Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 307. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 324  —  307. mál.




Frumvarp til laga



um rannsóknarnefndir.

Flm.: Ágúst Ólafur Ágústsson, Margrét Frímannsdóttir, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Valdimar L. Friðriksson, Katrín Júlíusdóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Ásta R. Jóhannesdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir, Kristján L. Möller.


I. KAFLI
Almenn ákvæði.
1. gr.

    Alþingi getur ályktað að skipa skuli rannsóknarnefnd til að rannsaka og gefa skýrslu um mikilvæg mál eða stjórnvaldsathafnir er varða almannahag.

2. gr.

    Hlutverk rannsóknarnefndar er að varpa ljósi á tiltekið mál eða stjórnvaldsathöfn sem hefur mikla og almenna þýðingu. Nefndin gerir grein fyrir störfum sínum og niðurstöðu í skýrslu til Alþingis.
    Rannsóknarnefnd fer ekki með dómsvald.

II. KAFLI
Skipulag rannsóknarnefndar.
3. gr.

    Alþingi ákveður fjölda nefndarmanna í hverju máli.
    Hæstiréttur tilnefnir nefndarmenn og ákveður hver skuli vera formaður nefndar. Nefndarmenn skulu hafa menntun eða starfsreynslu á sviðum sem nýtast í hverju máli fyrir sig.
    Nefndin setur sér starfsreglur.

4. gr.

    Formaður rannsóknarnefndar skal uppfylla skilyrði laga til að gegna embætti hæstaréttardómara.
    Um sérstakt hæfi nefndarmanna fer eftir II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993, eftir því sem við á.

5. gr.

    Formaður rannsóknarnefndar stýrir störfum hennar.
    Rannsóknarnefnd skal að jafnaði hafa aðsetur í Reykjavík og sér Alþingi henni fyrir aðstöðu.
    Kostnaður vegna starfa rannsóknarnefndar greiðist úr ríkissjóði.
    Rannsóknarnefnd skal starfa sjálfstætt og óháð stjórnvöldum.

6. gr.

    Rannsóknarnefnd ræður sér til aðstoðar starfsmann sem undirbýr fundi nefndar, ritar fundargerð, aðstoðar við gagnaöflun og gerð skýrslu og hvað annað sem nefndin felur honum.
    Nefndin skal halda gerðabók og skulu nefndarmenn árita allar fundargerðir.
    Rannsóknarnefnd er heimilt að kalla eftir aðstoð sérfræðinga eða annarri aðstoð við einstaka þætti rannsóknar.

III. KAFLI
Störf rannsóknarnefndar.
7. gr.

    Rannsóknarnefnd er heimilt að kalla á sinn fund hvern þann sem hún telur geta veitt upplýsingar sem nýst geta við rannsókn máls. Hverjum sem nefndin kallar til fundar við sig er skylt að verða við því kalli og gefa skýrslu fyrir rannsóknarnefndinni.
    Um skýrslutökur rannsóknarnefndar sbr. 1. mgr. og rétt þeirra sem fyrir nefndina koma gilda ákvæði VIII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, eftir því sem við á.
    Þeim sem gefur skýrslu fyrir nefndinni er rétt að skorast undan því að svara spurningu nefndarinnar ef ætla má að sá möguleiki sé fyrir hendi að í svari hans geti falist játning eða bending um að hann hafi framið refsiverðan verknað eða atriði sem valdi honum siðferðislegum hnekki eða tilfinnanlegu fjárhagstjóni.
    Þeir sem geta skorast undan því að gefa vitnaskýrslu skv. 5. mgr. 52. gr. laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, og þeir sem án leyfis hlutaðeigandi ráðherra er óheimilt að svara tilteknum spurningum skv. 1. mgr. 53. gr. sömu laga og einnig þeir sem óheimilt er án leyfis þess sem á í hlut að svara spurningum skv. c- og d-lið 2. mgr. 53. gr. sömu laga skulu þrátt fyrir þessi lagaákvæði gefa skýrslu fyrir rannsóknarnefnd og svara spurningum hennar ef nefndin krefst þess og framburður þeirra er talinn hafa umtalsverða þýðingu fyrir rannsóknina og gildi hennar fyrir samfélagið réttlætir það.
    Verði einhver sá sem rannsóknarnefnd vill kalla á sinn fund ekki við því má nefndin fara þess skriflega á leit við héraðsdómara að hlutaðeigandi verði kvaddur fyrir dóm til að gefa skýrslu um málið sem vitni. Þegar skýrslutaka fer fram fyrir dómi gilda ákvæði 4. mgr. en að öðru leyti skal farið eftir reglum um meðferð einkamála í héraði um kvaðningu vitnis, skyldu til vitnisburðar, viðurlög á hendur vitni og skýrslutökuna sjálfa, eftir því sem átt getur við.

8. gr.

    Rannsóknarnefnd er heimilt að leita eftir gögnum og upplýsingum sem kunna að skipta máli varðandi rannsóknina, m.a. hjá stjórnvöldum.
    Skylt er að afhenda rannsóknarnefnd öll gögn sem hún telur nauðsynleg við rannsókn máls, óháð því hvort gögnin kunna að vera undanþegin upplýsingarétti samkvæmt upplýsingalögum, nr. 50/1996. Gögn skv. 4. gr. upplýsingalaga er þó ekki skylt að afhenda.

9. gr.

    Nefndarmenn og starfsmenn rannsóknarnefndar eru bundnir þagnarskyldu um hvaðeina sem þeir fá upplýsingar um við störf nefndarinnar. Þagnarskylda helst þótt látið sé af störfum fyrir rannsóknarnefndina.

10. gr.

    Fundir rannsóknarnefndar skv. 7. gr. eru opnir en aðrir fundir rannsóknarnefndar eru lokaðir.
    Rannsóknarnefnd getur ákveðið að fundur skuli fara fram fyrir luktum dyrum ef það þykir nauðsynlegt:
     a.      til að tryggja starfsfrið nefndarinnar,
     b.      til að verja rannsóknarhagsmuni,
     c.      til að vernda þá sem gefa skýrslu fyrir nefndinni,
     d.      til að vernda hagsmuni íslenska ríkisins gagnvart erlendum ríkjum, vegna þjóðaröryggis eða sambærilegra atvika,
     e.      ef aðrar sérstakar ástæður eru fyrir hendi.
    Aðgangur að gerðabók nefndarinnar og gögnum sem nefndin fær eða aflar við rannsókn máls er óheimill öðrum en nefndinni og starfsmönnum hennar.
    Ákvæði upplýsingalaga, nr. 50/1996, gilda ekki um rannsóknarnefnd.

IV. KAFLI
Skýrsla rannsóknarnefndar.
11. gr.

    Rannsóknarnefnd skilar niðurstöðu í skýrslu sem afhent skal forseta Alþingis. Í skýrslunni skal nefndin greina skilmerkilega frá störfum sínum og rannsókn, hvað upplýst hefur verið og, ef tilefni er til, gera tillögur um lyktir máls, um breytingar á lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum, höfðun refsimáls eða hvað annað sem nefndin telur viðeigandi.
    Nefndarmönnum er heimilt að greina frá sérálitum í skýrslunni.

12. gr.

    Forseti Alþingis leggur skýrslu rannsóknarnefndar fram á þingfundi og kynnir Alþingi niðurstöðu hennar.
    Skýrslan telst opinber frá því að hún hefur verið kynnt á Alþingi.

13. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var lagt fram á 132. löggjafarþingi en varð ekki útrætt og er því endurflutt óbreytt.
    Með þessu frumvarpi er lagt til að sett verði sérstök lög um rannsóknarnefndir. Í íslenskum rétti er ekki gert ráð fyrir skipun almennra rannsóknarnefnda sem rannsakað geta mál sem varða mikilvæg mál eða stjórnvaldsathafnir er varða almannahag og á þetta frumvarp að bæta úr því.
    Víða í nágrannaríkjum okkar er skipun rannsóknarnefnda í einstökum málum vel þekkt. Í Danmörku getur þingið t.d. samþykkt að skipuð skuli sérstök nefnd til að skoða mikilvæg mál er varða almenning og um störf slíkra nefnda gilda sérstök lög. Dönsku lögin eru að nokkru leyti fyrirmynd þessa frumvarps.
    Flutningsmenn telja nauðsynlegt að í íslenskri löggjöf verði heimild til skipunar óháðra rannsóknarnefnda sem eiga að varpa ljósi á mikilvæg mál eða stjórnvaldsathafnir sem varða almannahag. Hlutverk slíkra nefnda er ekki að rannsaka og dæma í málum enda er slíkt hlutverk framkvæmdarvalds og dómsvalds. Þeim er fremur ætlað að skoða tiltekna atburðarás eða athöfn, leita skýringa og jafnvel að koma með tillögur til úrbóta þar sem eitthvað hefur farið úrskeiðis. Í kjölfarið geta vaknað spurningar um ábyrgð einstaklinga eða eftir atvikum embættismanna. Sömuleiðis getur slík rannsókn eytt tortryggni og endurreist trúverðugleika viðkomandi aðila eða aðgerða. Rannsóknarnefnd getur einnig komið með tillögur um lyktir máls, um breytingar á lögum eða stjórnvaldsfyrirmælum, höfðun refsimáls eða hvað annað sem nefndin telur viðeigandi.
    Rannsóknarnefnd samkvæmt frumvarpinu fer ekki með dómsvald. Henni er heimilt að kalla til sín einstaklinga til upplýsingagjafar og hverjum sem nefndin kallar til fundar við sig er skylt að verða við því kalli. Rannsóknarnefnd skal ávallt veita hverjum þeim sem gefur skýrslu fyrir nefndinni möguleika á að færa rök fyrir máli sínu á fundi með nefndinni.
    Þeir sem koma fyrir nefndina til að gefa skýrslu hafa ekki stöðu sakbornings í skilningi laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991, heldur hafa þeir stöðu vitnis og um rétt þeirra gilda ákvæði VIII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, eftir því sem við á.
    Rannsóknarnefnd er heimilt að leita eftir gögnum og upplýsingum sem kunna að skipta máli varðandi rannsóknina, m.a. hjá stjórnvöldum. Skylt er að afhenda rannsóknarnefnd öll gögn sem hún telur nauðsynleg við rannsókn máls óháð því hvort gögnin kunna að vera undanþegin upplýsingarétti samkvæmt upplýsingalögum, nr. 50/1996. Gögn skv. 4. gr. upplýsingalaga, nr. 50/1996, eru þó áfram undanþegin upplýsingarétti.
    Fundir rannsóknarnefndar þegar hún kallar á einstaklinga til upplýsingagjafar eru að jafnaði opnir en aðrir fundir rannsóknarnefndar eru lokaðir. Rannsóknarnefnd metur þó sjálf hvort fyrrnefndu fundirnir skuli vera opnir.
    Frumkvæði að skipun rannsóknarnefndar kemur frá Alþingi í formi þingsályktunar. Að sjálfsögðu ber að fara varlega með slíka heimild og nota hana einungis í viðamiklum málum sem varða almannahag.
    Alþingi ákveður fjölda nefndarmanna og rannsóknarandlag nefndarinnar en Hæstiréttur velur og tilnefnir nefndarmennina. Þegar Alþingi setti lög árið 1985 um skipun nefndar sem átti að kanna viðskipti Útvegsbanka Íslands og Hafskips hf. var gert ráð fyrir að Hæstiréttur tilnefndi nefndarmenn. Rétt er að taka fram að í þessu frumvarpi er gert ráð fyrir að rannsóknarnefnd setji sér sjálf starfsreglur og hafi fullt sjálfstæði í störfum sínum og sé öðrum óháð.
    Í 39. gr. stjórnarskrárinnar er gert ráð fyrir að Alþingi geti skipað nefndir alþingismanna til að rannsaka mikilvæg mál er varða almenning. Alþingi getur veitt nefndum þessum rétt til að heimta skýrslur, munnlegar og bréflegar, bæði af embættismönnum og einstökum mönnum. Þetta úrræði hefur einungis einu sinni verið notað og hefur í raun og veru margs konar annmarka. Má þar nefna að ekki eru til neinar málsmeðferðarreglur og að einungis alþingismenn geta setið í slíkri nefnd.
    Samkvæmt 26. gr. þingskapalaga hafa fastanefndir þingsins heimild til að fjalla að eigin frumkvæði um önnur mál en þau sem þingið vísar til þeirra. Um slík mál getur nefnd gefið þinginu skýrslu en í þessum nefndum sitja að sjálfsögðu einungis alþingismenn. Heimildinni hefur ekki verið beitt í þeim tilgangi að rannsaka mál á þann hátt sem rannsóknarnefndum er ætlað samkvæmt frumvarpinu.
    Þingmenn Samfylkingarinnar hafa ítrekað flutt frumvarp um að fela fastanefndum þingsins skv. 26. gr. þingskapalaga víðtækt umboð og rannsóknarvald í einstökum málum, m.a. með rannsóknarheimildum. Þar hefur verið lagt til að tryggt verði að fastanefndirnar geti að eigin frumkvæði efnt til sérstakra rannsókna sem fram fari fyrir opnum tjöldum og fengið heimild til að krefjast nauðsynlegra gagna um málið og heimta munnlegar og skriflegar skýrslur af embættismönnum, einstökum mönnum eða lögaðilum. Markmiðið er að skerpa eftirlits- og aðhaldshlutverk þingsins og færa heimildir löggjafarvaldsins nær því rannsóknarvaldi sem önnur þjóðþing hafa. Þetta mál verður áfram flutt af þingmönnum Samfylkingarinnar enda brýnt að styrkja einnig rannsóknarheimildir þingnefnda og nauðsynlegt að báðir þessir möguleikar um rannsóknarnefndir, innan og utan þings, séu fyrir hendi og geti nýst í ólíkum málum.
    Með þessu frumvarpi er lagt til nýtt úrræði sem ætti að leiða til opnara samfélags og felur í sér að umdeild mál verði rannsökuð af óháðri rannsóknarnefnd. Samkvæmt frumvarpinu verður hægt að skipa ýmiss konar sérfræðinga, jafnvel erlenda, í rannsóknarnefndina en slíkt er ekki hægt þegar skipaðar eru nefndir skv. 39. gr. stjórnarskrárinnar eða 26. gr. þingskapalaga þar sem einungis alþingismenn geta setið í slíkum nefndum. Sömuleiðis eru í frumvarpi þessu málsmeðferðarreglur.

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.

    Greinin felur í sér að Alþingi ályktar að skipa skuli rannsóknarnefnd með þingsályktun. Alþingi ákveður hvað skuli rannsaka en rannsóknarnefnd ákveður hvernig rannsókn er háttað að öðru leyti. Rannsókn kemur til greina í tvenns konar tilvikum. Annars vegar ef um er að ræða mikilvæg mál sem varða almannahag og hins vegar ef um er að ræða stjórnvaldsathafnir sem sömuleiðis varða almannahag. Alþingi metur hvort tilefni er til rannsóknar og almannahagur krefur.

Um 2. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að hlutverk óháðrar rannsóknarnefndar sé að varpa ljósi á tiltekið mál eða stjórnvaldsathöfn sem hefur mikla og almenna þýðingu.
    Rannsóknarnefnd hefur hvorki dómsvald né refsivald.

Um 3. gr.

    Í greininni kemur fram að Alþingi ákveður fjölda nefndarmanna. Rétt er að undirstrika að skv. 4. mgr. 5. gr. frumvarpsins er rannsóknarnefndin öðrum óháð í störfum sínum. Aðkoma Hæstaréttar að rannsóknarnefndinni er einungis að tilnefna nefndarmenn. Nefndarmenn skulu hafa menntun eða starfsreynslu á sviðum sem nýtast í hverju máli fyrir sig. Þá er gert ráð fyrir að nefndin sjálf setji sér starfsreglur. Í þeim er hægt að útfæra frekar reglur um störf nefndarinnar.

Um 4. gr.

    Í greininni er gert ráð fyrir að formaður nefndarinnar uppfylli skilyrði laga til að gegna embætti hæstaréttardómara. Um sérstakt hæfi nefndarmanna að öðru leyti gilda ákvæði II. kafla stjórnsýslulaga, nr. 37/1993.

Um 5. gr.

    Hér er lagt til að formaður rannsóknarnefndar stýri störfum hennar. Nefndin skal að jafnaði hafa aðsetur í Reykjavík. Fram kemur að kostnaður vegna starfa rannsóknarnefndar greiðist úr ríkissjóði og þá skal nefndin vera öðrum óháð í störfum sínum en afar mikilvægt er að nefndin sé sjálfstæð og óháð stjórnvöldum.

Um 6. gr.

    1. og 2. mgr. þarfnast ekki skýringa. Í 3. mgr. er rannsóknarnefndinni heimilað að leita sér aðstoðar sérfræðinga við einstaka þætti rannsóknar. Skv. 3. mgr. 5. gr. frumvarpsins skal kostnaður við slíka aðstoð greiddur úr ríkissjóði.

Um 7. gr.

    Rannsóknarnefnd hefur heimild til að kalla til sín einstaklinga til upplýsingagjafar og er viðkomandi skylt að verða við því kalli. Þessi skylda á við alla einstaklinga og skulu þeir gefa skýrslu fyrir nefndinni.
    Í 2. mgr. er lagt til að um rétt þeirra sem fyrir nefndina koma gildi ákvæði VIII. kafla laga nr. 91/1991, um meðferð einkamála, eftir því sem við á. Í þessum kafla laga um meðferð einkamála kemur m.a. fram hvenær vitni er heimilt að skorast undan vitnaskyldu og hvaða afleiðingar það hefur ef vitni fullnægir ekki vitnaskyldu sinni. Má þar nefna sérstaklega 52. og 53. gr. laga um meðferð einkamála.
    Þó ber að hafa í huga að skv. 4. mgr. greinarinnar eiga 5. mgr. 52. gr., 1. mgr. 53. gr. og c- og d-liður 2. mgr. 53. gr. laga um meðferð einkamála ekki við ef rannsóknarnefnd krefst þess og framburður viðkomandi er talinn hafa umtalsverða þýðingu fyrir rannsóknina og gildi rannsóknarinnar fyrir samfélagið réttlætir það.
    Í 5. mgr. 52. gr. laga um meðferð einkamála segir að embættis- og sýslunarmönnum sé óskylt að koma fyrir dóm til að vitna um atvik sem hafa gerst í embætti þeirra eða sýslan og má leiða nægilega í ljós með vottorði úr embættisbók eða öðru opinberu skjali.
    Í 1. mgr. 53. gr. laga um meðferð einkamála segir að án leyfis hlutaðeigandi ráðherra sé vitni óheimilt að svara spurningum um leynilegar ráðagerðir, ályktanir eða samninga handhafa ríkisvalds um málefni sem varða öryggi, réttindi eða heill ríkisins eða skipta mjög miklu fyrir viðskipti eða fjárhag þjóðarinnar.
    Í c- og d-lið 2. mgr. 53. gr. sömu laga segir að vitni sé óheimilt án leyfis þess sem á í hlut að svara spurningum um atriði sem það hefur komist að í opinberu starfi og á að fara leynt. Sama á við um leyndarmál um viðskipti, uppgötvanir eða önnur slík verk sem vitni hefur komist að í starfi.
    3. mgr. greinarinnar er efnislega samhljóða 3. mgr. 52. gr. laga um meðferð einkamála.
    5. mgr. felur í sér úrræði fyrir rannsóknarnefnd ef skyldu til skýrslugjafar er ekki sinnt en samkvæmt ákvæðinu er nefndinni heimilt að leita eftir því við héraðsdómara að hlutaðeigandi verði kvaddur fyrir dóm til skýrslugjafar. Slík skýrslutaka færi fram eftir almennum reglum um skýrslutökur yfir vitnum í lögum um meðferð einkamála, nr. 91/1991. Svipað úrræði hafa skiptastjórar skv. 3. mgr. 81. gr. laga um gjaldþrotaskipti o.fl., nr. 21/1991, þegar þrotamenn fást ekki til að gefa skýrslu.

Um 8. gr.

    Hér er lagt til að rannsóknarnefnd hafi heimild til að leita eftir upplýsingum og gögnum sem kunna að vera nauðsynleg við rannsókn máls og að skylt sé að verða við þess konar ósk frá nefndinni óháð því hvort gögnin kunna að vera undanþegin upplýsingarétti samkvæmt upplýsingalögum, nr. 50/1996. Gögn skv. 4. gr. upplýsingalaga eru þó áfram undanþegin upplýsingarétti skv. 2. mgr. 8. gr. frumvarpsins. Í 4. gr. upplýsingalaga segir að réttur almennings til aðgangs að gögnum taki ekki til:
     1.      fundargerða ríkisráðs og ríkisstjórnar, minnisgreina á ráðherrafundum og skjala sem tekin hafa verið saman fyrir slíka fundi;
     2.      bréfaskipta stjórnvalda við sérfróða menn til afnota í dómsmáli eða við athugun á því hvort slíkt mál skuli höfðað;
     3.      vinnuskjala sem stjórnvald hefur ritað til eigin afnota; þó skal veita aðgang að vinnuskjölum ef þau hafa að geyma endanlega ákvörðun um afgreiðslu máls eða upplýsingar sem ekki verður aflað annars staðar frá;
     4.      umsókna um störf hjá ríki eða sveitarfélögum og allra gagna sem þær varða; þó er skylt að veita upplýsingar um nöfn, heimilisföng og starfsheiti umsækjenda þegar umsóknarfrestur er liðinn.
    Þetta eru því gögn sem rannsóknarnefnd á ekki rétt á. Hins vegar eru t.d. gögn samkvæmt 5. og 6. gr. upplýsingalaga ekki undanþegin upplýsingarétti rannsóknarnefndar telji nefndin þörf á slíkum gögnum.
    Í 5. gr. upplýsingalaga er að finna takmarkanir á upplýsingarétti vegna einkahagsmuna og þar segir að óheimilt sé að veita almenningi aðgang að gögnum um einka- eða fjárhagsmálefni einstaklinga sem sanngjarnt er og eðlilegt að leynt fari, nema sá samþykki sem í hlut á. Sömu takmarkanir gilda um aðgang að gögnum er varða mikilvæga fjárhags- eða viðskiptahagsmuni fyrirtækja og annarra lögaðila.
    Í 6. gr. upplýsingalaga er að finna takmarkanir á upplýsingarétti vegna almannahagsmuna og þar segir að heimilt sé að takmarka aðgang almennings að gögnum þegar mikilvægir almannahagsmunir krefjist, enda hafi þau að geyma upplýsingar um:
     1.      öryggi ríkisins eða varnarmál;
     2.      samskipti við önnur ríki eða fjölþjóðastofnanir;
     3.      viðskipti stofnana og fyrirtækja í eigu ríkis eða sveitarfélaga að því leyti sem þau eru í samkeppni við aðra;
     4.      fyrirhugaðar ráðstafanir eða próf á vegum ríkis eða sveitarfélaga ef þau yrðu þýðingarlaus eða næðu ekki tilætluðum árangri væru þau á almannavitorði.

Um 9. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um 10. gr.

    Hér er lagt til að fundir rannsóknarnefndar þar sem einstaklingar eru kallaðir fyrir nefndina til að gefa skýrslu séu að jafnaði opnir. Þar sem meginmarkmið rannsóknarnefnda er að varpa ljósi á tiltekið mál eða stjórnvaldsathöfn er talið rétt að slíkir fundir séu haldnir fyrir opnum tjöldum. Aðrir fundir rannsóknarnefndar verða lokaðir samkvæmt greininni en rétt er að taka fram að skv. 11. gr. frumvarpsins er niðurstaða rannsóknarnefndar gerð opinber í skýrslu til forseta Alþingis sem kynnir efni hennar á Alþingi.
    Í 2. mgr. er lagt til að rannsóknarnefnd geti ákveðið af tilteknum ástæðum að fundir skv. 7. gr. skuli fara fram fyrir luktum dyrum ef það þykir nauðsynlegt.
    Lagt er til að ekki verði veittur aðgangur að gögnum nefndarinnar sem hún fær eða aflar við rannsókn máls og að ákvæði upplýsingalaga gilda ekki um nefndina.

Um 11. gr.

    Í greininni er lagt til að rannsóknarnefnd skuli skila niðurstöðu í skýrslu sem hún afhendir forseta Alþingis. Alþingi ákveður að skipa rannsóknarnefnd skv. 1. gr. frumvarpsins og því er talið rétt að skýrslunni sé skilað til forseta Alþingis sem kynnir hana fyrir Alþingi.

Um 12. gr.

    Lagt er til að forseti Alþingis kynni skýrslu rannsóknarnefndar á þingfundi alveg eins og hann kynnir skýrslu umboðsmanns Alþingis á Alþingi.

Um 13. gr.

    Greinin þarfnast ekki skýringa.