Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 312. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 331  —  312. mál.




Frumvarp til laga



um bótarétt heimildarmanna.

Flm.: Ágúst Ólafur Ágústsson, Ásta R. Jóhannesdóttir, Jóhanna Sigurðardóttir, Guðrún Ögmundsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir, Össur Skarphéðinsson, Anna Kristín Gunnarsdóttir, Þórunn Sveinbjarnardóttir.


1. gr.

    Starfsmaður ríkis eða sveitarfélags sem rýfur þagnarskyldu með því að greina frá upplýsingum sem varða ríka hagsmuni og telja verður að eigi erindi til almennings á rétt til bóta úr hendi vinnuveitanda fyrir tjón sem hann verður fyrir vegna uppsagnar, missis réttinda eða annarra aðgerða af hálfu vinnuveitanda, enda þyki sýnt að aðgerðir vinnuveitanda séu viðbrögð við rofi á þagnarskyldu. Sama á við um starfsmenn annarra fyrirtækja, félaga eða stofnana, hvernig sem eignarhaldi þeirra er háttað.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Frumvarp þetta var áður lagt fram á 130. löggjafarþingi af Bryndísi Hlöðversdóttur og fleiri þingmönnum Samfylkingarinnar samhliða frumvarpi til laga um breytingu á ýmsum lögum til verndar trúnaðarsambandi fjölmiðla og heimildarmanna þeirra og til verndar starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga vegna upplýsingagjafar í þágu almannaheilla. Síðan var það lagt fram á 132. löggjafarþingi en varð ekki útrætt og er því endurflutt óbreytt.
    Með frumvarpinu er lagt til að starfsmönnum ríkis og sveitarfélaga, sem og starfsmönnum fyrirtækja, félaga og stofnana óháð eignarhaldi, þ.e. hvort sem þau eru almenningshlutafélög, í eigu ríkisins að hluta eða öllu leyti eða annarra fyrirtækja, verði tryggðar bætur bíði þeir tjón af því að láta fjölmiðlum í té upplýsingar eða koma á framfæri með skrifum eða öðrum flutningi efni, upplýsingum, mynd eða verki sem varðar ríka hagsmuni og erindi á til almennings.
    Tilgangur frumvarpsins er að tryggja bótagrundvöll jafnvel þótt sýnt hafi verið fram á að upplýsingagjöf feli í sér brot á þagnarskyldu.
    Dómstólar meta hvort viðkomandi upplýsingar hafi varðað ríka hagsmuni og átt erindi til almennings svo að bótaréttur hafi myndast. Hins vegar er ljóst að heimildarmaður sem rýfur þagnarskyldu tekur áhættu með því þar sem mat hans á gildi upplýsinganna getur verið rangt og hann því bæði refsiábyrgur fyrir slíka uppljóstrun og án réttar á bótum vegna uppsagnar, missis réttinda eða annarra aðgerða af hálfu vinnuveitanda.
    Um nánari skilyrði bótaréttar og mat á bótafjárhæðum fer samkvæmt almennum reglum skaðabótaréttar.