Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 301. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 316  —  301. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um starfshóp um skapandi starfsgreinar.

Flm.: Sigríður Ingvarsdóttir, Arnbjörg Sveinsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra að skipa starfshóp til að taka saman upplýsingar um eðli og umfang skapandi starfsgreina og móta tillögu að stefnumörkun ríkisstjórnarinnar í þessum málaflokki.
    Starfshópurinn skili iðnaðarráðherra tillögum sínum fyrir árslok 2007.

Greinargerð.


    Með þingsályktunartillögu þessari er lagt til að iðnaðarráðherra verði falið að setja saman starfshóp til að taka saman upplýsingar um eðli og umfang skapandi starfsgreina og móta tillögu að stefnumörkun ríkisstjórnarinnar þessum málaflokki hér á landi.
    Til skapandi starfsgreina teljast svo dæmi séu tekin:
     a.      menningartengd starfsemi hvers konar,
     b.      afþreyingariðnaður,
     c.      hátækniiðnaður,
     d.      rafræn skráning, úrvinnsla og miðlun upplýsinga,
     e.      hönnun,
     f.      þekkingarstarfsemi hvers konar,
     g.      útgáfa á rituðu og rafrænu formi,
     h.      menningartengd ferðaþjónusta.
    Í nágrannalöndum okkar hefur hið opinbera markað stefnu í þessum málaflokki og fylgt henni eftir. Í fjarlægum löndum, t.d. Ástralíu, hefur verið mörkuð opinber stefna um uppbyggingu á rafrænni skráningu, vinnslu, dreifingu og miðlun upplýsinga í tengslum við skapandi starfsgreinar. Samkvæmt athugun sem Ágúst Einarsson prófessor hefur kynnt er umfang skapandi starfsgreina hér á landi u.þ.b. 4% af landsframleiðslu. Dæmi um slíka starfsemi hér er framleiðsla sjónvarpsþátta um Latabæ í hátæknimyndveri sem komið var upp í Garðabæ.
    Framtíðarhagvöxtur mun að verulegu leyti koma frá þekkingarstarfsemi, skapandi starfsgreinum og afþreyingu. Því er brýnt að taka þennan málaflokk föstum tökum.

Skapandi starfsgreinar.
    Á undanförnum árum hafa rannsóknir hagfræðinga í vaxandi mæli beinst að skapandi starfsgreinum. Dæmi um slíkar rannsóknir koma fram í verki bandaríska fræðimannsins Richard Florida „The Rise of The Creative Class“. Þar kemur m.a. fram sú tilgáta að skapandi atvinna muni valda álíka þjóðfélagsumbreytingum á 21. öldinni og iðnbyltingin á 18. og 19. öld.
    Skapandi atvinna einkennist af því að meginviðfangsefnið er að skapa nýja þekkingu eða efni sem hægt er að vernda með höfundarrétti eða einkaleyfi. Áhrif og árangur slíkra starfsgreina felst ekki hvað síst í samvinnu og samstarfi fólks með ólíkan bakgrunn og menntun. Hin nýja skapandi stétt, segir Florida, muni ráða úrslitum um velferð, vöxt og viðgang efnahagsþróunar á Vesturlöndum. Florida bendir á að eftirfarandi þrír þættir þurfi að vera til staðar til þess að skapandi störf auki hagvöxt.
     *      Tækniþekking, þ.e. rannsóknir, tækniyfirfærsla og hagnýting tækniþekkingar til efnahagslegra framfara.
     *      Hæfni og þekking mannauðs sem flokkast innan skapandi stétta.
     *      Umburðarlyndi gagnvart fjölbreytni mannlífs, svo og framboð á menningartengdu efni og afþreyingu.
    Þar sem þessir þrír þættir eru til staðar má búast við efnahagslegum framförum samkvæmt Florida. Þetta kemur m.a. fram í staðarvali stórfyrirtækja í þekkingargreinum. Þau leita að stöðum þar sem þessir þrír þættir eru fyrir hendi vegna þess að þar kemur saman sá mannauður sem þau leita að og umhverfi sem viðkomandi aðilar geta þrifist í.

Upplifunariðnaðurinn og Jenka verkefnið – tenging við Iðntæknistofnun.
    Upplifunariðnaður, sem er hluti af skapandi starfsgreinum, samanstendur af menningartengdri starfsemi sem tengist miðlun og upplifun. Þessir þættir skipa sífellt stærri sess í efnahagslífi vestrænna þjóða. Nokkur dæmi þessu til skýringar eru: Norðmenn verja meiri fjármunum í menningu og afþreyingu en í mat. Bandaríkjamenn verja þrefalt meiri fjármunum í menningu en bíla. Í Danmörku starfa um 60 þús. manns í þessari starfsgrein sem veltir um 75 milljörðum d.kr. Íslendingar verja rúmlega 4% af landsframleiðslu í menningartengda starfsemi.
    Til að vinna að framgangi upplifunariðnaðarins og stuðla að framþróun atvinnulífsins, stuðla að stofnun nýrra fyrirtækja í upplifunariðnaði og efla atvinnuþróun almennt var samstarfsvettvangurinn Jenka stofnaður og á Iðntæknistofnun aðild að verkefninu.
    Jenka er norrænt samstarfsnet aðila sem vilja stuðla að framþróun atvinnulífs og efla norrænan upplifunariðnað með því að:
     *      Auka þekkingu þeirra sem eiga aðild að netinu á upplifunariðnaði með miðlun og þróun upplýsinga um starfsgreinina.
     *      Styrkja og efla norræna þekkingu á menningu, listum og hátækni sem tengist þessum málaflokkum með þverfaglegu samstarfi.
     *      Skapa tengsl og samstarfsvettvang fyrir þá sem starfa í og tengjast upplifunariðnaðinum, t.d. með reynsluhópum, sérhæfðum samstarfsnetum, ráðstefnum og námskeiðum.
     *      Stuðla að margföldunaráhrifum með samvinnu og upplýsingamiðlun milli aðila.
     *      Auka samkeppnishæfni aðila með sameiginlegri þróun aðferða við sköpun og þróun þekkingar innan upplifunariðnaðarins.
     *      Vera tengiliður og miðla upplýsingum milli ungs fólks á Norðurlöndunum með því að auðvelda samskipti og tengsl.