Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 158. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 319  —  158. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Halldórs Blöndals um veðurathuganir á Stórasandi.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvenær hóf Vegagerðin veðurathuganir á Stórasandi með tilliti til vegagerðar um sandinn og hvaða upplýsingar liggja nú fyrir?


    Tveimur litlum, sjálfvirkum veðurathugunarstöðvum var komið fyrir á „Stórasandsleið“ seint í september 2004. Önnur stöðin er á Stórasandi skammt norðaustan af Bláfelli (norðan Langjökuls). Hin stöðin er upp af Gilhagadal í Skagafirði, sunnan við Háheiði. Fyrstu gögn frá henni komu um tveimur vikum síðar.
    Mældir eru, og geymdir, nokkrir veðurfarsþættir, vindstefna og -styrkur, lofthiti og -raki. Úr þessu gagnasafni verður unnið þegar fyrir liggja upplýsingar yfir nógu langan tíma og gæði gagnanna reynast viðunandi.
    Vegna bilana í annarri stöðinni síðastliðinn vetur hefur verið ákveðið að hafa þær uppi fram á næsta vor, að minnsta kosti.
    Stefnt er að því að gera bráðabirgðaskýrslu um þau gögn sem þegar liggja fyrir nú á þessu ári og koma gögnum á frambærilegt form á því næsta.