Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 249. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 371  —  249. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Guðmundar Hallvarðssonar um sendingar Ríkisútvarpsins um gervitungl.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hefur Ríkisútvarpið áform um að senda dagskrár hljóðvarps og sjónvarps um gervitungl, svo að sjómenn á hafi úti og Íslendingar erlendis fái notið?

    Dagskrár Ríkisútvarpsins eru sendar út á hliðrænu dreifikerfi stofnunarinnar, auk þess sem sjónvarpsdagskrá RÚV er aðgengileg á stafrænum dreifikerfum annarra sjónvarpsstöðva. Því hafa allir landsmenn ekki enn aðgang að efni RÚV á stafrænum gæðum.
    Alþingi hefur ákveðið að verja 150 millj. kr. af söluandvirði Símans til útsendinga á dagskrám Ríkisútvarpsins um gervitungl. Gert er ráð fyrir að þessi upphæð standi undir kostnaði við útsendingar í þrjú ár, þ.e. um 50 millj. kr. á ári. Er ætlunin að senda hljóð- og sjónvarpsdagskrár RÚV um gervitungl svo þær verði aðgengilegar áhorfendum um land allt og svo að sjómenn á hafi úti hafi aðgang að efni Ríkisútvarpsins. Jafnframt er gert ráð fyrir að dagskrá RÚV verði aðgengileg Íslendingum erlendis.
    Ákveðið hefur verið að bjóða þjónustuna út á Evrópska efnahagssvæðinu. Er það gert til að fá tilboð frá sem flestum gervihnattafyrirtækjum og þurfa tilboð að berast í síðasta lagi 16. nóvember nk. Ekki er hægt að segja til um hvenær útsendingar hefjast, en RÚV áskilur sér rétt til að nýta nokkrar vikur til að fara yfir þau tilboð sem berast.
    Það er von menntamálaráðherra að sem flestir landsmenn, hér á landi og erlendis, fái aðgang að efni Ríkisútvarpsins á stafrænum gæðum innan tíðar.