrir rafræna móttöku sem um getur í a-, f- og g-lið X. viðauka.

80. gr.
Framkvæmd

1.     Aðildarríkin skulu samþykkja nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari eigi síðar en 31. janúar 2006. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær eru birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.
2.     Aðildarríkin skulu senda framkvæmdastjórninni helstu ákvæði úr landslögum sem þau samþykkja um málefni sem tilskipun þessi nær til.

81. gr.
Eftirlitskerfi

Í samræmi við tilskipun ráðsins 89/665/EBE frá 21. desember 1989 um samræmingu laga og stjórnsýslufyrirmæla aðildarríkjanna á reglum um meðferð kæru vegna útboðs og gerðar opinberra vörukaupa- og verksamninga ( 26 ) skulu aðildarríkin tryggja framkvæmd þessarar tilskipunar með skilvirkum, aðgengilegum og gagnsæjum aðferðum.
Með það fyrir augum geta þau m.a. tilnefnt eða komið á fót óháðri stofnun.

82. gr.
Niðurfelling

Tilskipun 92/50/EBE, að frátaldri 41. gr., og tilskipanir 93/36/EBE og 93/37/EBE falli úr gildi frá og með þeim degi sem er tilgreindur í 80. gr., með fyrirvara um skyldur aðildarríkjanna varðandi frest til lögleiðingar og beitingar sem eru settar fram í XI. viðauka.
Líta ber á tilvísanir í niðurfelldu tilskipanirnar sem tilvísanir í þessa tilskipun og skulu þær lesnar með hliðsjón af samsvörunartöflunni í XII. viðauka.

83. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

84. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassborg 31. mars 2004.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX D. ROCHE
forseti. forseti.

I. VIÐAUKI
SKRÁ YFIR STARFSEMI SEM UM GETUR Í b-LIÐ 2. MGR. 1. GR. ( 1 )

Atvinnugreinaflokkun Evrópusambandsins (1)
CPV-kóði BÁLKUR F BYGGINGAR STARFSEMI
Deild Flokkur Grein Efni Athugasemdir
45 Byggingarstarfsemi Til þessarar deildar telst:
smíði nýrra húsa og annarra bygginga, endurbyggingar og almennar viðgerðir
45000000
45.1 Undirbúningsvinna á byggingarstað 45100000
45.11 Niðurrif bygginga og jarðvegsvinna Til þessarar greinar telst:
–    niðurrif bygginga og annarra mannvirkja
–    hreinsun byggingarlóða
–    jarðvegsvinna: uppgröftur, uppfylling, jöfnun lands og sléttun byggingarlóða, skurðgröftur, grjóthreinsun, sprengingar o.s.frv.
–    undirbúningur námusvæðis:
–    t.d. að fjarlægja yfirborðsjarðveg og önnur vinna og undirbúningur námusvæðis
Til þessarar greinar telst einnig:
–    framræsla byggingarlóða
–    framræsla lands til ræktunar- eða skógarnytja
45110000
45.12 Tilraunaboranir og borvinna Til þessarar greinar telst:
–    boranir og taka borkjarna í tilraunaskyni í tengslum við byggingar, jarðeðlisfræðilegar og jarðfræðilegar athuganir eða í öðrum tilgangi
Til þessarar greinar telst ekki:
–    boranir vegna vinnslu á olíu- eða jarðgasi, sjá 11.20
–    boranir fyrir vatnsbrunnum, sjá 45.25
–    gröftur (shaft sinking), sjá 45.25
–    olíu- og jarðgasleit, rannsóknir á sviði jarðeðlisfræði og jarðfræði- og jarðskjálftarannsóknir, sjá 74.20
45120000
45.2 Smíði húsa eða húshluta og önnur mannvirkjagerð 45200000
45.21 Almenn húsasmíði og mannvirkjagerð Til þessarar greinar telst:
smíði hvers konar bygginga
mannvirkjagerð:
brúarsmíði, þ.m.t. vegna upphækkaðra þjóðvega, tengibrúa, ganga og neðanjarðarganga
lagning leiðslna, fjarskiptaleiðslna og raflína um langan veg
lagning leiðslna, fjarskiptaleiðslna og raflína í þéttbýli
tengd starfsemi í þéttbýli
samsetning og uppsetning forsmíðaðra bygginga á byggingarlóð.
Til þessarar greinar telst ekki:
þjónustustarfsemi sem tengist olíu- og jarðgasvinnslu, sjá 11.20
uppsetning fullbúinna, forsmíðaðra einingahúsa, ekki úr steinsteypu, sem eru smíðuð úr hlutum, framleiddum í eigin verksmiðju, sjá 20., 26. og 28. deild
byggingarframkvæmdir, aðrar en húsasmíði, í tengslum við leikvanga, sundlaugar, íþróttahús, tennisvelli, golfvelli og önnur íþróttamannvirki, sjá 45.23
lagnavinna, sjá 45.3
frágangur bygginga, sjá 45.4
starfsemi arkitekta og verkfræðinga, sjá 74.20
verkefnastjórnun við byggingarframkvæmdir, sjá 74.20
45210000
45.22 Vinna við þök Til þessarar greinar telst:
uppsetning þaks
þakklæðning
vatnseinangrun.
45220000
45.23 Gerð þjóðvega, vega flugvalla og íþróttamannvirkja Til þessarar greinar telst:
gerð þjóðvega, gatna, vega og annarra aksturs- og gangbrauta
lagning járnbrauta
lagning flugbrauta
byggingarframkvæmdir, aðrar en húsasmíði, í tengslum við leikvanga, sundlaugar, íþróttahús, tennisvelli, golfvelli og önnur íþróttamannvirki
merkingar á vegum og bifreiðastæðum.
Til þessarar greinar telst ekki:
jarðvegsvinna til undirbúnings, sjá 45.11
45230000
45.24 Gerð vatnsmannvirkja Til þessarar greinar telst:
vinna við:
vatnaleiðir, hafnir og flóðgarða, smábátahafnir, skipastiga, o.s.frv.
stíflur og ræsi
dýpkunarframkvæmd
vinna undir vatnsyfirborði
45240000
45.25 Aðrar byggingarframkvæmdir sem krefjast sérhæfingar Til þessarar greinar telst:
byggingarstarfsemi sem er sérhæfð á einu sviði, sameiginlegu með ólíkum tegundum bygginga, sem krefst sérstakrar hæfni eða sérstaks búnaðar:
undirstöðuvinna, þ.m.t. að reka niður burðarstólpa
borun og bygging vatnsbrunna, gröftur (shaft sinking)
uppsetning stáleininga sem eru ekki eigin framleiðsla
að beygja stál
múrsteinslögn og steinlögn
að setja upp og taka sundur vinnupalla, þ.m.t. leiga á slíkum pöllum
uppsetning reykháfa og iðnaðarofna
Til þessarar greinar telst ekki:
leiga á vinnupöllum án uppsetningar og sundurtekningar, sjá 71.32
45250000
45.3 Lagnavinna 45300000
45.31 Vinna við raflagnir Til þessarar greinar telst:
uppsetning í hús og önnur mannvirki:
raflagnir og raftengi
fjarskiptakerfi
rafhitunarkerfi
loftnet fyrir íbúðarhús
brunaboðar
þjófavarnarkerfi
lyftur og rúllustigar
eldingarvarar o.s.frv.
45310000
45.32 Vinna við einangrun Til þessarar greinar telst:
uppsetning hita-, hljóð- og titringseinangrunar í hús og önnur mannvirki
Til þessarar greinar telst ekki:
lagning vatnseinangrunar, sjá 45.22
45320000
45.33 Pípulagnir Til þessarar greinar telst:
uppsetning í hús og önnur mannvirki:
pípulagnir og uppsetning hreinlætistækja
gasbúnaður
búnaður og rásir fyrir upphitun, loftræstingu, kælingu eða hitajöfnun
úðakerfi
Til þessarar greinar telst ekki:
lagning rafhitunarkerfa, sjá 45.31
45330000
45.34 Önnur lagnavinna Til þessarar greinar telst:
uppsetning lýsingar- og merkjakerfa fyrir vegi, járnbrautir, flugvelli og hafnir
uppsetning festinga og fylgihluta í byggingum og öðrum mannvirkjum
45340000
45.4 Frágangur bygginga 45400000
45.41 Múrverk Til þessarar greinar telst:
múrhúðun eða pússning bygginga eða annarra mannvirkja innan- eða utanhúss, þ.m.t. net eða grindur fyrir múrhúð
45410000
45.42 Uppsetning innréttinga Til þessarar greinar telst:
ísetning hurða og glugga, dyra- og gluggakarma, uppsetning eldhúsinnréttinga, stiga, verslunarinnréttinga og þess háttar, úr viði eða öðrum efnum sem eru ekki framleidd á eigin verkstæði eða verksmiðju
frágangur innanhúss, t.d. vinna við loft, veggklæðningar úr viði, færanlega skilveggi o.s.frv.
Til þessarar greinar telst ekki:
lagning parketgólfa og annarra viðargólfa, sjá 45.43
45420000
45.43 Lagning gólf- og veggefna Til þessarar greinar telst:
lagning gólf- og veggefna í hús og önnur mannvirki:
keramikflísar, steyptar flísar eða skornar steinflísar fyrir veggi og gólf
parket og önnur viðargólfefni
teppi og gólfefni úr línóleum, einnig úr gúmmí og plasti
terrassó-, marmara-, granít- eða steinflögur á gólf eða veggi
veggfóður
45430000
45.44 Málningarvinna og glerjun Til þessarar greinar telst:
málun bygginga innanhúss og utan
málun mannvirkja
ísetning glers, spegla, o.s.frv.
Til þessarar greinar telst ekki:
ísetning glugga, sjá 45.42
45440000
45.45 Annar frágangur bygginga Til þessarar greinar telst:
lagning einkasundlauga
gufuhreinsun, sandblástur og áþekk vinna á útveggjum bygginga
annar lokafrágangur á byggingum, ót.a.
Til þessarar greinar telst ekki:
hreinsun á byggingum og öðrum mannvirkjum að innanverðu, sjá 74.70
45450000
45.5 Leiga á vinnuvélum eða niðurrifstækjum með stjórnanda 45500000
45.50 Leiga á vinnuvélum eða niðurrifstækjum með stjórnanda Til þessarar greinar telst ekki:
leiga á vinnuvélum og tækjum til mannvirkjagerðar og niðurrifs, án stjórnanda, sjá 71.32
(1)    Reglugerð ráðsins (EBE) nr. 3037/90 frá 9. október 1990 um atvinnugreinaflokkun Evrópubandalagsins (Stjtíð. EB L 293, 24.10.1990, bls. 1). Reglugerðinni var síðast breytt með reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 761/93 frá 24. mars 1993 (Stjtíð. EB L 83, 3.4.1993, bls. 1).

II. VIÐAUKI
ÞJÓNUSTA SEM UM GETUR Í d-LIÐ 2 MGR. 1. GR.


II. VIÐAUKI A ( 1 )

Flokkur nr. Efni CPC-tilvísunarnúmer (1) CPV-tilvísunarnúmer
1 Viðhalds- og viðgerðarþjónusta 6112, 6122, 633, 886 Frá 50100000 til 50982000 (þó ekki 50310000 til 50324200 og 50116510-9, 50190000-3, 50229000-6, 50243000-0)
2 Flutningaþjónusta á landi (2), einnig með brynvörðum bifreiðum, og hraðsendingaþjónusta, að frátöldum póstflutningum 712 (þó ekki 71235), 7512, 87304 Frá 60112000-6 til 60129300-1 (þó ekki 60121000 til 60121600, 60122200-1, 60122230-0), og frá 64120000-3 til 64121200-2
3 Farþega- og vöruflutningar í lofti, að frátöldum póstflutningum 73 (þó ekki 7321) Frá 62100000-3 til 62300000-5 (þó ekki 62121000-6, 62221000-7)
4 Póstflutningar á landi (3) og í lofti 71235, 7321 60122200-1, 60122230-0 62121000-6, 62221000-7
5 Fjarskiptaþjónusta 752 Frá 64200000-8 til 64228200-2, 72318000-7 og frá 72530000-9 til 72532000-3
6 Fjármálaþjónusta
Vátryggingaþjónusta
Banka- og fjárfestingaþjónusta (4)
ekki 81, 812, 814 Frá 66100000-1 til 66430000-3 og frá 67110000-1 til 67262000-1(4)
7 Tölvuþjónusta og skyld þjónusta 84 Frá 50300000-8 til 50324200-4, frá 72100000-6 til 72591000-4 (þó ekki 72318000-7 og frá 72530000-9 til 72532000-3)
8 Rannsóknir og þróun (5) 85 Frá 73000000-2 til 73300000-5 (þó ekki 73200000-4, 73210000-7, 7322000-0)
9 Reikningshald, endurskoðun og bókhald 862 Frá 74121000-3 til 74121250-0
10 Markaðsrannsóknir og skoðanakannanir 864 Frá 74130000-9 til 74133000-0 og 74423100-1, 74423110-4
11 Rekstrarráðgjöf (6) og skyld þjónusta 865, 866 Frá 73200000-4 til 73220000-0, Frá 74140000-2 til 74150000-5 (þó ekki 74142200-8) og 74420000-9, 74421000-6, 74423000-0, 74423200-2, 74423210-5, 74871000-5, 93620000-0
12 Arkitektaþjónusta, verkfræðiþjónusta og samþætt verkfræðiþjónusta, þjónusta á sviði borgar- og landslagsskipulags, vísindaleg og tæknileg ráðgjöf sem tengist þessum greinum, tækniprófanir og greining 867 Frá 74200000-1 til 74276400-8 og frá 74310000-5 til 74323100-0 og 74874000-6
13 Auglýsingastarfsemi 871 Frá 74400000-3 til 74422000-3 (þó ekki 74420000-9 og 74421000-6)
14 Ræstingar- og húsvarðaþjónusta 874, 82201 til 82206 Frá 70300000-4 til 70340000-6 og frá 74710000-9 til 74760000-4
15 Útgáfu- og prentunarþjónusta gegn gjaldi eða samkvæmt samningi 88442 Frá 78000000-7 til 78400000-1
16 Skólpveitur, sorphreinsun, hreinsunardeildir og skyld starfsemi 94 Frá 90100000-8 til 90320000-6 og 50190000-3, 50229000-6, 50243000-0
(1)    CPC flokkunarkerfið (bráðabirgðaútgáfa), notað til að skilgreina gildissvið tilskipunar 92/50/EBE.
(2)    Að frátöldum flutningum með járnbrautum sem falla undir 18. flokk.
(3)    Að frátöldum flutningum með járnbrautum sem falla undir 18. flokk.
(4)    Að frátalinni fjármálaþjónustu í tengslum við útgáfu, sölu, kaup eða framsal verðbréfa eða annarra fjármálagerninga og þjónustu seðlabanka.
    Also excluded: Einnig er undanskilin þjónusta, sem felur í sér kaup eða leigu lands, bygginga eða annarra fasteigna eða varðar rétt til þeirra, óháð fjármögnunaraðferðum; fjármálaþjónusta sem er veitt samtímis, fyrir eða eftir gerð samnings um kaup eða leigu, í hvaða formi sem er, skal þó falla undir gildissvið þessarar tilskipunar.
(5)    Að frátalinni annarri rannsóknar- og þróunarþjónustu en þeirri sem er eingöngu til hagsbóta fyrir samningsyfirvöld í eigin starfsemi þeirra, að því tilskildu að þjónustan, sem er veitt, sé að öllu leyti launuð af samningsyfirvaldinu.
(6)    Að frátalinni þjónustu vegna gerðardómsmeðferðar og sáttaumleitana,

II. VIÐAUKI B

Flokkur nr. Efni CPC-tilvísunarnúmer CPV-tilvísunarnúmer
17 Hótel- og veitingahúsarekstur 64 Frá 55000000-0 til 55524000-9 og frá 93400000-2 til 93411000-2
18 Járnbrautarflutningar 711 60111000-9 og frá 60121000-2 til 60121600-8
19 Flutningar á sjó og vatnaleiðum 72 Frá 61000000-5 til 61530000-9 og frá 63370000-3 til 63372000-7
20 Stuðnings- og stoðþjónusta í tengslum við flutninga 74 62400000-6, 62440000-8, 62441000-5, 62450000-1, Frá 63000000-9 til 63600000-5 (þó ekki 63370000-3, 63371000-0, 63372000-7) og 74322000-2, 93610000-7
21 Lögfræðiþjónusta 861 Frá 74110000-3 til 74114000-1
22 Vinnumiðlun og ráðningarþjónusta (1) 872 Frá 74500000-4 til 74540000-6 (þó ekki 74511000-4) og frá 95000000-2 til 95140000-5
23 Rannsóknir og öryggisþjónusta, að frátöldum. brynvörðum bifreiðum 873 (þó ekki 87304) Frá 74600000-5 til 74620000-1
24 Menntun og starfsmenntun 92 Frá 80100000-5 til 80430000-7
25 Heilbrigðisþjónusta og félagsþjónusta 93 74511000-4 og frá 85000000-9 til 85323000-9 (þó ekki 85321000-5 og 85322000-2)
26 Tómstunda-, menningar- og íþróttastarfsemi 96 Frá 74875000-3 to 74875200-5 og frá 92000000-1 til 92622000-7 (þó ekki 92230000-2)
27 Önnur þjónusta (2)
(1)    Að frátöldum ráðningarsamningum.
(2)    Að frátöldum samningum um kaup, þróun, framleiðslu eða samframleiðslu á dagskrárefni af hálfu útvarpsrekenda og samningum um útsendingartíma.

III. VIÐAUKI
SKRÁ YFIR STOFNANIR OG FLOKKA STOFNANA SEM HEYRA UNDIR OPINBERAN RÉTT EINS OG UM GETUR Í ANNARRI UNDIRGREIN 9. MGR. 1. GR.

I — BELGÍA
Stofnanir
A
—    Agence fédérale pour l'Accueil des demandeurs d'Asile — Federaal Agentschap voor Opvang van Asielzoekers
—    Agence fédérale pour la Sécurité de la Chaîne alimentaire — Federaal Agentschap voor de Veiligheid van de Voedselketen
—    Agence fédérale de Contrôle nucléaire — Federaal Agentschap voor nucleaire Controle
—    Agence wallonne à l'Exportation
—    Agence wallonne des Télécommunications
—    Agence wallonne pour l'Intégration des Personnes handicapées
—    Aquafin
—    Arbeitsamt der Deutschsprachigen Gemeinschaft
—    Archives générales du Royaume et Archives de l'Etat dans les Provinces — Algemeen Rijksarchief en Rijksarchief in de Provinciën Astrid
B
—    Banque nationale de Belgique — Nationale Bank van België
—    Belgisches Rundfunk- und Fernsehzentrum der Deutschsprachigen Gemeinschaft
—    Berlaymont 2000
—    Bibliothèque royale Albert I er — Koninklijke Bilbliotheek Albert I
—    Bruxelles-Propreté — Agence régionale pour la Propreté — Net-Brussel — Gewestelijke Agentschap voor Netheid
—    Bureau d'Intervention et de Restitution belge — Belgisch Interventie — en Restitutiebureau
—    Bureau fédéral du Plan — Federaal Planbureau
C
—    Caisse auxiliaire de Paiement des Allocations de Chômage — Hulpkas voor Werkloosheidsuitkeringen
—    Caisse auxiliaire d'Assurance Maladie-Invalidité — Hulpkas voor Ziekte — en Invaliditeitsverzekeringen
—    Caisse de Secours et de Prévoyance en Faveur des Marins — Hulp — en Voorzorgskas voor Zeevarenden
—    Caisse de Soins de Santé de la Société Nationale des Chemins de Fer Belges — Kas der geneeskundige Verzorging van de Nationale Maatschappij der Belgische Spoorwegen
—    Caisse nationale des Calamités — Nationale Kas voor Rampenschade
—    Caisse spéciale de Compensation pour Allocations familiales en Faveur des Travailleurs occupés dans les Entreprises de Batellerie — Bijzondere Verrekenkas voor Gezinsvergoedingen ten Bate van de Arbeiders der Ondernemingen voor Binnenscheepvaart
—    Caisse spéciale de Compensation pour Allocations familiales en Faveur des Travailleurs occupés dans les Entreprises de Chargement, Déchargement et Manutention de Marchandises dans les Ports, Débarcadères, Entrepôts et Stations (appelée habituellement «Caisse spéciale de Compensation pour Allocations familiales des Régions maritimes») — Bijzondere Verrekenkas voor Gezinsvergoedingen ten Bate van de Arbeiders gebezigd door Ladings — en Lossingsondernemingen en door de Stuwadoors in de Havens, Losplaatsen, Stapelplaatsen en Stations (gewoonlijk genoemd „Bijzondere Compensatiekas voor Kindertoeslagen van de Zeevaartgewesten”)
—    Centre d'Etude de l'Energie nucléaire — Studiecentrum voor Kernenergie
—    Centre de recherches agronomiques de Gembloux
—    Centre hospitalier de Mons
—    Centre hospitalier de Tournai
—    Centre hospitalier universitaire de Liège
—    Centre informatique pour la Région de Bruxelles-Capitale — Centrum voor Informatica voor het Brusselse Gewest
—    Centre pour l'Egalité des Chances et la Lutte contre le Racisme — Centrum voor Gelijkheid van Kansen en voor Racismebestrijding
—    Centre régional d'Aide aux Communes
—    Centrum voor Bevolkings- en Gezinsstudiën
—    Centrum voor landbouwkundig Onderzoek te Gent
—    Comité de Contrôle de l'Electricité et du Gaz — Controlecomité voor Elekticiteit en Gas
—    Comité national de l'Energie — Nationaal Comité voor de Energie
—    Commissariat général aux Relations internationales
—    Commissariaat-Generaal voor de Bevordering van de lichamelijke Ontwikkeling, de Sport en de Openluchtrecreatie
—    Commissariat général pour les Relations internationales de la Communauté française de Belgique
—    Conseil central de l'Economie — Centrale Raad voor het Bedrijfsleven
—    Conseil économique et social de la Région wallonne
—    Conseil national du Travail — Nationale Arbeidsraad
—    Conseil supérieur de la Justice — Hoge Raad voor de Justitie
—    Conseil supérieur des Indépendants et des petites et moyennes Entreprises — Hoge Raad voor Zelfstandigen en de kleine en middelgrote Ondernemingen
—    Conseil supérieur des Classes moyennes
—    Coopération technique belge — Belgische technische Coöperatie
D
—    Dienststelle der Deutschprachigen Gemeinschaft für Personen mit einer Behinderung
—    Dienst voor de Scheepvaart
—    Dienst voor Infrastructuurwerken van het gesubsidieerd Onderwijs
—    Domus Flandria
E
—    Entreprise publique des Technologies nouvelles de l'Information et de la Communication de la Communauté française
—    Export Vlaanderen
F
—    Financieringsfonds voor Schuldafbouw en Eenmalige Investeringsuitgaven
—    Financieringsinstrument voor de Vlaamse Visserij- en Aquicultuursector
—    Fonds bijzondere Jeugdbijstand
—    Fonds communautaire de Garantie des Bâtiments scolaires
—    Fonds culturele Infrastructuur
—    Fonds de Participation
—    Fonds de Vieillissement — Zilverfonds
—    Fonds d'Aide médicale urgente — Fonds voor dringende geneeskundige Hulp
—    Fonds de Construction d'Institutions hospitalières et médico-sociales de la Communauté française
—    Fonds de Pension pour les Pensions de Retraite du Personnel statutaire de Belgacom — Pensioenfonds voor de Rustpensioenen van het statutair Personeel van Belgacom
—    Fonds des Accidents du Travail — Fonds voor Arbeidsongevallen
—    Fonds des Maladies professionnelles — Fonds voor Beroepsziekten
—    Fonds d'Indemnisation des Travailleurs licenciés en cas de Fermeture d'Entreprises — Fonds tot Vergoeding van de in geval van Sluiting van Ondernemingen ontslagen Werknemers
—    Fonds du Logement des Familles nombreuses de la Région de Bruxelles-Capitale — Woningfonds van de grote Gezinnen van het Brusselse hoofdstedelijk Gewest
—    Fonds du Logement des Familles nombreuses de Wallonie
—    Fonds Film in Vlaanderen
—    Fonds national de Garantie des Bâtiments scolaires — Nationaal Warborgfonds voor Schoolgebouwen
—    Fonds national de Garantie pour la Réparation des Dégâts houillers — Nationaal Waarborgfonds inzake Kolenmijnenschade
—    Fonds piscicole de Wallonie
—    Fonds pour le Financement des Prêts à des Etats étrangers — Fonds voor Financiering van de Leningen aan Vreemde Staten
—    Fonds pour la Rémunération des Mousses — Fonds voor Scheepsjongens
—    Fonds régional bruxellois de Refinancement des Trésoreries communales — Brussels gewestelijk Herfinancieringsfonds van de gemeentelijke Thesaurieën
—    Fonds voor flankerend economisch Beleid
—    Fonds wallon d'Avances pour la Réparation des Dommages provoqués par des Pompages et des Prises d'Eau souterraine
G
—    Garantiefonds der Deutschsprachigen Gemeinschaft für Schulbauten
—    Grindfonds
H
—    Herplaatsingfonds
—    Het Gemeenschapsonderwijs
—    Hulpfonds tot financieel Herstel van de Gemeenten
I
—    Institut belge de Normalisation — Belgisch Instituut voor Normalisatie
—    Institut belge des Services postaux et des Télécommunications — Belgisch Instituut voor Postdiensten en Telecommunicatie
—    Institut bruxellois francophone pour la Formation professionnelle
—    Institut bruxellois pour la Gestion de l'Environnement — Brussels Instituut voor Milieubeheer
—    Institut d'Aéronomie spatiale — Instituut voor Ruimte — aëronomie
—    Institut de Formation permanente pour les Classes moyennes et les petites et moyennes Entreprises
—    Institut des Comptes nationaux — Instituut voor de nationale Rekeningen
—    Institut d'Expertise vétérinaire — Instituut voor veterinaire Keuring
—    Institut du Patrimoine wallon
—    Institut für Aus- und Weiterbildung im Mittelstand und in kleinen und mittleren Unternehmen
—    Institut géographique national — Nationaal geografisch Instituut
—    Institution pour le Développement de la Gazéification souterraine — Instelling voor de Ontwikkeling van ondergrondse Vergassing
—    Institution royale de Messine — Koninklijke Gesticht van Mesen
—    Institutions universitaires de droit public relevant de la Communauté flamande — Universitaire instellingen van publiek recht afangende van de Vlaamse Gemeenschap
—    Institutions universitaires de droit public relevant de la Communauté française — Universitaire instellingen van publiek recht afhangende van de Franse Gemeenschap
—    Institut national d'Assurance Maladie-Invalidité — Rijksinstituut voor Ziekte — en Invaliditeitsverzekering
—    Institut national d'Assurances sociales pour Travailleurs indépendants — Rijksinstituut voor de sociale Verzekeringen der Zelfstandigen
—    Institut national des Industries extractives — Nationaal Instituut voor de Extractiebedrijven
—    Institut national de Recherche sur les Conditions de Travail — Nationaal Onderzoeksinstituut voor Arbeidsomstandigheden
—    Institut national des Invalides de Guerre, anciens Combattants et Victimes de Guerre — Nationaal Instituut voor Oorlogsinvaliden, Oudstrijders en Oorlogsslachtoffers
—    Institut national des Radioéléments — Nationaal Instituut voor Radio-Elementen
—    Institut national pour la Criminalistique et la Criminologie — Nationaal Instituut voor Criminalistiek en Criminologie
—    Institut pour l'Amélioration des Conditions de Travail — Instituut voor Verbetering van de Arbeidsvoorwaarden
—    Institut royal belge des Sciences naturelles — Koninklijk Belgisch Instituut voor Natuurwetenschappen
—    Institut royal du Patrimoine culturel — Koninklijk Instituut voor het Kunstpatrimonium
—    Institut royal météorologique de Belgique — Koninklijk meteorologisch Instituut van België
—    Institut scientifique de Service public en Région wallonne
—    Institut scientifique de la Santé publique — Louis Pasteur — Wetenschappelijk Instituut Volksgezondheid — Louis Pasteur
—    Instituut voor de Aanmoediging van Innovatie door Wetenschap en Technologie in Vlaanderen
—    Instituut voor Bosbouw en Wildbeheer
—    Instituut voor het archeologisch Patrimonium
—    Investeringsdienst voor de Vlaamse autonome Hogescholen
—    Investeringsfonds voor Grond- en Woonbeleid voor Vlaams-Brabant
J
—    Jardin botanique national de Belgique — Nationale Plantentuin van België
K
—    Kind en Gezin
—    Koninklijk Museum voor schone Kunsten te Antwerpen
L
—    Loterie nationale — Nationale Loterij
M
—    Mémorial national du Fort de Breendonk — Nationaal Gedenkteken van het Fort van Breendonk
—    Musée royal de l'Afrique centrale — Koninklijk Museum voor Midden-Afrika
—    Musées royaux d'Art et d'Histoire — Koninklijke Musea voor Kunst en Geschiedenis
—    Musées royaux des Beaux-Arts de Belgique — Koninklijke Musea voor schone Kunsten van België
O
—    Observatoire royal de Belgique — Koninklijke Sterrenwacht van België
—    Office central d'Action sociale et culturelle du Ministère de la Défense — Centrale Dienst voor sociale en culturele Actie van het Ministerie van Defensie
—    Office communautaire et régional de la Formation professionnelle et de l'Emploi
—    Office de Contrôle des Assurances — Controledienst voor de Verzekeringen
—    Office de Contrôle des Mutualités et des Unions nationales de Mutualités — Controledienst voor de Ziekenfondsen en de Landsbonden van Ziekenfondsen
—    Office de la Naissance et de l'Enfance
—    Office de Promotion du Tourisme
—    Office de Sécurité sociale d'Outre-Mer — Dienst voor de overzeese sociale Zekerheid
—    Office for Foreign Investors in Wallonia
—    Office national d'Allocations familiales pour Travailleurs salariés — Rijksdienst voor Kinderbijslag voor Werknemers
—    Office national de l'Emploi — Rijksdienst voor Arbeidsvoorziening
—    Office national de Sécurité sociale — Rijksdienst voor sociale Zekerheid
—    Office national de Sécurité sociale des Administrations provinciales et locales — Rijksdienst voor sociale Zekerheid van de provinciale en plaatselijke Overheidsdiensten
—    Office national des Pensions — Rijksdienst voor Pensioenen
—    Office national des Vacances annuelles — Rijksdienst voor jaarlijkse Vakantie
—    Office national du Ducroire — Nationale Delcrederedienst
—    Office régional bruxellois de l'Emploi — Brusselse gewestelijke Dienst voor Arbeidsbemiddeling
—    Office régional de Promotion de l'Agriculture et de l'Horticulture
—    Office régional pour le Financement des Investissements communaux
—    Office wallon de la Formation professionnelle et de l'Emploi
—    Openbaar psychiatrisch Ziekenhuis-Geel
—    Openbaar psychiatrisch Ziekenhuis-Rekem
—    Openbare Afvalstoffenmaatschappij voor het Vlaams Gewest
—    Orchestre national de Belgique — Nationaal Orkest van België
—    Organisme national des Déchets radioactifs et des Matières fissiles — Nationale Instelling voor radioactief Afval en Splijtstoffen
P
—    Palais des Beaux-Arts — Paleis voor schone Kunsten
—    Participatiemaatschappij Vlaanderen
—    Pool des Marins de la Marine marchande — Pool van de Zeelieden der Koopvaardij
R
—    Radio et Télévision belge de la Communauté française
—    Régie des Bâtiments — Regie der Gebouwen
—    Reproductiefonds voor de Vlaamse Musea
S
—    Service d'Incendie et d'Aide médicale urgente de la Région de Bruxelles-Capitale — Brusselse hoofdstedelijk Dienst voor Brandweer en dringende medische Hulp
—    Société belge d'Investissement pour les pays en développement — Belgische Investeringsmaatschappij voor Ontwinkkelingslanden
—    Société d'Assainissement et de Rénovation des Sites industriels dans l'Ouest du Brabant wallon
—    Société de Garantie régionale
—    Sociaal economische Raad voor Vlaanderen
—    Société du Logement de la Région bruxelloise et sociétés agréées — Brusselse Gewestelijke Huisvestingsmaatschappij en erkende maatschappijen
—    Société publique d'Aide à la Qualité de l'Environnement
—    Société publique d'Administration des Bâtiments scolaires bruxellois
—    publique d'Administration des Bâtiments scolaires du Brabant wallon
—    Société publique d'Administration des Bâtiments scolaires du Hainaut
—    Société publique d'Administration des Bâtiments scolaires de Namur
—    Société publique d'Administration des Bâtiments scolaires de Liège
—    Société publique d'Administration des Bâtiments scolaires du Luxembourg
—    Société publique de Gestion de l'Eau
—    Société wallonne du Logement et sociétés agréées
—    Sofibail
—    Sofibru
—    Sofico
T
—    Théâtre national
—    Théâtre royal de la Monnaie — De Koninklijke Muntschouwburg
—    Toerisme Vlaanderen
—    Tunnel Liefkenshoek
U
—    Universitair Ziekenhuis Gent
V
—    Vlaams Commissariaat voor de Media
—    Vlaamse Dienst voor Arbeidsbemiddeling en Beroepsopleiding
—    Vlaams Egalisatie Rente Fonds
—    Vlaamse Hogescholenraad
—    Vlaamse Huisvestingsmaatschappij en erkende maatschappijen
—    Vlaamse Instelling voor technologisch Onderzoek
—    Vlaamse interuniversitaire Raad
—    Vlaamse Landmaatschappij
—    Vlaamse Milieuholding
—    Vlaamse Milieumaatschappij
—    Vlaamse Onderwijsraad
—    Vlaamse Opera
—    Vlaamse Radio- en Televisieomroep
—    Vlaamse Reguleringsinstantie voor de Elektriciteit- en Gasmarkt
—    Vlaamse Stichting voor Verkeerskunde
—    Vlaams Fonds voor de Lastendelging
—    Vlaams Fonds voor de Letteren
—    Vlaams Fonds voor de sociale Integratie van Personen met een Handicap
—    Vlaams Informatiecentrum over Land- en Tuinbouw
—    Vlaams Infrastructuurfonds voor Persoonsgebonden Aangelegenheden
—    Vlaams Instituut voor de Bevordering van het wetenschappelijk- en technologisch Onderzoek in de Industrie
—    Vlaams Instituut voor Gezondheidspromotie
—    Vlaams Instituut voor het Zelfstandig ondernemen
—    Vlaams Landbouwinvesteringsfonds
—    Vlaams Promotiecentrum voor Agro- en Visserijmarketing
—    Vlaams Zorgfonds
—    Vlaams Woningsfonds voor de grote Gezinnen
II — DANMÖRK
Stofnanir
Danmarks Radio
Det landsdækkende TV2
Danmarks Nationalbank
Sund og Bælt Holding A/S
A/S Storebælt
A/S Øresund Øresundskonsortiet Ørestadsselskabet I/S
Byfornyelsesselskabet København
Hovedstadsområdets Sygehusfællesskab
Statens og Kommunernes Indkøbsservice
Post Danmark
Arbejdsmarkedets Tillægspension
Arbejdsmarkedets Feriefond
Lønmodtagernes Dyrtidsfond
Naviair
Flokkar
—    De Almene Boligorganisationer (almenn félagsbústaðakerfi),
—    Lokale kirkelige myndigheder (staðbundin kirkjuyfirvöld),
—    Andre forvaltningssubjekter (aðrar stjórnsýslustofnanir).
III — ÞÝSKALAND
1.      Flokkar
félög, fyrirtæki og stofnanir, sem heyra undir opinberan rétt, sem yfirvöld sambandslýðveldisins, sambandsríkis eða sveitarfélags koma á fót, einkum eftirfarandi:
1.1.      Félög
—    Wissenschaftliche Hochschulen und verfasste Studentenschaften (háskólar og formleg stúdentaráð),
—    berufsständige Vereinigungen (Rechtsanwalts-, Notar-, Steuerberater-, Wirtschaftsprüfer-, Architekten-, Ärzte- und Apothekerkammern) [fagfélög lögmanna, lögbókenda, skattaráðgjafa, endurskoðenda, arkitekta, starfandi lækna og lyfjafræðinga],
—    Wirtschaftsvereinigungen (Landwirtschafts-, Handwerks-, Industrie- und Handelskammern, Handwerksinnungen, Handwerkerschaften) [samtök í viðskiptum og verslun: landbúnaðarsamtök, samtök handverksmanna, iðnaðar- og verslunarráð, stéttarfélög og samtök iðnaðarmanna],
—    Sozialversicherungen (Krankenkassen, Unfall- und Rentenversicherungsträger) [almannatryggingar: sjúkratrygginga-, slysatrygginga- og lífeyrissjóðir],
—    kassenärztliche Vereinigungen (samtök tryggingalækna),
—    Genossenschaften und Verbände (samvinnufélög og önnur félög).
1.2.      Fyrirtæki og stofnanir
Fyrirtæki undir ríkisyfirráðum, önnur en iðnfyrirtæki eða verslunarfyrirtæki, sem starfa í þágu almennings, einkum á eftirfarandi sviðum:
—    Rechtsfähige Bundesanstalten (stofnanir sambandslýðveldisins sem njóta rétthæfis),
—    Versorgungsanstalten und Studentenwerke (almannatryggingastofnanir og námsmannasamtök),
—    Kultur-, Wohlfahrts- und Hilfsstiftungen (menningar-, velferðar- og hjálparstofnanir).
2.      Lögaðilar sem heyra undir einkamálarétt
Fyrirtæki undir ríkisyfirráðum, önnur en iðnfyrirtæki eða verslunarfyrirtæki, sem starfa í þágu almennings, þ.m.t. þjónustustofnanir sveitarfélaga, einkum á eftirfarandi sviðum:
—    Gesundheitswesen (Krankenhäuser, Kurmittelbetriebe, medizinische Forschungseinrichtungen, Untersuchungs- und Tierkörperbeseitigungsanstalten) [heilbrigðismál: sjúkrahús, hressingarhæli, lyfjarannsóknarstofnanir, rannsóknar- og förgunarstofnanir fyrir dýr],
—    Kultur (öffentliche Bühnen, Orchester, Museen, Bibliotheken, Archive, zoologische und botanische Gärten) [menningarmál: opinber leikhús, hljómsveitir, söfn, bókasöfn, skjalasöfn, dýragarðar og grasagarðar],
—    Soziales (Kindergärten, Kindertagesheime, Erholungseinrichtungen, Kinder- und Jugendheime, Freizeiteinrichtungen, Gemeinschafts- und Bürgerhäuser, Frauenhäuser, Altersheime, Obdachlosenunterkünfte) [félagsmál: barnaheimili, leikskólar, hvíldarheimili, barna- og unglingavistun, miðstöðvar fyrir tómstundastarf, félagsmiðstöðvar, kvennaathvarf, elliheimili, athvarf heimilislausra],
—    Sport (Schwimmbäder, Sportanlagen und -einrichtungen) [íþróttir: sundlaugar, íþróttamiðstöðvar],
—    Sicherheit (Feuerwehren, Rettungsdienste) [öryggi: slökkvilið, önnur neyðarþjónusta],
—    Bildung (Umschulungs-, Aus-, Fort- und Weiterbildungseinrichtungen, Volkshochschulen) menntun: stofnanir fyrir menntun, framhaldsmenntun og endurmenntun, fullorðinsfræðsla],
—    Wissenschaft, Forschung und Entwicklung (Großforschungseinrichtungen, wissenschaftliche Gesellschaften und Vereine, Wissenschaftsförderung) [vísindi, rannsóknir og þróun: stórar rannsóknarstofnanir, vísindafélög og -samtök og stofnanir sem stuðla að vísindastarfsemi],
—    Entsorgung (Straßenreinigung, Abfall- und Abwasserbeseitigung) [sorpeyðing: götuhreinsun, förgun sorps og skólplosun],
—    Bauwesen und Wohnungswirtschaft (Stadtplanung, Stadtentwicklung, Wohnungsunternehmen soweit im Allgemeininteresse tätig, Wohnraumvermittlung) [húsa- og mannvirkjagerð: borgarskipulag, þróun þéttbýlis, húsnæðisfélög (ef þau starfa í þágu almennings) og húsnæðismiðlanir],
—    Wirtschaft (Wirtschaftsförderungsgesellschaften) (efnahagsmál: félög sem stuðla að efnahagsþróun),
—    Friedhofs- und Bestattungswesen (kirkjugarðar og greftrunarþjónusta),
—    Zusammenarbeit mit den Entwicklungsländern (Finanzierung, technische Zusammenarbeit, Entwicklungshilfe, Ausbildung) [samvinna við þróunarlönd: fjármögnun, tæknileg samvinna, þróunarhjálp og menntun].
IV — GRIKKLAND
Flokkar
a)    Opinber fyrirtæki og stofnanir.
b)    Lögaðilar sem heyra undir einkamálarétt og eru í eigu ríkisins eða fá reglulega ríkisstyrki samkvæmt gildandi reglum sem samsvara a.m.k. 50% af árlegri fjárþörf þeirra eða ríkið á a.m.k. 51% af hlutafé þeirra.
c)    Lögaðilar, sem heyra undir einkamálarétt og eru í eigu lögaðila, sem heyra undir opinberan rétt, staðaryfirvöld á hvaða stigi sem er, þ.m.t. samtök staðaryfirvalda í Grikklandi (K.E...K.E) ásamt samtökum sveitarfélaga, (staðbundnum stjórnsvæðum) eða í eigu opinberra fyrirtækja eða eininga eða lögaðila, sem um getur í. b-lið, eða fá reglulega styrki frá slíkum lögaðilum, samkvæmt gildandi reglum eða eigin samstarfssamþykktum, sem svara til a.m.k. 50% af árlegri fjárþörf þeirra, eða lögaðilar, sem um getur hér að framan, sem eiga a.m.k. 51% af hlutafé slíkra lögaðila sem heyra undir opinberan rétt.
V — SPÁNN
Flokkar
—    stofnanir og aðilar sem heyra undir opinberan rétt sem falla undir „Ley de Contratos de las Administraciones Públicas“ [lög spænska ríkisins um opinber innkaup] nema þær sem eru hluti af „Administración General del Estado“ (almennri stjórnsýslu ríkisins),
—    stofnanir og aðilar sem heyra undir opinberan rétt sem falla undir „Ley de Contratos de las Administraciones Públicas“ nema þær sem eru hluti af „l'Administración de las Comunidades Autónomas“ (stjórnsýslu sjálfstjórnarsvæðanna),
—    stofnanir og aðilar sem heyra undir opinberan rétt, sem falla undir „Ley de Contratos de las Administraciones Públicas“, nema þær sem eru hluti af „Corporaciones Locales“ (staðaryfirvöld),
—    Entidades Gestoras y los Servicios Comunes de la Seguridad Social — stjórnsýslustofnanir og sameiginleg þjónusta heilbrigðis- og félagsmálayfirvalda).
VI — FRAKKLAND
Stofnanir
—    Collège de France
—    Conservatoire national des arts et métiers
—    Observatoire de Paris
—    Institut national d'histoire de l'art (INHA)
—    Centre national de la recherche scientifique (CNRS)
—    Institut national de la recherche agronomique (INRA)
—    Institut national de la santé et de la recherche médicale (INSERM)
—    Institut de recherche pour le développement (IRD)
—    Agence nationale pour l'emploi (ANPE)
—    Caisse nationale des allocations familiales (CNAF)
—    Caisse nationale d'assurance maladie des travailleurs salariés (CNAMTS)
—    Caisse nationale d'assurance vieillesse des travailleurs salariés (CNAVTS)
—    Compagnies et établissements consulaires: chambres de commerce et d'industrie (CCI), chambres des métiers et chambres d'agriculture
—    Office national des anciens combattants et victimes de guerre (ONAC)
Flokkar
1.      Opinberar, innlendar stofnanir
—    Agences de l'eau (vatnsveitur)
—    Écoles d'architecture (arkitektaskólar)
—    Universités (háskólar)
—    Instituts universitaires de formation des maîtres (IUFM) (kennaraháskólar)
2.      Stjórnsýslustofnanir svæða, umdæma eða staða
—    collèges (unglinga- og framhaldsskólar)
—    lycées (mennta- og framhaldsskólar)
—    établissements publics hospitaliers (opinber sjúkrahús)
—    offices publics d'habitations à loyer modéré (OPHLM) (opinberar skrifstofur félagslega húsnæðiskerfisins)
3.      Flokkun svæðisyfirvalda
—    établissements publics de coopération intercommunale (opinberar stofnanir fyrir samvinnu á milli staðaryfirvalda)
—    institutions interdépartementales et interrégionales (stofnanir sem tvö eða fleiri umdæmi eða svæði reka sameiginlega)
VII — ÍRLAND
Stofnanir
Enterprise Ireland [Marketing, technology and enterprise development]
Forfás [Policy and advice for enterprise, trade, science, technology and innovation]
Industrial Development Authority
Enterprise Ireland
FÁS [Industrial and employment training]
Health and Safety Authority
Bord Fáilte Éireann [Tourism development]
CERT [Training in hotel, catering and tourism industries]
Irish Sports Council
National Roads Authority Údarás na Gaeltachta [Authority for Gaelic speaking regions]
Teagasc [Agricultural research, training and development]
An Bord Bia [Food industry promotion]
An Bord Glas [Horticulture industry promotion]
Irish Horseracing Authority
Bord na gCon [Greyhound racing support and development]
Marine Institute
Bord Iascaigh Mhara [Fisheries Development]
Equality Authority
Legal Aid Board
Flokkar
Regional Health Boards (Svæðisbundin heilbrigðisráð)
Hospitals and similar institutions of a public character (Sjúkrahús og áþekkar, opinberar stofnanir)
Vocational Education Committees (Starfsmenntunarnefndir)
Colleges and educational institutions of a public character (Framhaldsskólar og menntastofnanir hins opinbera)
Central and Regional Fisheries Boards (Sameiginleg, svæðisbundin fiskveiðiráð)
Regional Tourism Organisations (Svæðisbundin ferðamálasamtök)
National Regulatory and Appeals bodies [such as in the telecommunications, energy, planning etc. areas] (Innlendar eftirlits- og málskotsstofnanir ríkisins, t.d. á sviði fjarskipta, orkumála, skipulagningar o.s.frv.).
Agencies established to carry out particular functions or meet needs in various public sectors (Stofnanir sem komið er á fót til að vinna ákveðin verk eða uppfylla þarfir á ýmsum sviðum hjá hinu opinbera [t.d. Healthcare Materials Management Board, Health Sector Employers Agency, Local Government Computer Services Board, Environmental Protection Agency, National Safety Council, Institute of Public Administration, Economic and Social Research Institute, National Standards Authority, o.s.frv.].
Other public bodies falling within the definition of a body governed by public law in accordance with Article 1(7) of this Directive. (Aðrar opinberar stofnanir sem falla undir skilgreiningu á stofnun sem heyrir undir opinberan rétt í samræmi við 7. mgr. 1. gr. þessarar tilskipunar.
VIII — ÍTALÍA
Stofnanir
Società 'Stretto di Messina'
Ente autonomo mostra d'oltremare e del lavoro italiano nel mondo
Ente nazionale per l'aviazione civile — ENAC
Ente nazionale per l'assistenza al volo — ENAV
ANAS S.p.A
Flokkar
—    Enti portuali e aeroportuali (yfirvöld hafna og flugvalla),
—    Consorzi per le opere idrauliche (samstarfsaðilar við gerð vatnsmannvirkja),
—    Università statali, gli istituti universitari statali, i consorzi per i lavori interessanti le università (ríkisháskólar og stofnanir þeirra, samstarfsaðilar sem vinna við byggingu háskóla),
—    Istituzioni pubbliche di assistenza e di beneficenza (opinberar hjálpar- og góðgerðarstofnanir),
—    Istituti superiori scientifici e culturali, osservatori astronomici, astrofisici, geofisici o vulcanologici (æðri menningar- og vísindastofnanir; stjarnfræðilegar, stjarneðlisfræðilegar, jarðeðlisfræðilegar eða eldfjallafræðilegar athugunarstöðvar),
—    Enti di ricerca e sperimentazione (stofnanir sem stunda rannsóknir og tilraunir),
—    Enti che gestiscono forme obbligatorie di previdenza e di assistenza (stofnanir sem stjórna lögboðnum almannatrygginga- og félagsmálakerfum,
—    Consorzi di bonifica (samtök um endurheimt lands),
—    Enti di sviluppo e di irrigazione (stofnanir sem sinna þróunar- og áveitustarfi),
—    Consorzi per le aree industriali (samtök um iðnaðarsvæði),
—    Comunità montane (samband sveitarfélaga á fjallasvæðum),
—    Enti preposti a servizi di pubblico interesse (stofnanir sem veita þjónustu í þágu almennings),
—    Enti pubblici preposti ad attività di spettacolo, sportive, turistiche e del tempo libero (opinberir aðilar sem starfa á sviði skemmtanahalds, íþrótta, ferðamála og frístundastarfs),
—    Enti culturali e di promozione artistica (stofnanir sem stuðla að menningar- og listastarfsemi).
IX — LÚXEMBORG
Flokkar
—    Établissements publics de l'État placés sous la surveillance d'un membre du gouvernement (opinberar ríkisstofnanir sem starfa undir eftirliti ráðherra ríkisstjórnarinnar),
—    Établissements publics placés sous la surveillance des communes (opinberar stofnanir sem starfa undir eftirliti sveitarfélaga (staðaryfirvalda)),
—    Syndicats de communes créés en vertu de la loi du 23 février 2001 concernant les syndicats de communes (samtök staðaryfirvalda sem stofnuð voru samkvæmt lögum frá 23. febrúar 2001 um samtök sveitarfélaga).
X — HOLLAND
Stofnanir
Ministerie van Binnenlandse Zaken en Koninkrijksrelaties (Ráðuneyti innanríkismála og innanríkistengsla)
—    Nederlands Instituut voor Brandweer en rampenbestrijding (NIBRA) hollenska brunavarna- og neyðarþjónustustofnunin)
—    Nederlands Bureau Brandweer Examens (NBBE) (hollensk stofnun sem metur hæfi slökkviliðsmanna)
—    Landelijk Selectie- en Opleidingsinstituut Politie (LSOP) (ríkisstofnun fyrir val á lögreglumönnum og menntun þeirra)
—    25 afzonderlijke politieregio's (25 aðskilin lögregluumdæmi)
—    Stichting ICTU (ICTU-stofnunin)
Ráðuneyti efnahagsmála
—    Stichting Syntens (Syntens-stofnunin)
—    Van Swinden Laboratorium B.V. (van Swinden-rannsóknarstofan)
—    Nederlands Meetinstituut B.V. (hollenska mæli- og tæknifræðistofnunin)
—    Instituut voor Vliegtuigontwikkeling en Ruimtevaart (NIVR) (hollenska geimfræðistofnunin)
—    Stichting Toerisme Recreatie Nederland (TRN) (hollenska ferðamálaráðið)
—    Samenwerkingsverband Noord Nederland (SNN) (samstarfsfélag héraðsstjórna í norðurhluta Hollands)
—    Gelderse Ontwikkelingsmaatschappij (GOM) (þróunarfélag Gelderlands)
—    Overijsselse Ontwikkelingsmaatschappij (OOM) (OOM – þróun alþjóðaviðskipta)
—    LIOF (Limburg – þróunarfélag í fjárfestingu)
—    Noordelijke Ontwikkelingsmaatschappij (NOM) (NOM – þróun í fjárfestingu)
—    Brabantse Ontwikkelingsmaatschappij (BOM) (Brabant-þróunarstofnunin)
—    Onafhankelijke Post en Telecommunicatie Autoriteit (óháð póst og fjarskiptastofnun)
—    Centraal Bureau voor de Statistiek (CBS) (Hagstofan)
Fjármálaráðuneytið
—    De Nederlandse Bank N.V. (seðlabanki Hollands)
—    Autoriteit Financiële Markten (yfirvald hollenska fjármálamarkaðarins)
—    Pensioen- & Verzekeringskamer (eftirlitsyfirvöld lífeyris- og tryggingamála í Hollandi)
Dómsmálaráðuneytið
—    Stichting Reclassering Nederland (SRN) (endurhæfingarstofnun Hollands)
—    Stichting VEDIVO (VEDIVO-stofnunin, samtök skipaðra lögráðamanna ungra afbrotamanna)
—    Voogdij- en gezinsvoogdij instellingen (stofnanir sem bera ábyrgð á lögræðismálum)
—    Stichting Halt Nederland (SHN) (hollensk meðferðarstofnun fyrir unga afbrotamenn)
—    Particuliere Internaten (sérstakir heimavistarskólar)
—    Particuliere Jeugdinrichtingen (fangelsi fyrir unga afbrotamenn)
—    Schadefonds Geweldsmisdrijven (sjóður fyrir bætur til fórnarlamba ofbeldisglæpa)
—    Centraal orgaan Opvang Asielzoekers (COA) (stofnun fyrir móttöku hælisleitenda)
—    Landelijk Bureau Inning Onderhoudsbijdragen (LBIO) (innlend stofnun fyrir framkvæmd framfærsluábyrgðar)
—    Landelijke organisaties slachtofferhulp (ríkisstofnanir fyrir bætur til tjónþola)
—    College Bescherming Persoongegevens (hollensk gagnaverndaryfirvöld)
—    Stichting Studiecentrum Rechtspleging (SSR) (stjórn rannsóknarstöðvar dómskerfisins)
—    Raden voor de Rechtsbijstand (réttaraðstoðarráð)
—    Stichting Rechtsbijstand Asiel (stöðvar fyrir lögfræðilega aðstoð við hælisleitendur)
—    Stichtingen Rechtsbijstand (stofnanir sem veita réttaraðstoð)
—    Landelijk Bureau Racisme bestrijding (LBR) (landsskrifstofa fyrir baráttu gegn kynþáttafordómum)
—    Clara Wichman Instituut (Clara Wichman-stofnunin)
—    Tolkencentra (túlkunarstöðvar)
Ráðuneyti landbúnaðar, náttúrunýtingar og fiskveiða
—    Bureau Beheer Landbouwgronden (skrifstofa landnýtingar)
—    Faunafonds (sjóðir vegna dýraríkisins)
—    Staatsbosbeheer (skógrækt ríkisins)
—    Stichting Voorlichtingsbureau voor de Voeding (skrifstofa fyrir fræðslu um matvæli og næringu)
—    Universiteit Wageningen (Wageningen – háskóli og rannsóknarmiðstöð)
—    Stichting DLO (rannsóknarstofnun landbúnaðarins)
—    (Hoofd) productschappen (vörunefndir)
Ráðuneyti menntamála, menningarmála og vísinda
A.      Almenn lýsing
—    opinberir skólar eða einkareknir skólar, styrktir af hinu opinbera, fyrir grunnskólanám í skilningi laga um grunnskólamenntun
—    opinberir skólar eða skólar, styrktir af hinu opinbera, fyrir sérkennslu, sérkennslu á unglinga- og framhaldsskólastigi eða stofnanir fyrir sérkennslu á unglinga- og framhaldsskólastigi í skilningi laga um sérfræðimiðstöðvar á sviði kennslufræði
—    opinberir skólar eða einkareknir skólar, styrktir af hinu opinbera, eða stofnanir fyrir kennslu á unglinga- og framhaldsskólastigi í skilningi laga um unglinga- og framhaldsmenntun
—    opinberar stofnanir eða einkareknar stofnanir, styrktar af hinu opinbera, í skilningi laga um menntun og starfsmenntun
—    opinberir skólar eða einkareknir skólar, styrktir af hinu opinbera, í skilningi laga um tilraunakennslu
—    opinberir háskólar og æðri menntastofnanir, opni háskólinn og háskólasjúkrahús í skilningi laga um æðri menntun og vísindarannsóknir og stofnanir fyrir alþjóðlega menntun sem fá meira en 50% af fjármagni sínu frá opinberum sjóðum
—    skólaráðgjöfarþjónusta í skilningi laga um grunnskólamenntun eða laga um sérfræðimiðstöðvar á sviði kennslufræði
—    innlendar fræðslumiðstöðvar í skilningi laga um styrki til innlendrar stoðstarfsemi á sviði menntamála
—    útvarps- og sjónvarpsmiðstöðvar í skilningi fjölmiðlalaga
—    sjóðir í skilningi laga um sérstaka menningarstefnu
—    innlendar starfsmenntastofnanir
—    stofnanir í skilningi laga um einkavæðingu þjónustu í tengslum við þjóðminjasafn Hollands
—    önnur söfn sem fá meira en 50% af fjármagni sínu frá ráðuneyti menntamála, menningarmála og vísinda
—    önnur samtök og stofnanir á sviði menntunar, menningar og vísinda sem fá meira en 50% af fjármagni sínu frá ráðuneyti menntamála, menningarmála og vísinda
B.     Nafnalisti
—    Informatie Beheer Groep
—    Stichting Participatiefonds voor het Onderwijs
—    Stichting Uitvoering Kinderopvangregelingen/Kintent
—    Stichting voor Vluchteling-Studenten UAF
—    Koninklijke Nederlandse Academie van Wetenschappen
—    Nederlandse organisatie voor internationale samenwerking in het hoger onderwijs (Nuffic)
—    Stichting Nederlands Interdisciplinair Demografisch Instituut
—    Nederlandse Organisatie voor Wetenschappelijk Onderzoek
—    Nederlandse Organisatie voor toegepast-natuurwetenschappelijk onderzoek
—    College van Beroep voor het hoger Onderwijs
—    Vereniging van openbare bibliotheken NBLC
—    Koninklijke Bibliotheek
—    Stichting Muziek Centrum van de Omroep
—    Stichting Ether Reclame
—    Stichting Radio Nederland Wereldomroep
—    Nederlandse Programma Stichting
—    Nederlandse Omroep Stichting
—    Commissariaat voor de Media
—    Stichting Stimuleringsfonds Nederlandse Culturele Omroepproducties
—    Stichting Lezen
—    Dienst Omroepbijdragen
—    Centrum voor innovatie en opleidingen
—    Bedrijfsfonds voor de Pers
—    Centrum voor innovatie van opleidingen
—    Instituut voor Toetsontwikkeling (Cito)
—    Instituut voor Leerplanontwikkeling
—    Landelijk Dienstverlenend Centrum voor Studie- en Beroepskeuzevoorlichting
—    Max Goote Kenniscentrum voor Beroepsonderwijs en Volwasseneneducatie
—    Stichting Vervangingsfonds en Bedrijfsgezondheidszorg voor het Onderwijs
—    BVE-Raad
—    Colo, Vereniging kenniscentra beroepsonderwijs bedrijfsleven
—    Stichting kwaliteitscentrum examinering beroepsonderwijs
—    Vereniging Jongerenorganisatie Beroepsonderwijs
—    Combo Stichting Combinatie Onderwijsorganisatie
—    Stichting Financiering Struktureel Vakbondsverlof Onderwijs
—    Stichting Samenwerkende Centrales in het COPWO
—    Stichting SoFoKles
—    Europees Platform
—    Stichting mobiliteitsfonds HBO
—    Nederlands Audiovisueel Archiefcentrum
—    Stichting minderheden Televisie Nederland
—    Stichting omroep allochtonen
—    Stichting multiculturele Activiteiten Utrecht
—    School der Poëzie
—    Nederlands Perscentrum
—    Nederlands Letterkundig Museum en documentatiecentrum
—    Bibliotheek voor varenden
—    Christelijke bibliotheek voor blinden en slechtzienden
—    Federatie van Nederlandse Blindenbibliotheken
—    Nederlandse luister- en braillebibliotheek
—    Federatie Slechtzienden- en Blindenbelang
—    Bibliotheek Le Sage Ten Broek
—    Doe Maar Dicht Maar
—    ElHizjra
—    Fonds Bijzondere Journalistieke Projecten
—    Fund for Central and East European Book Projects
—    Jongeren Onderwijs Media
Ráðuneyti félagsmála og atvinnumála
—    Sociale Verzekeringsbank (almannatryggingabanki)
—    Arbeidsvoorzieningsorganisatie (vinnumiðlun)
—    Stichting Silicose Oud Mijnwerkers (sjóður til styrktar fyrrverandi námumönnum með kísillunga)
—    Stichting Pensioen- & Verzekeringskamer (eftirlitsyfirvöld lífeyris- og tryggingamála í Hollandi)
—    Sociaal Economische Raad (SER) (félagsmála- og efnahagsráð Hollands)
—    Raad voor Werk en Inkomen (RWI) (ráð atvinnumála og tekna)
—    Centrale organisatie voor werk en inkomen (yfirstofnun atvinnumála og tekna)
—    Uitvoeringsinstituut werknemersverzekeringen (stofnun sem annast almannatryggingamál launafólks)
Ráðuneyti samgangna, fjarskipta og opinberra framkvæmda
—    RDW Voertuig informatie en toelating (upplýsingar og leyfi varðandi ökutæki)
—    Luchtverkeersbeveiligingsorganisatie (LVB) (flugmálastofnun)
—    Nederlandse Loodsencorporatie (NLC) (samtök hollenskra hafnsögumanna)
—    Regionale Loodsencorporatie (RLC) (svæðisbundin samtök hafnsögumanna)
Ráðuneyti húsnæðismála, skipulagsmála og umhverfismála
—    Kadaster (fasteignamat ríkisins)
—    Centraal Fonds voor de Volkshuisvesting (húsnæðismálasjóður ríkisins)
—    Stichting Bureau Architectenregister (skrá yfir löggilta arkitekta)
Ráðuneyti heilbrigðismála, félagsmála og íþróttamála
—    Commissie Algemene Oorlogsongevallenregeling Indonesië (COAR)
—    College ter beoordeling van de Geneesmiddelen (CBG) (lyfjamatsnefnd)
—    Commissies voor gebiedsaanwijzing
—    College sanering Ziekenhuisvoorzieningen (landsnefnd um endurskipulagningu sjúkrastofnana)
—    Zorgonderzoek Nederland (ZON) (rannsóknar- og þróunarráð heilbrigðismála)
—    Inspection bodies under the Wet medische hulpmiddelen (eftirlitsaðilar samkvæmt lögum um búnað í heilsugæslu):
—    N.V. KEMA/Stichting TNO Certification (KEMA/TNO-vottun)
—    College Bouw Ziekenhuisvoorzieningen (CBZ) (miðstöð fyrir byggingu sjúkrahúsa)
—    College voor Zorgverzekeringen (CVZ) (miðstöð sjúkratrygginga)
—    Nationaal Comité 4 en 5 mei (landsnefnd um 4. og 5. maí)
—    Pensioen- en Uitkeringsraad (PUR) (lífeyris- og bótanefnd)
—    College Tarieven Gezondheidszorg (CTG) (gjaldskrárnefnd heilsugæslu)
—    Stichting Uitvoering Omslagregeling Wet op de Toegang Ziektekostenverzekering (SUO)
—    Stichting tot bevordering van de Volksgezondheid en Milieuhygiëne (SVM) (sjóður til styrktar lýðheilsu og umhverfi)
—    Stichting Facilitair Bureau Gemachtigden Bouw VWS
—    Stichting Sanquin Bloedvoorziening (Sanquin-blóðbankinn)
—    College van Toezicht op de Zorgverzekeringen organen ex artikel 14, lid 2c, Wet BIG (eftirlitsnefnd sjúkrasamlaga)
—    Ziekenfondsen (sjúkrasjóðir)
—    Nederlandse Transplantatiestichting (NTS) (hollenska ígræðslustofnunin)
—    Regionale Indicatieorganen (RIO's) (svæðisstofnanir fyrir þarfagreiningu).
XI — AUSTURRÍKI
Allar stofnanir, aðrar en iðnfyrirtæki og verslunarfyrirtæki, sem eru undir fjárhagseftirliti „Rechnungshof“ (Endurskoðunarréttarins).
XII — PORTÚGAL
Flokkar
—    Institutos públicos sem carácter comercial ou industrial (opinberar stofnanir, aðrar en verslunar- og iðnfyrirtæki),
—    Serviços públicos personalizados (opinberir þjónustuaðilar sem hafa réttarstöðu lögaðila)
—    Fundações públicas (opinberir sjóðir),
—    Estabelecimentos públicos de ensino, investigação científica e saúde (opinberar stofnanir fyrir menntun, vísindarannsóknir og heilbrigðismál),
XIII — FINNLAND
Opinberar stofnanir og fyrirtæki eða stofnanir og fyrirtæki undir eftirliti hins opinbera, aðrar en iðnfyrirtæki og verslunarfyrirtæki.
XIV — SVÍÞJÓÐ
Allar stofnanir, aðrar en verslunarfyrirtæki, þar sem samningar um opinber innkaup eru í umsjá innkaupastofnunar ríkisins.
XV — BRESKA KONUNGSRÍKIÐ
Stofnanir
—    Design Council
—    Health and Safety Executive
—    National Research Development Corporation
—    Public Health Laboratory Service Board
—    Advisory, Conciliation and Arbitration Service
—    Commission for the New Towns
—    National Blood Authority
—    National Rivers Authority
—    Scottish Enterprise
—    Scottish Homes
—    Welsh Development Agency
Flokkar
—    skólar sem fá ríkisstyrk
—    háskólar og menntastofnanir sem önnur samningsyfirvöld fjármagna að mestu leyti
—    þjóðminjasöfn og listasöfn ríkisins
—    rannsóknarráð
—    brunamálastofnun
—    yfirvöld fyrir skipulag innlendrar heilbrigðisþjónustu
—    lögregluyfirvöld
—    yfirvöld fyrir skipulag nýrra borga.
—    yfirvöld þéttbýlisskipulags

IV. VIÐAUKI
YFIRVÖLD Á VEGUM RÍKISINS ( 1 )
BELGÍA

—    l'Etat —    de Staat —    ríkið
—    les communautés —    de gemeenschappen —    bandalögin
—    les commissions communautaires —    de gemeenschapscommissies —    framkvæmdastjórnir bandalaganna
—    les régions —    de gewesten —    svæðin
—    les provinces —    de provincies —    fylkin
—    les communes —    de gemeenten —    sveitarfélögin
—    les centres publics d'aide sociale —    de openbare centra voor maatschappelijk welzijn —    opinberar stöðvar fyrir félagsþjónustu
—    les fabriques d'églises et les organismes chargés de la gestion du temporel des autres cultes reconnus —    de kerkfabrieken en de instellingen die belast zijn met het beheer van de temporalïen van de erkende erediensten —    kirkjuráð og stofnanir sem fara með eigur annarra viðurkenndra trúfélaga
—    les sociétés de développement régional —    de gewestelijke ontwikkelingsmaatschappijen —    svæðaþróunarfélög
—    les polders et wateringues —    de polders en wateringen —    umsjónaraðilar svæða innan varnargarða
—    les comités de remembrement des biens ruraux —    de ruilverkavelingscomités —    nefndir um skiptingu lands
—    les zones de police —    de politiezones —    löggæslusvæði
—    les associations formées par plusieurs des pouvoirs adjudicateurs ci-dessus. —    de verenigingen gevormd door een of meerdere aanbestedende overheden hierboven. —    samtök einhverra af framangreindum yfirvöldum.

DANMÖRK

1.     Folketinget — Þjóðþing Danmerkur Rigsrevisionen — Ríkisendurskoðun
2.     Statsministeriet — Skrifstofa forsætisráðherra
3.     Udenrigsministeriet — Utanríkisráðuneytið
4.    Beskæftigelsesministeriet — Atvinnumálaráðuneytið 5 styrelser og institutioner — 5 stjórnsýsluskrifstofur og -stofnanir
5.     Domstolsstyrelsen — Stjórn dómsmála
6.     Finansministeriet — Fjármálaráðuneytið 5 styrelser og institutioner — 5 stjórnsýsluskrifstofur og -stofnanir
7.     Forsvarsministeriet — Varnarmálaráðuneytið Adskillige institutioner — Ýmsar stofnanir
8.    Indenrigs- og Sundhedsministeriet — Innanríkis- og heilbrigðismálaráðuneytið Adskillige styrelser og institutioner, herunder Statens Serum Institut — Ýmsar stjórnsýsluskrifstofur og stofnanir, þ.m.t. Serumstofnun ríkisins
9.     Justitsministeriet — Dómsmálaráðuneytið Rigspolitichefen, 2 direktorater samt et antal styrelser — Ríkislögreglustjóri, 2 stjórnarstofnanir og allmargar stjórnsýsluskrifstofur
10.     Kirkeministeriet — Kirkjumálaráðuneytið 10 stiftsøvrigheder — 10 umdæmisyfirvöld
11.     Kulturministeriet — Menningarmálaráðuneytið Departement samt et antal statsinstitutioner — Stjórnardeild og allmargar ríkisstofnanir
12.     Miljøministeriet — Umhverfisráðuneytið 6 styrelser — 6 stjórnsýsluskrifstofur
13.    Ministeriet for Flygtninge, Invandrere og Integration — Ráðuneyti flóttamannaðstoðar, innflytjendamála og félagslegrar aðlögunar 1 styrelse — 1 stjórnsýsluskrifstofa
14.    Ministeriet for Fødevarer, Landbrug og Fiskeri — Ráðuneyti matvæla, landbúnaðar og fiskveiða 9 direktorater og institutioner — 9 stjórnarstofnanir og aðrar stofnanir
15.    Ministeriet for Videnskab, Teknologi og herunder Udvikling — Ráðuneyti vísinda, tækni og nýsköpunar Adskillige styrelser og institutioner, Forskningscenter Risø og Statens uddannelsesbygninger — Ýmsar stjórnsýsluskrifstofur og stofnanir, þ.m.t. Risoe-rannsóknarmiðstöðin og aðrar rannsóknar- og menntastofnanir ríkisins
16.     Skatteministeriet — Ráðuneyti skattamála 1 styrelse og institutioner — 1 stjórnsýsluskrifstofa og allmargar stofnanir
17.     Socialministeriet — Félagsmálaráðuneytið 3 styreler og institutioner — 3 stjórnsýsluskrifstofur og allmargar stofnanir
18.     Trafikministeriet — Samgönguráðuneytið 12 styrelser og institutioner, herunder Øresundsbrokonsortiet — 12 stjórnsýsluskrifstofur og stofnanir, þ.m.t. samstarfsfyrirtæki um eyrarsundsbrúna
19.    Undervisningsministeriet — Menntamálaráðuneytið 3 styrelser, 4 undervisningsinstitutioner og 5 andre institutioner — 3 stjórnsýsluskrifstofur, 4 menntastofnanir og 5 aðrar stofnanir
20.    Økonomi- og Erhvervsministeriet — Efnahags- og viðskiptaráðuneytið Adskillige styrelser og institutioner — Ýmsar stjórnsýsluskrifstofur og stofnanir

ÞÝSKALAND

Auswärtiges Amt Utanríkisráðuneyti Sambandslýðveldisins (skrifstofa utanríkismála)
Bundesministerium des Innern (nur zivile Güter) Ráðuneyti innanríkismála í Sambandslýðveldinu (aðeins almenn innkaup)
Bundesministerium der Justiz Dómsmálaráðuneyti Sambandslýðveldisins
Bundesministerium der Finanzen Fjármálaráðuneyti Sambandslýðveldisins
Bundesministerium für Wirtschaft und Arbeit Efnahags- og atvinnumálaráðuneyti Sambandslýðveldisins
Bundesministerium für Verbraucherschutz, Ernährung und Landwirtschaft Ráðuneyti neytendaverndar, matvæla og landbúnaðar í Sambandslýðveldinu
Bundesministerium der Verteidigung (keine militärischen Güter) Varnarmálaráðuneyti Sambandslýðveldisins (ekki hergögn)
Bundesministerium für Familie, Senioren, Frauen und Jugend Ráðuneyti fjölskyldumála og málefna eldri borgara, kvenna og ungmenna í Sambandslýðveldinu
Bundesministerium für Gesundheit und Soziale Sicherheit Ráðuneyti heilbrigðismála og almannatrygginga í Sambandslýðveldinu
Bundesministerium für Verkehr, Bau- und Wohnungswesen Ráðuneyti samgangna og byggingar- og húsnæðismála í Sambandslýðveldinu
Bundesministerium für Umwelt, Naturschutz und Reaktorsicherheit Ráðuneyti umhverfismála, náttúruverndar og öryggis kjarnorku í Sambandslýðveldinu
Bundesministerium für Bildung und Forschung Ráðuneyti menntunar og rannsókna í Sambandslýðveldinu
Bundesministerium für wirtschaftliche Zusammenarbeit und Entwicklung Ráðuneyti efnahagssamvinnu og þróunar í Sambandslýðveldinu

GRIKKLAND

1. ......... .........., ..µ..... ......... ... ............ Ráðuneyti innanríkismála, opinberrar stjórnsýslu og dreifstýringar
2. ......... .......... Utanríkisráðuneytið
3. ......... ......µ... ... ......µ.... Efnahags- og fjármálaráðuneytið
4. ......... ......... Þróunarráðuneytið
5. ......... ........... Dómsmálaráðuneytið
6. ......... ....... ........ ... .......µ.... Ráðuneyti menntamála og trúmála
7. ......... .......µ.. Menningarmálaráðuneytið
8. ......... ...... – ........ Ráðuneyti heilbrigðis- og félagsmála
9. ......... ............., .......... ... ..µ..... ..... Ráðuneyti umhverfismála, deiliskipulags og opinberra framkvæmda
10. ......... ........ ... .......... .......... Ráðuneyti atvinnumála og almannatrygginga
11. ......... ......... ... ............ Samgöngu- og fjarskiptaráðuneytið
12. ......... ........ Landbúnaðarráðuneytið
13. ......... .µ....... ......... Ráðuneyti kaupskipaflotans
14. ......... ..........- ...... Ráðuneyti Makedóníu og Þrakíu
15. ......... ....... Ráðuneyti Eyjahafssvæðisins
16. ......... ..... ... ..... ....... ...µ...... Ráðuneyti fjölmiðla
17. ...... ...µµ..... .... ...... Aðalskrifstofa málefna ungmenna
18. ...... ...µµ..... ........ Aðalskrifstofa jafnréttismála
19. ...... ...µµ..... .......... .......... Aðalskrifstofa almannatrygginga
20. ...... ...µµ..... .....µ.. .......µ.. Aðalskrifstofa málefna Grikkja sem dvelja erlendis
21. ...... ...µµ..... ...µ....... Aðalskrifstofa iðnaðarins
22. ...... ...µµ..... ....... ... ........... Aðalskrifstofa rannsókna- og tæknimála
23. ...... ...µµ..... .......µ.. Aðalskrifstofa íþróttamála
24. ...... ...µµ..... ..µ..... ..... Aðalskrifstofa opinberra framkvæmda
25. ...... ...µµ..... ....... ........... ......... ....... Hagstofa Grikklands
26. ....... .......µ.. .......... ......... Félagsmálastofnun Grikklands
27. .......µ.. ......... ......... Húsnæðismálastofnun launafólks
28. ...... ........... Ríkisprent
29. ...... ..µ... ... ....... Almenna ríkisrannsóknarstofan
30. ..µ... ....... ......... Gríski hraðbrautasjóðurinn
31. ...... ............. .........µ.. ...... Háskólinn í Aþenu
32. ............ .........µ.. ............ Háskóli Þessalóníu
33. ..µ........ .........µ.. ...... Háskóli Þrakíu
34. .........µ.. ....... Háskóli Eyjahafssvæðisins
35. .........µ.. ......... Háskóli Jóannínu
36. .........µ.. ...... Háskóli Patrón
37. .........µ.. .......... Háskóli Makedóníu
38. ........... ...... Tækniháskólinn á Krít
39. ............. ..µ.... ..... ...... ... .......µ.... Tækniskóli Sivítaníðíos
40. .......... ......µ... Sjúkrahús Æginitíó
41. ......... ......µ... Sjúkrahús Areteíó
42. ...... ...... ..µ..... ......... Miðstöð opinberrar stjórnsýslu í Grikklandi
43. .......µ.. ........... ..µ..... ...... .... Stjórnarstofnun opinberra mála
44. .......µ.. ......... .......... Tryggingastofnun landbúnaðarins
45. .......µ.. ........ ....... Skólabyggingarstofnun
46. ...... ......... ....... (1) Herforingjaráð landhersins
47. ...... ......... ........ (1) Herforingjaráð sjóhersins
48. ...... ......... ......... . (1) Herforingjaráð flughersins
49. ........ ........ ...µ.... ......... Kjarnorkunefnd Grikklands
50. ...... ...µµ..... ........... ........ Aðalskrifstofa framhaldsmenntunar
( 1)    Ekki vörur til hernaðar sbr. V. viðauka.

SPÁNN

Presidencia del Gobierno Embætti forsætisráðherra
Ministerio de Asuntos Exteriores Utanríkisráðuneytið
Ministerio de Justicia Dómsmálaráðuneytið
Ministerio de Defensa Varnarmálaráðuneytið
Ministerio de Hacienda Fjármálaráðuneytið
Ministerio de Interior Innanríkisráðuneytið
Ministerio de Fomento Ráðuneyti innlendrar þróunar
Ministerio de Educación, Cultura y Deportes Ráðuneyti menntamála, menningarmála og íþróttamála
Ministerio de Trabajo y Asuntos Sociales Ráðuneyti atvinnumála og félagsmála
Ministerio de Agricultura, Pesca y Alimentación Ráðuneyti landbúnaðar, fiskveiða og matvæla
Ministerio de la Presidencia Forsætisráðuneytið
Ministerio de Administraciones Públicas Ráðuneyti opinberrar stjórnssýslu
Ministerio de Sanidad y Consumo Ráðuneyti heilbrigðis- og neytendamála
Ministerio de Economía Ráðuneyti efnahagsmála
Ministerio de Medio Ambiente Umhverfisráðuneytið
Ministerio de Ciencia y Tecnología Ráðuneyti vísinda og tækni

FRAKKLAND

1.      Ráðuneyti
—    Services du Premier ministre —    Embætti forsætisráðherra
—    Ministère des affaires étrangères —    Utanríkisráðuneytið
—    Ministère des affaires sociales, du travail et de la solidarité —    Ráðuneyti félagsmála, atvinnumála og samstöðu
—    Ministère de l'agriculture, de l'alimentation, de la pêche et des affaires rurales —    Ráðuneyti landbúnaðar-, matvæla-, fiskveiði- og landsbyggðarmála
—    Ministère de la culture et de la communication —    Menningar- og fjarskiptaráðuneytið
—    Ministère de la défense (1) —    Varnarmálaráðuneytið
—    Ministère de l'écologie et du développement durable —    Ráðuneyti vistfræði og sjálfbærrar þróunar
—    Ministère de l'économie, des finances et de l'industrie —    Ráðuneyti efnahagsmála, fjármála og iðnaðarmála
—    Ministère de l'équipement, des transports, du logement, du tourisme et de la mer —    Ráðuneyti grunnvirkja, samgangna, húsnæðismála, ferðamála og sjávartengdra mála
—    Ministère de la fonction publique, de la réforme de l'Etat et de l'aménagement du territoire —    Ráðuneyti opinberrar þjónustu, ríkisendurbóta og svæðaskipulags
—    Ministère de l'intérieur, de la sécurité intérieure et des libertés locales —    Ráðuneyti innanríkis- og öryggismála og sjálfsstjórnarmála
—    Ministère de la justice —    Dómsmálaráðuneytið
—    Ministère de la jeunesse, de l'éducation nationale et de la recherche —    Ráðuneyti ungmenna, menntunar og rannsókna
—    Ministère de l'outre-mer —    Ráðuneyti yfirráðasvæða handan hafsins
—    Ministère de la santé, de la famille et des personnes handicapées —    Ráðuneyti heilbrigðismála, fjölskyldumála og fatlaðra
—    Ministère des sports —    Ráðuneyti íþróttamála
( 1)    Ekki vörur til hernaðar.
2.      Opinberar innlendar stofnanir
—    Académie de France à Rome —    Franska akademían í Róm
—    Académie de marine —    Akademía flotans
—    Académie des sciences d'outre-mer —    Vísindaakademía yfirráðasvæða handan hafsins
—    Agence centrale des organismes de sécurité sociale (ACOSS) —    Miðstöð almannatryggingastofnana
—    Agence nationale pour l'amélioration des conditions de travail (ANACT) —    Landstofnun fyrir umbætur á vinnuaðstæðum
—    Agence nationale pour l'amélioration de l'habitat (ANAH) —    Landstofnun fyrir umbætur á íbúðarhúsnæði
—    Agence nationale pour l'indemnisation des français d'outre-mer (ANIFOM) —    Landstofnun fyrir bætur til franskra þegna handan hafsins
—    Assemblée permanente des chambres d'agriculture (APCA) —    Samtök svæðisdeilda landbúnaðarins
—    Bibliothèque nationale de France —    Þjóðarbókasafn Frakklands
—    Bibliothèque nationale et universitaire de Strasbourg —    Þjóðar- og háskólabókasafn Strassborgar
—    Bibliothèque publique d'information —    Opinbert upplýsingabókasafn
—    Caisse des dépôts et consignations —    Vörslusjóður
—    Caisse nationale des autoroutes (CNA) —    Þjóðvegasjóður
—    Caisse nationale militaire de sécurité sociale (CNMSS) —    Almannatryggingasjóður ríkisins fyrir hermenn
—    Centre des monuments nationaux (CMN) —    Miðstöð þjóðarminnisvarða
—    Caisse de garantie du logement locatif social —    Tryggingasjóður félagsbústaða
—    Casa de Velasquez —    Casa de Velázquez
—    Centre d'enseignement zootechnique —    Miðstöð fyrir nám í dýrarækt
—    Centre d'études du milieu et de pédagogie appliquée du ministère de l'agriculture —    Miðstöð landbúnaðarins fyrir umhverfismenntun og hagnýta kennslufræði
—    Centre d'études supérieures de sécurité sociale —    Miðstöð fyrir framhaldsnám á sviði almannatrygginga
—    Centres de formation professionnelle agricole —    Námsmiðstöðvará sviði landbúnaðar
—    Centre national d'art et de culture Georges Pompidou —    Lista- og menningarmiðstöð Georges Pompidou
—    Centre national de la cinématographie —    Kvikmyndamiðstöð ríkisins
—    Centre national d'études et de formation pour l'enfance inadaptée —    Kennslu- og þjálfunarmiðstöð ríkisins fyrir börn með aðlögunarerfiðleika
—    Centre national d'études et d'expérimentation du machinisme agricole, du génie rural, des eaux et des forêts (CEMAGREF) —    Rannsóknarstofnun ríkisins í landbúnaðar- og umhverfisverkfræði
—    Centre national des lettres —    Bókmenntamiðstöð ríkisins
—    Centre national de documentation pédagogique —    Námsgagnastofnun ríkisins
—    Centre national des oeuvres universitaires et scolaires (CNOUS) —    Landsmiðstöð fyrir aðstoð við skóla- og háskólanema
—    Centre hospitalier des Quinze-Vingts —    Quinze-Vingts-sjúkrahúsið
—    Centre national de promotion rurale de Marmilhat —    Marmilhat-miðstöðin til stuðnings þróun í dreifbýli
—    Centres d'éducation populaire et de sport (CREPS) —    Miðstöðvar fyrir fullorðinsfræðslu og íþróttir
—    Centres régionaux des œuvres universitaires (CROUS) —    Svæðisstöðvar fyrir aðstoð við háskólanema
—    Centres régionaux de la propriété forestière —    Svæðisstöðvar skógarbænda
—    Centre de sécurité sociale des travailleurs migrants —    Almannatryggingamiðstöðvar fyrir farandverkamenn
—    Commission des opérations de bourse —    Nefnd um kauphallarstarfsemi
—    Conseil supérieur de la pêche —    Fiskveiðiráð
—    Conservatoire de l'espace littoral et des rivages lacustres —    Stofnun um varðveislu sjávarstranda og vatnsbakka
—    Conservatoire national supérieur de musique de Paris —    Tónlistarskóli ríkisins í París
—    Conservatoire national supérieur de musique de Lyon —    Tónlistarskóli ríkisins í Lyon
—    Conservatoire national supérieur d'art dramatique —    Leiklistarskóli ríkisins
—    École centrale — Lyon —    Verkfræðiskólinn í Lyon
—    École centrale des arts et manufactures —    Verkfræði- og vísindaskólinn í París
—    Ecole du Louvre —    Louvre-listaskólinn
—    École française d'archéologie d'Athènes —    Franski fornminjafræðiskólinn í Aþenu
—    École française d'Extrême-Orient —    Franski skólinn um málefni Austurlanda fjær
—    École française de Rome —    Franski skólinn í Róm
—    École des hautes études en sciences sociales —    Félagsvísindaháskólinn
—    École nationale d'administration —    Stjórnsýsluskóli ríkisins
—    École nationale de l'aviation civile (ENAC) —    Flugskóli ríkisins fyrir almenningsflug
—    École nationale des Chartes —    Handritafræðiskóli ríkisins
—    École nationale d'équitation —    Reiðskóli ríkisins
—    École nationale du génie rural des eaux et des forêts (ENGREF) —    Landbúnaðar-, vatns- og skógarverkfræðiskóli ríkisins
—    Écoles nationales d'ingénieurs —    Verkfræðiskólar ríkisins
—    École nationale d'ingénieurs des techniques des industries agricoles et alimentaires —    Verkfræðiskóli ríkisins fyrir matvælaiðnað landbúnaðarvara
—    Écoles nationales d'ingénieurs des travaux agricoles —    Landbúnaðarverkfræðiskólar ríkisins
—    Ecole nationale du génie de l'eau et de l'environnement de Strasbourg —    Vatns- og umhverfisverkfræðiskóli ríkisins í Strassborg
—    École nationale de la magistrature —    Ríkisskóli fyrir fulltrúa réttarkerfisins
—    Écoles nationales de la marine marchande —    Ríkisskólar fyrir kaupskipaflotann
—    École nationale de la santé publique (ENSP) —    Lýðheilsuskóli ríkisins
—    École nationale de ski et d'alpinisme —    Skíða- og fjallaklifurskóli ríkisins
—    École nationale supérieure agronomique — Montpellier —    Jarðræktarskóli ríkisins í Montpellier
—    École nationale supérieure agronomique — Rennes —    Jarðræktarskóli ríkisins í Rennes
—    École nationale supérieure des arts décoratifs —    Skreytilistarskóli ríkisins
—    École nationale supérieure des arts et industries — Strasbourg —    Listiðnaðarháskólinn í Strassborg
—    École nationale supérieure des arts et industries textiles — Roubaix —    Lista- og textílháskólinn í Roubaix
—    Écoles nationales supérieures d'arts et métiers —    Tækniháskólar ríkisins
—    École nationale supérieure des beaux-arts —    Listaskóli ríkisins
—    École nationale supérieure des bibliothécaires —    Bókasafnsfræðiskóli ríkisins
—    École nationale supérieure de céramique industrielle —    Framhaldsskóli ríkisins í iðnaðarleirvinnu
—    École nationale supérieure de l'électronique et de ses applications (ENSEA) —    Rafeindafræði- og rafeindaverkfræðiskóli ríkisins
—    École nationale supérieure des industries agricoles alimentaires —    Landbúnaðarháskóli ríkisins
—    École nationale supérieure du paysage —    Landslagshönnunarskóli ríkisins
—    Écoles nationales vétérinaires —    Dýralæknaskólar ríkisins
—    École nationale de voile —    Siglingaskóli ríkisins
—    Écoles normales nationales d'apprentissage —    Kennaraskólar
—    Écoles normales supérieures —    Kennaraskólar
—    École polytechnique —    Tækniskólinn
—    École technique professionnelle agricole et forestière de Meymac (Corrèze) —    Landbúnaðar- og skógræktarskólinn í Meymac (Corrèze)
—    École de sylviculture — Crogny (Aube) —    Skógræktarskólinn í Crogny (Aube)
—    École de viticulture et d'oenologie de la Tour- Blanche (Gironde) —    Vínræktar- og víngerðarskólinn í Tour Blanche (Gironde)
—    École de viticulture — Avize (Marne) —    Vínræktarskólinn í Avize (Marne)
—    Hôpital national de Saint-Maurice —    Landspítalinn í Saint-Maurice
—    Établissement national des invalides de la marine (ENIM) —    Almannatryggingastofnun fyrir öryrkja úr sjómannastétt
—    Établissement national de bienfaisance Koenigswarter —    Koenigswarter-góðgerðastofnun ríkisins
—    Établissement de maîtrise d'ouvrage des travaux culturels (EMOC) —    Umsjónarstofnun með vinnu við byggingar í eigu ríkisins sem hafa menningarlegt gildi eða fræðslugildi
—    Établissement public du musée et du domaine national de Versailles —    Opinber stofnun fyrir safn og ríkislendur í Versölum
—    Fondation Carnegie —    Carnegie-stofnunin
—    Fondation Singer-Polignac —    Singer-Polignac-stofnunin
—    Fonds d'action et de soutien pour l'intégration et la lutte contre les discriminations —    Aðgerða- og stuðningssjóður á sviði aðlögunar og baráttu gegn mismunun
—    Institut de l'élevage et de médecine vétérinaire des pays tropicaux (IEMVPT) —    Stofnun á sviði búfjárræktar og dýralæknisfræði í hitabeltislöndum
—    Institut français d'archéologie orientale du Caire —    Franska stofnunin í Kaíró á sviði fornminjafræði Austurlanda
—    Institut français de l'environnement —    Franska umhverfisstofnunin
—    Institut géographique national —    Landfræðistofnun ríkisins
—    Institut industriel du Nord —    Iðnaðarstofnun Norður-Frakklands
—    Institut national agronomique de Paris-Grignon —    Jarðfræðistofnun ríkisins í París-Grignon,
—    Institut national des appellations d'origine (INAO) —    Stofnun ríkisins á sviði upprunamerkingar
—    Institut national d'astronomie et de géophysique (INAG) —    Stjörnufræði- og jarðeðlisfræðistofnun ríkisins
—    Institut national de la consommation (INC) —    Neytendastofnun ríkisins
—    Institut national d'éducation populaire (INEP) —    Fullorðisfræðslustofnun ríkisins
—    Institut national d'études démographiques (INED) —     Lýðfræðirannsóknastofnun ríkisins
—    Institut national des jeunes aveugles — Paris —    Blindraskóli ríkisins í París
—    Institut national des jeunes sourds — Bordeaux —    Heyrnleysingjaskóli ríkisins í Bordeux
—    Institut national des jeunes sourds — Chambéry —    Heyrnleysingjaskóli ríkisins í Chambéry
—    Institut national des jeunes sourds — Metz —    Heyrnleysingjaskóli ríkisins í Metz
—    Institut national des jeunes sourds — Paris —    Heyrnleysingjaskóli ríkisins í París
—    Institut national du patrimoine —    Stofnun um franska þjóðararfleifð
—    Institut national de physique nucléaire et de physique des particules (I.N2.P3) —    Kjarneðlisfræði- og öreindaeðlisfræðistofnun ríkisins
—    Institut national de la propriété industrielle —    Hugverkastofnun ríkisins
—    Institut national de recherches archéologiques préventives —    Ríkisstofnun á sviði forvarnarstarfs við fornleifarannsóknir
—    Institut national de recherche pédagogique (INRP) —    Ríkisstofnun fyrir rannsóknir í uppeldisfræði ríkisins
—    Institut national des sports et de l'éducation physique —    Ríkisstofnun á sviði íþrótta og leikfimikennslu
—    Instituts nationaux polytechniques —    Innlendir tækniskólar
—    Instituts nationaux des sciences appliquées —    Stofnanir ríksins fyrir hagnýt vísindi
—    Institut national supérieur de chimie industrielle de Rouen —    Iðnaðarefnafræðiskóli ríkisins í Rúðuborg
—    Institut national de recherche en informatique et en automatique (INRIA) —    Stofnun ríkisins fyrir rannsóknir á sviði tölvuvísinda og sjálfvirkni
—    Institut national de recherche sur les transports et leur sécurité (INRETS) —    Stofnun ríkisins fyrir rannsóknir á sviði samgangna og samgönguöryggis
—    Instituts régionaux d'administration —    Svæðisbundnar stjórnsýslustofnanir
—    Institut supérieur des matériaux et de la construction mécanique de Saint-Ouen —    Innlend stofnun um efni og vélsmíði í Saint- Ouen
—    Musée Auguste-Rodin —    Auguste-Rodin-safnið
—    Musée de l'armée —    Hergagnasafnið
—    Musée Gustave-Moreau —    Gustave-Moreau-safnið
—    Musée du Louvre —    Louvre-safnið
—    Musée du quai Branly —    Quai Branly-safnið
—    Musée national de la marine —    Sjóherssafn ríkisins
—    Musée national J.-J.-Henner —    J.J.Henner-safnið
—    Musée national de la Légion d'honneur —    Heiðursfylkingarsafnið
—    Muséum national d'histoire naturelle —    Náttúrusögusafn ríkisins
—    Office de coopération et d'accueil universitaire —    Móttöku- og samstarfsstöð háskóla
—    Office français de protection des réfugiés et apatrides —    Franska stjórnarskrifstofan fyrir vernd flóttamanna og ríkisfangslausra manna
—    Office national de la chasse et de la faune sauvage —    Skrifstofa ríkisins fyrir málefni er varða veiðar og villt dýr
—    Office national d'information sur les enseignements et les professions (ONISEP) —    Upplýsingaskrifstofa ríkisins á sviði menntunar og starfa
—    Office des migrations internationales (OMI) —    Alþjóðlega innflytjendaskrifstofan
—    Office universitaire et culturel français pour l'Algérie —    Franska háskóla- og menningarskrifstofan fyrir Alsír
—    Palais de la découverte —    Vísindasafnið „Palais de la découverte“
—    Parcs nationaux —    Þjóðgarðar
—    Syndicat des transports parisiens d'Ile-de-France —    Samgönguyfirvöld Parísar og Ile-de-France
—    Thermes nationaux — Aix-les-Bains —    Heilsulindir ríkisins í „Aix-les-Bains“
—    Union des groupements d'achats publics (UGAP) —    Stjórnardeild opinberra innkaupa
3. Autre organisme public national — Aðrar opinberar innlendar stofnanir
—    Union des groupements d'achats publics (UGAP) —    Stjórnardeild opinberra innkaupa

ÍRLAND

President's Establishment
Houses of the Oireachtas [Parliament] and European Parliament
Department of the Taoiseach [Prime Minister]
Central Statistics Office
Department of Finance
Office of the Comptroller and Auditor General
Office of the Revenue Commissioners
Office of Public Works
State Laboratory
Office of the Attorney General
Office of the Director of Public Prosecutions
Valuation Office
Civil Service Commission
Office of the Ombudsman
Chief State Solicitor's Office
Department of Justice, Equality and Law Reform
Courts Service
Prisons Service
Office of the Commissioners of Charitable Donations and Bequests
Department of the Environment and Local Government
Department of Education and Science
Department of Communications, Marine and Natural Resources
Department of Agriculture and Food
Department of Transport
Department of Health and Children
Department of Enterprise, Trade and Employment
Department of Arts, Sports and Tourism
Department of Defence
Department of Foreign Affairs
Department of Social and Family Affairs
Department of Community, Rural and Gaeltacht/[Gaelic speaking regions] Affairs
Arts Council
National Gallery

ÍTALÍA

1. Innkaupastofnanir
1. Presidenza del Consiglio dei Ministri Formennskuembætti ráðherraráðsins
2. Ministero degli Affari Esteri Utanríkisráðuneytið
3. Ministero dell'Interno Innanríkisráðuneytið
4. Ministero della Giustizia Dómsmálaráðuneytið
5. Ministero della Difesa Varnarmálaráðuneytið (1)
6. Ministero dell'Economia e delle Finanze Efnahags- og fjármálaráðuneytið
7. Ministero delle Attività Produttive Ráðuneyti framleiðslustarfsemi
8. Ministero delle Comunicazioni Fjarskiptaráðuneytið
9. Ministero delle Politiche agricole e forestali Ráðuneyti landbúnaðar og skógarnytja
10. Ministero dell'Ambiente e tutela del Territorio Umhverfis- og náttúruverndarráðuneytið
11. Ministero delle Infrastrutture e Transporti Ráðuneyti grunnvirkja og samgangna
12. Ministero del Lavoro e delle politiche sociali Atvinnu- og félagsmálaráðuneytið
13. Ministero della Salute Heilbrigðisráðuneytið
14. Ministero dell'Istruzione, Università e Ricerca Ráðuneyti menntamála, háskóla og rannsókna
15. Ministero per i Beni e le attività culturali Ráðuneyti menningararfleifðar og menningarstarfsemi
(1)    Ekki vörur til hernaðar.
2.      Aðrar opinberar innlendar stofnanir
CONSIP SPA (Concessionnaria Servizi Informatici Pubblici) (1) CONSIP (Sérleyfishafi opinberrar upplýsingaþjónustu)
(1)    Gegnir hlutverki miðlægrar innkaupastofnunar fyrir öll ráðuneytin og, sé þess óskað, annarra opinberra stofnana á grundvelli sérleyfis- eða rammasamnings.

LÚXEMBORG

1. Ministère de l'Agriculture, de la Viticulture et du Développement rural: Administration des services techniques de l'agriculture. 1. Ráðuneyti landbúnaðar, vínræktar og þróunar í dreifbýli: stjórn tæknideilda landbúnaðarins
2. Ministère des Affaires étrangères, du Commerce extérieur, de la Coopération et de la Défense: Armée. 2. Ráðuneyti utanríkismála, utanríkisviðskipta, samvinnu og varnarmála: herinn
3. Ministère de l'Education nationale, de la Formation professionnelle et des Sports: Lycées d'enseignement secondaire et d'enseignement secondaire technique. 3. Ráðuneyti menntamála, starfsmenntunar og íþróttamála: menntaskólar og starfsmenntaskólar
4. Ministère de l'Environnement: Administration de l'environnement. 4. Umhverfisráðuneytið: stjórn umhverfismála
5. Ministère d'Etat, département des Communications: Entreprise des P et T (Postes seulement). 5. Ráðuneyti fjarskiptamála (undir forsætisráðuneytinu): póst- og fjarskiptadeild (póstmál eingöngu)
6. Ministère de la Famille, de la Solidarité sociale et de la Jeunesse: Maisons de retraite de l'Etat, Homes d'enfants. 6. Ráðuneyti fjölskyldumála, félagslegrar samstöðu og ungmenna: ríkisrekin elliheimili og barnaheimili
7. Ministère de la Fonction publique et de la Réforme administrative: Centre informatique de l'Etat, Service central des imprimés et des fournitures de bureau de l'Etat. 7. Ráðuneyti opinberrar þjónustu og stjórnsýsluumbóta: reiknistofa ríkisins, miðstöð fyrir prentað efni og skrifstofuvörur ríkisins
8. Ministère de la Justice: Etablissements pénitentiaires. 8. Dómsmálaráðuneytið: fangelsisstofnanir
9. Ministère de l'Intérieur: Police grand-ducale, Service national de la protection civile. 9. Innanríkisráðuneytið: ríkislögreglan, almannavarnir ríkisins
10. Ministère des Travaux publics: Administration des bâtiments publics; Administration des ponts et chaussées. 10. Ráðuneyti opinberra framkvæmda: rekstur opinberra bygginga, rekstur brúa og vega

HOLLAND

Ministerie van Algemene Zaken (Ráðuneyti almennra mála)
—    Bestuursdepartement (Stjórnsýsludeildir)
—    Bureau van de Wetenschappelijke Raad voor het Regeringsbeleid (Ráðgjafarráð ríkisstjórnarinnar)
—    Rijksvoorlichtingsdienst: (Upplýsingaþjónusta ríkisstjórnarinnar)
Ministerie van Binnenlandse Zaken en Koninkrijksrelaties (Innanríkisráðuneytið)
—    Bestuursdepartement (Stjórnsýsludeildir)
—    Agentschap Informatievoorziening Overheidspersoneel (IVOP) (Upplýsingaskrifstofa opinberra starfsmanna)
—    Centrale Archiefselectiedienst (CAS) (Skjalaþjónusta ríkisins)
—    Algemene Inlichtingen- en Veiligheidsdienst (AIVD) (Leyniþjónusta- og öryggisþjónusta)
—    Beheerorganisatie GBA (Skrifstofa starfsmannaskrár og ferðaskjala)
—    Organisatie Informatie- en communicatietechnologie OOV (ITO) (Upplýsinga- og fjarskiptatæknistofnun)
—    Korps Landelijke Politiediensten (Ríkislögreglustöðin)
Ministerie van Buitenlandse Zaken (Utanríkisráðuneytið)
—    Directoraat Generaal Regiobeleid en Consulaire Zaken (DGRC) (Aðalskrifstofa svæðismálefna og ræðismála)
—    Directoraat Generaal Politieke Zaken (DGPZ) (Aðalskrifstofa stjórnmála)
—    Directoraat Generaal Internationale Samenwerking (DGIS) (Aðalskrifstofa alþjóðasamstarfs)
—    Directoraat Generaal Europese Samenwerking (DGES) (Aðalskrifstofa evrópsks samstarfs)
—    Centrum tot Bevordering van de Import uit Ontwikkelingslanden (CBI) (Miðstöð fyrir eflingu innflutnings frá þróunarlöndunum)
—    Centrale diensten ressorterend onder P/PlvS (Stoðþjónusta sem fellur undir aðalframkvæmdastjóra og aðstoðarframkvæmdastjóra)
—    Buitenlandse Posten (ieder afzonderlijk) (sendiráð erlendis)
Ministerie van Defensie (Varnarmálaráðuneytið)
—    Bestuursdepartement (Stjórnsýsludeildir)
—    Staf Defensie Interservice Commando (DICO) (Innri stoðþjónusta varnarliðsins)
—    Defensie Telematica Organisatie (DTO) (Fjarvirknistofnun varnarmála)
—    Centrale directie van de Dienst Gebouwen, Werken en Terreinen (Aðalskrifstofa grunnvirkjadeildar varnarliðsins)
—    De afzonderlijke regionale directies van de Dienst Gebouwen, Werken en Terreinen (svæðisskrifstofur grunnvirkjadeildar varnarmála)
—    Directie Materieel Koninklijke Marine (Aðalskrifstofa sjóhers konungdæmisins)
—    Directie Materieel Koninklijke Landmacht (Aðalskrifstofa sjóhers konungdæmisins)
—    Directie Materieel Koninklijke Luchtmacht (Aðalskrifstofa flughers konungdæmisins)
—    Landelijk Bevoorradingsbedrijf Koninklijke Landmacht (LBBKL) (Birgðastöð hers konungdæmisins)
—    Defensie Pijpleiding Organisatie (DPO) (Eldsneytisstofnun varnarliðsins)
—    Logistiek Centrum Koninklijke Luchtmacht (Birgðastöð flughers konungdæmisins)
—    Koninklijke Marine, Marinebedrijf (Viðhaldsstofnun sjóhers konungdæmisins)
Ministerie van Economische Zaken (Ráðuneyti efnahagsmála)
—    Bestuursdepartement (Stjórnsýsludeildir)
—    Centraal Planbureau (CPB) (CBP: Þjóðhagsstofnun Hollands)
—    Bureau voor de Industriële Eigendom (BIE) (Einkaleyfastofan)
—    Senter (Senter)
—    Staatstoezicht op de Mijnen (Ríkisumsjón með námum)
—    Nederlandse Mededingingsautoriteit (NMa) (Samkeppnisyfirvöld ríkisins)
—    Economische Voorlichtingsdienst (EVD) (Skrifstofa utanríkisviðskipta)
—    Nederlandse Onderneming voor Energie en Milieu BV (Novem) (Orku- og umhverfisstofa)
—    Agentschap Telecom (Fjarskiptastofa)
Ministerie van Financiën (Fjármálaráðuneytið)
—    Bestuursdepartement (Stjórnsýsludeildir)
—    Belastingdienst Automatiseringscentrum (Gagnamiðstöð skatt- og tollyfirvalda)
—    Belastingdienst (Skatt- og tollyfirvöld)
—    de afzonderlijke Directies der Rijksbelastingen (deildir skatt- og tollyfirvalda víðs vegar um Holland)
—    Fiscale Inlichtingen- en Opsporingsdienst (incl. Economische Controle dienst (ECD)) (Upplýsinga- og rannsóknarskrifstofa skatt- og tollyfirvalda (þ.m.t. efnahagsrannsóknir))
—    Belastingdienst Opleidingen (Þjálfunarstöð skatt- og tollyfirvalda)
—    Dienst der Domeinen (Umsjón ríkiseigna)
Ministerie van Justitie (Dómsmálaráðuneytið)
—    Bestuursdepartement (Stjórnsýsludeildir)
—    Dienst Justitiële Inrichtingen (Fangelsisstofnanir)
—    Raad voor de Kinderbescherming (Barnaverndarráð)
—    Centraal Justitie Incasso Bureau (Innheimtustofnun ríkisins)
—    Openbaar Ministerie (Ríkissaksóknari)
—    Immigratie en Naturalisatiedienst (Þjónusta við innflytjendur og veiting ríkisborgararéttar)
—    Nederlands Forensisch Instituut (Réttarrannsóknastofnun ríkisins)
—    Raad voor de Rechtspraak (Réttarfarsráðið)
Ministerie van Landbouw, Natuurbeheer en Visserij (Ráðuneyti landbúnaðar, náttúrunýtingar og fiskveiða)
—    Bestuursdepartement (Stjórnsýsludeildir)
—    Agentschap Landelijke Service bij Regelingen (LASER) (Skrifstofa sem annast framkvæmd laga)
—    Agentschap Plantenziekte kundige Dienst (PD) (Plöntuverndarstofnun)
—    Algemene Inspectiedienst (AID) (Almenn eftirlitsþjónusta)
—    De afzonderlijke Regionale Beleidsdirecties (Stjórnardeildir einstakra svæða)
—    Agentschap Bureau Heffingen (Innheimtustofnun hins opinbera)
—    Dienst Landelijk Gebied (DLG) (Skrifstofa þróunar í dreifbýli)
—    De afzonderlijke Regionale Beleidsdirecties
Ministerie van Onderwijs, Cultuur en Wetenschappen (Ráðuneyti menntamála, menningarmála og vísinda)
—    Bestuursdepartement (Stjórnsýsludeildir)
—    Inspectie van het Onderwijs (Eftirlitsskrifstofa menntunar)
—    Inspectie Cultuurbezit (Eftirlitsskrifstofa menningararfleifðar)
—    Centrale Financiën Instellingen (Fjármögnunarstofa stofnana)
—    Nationaal archief Ríkisskjalasafn
—    Rijksdienst voor de archeologie (Ríkiseftirlit með fornminjum)
—    Rijksarchiefinspectie (Skjalasafn hins opinbera)
—    Adviesraad voor Wetenschaps- en Technologiebeleid (Ráðgefandi ráð fyrir vísindi og tækni)
—    Onderwijsraad (Menntamálaráð)
—    Rijksinstituut voor Oorlogsdocumentatie (Ríkisstofnun fyrir skráningu stríðsatburða)
—    Instituut Collectie Nederland (Netherlands Institute for Cultural Heritage)
—    Raad voor Cultuur (Menningarráð)
—    Rijksdienst voor de Monumentenzorg (Ríkisstofnun um varðveislu minnisvarða)
—    Rijksdienst Oudheidkundig Bodemonderzoek (Ríkisstofnun um fornminjarannsóknir)
Ministerie van Sociale Zaken en Werkgelegenheid (Ráðuneyti félagsmála og atvinnumála)
—    Bestuursdepartement (Stjórnsýsludeildir)
Ministerie van Verkeer en Waterstaat (Ráðuneyti samgöngumála, opinberra framkvæmda og vatnsstjórnunar)
—    Bestuursdepartement (Stjórnsýsludeildir)
—    Directoraat-Generaal Luchtvaart (Aðalskrifstofa flugmála)
—    Directoraat-Generaal Goederenvervoer (Aðalskrifstofa vöruflutninga)
—    Directoraat-Generaal Personenvervoer (Aðalskrifstofa fólksflutninga)
—    Directoraat-Generaal Rijkswaterstaat (Aðalskrifstofa opinberra framkvæmda og vatnsstjórnunar)
—    Hoofdkantoor Directoraat-Generaal Rijks Waterstaat (Embætti opinberra framkvæmda og vatnsstjórnunar)
—    De afzonderlijke regionale directies van Rijkswaterstaat (Svæðadeildir aðalskrifstofu opinberra framkvæmda og vatnsstjórnunar)
—    De afzonderlijke specialistische diensten van Rijkswaterstaat (Sérfræðiþjónustudeildir aðalskrifstofu opinberra framkvæmda og vatnsstjórnunar)
—    Directoraat-Generaal Water (Aðalskrifstofa vatnsstjórnar)
—    Inspecteur-Generaal, Inspectie Verkeer en Waterstaat (Yfireftirlitsmaður eftirlitsskrifstofu með samgöngum og vatnsstjórnun)
—    Divisie Luchtvaart van de Inspecteur-Generaal, Inspectie Verkeer en Waterstaat (Flugmáladeild eftirlitsskrifstofu samgangna og vatnsstjórnunar)
—    Divisie Vervoer van de Inspecteur-Generaal, Inspectie Verkeer en Waterstaat (Samgöngumáladeild eftirlitsskrifstofu samgangna og vatnsstjórnunar)
—    Divisie Scheepvaart van de Inspecteur-Generaal, Inspectie Verkeer en Waterstaat (Siglingamáladeild eftirlitsskrifstofu samgangna og vatnsstjórnunar)
—    Centrale Diensten (Þjónustudeildir ríkisins)
—    Koninklijk Nederlands Meteorologisch Instituut (KNMI) (Veðurfræðistofnun konungdæmisins)
Ministerie van Volkshuisvesting, Ruimtelijke Ordening en Milieubeheer (Ráðuneyti húsnæðismála, landnotkunarskipulags og umhverfismála)
—    Bestuursdepartement (Stjórnsýsludeildir)
—    Directoraat-Generaal Wonen (Aðalskrifstofa húsnæðismála)
—    Directoraat-Generaal Ruimte (Aðalskrifstofa landnotkunarskipulags)
—    Directoraat General Milieubeheer (Aðalskrifstofa umhverfismála)
—    Rijksgebouwendienst (Byggingarstofnun ríkisins)
—    VROM inspectie (Eftirlit)
Ministerie van Volksgezondheid, Welzijn en Sport (Ráðuneyti heilbrigðismála, félagsmála og íþróttamála)
—    Bestuursdepartement (Stjórnsýsludeildir)
—    Inspectie Gezondheidsbescherming, Waren en Veterinaire Zaken (Eftirlit með heilsuvernd og dýraheilbrigði)
—    Inspectie Gezondheidszorg (Eftirlit með heilsugæslu)
—    Inspectie Jeugdhulpverlening en Jeugdbescherming (Ungmennaeftirlit)
—    Rijksinstituut voor de Volksgezondheid en Milieu (RIVM) (Lýðheilsu- og umhverfisstofnun ríkisins)
—    Sociaal en Cultureel Planbureau (Skrifstofa félags- og menningaráætlana)
—    Agentschap t.b.v. het College ter Beoordeling van Geneesmiddelen (Lyfjastofnun)
Tweede Kamer der Staten-Generaal (Neðri deild þingsins)
Eerste Kamer der Staten-Generaal (Efri deild þingsins)
Raad van State (Ríkisráðið)
Algemene Rekenkamer (Endurskoðunardómstóll ríkisins)
Nationale Ombudsman (Umboðsmaður ríkisins)
Kanselarij der Nederlandse Orden (Stjórnarskrifstofa hollensku stjórnarinnar)
Kabinet der Koningin (Skrifstofa drottningar)

AUSTURRÍKI

1. Bundeskanzleramt Stjórnarskrifstofa sambandsríkisins
2. Bundesministerium für auswärtige Angelegenheiten Utanríkisráðuneyti sambandsríkisins
3. Bundesministerium für Bildung, Wissenschaft und Kultur Sambandsráðuneyti menntamála, menningarmála og vísinda
4. Bundesministerium für Finanzen Sambandsráðuneyti fjármála
5. Bundesministerium für Gesundheit und Frauen Sambandsráðuneyti heilbrigðismála og málefna kvenna
6. Bundesministerium für Inneres Sambandsráðuneyti innanríkismála
7. Bundesministerium für Justiz Sambandsráðuneyti dómsmála
8. Bundesministerium für Landesverteidigung Sambandsráðuneyti varnarmála
9. Bundesministerium für Land- und Forstwirtschaft, Umwelt und Wasserwirtschaft Sambandsráðuneyti landbúnaðar og skógarnytja, umhverfismála og vatnsstjórnunar
10. Bundesministerium für soziale Sicherheit, Generationen und Konsumentenschutz Sambandsráðuneyti almannatrygginga, málefna kynslóðanna og neytendaverndar
11. Bundesministerium für Verkehr, Innovation und Technologie Sambandsráðuneyti samgangna, nýsköpunar og tækni
12. Bundesministerium für Wirtschaft und Arbeit Sambandsráðuneyti efnahagsmála og atvinnumála
13. Bundesamt für Eich- und Vermessungswesen Sambandsskrifstofa kvörðunar- og mælinga
14. Österreichische Forschungs- und Prüfzentrum Arsenal Gesellschaft m.b.H Austurríska rannsóknar- og prófunarstöðin Arsenal Ltd
15. Bundesprüfanstalt für Kraftfahrzeuge Sambandsstofnun um prófun bifreiða
16. Bundesbeschaffung G.m.b.H Sambandsstofnun um innkaup
17. Bundesrechenzentrum G.m.b.H Sambandsstofnun um gagnavinnslu

PORTÚGAL

—    Presidência do Conselho de Ministros; Formennskuembætti ráðherraráðsins
—    Ministério das Finanças; Fjármálaráðuneytið
—    Ministério da Defesa Nacional; (1) Varnarmálaráðuneytið
—    Ministério dos Negócios Estrangeiros e das Comunidades Portuguesas; Ráðuneyti utanríkismála og málefna portúgalskra samfélagshópa erlendis
—    Ministério da Administração Interna; Ráðuneyti innanríkismála
—    Ministério da Justiça; Dómsmálaráðuneytið
—    Ministério da Economia; Efnahagsráðuneytið
—    Ministério da Agricultura, Desenvolvimento Rural e Pescas; Ráðuneyti landbúnaðar, þróunar í dreifbýli og fiskveiða
—    Ministério da Educação; Menntamálaráðuneytið
—    Ministério da Ciência e do Ensino Superior; Ráðuneyti vísinda og háskólamenntunar
—    Ministério da Cultura; Menningarmálaráðuneytið
—    Ministério da Saúde; Heilbrigðisráðuneytið
—    Ministério da Segurança Social e do Trabalho; Ráðuneyti atvinnumála og almannatrygginga
—    Ministério das Obras Públicas, Transportes e Habitação; Ráðuneyti opinberra framkvæmda, samgangna og húsnæðismála
—    Ministério das Cidades, Ordenamento do Território e Ambiente. Ráðuneyti borgarmálefna, landnýtingar og umhverfismála
(1)    Ekki vörur til hernaðar sbr. V. viðauka.

FINNLAND

OIKEUSKANSLERINVIRASTO – JUSTITIEKANSLERSÄMBETET EMBÆTTISSKRIFSTOFA DÓMSMÁLARÁÐHERRA
KAUPPA- JA TEOLLISUUSMINISTERIÖ – HANDELS- OCH INDUSTRIMINISTERIET VIÐSKIPTA- OG IÐNAÐARRÁÐUNEYTIÐ
Kuluttajavirasto – Konsumentverket Finnska neytendastofnunin
Kilpailuvirasto – Konkurrensverket Finnska samkeppnisstofnunin
Kuluttajavalituslautakunta – Konsumentklagonämnden Kærunefnd neytenda
Patentti- ja rekisterihallitus – Patent- och registerstyrelsen Einkaleyfa- og skráningarnefndin
LIIKENNE- JA VIESTINTÄMINISTERIÖ – KOMMUNIKATIONSMINISTERIET RÁÐUNEYTI SAMGANGNA OG FJARSKIPTA
Viestintävirasto – Kommunikationsverket Eftirlitsstofnun fjarskiptamála
MAA- JA METSÄTALOUSMINISTERIÖ – JORD- OCH SKOGSBRUKSMINISTERIET RÁÐUNEYTI LANDBÚNAÐAR OG SKÓGARNYTJA
Elintarvikevirasto – Livsmedelsverket Matvælastofnunin
Maanmittauslaitos – Lantmäteriverket Landmælingar Finnlands
OIKEUSMINISTERIÖ – JUSTITIEMINISTERIET DÓMSMÁLARÁÐUNEYTIÐ
Tietosuojavaltuutetun toimisto – Dataombudsmannens byrå Skrifstofa umboðmanns gagnaverndar
Tuomioistuimet – domstolar Dómstólar
Korkein oikeus – Högsta domstolen Hæstiréttur
Korkein hallinto-oikeus – Högsta förvaltningsdomstolen Æðsti stjórnsýsludómstóll
Hovioikeudet – hovrätter Áfrýjunardómstólar
Käräjäoikeudet – tingsrätter Héraðsdómstólar
Hallinto-oikeudet –förvaltningsdomstolar Stjórnsýsludómstólar
Markkinaoikeus - Marknadsdomstolen Markaðsdómstóll
Työtuomioistuin – Arbetsdomstolen Vinnudómstóll
Vakuutusoikeus – Försäkringsdomstolen Vátryggingadómstóll
Vankeinhoitolaitos – Fångvårdsväsendet Fangelsismálastofnun
OPETUSMINISTERIÖ – UNDERVISNINGSMINISTERIET MENNTAMÁLARÁÐUNEYTIÐ
Opetushallitus – Utbildningsstyrelsen Menntamálaráð
Valtion elokuvatarkastamo – Statens filmgranskningsbyrå Kvikmyndastofnun ríkisins
PUOLUSTUSMINISTERIÖ – FÖRSVARSMINISTERIET VARNARMÁLARÁÐUNEYTIÐ
Puolustusvoimat (1) – Försvarsmakten Varnarlið Finnlands
SISÄASIAINMINISTERIÖ – INRIKESMINISTERIET INNANRÍKISRÁÐUNEYTIÐ
Väestörekisterikeskus – Befolkningsregistercentralen Skráningarmiðstöð þjóðskrár
Keskusrikospoliisi – Centralkriminalpolisen Rannsóknarlögregla ríkisins
Liikkuva poliisi – Rörliga polisen Umferðarlögreglan
Rajavartiolaitos (1) – Gränsbevakningsväsendet Landamæravarslan
SOSIAALI- JA TERVEYSMINISTERIÖ RÁÐUNEYTI FÉLAGSMÁLA OG HEILBRIGÐISMÁLA
Työttömyysturvalautakunta – Arbetslöshetsnämnden Atvinnuleysisráð
Tarkastuslautakunta – Prövningsnämnden Áfrýjunarnefnd
Lääkelaitos – Läkemedelsverket Lyfjastofnun
Terveydenhuollon oikeusturvakeskus – Rättsskyddscentralen för hälsovården Miðstöð réttarverndar á heilbrigðissviði
Tapaturmavirasto – Olycksfallsverket Slysatryggingastofnun ríkisins
Säteilyturvakeskus – Strålsäkerhetscentralen Miðstöð geislunar- og kjarnorkuvarna
TYÖMINISTERIÖ – ARBETSMINISTERIET RÁÐUNEYTI VINNUMÁLA
Valtakunnansovittelijain toimisto – Riksförlikningsmännens byrå Embætti ríkissáttasemjara
Valtion turvapaikanhakijoiden vastaanottokeskukset – Statliga förläggningar för asylsökande Miðstöðvar fyrir móttöku hælisleitenda
Työneuvosto – Arbetsrådet i Finland Vinnumálaráð
ULKOASIAINMINISTERIÖ – UTRIKESMINISTERIET UTANRÍKISRÁÐUNEYTIÐ
VALTIOVARAINMINISTERIÖ – FINANSMINISTERIET FJÁRMÁLARÁÐUNEYTIÐ
Valtiontalouden tarkastusvirasto – Statens revisionsverk Ríkisendurskoðun
Valtiokonttori – Statskontoret Ríkissjóður
Valtion työmarkkinalaitos – Statens arbetsmarknadsverk Skrifstofa ríkisstarfsmanna
Verohallinto – Skatteförvaltningen Ríkisskattstjóri
Tullilaitos – Tullverket Tollyfirvöld
Valtion vakuusrahasto – Statsgarantifonden Ríkistryggingasjóður
YMPÄRISTÖMINISTERIÖ – MILJÖMINISTERIET UMHVERFISRÁÐUNEYTIÐ
(1)    Ekki vörur til hernaðar.

SVÍÞJÓÐ

A
Akademien för de fria konsterna Konunglega listaakademían
Alkoholinspektionen Áfengiseftirlitsnefnd
Alkoholsortimentsnämnden Eftirlitsnefnd með tegundum áfengra drykkja
Allmänna pensionsfonden Almenni eftirlaunasjóðurinn
Allmänna reklamationsnämnd Kærunefnd neytendamála
Ambassader Sendiráð
Arbetsdomstolen Vinnudómstóll
Arbetsgivarverk, statens Vinnuveitendastofnun ríkisins
Arbetslivsfonden Sjóður atvinnulífsins
Arbetslivsinstitutet Stofnun atvinnulífsins
Arbetsmarknadsstyrelsen Vinnumarkaðsráð ríkisins
Arbetsmiljöfonden Vinnuumhverfissjóður
Arbetsmiljöinstitutet Vinnuumhverfisstofnun
Arbetsmiljönämnd, statens Vinnuumhverfisstofnun ríkisins
Arbetsmiljöverket Vinnuumhverfisyfirvöld
Arkitekturmuseet Byggingarlistarsafnið
Arrendenämnder (12) Svæðisbundnar leiguábúðarnefndir (12)
B
Banverket Stjórn járnbrautarkerfisins
Barnombudsmannen Skrifstofa umboðsmanns barna
Beredning för utvärdering av medicinsk metodik, statens Ríkisnefnd um mat á starfsaðferðum í heilsugæslu
Besvärsnämnden för rättshjälp Áfrýjunarnefnd um réttaraðstoð
Biografbyrå, statens Kvikmyndaeftirlit ríkisins
Biografiskt lexikon, svenskt Uppsláttarrit sænskrar ævisöguritunar
Birgittaskolan Birgittuskólinn
Blekinge tekniska högskola Tækniháskólinn í Blekinge
Bokföringsnämnden Sænska reikningsskilastaðlaráðið
Bostadskreditnämnd, statens (BKN) Húsnæðislánanefnd ríkisins
Boverket Húsnæðismálastofnun
Brottsförebyggande rådet Nefnd um að vinna gegn afbrotum
Brottsoffermyndigheten Yfirvöld aðgerða til stuðnings fórnarlömbum afbrota
Brottsskadenämnden Nefnd um skaðabætur vegna meiðsla fórnarlamba afbrota
Byggforskningsrådet Byggingarannsóknarráð ríkisins
C
Centrala försöksdjursnämnden Yfirnefnd um tilraunir á dýrum
Centrala studiestödsnämnden Yfirnefnd um námsaðstoð
Centralnämnden för fastighetsdata Yfirnefnd um gögn varðandi fasteignir
D
Danshögskolan Dansháskólinn
Datainspektionen Gagnarannsóknarráð
Delegationen för utländska investeringar Sverige, ISA Skrifstofa erlendra fjárfestinga í Svíþjóð
Departementen Ráðuneytin
Domstolsverket Dómstólarnir
Dramatiska institutet Háskóli kvikmynda- hljóðvarps- sjónvarps- og leiklistarfræða
E
Ekeskolan Eke-skólinn
Ekobrottsmyndigheten Efnahagsbrotadeild
Ekonomistyrningsverket Yfirvöld efnahagsstjórnar
Elsäkerhetsverket Rafmagnsöryggisnefndin
Energimyndigheten, statens Stjórn orkumála í Svíþjóð
EU/FoU-rådet Sænska ESB-rannsóknar- og þróunarráðið
Exportkreditnämnden Útflutningslánanefndin
Exportråd, Sveriges Útflutningsráð Svíþjóðar
F
Fastighetsmäklarnämnden Nefnd um eftirlit með fasteignasölu
Fastighetsverk, statens Nefnd um ríkiseignir
Fideikommissnämnden Erfðaeignaráð
Finansinspektionen Fjármálaeftirlitið
Fiskeriverket Fiskveiðiráð
Flygmedicincentrum Flugheilsugæslustöð
Flygtekniska försöksanstalten Flugrannsóknastofnun
Folkhälsoinstitut,statens Lýðheilsustofnun ríkisins
Fonden för fukt- och mögelskador Sjóður til að bæta raka- og mygluskaða í smáhýsum í einkaeign
Forskningsrådet för miljö, areella näringar och samhällsbyggande, Formas Sænskt rannsóknarráð fyrir umhverfi, landbúnað og landnotkunarskipulag
Fortifikationsverket Stjórn innlendra varnarvirkja
Förlikningsmannaexpedition, statens Embætti ríkissáttasemjara
Försvarets forskningsanstalt Rannsóknarstofnun varnarmála
Försvarets materielverk Umsjón með búnaði til landvarna
Försvarets radioanstalt Fjarskiptamiðstöð landvarna
Försvarshistoriska museer, statens Sænsk hernaðarsöguleg söfn
Försvarshögskolan Landvarnaháskólinn
Försvarsmakten Sænski herinn
Försäkringskassorna (21) Almannatryggingastofnanir (21)
G
Gentekniknämnden Sænska genatækninefndin
Geologiska undersökning, Sveriges Jarðfræðirannsóknir Svíþjóðar
Geotekniska institut, statens Jarðtæknistofnun ríkisins
Giftinformationscentralen Upplýsingamiðstöð um eiturefni
Glesbygdsverket Stofnun fyrir þróun í dreifbýli
Grafiska institutet och institutet för högre kommunikation- och reklamutbildning Grafísk stofnun og framhaldsskóli í fjarskiptafræðum
Granskningsnämnden för radio och TV Útvarpsnefnd Svíþjóðar
Göteborgs universitet Háskólinn í Gautaborg
H
Handelsflottans kultur- och fritidsråd Menningar og frístundaráð sænska kaupskipaflotans
Handelsflottans pensionsanstalt Eftirlaunasjóður kaupskipaflotans
Handikappombudsmannen Umboðsmaður fatlaðra
Handikappråd, statens Ríkisráð fatlaðra
Haverikommission, statens Slysarannsóknarnefnd
Historiska museer, statens Sögu- og fornminjasöfn ríkisins
Hjälpmedelsinstitutet Hjálpartækjastofnun
Hovrätterna (6) Áfrýjunardómstólar (6)
Hyresnämnder (12) Svæðisbundnar leigunefndir (12)
Häktena (30) Gæsluvarðhaldshús (30)
Hälso- och sjukvårdens ansvarsnämnd Nefnd um læknisfræðilega ábyrgð
Högskolan Dalarna Háskólinn í Dölunum
Högskolan i Borås Háskólinn í Borås
Högskolan i Gävle Háskólinn í Gävle
Högskolan i Halmstad Háskólinn í Halmstad
Högskolan i Kalmar Háskólinn í Kalmar
Högskolan i Karlskrona/Ronneby Háskólinn í Karlskrona/Ronneby
Högskolan i Kristianstad Háskólinn í Kristianstad
Högskolan i Skövde Háskólinn í Skövde
Högskolan i Trollhättan/Uddevalla Háskólinn í Trollhättan/Uddevalla
Högskolan på Gotland Háskólinn á Gautlandi
Högskoleverket Stofnun um málefni háskóla
Högsta domstolen Hæstiréttur
I
Idrottshögskolan i Stockholm Íþróttaháskólinn í Stokkhólmi
Inspektionen för strategiska produkter Innlent eftirlit með hernaðarlegum framleiðsluvörum
Institut för byggnadsforskning, statens Byggingarannsóknarráð ríkisins
Institut för ekologisk hållbarhet, statens Ríkisstofnun um vistfræðilegt sjálfbæri
Institut för kommunikationsanalys, statens Ríkisstofnun um greiningu samgangna og fjarskipta
Institut för psykosocial miljömedicin, statens Ríkisstofnun um sálræna og félagsfræðilega heilbrigðisþætti
Institut för särskilt utbildningsstöd Stofnun fyrir sérstaka námsaðstoð
Institutet för arbetsmarknadspolitisk utvärdering Stofnun um mat á stefnumótun vinnumarkaðarins
Institutet för rymdfysik Ríkisstofnun um geimeðlisfræði
Institutionsstyrelse, Statens Stofnanaumsjá ríkisins
Insättnigsgarantinämnden Nefnd um tryggingarfé
Integrationsverket Sænska samþættingarráðið
Internationella adoptionsfrågor, Statens nämnd för Ríkisnefnd um ættleiðingar milli landa
Internationella programkontoret för utbildningsområdet Alþjóðleg menntunar- og þjálfunaráætlun
J
Jordbruksverk, statens Stjórn sænsks landbúnaðar
Justitiekanslern Embættisskrifstofa dómsmálaráðherra
Jämställdhetsombudsmannen Skrifstofa jafnréttisfulltrúa
K
Kammarkollegiet Stofnun fyrir lagamál, fjárhagsmál og stjórnsýslumál
Kammarrätterna (4) Áfrýjunardómstólar stjórnsýslu (4)
Karlstads universitet Háskólinn í Karlstad
Karolinska Institutet Karólínska stofnunin
Kemikalieinspektionen Innlent lyfjaeftirlit
Kommerskollegium Verslunarráð
Koncessionsnämnden för miljöskydd Sérleyfanefnd vegna umhverfisverndar
Konjunkturinstitutet Innlend stofnun um rannsóknir á efnahagsástandi
Konkurrensverket Sænsk samkeppnisyfirvöld
Konstfack Lista-, handverks- og hönnunarskóli
Konsthögskolan Listaháskólinn
Konstmuseer, statens Listasöfn ríkisins
Konstnärsnämnden Listastyrksnefnd
Konstråd, statens Listaráð ríkisins
Konsulat Ræðisskrifstofur
Konsumentverket Neytendastofnun
Kriminaltekniska laboratorium, statens Réttarrannsóknarstofa ríkisins
Kriminalvårdens regionkanslier (4) Svæðisskrifstofur fangelsisyfirvalda (4)
Kriminalvårdsanstalterna (35) Staðbundnar fangelsisstofnanir (35)
Kriminalvårdsstyrelsen Stjórn fangelsismála
Kristinaskolan Kristina-skólinn
Kronofogdemyndigheterna (10) Embætti fógeta (10)
Kulturråd, statens Menningarmálaráð ríkisins
Kungl. Biblioteket Konunglega bókasafnið
Kungl. Konsthögskolan Konunglegi listaháskólinn
Kungl. Musikhögskolan Konunglegi tónlistarháskólinn
Kungl. Tekniska högskolan Konunlegi tækniháskólinn
Kustbevakningen Sænska strandgæslan
Kvalitets- och kompetensråd, statens Gæða- og þróunarráð ríkisins
Kärnkraftinspektion, statens Kjarnorkueftirlit ríkisins
L
Lagrådet Lagaráðið
Lantbruksuniveritet, Sveriges Landbúnaðarháskóli Svíþjóðar
Lantmäteriverket Landmælingar ríkisins
Linköpings universitet Háskólinn í Linköping
Livrustkammaren, Skoklosters slott och Hallwylska museet Vopnabúr og -söfn konungdæmisins
Livsmedelsverk, statens Matvælastofnun ríkisins
Ljud- och bildarkiv, statens Hljóð- og myndbandasafn ríkisins
Lotteriinspektionen Happdrættiseftirlitið
Luftfartsverket Stjórn flugmála
Luleå tekniska universitet Tækniháskólinn í Luleå
Lunds universitet Háskólinn í Lundi
Läkemedelsverket Lyfjastofnun
Länsarbetsnämnderna (20) Vinnumarkaðsráð sýslnanna (20)
Länsrätterna (23) Stjórnsýsludómstólar sýslnanna (23)
Länsstyrelserna (21) Stjórnsýslunefndir sýslnanna (21)
Lärarhögskolan i Stockholm Kennaraháskólinn í Stokkhólmi
M
Malmö högskola Háskólinn í Malmö
Manillaskolan Manilla-skólinn – sérskóli fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta
Marknadsdomstolen Markaðsdómstóll
Medlingsinstitutet Skrifstofa ríkissáttasemjara
Meteorologiska och hydrologiska institut, Sveriges Veður- og vatnafræðistofnun Svíþjóðar
Migrationsverket Fólksflutninganefndin
Militärhögskolor Herskólar
Mitthögskolan Háskóli Mið-Svíþjóðar
Moderna museet Nýlistasafnið
Museer för världskultur, statens Ríkissöfn um alþjóðamenningu
Musiksamlingar, statens Tónlistarsafn Svíþjóðar
Myndigheten för kvalificerad yrkesutbildning Yfirvöld æðri starfsmenntunar
Myndigheten för Sveriges nätuniversitet Sænsk stofnun um fjarnám
Mälardalens högskola Háskólinn í Mälardal
N
Nationalmuseum Listasafn ríkisins
Nationellt centrum för flexibelt lärande Innlend miðstöð um sveigjanlegt nám
Naturhistoriska riksmuseet Náttúrusögusafn ríkisins
Naturvårdsverket Umhverfisverndarstofnun Svíþjóðar
Nordiska Afrikainstitutet Stofnun um Norður-Afríku
Notarienämnden Nefnd lögbókenda
Nämnden för offentlig upphandling Nefnd um opinber innkaup
O
Ombudsmannen mot diskriminering på grundav sexuell läggning Embætti umboðsmanns gegn kynjamismunun
Ombudsmannen mot etnisk diskriminering Skrifstofa umboðsmanns gegn mismunun á grundvelli þjóðernis
Operahögskolan i Stockholm Óperuháskólinn í Stokkhólmi
P
Patent- och registreringsverket Einkaleyfa- og skráningarstofan
Patentbesvärsrätten Áfrýjunardómstóll einkaleyfa
Pensionsverk, statens Eftirlaunanefnd opinberra starfsmanna
Person- och adressregisternämnd, statens Samræmd þjóðskrá
Pliktverk, Totalförsvarets Herskylda, landvarnir
Polarforskningssekretariatet Skrifstofa heimskautarannsókna
Polismyndigheter (21) Lögregluyfirvöld (21)
Post- och telestyrelsen Póst- og fjarskiptastofnun ríkisins
Premiepensionsmyndigheten Yfirvald einkalífeyrissparnaðar
Presstödsnämnden Fjölmiðlastyrkjaráð
R
Radio- och TV-verket Yfirvöld hljóðvarps og sjónvarps
Regeringskansliet Ríkisstjórnarskrifstofur
Regeringsrätten Æðsti stjórnsýsludómstóll
Revisorsnämnden Eftirlitsnefnd endurskoðenda
Riksantikvarieämbetet Miðstöð innlendra fornmenja
Riksarkivet Ríkisskjalasafn
Riksbanken Ríkisbanki Svíþjóðar
Riksdagens förvaltningskontor Stjórnarstofa ríkisstjónarinnar
Riksdagens ombudsmän Umboðsmenn þingsins
Riksdagens revisorer Endurskoðendur þingsins
Riksförsäkringsverket Almannatryggingaráð
Riksgäldskontoret Skrifstofa ríkisskulda
Rikspolisstyrelsen Stjórn ríkislögreglunnar
Riksrevisionsverket Ríkisendurskoðun
Riksskatteverket Embætti ríkisskattstjóra
Rikstrafiken Umferðarstofa
Riksutställningar, Stiftelsen Stofnun sýninga á vegum ríkisins
Riksåklagaren Ríkissaksóknari
Rymdstyrelsen Stjórn geimvísinda
Råd för byggnadsforskning, statens Byggingarannsóknarráð ríkisins
Rådet för grundläggande högskoleutbildning Nefnd um grundvallarháskólamenntun
Räddningsverk, statens Björgunarstofnun ríkisins
Rättshjälpsmyndigheten Yfirvöld réttaraðstoðar
Rättsmedicinalverket Innlend stofnun um réttarlæknisfræði
S
Sameskolstyrelsen och sameskolor Skólanefndir og skólar fyrir Sama
Sametinget Þing Sama
Sjöfartsverket Siglingamálayfirvöld Svía
Sjöhistoriska museer, statens Siglingasögusöfn ríkisins
Skattemyndigheterna (10) Skattstofur (10)
Skogsstyrelsen Skógarnytjaráð
Skolverk, statens Ríkisstofnun skólamála
Smittskyddsinstitutet Smitvarnir ríkisins
Socialstyrelsen Heilbrigðis- og félagsmálastofnun
Specialpedagogiska institutet Sérkennslustofnunin
Specialskolemyndigheten Sérskólar fyrir heyrnarlausa og heyrnarskerta
Språk- och folkminnesinstitutet Stofnun um málrannsóknir og rannsóknir á þjóðlegum fróðleik
Sprängämnesinspektionen Eftirlitsstofnun með sprengiefni
Statens personregisternämnd, SPAR-nämnden Ríkisskráning lögheimila
Statistiska centralbyrån Sænska hagstofan
Statskontoret Ríkisskrifstofa almennrar umsýslu
Stockholms universitet Háskólinn í Stokkhólmi
Strålskyddsinstitut, statens Geislavarnir ríkisins
Styrelsen för ackreditering och teknisk kontroll Faggildingar- og samræmismatsnefnd
Styrelsen för internationell utvecklings- samarbete, SIDA Stjórn alþjóðlegrar þróunarsamvinnu
Styrelsen för psykologiskt försvar Nefnd um sálfræðilegar varnir
Svenska institutet Sænska stofnunin
Säkerhetspolisen Sænska öryggislögreglan
Södertörns högskola Háskóli Suður-Stokkhólms
T
Talboks- och punktskriftsbiblioteket Hljóðbóka- og blindraletursbókasafnið
Teaterhögskolan Leiklistarháskólinn
Tekniska museet, stiftelsen Vísinda- og tæknisafnið
Tingsrätterna (72) Dómþingsdómstólar (72)
Tjänsteförslagsnämnden för domstolsväsendet Nefnd um tilnefningar dómara
Totalförsvarets forskningsinstitut Rannsóknarstofnun varnarmála
Transportforskningsberedningen Samgöngurannsóknanefnd
Transportrådet Samgönguráðið
Tullverket Tollyfirvöld
Turistdelegationen Ferðamálayfirvöld
U
Umeå universitet Háskólinn í Umeå
Ungdomsstyrelsen Nefnd um málefni ungmenna
Uppsala universitet Háskólinn í Uppsala
Utlänningsnämnden Nefnd um aðstoð við útlendinga
Utsädeskontroll, statens Ríkisstofnun fyrir prófun og vottun útsæðis
V
Valmyndigheten Kosningayfirvöld
Vatten- och avloppsnämnd, statens Nefnd um vatnsveitu og fráveitu
Vattenöverdomstolen Yfirdómstóll vatnsréttinda
Verket för högskoleservice (VHS) Stofnun um háskólaþjónustu
Verket för innovationssystem (VINNOVA) Nýsköpunarstofnun
Verket för näringslivsutveckling (NUTEK) Atvinnuþróunarstofnun
Vetenskapsrådet Rannsóknarráð Svíþjóðar
Veterinärmedicinska anstalt, statens Dýralækningastofnunin
Vägverket Stjórn vegamála í Svíþjóð
Vänerskolan Väner-skólinn
Växjö universitet Háskólinn í Växjö
Växtsortnämnd, statens Plöntuyrkjanefnd ríkisins
Å
Åklagarmyndigheterna Svæðisbundnar skrifstofur ríkissaksóknara (6)
Åsbackaskolan Åsbacka-skólinn
Ö
Örebro universitet Háskólinn í Örebro
Östervångsskolan Östervång-skólinn
Överbefälhavaren Yfirforingi hersins
Överstyrelsen för civil beredskap Yfirstjórn neyðaráætlana

BRESKA KONUNGSRÍKIÐ

—    Cabinet Office
        Civil Service College
        Office of the Parliamentary Counsel
—    Central Office of Information
—    Charity Commission
—    Crown Prosecution Service
—    Crown Estate Commissioners (Vote Expenditure Only)
—    HM Customs and Excise
—    Department for Culture, Media and Sport
        British Library
        British Museum
        Historic Buildings and Monuments Commission for England (English Heritage)
        Imperial War Museum
        Museums and Galleries Commission
        National Gallery
        National Maritime Museum
        National Portrait Gallery
        Natural History Museum
        Royal Commission on Historical Manuscripts
        Royal Commission on Historical Monuments of England
        Royal Fine Art Commission (England)
        Science Museum
        Tate Gallery
        Victoria and Albert Museum
        Wallace Collection
—    Department for Education and Skills
        Higher Education Funding Council for England
—    Department for Environment, Food and Rural Affairs
        Agricultural Dwelling House Advisory Committees
        Agricultural Land Tribunals
        Agricultural Wages Board and Committees
        Cattle Breeding Centre
        Countryside Agency
        Plant Variety Rights Office
        Royal Botanic Gardens, Kew
        Royal Commission on Environmental Pollution
—    Department of Health
        Central Council for Education and Training in Social Work
        Dental Practice Board
        National Board for Nursing, Midwifery and Health Visiting for England
        National Health Service Strategic Health Authorities and Trusts
        Prescription Pricing Authority
        Public Health Service Laboratory Board
        UK Central Council for Nursing, Midwifery and Health Visiting
—    Department for International Development
—    Department for National Savings
—    Department for Transport
        Maritime and Coastguard Agency
—    Department for Work and Pensions
        Disability Living Allowance Advisory Board
        Independent Tribunal Service
        Medical Boards and Examining Medical Officers (War Pensions)
        Occupational Pensions Regulatory Authority
        Regional Medical Service
        Social Security Advisory Committee
—    Department of the Procurator General and Treasury Solicitor
        Legal Secretariat to the Law Officers
—    Department of Trade and Industry
        Central Transport Consultative Committees
        Competition Commission
        Electricity Committees
        Employment Appeal Tribunal
        Employment Tribunals
        Gas Consumers' Council
        National Weights and Measures Laboratory
        Office of Manpower Economics
        Patent Office
—    Export Credits Guarantee Department
—    Foreign and Commonwealth Office
        Wilton Park Conference Centre
—    Government Actuary's Department
—    Government Communications Headquarters
—    Home Office
        Boundary Commission for England
        Gaming Board for Great Britain
        Inspectors of Constabulary
        Parole Board and Local Review Committees
—    House of Commons
—    House of Lords
—    Inland Revenue, Board of
—    Lord Chancellor's Department
        Circuit Offices and Crown, County and Combined Courts (England and Wales)
        Combined Tax Tribunal
        Council on Tribunals
        Court of Appeal — Criminal
        Immigration Appellate Authorities
        Immigration Adjudicators
        Immigration Appeals Tribunal
        Lands Tribunal
        Law Commission
        Legal Aid Fund (England and Wales)
        Office of the Social Security Commissioners
        Pensions Appeal Tribunals
        Public Trust Office
        Supreme Court Group (England and Wales)
        Transport Tribunal
—    Ministry of Defence
        Meteorological Office
        Defence Procurement Agency
—    National Assembly for Wales
        Higher Education Funding Council for Wales
        Local Government Boundary Commission for Wales
        Royal Commission for Ancient and Historical Monuments in Wales
        Valuation Tribunals (Wales)
        Welsh National Health Service Authorities and Trusts
        Welsh Rent Assessment Panels
        Welsh National Board for Nursing, Midwifery and Health Visiting
—    National Audit Office
—    National Investment and Loans Office
—    Northern Ireland Assembly Commission
—    Northern Ireland Court Service
        Coroners Courts
        County Courts
        Court of Appeal and High Court of Justice in Northern Ireland
        Crown Court
        Enforcement of Judgements Office
        Legal Aid Fund
        Magistrates Courts
        Pensions Appeals Tribunals
—    Northern Ireland, Department for Employment and Learning
—    Northern Ireland, Department for Regional Development
—    Northern Ireland, Department for Social Development
—    Northern Ireland, Department of Agriculture and Rural Development
—    Northern Ireland, Department of Culture, Arts and Leisure
—    Northern Ireland, Department of Education
—    Northern Ireland, Department of Enterprise, Trade and Investment
—    Northern Ireland, Department of the Environment
—    Northern Ireland, Department of Finance and Personnel
—    Northern Ireland, Department of Health, Social Services and Public Safety
—    Northern Ireland, Department of Higher and Further Education, Training and Employment
—    Northern Ireland, Office of the First Minister and Deputy First Minister
—    Northern Ireland Office
        Crown Solicitor's Office
        Department of the Director of Public Prosecutions for Northern Ireland
        Forensic Science Agency of Northern Ireland
        Office of Chief Electoral Officer for Northern Ireland
        Police Service of Northern Ireland
        Probation Board for Northern Ireland
        State Pathologist Service
—    Office of Fair Trading
—    Office for National Statistics
        National Health Service Central Register
        Office of the Parliamentary Commissioner for Administration and Health Service Commissioners
—    Office of the Deputy Prime Minister
        Rent Assessment Panels
—    Paymaster General's Office
—    Postal Business of the Post Office
—    Privy Council Office
—    Public Record Office
—    Royal Commission on Historical Manuscripts
—    Royal Hospital, Chelsea
—    Royal Mint
—    Rural Payments Agency
—    Scotland, Auditor-General
—    Scotland, Crown Office and Procurator Fiscal Service
—    Scotland, General Register Office
—    Scotland, Queen's and Lord Treasurer's Remembrancer
—    Scotland, Registers of Scotland
—    The Scotland Office
—    The Scottish Executive Corporate Services
—    The Scottish Executive Education Department
        National Galleries of Scotland
        National Library of Scotland
        National Museums of Scotland
        Scottish Higher Education Funding Council
—    The Scottish Executive Development Department
—    The Scottish Executive Enterprise and Lifelong Learning Department
—    The Scottish Executive Finance
—    The Scottish Executive Health Department
        Local Health Councils
        National Board for Nursing, Midwifery and Health Visiting for Scotland
        Scottish Council for Postgraduate Medical Education
        Scottish National Health Service Authorities and Trusts
—    The Scottish Executive Justice Department
        Accountant of Court's Office
        High Court of Justiciary
        Court of Session
        HM Inspectorate of Constabulary
        Lands Tribunal for Scotland
        Parole Board for Scotland and Local Review Committees
        Pensions Appeal Tribunals
        Scottish Land Court
        Scottish Law Commission
        Sheriff Courts
        Scottish Criminal Record Office
        Scottish Crime Squad
        Scottish Fire Service Training Squad
        Scottish Police College
        Social Security Commissioners' Office
—    The Scottish Executive Rural Affairs Department
        Crofters Commission
        Red Deer Commission
        Rent Assessment Panel and Committees
        Royal Botanic Garden, Edinburgh
        Royal Commission on the Ancient and Historical Monuments of Scotland
        Royal Fine Art Commission for Scotland
—    The Scottish Executive Secretariat
—    The Scottish Parliamentary Body Corporate
—    Scottish Record Office
—    HM Treasury
—    Office of Government Commerce
—    The Wales Office (Office of the Secretary of State for Wales)

V. VIÐAUKI
SKRÁ YFIR VÖRUR SEM UM GETUR Í 7. GR., MEÐ TILLITI TIL SAMNINGA SEM SAMNINGSYFIRVÖLD GERA Á SVIÐI VARNARMÁLA ( 1 )

25. kafli: Salt, brennisteinn, mold og steintegundir, gipsefni, kalk og sement
26. kafli: Málmgrýti, gjall og aska
27. kafli: Eldsneyti úr steinaríkinu, jarðolíur og efni eimd úr þeim, jarðbiksefni, jarðvax
þó ekki:
úr 27.10: tiltekið vélaeldsneyti
28. kafli: Ólífræn efni, lífræn eða ólífræn sambönd góðmálma, sjaldgæfra jarðmálma, geislavirkra frumefna og samsætna
þó ekki:
úr 28.09: sprengiefni
úr 28.13: sprengiefni
úr 28.14: táragas
úr 28.28: sprengiefni
úr 28.32: sprengiefni
úr 28.39: sprengiefni
úr 28.50: eiturefni
úr 28.51: eiturefni
úr 28.54: sprengiefni
29. kafli: Lífræn efni
þó ekki:
úr 29.03: sprengiefni
úr 29.04: sprengiefni
úr 29.07: sprengiefni
úr 29.08: sprengiefni
úr 29.11: sprengiefni
úr 29.12: sprengiefni
úr 29.13: eiturefni
úr 29.14: eiturefni
úr 29.15: eiturefni
úr 29.21: eiturefni
úr 29.22: eiturefni
úr 29.23: eiturefni
úr 29.26: sprengiefni
úr 29.27: eiturefni
úr 29.29: sprengiefni
30. kafli: Vörur til lækninga
31. kafli: Áburður
32. kafli: Sútunar- eða litakjarnar; tannín og afleiður þeirra; leysilitir, dreifulitir og önnur litarefni; málning og lökk; kítti og önnur þéttiefni; blek
33. kafli: Rokgjarnar olíur og resinóíð; ilmvörur, snyrtivörur eða hreinlætisvörur
34. kafli: Sápa, lífræn yfirborðsvirk efni, þvottaefni, smurefni, gervivax, unnið vax, fægi- eða ræstiefni, kerti og áþekkar vörur, mótunarefni og „tannvax“
35. kafli: Albúmínkennd efni, lím, ensím
37. kafli: Ljósmynda- og kvikmyndavörur
38. kafli: Ýmsar kemískar vörur
þó ekki:
úr 38.19: eiturefni
39. kafli: Plast og vörur úr því,
þó ekki:
úr 39.03: sprengiefni
40. kafli: Gúmmí og vörur úr því
þó ekki:
úr 40.11: skotheldir hjólbarðar
41. kafli: Óunnar húðir og skinn (þó ekki loðskinn) og leður
42. kafli: Vörur úr leðri; reiðtygi og aktygi; ferðabúnaður, handtöskur og áþekkar hirslur; vörur úr dýraþörmum (þó ekki silkiormaþörmum)
43. kafli: Loðskinn og loðskinnsgervi, framleiðsla úr þeim
44. kafli: Viður og vörur úr viði, viðarkol
45. kafli: Korkur og vörur úr korki
46. kafli: Framleiðsla úr strái, espartó eða öðrum fléttiefnum; körfugerðarvörur og tágasmíði
47. kafli: Efni til pappírsgerðar
48. kafli: Pappír og pappi, vörur úr pappírsdeigi, pappír eða pappa
49. kafli: Prentaðar bækur, blöð, myndir og aðrar vörur prentiðnaðar, handrit, vélrit og uppdrættir
65. kafli: Höfuðfatnaður og hlutar til hans
66. kafli: Regnhlífar, sólhlífar, göngustafir, setustafir, svipur, keyri og hlutar til þeirra
67. kafli: Unnar fjaðrir og dúnn og vörur úr fjöðrum eða dún, gerviblóm, vörur úr mannshári
68. kafli: Vörur úr steini, gipsefni, sementi, asbesti, gljásteini eða öðrum áþekkum efnum
69. kafli: Leirvörur
70. kafli: Gler og glervörur
71. kafli: Náttúrlegar eða ræktaðar perlur, eðalsteinar eða hálfeðalsteinar, góðmálmar, málmar klæddir góðmálmi og vörur úr þessum efnum, glysvarningur
73. kafli: Járn og stál og vörur úr því
74. kafli: Kopar og vörur úr honum
75. kafli: Nikkill og vörur úr honum
76. kafli: Ál og vörur úr því
77. kafli: Magnesíum og beryllíum og vörur úr því
78. kafli: Blý og vörur úr því
79. kafli: Sink og vörur úr því
80. kafli: Tin og vörur úr því
81. kafli: Aðrir ódýrir málmar notaðir í málmvinnslu og vörur úr þeim
82. kafli: Verkfæri, áhöld, eggjárn, skeiðar og gafflar, úr ódýrum málmi; hlutar til þeirra
þó ekki:
úr 82.05: handverkfæri
úr 82.07: verkfæri, hlutar
83. kafli: Ýmsar vörur úr ódýrum málmi
84. kafli: Katlar, vélbúnaður og vélræn tæki; hlutar til þeirra
þó ekki:
úr 84.06: hreyflar
úr 84.08: aðrir hreyflar
úr 84.45: vélbúnaður
úr 84.53: sjálfvirkar gagnavinnsluvélar
úr 84.55: hlutar vélbúnaðar í 84.53
úr 84.59: kjarnakljúfar
85. kafli: Rafbúnaður og -tæki og hlutar til þeirra
þó ekki:
úr 85.13: fjarskiptabúnaður
úr 85.15: senditæki
86. kafli: Eimreiðar, vagnar og hlutar til þeirra fyrir járnbrautir eða sporbrautir; sporbúnaður og tengihlutar fyrir járnbrautir eða sporbrautir og hlutar til þeirra; hvers konar umferðamerkjabúnaður (þó ekki rafknúinn)
þó ekki:
úr 86.02: brynvarðar eimreiðar, rafknúnar
úr 86.03: aðrar brynvarðar eimreiðar
úr 86.05: brynvarðir vagnar
úr 86.06: viðgerðarvagnar
úr 86.07: vagnar
87. kafli: Ökutæki, þó ekki járnbrautar- eða sporbrautarvagnar, og hlutar til þeirra
þó ekki:
úr 87.08: skriðdrekar og önnur brynvarin ökutæki
ex 87.01: dráttarbifreiðar
úr 87.02: hernaðarökutæki
úr 87.03: gálgabifreiðar
ex 87.09: bifhjól
úr 87.14: tengivagnar
89. kafli: Skip, bátar og fljótandi mannvirki,
þó ekki:
úr 89.01A: herskip
90. kafli: Áhöld og tækjabúnaður til optískra nota, ljósmyndunar, kvikmyndunar, mælinga, prófunar, nákvæmnivinnu, lyflækninga eða skurðlækninga; hlutar til þeirra
þó ekki:
ex 90.05: sjónaukar
úr 90.13: ýmis tæki, leysitæki
ex 90.14: fjarmælar
úr 90.28: rafmagns- og rafeindamælitæki
úr 90.11: smásjár
úr 90.17: lækningatæki
úr 90.18: tæki til mekanóterapí
úr 90.19: búnaður til réttilækninga
úr 90.20: röntgentæki
91. kafli: Úra- og klukkusmíði
92. kafli: Hljóðfæri, hljóðupptöku- og hljóðflutningstæki; mynda- og hljóðupptökutæki og mynda- og hljóðflutningstæki fyrir sjónvarp, hlutar og fylgihlutir til þess konar vara
94. kafli: Húsgögn og hlutar til þeirra; sængurfarnaður, dýnur, rúmbotnar, púðar og áþekkur stoppaður húsbúnaður
þó ekki:
úr 94.01A: flugvélasæti
95. kafli: Hlutir og framleiðsla úr útskurðar- eða mótunarefnum
96. kafli: Sópar, burstar, duftpúðar og hársíur
98. kafli: Ýmsar framleiðsluvörur

VI. VIÐAUKI
SKILGREINING TILTEKINNA TÆKNIFORSKRIFTA

    Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1.     a)    „Tækniforskrift“, þegar um er að ræða opinbera verksamninga: öll tæknileg fyrirmæli, sem einkum skulu tekin fram í útboðsgögnum, þar sem skilgreindir eru tilskildir eiginleikar efnis, vöru eða aðfanga sem gera það kleift að lýsa efninu, vörunni eða aðföngunum á þann hátt að svari til þeirrar notkunar sem samningsyfirvöld hafa fyrirhugað. Þessir eiginleikar skulu taka til tiltekins vistvænleika, hönnunar sem uppfyllir allar kröfur (þ.m.t. aðgengi fyrir fatlaða) og samræmismats, nothæfis, öryggis eða umfangs, þ.m.t. aðferðir við gæðatryggingu, hugtök, tákn, prófanir og prófunaraðferðir, pökkun, merking og áletranir, framleiðsluferli og -aðferðir. Þeir skulu einnig taka til reglna um hönnun og kostnaðaráætlanir, skilyrði varðandi prófun, eftirlit og samþykki verka og aðferða eða byggingartækni ásamt öllum öðrum tæknilegum skilyrðum sem samningsyfirvaldið getur sett samkvæmt almennum eða sérstökum reglum um verk sem er að fullu lokið og efni og hluta sem til þess teljast,
    b)    „tækniforskrift“, þegar um er að ræða opinbera vöru- eða þjónustusamninga: forskrift í skjali þar sem skilgreindir eru tilskildir eiginleikar vöru eða þjónustu, s.s. tiltekin gæði og vistvænleiki, hönnun sem uppfyllir allar kröfur (þ.m.t. aðgengi fyrir fatlaða) og samræmismat, nothæfi, notkun vörunnar, öryggi eða umfang, þ.m.t. kröfur varðandi viðskiptaheiti, hugtök, tákn, prófanir og prófunaraðferðir, pökkun, merkingu og áletranir, notendaleiðbeiningar, framleiðsluferli og -aðferðir og aðferðir við samræmismat.
2.    „Staðall“: tækniforskrift sem er samþykkt af staðlastofnun til endurtekinnar eða stöðugrar notkunar, án þess að skylt sé að fylgja henni, og sem fellur undir eftirtalda flokka:
    —    alþjóðlegur staðall: staðall sem er aðlagaður af alþjóðlegri staðlastofnun og gerður aðgengilegur almenningi,
    —    Evrópustaðall: staðall sem er samþykktur af evrópskri staðlastofnun og gerður aðgengilegur almenningi,
    —    landsstaðall: staðall sem er samþykktur af innlendri staðlastofnun og gerður aðgengilegur almenningi.
3.    „Evrópskt tæknisamþykki“: jákvætt, tæknilegt mat á nothæfi vöru í ákveðnum tilgangi, gefið á grundvelli þess að innbyggðir eiginleikar vörunnar og skilgreind skilyrði um nýtingu og notkun uppfylli grunnkröfur um byggingarframkvæmdir. Evrópskt tæknisamþykki skal gefið út af samþykktaraðila sem aðildarríkið tilnefnir.
4.    „Sameiginleg tækniforskrift“: tækniforskrift sem mælt er fyrir um í samræmi við málsmeðferð sem aðildarríkin viðurkenna og hefur verið birt í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.
5.    „Tækniviðmiðun“: hvers konar framleiðsla evrópskra staðlastofnana, annað en opinberir staðlar, í samræmi við reglur sem settar eru vegna þróunar á markaðsþörfum.

VII. VIÐAUKI
UPPLÝSINGAR SEM EIGA AÐ KOMA FRAM Í TILKYNNINGUM


VII. VIÐAUKI A
UPPLÝSINGAR SEM EIGA AÐ KOMA FRAM Í TILKYNNINGUM UM OPINBER ÚTBOÐ

TILKYNNING UM BIRTINGU KYNNINGARTILKYNNINGAR Í UPPLÝSINGASKRÁ KAUPANDA
1.     Heimaland samningsyfirvalds.
2.     Heiti samningsyfirvalds.
3.     Netfang „upplýsingaskrár kaupanda“ (URL).
4.     CPV-tilvísunarnúmer flokkunarkerfis.
KYNNINGARTILKYNNING
1.    Nafn, heimilisfang, bréfasímanúmer og tölvupóstfang samningsyfirvalds og, ef ástæða er til, samsvarandi upplýsingar um þjónustu þar sem hægt er að fá viðbótarupplýsingar og, þegar um er að ræða þjónustu- og verksamninga, um þjónustu, t.d. heimasíðu viðkomandi stjórnvalds, þar sem hægt er að fá upplýsingar um regluverk fyrir skatta, umhverfisvernd, vinnuvernd og vinnuaðstæður sem gildir á staðnum þar sem samningurinn kemur til framkvæmda.
2.    Ef við á skal tilgreina hvort opinberi samningurinn sé bundinn við verndaða vinnustaði eða hvort framkvæmd hans takmarkist við áætlanir um verndaða vinnu.
3.    Þegar um er að ræða opinbera verksamninga: hvers eðlis verkið er og umfang þess og staðinn þar sem það er unnið, helstu eiginleika verkhluta miðað við verkið allt ef skipta á verkinu, áætlað kostnaðarbil fyrirhugaðra verka, ef það liggur fyrir, og tilvísunarnúmer flokkunarkerfis.
    Ef um er að ræða opinbera vörusamninga: eðli og magn eða verðmæti vörunnar sem á að afhenda, og tilvísunarnúmer flokkunarkerfis.
    Þegar um er að ræða opinbera þjónustusamninga: heildarfjárhæð fyrirhugaðra kaupa í hverjum og einum þjónustuflokki í II. viðauka A og tilvísunarnúmer flokkunarkerfis.
4.    Áætluð dagsetning dagsins þegar útboðsferli samnings eða samninga hefst þegar um er að ræða opinbera þjónustusamninga samkvæmt flokkun.
5.    Ef við á skal tilgreina hvort rammasamningur hafi verið gerður.
6.    Aðrar upplýsingar ef við á.
7.    Sendingardagur kynningartilkynningar eða sendingardagur tilkynningar um birtingu hennar í upplýsingaskrá kaupanda.
8.    Tilgreina skal hvort samningurinn fellur undir samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
ÚTBOÐSTILKYNNING
Almennt útboð og lokað útboð, samkeppnisviðræður, samningskaup:
1.    Nafn, heimilisfang, síma- og bréfasímanúmer og tölvupóstfang samningsyfirvalda.
2.    Ef við á skal tilgreina hvort opinberi samningurinn er bundinn við verndaða vinnustaði eða hvort framkvæmd hans takmarkast við áætlanir um verndaða vinnu.
3.     a)    Útboðsferli sem valið er,
    b)    ef við á, ástæðurnar fyrir notkun hraðútboðs (í lokuðu útboði og samningskaupum),
    c)    ef við á skal tilgreina hvort rammasamningur hafi verið gerður,
    d)    ef virkt, rafrænt innkaupakerfi er notað skal geta um það,
    e)    ef við á skal geta um rafrænt uppboð (þegar um er að ræða almennt útboð, lokað útboð eða samningskaup við aðstæður sem um getur í a-lið 1. mgr. 30. gr.).
4.     Form samningsins.
5.     Framkvæmda- eða vinnslustaður verksins eða afhendingarstaður vöru eða þjónustu.
6.     a)    Opinberir verksamningar:
        —    eðli og umfang verksins og almenn lýsing á starfseminni. Einkum skal tilgreina valkosti um viðbótarverk og, ef unnt er, tímatöflu til bráðabirgða um nýtingu þessara kosta og einnig hve oft má endurnýja samninginn ef um það er að ræða. Ef verkinu eða samningnum er skipt í nokkra verkhluta skal tilgreina stærð hinna ýmsu verkhluta og tilvísunarnúmer flokkunarkerfis,
        —    upplýsingar um tilganginn með verkinu eða samningnum þegar áætlanagerð er innifalin í samningnum,
        —    sé um að ræða rammasamning skal tilgreina áætlaðan gildistíma rammasamningsins, mat á heildarfjárhæð verksins á öllum gildistíma rammasamningsins og, ef unnt er, verðmæti og tíðni þeirra samninga sem á að gera.
    b)    Opinberir vörusamningar:
        —    eðli vörunnar sem á að afhenda og skal einkum tilgreina hvort leitað er eftir tilboðum um kaup, langtímaleigu, skammtímaleigu eða kaupleigu eða sambland af þessu, svo og tilvísunarnúmer flokkunarkerfis. Magn vörunnar sem á að afhenda og skal einkum tilgreina valkosti um viðbótarkaup og, ef unnt er, tímatöflu til bráðabirgða fyrir nýtingu þessara kosta og einnig hve oft má endurnýja samninginn ef um það er að ræða. Tilvísunarnúmer flokkunarkerfis,
        —    sé um að ræða tímasetta eða endurnýjanlega samninga á tilteknu tímabili skal einnig tilgreina, ef unnt er, tímatöflu fyrir síðari samninga um kaup á viðkomandi vöru,
        —    sé um að ræða rammasamning skal tilgreina áætlaðan gildistíma rammasamningsins, mat á heildarverðmæti vörunnar á öllum gildistíma rammasamningsins og, ef unnt er, verðmæti og tíðni þeirra samninga sem á að gera.
    c)    Opinberir þjónustusamningar:
        —    flokkur þjónustunnar og lýsing á henni. Tilvísunarnúmer flokkunarkerfis. Umfang þjónustunnar sem á að veita. Einkum skal tilgreina valkosti um kaup á viðbótarþjónustu og, ef unnt er, tímatöflu til bráðabirgða um nýtingu þessara kosta og einnig hve oft má endurnýja samninginn ef um það er að ræða. Sé um að ræða endurnýjanlega samninga á tilteknu tímabili skal tilgreina áætlaðan tímaramma, ef unnt er, fyrir síðari opinbera samninga um kaup á viðkomandi þjónustu,
        —    sé um að ræða rammasamning skal tilgreina áætlaðan gildistíma rammasamningsins, mat á heildarfjárhæð þjónustunnar á öllum gildistíma rammasamningsins og, ef unnt er, verðmæti og tíðni þeirra samninga sem á að gera,
        —    tilgreina skal hvort framkvæmd þjónustunnar er bundin við sérstaka starfsgrein í lögum eða stjórnsýslufyrirmælum,
            tilvísun í lög og stjórnsýslufyrirmæli,
        —    tilgreina skal hvort lögaðilar skuli gefa upp nöfn og starfsmenntun og hæfi þeirra starfsmanna sem annast framkvæmd þjónustunnar.
7.    Sé samningum skipt í nokkra hluta skal geta um það hvort unnt er að bjóða í einn hluta, nokkra af hlutunum eða þá alla.
8.    Frestur til að ljúka verksamningi, vörusamningi eða þjónustusamningi eða til hve langs tíma slíkur samningur er gerður; ef unnt er skal einnig tilgreina tímamörkin þegar verk á að hefjast og þegar afhending vöru eða þjónustu á að hefjast.
9.    Samþykki eða bann við frávikstilboðum.
10.    Sé framkvæmd samningsins sérstökum skilyrðum háð skal tilgreina það ef unnt er.
11.    Almenn útboð:
    a)    nafn, heimilisfang, síma- og bréfasímanúmer og tölvupóstfang þjónustunnar þar sem hægt er að leggja fram beiðni um útboðsgögn og viðbótargögn,
    b)    ef við á, frestur til að leggja fram slíka beiðni,
    c)    ef við á, verð og greiðsluskilmálar vegna slíkra gagna.
12.     a)    Skilafrestur tilboða eða kynningarboða þar sem virkt innkaupakerfi er notað (almenn útboð),
    b)    skilafrestur þátttökutilkynningar (lokað útboð og samningskaup),
    c)    heimilisfang sem senda á þessar upplýsingar til,
    d)    tungumál, eitt eða fleiri, sem þær skulu ritaðar á.
13.     Almenn útboð:
    a)    einstaklingar sem hafa heimild til að vera viðstaddir opnun tilboða,
    b)    dagsetning, staður og stund fyrir slíka opnun.
14.    Ef við á, tryggingarfé og aðrar ábyrgðir sem krafist er.
15.    Helstu skilmálar varðandi fjármögnun og greiðslur og/eða tilvísanir í texta þar sem þetta er að finna.
16.    Eftir því sem við á, hvaða rekstrarform að lögum sá hópur rekstraraðila, sem gera á samning við, skal hafa.
17.    Valforsendur varðandi persónulega stöðu rekstraraðila, sem geta valdið því að þeir verði útilokaðir, og umbeðnar upplýsingar sem sanna að þeir falli ekki undir tilvik sem réttlæta útilokun. Valforsendur og upplýsingar varðandi persónulega stöðu rekstraraðila, upplýsingar og öll, nauðsynleg formsatriði vegna mats á þeirri efnahagslegu og tæknilegu stöðu rekstraraðila sem krafist er. Hugsanlega eru gerðar sérstakar lágmarkskröfur.
18.    Sé um að rammasamning að ræða: fjöldi og, ef við á, fyrirhugaður hámarksfjöldi rekstraraðila, sem geta orðið aðilar að rammasamningnum, gildistími hans og, ef við á, ástæður fyrir lengri gildistíma en fjórum árum.
19.    Sé um að ræða samkeppnisviðræður eða samningskaup að undangenginni birtingu útboðstilkynningar skal tilgreina, ef við á, hvort ferlið fer fram í áföngum með það fyrir augum að fækka smám saman lausnum sem verða ræddar eða tilboðum sem samið verður um.
20.    Þegar um er að ræða lokað útboð, samkeppnisviðræður eða samningskaup að undangenginni birtingu útboðstilkynningar og sá kostur tekinn að takmarka þann fjölda aðila sem boðið er að gera tilboð eða taka þátt í viðræðum eða gera samning: lágmarksfjöldi og, ef við á, fyrirhugaður hámarksfjöldi þátttakenda og hlutlægar viðmiðanir sem nota á við að velja þann fjölda.
21.    Gildistími tilboðs (almenn útboð).
22.    Eftir því sem við á, nöfn og heimilisföng rekstraraðila sem samningsyfirvöld hafa þegar valið (samningskaup).
23.    Forsendur sem um getur í 53. gr. og nota á þegar valið er úr tilboðun: „lægsta verð“ eða „fjárhagslega hagkvæmasta tilboðið“. Tilgreina skal forsendur fyrir fjárhagslega hagkvæmasta tilboði ásamt vægi þeirra ef þær koma ekki fram í útboðskilmálum eða, þegar um er að ræða samkeppnisviðræður, í skýringargögnum.
24.    Nafn og heimilisfang aðilans sem sér um meðferð kærumála og, ef við á, sáttameðferð. Nákvæmar upplýsingar um það hvenær leggja má fram kæru í síðasta lagi eða, ef þörf krefur, nafn heimilisfang, símanúmer, bréfasímanúmer og tölvupóstfang þjónustunnar sem veitir þessar upplýsingar.
25.    Birtingardagur eða -dagar kynningartilkynningar, í samræmi við tækniforskriftirnar um birtingu sem getið er í VIII. viðauka, eða yfirlýsing um að slík birting hafi ekki átt sér stað.
26.    Sendingardagur tilkynningarinnar.
27.    Tilgreina skal hvort samningurinn fellur undir samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar.
EINFÖLDUÐ ÚTBOÐSTILKYNNING, NOTUÐ Í TENGSLUM VIÐ VIRKT INNKAUPAKERFI
1.     Heimaland samningsyfirvalds.
2.     Nafn og tölvupóstfang samningsyfirvalds.
3.     Tilvísun í birtingu útboðstilkynningar fyrir virka innkaupakerfið.
4.    Tölvupóstfang þar sem tækniforskriftin og viðbótarskjöl varðandi virka innkaupakerfið eru tiltæk.
5.    Efni samnings: lýsing samkvæmt tilvísunarnúmeri eða –númerum CPV-flokkunarkerfisins ásamt magni eða umfangi sem samningurinn á að taka til.
6.     Tímarammi fyrir framlagningu kynningarboða.
TILKYNNINGAR UM GERÐ SAMNINGS
1.     Nafn og heimilisfang samningsyfirvalds.
2.    Útboðstilhögun sem valin er. Ef samningskaup fara fram án undangenginnar útboðstilkynningar (28. gr.), rökstuðningur fyrir því.
3.    Opinberir verksamningar: eðli og umfang samningsins, almenn lýsing á verkinu.
    Opinberir vörusamningar: hvers eðlis varan er, sem á að afhenda, og magn hennar, sundurliðað eftir birgjum ef við á, tilvísunarnúmer flokkunarkerfis.
    Opinberir þjónustusamningar: flokkur og lýsing á þjónustunni; tilvísunarnúmer flokkunarkerfis; magn þjónustunnar.
4.     Dagsetning samningsgerðar.
5.     Forsendur fyrir samningsgerð.
6.     Fjöldi tilboða sem bárust.
7.     Nafn og heimilisfang rekstraraðilans eða rekstraraðilanna sem valdir voru.
8.     Verð eða verðbil (lágmarks-/hámarksverð) sem greitt er.
9.    Fjárhæð tilboðs (tilboða) sem borist hafa eða hæsta og lægsta tilboð sem tekið var tillit til við val samningsaðila.
10.    Ef við á, sá hluti samnings sem líklegt er að verði samið um við þriðja aðila sem undirverktaka og fjárhæð þess hluta.
11.    Birtingardagur útboðstilkynningar í samræmi við tækniskilmála um birtingu í VIII. viðauka
12.     Sendingardagur útboðstilkynningar
13.    Nafn og heimilisfang aðilans sem sér um meðferð kærumála og, ef við á, sáttameðferð. Nákvæmar upplýsingar um það hvenær leggja má fram kæru í síðasta lagi eða, ef þörf krefur, nafn heimilisfang, símanúmer, bréfasímanúmer og tölvupóstfang þjónustunnar sem veitir þessar upplýsingar.

VII. VIÐAUKI B
UPPLÝSINGAR SEM EIGA AÐ KOMA FRAM Í TILKYNNINGUM UM SÉRLEYFI VARÐANDI OPINBER VERK

1.     Nafn, heimilisfang, bréfasímanúmer og tölvupóstfang samningsyfirvalda
2.     a)    Framkvæmdarstaður
    b)    Viðfang sérleyfissamnings, eðli og umfang þjónustunnar
3.     a)    Frestur til að senda inn umsóknir
    b)    Heimilisfang sem umsóknir skulu sendar til
    c)    Tungumál, eitt eða fleiri, sem þær skulu ritaðar á
4.     Persónuleg, tæknileg og fjárhagsleg skilyrði sem umsækjendur verða að uppfylla
5.     Forsendur sem verða notaðar við val tilboðs
6.     Ef við á, sá hluti verksins sem verður að lágmarki boðinn út til þriðja aðila
7.     Sendingardagur tilkynningarinnar
8.    Nafn og heimilisfang aðilans sem sér um meðferð kærumála og, ef við á, sáttameðferð. Nákvæmar upplýsingar um það hvenær leggja má fram kæru í síðasta lagi eða, ef þörf krefur, nafn heimilisfang, símanúmer, bréfasímanúmer og tölvupóstfang þjónustunnar sem veitir þessar upplýsingar.

VII. VIÐAUKI C
UPPLÝSINGAR SEM EIGA AÐ KOMA FRAM Í ÚTBOÐSTILKYNNINGUM SÉRLEYFISHAFA, SEM ERU EKKI SAMNINGSYFIRVÖLD, VEGNA VERKSAMNINGA

1.     a)    Framkvæmdarstaður
    b)     Eðli og umfang þjónustunnar, almenn lýsing á verkinu
2.     Frestur til að ljúka verkinu
3.     Nafn og heimilisfang aðilans þar sem hægt er að leggja fram beiðni um útboðsgögn og viðbótargögn
4.     a)    Skilafrestur umsókna um þátttöku og/eða tilboða
    b)    Heimilisfang sem umsóknir skulu sendar til
    c)    Tungumál, eitt eða fleiri, sem þær skulu ritaðar á
5.     Hvers konar kröfur um tryggingarfé eða aðrar ábyrgðir
6.     Efnahagsleg og tæknileg skilyrði sem verktaki verður að uppfylla
7.     Forsendur sem verða notaðar við val tilboðs
8.     Sendingardagur tilkynningarinnar

VII. VIÐAUKI D
UPPLÝSINGAR SEM EIGA AÐ KOMA FRAM Í TILKYNNINGUM UM HÖNNUNARSAMKEPPNI

TILKYNNING UM SAMKEPPNI
1.    Nafn, heimilisfang, bréfasímanúmer og tölvupóstfang samningsyfirvalds og samsvarandi upplýsingar um þjónustu þar sem hægt er að fá viðbótargögn
2.     Lýsing á verkefninu
3.     Tegund samkeppni: almenn eða lokuð
4.     Þegar um er að ræða almenna samkeppni: frestur til að skila verkefnum
5.     Þegar um er að ræða lokaða samkeppni:
    a)    fjöldi þátttakenda sem reiknað er með
    b)    nöfn þátttakenda sem þegar hafa verið valdir, ef einhverjir eru
    c)    forsendur fyrir vali þátttakenda
    d)    frestur fyrir þátttökutilkynningu
6.     Ef við á skal tilgreina hvort þátttaka takmarkist við sérstaka starfsgrein
7.     Forsendur sem nota á við mat á verkefnunum
8.     Nöfn þeirra sem hafa verið valdir í dómnefnd
9.     Tilgreina skal hvort ákvörðun dómnefndar er bindandi fyrir samningsyfirvald
10.     Fjöldi og verðmæti verðlauna
11.     Greiðslur sem allir þátttakendur fá, ef einhverjar eru
12.     Tilgreina skal hvort einhverjir samningar verða gerðir við sigurvegara að lokinni keppni
13.     Sendingardagur tilkynningarinnar
TILKYNNING UM ÚRSLIT SAMKEPPNI
1.     Nafn, heimilisfang, bréfasímanúmer og tölvupóstfang samningsyfirvalda
2.     Lýsing á verkefninu
3.     Heildarfjöldi þátttakenda
4.     Fjöldi útlendra þátttakenda
5.     Sigurvegari eða sigurvegarar í samkeppninni
6.     Verðlaun, ef einhver eru
7.     Tilvísun í tilkynningu um samkeppni
8.     Sendingardagur tilkynningarinnar

VIII. VIÐAUKI
ATRIÐI VARÐANDI BIRTINGU

1.      Birting tilkynninga
    a)    Samningsyfirvöld senda tilkynningar, sem um getur í 35., 58., 64. og 69. gr., til skrifstofu opinberrar útgáfustarfsemi Evrópubandalaganna með því sniði sem krafist er í tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/78/EB frá 13. september 2001 um notkun staðlaðra eyðublaða við birtingu opinberra útboðstilkynninga ( 1 ). Kynningartilkynning, sem um getur í fyrstu undirgrein 1. mgr. 35. gr., sem er birt í upplýsingaskrá kaupanda, eins og lýst er í b-lið 2. liðar, skal vera með sama sniði, svo og tilkynning um slíka birtingu.
    b)    Skrifstofa opinberrar útgáfustarfsemi Evrópubandalaganna birtir tilkynningar sem um getur í 35., 58., 64. og 69. gr. en ef um er að ræða kynningartilkynningu, sem birtist í upplýsingaskrá kaupanda í samræmi við fyrstu undirgrein 1. mgr. 35. gr., skulu samningsyfirvöld birta hana.
        Auk þess geta samningsyfirvöld birt þessar upplýsingar á Netinu í „upplýsingaskrá kaupanda“ eins og um getur í b-lið 2. liðar.
    c)    Skrifstofa opinberrar útgáfustarfsemi Evrópubandalagsins sendir samningsyfirvöldum staðfestingu á birtingu sem um getur í 8. mgr. 36. gr.
2.      Birting viðbótarupplýsinga
    a)    Samningsyfirvöld eru hvött til að birta útboðsskilmála og öll viðbótarskjöl á Netinu.
    b)    Í upplýsingaskrá kaupanda geta komið fram kynningartilkynningar eins og um getur í fyrstu undirgrein 1. mgr. 35. gr., upplýsingar um yfirstandandi boð um að leggja fram tilboð, áformuð innkaup, gerða samninga, útboð sem er aflýst og allar gagnlegar, almennar upplýsingar, s.s. um tengiliði, síma- og bréfasímanúmer, póstföng og tölvupóstföng.
3.      Snið tilkynninga og reglur um sendingu þeirra með rafrænum aðferðum
    Upplýsingar um snið tilkynninga og reglur um rafræna sendingu þeirra fást á netfanginu „http://simap.eu.int“.

IX. VIÐAUKI
SKRÁR


IX. VIÐAUKI A ( 1 )
OPINBERIR VERKSAMNINGAR

Firmaskrár og samsvarandi yfirlýsingar og vottorð fyrir hvert aðildarríki eru:
—    í Belgíu: „Registre du commerce“/„Handelsregister“,
—    í Danmörku: „Erhvervs-og Selskabsstyrelsen“,
—    í Þýskalandi: „Handelsregister“ og „Handwerksrolle“,
—    í Grikklandi: „M..... ............ ............“, MEE., sem heyrir undir ráðuneyti umhverfismála, borgar og landsbyggðarskipulags og opinberra framkvæmda (Y......),
—    á Spáni: „Registro Oficial de Empresas Clasificadas del Ministerio de Hacienda“,
—    í Frakklandi: „Registre du commerce et des sociétés“ og „Répertoire des métiers“,
—    á Írlandi: verktaki kann að verða beðinn að framvísa vottorði frá „Registrar of companies“ eða „Registrar of Friendly Societies“ eða, að öðrum kosti, vottorði sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein í landinu þar sem hann hefur staðfestu, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni,
—    á Ítalíu: „Registro della Camera di commercio, industria, agricoltura e artigianato“,
—    í Lúxemborg: „Registre aux firmes“ og „Rôle de la chambre des métiers“,
—    í Hollandi: „Handelsregister“,
—    Í Austurríki: „Firmenbuch“, „Gewerberegister“, og „Mitgliederverzeichnisse der Landeskammern“,
—    í Portúgal: „Instituto dos Mercados de Obras Públicas e Particulares e do Imobiliário“ (IMOPPI),
—    í Finnlandi: „Kaupparekisteri“/„Handelsregistret“,
—    í Svíþjóð: „aktiebolags-, handels- eller föreningsregistren“,
—    í Breska konungsríkinu: verktaki kann að verða beðinn að framvísa vottorði frá „Registrar of companies“ eða, að öðrum kosti, vottorði sem stafestir að viðkomandi aðili hafi gefið eðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein í landinu þar sem hann hefur staðfestu, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni.

IX. VIÐAUKI B
OPINBERIR VÖRUSAMNINGAR

Viðeigandi firma- og viðskiptaskrár og yfirlýsingar og vottorð þar að lútandi eru:
—    í Belgíu: „Registre du commerce“/„Handelsregister“,
—    í Danmörku: „Erhvervs-og Selskabsstyrelsen“,
—    í Þýskalandi: „Handelsregister“ og „Handwerksrolle“,
—    í Grikklandi: „.......... . .µ...... . ...µ....... ...µ........“,
—    á Spáni: „Registro Mercantil“ eða, ef um er að ræða óskráða einstaklinga, vottorð sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein,
—    í Frakklandi: „Registre du commerce et des sociétés“ og „Répertoire des métiers“,
—    á Írlandi: verktaki kann að verða beðinn að framvísa vottorði frá „Registrar of companies“ eða „Registrar of Friendly Societies“ um að hann sé skráður þar eða, ef hann er ekki skráður, vottorði sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein í landinu þar sem hann hefur staðfestu, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni og sérstöku viðskiptaheiti,
—    á Ítalíu: „Registro della Camera di commercio, industria, agricoltura e artigianato“ og „Registro delle commissioni provinciali per l'artigianato“,
—    í Lúxemborg: „Registre aux firmes“ og „Rôle de la chambre des métiers“,
—    í Hollandi: „Handelsregister“,
—    Í Austurríki: „Firmenbuch“, „Gewerberegister“, og „Mitgliederverzeichnisse der Landeskammern“,
—    í Portúgal: „Registo Nacional das Pessoas Colectivas“,
—    í Finnlandi: „Kaupparekisteri“/„Handelsregistret“,
—    í Svíþjóð: „aktiebolags-, handels- eller föreningsregistren“,
—    í Breska konungsríkinu: verktaki kann að verða beðinn að framvísa vottorði frá „Registrar of companies“ um að hann sé skráður þar eða, ef hann er ekki skráður þar, vottorði sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein í landinu þar sem hann hefur staðfestu, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni og sérstöku viðskiptaheiti.

IX. VIÐAUKI C
OPINBERIR ÞJÓNUSTUSAMNINGAR

Viðeigandi firma- og viðskiptaskrár eða yfirlýsingar og vottorð eru:
—    í Belgíu: „Registre du commerce“/„Handelsregister“ og „Ordres professionels/Beroepsorden“,
—    í Danmörku: „Erhvervs-og Selskabsstyrelsen“,
—    í Þýskalandi: „Handelsregister“, „Handwerksrolle“, „Vereinsregister“, „Partnerschaftsregister“ og „Mitgliedsverzeichnisse de Berufskammern der Ländern“,
—    í Grikklandi: verktakinn kann að verða beðinn að leggja fram eiðsvarna yfirlýsingu hjá lögbókanda um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein; í tilvikum sem kveðið er á um í gildandi landslögum, vegna veitingar rannsóknarþjónustu eins og getið er í I. viðauka A, firmaskráin „M..... .........“ og „...... ........ .......“,
—    á Spáni: „Registro Oficial de Empresas Clasificadas del Ministerio de Hacienda“,
—    í Frakklandi: „Registre du commerce“ og „Répertoire des métiers“,
—    á Írlandi: verktaki kann að verða beðinn að framvísa vottorði frá „Registrar of companies“ eða „Registrar of Friendly Societies“ eða, að öðrum kosti, vottorði sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein í landinu þar sem hann hefur staðfestu, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni og sérstöku viðskiptaheiti,
—    á Ítalíu: „Registro della Camera di commercio, industria, agricoltura e artigianato“, „Registro delle commissioni provinciali per l'artigianato“ eða „Consiglio nazionale degli ordini professionali“,
—    í Lúxemborg: „Registre aux firmes“ og „Rôle de la chambre des métiers“,
—    í Hollandi: „Handelsregister“,
—    Í Austurríki: „Firmenbuch“, „Gewerberegister“, og „Mitgliederverzeichnisse der Landeskammern“,
—    í Portúgal: „Registo Nacional das Pessoas Colectivas“,
—    í Finnlandi: „Kaupparekisteri“/„Handelsregistret“,
—    í Svíþjóð: „aktiebolags-, handels- eller föreningsregistren“,
—    í Breska konungsríkinu: verktaki kann að verða beðinn að framvísa vottorði frá „Registrar of companies“ eða, að öðrum kosti, vottorði sem staðfestir að viðkomandi aðili hafi gefið eiðsvarna yfirlýsingu um að hann starfi í viðkomandi starfsgrein í landinu þar sem hann hefur staðfestu, á sérstökum stað og undir tilteknu firmanafni.

X. VIÐAUKI
KRÖFUR VARÐANDI BÚNAÐ FYRIR RAFRÆNA MÓTTÖKU TILBOÐA, ÞÁTTTÖKUTILKYNNINGA OG ÁÆTLANA OG VERKEFNA Í HÖNNUNARSAMKEPPNI

Búnaður fyrir rafræna móttöku tilboða, þátttökutilkynninga og áætlana og samkeppnisverkefna skal a.m.k. tryggja, að því er varðar tækni og viðeigandi aðferðir, að:
a)    rafrænar undirskriftir varðandi tilboð, þátttökutilkynningar og framsendingu áætlana og verkefna séu í samræmi við innlend ákvæði sem eru samþykkt samkvæmt tilskipun 1999/93/EB,
b)    unnt sé að ákvarða nákvæmlega tímasetningu og dagsetningu fyrir móttöku tilboða, þátttökutilkynninga og fyrir afhendingu áætlana og verkefna,
c)    unnt sé að tryggja með nokkurri vissu að enginn geti fengið aðgang að gögnum, sem eru flutt samkvæmt þessum kröfum, áður en tilgreindur frestur rennur út,
d)    ef aðgangsbann er brotið sé unnt að tryggja með nokkurri vissu að auðvelt sé að sjá það,
e)    aðeins aðilar, sem hafa til þess heimild, geti sett eða breytt dagsetningu á opnun gagna sem berast,
f)    á hinum ýmsu stigum útboðsferlis eða samkeppni verði einungis hægt að fá aðgang að öllum gögnum sem eru afhent, eða hluta þeirra, með aðgerðum sem aðilar, sem hafa til þess heimild, framkvæma samtímis,
g)    aðilar, sem hafa heimild til samtímis aðgerða, veiti einungis aðgang að gögnum, sem eru flutt, eftir tilgreinda dagsetningu,
h)    gögn, sem eru móttekin og opnuð í samræmi við þessar kröfur, verði ekki aðgengileg öðrum aðilum en þeim sem hafa heimild til að kynna sér þau.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


I. Aðdragandi frumvarpsins.
    Hinn 31. mars 2004 var samþykkt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/18/EB um samræmingu reglna um útboð og gerð opinberra verksamninga, vörusamninga og þjónustusamninga (útboðstilskipunin) svo og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu (veitutilskipunin). Þessar tilskipanir voru teknar upp í XVI. viðauka við EES- samninginn 2. júní 2006 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006. Við aðlögun tilskipananna að EES-samningnum var gert ráð fyrir því að þær hefðu verið leiddar í lög aðildarríkjanna fyrir 1. janúar 2007. Þær breytingar sem frumvarpið felur í sér koma því fyrst og fremst til af breytingum á áðurgreindum reglum EES-samningsins.
    Skúla Magnússyni héraðsdómara og dósent við lagadeild Háskóla Íslands var falið að semja uppkast að frumvarpi til nýrra laga um opinber innkaup í samstarfi við Stefán Jón Friðriksson deildarstjóra í fjármálaráðuneyti og Ingva Má Pálsson deildarstjóra í fjármálaráðuneyti. Þá hefur ráðuneytið leitað aðstoðar Eiríks Elísar Þorlákssonar hdl., sem jafnframt er ritari kærunefndar útboðsmála, við samningu frumvarpsins.
    Leitað hefur verið umsagnar um frumvarpið af hálfu helstu aðila sem koma að opinberum innkaupum. Umsagnir bárust frá Ríkiskaupum, Vegagerðinni, Reykjavíkurborg, Framkvæmdasýslu ríkisins, Samtökum atvinnulífsins, Samtökum iðnaðarins, Félagi íslenskra stórkaupmanna og kærunefnd útboðsmála. Ýmsar gagnlegar ábendingar og tillögur voru settar fram af hálfu þessara aðila og var leitast við að taka tillit til þeirra í meginatriðum.

II. Reynslan af lögum nr. 94/2001, um opinber innkaup.
    Með setningu laga nr. 94/2001 fór fram heildarendurskoðun á reglum um opinber innkaup, en slík endurskoðun var þá löngu orðin tímabær vegna skuldbindinga íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum. Með setningu laganna var efnisreglum um opinber innkaup skipað í einn heildstæðan lagabálk í stað þess að þessar reglur væri að finna í fleiri lagabálkum, svo og umfangsmikilli reglugerð um opinber innkaup. Um nánari þróun íslenskra reglna um opinber innkaup má vísa til athugasemda við það frumvarp sem varð að lögum nr. 94/2001.
    Samhliða setningu laga nr. 94/2001 fór fram endurskoðun á reglum viðvíkjandi stjórnsýslu ríkisins á sviði verklegra framkvæmda, sbr. lög nr. 84/2001, um skipan opinberra framkvæmda, en þessi lög tóku gildi 15. júní 2001 líkt og lög nr. 94/2001. Á grundvelli 6. gr. laga nr. 94/2001 var sett reglugerð nr. 75/2001 um innkaup veitustofnana. Þá var sett reglugerð nr. 655/2003 um opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu þar sem m.a. var brugðist við ýmsum athugasemdum sem Eftirlitsstofnun EFTA hafði gert við innleiðingu EES-reglna um opinber innkaup.
    Sú stefna var mörkuð með lögum nr. 94/2001 að skapa samræmi milli reglna um opinber innkaup undir innlendum viðmiðunarfjárhæðum annars vegar (innkaup innanlands) og reglna um innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum EES hins vegar (innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu). Með þessari samræmingu var m.a. útilokað að aðili teldist útboðsskyldur innanlands án þess að vera útboðsskyldur á Evrópska efnahagssvæðinu eða öfugt. Með þessu voru einnig heimildir til ýmissa innkaupaferla við innkaup innanlands, t.d. samningskaupa, skýrðar og færðar til samræmis við EES-reglur. Þá fólu lögin í sér þá mikilvægu breytingu að sett var á fót sjálfstæð úrskurðarnefnd, kærunefnd útboðsmála.
    Framangreind stefnumótun gerði það vissulega að verkum að reglur um opinber innkaup urðu talsvert flóknari að framsetningu en áður hafði tíðkast. Nánar tiltekið gerðu lögin ráð fyrir því að um opinber innkaup innanlands giltu sambærilegar efnisreglur og giltu um opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu, þó þannig að reglur um auglýsingar og fresti voru eðli málsins samkvæmt aðrar og einfaldari. Þetta atriði virðist ekki hafa valdið vandræðum í framkvæmd. Þvert á móti telja þeir aðilar sem koma að opinberum innkaupum að lög nr. 94/2001 hafi leitt til þess að reglur um opinber innkaup hafi orðið skýrari og aðgengilegri. Reynslan af núgildandi lögum gefur því ekki tilefni til þess að hvika frá þeirri meginstefnu að nota EES-reglur sem fyrirmynd þegar kveðið er á um opinber innkaup innanlands.
    Reynslan af kærunefnd útboðsmála er almennt góð, enda þótt allir verði eðli málsins samkvæmt seint sáttir um hverja einustu úrlausn nefndarinnar. Málafjöldi hjá nefndinni, sem fór vaxandi á árunum 2002 (37 mál), 2003 (40 mál) og 2004 (49), virðist hafa náð nokkrum stöðugleika. Á árinu 2005 voru þannig 40 kærur mótteknar hjá kærunefndinni sem er fækkun frá árinu þar á undan. Kröfum um stöðvun útboðs eða samningsgerðar um stundarsakir hefur hins vegar fjölgað (2002: 3 beiðnir, 2003: 12 beiðnir, 2004: 10 beiðnir og 2005: 21 beiðni). Fyrirliggjandi tölur um mál þar sem fallist hefur verið að einhverju leyti eða öllu á sjónarmið kæranda benda til þess að eitthvað sé um tilefnislitlar kærur (2002: 9 mál, 2003: 11 mál, 2004: 14 mál og 2005:10 mál). Er því talið æskilegt að lagt sé á hóflegt gjald fyrir kæru til nefndarinnar með það að markmiði að kærur séu einungis lagðar fram að vel athuguðu máli. Á þeim tíma sem liðinn er frá því nefndin tók til starfa hefur aðeins eitt mál verið höfðað beinlínis til ógildingar á úrskurði nefndarinnar. Í tveimur öðrum tilvikum hafa kærendur höfðað dómsmál eftir að hafa aflað álits kærunefndarinnar á skaðabótaskyldu viðkomandi opinbers aðila, sbr. dóm Hæstaréttar 26. febrúar 2004 í máli nr. 347/200 (Nýherji hf.) og dóm Hæstaréttar 17. nóvember 2005 í máli nr. 182/2005 (Íslenskir aðalverktakar hf.). Þessar tölur benda til þess að fyrirtæki uni í yfirgnæfandi fjölda tilvika við úrskurði kærunefndar útboðsmála. Það meginmarkmið að skapa fyrirtækjum skilvirkt réttarúrræði á sviði opinberra innkaupa, án óhóflegs kostnaðar fyrir fyrirtæki eða hið opinbera, virðist því hafa náðst.
    Kvartanir hagsmunaaðila varðandi réttarúrræði á sviði opinberra innkaupa hafa fyrst og fremst beinst að úrræðum nefndarinnar, þ.e. takmörkuðum möguleikum hennar til að fella úr gildi samninga sem þegar hafa verið gerðir, en ekki að málsmeðferð nefndarinnar sjálfrar. Við þessu atriði er brugðist í frumvarpinu eins og síðar greinir. Einnig er reynt að bregðast við nokkrum álitaefnum um skýringu á reglum um málsmeðferð nefndarinnar, eins og einnig verður vikið að síðar. Þessi atriði teljast þó öll minni háttar. Reynslan af lögum nr. 94/2001 gefur því ekki tilefni til annars en að viðhalda svipuðu fyrirkomulagi og verið hefur við eftirlit og úrlausn á kærum á sviði opinberra innkaupa.
    Að því er varðar innleiðingu á EES-reglum hefur Eftirlitsstofnun EFTA gert nokkrar athugasemdir við lög nr. 94/2001. Eins og áður segir var reynt að bregðast við þessum athugasemdum, sem flestar vörðuðu formlega framsetningu á reglum, en sjaldnast atriði með efnislega þýðingu, með setningu reglugerðar nr. 655/2003 um opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu. Við núverandi endurskoðun laga um opinber innkaup er sjálfsagt að bregðast við þessum athugasemdum stofnunarinnar sem flestar beinast að því að orðalagi í tilskipunum hafi ekki verið fylgt eftir með nægilega mikilli nákvæmni. Í þessu sambandi skal á það minnt að sú stefna var mörkuð með gildandi lögum að færa efnisákvæði um opinber innkaup almennt úr reglugerðum og yfir í sett lög.
    Samkvæmt framangreindu er reynslan af lögum nr. 94/2001 að meginstefnu jákvæð. Með fáum undantekningum er því ekki ástæða til að víkja frá þeirri stefnu sem mótuð var með setningu laganna, nema að því marki sem það er nauðsynlegt vegna breytinga sem leiðir af útboðstilskipuninni.

III. Helstu breytingar á reglum um opinber innkaup sem leiðir af útboðstilskipuninni.
    Um þróun reglna Evrópubandalagsins um opinber innkaup má vísa til athugasemda við það frumvarp sem varð að lögum nr. 94/2001. Hér skal þó rifjað upp að fyrir setningu tilskipunar nr. 2004/18/EB gilti sín hver tilskipunin um opinber innkaup á þjónustu, vörum og verkum (tilskipanir ráðsins nr. 92/50/EBE, nr. 93/36/EBE og nr. 93/37/EBE), en þessum þremur tilskipunum hafði verið breytt með tilskipun nr. 97/52/EB. Í stað þessara þriggja tilskipana gildir tilskipun nr. 2004/18/EB, útboðstilskipunin, nú um öll opinber innkaup sem ekki falla undir tilskipun nr. 2004/17/EB (veitutilskipunin), en sú tilskipun tekur við af tilskipun nr. 93/38/EBE. Áfram gilda svokallaðar eftirlitstilskipanir, þ.e. annars vegar tilskipun nr. 89/665/EBE sem lýtur að eftirliti og réttarúræðum vegna vöru-, þjónustu- og verksamninga og hins vegar tilskipun nr. 92/13/EBE sem lýtur að samningu veitustofnana. Endurskoðun á þessum tilskipunum á vettvangi EB hefur raunar þegar verið hafin (sjá tillögu framkvæmdastjórnarinnar, COM [2006] 195). Verði umræddum tilskipunum breytt kann að verða nauðsynlegt að breyta í einhverjum atriðum ákvæðum laganna um kærunefnd útboðsmála, án þess þó að um grundvallarbreytingar verði að ræða.
    Samkvæmt framangreindu leiðir þá meginbreytingu af tilskipun nr. 2004/18/EB að í stað þriggja útboðstilskipana gildir nú ein heildstæð tilskipun fyrir öll innkaup á vettvangi EB sem ekki falla undir veitutilskipunina svonefndu. Þessi breyting á framsetningu hefur minni áhrif á íslenska löggjöf um opinber innkaup en ella þar sem það skref hafði þegar verið stigið með lögum nr. 94/2001 að steypa öllum reglum um opinber innkaup saman í einn heildstæðan lagabálk.
    Helstu efnislegu breytingar á reglum EB um opinber innkaup sem leiðir af tilskipun nr. 2004/18/EB eru eftirfarandi:
     1.      Reglur um opinber innkaup taka að fullu til innkaupa á fjarskiptaþjónustu andstætt tilskipun nr. 92/50/EBE (sjá II. viðauka B tilskipunar).
     2.      Skýrt kemur fram að innkaup á sviði varnarmála falli undir reglur um opinber innkaup (sjá 10. gr. tilskipunar).
     3.      Reglur um viðmiðunarfjárhæðir eru einfaldaðar og allar fjárhæðir settar fram í evrum (sjá 9. gr. tilskipunar).
     4.      Settar hafa verið reglur um miðlægar innkaupastofnanir og því slegið föstu að opinberum aðila sé heimilt að kaupa inn í gegnum slíkar stofnanir svo lengi sem þær fylgja sjálfar reglum um opinber innkaup (sjá 11. gr. tilskipunar).
     5.      Ítarlegri reglur hafa verið settar um veitingu sérleyfis á verkum (sjá 56.–61. gr.) og því slegið föstu að veiting sérleyfis á þjónustu falli utan tilskipunarinnar (sjá 17. gr. tilskipunar).
     6.      Kveðið hefur verið á um heimildir til að taka frá ákveðna samninga fyrir verndaða vinnustaði (19. gr. tilskipunar).
     7.      Reglur um tækniforskriftir eru nú afdráttarlausari um skyldu til að nota staðla, en í stað tilvísunar til staðla má nú einnig vísa til krafna um virkni eða hagnýtingu (sjá 23. gr. tilskipunar).
     8.      Aðeins er nú heimilt að leggja fram frávikstilboð ef tekið er fram í útboðsgögnum að þetta sé heimilt (sjá 24. gr. tilskipunar).
     9.      Heimilt er nú að gera kröfur til þess að samningur, t.d. um verk, sé framkvæmdur með ákveðnum hætti, t.d. með tilliti til umhverfisverndar eða samfélagslegra sjónarmiða (sjá 10. gr. tilskipunar).
     10.      Settar hafa verið reglur um heimild til svokallaðra samkeppnisviðræðna þegar um er að ræða flókna samninga. Um er að ræða nýja tegund innkaupaferlis sem svipar um margt til samningskaupa að undangenginni auglýsingu, án þess þó að skilyrðin fyrir því að nota þetta innkaupaferli séu jafnströng (sjá 29. gr. tilskipunar).
     11.      Skýrari reglur hafa verið settar um kröfur um að þátttakendur í opinberum innkaupum fari að reglum viðkomandi ríkis um skatta, umhverfisvernd, öryggismál og kjaramál (sjá 27. gr. tilskipunar).
     12.      Ítarlegri reglur hafa verið settar um framkvæmd samningskaupa og rýmkaðar heimildir til samningskaupa vegna viðskipta í kauphöll eða vegna kaupa af þrotabúum á óvenjulega góðum kjörum o.þ.h. (sjá c- og d-lið 1. mgr. 31. gr. tilskipunar).
     13.      Slegið hefur verið föstum heimildum til að nota rammasamninga og nánari reglur settar um gerð og framkvæmd slíkra samninga (sjá 32. gr. tilskipunar).
     14.      Kveðið á um heimildir til að kaupa inn á grundvelli svokallaðs gagnvirks innkaupakerfis (sjá 33. gr. tilskipunar).
     15.      Afdráttarlausari reglur hafa verið settar um tilkynningar og rökstuðning (sjá 41. gr. tilskipunar).
     16.      Rýmri heimildir hafa verið markaðar til notkunar rafrænna miðla við opinber innkaup (sjá 42. gr. tilskipunar).
     17.      Skýrari reglur hafa verið settar um val á þátttakendum í forvali (sjá 3. mgr. 44. gr. tilskipunar).
     18.      Ítarlegri reglur um hvaða kröfur heimilt er að gera til þátttakenda í opinberum innkaupum (sjá 45.–52. gr. tilskipunar) auk þess sem reglur hafa verið settar sem skylda opinberan aðila til að vísa fyrirtæki frá útboði (sjá 1. mgr. 45. gr. tilskipunar)
     19.      Skýrari reglur hafa verið settar um leyfilegar forsendur fyrir vali tilboðs og tengsl þeirra við efni samnings. Nú er skylt að kveða á um vægi þegar um fleiri valforsendur er að ræða (53. gr. tilskipunar).
     20.      Kveðið á um heimildir til að nota svokölluð rafræn uppboð við opinber innkaup, en þar er um að ræða innkaup sem fram fara sjálfvirkt með aðstoð rafrænna miðla (sjá 54. gr. tilskipunar).
     21.      Afdráttarlausari reglur hafa verið settar um heimild til að hafna óeðlilega lágum tilboðum vegna ólögmætra ríkisstyrkja (55. gr. tilskipunar).
    Sú breyting sem gæti haft hvað mesta þýðingu fyrir framkvæmd opinberra innkaupa hér á landi er framangreind heimild til samkeppnisviðræðna. Hér er um að ræða innkaupaferli sem er mun sveigjanlegra en almennt eða lokað útboð. Eina skilyrðið fyrir notkun samkeppnisviðræðna er að um sé að ræða „sérlega flókinn samning“ og að það sé mat kaupanda að ekki sé unnt að gera samning á grundvelli almenns eða lokaðs útboðs. Hér er því um að ræða nokkuð almenna heimild til að víkja frá kröfunni um almennt eða lokað útboð með það að markmiði að skapa aukinn sveigjanleika við opinber innkaup.
    Tilskipanir nr. 2004/17/EB og nr. 2004/18/EB voru teknar upp í XVI. viðauka við EES- samninginn 2. júní 2006 með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 68/2006. Að því er varðar tilskipun nr. 2004/18/EB var tilskipunin tekin upp í samninginn án þess að um væri að ræða efnisleg frávik á ákvæðum hennar vegna aðlögunar hennar að EES-samningnum. Um aðlögun tilskipananna að EES-samningnum vísast að öðru leyti til ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar sem birt var 7. september 2006 í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 44/2006.
    Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar voru einnig teknar upp í XVI. viðauka reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1874/2004 sem lýtur að viðmiðunarfjárhæðum, reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1564/2005 sem lýtur að stöðluðum eyðublöðum við auglýsingar og tilkynningar og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2005/51/EB sem felur í sér breytingu á XX. viðauka veitutilskipunarinnar og VIII. viðauka útboðstilskipunarinnar. Með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 69/2006 (sbr. EES-viðbæti við Stjórnartíðindi ESB nr. 44/2006, útg. 7. september 2006) voru teknar upp í XVI.viðauka tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2005/75/EB og reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2083/2005 þar sem gerðar voru smávægilegar leiðréttingar á ákvæðum útboðstilskipunarinnar og veitutilskipunarinnar.

IV. Helstu efnisatriði frumvarpsins og breytingar frá gildandi lögum.
1. Eitt heildstætt regluverk fyrir innkaup yfir og undir viðmiðunarfjárhæðum EES-samningsins.
    Áfram er fylgt þeirri löggjafarstefnu að láta efnisreglur EES-samningsins um opinber innkaup einnig gilda um opinber innkaup yfir innlendum viðmiðunarfjárhæðum. Með frumvarpinu er þannig innkaupastefnu íslenska ríkisins markaður lagalegur farvegur auk þess sem leiddar eru í íslensk lög reglur EES-réttar um opinber innkaup. Af þessum sökum er hugtakanotkun, gildissvið og undanþágur frá reglum um opinber innkaup (sbr. 1. þátt frumvarpsins) hið sama hvort heldur er um að ræða innkaup yfir eða undir viðmiðunarfjárhæðum EES- samningsins. Af sömu ástæðum eru þær reglur um opinber innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum EES-samningsins sem er að finna í 2. þætti frumvarpsins að langmestu leyti sóttar í útboðstilskipunina. Allar þær breytingar á innkaupareglum EES-samningsins sem leiðir af útboðstilskipuninni verða þannig hluti að íslenskum rétti, hvort heldur er um að ræða innkaup yfir eða undir viðmiðunarfjárhæðum samningsins. Eru það því fyrst og fremst þau ákvæði 2. þáttar sem snúa að auglýsingum og frestum sem eru, eðli málsins samkvæmt, frábrugðin reglum tilskipunarinnar. Samkvæmt frumvarpinu er veiting sérleyfissamninga um verk þó undanþegin ákvæðum 2. þáttar frumvarpsins og reglur um hönnunarsamkeppni eru nokkuð einfaldaðar frá ákvæðum tilskipunarinnar. Að þessum frávikum frátöldum má hins vegar almennt ganga út frá því að sömu efnisreglur gildi um innkaup yfir og undir viðmiðunarfjárhæðum EES-samningsins. Af þessum sökum er einnig mögulegt að vísa til ákvæða 2. þáttar að því er varðar innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum EES-samningsins, sbr. 3. þátt, en vísa að öðru leyti til hlutaðeigandi ákvæða tilskipunarinnar. Er þar einkum um að ræða þau ákvæði tilskipunarinnar sem lúta að tilkynningum, auglýsingum og skýrslum.

2. Reglur um innkaup veitustofnana.
    Líkt og í gildandi lögum er ekki gert ráð fyrir því að þeir aðilar sem falla undir veitutilskipunina (tilskipun nr. 2004/17/EB) séu gerðir útboðsskyldir umfram það sem leiðir af reglum EES-samningsins. Að því er varðar þessa aðila þarf því eingöngu að leiða veitutilskipunina í íslensk lög, en ekki þarf að móta sérstakar reglur um innkaup þessara aðila undir viðmiðunarfjárhæðum EES-samningsins. Því er gert ráð fyrir því að tilskipun nr. 2004/17/EB verði leidd í lög með setningu reglugerðar. Það eru því eingöngu XIV. og XV. kafli frumvarpsins sem gilda um innkaup þessara aðila en þessir kaflar fela m.a. í sér innleiðingu tilskipunar nr. 92/13/EBE sem lýtur að eftirliti og réttarúrræðum við gerð samninga veitustofnana. Athygli er vakin á því að lög nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað, heimila að vísað sé til birtingar í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins. Er því heimilt að vísa beint til ákvæða tilskipunar nr. 2004/17/EB í reglugerð í stað þess að umrita ákvæði hennar í reglugerð, líkt og gert er nú.

3. Reglur um innkaup sveitarfélaga.
    Líkt og í gildandi lögum er ekki gert ráð fyrir því að ríkari skyldur séu lagðar á sveitarfélög en leiðir af skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt EES-samningnum. Svo sem verið hefur er sveitarfélögunum þannig í sjálfsvald sett hvort þau undirgangast þær auknu skyldur við opinber innkaup sem felast í 2. þætti frumvarpsins sem gildir um innkaup ríkis og ríkisstofnana.

4. Fyrirkomulag opinberra innkaupa.
    Reglur um aðferðir við opinber innkaup, eða innkaupaferli eins og það er nefnt í frumvarpinu, eru að meginstefnu óbreyttar. Meginreglan er þannig áfram sú að opinber innkaup fari fram á grundvelli útboða, annaðhvort lokaðs útboðs að undangengnu forvali eða almenns útboðs. Mikilvæg breyting á innkaupaferlum felst hins vegar í áðurlýstum reglum um svonefndar samkeppnisviðræður. Tilskipunin felur einnig í sér nýjar reglur um rammasamninga, en ekki er gert ráð fyrir því að þessar reglur muni fela í sér óhjákvæmilegar breytingar á rammasamningskerfi Ríkiskaupa. Í frumvarpinu er að finna reglur um gagnvirk innkaupakerfi svo og rafræn uppboð sem má að vissu leyti telja til sérstakra innkaupaferla. Verði frumvarpið að lögum verðum íslenskum aðilum heimilt að nota þessar nýju tegundir innkaupaferla. Tíminn verður að leiða í ljós hvort þessar heimildir verða nýttar.

5. Samningar undanþegnir útboðsskyldu.
    Ekki er um að ræða neinar verulegar breytingar frá gildandi lögum að því er varðar þá samninga sem reglur um opinber innkaup taka til. Af tilskipuninni leiðir að reglurnar taka nú að fullu til innkaupa á fjarskiptaþjónustu, en samkvæmt gildandi lögum fellur þessi þjónusta undir I. viðauka B. Sérleyfissamningar um verk eru áfram undanþegnir þegar um er að ræða innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum EES-samningsins. Ef um er að ræða veitingu sérleyfissamninga um verk yfir viðmiðunarfjárhæðum EES-samningsins gilda hins vegar nokkuð ítarlegri reglur en áður, sbr. XI. kafla frumvarpsins. Sérleyfissamningar á sviði þjónustu falla að meginstefnu ekki undir reglur um opinber innkaup. Ráðherra er sem fyrr heimilt að setja reglur um gerð þessara samninga að því er varðar ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki og leggja þannig á þau ríkari skyldur en leiðir af almennum reglum frumvarpsins.

6. Útboðsgögn, framkvæmd útboða og val tilboðs.
    Reglur frumvarpsins um útboðsgögn, framkvæmd útboða og val tilboðs eru í nokkrum atriðum ítarlegri en samkvæmt gildandi lögum. Vísast um þetta til umfjöllunar um þær breytingar sem felast í útboðstilskipuninni og raktar eru hér að framan. Í frumvarpinu er þannig að finna nokkuð ítarlegar reglur um framkvæmd hönnunarsamkeppni sem að meginstefnu svara til reglna tilskipunarinnar um þetta efni. Ef hönnunarsamkeppni er yfir viðmiðunarfjárhæðum EES-samningsins ber hins vegar að fylgja beint reglum tilskipunarinnar, sbr. XI. kafla frumvarpsins. Þá mikilvægu breytingu er að finna í 76. gr. frumvarpsins að frá því að ákvörðun um val tilboðs er tilkynnt þar til tilboð er endanlega samþykkt skulu almennt líða a.m.k. 10 dagar. Með þessu gefst bjóðendum kostur á að koma á framfæri kæru hjá kærunefnd útboðsmála og krefjast þess að samningsgerð verði stöðvuð um stundarsakir. Er bjóðendum þannig betur en áður tryggt raunhæft úrræði til þess að fá ákvörðun kaupanda um val á tilboði hnekkt. Er nánar fjallað um efni þessarar reglu og rökin að baki henni í athugasemdum við 76. gr. frumvarpsins.

7. Sérreglur um opinber innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu.
    Líkt og í gildandi lögum er við það miðað að ráðherra birti viðmiðunarfjárhæðir samkvæmt EES-samningnum í reglugerð, en þessar fjárhæðir ber að uppfæra á tveggja ára fresti til samræmis við gengi íslensku krónunnar gagnvart evrunni. Að því er varðar þessi innkaup er kveðið á um að við þessi innkaup skuli fara að ákvæðum 35.–43. gr. tilskipunarinnar, en hér er fyrst og fremst um að ræða reglur um tilkynningar, auglýsingar og fresti. Að öðru leyti fer um þessi innkaup samkvæmt sömu reglum og gilda um innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum EES-samningsins, þó með nokkrum frávikum sem nánar eru tilgreind í 79. gr. frumvarpsins. Gert er ráð fyrir því að ráðherra innleiði reglur um viðmiðunarfjárhæðir, stöðluð eyðublöð vegna auglýsinga o.þ.h. með reglugerð (sbr. reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1874/2004, reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1564/2005 og tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2005/51/EB). Gert er ráð fyrir því að tilskipunin verði birt í heild í Stjórnartíðindum sem fylgiskjal við frumvarpið, verði það að lögum.

8. Ríkiskaup.
    Ákvæði frumvarpsins um Ríkiskaup svara til ákvæða gildandi laga, þó þannig að tekið hefur verið tilliti til ákvæða tilskipunarinnar um miðlægar innkaupastofnanir og sérstök stjórn Ríkiskaupa hefur verið lögð niður. Ekki verður séð að þessi ákvæði hafi í för með sér efnislegar breytingar fyrir starfsemi Ríkiskaupa.

9. Réttarúrræði og skaðabætur.
    Ákvæði XIV. kafla um kærunefnd útboðsmála eru að meginstefnu efnislega sambærileg og í gildandi lögum. Í frumvarpinu er þó gert ráð fyrir því að tekið verði upp hóflegt kærugjald, eins og áður greinir. Þá eru reglur um fresti skýrðar til samræmis við framkvæmd nefndarinnar. Reglur XV. kafla um gildi samninga og skaðabætur eru óbreyttar. Hér skal þó rifjað upp að þá mikilvægu breytingu er að finna í frumvarpinu að frá því að ákvörðun um val tilboðs er tilkynnt þar til tilboð er endanlega samþykkt skulu almennt líða a.m.k. 10 dagar. Kemur þannig mun síður upp sú staða að bjóðandi sem telur á sig hallað standi frammi fyrir því að samningur hafi þegar verið gerður. Samkvæmt reglum frumvarpsins hefur hann a.m.k. 10 daga til að koma á framfæri kæru hjá kærunefnd útboðsmála og krefjast þess að samningsgerð verði stöðvuð um stundarsakir. Ef fallist er á þá kröfu hans og ákvörðun um val á tilboði er felld úr gildi í framhaldinu hefur bjóðandinn raunhæfa möguleika á að verða valinn til samningsgerðar. Er þetta nýmæli frumvarpsins í samræmi við nýlega lagasetningu í Danmörku. Þá má búast við því að regla sem þessi verði sett á vettvangi Evrópubandalagsins við þá endurskoðun á eftirlitstilskipununum sem áður greinir. Að öðru leyti er vísað til skýringa við 76. gr. frumvarpsins.

10. Afstaða frumvarpsins til annarra laga.
    Eftir að núgildandi lög tóku gildi hefur risið vafi um það atriði hvort og þá að hvaða marki stjórnsýslulög, nr. 37/1993, gilda um ákvarðanir og aðrar athafnir kaupenda á sviði opinberra innkaupa. Núverandi ástand felur í sér óþolandi óvissu um réttarreglur á sviði opinberra innkaupa þar sem ýmsar reglur, sem eru sérsniðnar að framkvæmd opinberra innkaupa og þeim hagsmunum sem þar eru í húfi, rekast á við reglur stjórnsýslulaga um rannsóknarskyldu stjórnvalds, andmælarétt, leiðbeiningaskyldu o.s.frv. Í ljósi tæmandi reglna um réttindi fyrirtækja gagnvart kaupanda á sviði opinberra innkaupa þykir engin ástæða til þess að almenn stjórnsýslulög gildi um það svið sem hér er um að ræða. Er einnig ljóst að önnur niðurstaða leiðir til óvissu og óæskilegra tafa við opinber innkaup. Á þetta því frekar við nú þegar tekið hefur gildi umrædd tilskipun um opinber innkaup sem hefur að geyma enn ítarlegri ákvæði en fyrri tilskipanir um þau innkaupaferli sem um er að ræða og réttarstöðu fyrirtækja gagnvart kaupendum. Að lokum má rifja upp að við setningu laga nr. 94/2001 var litið svo á að stjórnsýslulög tækju ekki til opinberra innkaupa ef frá væri talinn II. kafli laganna. Af þessum sökum er lagt til að tekin séu af tvímæli um að stjórnsýslulög gildi ekki um ákvarðanir sem teknar eru samkvæmt frumvarpinu að frátöldum ákvæðum II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um sérstakt hæfi. Skal áréttað að með þessari reglu frumvarpsins er stefnt að því að skýra réttarreglur á sviði opinberra innkaupa en ekki skerða rétt fyrirtækja á þessu mikilvæga sviði.

Athugasemdir við einstaka þætti, kafla og greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Í greininni er rætt um „fyrirtæki“ í stað „bjóðanda“, sbr. 1. gr. núgildandi laga. Er þetta í samræmi við breytta hugtakanotkun í tilskipuninni, sbr. 2. gr. frumvarpsins. Eins og þar kemur fram er heitið „fyrirtæki“ notað til einföldunar sem samheiti yfir verktaka, seljanda vöru og veitanda þjónustu, en „bjóðandi“ aðeins yfir fyrirtæki sem lagt hefur fram tilboð í opinberum innkaupum. Að öðru leyti má vísa til almennra athugasemda við það frumvarp sem varð að núgildandi lögum.

Um 2. gr.

    Í þessari grein er að finna skilgreiningar á hugtökum sem svarar efnislega til 1. gr. tilskipunarinnar. Vakin er athygli á því að í nokkrum tilvikum er um að ræða ný hugtök sem ekki koma fyrir í gildandi lögum. Hér má einkum nefna hugtökin „gagnvirkt innkaupakerfi“ og „rafrænt uppboð“ sem bæði vísa til nýrra innkaupaferla. Í samræmi við hugtakanotkun tilskipunarinnar er hugtakið „bjóðandi“ nú aðeins notað yfir aðila sem leggur fram endanlegt tilboð. Aðili sem tekur þátt í forvali eða öðrum aðdraganda opinberra innkaupa án þess að leggja fram tilboð mundi yfirleitt teljast „þátttakandi“ í skilningi frumvarpsins. Þá er hugtakið „fyrirtæki“ notað til einföldunar yfir verktaka, seljanda vöru og veitanda þjónustu, en hér er í raun um að ræða alla þá sem hugsanlega gætu tekið þátt í opinberum innkaupum, án tillits til þess hvort þeir hafa gert það í raun og veru.
    Ólíkt því sem fram kemur í 1. gr. tilskipunarinnar eru nokkur hugtök skilgreind til fullnustu í efnisákvæðum en ekki í orðskýringagrein frumvarpsins og er hér fylgt þeirri uppbyggingu sem fram kemur í gildandi lögum. Um hugtökin „opinberir samningar“, „verksamningar eða opinberir verksamningar“, „vörusamningar eða opinberir vörusamningar“ og „þjónustusamningar eða opinberir þjónustusamningar“ vísar greinin þannig til ákvæða 4. gr. frumvarpsins þar sem skilgreint er til hvaða samninga lögin taki.
    Í tilskipuninni er hugtakið „samningsaðili“ (e. Contracting authority) notað um þá sem skyldir eru til að kaupa inn samkvæmt reglum tilskipunarinnar. Í samræmi við hugtakanotkun gildandi laga er orðið „kaupandi“ notað í frumvarpinu yfir þessa aðila. Greinin vísar í þessu sambandi til 3. gr. frumvarpsins þar sem nánar er tilgreint hverjir teljist slíkir aðilar, m.a. hverjir teljist til „annarra opinberra aðila“ sem svarar efnislega til enska hugtaksins „a body governed by public law“, sbr. 9. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar.
    Í 10. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar er að finna skilgreiningu á „miðlægri innkaupastofnun“ sem tekin er upp í frumvarpið. Í XIII. kafla frumvarpsins er að finna nánari reglur um rekstur miðlægrar innkaupastofnunar á vegum ríkisins, Ríkiskaupa. Í frumvarpinu er ekki að finna sérstaka heimild fyrir ýmsa sjálfstæða opinbera aðila, t.d. sveitarfélög, til að setja fót miðlægar innkaupastofnanir enda er slík heimild óþörf með hliðsjón af almennum valdheimildum þeirra. Tekið skal fram að miðlæg innkaupastofnun verður að vera til þess hæf að bera réttindi og skyldur að lögum. Þá er það skilgreiningaratriði að hún þjóni fleiri opinberum aðilum. Innkaupadeildir stofnana eða innkaupastofnanir einstakra sveitarfélaga geta af þessari ástæðu ekki talist „miðlægar innkaupastofnanir“ í skilningi frumvarpsins.
    Í c-lið 11. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar er skilgreint hugtakið „sérlega flókinn samningur“ (e. particularly complex contracts), sem vísar til ákvæða tilskipunarinnar um samkeppnisviðræður. Við samningu frumvarpsins þótti hentugra að þetta hugtak væri skilgreint í því ákvæði frumvarpsins sem fjallar um samkeppnisviðræður. Að því er varðar skilgreiningu á hugtakinu „rafrænt uppboð“ er vakin athygli á því að ákveðnir verk- og þjónustusamningar, eins og þeir sem fela í sér sköpun hugverks, t.d. hönnun verks, geta eðli málsins samkvæmt ekki verið andlag rafrænna uppboða, eins og skýrlega er tekið fram í 7. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar.
    Í gildandi lögum er að finna sérstakar skilgreiningar á hugtökunum „forval“, „frávikstilboð“ og „útboð“ sem er sleppt í frumvarpinu. Þessi breyting helgast í fyrsta lagi af því að í tilskipuninni er ekki að finna skilgreiningar á þessum hugtökum. Í samræmi við þá almennu stefnumörkun sem liggur frumvarpinu til grundvallar þykir heppilegt að samræmi sé á milli íslenskra laga og tilskipunarinnar að þessu leyti. Þá er á það bent á að í frumvarpinu er að finna ítarleg fyrirmæli um „forval“, „frávikstilboð“ og „útboð“ sem gera sjálfstæðar skilgreiningar á þessum ferlum óþarfar og í raun óheppilegar.
    Hugtakið „örútboð“ er ekki skilgreint sérstaklega í tilskipuninni, en hér er um það að ræða að kaupandi láti fara fram samkeppni meðal a.m.k. þriggja rammasamningshafa á grundvelli rammasamnings, sbr. nánari ákvæði 5. mgr. 34. gr. frumvarpsins. Skilgreiningin á örútboði er sett fram til hagræðis og er með henni í engu vikið frá fyrirmælum 34. gr. frumvarpsins.

Um 3. gr.

    Hér er um að ræða efnislega óbreytt ákvæði frá 3. gr. gildandi laga, þó þannig að fellt er út ákvæði um að tekjur aðila á grundvelli gagnkvæms viðskiptasamnings við opinberan aðila teljast ekki opinber fjármögnun. Ástæðulaust þykir að árétta sérstaklega að greiðslur til aðila samkvæmt gagnkvæmum viðskiptasamningum teljist ekki fjármögnun í skilningi a-liðar 2. mgr. líkt og gert er í núgildandi lögum, enda leiðir þetta skýrlega af orðalagi málsgreinarinnar. Leggja ber áherslu á að með greininni er lögfest sú skilgreining á opinberum aðila sem fram kemur í 9. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Vísast að öðru leyti til ítarlegra athugasemda við 3. gr. þess frumvarps sem varð að lögum nr. 94/2001 um nánara efni greinarinnar.

Um 4. gr.

    Hér er að meginstefnu um að ræða óbreytt ákvæði frá 4. gr. gildandi laga, þó þannig að fylgt er þeirri nánari framsetningu sem fram kemur í 2. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Í samræmi við þetta falla „sérleyfissamningar um verk“ ekki lengur undir hugtakið „verksamningur“ líkt og í gildandi lögum, en um slíka samninga eru sérstök ákvæði í XI. kafla frumvarpsins. Þá er vakin athygli á því að í lokamálsgrein greinarinnar er að finna nokkuð ítarlegri leiðbeiningar um afmörkun þjónustusamninga gagnvart verksamningum sem þó er í samræmi við ólögfest sjónarmið á þessu sviði, sbr. athugasemdir við 4. gr. þess frumvarps sem varð að lögum nr. 94/2001. Í 4. gr. gildandi laga eru taldar upp ýmsar undantekningar frá þeirri almennu reglu að innkaupasamningar opinberra aðila falli undir gildissvið laganna. Við samningu frumvarpsins þótti hentugra að fylgja tilskipuninni í þessu efni. Koma þannig fram í 6.–12. gr. frumvarpsins ýmsar undantekningar frá þeirri almennu reglu sem fram kemur í 1. mgr. 4. gr. frumvarpsins.
    Rétt er að rifja upp að af 1. mgr. leiðir að frumvarpið tekur aðeins til samninga sem opinberir aðilar skv. 3. gr. gera við fyrirtæki. Reglur frumvarpsins taka því ekki til ráðstafana sem gerðar eru „innanhúss“ (e. in-house), þ.e. ráðstafanir sem hinn opinberi aðili tekst á hendur sjálfur án afskipta utanaðkomandi. Ákveði opinber aðili að framleiða vöru sjálfur, annast þjónustu eða framkvæma verk er ekki um að ræða opinber innkaup í skilningi frumvarpsins. Samningar milli tveggja sjálfstæðra opinberra aðila, t.d. tveggja sveitarfélaga, mundu jafnan ekki vera undanþegnir lögunum samkvæmt þessu. Tengsl milli tveggja sjálfstæðra opinberra aðila geta þó verið svo náin að litið sé svo á að um sé að ræða mismunandi hluta sama aðilans, sbr. t.d. dóm Evrópudómstólsins í máli Teckal (mál nr. C-107/98, ECR [1999] I 8121). Hér kæmu einkum stofnanir ríkisins til greina, sbr. t.d. úrskurð kærunefndar útboðsmála 4. júní 2002 í máli nr. 9/2002.

Um 5. gr.

    Ólíkt eldri útboðstilskipunum hefur tilskipunin að geyma í 10. gr. sinni jákvæða skilgreiningu á gildissviði sínu gagnvart samningum um innkaup á sviði varnarmála. Með öðrum orðum kveður tilskipunin á um að þessir samningar falli innan gildissviðs tilskipunarinnar að því marki sem ákvæði 296. gr. EB-sáttmálans (sbr. 123. gr. EES-samningsins) leiði ekki til annarrar niðurstöðu. Eldri reglur kváðu hins vegar á um að slíkir samningar féllu utan gildissviðs útboðstilskipananna, en af því mátti þó gagnálykta að um gerð annarra samninga færi samkvæmt tilskipunum. Ekkert bendir til þess að 10. gr. tilskipunarinnar feli í sér verulega efnislega breytingu á gildissviði innkaupareglna EB með tilliti til innkaupa á sviði varnarmála. Má einnig benda á í því sambandi að í 14. gr. tilskipunarinnar, sbr. 9. gr. frumvarpsins, er að finna reglu um leynilega samninga og samninga sem krefjast öryggisráðstafana sem mundi yfirleitt einnig koma til skoðunar við opinber innkaup á svið varnarmála.
    Grein frumvarpsins svarar til 10. gr. tilskipunarinnar, þó þannig að ákvæðið gerir ráð fyrir því að í sérlögum kunni í framtíðinni að verða settar heimildir til að víkja frá innkaupareglum, að einhverju eða öllu leyti, með vísan til þeirra hagsmuna sem nánar greinir í 123. gr. meginmáls EES-samningsins. Þannig má hugsa sér að í sérlögum um tiltekna starfsemi, t.d. Landhelgisgæsluna, sé að finna sveigjanlega heimild til að víkja frá innkaupareglum vegna innkaupa sem varða verulega öryggishagsmuni íslenska ríkisins. Einnig mætti hugsa sér að sett séu sérlög um tiltekin innkaup á sviði öryggis- og varnarmála.
    Hafa ber í huga að 123. gr. meginmáls EES-samningsins er undantekningarákvæði sem almennt ber að skýra þröngt. Af þessu leiðir að meta verður í hverju og einu tilviki hvort greinin réttlæti að vikið sé frá almennum innkaupareglum. Ef festar eru í lög heimildir til að víkja frá reglum frumvarpsins um opinber innkaup ber að hafa í huga að slíkar heimildir geta ekki verið almennar eða sjálfvirkar. Verður heimildin því að vera þannig úr garði gerð að unnt sé að meta í hvert og eitt skipti hvort þeir hagsmunir sem greinir í 123. gr. meginmáls EES-samningsins réttlæti að vikið sé frá innkaupareglum. Í gildandi lögum er ekki að finna heimildir sem þessar en við samningu frumvarpsins þótti ekki rétt að útiloka að slíkar heimildir kynnu að verða settar í lög í framtíðinni.

Um 6. gr.

    Greinin svarar til 16. gr. tilskipunarinnar og er efnislega sambærileg 5. mgr. 4. gr. gildandi laga. Í 2. mgr. greinarinnar er gert ráð fyrir því, líkt og í gildandi lögum, að ráðherra hafi svigrúm til að ákveða að ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki hagi innkaupum sínum samkvæmt reglum frumvarpsins þegar um er að ræða innkaup sem að öðrum kosti teldust undanþegin gildissviði laganna.

Um 7. gr.

    Með greininni eru samningar sem falla undir tilskipun nr. 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu felldir undan gildissviði laganna með sambærilegum hætti og gert er í 12. gr. tilskipunarinnar. Líkt og í gildandi lögum er þó gert ráð fyrir því að XIV. og XV. kafli frumvarpsins, þ.e. ákvæði frumvarpsins um málskot til kærunefndar útboðsmála og um gildi samninga og skaðabætur, gildi einnig um þau innkaup sem falla undir tilskipun nr. 2004/17/EB.
    Gert er ráð fyrir því í 3. mgr. greinarinnar að tilskipun nr. 2004/17/EB verði innleidd með reglugerð. Vekja ber athygli á því að á umræddu sviði er í gildi sérstök eftirlitstilskipun nr. 92/13/EBE sem mundi einnig teljast innleidd með umræddri reglugerð og tilvísun reglugerðarinnar til XIV. og XV. kafla þessa frumvarps, verði það að lögum. Þá er rétt að nefna að við innleiðingu tilskipunar nr. 2004/17/EB með reglugerð ber að taka afstöðu til þess hvort nýtt verði heimild 71. gr. tilskipunarinnar til að fresta gildistöku 6. gr. hennar um innkaup aðila sem reka póstþjónustu. Sé sú heimild nýtt eiga reglur frumvarpsins að gilda um þessi innkaup, sbr. 2. mgr. 12. gr. tilskipunarinnar.

Um 8. gr.

    Greinin svarar til 13. gr. tilskipunarinnar sem á rætur sína í þeirri afstöðu framkvæmdastjórnarinnar og Eftirlitsstofnunar EFTA til 8. gr. tilskipunar nr. 38/93/EBE að líta svo á að fyrirtæki sem sinna almennri fjarskiptaþjónustu falli utan innkaupareglna í kjölfar markaðsvæðingar fjarskiptamarkaðarins. Minnt skal á að þau hugtök sem koma fram í greininni eru nánar skýrð í 1. gr. frumvarpsins.

Um 9. gr.

    Greinin svarar til 14. gr. tilskipunarinnar og þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.

    Greinin svarar til 15. gr. tilskipunarinnar og þarfnast ekki skýringa.

Um 11. gr.

    Greinin svarar til 17. gr. tilskipunarinnar sem er nýmæli, en hefur þó verið talin felast í gildandi tilskipunum, sbr. álit framkvæmdastjórnar Evrópubandalagsins 12. apríl 2000. Minnt er á að hugtakið „sérleyfissamningur um þjónustu“ er skýrt í orðskýringagrein frumvarpsins, en hér er fyrst og fremst um það að ræða að endurgjald sérleyfishafa felist í rétti til að nýta þjónustu sem hann hefur tekið að sér að veita með tilteknum hætti, t.d. með því að taka gjald af notendum hennar. Sérleyfishafinn tekur þá fjárhagslega áhættu með tilliti til þess hversu margir nýta sér þá þjónustu sem hann hefði tekið að sér að veita fyrir hið opinbera. Almennt mundi þurfa heimild í lögum til þess að heimilt væri að fela einkaaðila að veita þjónustu sem að öðrum kosti væri í höndum ríkisins og taka fyrir hana gjald af neytendum. Rétt er talið að ráðherra hafi heimild til að setja reglur um gerð sérleyfissamninga um þjónustu að því er varðar ríkið og ríkisstofnanir, t.d. kveða á um að fylgja skuli reglum frumvarpsins að meira eða minna leyti. Minnt er á að reglan um bann við mismunun gildir um veitingu á sérleyfum á þjónustu. Þá ber að árétta að grunnreglur EES-samningsins gilda sem fyrr um þessi viðskipti.

Um 12. gr.

    Ákvæði 12. gr. frumvarpsins svarar til 18. gr. tilskipunarinnar. Reglan er skyld reglunni um samninga „innanhúss“ sem gerð er grein fyrir í athugasemdum við 4. gr. frumvarpsins en er þó víðtækari. Vakin er athygli á því að reglan á aðeins við um þjónustusamninga. Þau fyrirtæki sem keypt er frá verða sjálf að lúta innkaupareglum frumvarpsins svo að heimilt sé að víkja frá innkaupareglum.

Um 13. gr.

    Ákvæði 13. gr. frumvarpsins svarar til 8. gr. tilskipunarinnar. Vakin er athygli á því að aðili sem fjármagnaður er af opinberu fé getur hugsanlega talist til kaupanda í skilningi 3. gr. frumvarpsins og er þá skyldur til að fylgja reglum frumvarpsins án tillits til ákvæða 13. gr. þess.

Um 14. gr.

    Greinin svarar til 2. gr. tilskipunarinnar og felur í sér eina af grunnreglum opinberra innkaupa, sbr. 11. gr. gildandi laga. Rifja má upp að almenn jafnræðisrök liggja til grundvallar fjölmörgum ákvæðum reglna um opinber innkaup, eins og m.a. má álykta af 1. gr. frumvarpsins. Hin almenna jafnræðisregla getur því haft þýðingu við lögskýringu annarra ákvæða frumvarpsins. Í öðrum tilvikum getur hún einnig haft sjálfstæða þýðingu við úrlausn um lögmæti ákvarðana kaupanda. Sem dæmi um þetta má nefna álitaefni um heimildir ráðgefandi aðila, sem aðstoðað hafa kaupanda við innkaup, til að taka þátt í útboði á þeim innkaupum (ráðgjafavanhæfi), sbr. t.d. álit kærunefndar útboðsmála 11. september 2002 í máli nr. 14/2002 og úrskurði nefndarinnar 17. febrúar 2005 í máli nr. 46/2004 og 9. desember 2005 í máli nr. 38/2005.
    2. mgr. greinarinnar felur í sér áréttingu á því að það teljist ekki andstætt jafnræði að áskilja að vara sé afhent, þjónusta veitt eða verk unnið á tilteknum stað, enda byggist slíkur áskilnaður á málefnalegum ástæðum, sbr. 2. mgr. 11. gr. gildandi laga. Kaupandi sem staðsettur er á ákveðnum stað getur þannig alla jafnan gert kröfu til þess að vara sé afhent honum á viðkomandi stað eða þjónusta innt af hendi þar án þess að um mismunun sé að ræða. Gildir þá einu þótt þeir aðilar sem eru með starfsstöð eða útibú á viðkomandi stað njóti hagræðis þegar kemur að því að setja fram tilboð.

Um 15. gr.

    Í samræmi við 5. gr. tilskipunarinnar er því slegið föstu í greininni að einstaklingar og lögaðilar með staðfestu í einhverju ríkja Evrópska efnahagssvæðisins eða aðildarríkja stofnsamnings Fríverslunarsamtaka Evrópu skuli ekki njóta lakari réttar en fyrirtæki frá öðrum ríkjum, sbr. einkum samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO) um opinber innkaup. Þá er í greininni veitt heimild til að innleiða með reglugerð umræddan samning WTO og aðra milliríkjasamninga um opinber innkaup, ef þeim er að skipta. Er þetta í samræmi við 8. gr. gildandi laga.

Um 16. gr.

    Greinin svarar til 3. gr. tilskipunarinnar og þarfnast ekki skýringa.

Um 17. gr.

    Ákvæði greinarinnar svara til 6. gr. tilskipunarinnar að öðru leyti en því að tekið hefur verið fram að ákvæði um trúnaðarskyldu haggi ekki skyldu aðila til að afhenda kærunefnd útboðsmála upplýsingar skv. 95. gr. Einnig er tekið fram að þetta ákvæði hafi ekki áhrif á skyldu aðila til að leggja fram gögn samkvæmt ákvæðum upplýsingalaga, nr. 50/1996, en slíka niðurstöðu leiðir raunar einnig af 3. mgr. 2. gr. upplýsingalaga.

Um 18. gr.

    Ákvæði 18. gr. frumvarpsins svarar til 19. gr. tilskipunarinnar. Vakin er athygli á því að greinin veitir ekki heimild til að víkja alfarið frá innkaupareglum heldur gerir ráð fyrir því að þátttaka í einhverju því innkaupaferli sem lögin kveða á um sé takmörkuð við verndaða vinnustaði eða þá að samningur miði við að framkvæmd hans fari fram í samræmi við áætlanir um verndaða vinnustaði.

Um 2. þátt.

    Í þessum þætti er kveðið á um fyrirkomulag opinberra innkaupa undir viðmiðunarfjárhæðum Evrópska efnahagssvæðisins. Í samræmi við þá almennu stefnumörkum sem greint er frá í almennum athugasemdum taka ákvæði þáttarins að meginstefnu mið af ákvæðum tilskipunarinnar. Sömu reglur eiga því við áætlun samningsfjárhæða vegna innkaupa innanlands, enda þótt viðmiðunarfjárhæðir vegna þessara innkaupa séu að sjálfsögðu aðrar og lægri en vegna innkaupa á Evrópska efnahagssvæðinu. Þá gilda sömu reglur um nánari framkvæmd innkaupa, t.d. með tilliti til heimilda til samningskaupa eða beitingar á öðrum innkaupaferlum, gerð útboðsgagna og val á tilboðum. Samkvæmt þessu eru það fyrst og fremst reglur um tilkynningar og auglýsingar sem eru aðrar vegna innkaupa sem fram fara á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. 3. þátt frumvarpsins.

Um 19. gr.

    Ákvæði greinarinnar svara að mestu til ákvæða í 9., 10. og 12. gr. gildandi laga. Rétt er að árétta að ekki er gert ráð fyrir því að gerð sérleyfissamninga um verk undir viðmiðunarfjárhæðum EES verði háð sérstökum reglum nema sérstaklega verði kveðið á um það í reglugerð sem veitt er heimild fyrir í 2. mgr. greinarinnar. Í 80. gr. frumvarpsins eru hins vegar innleiddar reglur tilskipunarinnar um gerð sérleyfissamninga um verk yfir viðmiðunarfjárhæðum EES. Sérleyfissamningar um þjónustu eru að meginstefnu undanskildir reglum frumvarpsins, sbr. 11. gr. Hönnunarsamkeppni er í raun réttri ekki innkaupaferli. Þar sem hönnunarsamkeppni getur hins vegar verið undanfari opinberra innkaupa er nauðsynlegt að í þessum þætti frumvarpsins séu ákvæði um hönnunarsamkeppni, sbr. athugasemdir við 37. gr.

Um 20. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 21. gr.

    Greinin tekur mið af 22. gr. tilskipunarinnar sem felur í sér óbreytta reglu frá gildandi tilskipunum. Minnt skal á að fjarskiptaþjónusta er ekki lengur skilgreind sem „B-þjónusta“. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki sérstakra skýringa.

Um 22. gr.

    Greinin er efnislega sambærileg við 13. gr. gildandi laga. Nauðsynlegt er að árétta að þótt innkaup séu undir viðmiðunarfjárhæðum eiga grunnreglur EES-samningsins, sbr. lög nr. 2/1993, allt að einu við. Því þykir rétt að taka af tvímæli um að virða skuli jafnræði fyrirtækja og fara að reglum frumvarpsins um tækniforskriftir þannig að ekki sé um tæknilegar viðskiptahindranir að ræða við þessi opinberu innkaup. Þótt ekki sé kveðið á um skyldu til að auglýsa innkaup í greininni gæti slík skylda allt að einu falist í kröfunni um jafnræði eins og hún verður skýrð með hliðsjón af grunnreglum EES-samningsins. Þannig verður kaupandi að meta í hvert og eitt skipti hvort samningur kunni að vera þess eðlis (fyrst og fremst vegna verðgildis) að hann kynni að vekja áhuga fleiri fyrirtækja þannig að eðlilegt sé að auglýsa hann (t.d. á vefsíðu sinni) eða þá hvort hann ákveður að bjóða tilteknum hópi bjóðenda að leggja fram tilboð þannig að samkeppni sé tryggð. Við slíkar aðstæður verður kaupandi einnig að beita hlutrænum aðferðum við mat á tilboðum þannig að jafnræði sé tryggt. Hér má til hliðsjónar vísa til leiðbeininga framkvæmdastjórnarinnar um innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum frá 1. ágúst 2006 (2006/C 179/02).

Um 23.–29 gr.

    Í þessum greinum frumvarpsins er að finna ákvæði sem svara í flestum tilvikum efnislega til ákvæða 9. gr. tilskipunarinnar, þó þannig að forðast hefur verið að breyta þeirri framsetningu sem er að finna í gildandi lögum, sbr. 14.–17. gr. laga nr. 94/2001, þegar umrædd ákvæði tilskipunarinnar hafa ekki kallað á breytingar. Hér er sem fyrr fylgt þeirri stefnu að nota reglur tilskipunarinnar jafnvel þótt um sé að ræða innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum EES. Minnt skal á að verk-, vöru- og þjónustusamningar eru skilgreindir í 4. gr. frumvarpsins. Í 27. gr. frumvarpsins er að finna sérreglu um innkaup sem skipt er upp í fleiri áfanga. Þessi regla er efnislega sú sama og fram kemur í 5. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar, þó þannig að ekki er kveðið á um hámarksfjárhæð einstakra áfanga. Að öðru leyti þykir ekki ástæða til sérstakra skýringa við þessar greinar frumvarpsins.

Um V. kafla.

    Í kaflanum er safnað saman reglum um þau innkaupaferli sem til greina koma við framkvæmd opinberra innkaupa, en þessi fyrirmæli er að finna í 18.–22. gr. gildandi laga. Með tilkomu tilskipunarinnar eru þessi fyrirmæli nú orðin svo umfangsmikil að hentugast þykir að skipa þeim í sérstakan kafla. Eins og í gildandi lögum er meginreglan sú að opinber innkaup eiga að fara fram með almennu eða lokuðu útboði að undangengnu forvali. Einnig er heimilt að kaupa inn á grundvelli rammasamnings eða samkvæmt svokölluðu gagnvirku innkaupakerfi, enda er rammasamningum og gagnvirkum innkaupakerfum komið á fót með ferlum sem jafna má til útboðs. Samkvæmt þessu eru heimildir til þess að nota önnur innkaupaferli, þ.e. samkeppnisviðræður og samningskaup, undantekningar sem alla jafnan ber að skýra þrengjandi. Í kaflanum er einnig að finna ákvæði um hönnunarsamkeppni. Þótt hönnunarsamkeppni sé í raun réttri ekki innkaupaferli eru tengslin við innkaup þó svo náin að rétt þykir að hafa þessi ákvæði í þessum kafla.

Um 30. gr.

    Greinin svarar efnislega til 28. gr. tilskipunarinnar. Í greininni er þannig lögfest sú meginregla að opinber innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum skuli fara fram með almennu eða lokuðu útboði, en aðeins sé heimilt að nota aðra innkaupaferla, þ.e. samkeppnisviðræður eða samningskaup, þegar sérstök heimild sé til þess í lögunum. Til áréttingar er tekið fram að einnig sé heimilt að kaupa inn á grundvelli rammasamnings og gagnvirks innkaupakerfis þótt innkaup séu yfir viðmiðunarfjárhæðum, en slíka niðurstöðu leiðir þó einnig af samræmisskýringu við 34. og 35. gr. frumvarpsins.

Um 31. gr.

    Ákvæði greinarinnar svara til 29. gr. tilskipunarinnar sem er nýmæli, eins og rakið er í almennum athugasemdum. Með þessu útboði er leitast við að skapa meiri sveigjanleika við gerð stærri og flóknari samninga þar sem almennt eða lokað útboð hentar illa þörfum kaupanda, en heimildir til samningskaupa eru allt að einu ekki fyrir hendi. Heimild til samkeppnisviðræðna er bundin við „sérlega flókna samninga“, eins og þeir eru nánar skilgreindir í 1. mgr. greinarinnar sem svarar til c-liðar 11. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Um sérlega flókna samninga er annars vegar að ræða þegar ekki er mögulegt með hlutlægum hætti að skilgreina þau tæknilegu atriði sem fullnægt geta þörfum eða markmiðum kaupanda. Hér er átt við að kaupandi geti ekki, án þess að honum verði um það kennt, áttað sig á því hvort og með hvaða hætti fyrirtæki á markaði geti fullnægt þörfum og markmiðum hans, t.d. þegar um er að ræða flókin samgöngumannvirki eða tölvukerfi. Honum er því erfitt eða ómögulegt að setja fram nákvæma útboðslýsingu. Hins vegar er um sérlega flókna samninga að ræða þegar kaupandi getur ekki skilgreint lagalega eða fjárhagslega gerð samnings. Þetta mundi eiga við þegar um er að ræða flókin fjárhagsleg og lagaleg atriði í samningi sem erfitt eða ómögulegt er að slá föstum í upphafi, t.d. þegar óljóst er hver eigi að reka mannvirki sem á að reisa. Ákvörðun um hvort um sérlega flókinn samning er að ræða verður að byggjast á heildarmati á innkaupum hverju sinni. Nánari viðmið um hvenær samningur telst sérlega flókinn munu vafalaust þróast í stjórnsýslu- og dómaframkvæmd næstu ár.
    Eins og áður greinir er heimild til samkeppnisviðræðna undantekning frá þeirri meginreglu að innkaup skuli fara fram með almennu eða lokuðu útboði. Þótt reglan sé þannig strangt til tekið undantekningarregla ber að hafa í huga að með ákvæðum tilskipunarinnar um samkeppnisviðræður er verið að skapa aukinn sveigjanleika í opinberum innkaupum við aðstæður þar sem unnt hefði verið að viðhafa almennt eða lokað útboð, andstætt því sem venjulega á við um samningskaup. Ganga því rök ekki endilega í þá átt að skýra heimildir til samkeppnisviðræðna eins strangt og heimildir til samningskaupa, sbr. 32. og 33. gr. frumvarpsins. Er því líklegt að samkeppnisviðræður verði oft notaðar þegar vafi er um hvort heimilt sé að viðhafa samningskaup. Minnt er á að þegar samkeppnisviðræður eru notaðar við innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu er skylt að greina frá ástæðum þess að samkeppnisviðræður voru notaðar við innkaup, sbr. h-lið 43. gr. tilskipunarinnar.
    Reglur 2.–9. mgr. um framkvæmd samningskaupa hafa það að leiðarljósi að jafnræði þátttakenda sé virt, sbr. einkum ákvæði 4. mgr. Í stað þess að kaupandi gangi frá útboðsgögnum er gert ráð fyrir því í 2. mgr. að hann skilgreini þarfir sínar og aðrar kröfur í útboðsauglýsingu og/eða skýringargögnum. Í þessum gögnum verða forsendur fyrir vali tilboðs einnig að koma fram, sbr. 8. mgr. Gilda um þessar forsendur almennar reglur, sbr. 45. gr. frumvarpsins. Í upphafi tekur kaupandi afstöðu til þess hverjir fái að taka þátt í samkeppnisviðræðum. Er þessi áfangi samningskaupa fyllilega sambærilegur við forval vegna lokaðs útboðs, sbr. 56. gr. frumvarpsins. Að loknum þessum áfanga taka hinar eiginlegu samkeppnisviðræður við. Kaupandi getur ákveðið að þetta ferli fari fram í fleiri áföngum, sbr. 5. mgr. Við þessar aðstæður verður að gæta þess vandlega að forsendum fyrir tilboðum sé ekki raskað svo að gengið sé gegn jafnræði, sbr. til hliðsjónar þau viðmið sem fram koma í lokaorðum 7. mgr. Val á þátttakendum á milli áfanga verður að byggjast á þeim valforsendum sem tilkynntar voru í upphafi. Þegar kaupandi hefur afmarkað þá lausn sem hann telur geta fullnægt þörfum sínum, sbr. 6. mgr., lýsir hann viðræðum lokið og þátttakendur leggja fram tilboð. Um þennan síðasta áfanga innkaupaferilsins gilda sambærilegar reglur og um útboð almennt, sbr. 7. og 8. mgr. Þátttakendum er þó heimilt að skýra, skilgreina og laga til tilboð sín eftir beiðni kaupanda, en slíkar athugasemdir mega ekki fela í sér breytingar á grundvallarþáttum tilboðs þannig að samkeppni sé raskað eða um mismunun verði að ræða. Velja ber tilboð á grundvelli upphaflegra valforsendna í samræmi við 72. gr. frumvarpsins, sbr. 8. mgr. Eiga þannig sömu reglur við um val tilboðs í samkeppnisviðræðum og almennum og lokuðum útboðum.
    Við framkvæmd samkeppnisviðræðna væri það í samræmi við góða stjórnsýsluhætti að halda sérstaka fundargerð um alla fundi þar sem fram kæmu upplýsingar t.d. um hverjir hafi setið fundi, efni fundarins og hvaða gögn og upplýsingar hafi verið kynnt fundarmönnum. Vanræksla á að halda slíka fundargerð gæti haft það í för með sér að sönnunarstaða opinbers aðila yrði erfið ef lögmæti framkvæmdar samkeppnisviðræðna yrði vefengd.

Um 32. gr.

    Ákvæði greinarinnar svara til 30. gr. tilskipunarinnar, en 1. mgr. þeirrar greinar er efnislega óbreytt frá gildandi reglum. Samkvæmt þessu eru þær reglur sem fram koma í 1. og 2. mgr. greinarinnar efnislega sambærilegar því sem fram kemur í 19. gr. gildandi laga. Má vísa til athugasemda við það frumvarp sem varð að lögum nr. 94/2001 um nánari skýringar á heimildum til samningskaupa að undangenginni útboðsauglýsingu.

Um 33. gr.

    Ákvæði greinarinnar svara til 31. gr. tilskipunarinnar, en þar hefur verið safnað saman heimildum úr gildandi tilskipunum til samningskaupa án undanfarandi birtingar útboðsauglýsingar. Eru fyrirmæli greinarinnar því að mestu efnislega sambærileg 20. gr. gildandi laga. Í nokkrum tilvikum er þó um að ræða nýjar heimildir til samningskaupa, sbr. c- og d- liði 2. mgr. Að öðru leyti má vísa til athugasemda við það frumvarp sem varð að lögum nr. 94/2001.

Um 34. gr.

    Ákvæði greinarinnar svara til 32. gr. tilskipunarinnar sem er nýmæli í rétti EB. Í 22. gr. gildandi laga hafa hins vegar verið fyrir hendi ákvæði um rammasamninga. Í 3. málsl. 1. mgr. er þó tekið upp efnislega óbreytt ákvæði 3. mgr. 22. gildandi laga. Hið nýja ákvæði tilskipunarinnar gerir ráð fyrir mjög svipuðu fyrirkomulagi og tíðkast hefur samkvæmt gildandi íslenskum rétti. Þannig felur greinin í sér þá grunnhugsun að þar sem rammasamningar séu gerðir að undangengnu almennu eða lokuðu útboði sé hægt að líta svo á að fullnægt hafi verið útboðsskyldu við gerð einstakra samninga sem gerðir eru á grundvelli þeirra. Ekki verður séð að gera þurfi grundvallarbreytingar á því rammasamningskerfi sem rekið hefur verið hér á landi af Ríkiskaupum. Hins vegar eru reglur frumvarpsins með ýmsum hætti rýmri en gildandi reglur og gefa því möguleika á sveigjanlegri rammasamningum en tíðkast hefur. Rammasamninga má gera um kaup á vörum, þjónustu eða verkum og má gera að undangengnu hvaða útboðsferli sem er að fullnægðum þeim skilyrðum sem við eiga.
    Samkvæmt greininni er heimilt að gera rammasamning við einn aðila eða fleiri, en þá skuli þeir vera að lágmarki þrír. Rammasamningur við fleiri aðila getur verið tvenns konar. Annars vegar getur rammasamningur verið með fastákveðnum skilmálum. Kaupendur samkvæmt rammasamningi geta þá valið um það til hverra rammasamningshafa þeir leita. Hér má t.d. hugsa sér að samið sé við fleiri aðila með það að markmiði að unnt sé að nálgast tiltekna vöru eða þjónustu á sem flestum stöðum á landinu. Hins vegar kann rammasamningur við fleiri aðila að vera óákveðinn um tiltekin atriði, t.d. verð eða tiltekna eiginleika. Við þessar aðstæður gilda reglur lokamálsgreinarinnar. Verður kaupandi þannig að láta fara fram svokallað örútboð milli rammasamningshafa. Leggja ber áherslu á að í þessu örútboði ber að meta tilboð á grundvelli þeirra skilmála og valforsendna sem fram koma í rammasamningi. Það athugast að með þessu er ekki átt við að tilboð í rammasamningsútboði verði nauðsynlega að meta á sama grundvelli og tilboð í örútboði. Til dæmis má hugsa sér að í rammasamningsútboði séu tilboð metin með hliðsjón af gæðum og afhendingartíma, en verð sé látið vera óákveðið og verði valforsenda í örútboði. Unnt er að láta slík útboð fara fram með rafrænum hætti í samræmi við 2. mgr. 70. gr. um rafræn uppboð og skv. 35. gr. um útboð í gagnvirku innkaupakerfi.
    Í samræmi við meginreglur íslensks samningaréttar hefur verið litið svo á að aðilar rammasamnings ættu ekki sjálfdæmi um hvort þeir keyptu inn samkvæmt rammasamningi eða skiptu við aðra aðila. Þeir opinberu aðilar sem á annað borð eru aðilar að rammasamningi eða kerfi fleiri rammasamninga verða samkvæmt þessu að kaupa inn á grundvelli rammasamnings og geta t.d. ekki farið í sjálfstætt útboð vegna vöru eða þjónustu sem fellur undir rammasamning. Af þessum sökum verður seint lögð of mikil áhersla á það að það sé skýrt til hvaða vöru eða þjónustu rammasamningur tekur. Samkvæmt almennum reglum verður einnig að telja heimilt að í rammasamningi sé áskilinn réttur til að kaupa af öðrum en rammasamningshöfum, án þess að það þurfi sérstaklega að taka fram í lagatexta.

Um 35. gr.

    Ákvæði greinarinnar svara til 33. gr. tilskipunarinnar sem er nýmæli. Rétt þykir að taka þessa heimild tilskipunarinnar upp í íslensk lög, enda þótt ekkert liggi fyrir um það á þessari stundu að hún verði nýtt.

Um 36. gr.

    Ákvæði greinarinnar svara til 34. gr. tilskipunarinnar sem felur í sér efnislega óbreytta reglu frá gildandi tilskipunum, sbr. 58. gr. gildandi laga.

Um 37. gr.

    Ákvæði greinarinnar eiga sér fyrirmynd í 66.–74. gr. tilskipunarinnar, en þó er vikið frá reglum tilskipunarinnar á nokkrum stöðum til einföldunar. Í 81. gr. frumvarpsins er vísað til beint reglna tilskipunarinnar varðandi hönnunarsamkeppni yfir viðmiðunarfjárhæðum EES- samningsins. Þegar um er að ræða hönnunarsamkeppnir yfir viðmiðunarfjárhæðum EES ber því að fara beint eftir umræddum reglum tilskipunarinnar en ekki ákvæðum þessarar greinar.

Um 38. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 23. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa. Minnt skal á að því aðeins er heimilt að leggja fram frávikstilboð að tekið sé fram í útboðsgögnum að það sé leyfilegt.

Um 39. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 25. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 40. gr.

    Hér eru tekin upp ákvæði 23. gr. tilskipunarinnar um tækniforskriftir. Með fáum undantekningum er um að ræða sömu reglur og fram koma í gildandi tilskipunum, sbr. 24. gr. gildandi laga, þó þannig að í nokkrum tilvikum er framsetning önnur.

Um 41. gr.

    Greinin svarar til 24. gr. tilskipunarinnar sem felur í sér nokkuð breyttar reglur um frávikstilboð, sbr. 27. gr. gildandi laga. Meginbreytingin er sú að kaupandi verður nú að taka það skýrt fram ef hann hyggst leyfa frávikstilboð, en samkvæmt gildandi reglum væri litið svo á að frávikstilboð væru leyfð nema annað kæmi fram af hálfu kaupanda.
    Líkt og samkvæmt gildandi reglum koma frávikstilboð aðeins til greina þegar tilboð er metið á grundvelli fjárhagslegrar hagkvæmni, t.d. endingar, magns og gæða, en ekki eingöngu verðs. Eigi að meta tilboð eingöngu á grundvelli verðs leiða hvers konar frávik frá útboðsskilmálum til þess að tilboð verða í raun ósamanburðarhæf. Er því ekki um að ræða breytingu á reglum hvað þetta varðar. Í annan stað verða frávikstilboð ætíð að fullnægja þeim lágmarkskröfum sem kaupandi gerir til þess sem óskað er kaupa á, t.d. hvað varðar öryggi, notagildi og endingu, og tilgreindar eru í útboðsgögnum. Tilboð sem ekki fullnægir þessum efnislegu kröfum mundi því teljast í verulegu ósamræmi við útboðsgögn. Taka ber fram að hér er ekki átt við þá aðstöðu að vara sé að einhverju leyti í ósamræmi við þá staðla sem vísað er til en fullnægi allt að einu þeim öryggiskröfum sem stöðlunum er ætlað að tryggja, sbr. nánar 4. mgr. 40. gr. Þegar frávikstilboð eru leyfð verður því að liggja skýrt fyrir frá hvaða kröfum útboðslýsingar má víkja með frávikstilboði og frá hvaða kröfum má ekki víkja (þ.e. hverjar lágmarkskröfur til hins keypta eru).

Um 42. gr.

    Greinin svarar til 25. gr. tilskipunarinnar sem er í samræmi við gildandi reglur og þarfnast ekki skýringar.

Um 43. gr.

    Greinin svarar til 26. gr. tilskipunarinnar sem er nýmæli.

Um 44. gr.

    Greinin svarar til 27. gr. tilskipunarinnar sem felur í sér nokkrar breytingar frá gildandi reglum tilskipananna um þetta efni.

Um 45. gr.

    Þessi grein ásamt 72. gr. frumvarpsins fela sameiginlega í sér reglur sem svara til 53. gr. tilskipunarinnar. Um er að ræða nokkrar breytingar frá gildandi reglum, sbr. 26. gr. gildandi laga. Í fyrsta lagi er orðalagi tilskipunarinnar fylgt og taldar upp þær forsendur sem geta komið til greina þegar miðað er við fjárhagslega hagkvæmni, en ekki aðeins verð. Ekki er um tæmandi talningu að ræða. Um leyfilegar forsendur að þessu leyti liggur fyrir talsverð dómaframkvæmd Evrópudómstólsins sem getur verið til leiðbeiningar en ekki er unnt að rekja hér (hér skal þó vísað til dóms Evrópudómstólsins 17. september 2002 í máli nr. C- 513/99, Concordia Bus Finland Oy). Einnig liggja fyrir leiðbeiningar framkvæmdastjórnar EB um notkun á félagslegum atriðum við opinber innkaup og um beitingu umhverfisverndarsjónarmiða við opinber innkaup þar sem fjallað er um leyfilegar forsendur fyrir vali á tilboðum (sbr. COM/2001/0566 og COM/2001/0274). Meginsjónarmið er að forsendur fyrir vali tilboðs verða ávallt að tengjast hinu keypta, eins og kemur fram í frumvarpstextanum. Þannig er t.d. ekki leyfilegt við innkaup á bifreið að velja tilboð með hliðsjón af því hvaða bjóðandi styrkir skógrækt hvað mest. Hins vegar mundi vera heimilt að líta til þess hvort hin keypta bifreið losi meira eða minna af mengandi lofttegundum o.s.frv. Vakin er athygli á því að almennt er skylt að tilgreina hlutfallslegt vægi hvers viðmiðs sem vísað er til sem forsendu fyrir vali tilboðs, en samkvæmt gildandi reglum hefur einungis verið skylt að raða þeim eftir mikilvægi. Með hliðsjón af þeirri kröfu að forsendur séu tilgreindar eins nákvæmlega og framast er unnt er kaupanda þröngur stakkur skorinn við að ákveða vikmörk hlutfallslegs vægis forsendna, sbr. 3. mgr. Hér má einnig nefna að notkun á vikmörkum má ekki leiða til þeirrar niðurstöðu að vægi forsendna verði óljósara en þegar þeim er raðað upp eftir mikilvægi. Í öllu falli mega vikmörk ekki leiða til þeirrar niðurstöðu að í raun sé hugsanlegum bjóðendum ógerningur að átta sig á því hvert hlutfallslegt vægi fleiri forsendna fyrir vali tilboðs er.

Um VII. kafla.

    Í þessum kafla er að finna reglur sem lúta að skilyrðum fyrir því að fyrirtæki geti tekið þátt í útboði. Í tilskipuninni ber sá þáttur þar sem þessar reglur er að finna yfirskriftina „forsendur fyrir hæfismiðuðu vali“ (e. criteria for qualitative selection). Er þá vísað til þess að um er að ræða reglur sem lúta að vali á þeim sem leggja eða kunna síðar að leggja fram tilboð án tillits til þess hver tilboð þeirra eru eða munu verða. Hér er orðið „hæfi“ notað yfir þessar kröfur, svo sem gert er í gildandi lögum. Ástæða er til að árétta að skylt er að halda hæfiskröfum annars vegar og forsendum fyrir vali tilboðs hins vegar vandlega aðskildum í útboðsgögnum og við yfirferð tilboða (sbr. einkum dóm Evrópudómstólsins 20. september 1998 í máli nr. C-31/87, Beentjes BV). Ef þátttakandi eða bjóðandi telst á annað borð hæfur til að leggja fram tilboð verður að meta tilboð hans sjálfstætt í samræmi við forsendur fyrir vali tilboðs. Ekki er heimilt að meta tilboð með hliðsjón af kröfum til hæfis bjóðanda, t.d. kröfum varðandi fjárhagslega og tæknilega getu.

Um 46. gr.

    Greinin svarar til 4. gr. tilskipunarinnar sem þykir hentugt að skipa í þennan kafla frumvarpsins vegna efnis síns. Í 2. mgr. er þó bætt við þeirri afmörkun að þegar fleiri fyrirtæki standa saman að tilboði teljist þau bera ábyrgð eitt fyrir öll og öll fyrir eitt á efndum samnings. Jafnframt er sérstaklega áréttað að kaupanda sé heimilt að krefjast þess að eitt fyrirtæki komi fram fyrir hönd hinna við framkvæmd samnings og standi kaupanda öll skil. Er þessi afmörkun í samræmi við 46. gr. gildandi laga sem telja verður fyllilega samrýmanlega tilskipuninni.

Um 47. gr.

    Greinin svarar til 45. gr. tilskipunarinnar og er hér um að ræða nokkrar breytingar frá gildandi reglum, sbr. 28. gr. gildandi laga. Í 1. mgr. er að finna það nýmæli að skylt sé að vísa fyrirtæki frá innkaupaferli sem kaupanda er kunnugt um að hafi verið sakfellt með endanlegum dómi fyrir ákveðin brot sem talin eru upp. Í 1. mgr. 45. gr. tilskipunarinnar er vísað til tveggja sameiginlegra aðgerða ráðsins, eins milliríkjasamnings og tilskipunar nr. 91/308/ EBE um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til peningaþvættis um nánari afmörkun á þessum brotum (til 1. mgr. 2. gr. sameiginlegrar aðgerðar ráðsins nr. 98/733 að því er varðar hugtakið „þátttaka í skipulögðum brotasamtökum“; til 3. gr. sameiginlegrar aðgerðar ráðsins nr. 98/742 að því er varðar hugtakið „spilling“; til 1. gr. samnings um vernd fjárhagslegra hagsmuna Evrópubandalaganna að því er varðar hugtakið „sviksemi“ og til tilskipunar nr. 91/308/EBE að því er varðar hugtakið „peningaþvætti“). Kemur fram í 1. mgr. 45. gr. tilskipunarinnar að ríkin skuli ákveða hvernig ákvæði málsgreinarinnar séu leidd í innlend lög. Aðeins ein þessara gerða er hluti af EES-samningnum, þ.e. tilskipun nr. 91/308/EBE sem einkum er leidd í íslensk lög með lögum nr. 80/1993, um peningaþvætti, en hugtakið peningaþvætti er þar skilgreint í 2. gr. Önnur brot sem vísað er til í 1. mgr. eru hins vegar ekki sérstaklega afmörkuð í íslenskri refsilöggjöf. Verður því að taka afstöðu til þess hverju sinni hvort fyrirtæki hafi verið sakfellt með endanlegum dómi fyrir brot sem svara til „þátttöku í skipulögðum brotasamtökum“, „spillingar“ eða „sviksemi“. Í vafatilvikum mætti hafa hliðsjón af þeirri nánari afmörkun sem fram kemur í framangreindum yfirlýsingum ráðherraráðsins og milliríkjasamningi. Í 2.–5. mgr. er að finna reglur sem svara að mestu til 28. gr. núgildandi laga. Er þar aðeins kveðið á um heimild til að vísa fyrirtæki frá opinberum innkaupum en ekki skyldu, svo sem leiðir af 1. mgr. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 48. gr.

    Greinin svarar til 46. gr. tilskipunarinnar.

Um 49. gr.

    Greinin svarar til 47. gr. tilskipunarinnar og felur í sér nokkrar breytingar á gildandi reglum, sbr. 30. gr. gildandi laga. Í tilskipuninni er ekki að finna reglu um hvaða kröfur sé leyfilegt að gera til fjárhagslegrar getu fyrirtækja, heldur er einungis kveðið á um með hvaða hætti, þ.e. með hvers konar gögnum, fyrirtæki getur sýnt fram á getu sína. Í upphafi greinarinnar er því að finna þá nánari afmörkun að fjárhagsstaða fyrirtækis skuli vera það trygg að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda og að ekki skuli krefjast frekari gagna um sönnun á fjárhagslegri getu en nauðsynlegt er með hliðsjón af eðli og umfangi fyrirhugaðra innkaupa. Er hér um að ræða óbreyttar reglur frá gildandi lögum sem telja verður að samrýmist fyllilega tilskipuninni.

Um 50. gr.

    Greinin svarar til 48. gr. tilskipunarinnar og felur í sér nokkrar breytingar á gildandi reglum, sbr. 31. gr. gildandi laga. Í tilskipuninni er ekki að finna reglu um hvaða kröfur sé leyfilegt að gera til tæknilegrar getu fyrirtækja, heldur er einungis kveðið á um með hvaða hætti, þ.e. með hvers konar gögnum, fyrirtæki getur sýnt fram á getu sína. Í upphafi greinarinnar er því að finna þá nánari afmörkun að tæknileg geta fyrirtækis skuli vera það trygg að það geti staðið við skuldbindingar sínar gagnvart kaupanda. Er hér um að ræða óbreyttar reglur frá gildandi lögum sem telja verður að samrýmist fyllilega tilskipuninni.

Um 51. gr.

    Greinin svarar til 49. gr. tilskipunarinnar sem þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 52. gr.

    Greinin svarar til 50. gr. tilskipunarinnar sem er nýmæli, en þarfnast ekki skýringa að öðru leyti.

Um 53. gr.

    Greinin svarar til 51. gr. tilskipunarinnar, en þarfnast ekki skýringa að öðru leyti.

Um 54. gr.

    Í greininni er fjallað um opinbera lista yfir viðurkennd fyrirtæki og vottorð opinberra og einkaréttarlegra stofnana, sbr. 52. gr. tilskipunarinnar. Ekki er um slíka lista eða vottorð að ræða hér á landi og er því ekki nauðsynlegt að taka upp ákvæði tilskipunarinnar um tilurð slíkra lista og vottorða.

Um 55. gr.

    Hér er um að ræða reglu sem ekki er vísað til í 3. þætti laganna, þ.e. á ekki við um innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum EES. Greinin felur í sér óbreytta reglu frá 33. gr. gildandi laga.

Um 56. gr.

    Í greininni er að finna ítarlegri reglur um forval en eru í gildandi lögum, sbr. 34. Í 1. mgr. greinarinnar er áréttað að við lokað útboð, samkeppnisviðræður og samningskaup að undangenginni opinberri tilkynningu skuli velja þátttakendur með forvali í samræmi við nánari ákvæði greinarinnar. Í 2. mgr. kemur fram sú regla um auglýsingu forvals sem einungis á við um innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum EES. Ákvæði 3.–6. mgr. greinarinnar svara til 2.–4. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar.
    Samkvæmt 3. og 4. mgr. er heimilt að takmarka fjölda þeirra sem valdir eru í forvali. Ekki er ljóst af ákvæðum tilskipunarinnar hvernig standa ber að þessu vali þátttakenda að öðru leyti en því að valið verður að byggjast á málefnalegum og óhlutdrægum skilyrðum sem fram koma í auglýsingu, forvals- eða skýringargögnum. Hér má hugsa sér að fjárhagsleg og tæknileg geta sé látin ráða vali. Slíkar valforsendur í forvali geta verið vafasamar með tilliti til hagsmuna smærri fyrirtækja sem allt að einu hafa nægilega fjárhagslega og tæknilega burði til að framkvæma samning. Í annan stað má hugsa sér að kaupandi leitist við að ná ákveðinni fjölbreytni í hóp þátttakenda með vísan til einhverra hlutrænna atriða. Þá kemur til greina að notað sé hlutkesti við að velja þann fjölda sem kveðið hefur verið á um í auglýsingu eða öðrum gögnum. Slík aðferð getur þó vart talist heppileg með vísan til kröfunnar um að valið fari fram á málefnalegum grundvelli. Samkvæmt framangreindu eru heimildir til að takmarka fjölda í forvali vandmeðfarnar. Vart er ástæða til að nýta þessa heimild nema fyrirsjáanlegt sé að fjöldi þátttakenda verði úr hófi íþyngjandi fyrir innkaupaferlið.

Um 57.–67. gr.

    Í þessum greinum er að finna óbreyttar reglur frá gildandi lögum, sbr. VII. kafla þeirra. Í 66. gr. er þó nú tekið fram að tilboð skuli vera undirritað af þar til bærum aðila. Þegar um er að ræða tilboð einstaklings mundi hann þannig sjálfur undirrita tilboð. Þegar um er að ræða tilboð lögaðila, t.d. hlutafélags, fer það eftir samþykktum aðilans og almennum reglum félagaréttar hverjir teljast hafa heimild til þess að skuldbinda hann.

Um 68. gr.

    Greinin kemur í stað 48. gr. gildandi laga og fylgir 42. gr. tilskipunarinnar. Það athugast að í c-lið 5. mgr. þeirrar greinar er aðildarríkjunum veitt heimild til að koma fót sérstöku vottunarkerfi, en ekki þykir ástæða til að nýta þá heimild, sbr. þá almennu stefnu sem mörkuð hefur verið um rafræna stjórnsýslu, sbr. lög nr. 51/2003, um breytingu á stjórnsýslulögum, nr. 37/1993 (rafræn stjórnsýsla).

Um 69. gr.

    Í 2. mgr. greinarinnar er kveðið á um hvernig skuli standa að kynningu tilboða sem gerð hafa verið með rafrænum hætti. Minnt er á að skv. 68. gr. frumvarpsins skal tryggja nafnleynd tilboða og ganga þannig frá rafrænum útboðum að kaupandi geti ekki kynnt sér tilboð fyrr en að loknum tilboðsfresti.

Um 70. gr.

    Greinin svarar til 54. gr. tilskipunarinnar. Rétt þykir að festa í íslensk lög heimild tilskipunarinnar til rafræns uppboðs þótt ekkert liggi fyrir á þessari stundu um hvort og að hvaða marki þessi heimild verði nýtt.

Um 71. gr.

    Greinin kemur í stað 49. gr. gildandi laga. Í greininni er nú orðalagi 1. mgr. 44. gr. tilskipunarinnar fylgt í stað þess að láta sitja við hið einfalda orðalag 49. gr. gildandi laga. Ekki er þó um að ræða efnislega breytingu á gildandi lögum, eins og marka má af athugasemdum við 49. gr. þess frumvarps sem varð að lögum nr. 94/2001. Til þess að tilboð komi til efnislegrar skoðunar þarf það þannig í fyrsta lagi að vera í samræmi við útboðsskilmála eða fela í sér í sér gilt frávikstilboð, sbr. 41. gr. frumvarpsins og hafa borist borist innan fresta. Í annan stað verður það að hafa borist frá bjóðanda sem ekki bar eða var heimilt að vísa frá, sbr. VII. kafla. Í þriðja lagi verður tilboð að hafa borist frá þeim sem valdir voru til að leggja fram tilboð, ef um forval var að ræða.

Um 72. gr.

    Þessi grein ásamt 45. gr. frumvarpsins leiðir í íslensk lög efnisreglur 53. gr. tilskipunarinnar. Hér er um efnislega óbreyttar reglur að ræða frá gildandi lögum, en vakin er athygli á því að 45. gr. felur í sér breytingar á orðalagi að því er varðar leyfilegar forsendur fyrir vali. Sem fyrr þykir eðlilegt að ákvæði um tilgreiningu á forsendum fyrir vali sé komið fyrir í þeim kafla frumvarpsins þar sem fjallað er um útboðsgögn, líkt og í gildandi lögum. Ákvæði 45. gr. á að tryggja að kaupandi tilgreini forsendur við mat á hagkvæmasta tilboði í útboðsgögnum. Mat kaupanda á hagkvæmasta boði á því alltaf að vera fyrirsjáanlegt og byggt á hlutrænum sjónarmiðum sem tengjast fjárhagslegri hagkvæmni og gildir þá einu hvort tilboð eru eingöngu metin með hliðsjón af verði eða hvort um er að ræða fleiri forsendur sem kaupandi hefur tilgreint í samræmi við ákvæði 45. gr. frumvarpsins. Ítrekað er að halda ber kröfum til hæfis þátttakenda og bjóðenda aðskildum frá forsendum fyrir vali tilboðs. Ef bjóðandi telst á annað borð hæfur til að leggja fram tilboð ber að meta tilboð hans sjálfstætt með hliðsjón af valforsendum. Það athugast að ákvæði 3. mgr. 72. gr. útilokar ekki að samið sé við fleiri aðila í rammasamningsútboði samkvæmt nánari fyrirmælum 34. gr. Er með þessu gert ráð fyrir breytingu á því að rammasamningshafar skuli vera a.m.k. þrír, sbr. 5. mgr. 34. gr.

Um 73. gr.

    Þessi grein svarar til 55. gr. tilskipunarinnar, ef frá er talin lokamálsgrein greinarinnar. Minnt skal á að almennt er óheimilt að notast við fastan mælikvarða við mat á óeðlilega lágum tilboðum, enda útilokar slík aðferð í raun að bjóðandi geti fært rök fyrir tilboðsfjárhæðinni. Þannig væri t.d. óheimilt að telja öll tilboð, sem viku meira en 10% frá meðaltalsverði allra framkominna tilboða, óeðlilega lág án frekari skoðunar. Með lokamálsgrein greinarinnar er kaupanda gert skylt að rökstyðja sjálfkrafa þá ákvörðun að hafna tilboði með vísan til þess að það sé óeðlilega lágt, en með þessu eru lagðar ríkari skyldur á kaupanda en leiðir af 74. gr. frumvarpsins. Athygli skal vakin á því að skv. 43. gr. tilskipunarinnar er skylt í skýrslu um opinber innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum EES að tilgreina ástæður þess að tilboðum var hafnað á þeim grundvelli sem hér um ræðir.

Um 74. gr.

    Ákvæði greinarinnar eru óbreytt frá 1. og 2. mgr. 52. gr. gildandi laga. Með hliðsjón af ákvæðum 18. gr. frumvarpsins þykir rétt að fella niður ákvæði sem svarar til 3. mgr. 52. gr. gildandi laga. Að öðru leyti kallar tilskipunin hins vegar ekki á breytingar. Athygli er vakin á því að í 76. gr. frumvarpsins er gert ráð fyrir breytingum á reglum um það hvernig staðið er að tilkynningu um val tilboðs og endanlegri gerð samnings. Að lokum má vekja athygli á því að litið hefur verið svo á að kaupanda væri heimilt að hafna öllum framkomnum boðum. Telja verður að þessi heimild eigi fyrst og fremst við þegar valforsendur (t.d. allt of hátt verð miðað við kostnaðaráætlun) eða önnur ákvæði í útboðsgögnum helga slíka niðurstöðu eða þá að almennar forsendur fyrir útboði hafa brostið, sbr. dóm Hæstaréttar 17. nóvember 2005 í máli nr. 182/2005 (Íslenskir aðalverktakar hf.).

Um 75. gr.

    Í greininni er að finna nokkuð ítarlegri ákvæði um tilkynningu höfnunar og rökstuðning sem fylgja ákvæðum 41. gr. tilskipunarinnar.

Um 76. gr.

    1. mgr. felur í sér mikilvæga breytingu á því hvernig staðið er að tilkynningu um val á tilboði og samþykkt tilboðs og gerð samnings. Í framkvæmd er algengt að kaupandi (eða umsjónarmaður útboðs) tilkynni þeim bjóðanda, sem valinn hefur verið í útboði, að tilboð hans hafi verið samþykkt á sama tíma og úrslit útboðs eru tilkynnt öðrum bjóðendum. Samkvæmt almennum reglum samningaréttar hefur verið litið svo á að þegar þetta samþykki hefur borist bjóðandanum sé kominn á samningur sem óheimilt er að fella úr gildi, sbr. 83. gr. gildandi laga. Í framkvæmd hafa því möguleikar bjóðenda til þess að fá ákvörðun um val tilboðs endurskoðað af kærunefnd útboðsmála verið takmarkaðir. Hafa því hagsmunir bjóðenda í þessari stöðu eingöngu verið tryggðir með reglum um skaðabætur.
    Eins og fram kemur í athugasemdum við 98. gr. frumvarpsins er ekki gerð tillaga um það í frumvarpinu að vikið verði frá þeirri grunnreglu íslensks innkauparéttar að samningur verði almennt ekki felldur úr gildi eftir að hann hefur verið gerður. Þeir opinberu og einkaréttarlegu hagsmunir sem liggja til grundvallar þeirri reglu réttlæta þó ekki að möguleikar bjóðenda á því að fá ákvörðun um val á tilboði hnekkt séu í raun engir. Er því gert ráð fyrir því að a.m.k. 10 dagar líði frá því að ákvörðun um val tilboðs er tilkynnt þar til samningur í skilningi 98. gr. frumvarpsins er gerður. Gefst þátttakendum þannig kostur á því að skjóta máli til kærunefndar útboðsmála sem getur stöðvað samningsgerð til bráðabirgða ef hún telur ástæðu til. Eru bjóðendum þannig fengin í hendur raunhæfi úrræði til að fá ákvörðun kaupanda endurskoðaða, sbr. til hliðsjónar þær kröfur sem fram koma í dómi Evrópudómstólsins 28. október 1999 í máli nr. 81/98, Alcatel Austria AG o.fl. gegn Bundesministerium für Wissenschaft und Verkehr. Ef kærunefnd útboðsmála hafnar því hins vegar að stöðva samningsgerð getur hinn opinberi aðili gert samning sem ekki verður felldur úr gildi. Með því tekur hann þó áhættuna af því að hann verði síðar talinn bótaskyldur að meira eða minna leyti. Með þeim breytingum sem hér eru lagðar til er í stuttu máli leitast við að finna eðlilegt jafnvægi milli annars vegar hagsmuna hins opinberra og viðsemjanda þess af því að unnt sé að hrinda samningi í framkvæmd og hins vegar hagsmuna bjóðanda af því að á hann sé ekki hallað við val tilboðs. Er þetta nýmæli frumvarpsins einnig í samræmi við nýlegar reglur í Danmörku. Að lokum má búast við því að regla sem þessi verði sett á vettvangi Evrópubandalagsins við þá endurskoðun á eftirlitstilskipununum sem greint er frá í almennum athugasemdum.
    Hafa ber í huga að regla 1. mgr. greinarinnar á aðeins við þegar um eiginlegt val tilboðs er að ræða. Reglan á þannig ekki við ef um er að ræða samningskaup við einn aðila, innkaup á grundvelli rammasamnings, innkaup á grundvelli gagnvirks innkaupakerfis eða innkaup með rafrænu uppboði.
    Í 2. mgr. kemur fram sú viðbót við gildandi reglur að ekki sé heimilt að breyta grundvallarþáttum tilboðs þannig að samkeppni sé raskað eða um mismunun verði að ræða. Með þessu er vísað til þess að við gerð endanlegs samnings getur verið ástæða til þess að gera einhverjar breytingar frá því sem kveðið var á um í útboðsskilmálum. Slíkar breytingar mega þó aldrei vera þess eðlis að það kynni að hafa breytt niðurstöðu útboðs ef þær hefðu komið fram í útboðsgögnum. Verður að telja að þessi regla sé í samræmi við þau viðhorf sem koma fram í tilskipuninni, sbr. t.d. 6. mgr. 29. gr. og 2. mgr. 32. gr., og einnig þau vinnubrögð sem tíðkast hafa athugasemdalaust í framkvæmd.

Um 77. gr.

    Greinin svarar til 55. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 3. þátt.

    Í þessum þætti laganna er að finna ákvæði sem einungis gilda um innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum á Evrópska efnahagssvæðinu. Með ákvæðum þáttarins er leitast við að laga íslenskan rétt að skuldbindingum íslenska ríkisins samkvæmt tilskipuninni sem ítarlega er greint frá í almennum athugasemdum. Innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu, sbr. tilskipun nr. 2004/17/EB, falla hins vegar utan gildissviðs frumvarpsins nema að því er varðar XIII. og XIV. kafla, eins og nánar greinir í athugasemdum við 7. gr. frumvarpsins. Er gert ráð fyrir því að sú tilskipun verði innleidd með sérstakri reglugerð.
    Eins og áður greinir liggur sú almenna stefnumörkun til grundvallar frumvarpinu að leggja til grundvallar sömu efnisreglur við innkaup innanlands og innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum EES. Af þessu leiðir í fyrsta lagi að gildissvið frumvarpsins er það sama hvort sem um er að ræða innkaup innanlands eða innkaup á EES, enda eiga reglur 1. þáttar frumvarpsins jafnt við um báðar tegundir innkaupa. Athygli er vakin á því að innkaup sveitarfélaga, stofnana þeirra og samtaka eru þar af leiðandi ekki undanskilin ákvæðum 3. þáttar. Í annan stað fer um framkvæmd þessara innkaupa að verulegu leyti samkvæmt sömu reglum vegna þess að reglur 2. þáttar frumvarpsins eru að meginstefnu samdar eftir fyrirmynd tilskipunarinnar.
    Af þessu leiðir að ákvæði 3. þáttar frumvarpsins eru einföld í sniðum. Vísað er til reglna 2. þáttar um þessi innkaup nema að því marki sem þessar reglur víkja frá reglum tilskipunarinnar og öðrum EES-reglum. Hér er einkum um að ræða ákvæði tilskipunarinnar sem lúta að tilkynningum, auglýsingum, frestum og skýrslugerð. Í frumvarpinu hefur sú leið verið valin að vísa til viðeigandi reglna tilskipunarinnar í stað þess að leitast við að taka þær upp í frumvarpstextann, sbr. heimild í 2. mgr. 2. gr. laga nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað. Er að þessu leyti fylgt danskri fyrirmynd við innleiðingu tilskipunarinnar og annarra gerða sem henni tengjast. Tekið skal fram að gert er ráð fyrir því að tilskipunin verði birt í heild með frumvarpinu í Stjórnartíðindum.

Um 78. gr.

    Í 1. mgr. er fjallað um viðmiðunarfjárhæðir fyrir innkaup á Evrópska efnahagssvæðinu, sbr. einkum 7., 8. og 9. gr. tilskipunarinnar. Framkvæmdastjórnin getur endurskoðað þessar fjárhæðir samkvæmt þeirri málsmeðferð sem um ræðir í 78. gr. tilskipunarinnar, sbr. nú reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 2083/2005 sem tekin var upp í XVI. viðauka við EES-samninginn með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 69/2006 (sjá EES- viðbæti við Stjórnartíðindi ESB 7. september 2006 nr. 44/2006). Skal þessi endurskoðun fara fram á tveggja ára fresti frá og með gildistöku tilskipunarinnar, þ.e. í fyrsta sinn fyrir 31. janúar 2008. Er því kveðið á um það í 1. mgr. að slík endurskoðun skuli einnig fara fram að því er varðar þessar fjárhæðir eins og þær eru birtar í íslenskum krónum.
    Í 2. mgr. er gert ráð fyrir því að reglugerð framkvæmdastjórnarinnar (EB) nr. 1564/2005 um stöðluð eyðublöð fyrir birtingu á tilkynningum á sviði opinberra innkaupa samkvæmt tilskipuninni verði innleidd með reglugerð, sbr. einnig tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2005/51/EB sem breytir VIII. viðauka við tilskipunina. Þá er í 2. málsl. 2. mgr. að finna almenna reglugerðarheimild til að setja nánari reglur um opinber innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum EES til samræmis við EES-reglur ef nauðsyn krefur.

Um 79. gr.

    Eins og áður greinir grundvallast frumvarpið á þeirri aðferð að sömu efnisreglur gildi um innkaup yfir innlendum viðmiðunarfjárhæðum annars vegar og yfir viðmiðunarfjárhæðum EES hins vegar. Ólíkar reglur hljóta hins vegar, eðli málsins samkvæmt, að gilda um ýmsar tilkynningar, auglýsingar, fresti og ýmis atriði sem varða fjárhæðir. Í þessari grein frumvarpsins er safnað saman þeim reglum tilskipunarinnar sem víkja með einhverjum hætti frá ákvæðum 2. þáttar frumvarpsins og fela þannig í sér frávik frá reglum þess þáttar. Við opinber innkaup yfir viðmiðunarfjárhæðum EES má þannig ganga út frá því að reglur 2. þáttar gildi nema frávik leiði af þeim reglum tilskipunarinnar sem vísað er til í greininni.
    Í fyrsta lagi er tekið fram að reglur 35.–43. gr. tilskipunarinnar gildi um þessi innkaup. Hér er um að ræða allar reglur tilskipunarinnar um tilkynningar, auglýsingar tilkynninga, fresti, efni tilkynninga, aðferðir við tilkynningar, miðlun upplýsinga og efni skýrslna, sbr. VI. kafla 2. hluta tilskipunarinnar. Er hér um svo afmörkuð atriði að ræða að ekki verður talin hætta á vafa um það að hvaða marki reglur 2. þáttar gilda um innkaup yfir viðmiðunarmörkum EES. Athugast í þessu sambandi að gert er ráð fyrir því að tilskipunin muni verða birt í heild í Stjórnartíðindum í ásamt lögunum.
    Í annan stað er vikið að nokkrum öðrum atriðum þar sem reglur 2. þáttar gilda ekki eða gilda með afbrigðum, sbr. a–d-lið greinarinnar. Með a-lið eru innleidd fyrirmæli 5. mgr. 9. gr. tilskipunarinnar um hámark sem svarar til 80.000 evra að því er varðar vöru- og þjónustusamninga og 1 milljónar evra að því er varðar verksamninga, en ekki þykir ástæða til að hafa þetta hámark þegar um er að ræða innkaup undir viðmiðunarfjárhæðum EES.
    Í lokamálsgrein greinarinnar er tekin upp regla 37. gr. tilskipunarinnar um heimild til að birta tilkynningar um innkaup sem falla ekki undir innkaupareglur EES. Hafa ber í huga að notkun á þessari heimild kynni að jafngilda skuldbindingu kaupanda um að virða innkaupareglur EES. Ef kaupandi hyggst nýta sér þessa heimild en hyggst þó ekki fylgja innkaupareglum EES til hins ítrasta væri eðlilegast að hann tæki það skýrt fram í auglýsingu.

Um X. kafla.

    Í þessum kafla er að finna ákvæði um sérleyfissamninga um verk og hönnunarsamkeppni yfir viðmiðunarfjárhæðum EES. Þegar um er að ræða sérleyfissamninga eða hönnunarsamkeppni undir þessum viðmiðunarfjárhæðum gilda ákvæði 2. þáttar. Af þeim leiðir að sérleyfissamningar um verk undir viðmiðunarfjárhæðum EES eru ekki útboðsskyldir, en ráðherra er heimilt að setja um þetta efni sérstakar reglur með reglugerð að því er varðar ríkið og stofnanir þess, sbr. 3. mgr. 19. gr. frumvarpsins. Um hönnunarsamkeppni undir viðmiðunarfjárhæðum gilda sambærileg ákvæði og samkvæmt tilskipuninni, þó í nokkuð einfaldaðri mynd, sbr. 37. gr. frumvarpsins. Af þessum sökum þykir hentugast að vísa beint til reglna tilskipunarinnar þegar um er að ræða hönnunarsamkeppni yfir viðmiðunarfjárhæðum þannig að þessum ákvæðum verði fylgt milliliðalaust þegar það á við. Um heimild til að innleiða reglur tilskipunarinnar með tilvísun vísast sem fyrr til 2. mgr. 2. gr. laga nr. 15/2005, um Stjórnartíðindi og Lögbirtingablað. Hins vegar skal áréttað að gert er ráð fyrir því að tilskipunin í heild verði birt sem fylgiskjal við lögin.

Um 82. gr.

    Greinin felur í sér innleiðingu á 75. og 76. gr. tilskipun. Áréttað er að ráðherra geti með reglugerð kveðið á um skyldu kaupenda til að senda ráðuneytið skýrslur ákveðins efnis svo að unnt sé að fullnægja skyldum ríkisins skv. 76. gr. tilskipunarinnar.

Um 83. gr.

    Greinin felur í sér innleiðingu á 3. gr. tilskipunar nr. 89/665/EBE og 8. gr. tilskipunar nr. 92/13/EBE sem greint er frá í almennum athugasemdum. Greinin svarar til 68. gr. gildandi laga, þó þannig að orðalag er afdráttarlausara í samræmi við umræddar tilskipanir. Þá er sú breyting lögð til að kaupandi sendi Eftirlitsstofnun EFTA milliliðalaust þau gögn sem um ræðir í greininni í stað þess að fjármálaráðuneytið hafi um þetta milligöngu.

Um XIII. kafla.

    Ákvæði kaflans eru að meginstefnu óbreytt frá XII. kafla gildandi laga, þó þannig að tekið er mið af breyttri notkun hugtaka sem leiðir af tilskipuninni. Ríkiskaup teljast ótvírætt „miðlæg innkaupastofnun“ í skilningi 10. mgr. 1. gr. tilskipunarinnar. Með ákvæðum laganna um Ríkiskaup er þannig heimild 11. gr. tilskipunarinnar nýtt, en þar kemur fram að kaupandi teljist hafa fullnægt skyldum samkvæmt innkaupareglum að því marki sem miðlæg innkaupastofnun sem hefur séð um innkaup hans hefur gert það. Er þessi regla tilskipunarinnar áréttuð í 86. gr. frumvarpsins. Þar er einnig áréttuð heimild Ríkiskaupa til að gera samninga um þau störf sem stofnunin tekur að sér fyrir aðra opinbera aðila. Í slíkum samningum væri hægt að taka af skarið um hver tæki hvaða ákvarðanir, t.d. um val tilboðs, og hver bæri skaðabótaábyrgð við tilteknar aðstæður, t.d. ef val á tilboði væri síðar talið ólögmætt. Í frumvarpinu er ekki að finna sérstaka heimild fyrir ýmsa sjálfstæða opinbera aðila, t.d. sveitarfélög, til að setja á fót miðlægar innkaupastofnanir enda er slík heimild óþörf með hliðsjón af almennum valdheimildum þeirra. Að öðru leyti vísast til athugasemda við það frumvarp sem varð að lögum nr. 94/2001.

Um 90. gr.

    Greinin gerir ráð fyrir að sérhvert ráðuneyti, stofnun eða fyrirtæki í eigu ríkisins, skipi sérstakan tilsjónarmann með innkaupum viðkomandi ráðuneytis, stofnunar eða fyrirtækis. Með fyrirtæki í eigu ríkisins er átt við fyrirtæki þar sem eignarhluti ríkisins er a.m.k. 50%. Með þessari ráðstöfun má ætla að meiri festa og ábyrgð skapist í kringum innkaup, enda svara útgjöld til innkaupa jafnan til stórs hluta af fjárheimildum ráðuneyta, stofnana eða fyrirtækja. Forstöðumaður skal fela tilgreindum starfsmanni viðkomandi ráðuneytis, stofnunar eða fyrirtækis, jafnan þeim sem með innkaup fer, að fylgjast með innkaupum og úrbótum á því sviði ef þörf er á og er gert ráð fyrir að þetta ábyrgðarsvið viðkomandi starfsmanns rúmist innan þeirrar starfslýsingar sem um hann gildir. Haft skal í huga að ákvarðanir um innkaup falla undir ábyrgð og skyldur forstöðumanna, sbr. 38. gr. laga nr. 70/1996, um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins.

Um XIV. kafla.

    Ákvæði kaflans eru að meginstefnu efnislega óbreytt frá XIII. kafla gildandi laga. Í fáeinum tilvikum hefur þó verið aukið við ákvæði kaflans með hliðsjón af túlkun sem fram hefur komið í framkvæmd kærunefndar útboðsmála eða dómum Hæstaréttar. Þá hefur verið tekið tillit til breyttrar hugtakanotkunar tilskipunarinnar, t.d. er nú rætt um „fyrirtæki“ en ekki „bjóðendur“ sem aðila kærumáls. Er með því lögð áhersla á að fyrirtæki sem ekki hefur verið aðili að formlegu innkaupaferli geti verið aðili að máli fyrir nefndinni, t.d. við þær aðstæður að skylda til útboðs hefur alfarið verið sniðgengin. Loks er í 1. mgr. 93. gr. að finna ákvæði um greiðslu kærugjalds, en hafa ber í huga að ef kærandi vinnur málið yrði honum úrskurðaður málskostnaður skv. 96. gr. frumvarpsins þar sem m.a. yrði tekið tillit til þessa kostnaðar hans. Með ákvæðum kaflans um kærunefnd útboðsmála er, líkt og í núgildandi lögum, brugðist við kröfum 1. og 2. gr. tilskipana nr. 89/665/EBE og nr. 92/13/EBE um að tryggja fyrirtækjum skjót og virk réttarúrræði vegna ætlaðra brota á reglum um opinber innkaup. Þau verkefni sem um ræðir í umræddum greinum tilskipananna falla þó að hluta undir almenna dómstóla, einkum það hlutverk að dæma fyrirtækjum skaðabætur vegna brota á reglum um opinber innkaup.

Um 91. gr.

    Greinin svarar til 75. gr. gildandi laga. Í framkvæmd hefur kærunefnd útboðsmála skýrt 2. mgr. greinarinnar svo að innkaup sveitarfélaga undir viðmiðunarfjárhæðum EES falli ekki undir lögsögu nefndarinnar, þ.e. að í þeim tilvikum sé ekki um að ræða ætluð brot gegn lögunum. Felur frumvarpið ekki í sér breytingu á þessari túlkun nefndarinnar. Eiga fyrirtæki sem telja á sér brotið við innkaup sveitarfélaga undir viðmiðunarfjárhæðum EES það úrræði að leita til almennra dómstóla með kröfur sínar. Þá hefur nefndin almennt litið svo á að það falli utan lögsögu nefndarinnar að fjalla um brot á ýmsum reglum stjórnsýsluréttar, t.d. brot á reglum II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, varðandi hæfi. Úr slíkum álitaefnum væri hins vegar almennt unnt að fá skorið með stjórnsýslukæru, sbr. VII. kafla stjórnsýslulaga.

Um 92. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 76. gr. gildandi laga og þarfnast ekki skýringa.

Um 93. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 77. gr. gildandi laga. Samkvæmt greininni er ótvírætt að heimild til kæru er ekki bundin við það að fyrirtæki sé formlegur aðili að útboði. Ef kaupandi sniðgengur algerlega reglur um opinber innkaup gæti hver sá sem hugsanlega hefði boðið fram þá vöru, þjónustu eða verk, sem um er að ræða, haft heimild til kæru. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 94. gr.

    Greinin svarar til 78. gr. gildandi laga. Í framkvæmd hefur kærunefnd útboðsmála skýrt ákvæði 1. mgr. 78. gr. samkvæmt orðanna hljóðan þannig að kærufrestur byrji að líða þegar kærandi veit eða má vita um þá ákvörðun, athöfn eða athafnaleysi sem hann telur ólögmæta. Hefur því verið talið að hér væri um sérákvæði að ræða sem gengi framar 27. gr. stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, um upphaf kærufrests. Ef kaupandi hefur t.d. ákveðið að notast við samningskaup verður fyrirtæki að skjóta þessari ákvörðun til kærunefndarinnar innan fjögurra vikna frá því að fyrirtækinu verður kunnugt um þessa ákvörðun. Það væri hins vegar bagalegt með tilliti til opinberra og einkaréttarlegra hagsmuna ef ákvörðun kaupanda um að notast við samningskaup kynni að vera felld úr gildi á síðustu stigum samningskaupaferlisins sem ættu sér stað löngu síðar.
    Ljóst er að í opinberum innkaupum er oft og tíðum sérlega mikilvægt að ekki sé fyrir hendi óvissa um gildi tiltekinna ákvarðana, jafnvel þótt vera kunni að ákvarðanir séu ólögmætar og leiði til bótaskyldu. Í opinberum innkaupum standa því sérstök rök til þess að fyrirtæki bregðist skjótt við ætluðum brotum, ef þau óska eftir því að úrræðum kærunefndar útboðsmála sé beitt. Þykir þetta ekki óeðlilega íþyngjandi þegar litið er til þess að þau fyrirtæki sem taka þátt í innkaupaferlum búa yfirleitt yfir reynslu og þekkingu á því sviði sem hér er um að ræða. Hafa ber í huga að fyrirtæki getur ávallt leitað til almennra dómstóla þótt sá frestur sem kveðið er á um í greininni sé runninn út.
    Samkvæmt 2. málsl. 1. mgr. er alltaf heimilt að bera kæru undir kærunefnd útboðsmála innan 15 daga frá því að rökstuðningur skv. 75. gr. er veittur. Með þessu er komið í veg fyrir að vanræksla kaupanda á því að veita lögákveðinn rökstuðning hindri fyrirtæki í að leggja fram kæru fyrir kærunefnd útboðsmála.
    Sem fyrr segir er í 3. málsl. gert ráð fyrir kærugjaldi, en hafa ber í huga að ef greiðandi kærumáls vinnur málið yrði honum úrskurðaður málskostnaður skv. 96. gr. frumvarpsins sem m.a. ætti að gera hann skaðlausan af þessum kostnaði.

Um 95. gr.

    Í síðari málslið 1. mgr. er að finna nýtt ákvæði þess efnis að hafi miðlæg innkaupastofnun í skilningi frumvarpsins annast innkaup teljist sú stofnun varnaraðili við meðferð málsins fyrir kærunefnd útboðsmála. Þetta ákvæði er í samræmi við framkvæmd kærunefndar útboðsmála og þjónar þeim tilgangi að málsmeðferð sé skjót og skilvirk þegar um fleiri kaupendur er að ræða og samband þeirra innbyrðis er óljóst, en miðlæg innkaupastofnun (Ríkiskaup) hefur haft umsjón með innkaupum. Rétt er að hafa í huga að þegar kærunefnd útboðsmála lætur uppi álit um skaðabótaskyldu við þessar aðstæður er alls ekki sjálfgefið að það sé hin miðlæga innkaupastofnun sem eigi að bera hina endanlegu skaðabótaskyldu. Fer það eftir atvikum hverju sinni hver ber ábyrgð á þeirri ákvörðun sem talin er leiða til skaðabótaskyldu. Getur t.d. vel hugsast að kaupandi hafi gefið miðlægri innkaupastofnun fyrirmæli um tiltekið val á tilboði og verði því alfarið sjálfur að bera ábyrgð á þeirri ákvörðun sinni. Æskilegt verður að teljast að miðlæg innkaupastofnun og kaupandi skýri atriði sem þessi í samningi sín á milli, sbr. 2. mgr. 86. gr. frumvarpsins að því er varðar Ríkiskaup.
    Í 2. mgr. greinarinnar er að finna ákvæði um að skylt sé að gefa öðrum fyrirtækjum kost á því að tjá sig í máli ef þau hafa beinna og verulegra hagsmuna að gæta af niðurstöðu máls. Er þetta í samræmi við forsendur í dómi Hæstaréttar 26. febrúar 2004 í máli nr. 347/200 (Nýherji hf.). Samkvæmt þessu verður að meta það í hvert og eitt sinn hvort ástæða sé til þess að gefa öðrum fyrirtækjum, t.d. öðrum bjóðendum, kost á því að tjá sig um framkomna kæru.
    Að því er varðar 3. mgr. ber að hafa í huga að ef andsvör kæranda hafa að geyma nýjar málsástæður eða staðhæfingar um önnur atvik málsins, svo að einhverju skipti fyrir úrlausn, getur verið skylt að gefa varnaraðila kost á því að tjá sig um þessi atriði. Leiðir þetta af ólögfestum reglum sem óþarft er að festa í lög, sbr. dóm Hæstaréttar 17. nóvember 2005 í máli nr. 182/2005 (Íslenskir aðalverktakar hf.).
    Í 4. mgr. er rýmkuð heimild kærunefndar útboðsmála til að láta fara fram munnlegan málflutning miðað við samsvarandi ákvæði gildandi laga.

Um 96. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 80. gr. gildandi laga. Af framsetningu laganna og framkvæmd er ljóst að ekkert er því til fyrirstöðu að fyrirtæki krefjist bæði stöðvunar innkaupaferlis eða samningsgerðar og hafi uppi kröfu um skaðabætur eða áskilji sér rétt til slíkra bóta. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki sérstakra skýringa.

Um 97. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 81. gr. gildandi laga og þarfnast ekki sérstakra skýringa.

Um 98. gr.

    Í greininni er kveðið á um frest til að skjóta úrskurði kæruefndar útboðsmála til dómstóla. Áréttað er að m.a. opinberir aðilar sem hafa verið varnarmegin við rekstur máls fyrir nefndinni geti krafist ógildingar á úrskurðum nefndarinnar. Þykir eðlilegt að tekin séu af tvímæli um þessa heimild opinbers aðila með hliðsjón af því að hlutverki kærunefndar útboðsmála verður fremur jafnað til hlutverks sjálfstæðs dómstóls á 1. dómstigi en æðra stjórnvalds með stjórnunar- og eftirlitsheimildir með hinum opinbera aðila.
    Í 2. mgr. greinarinnar felst að kærunefnd útboðsmála á ekki að vera varnaraðili að dómsmálum þar sem krafist er ógildingar á úrskurðum nefndarinnar. Í dómaframkvæmd er talsvert á reiki hvernig varnaraðild að málum, þar sem krafist er ógildingar stjórnvaldsákvarðana, er háttað. Í þeim dómsmálum, þar sem skorið hefur verið úr gildi úrskurða kærunefndar útboðsmála, hefur kærunefndinni þó ekki verið stefnt til varnar án þess að athugasemdir hafi verið gerðar af hálfu dómstóla. Engu að síður þykir rétt að taka af allan vafa um þetta atriði og slá því föstu að óþarft sé að stefna kærunefndinni til varnar í þessum málum. Athygli er vakin á því að almennt mundu ekki vera fyrir hendi lögvarðir hagsmunir til að fá áliti nefndarinnar um skaðabótaskyldu hnekkt, sbr. dóm Hæstaréttar 17. nóvember 2005 í máli nr. 182/2005 (Íslenskir aðalverktakar hf.).

Um 99. gr.

    Greinin er efnislega óbreytt frá 82. gr. gildandi laga og þarfnast ekki sérstakra skýringa. Skv. 104. gr. frumvarpsins skulu gildandi starfsreglur kærunefndar útboðsmála halda gildi sínu þar til nýjar starfsreglur kærunefndarinnar hafa tekið gildi.

Um XV. kafla.

    Ákvæði kaflans eru efnislega óbreytt frá 83. og 84. gr. gildandi laga. Vísast til athugasemda við það frumvarp sem varð að lögum nr. 94/2001 um nánari skýringar þessara greina. Einnig má hér benda á umfjöllun um þessi ákvæði í dómi Hæstaréttar 17. nóvember 2005 í máli nr. 182/2005 (Íslenskir aðalverktakar hf.). Athygli er þó vakin á því að möguleikar bjóðanda á því að fá ákvörðun um val tilboðs aukast til muna með 76. gr. frumvarpsins sem gerir ráð fyrir því að frá vali tilboðs til gerðar samnings í skilningi 99. gr. líði a.m.k. 10 dagar. Með þessum hætti á miklu síður að koma upp sú staða að ekki sé unnt að krefjast þess að ákvörðun kaupanda um framkvæmd útboðs, eða gerð samnings, verði felld úr gild vegna þess að samningur hefur þegar verið gerður.

Um 102. gr.

    Með greininni er fullnægt skyldu skv. 1. mgr. 80. gr. tilskipunarinnar til að vísa til tilskipunarinnar í hlutaðeigandi innleiðingarlögum. Með lögunum er íslenskur réttur einnig lagaður að kröfum svokallaðra eftirlitstilskipana nr. 89/665/EBE og nr. 92/13/EBE en ekki þykir ástæða til þess að tilgreina þessar gerðir í lagatextanum. Eins og fram kemur í athugasemdum við 7. gr. frumvarpsins gerir frumvarpið ráð fyrir því að tilskipun nr. 2004/17/EB um samræmingu reglna um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og póstþjónustu verði innleidd með reglugerð að öðru leyti en því að ákvæði XIV. og XV. kafla frumvarpsins gilda um innkaup sem falla undir þessa tilskipun.

Um 103. gr.

    Eftir að lög nr. 94/2001 tóku gildi hefur risið vafi um það atriði hvort og þá að hvaða marki stjórnsýslulög, nr. 37/1993, gilda um ákvarðanir og aðrar athafnir kaupenda á sviði opinberra innkaupa, sbr. einkum álit umboðsmanns Alþingis 31. desember 2003 í máli nr. 3712/2003 og 8. júlí 2005 í máli nr. 4095/2004. Í núgildandi lögum er aðeins tekið fram í 5. mgr. 79. gr. að um meðferð mála fyrir kærunefnd útboðsmála fari samkvæmt stjórnsýslulögum. Af þessu ákvæði, sem fjallar um málsmeðferð sjálfstæðrar úrskurðarnefndar, kærunefndar útboðsmála, verður að sjálfsögðu ekki dregin sú ályktun að ákvarðanir kaupenda á sviði opinberra innkaupa lúti stjórnsýslulögum. Þegar það frumvarp sem varð að núgildandi lögum var samið var gengið út frá því að stjórnsýslulög tækju ekki til opinberra innkaupa að frátöldum reglum II. kafla laganna, sbr. 3. mgr. 1. gr. stjórnsýslulaga (sjá í þessu sambandi athugasemdir við 1. gr. þess frumvarps sem varð að lögum nr. 37/1993). Hins vegar var ljóst að í því frumvarpi sem varð að núgildandi lögum voru ýmis ákvæði sem þjónuðu svipuðum markmiðum og tiltekin ákvæði stjórnsýslulaga, t.d. ákvæði um jafnræði, upplýsingaskyldu og rökstuðning ákvarðana. Þessi ákvæði voru þó sérsniðin að opinberum innkaupum og þeim innkaupaferlum sem nánar er kveðið á um í lögunum.
    Sú óvissa sem hefur skapast um samband stjórnsýslulaga og laga um opinber innkaup er óæskileg. Rekast hér á reglur sem eru sérsniðnar að framkvæmd opinberra innkaupa og þeim hagsmunum sem þar eru í húfi og almennar reglur stjórnsýslulaga um rannsóknarskyldu stjórnvalds, andmælarétt, leiðbeiningarskyldu o.s.frv.
    Með ítarlegum ákvæðum tilskipunarinnar og reglum eftirlitstilskipana EB má segja að kveðið sé með svo tæmandi hætti á um réttindi fyrirtækja gagnvart kaupanda á sviði opinberra innkaupa að ekkert rúm sé fyrir almennar reglur stjórnsýslulaga. Þykir því engin ástæða til þess að almenn stjórnsýslulög gildi um það svið sem hér er um að ræða með þeirri óvissu og töfum á málsmeðferð sem það kann að valda. Á þetta við þótt við skýringu reglna um opinber innkaup kunni m.a. að verða litið til stjórnsýslulaga og ólögfestra reglna stjórnsýsluréttar að því leyti er vafi kann að koma upp um efni þessara reglna. Þá verður að telja eðlilegt að ólögfestum meginreglum stjórnsýsluréttar (eftir atvikum, eins og ályktað verður um þær með vísan til ákvæða stjórnsýslulaga) verði beitt við þær aðstæður að reglur um opinber innkaup taka ekki til álitaefnis. Þetta breytir þó ekki þeirri meginniðurstöðu að æskilegt er að taka af tvímæli um samband stjórnsýslulaga og reglna um opinber innkaup svo sem lagt er til í greininni. Er lögð áhersla á að með ákvæðinu er umfram allt stefnt að því að skýra reglur um opinber innkaup en ekki skerða réttindi fyrirtækja gagnvart kaupendum frá því sem verið hefur.

Um 104. og 105. gr.

    Greinarnar þarfnast ekki skýringa.

Um 106. gr.

    Miðað er við að kærunefndin fylgi ákvæðum XIV. kafla laganna við úrlausn á kæru sem berst eftir að frumvarpið tekur gildi, jafnvel þótt um efnislega úrlausn kærunnar fari samkvæmt lögum nr. 94/2001. Að öðru leyti þarfnast greinin ekki skýringa.

Um 107. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:


Umsögn um frumvarp til laga um opinber innkaup.

    Frumvarpi þessu er ætlað að tryggja jafnræði fyrirtækja við opinber innkaup, stuðla að hagkvæmni í opinberum rekstri með virkri samkeppni og efla nýsköpun og þróun við innkaup hins opinbera á vörum, verkum og þjónustu. Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að lög nr. 94/2001, um opinber innkaup, verði felld úr gildi, sem og eftirfarandi reglugerðir og auglýsingar: Reglugerð um opinber innkaup á EES-svæðinu nr. 655/2003, reglugerð um viðmiðunarfjárhæðir nr. 1012/2003, auglýsing nr. 30/2004 um breytingar á viðmiðunarfjárhæðum fyrir útboðsskyld kaup á vörum, þjónustu og verkum, sbr. 12. gr. laga nr. 94/2001, reglugerð um notkun staðlaðra eyðublaða nr. 239/2003 og reglugerð um innkaup stofnana sem annast vatnsveitu, orkuveitu, flutninga og fjarskipti nr. 705/2001. Einnig er gert ráð fyrir að ákvæði tilskipana Efnahagsbandalags Evrópu á þessu sviði sem Íslendingar undirgengust með samningnum um Evrópska efnahagssvæðið verði leidd í lög með frumvarpinu. Ekki er um að ræða miklar efnislegar breytingar varðandi framkvæmd opinberra innkaupa fyrir ríkisstofnanir frá núgildandi lögum og er ekki ástæða til að ætla að lögfesting frumvarpsins hafi aukinn kostnað í för með sér.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. EB C 29 E, 30.1.2001, bls. 11 og Stjtíð. EB C 203 E, 27.8.2002, bls. 210.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. EB C 193, 10.7.2001, bls. 7.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB C 144, 16.5.2001, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 4
(4)    Álit Evrópuþingsins frá 17. janúar 2002 (Stjtíð. EB C 271 E, 7.11.2002, bls. 176), sameiginleg afstaða ráðsins frá 20 mars 2003 (Stjtíð. ESB C 147 E, 24.6.2003, bls. 1) og afstaða Evrópuþingsins frá 2. júlí 2003 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum EB). Lagaleg ályktun Evrópuþingsins frá 29. janúar 2004 og ákvörðun ráðsins frá 2. febrúar 2004.
Neðanmálsgrein: 5
(5)    Stjtíð. EB L 209, 24.7.1992, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/78/EB (Stjtíð. EB L 285, 29.10.2001, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 6
(6)    Stjtíð. EB L 199, 9.8.1993, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/78/EB.
Neðanmálsgrein: 7
(7)    Stjtíð. EB L 199, 9.8.1993, bls. 54. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/78/EB.
Neðanmálsgrein: 8
(8)    Stjtíð. EB L 336, 23.12.1994, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 9
(9)    Stjtíð. ESB L 134, 30.4.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 10
(10)    Stjtíð. EB L 199, 9.8.1993, bls. 84. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun framkvæmdastjórnarinnar 2001/78/EB (Stjtíð. EB L 285, 29.10.2001, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 11
(11)    Stjtíð. EB L 18, 21.1.1997, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 12
(12)    Stjtíð. EB L 340, 16.12.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 13
(13)    Stjtíð. EB L 13, 19.1.2000, bls. 12.
Neðanmálsgrein: 14
(14)    Stjtíð. EB L 178, 17.7.2000, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 15
(15)    Tilskipun ráðsins 2000/78/EB frá 27. nóvember 2000 um almennan ramma um jafna meðferð með tilliti til atvinnu og starfa (Stjtíð. EB L 303, 2.12.2000, bls. 16).
Neðanmálsgrein: 16
(16)    Tilskipun ráðsins 76/207/EBE frá 9. febrúar 1976 um framkvæmd meginreglunnar um jafnrétti karla og kvenna varðandi aðgang að störfum, starfsþjálfun og stöðuhækkun, sem og varðandi starfskjör (Stjtíð. EB L 39, 14.2.1976, bls. 40). Tilskipuninni var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/73/EB (Stjtíð. EB L 269, 5.10.2002, bls. 15).
Neðanmálsgrein: 17
(17)    Reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB) nr. 761/2001 frá 19. mars 2001 um að heimila frjálsa aðild fyrirtækja/stofnana að umhverfisstjórnunarkerfi Bandalagsins (EMAS) (Stjtíð. EB L 114, 24.4.2001, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 18
(18)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 19
(19)    Stjtíð. EB L 124, 8.6.1971, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 20
(20)    Stjtíð. EB L 351, 29.12.1998, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 21
(21)    Stjtíð. EB C 195, 25.6.1997, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 22
(22)    Stjtíð. EB L 358, 31.12.1998, bls. 2.
Neðanmálsgrein: 23
(23)    Stjtíð. EB C 316, 27.11.1995, bls. 48.
Neðanmálsgrein: 24
(24)    Stjtíð. EB L 166, 28.6.1991, bls. 77. Tilskipuninni var breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/97/EB frá 4. desember 2001 (Stjtíð. EB L 344, 28.12.2001, bls. 76).
Neðanmálsgrein: 25
(25)    Stjtíð. EB L 185, 16.8.1971, bls. 15. Ákvörðuninni var breytt með ákvörðun 77/63/EBE (Stjtíð. EB L 13, 15.1.1977, bls. 15).
Neðanmálsgrein: 26
(26)    Stjtíð. EB L 395, 30.12. 1989, bls. 33. Tilskipuninni var breytt með tilskipun 92/50/EBE.
Neðanmálsgrein: 27
(1)    Ef mismunandi túlkun er á CPV og NACE gildir NACE-flokkunarkerfið.
Neðanmálsgrein: 28
(1)    Ef mismunandi túlkun er á CPV og CPC gildir CPC-flokkunarkerfið.
Neðanmálsgrein: 29
(1)    Í þessari tilskipum merkir „yfirvöld á vegum ríkisins“ yfirvöld sem eru tilgreind í þessum viðauka til leiðbeiningar og, hafi leiðréttingar eða breytingar verið gerðar í viðkomandi landi, einingar sem koma í stað þeirra.
Neðanmálsgrein: 30
(1)    Textinn í 3. lið 1. viðauka við samning Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar er eini gildandi textinn að því er þessa tilskipun varðar.
Neðanmálsgrein: 31
(1)    Stjtíð. EB L 285, 29.10.2001, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 32
(1)    Að því er varðar 46. gr. eru „firma- og viðskiptaskrár“ skrárnar sem eru tilgreinar í þessum viðauka og, ef breytingar hafa verið gerðar í viðkomandi löndum, skrárnar sem hafa komið í þeirra stað.