Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 317. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 339  —  317. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um stofnun háskólaseturs á Akranesi.

Flm.: Jón Bjarnason, Kolbrún Halldórsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela menntamálaráðherra að hefja undirbúning að stofnun háskólaseturs á Akranesi með áherslu á iðn- og tæknigreinar auk almennra grunngreina háskólanáms. Ráðherra geri Alþingi grein fyrir undirbúningsstarfinu og tillögum sínum um uppbyggingu háskólanáms á Akranesi fyrir 1. mars 2007.

Greinargerð.


    Tillaga þessi var lögð fram á 132. löggjafarþingi en náði ekki fram að ganga og er nú lögð fram aftur lítið breytt.
    Efling menntastofnana og rannsóknasetra sem víðast um landið er eitt brýnasta mál landsbyggðarinnar. Reynslan hefur sýnt fram á kosti þess að heimamenn stjórni slíkri starfsemi að sem mestu leyti sjálfir og byggi þá á tækniþekkingu, menningu, atvinnulífi og auðlindum hvers héraðs um sig. Nægir í því sambandi að horfa til háskólanna á Hvanneyri, Bifröst og Hólum sem hafa með sjálfstæði sínu, frumkvæði og sveigjanleika fyllilega staðist þær kröfur sem gerðar eru til háskólanáms. Fáir efast heldur um það nú orðið að sjálfstæði Háskólans á Akureyri var ein meginforsenda þess að hann næði að vaxa og dafna. Hins vegar er samstarf sjálfstæðra menntastofnana ávallt af hinu góða, hvort heldur er samstarf við skóla í öðrum landshlutum eða erlendis.
    Blómlegt mannlíf byggist á menntun, fjölbreyttri atvinnu og góðri almannaþjónustu. Enginn einn þessara þátta nægir þar til. Íbúum Akraness fjölgaði um 650 á árunum 1997–2005 og voru þá um 5.786. Ef með eru taldir íbúar nærliggjandi svæða er heildarfólksfjöldinn á svæðinu um 6.250 manns. Uppbygging atvinnulífs þar hefur að mestu hvílt á aukinni stóriðju og því er afar mikilvægt að auka fjölbreytni í atvinnulífi á svæðinu, efla menntunarmöguleika og almenna þjónustu við íbúana.
    Samkvæmt bráðabirgðaniðurstöðum könnunar sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi létu gera á viðhorfum fólks til búsetuskilyrða á Vesturlandi er ljóst að menntamálin eru mörgum þar ofarlega í huga. Á svæðinu sunnan Skarðsheiðar lentu möguleikar á að afla sér háskólamenntunar í öðru sæti yfir þá þætti sem íbúarnir töldu helst ábótavant á svæðinu. Sama könnun leiddi í ljós brýna þörf fyrir iðnaðarmenn með framhaldsmenntun og ákveðnar vísbendingar um að skortur á iðn- og tæknimenntuðu fólki hamlaði vexti almenns iðnaðar á Akranesi.
    Þótt ekki sé orðið ýkja langt að fara milli Akraness og Reykjavíkur, þar sem þegar eru starfræktar deildir sem bjóða upp á háskólanám í iðn- og tæknigreinum, má ætla að aðstæður fólks til að sækja slíkt nám þangað séu alls ekki alltaf nógu góðar. Það á einkum við um fólk sem þegar er starfandi í iðnaðinum, hefur verið á vinnumarkaði um allnokkurt skeið og komið sér þar fyrir til frambúðar. Það gefur augaleið að háskólasetur, sem mundi færa námið til fólksins í stað hefðbundinnar skólasóknar sem hugsanlega hefði atvinnumissi og daglegan akstur frá heimili til skóla, ef ekki búferlaflutninga, í för með sér, mundi gerbreyta aðstæðum fólks til að sækja sér slíka menntun.
    Ekki er vafi á því að stofnun háskólaseturs á Akranesi yrði kærkomin viðbót við Fjölbrautaskóla Vesturlands sem þar er fyrir. Slíkar menntastofnanir mundu styðja vel hvor við aðra, og ekki bara á sviði menntunar þótt sú samvinna yrði hvað dýrmætust. Ásókn fólks, sem komið er af framhaldsskólaaldri, í nám við Fjölbrautarskólann fer stöðugt vaxandi. Vel má hugsa sér að háskólasetur á Akranesi gæti samnýtt ýmiss konar húsnæði með Fjölbrautaskólanum og þannig mætti dreifa stofn- og rekstrarkostnaðinum á fleiri hendur. Áratugahefð er fyrir öflugri og fjölbreyttri iðnmenntun á Akranesi. Iðnnámið hefur þó átt undir högg að sækja síðustu missiri vegna þess að slíkt nám krefst almennt meiri kostnaðar á hvern nemanda en hefðbundið bóknám. Fjölbrautaskólinn hefur einmitt þurft að heyja stöðuga baráttu fyrir iðnnámi sínu og þeirri sérstöðu sem hann hefur haft á því sviði.
    Sókn er besta vörnin og áðurnefnd könnun sýnir mjög sterka löngun íbúanna á svæðinu eftir auknu framboði á háskólamenntun í heimabyggð. Háskólarnir á Bifröst og Hvanneyri hafa náð sterkri stöðu á sínum sviðum. Háskólasetur með kennslu og rannsóknir á þeim sviðum sem hér eru lögð til mundi auka enn fjölbreytni í tækni- og háskólanámi í héraðinu. Háskólasetur á Akranesi mundi styrkja þessa heildarmynd menntunar og bæta enn frekar búsetuskilyrðin og koma þar með til móts við eindregnar óskir íbúanna í þessu ört vaxandi byggðarlagi. Því er lagt til að menntamálaráðherra skipi nú þegar nefnd með heimamönnum sem vinni tillögur að stofnun háskólaseturs á Akranesi og skili hún áliti fyrir 1. mars 2007 svo að hægt sé að taka tillögur hennar inn í gerð fjárlagafrumvarps fyrir árið 2008.



Fylgiskjal.


Jón Bjarnason:

Háskólasetur á Akranes.
(Vinstri hreyfingin – grænt framboð, Akranesi,
1. tbl. 2. árg., janúar 2006.)


    Íbúum Akraness og nágrennis mun fjölga ört á næstu árum. En um þessar mundir eru þeir um 6500.
    Samkvæmt könnun sem Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi létu gera nýverið á viðhorfum fólks til búsetuskilyrða á svæðinu kom afdráttalaust fram að menntamálin eru þar ofarlega á baugi. Möguleikar til að afla sér framhaldsmenntunar eins og háskólanáms var í 2. sæti yfir þá þætti sem íbúarnir töldu helst ábótavant hér á Akranessvæðinu. Sama könnun leiddi í ljós brýna þörf fyrir iðnaðarmenn með framhaldsmenntun.

Fjölbreytni er forsenda öflugs samfélags.
    Þótt samgöngur verði stöðugt greiðari milli Akraness og Reykjavíkur má ætla að aðstæður fólks til að sækja nám eða vinnu þangað geti verið mismunandi. Það á t.d. við um fólk sem þegar er í starfi og komið með fjölskyldu. Háskólasetur, sem færir námið til fólksins í stað hefðbundinnar skólasóknar myndi gerbreyta aðstæðum til að sækja sér slíka menntun. Möguleikar til að stunda fjarnám eykst stöðugt. Vinstri hreyfingin grænt framboð leggur áherslu á að sérhvert samfélag geti stöðugt sótt fram á sviði menntunar. Þróun hátækniiðnaðar framtíðarinnar sem er baráttumál okkar krefst öflugs menntunarkjarna í hverju byggðarlagi. Fjölgun starfa hér á svæðinu hefur að mestu hvílt á aukinni stóriðju. Sú mikla áhersla sem lögð er á þann iðnað getur leitt samfélagið úti í einhæfni í störfum sem höfðar til afmarkaðs hóps á tilteknum aldri. Því er afar brýnt að auka fjölbreytni í atvinnulífi á svæðinu og efla framboð á möguleikum til menntunar.

Vagga iðnmenntunar.
    Áratuga hefð er fyrir öflugri iðnmenntun á Akranesi. Fjölbrautarskólinn er flaggskip Vesturlands á því sviði. Iðnnámið hefur þó átt undir högg að sækja í tíð ríkisstjórnar Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. En það nám krefst meiri kostnaðar á hvern nemanda en hefðbundið bóknám.
    Þarf skólinn að heyja stöðuga baráttu fyrir iðnnámi sínu og þeirri sérstöðu sem hann hefur haft á því sviði.
    Háskólasetur með kennslu og rannsóknir í þeim greinum sem hér er lagt til mun auka enn á fjölbreytni í tækni- og háskólanámi í héraðinu. Háskólasetur á Akranesi mun styrkja þessa heildarmynd menntunar og bæta enn frekar búsetuskilyrðin og koma þar til móts við eindregnar óskir íbúanna í þessu ört vaxandi byggðarlagi.

Sóknarfæri Akraness.
    Sókn er besta vörnin og áðurnefnd könnun sýnir mjög sterka þrá íbúanna eftir auknu framboði á háskólamenntun í heimabyggð.
    Hver landshluti, hvert byggðarlag verður stöðugt að sækja fram í menntunarmálum, annars er hætta á stöðnun. Menntun, fjölbreytt atvinna, blómlegt mannlíf og hagvöxtur fara saman. Þar liggja sóknarfæri Akranes.
    Ég hef flutt tillögu á Alþingi um stofnun háskólaseturs á Akranesi, en nú þurfa heimamenn að taka frumkvæðið og setja málið í gang.
    Ég óska íbúum Akranes og nágrennis og öllum lesendum þessa blaðs farsældar á nýju ári og þakka samstarf og góð kynni á því ári sem nú er að kveðja.
    Lifið heil.