Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 348. máls.

Þskj. 377  —  348. mál.



Tillaga til þingsályktunar

um staðfestingu ákvörðunar sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 65/2005, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn.

(Lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




    Alþingi ályktar að heimila ríkisstjórninni að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 65/2005 frá 29. apríl 2005, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipunum ráðsins 85/611/EBE og 93/6/EBE og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 93/22/EBE.

Athugasemdir við þingsályktunartillögu þessa.


1. Inngangur.
    
Með þingsályktunartillögu þessari er leitað heimildar Alþingis til staðfestingar á ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 65/2005 frá 29. apríl 2005, um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn frá 2. maí 1992, og til að fella inn í samninginn tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipunum ráðsins 85/611/EBE og 93/6/EBE og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 93/22/EBE.
    Ákvörðun þessi kallar á lagabreytingar hér á landi og var tekin af sameiginlegu EES- nefndinni með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu. Í tillögu þessari er gerð nánari grein fyrir því hvað felst í slíkum fyrirvara, sbr. 103. gr. EES-samningsins. Jafnframt er gerð grein fyrir efni þeirrar gerðar sem hér um ræðir. Gerð þessi felur ekki í sér breytingar á þeim meginreglum sem í EES-samningnum felast.
    Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem hér um ræðir er prentuð sem fylgiskjal með tillögu þessari ásamt gerðinni sjálfri.

2. Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipunum ráðsins 85/611/EBE og 93/6/EBE og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 93/22/EBE.
    Tilskipun 2004/39/EB er viðamikil tilskipun sem tekur á helstu grunnþáttum verðbréfamarkaða. Tilskipunin byggist á Lamfallussy-ferlinu innan Evrópusambandsins sem miðar að því að evrópskur verðbréfamarkaður verði í fremstu röð í heiminum. Lamfallussy-ferlinu var komið á fót þar sem reglusetningarferli ESB var ekki talið nægjanlega skilvirkt. Felur það í sér að fyrst eru settar meginreglur í formi rammatilskipana en í kjölfarið eru settar nánari reglur (innleiðingargerðir) til fyllingar. Á 3. og 4. stigi ferlisins á sér stað samræming og eftirfylgni. Tilskipunin sem hér um ræðir er rammatilskipun á 1. stigi ferlisins sem kveður á um meginreglur um starfsemi fjármálafyrirtækja sem stunda verðbréfaviðskipti sem og um skipulega verðbréfamarkaði. Framkvæmdastjórnin hefur á öðru stigi ferlisins útfært nánar, með tilskipun og reglugerð, hvernig efni tilskipunarinnar verður framkvæmt. Tilskipunin nemur úr gildi og kemur í stað tilskipunar ráðsins 93/22/EBE um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta.
    Tilskipunin miðar meðal annars að því að styrkja innri markað ESB á sviði fjárfestingarþjónustu. Fyrirtæki sem stunda fjárfestingarþjónustu þurfa til þess leyfi í heimaríki. Leyfi í einu aðildarríki veitir heimild til að stunda fjárfestingarþjónustu í öðrum aðildarríkjum með eða án stofnunar útibús. Yfirvöld í heimaríki sjá um eftirlit með starfseminni.
    Í tilskipuninni eru reglur um upplýsingagjöf hvað varðar kaup- og sölutilboð (pre-trade transparency) sem og upplýsingagjöf að afstöðnum viðskiptum (post-trade transparency) og gilda reglurnar um skipulega verðbréfamarkaði, markaðstorg fjármálagerninga (multilateral trading facility) sem og um fyrirtæki sem stunda kerfisbundin innanhússviðskipti (systematic internalisers).
    Í tilskipuninni eru ákvæði um bestu framkvæmd sem felur það í sér að fjármálafyrirtæki skuli ná bestu niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína. Þá er fjallað um fjárfestavernd. Fyrirtæki skulu tryggja að allar upplýsingar séu heiðarlegar og skýrar. Fyrirtæki skulu meta hvort fjárfesting sé við hæfi viðskiptavinar. Kveðið er á um að afgreiðsla fyrirmæla frá fjárfestum skuli vera skjót og í þeirri röð sem þau berast. Fyrirtæki skulu koma í veg fyrir hagsmunaárekstra milli sín og viðskiptavina sem og milli viðskiptavina innbyrðis.
    Í tilskipuninni eru reglur um skipulega verðbréfamarkaði, svo sem kauphallir, og taka þær meðal annars til leyfisveitinga, hæfis stjórnenda, hagsmunaárekstra og upplýsingagjafar, svo eitthvað sé nefnt. Þá er í tilskipuninni fjallað um markaðstorg fjármálagerninga (multilateral trading facility) sem er nýjung og felst í því að fjármálafyrirtæki og skipulegir verðbréfamarkaðir geti starfrækt viðskiptakerfi með verðbréf og aðra fjármálagerninga.
    Loks eru í tilskipuninni ákvæði um eftirlit lögbærra yfirvalda með fyrirtækjum sem stunda fjárfestingarstarfsemi og samstarf við önnur aðildarríki, sem og þriðju ríki.

3. Um stjórnskipulegan fyrirvara.
    Ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar um breytingar á viðaukum eða bókunum við EES-samninginn eru þjóðréttarsamningar. Samkvæmt samningnum er ekki gert ráð fyrir því að í ákvörðunum sé kveðið á um að gildistaka þeirra gagnvart aðildarríkjunum sé háð staðfestingu þeirra heima fyrir. Þær verða með öðrum orðum skuldbindandi fyrir aðildarríkin um leið og þær hafa verið teknar nema eitthvert aðildarríkjanna beiti heimild í 103. gr. EES- samningsins til að gera fyrirvara um að ákvörðun geti ekki orðið bindandi strax vegna stjórnskipulegra skilyrða heima fyrir. Hafa ríkin sex mánaða frest frá töku ákvörðunar í sameiginlegu nefndinni til að aflétta fyrirvaranum. Með þessu er vísað til nauðsynlegs atbeina þjóðþinga aðildarríkjanna og af hálfu Íslands hefur fyrirvara þessum því einungis verið beitt þegar ljóst er að ákvörðun kallar á lagabreytingar. Almennt hefur ekki verið leitað sérstaks samþykkis Alþingis áður en stjórnskipulegum fyrirvara er aflétt heldur látið við það sitja að Alþingi hafi samþykkt nauðsynlegar lagabreytingar vegna innleiðingar ákvarðana. Þetta felur í sér nokkurt frávik frá almennri meðferð vegna staðfestingar þjóðréttarsamninga þar sem atbeina Alþingis er krafist en á sér skýringar í sérstöðu ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar meðal þjóðréttarsamninga. Hins vegar hafa nokkrir ókostir fylgt þessu fyrirkomulagi. Má þar helst nefna annars vegar að nokkuð mismunandi er með hvaða hætti það hefur komið fram í lagafrumvörpum hvernig þau tengjast tilteknum ákvörðunum sameiginlegu EES- nefndarinnar og hins vegar að með þessari aðferð hefur skort á að Alþingi hafi verið gefinn kostur á að taka beina afstöðu til staðfestingar einstakra ákvarðana nefndarinnar. Í vissum tilvikum hafa ákvarðanir sameiginlegu EES-nefndarinnar kveðið á um að bætt sé við EES- samninginn tiltekinni EB-gerð sem ekki öðlast gildi innan Evrópusambandsins fyrr en einhverjum missirum eða jafnvel árum seinna. Samkvæmt EES-samningnum er Ísland skuldbundið til að taka endanlega afstöðu til þess hvort slík gerð verði hluti samningsins innan sex mánaða frá töku ákvörðunarinnar í sameiginlegu EES-nefndinni en hefur sama svigrúm og önnur aðildarríki samningsins til að innleiða viðkomandi gerð í landsrétt. Fram að þessu hefði eina leiðin verið sú að setja lög til innleiðingar þessara gerða innan sex mánaða frestsins en þau lög hefðu þá að sjálfsögðu ekki þurft að taka gildi fyrr en á ætluðum gildistökudegi gerðarinnar. Þetta er mjög óheppileg leið þar sem við undirbúning slíkrar lagasetningar er oft og tíðum horft til fordæma erlendis frá en þar er að jafnaði ekki hugað að slíkri lagasetningu fyrr en nær dregur gildistöku viðkomandi gerðar. Að þessari leið slepptri er eina leiðin til að virða samningsskuldbindingar Íslands að leita sérstaks samþykkis Alþingis í formi þingsályktunar.
    Að öllu þessu virtu hefur almenn meðferð þeirra ákvarðana sameiginlegu EES-nefndarinnar þar sem Ísland hefur gert stjórnskipulegan fyrirvara verið færð til samræmis við meðferð þjóðréttarsamninga. Í því felst að almennt er leitað sérstaklega eftir samþykki Alþingis til staðfestingar sérhverri ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar sem stjórnskipulegur fyrirvari hefur verið gerður við. Slíks samþykkis er leitað í formi þingsályktunar en viðeigandi ráðuneyti munu samhliða undirbúa nauðsynleg frumvörp til lagabreytinga. Jafnframt hefur þeirri föstu vinnureglu verið komið á, með vísan til 24. gr. laga um þingsköp Alþingis, að haft verði samráð við utanríkismálanefnd um efni þessara ákvarðana meðan þær eru á undirbúningsstigi.



Fylgiskjal I.


ÁKVÖRÐUN SAMEIGINLEGU EES-NEFNDARINNAR nr. 65/2005

frá 29. apríl 2005

um breytingu á IX. viðauka (Fjármálaþjónusta) við EES-samninginn


SAMEIGINLEGA EES-NEFNDIN HEFUR,

með hliðsjón af samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, með áorðnum breytingum samkvæmt bókun um breytingu á samningnum um Evrópska efnahagssvæðið, er nefnist hér á eftir „samningurinn“, einkum 98. gr.,

og að teknu tilliti til eftirfarandi:

1)        IX. viðauka við samninginn var breytt með ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 43/2005 frá 11. mars 2005 ( 1 ).

2)        Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipunum ráðsins 85/611/EBE og 93/6/EBE og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 93/22/EBE ( 2 ) skal felld inn í samninginn með leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. ESB L 45, 16.2.2005, bls. 18.

3)        Með tilskipun 2004/39/EB er tilskipun 93/22/EBE ( 3 ) felld úr gildi frá 30. apríl 2006 að telja, en sú gerð er hluti af samningnum og ber því að fella hana brott.

ÁKVEÐIÐ EFTIRFARANDI:

1. gr.


IX. viðauki við samninginn breytist sem hér segir:

1.        Eftirfarandi undirliður bætist við í 14. lið (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB), 30. lið (tilskipun ráðsins 85/611/EBE) og lið 30a (tilskipun ráðsins 93/6/EBE):

        „-     32004 L 0039: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 (Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1), með leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. ESB L 45, 16.2.2005, bls. 18.“

2.        Eftirfarandi liður bætist við á eftir lið 30c (tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/9/EB):

        „30ca.         32004 L 0039: Tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipunum ráðsins 85/611/EBE og 93/6/EBE og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 93/22/EBE (Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1), með leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. ESB L 45, 16.2.2005, bls. 18.

                        Ákvæði tilskipunarinnar skulu, að því er samning þennan varðar, aðlöguð sem hér segir:

                        Eftirfarandi gildir um tengsl við fjárfestingarfyrirtæki utan bandalagsins sem lýst er í 15. gr. tilskipunarinnar:

                        1.    Með það fyrir augum að samræma eftir föngum framkvæmd reglna um fjárfestingarfyrirtæki í löndum utan bandalagsins skulu samningsaðilar skiptast á upplýsingum svo sem lýst er í 1. og 4. mgr. 15. gr. og halda viðræðufundi um málefni sem um getur í 2. og 3. mgr. 15. gr. á vettvangi sameiginlegu EES-nefndarinnar og samkvæmt sérstakri málsmeðferð sem samningsaðilar koma sér saman um.

                        2.    Leyfi, sem lögbær yfirvöld samningsaðila veita fjárfestingarfyrirtækjum sem eru, beint eða óbeint, dótturfélög móðurfyrirtækja er heyra undir lög lands utan bandalagsins, skulu gilda á öllu yfirráðasvæði allra samningsaðila í samræmi við ákvæði þessarar tilskipunar. Þó gilda eftirtalin ákvæði:

                                a)    Ef land utan bandalagsins takmarkar fjölda þeirra fjárfestingarfyrirtækja frá EFTA-ríki sem hafa heimild til að starfa í því landi eða leggur á slík fjárfestingarfyrirtæki höft sem eru ekki lögð á fjárfestingarfyrirtæki frá bandalagsríkjum, skulu leyfi, sem lögbær yfirvöld bandalagsríkja veita fjárfestingarfyrirtækjum sem eru, beint eða óbeint, dótturfélög móðurfyrirtækja er heyra undir lög þess lands, aðeins gilda í bandalaginu nema EFTA-ríki ákveði annað fyrir sitt lögsagnarumdæmi.

                                b)    Ef bandalagið ákveður að leyfisveitingar fjárfestingarfyrirtækja, sem eru, beint eða óbeint, dótturfélög móðurfyrirtækja er heyra undir lög lands utan bandalagsins, skuli takmarkaðar eða felldar niður um tíma skulu leyfi, sem lögbært yfirvald EFTA-ríkis veitir slíkum fjárfestingarfyrirtækjum, aðeins gilda í lögsagnarumdæmi þess, nema annar samningsaðili ákveði annað fyrir sitt lögsagnarumdæmi.

                                c)    Takmörkunum eða niðurfellingu af því tagi, sem um getur í a- og b-lið, má ekki beita gagnvart fjárfestingarfyrirtækjum eða dótturfélögum þeirra sem hafa þegar fengið úthlutað leyfi á yfirráðasvæði eins samningsaðila.

                        3.    Þegar bandalagið leitar samninga við land utan bandalagsins á grundvelli 2. og 3. mgr. 15. gr. til þess að afla fjárfestingarfyrirtækjum sínum sambærilegra kjara og innlend fyrirtæki njóta og markaðsaðgangs í reynd, skal lagt kapp á að afla fjárfestingarfyrirtækjum EFTA-ríkjanna sömu kjara.

3.        Liður 30b (tilskipun ráðsins 93/22/EBE) falli brott frá 30. apríl 2006 að telja.

2. gr.


Íslenskur og norskur texti tilskipunar 2004/39/EB, með leiðréttingum sem birtust í Stjtíð. ESB L 45, 16.2.2005, bls. 18, sem verður birtur í EES-viðbæti við Stjórnartíðindi Evrópusambandsins, telst fullgiltur.

3. gr.


Ákvörðun þessi öðlast gildi hinn 30. apríl 2005 að því tilskildu að allar tilkynningar samkvæmt 1. mgr. 103. gr. samningsins hafi borist sameiginlegu EES-nefndinni ( * ).

4. gr.


Ákvörðun þessi skal birt í EES-deild Stjórnartíðinda Evrópusambandsins og EES-viðbæti við þau.

Gjört í Brussel 29. apríl 2005.

     Fyrir hönd sameiginlegu EES-nefndarinnar
    Formaður

    R. Wright


    Ritarar
    sameiginlegu EES-nefndarinnar

    Ø. Hovdkinn     M. Brinkmann




Fylgiskjal II.


TILSKIPUN EVRÓPUÞINGSINS OG RÁÐSINS 2004/39/EB
frá 21. apríl 2004
um markaði fyrir fjármálagerninga og um breytingu á tilskipunum ráðsins 85/611/EBE og 93/6/EBE og tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB og um niðurfellingu á tilskipun ráðsins 93/22/EBE


EVRÓPUÞINGIÐ OG RÁÐ EVRÓPUSAMBANDSINS HAFA,
með hliðsjón af stofnsáttmála Evrópubandalagsins, einkum 2. mgr. 47. gr.,
með hliðsjón af tillögu framkvæmdastjórnarinnar ( 1 ),
með hliðsjón af áliti efnahags- og félagsmálanefndar Evrópubandalaganna ( 2 ),
með hliðsjón af áliti Seðlabanka Evrópu ( 3 ),
í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans ( 4 ),
og að teknu tilliti til eftirfarandi:
1)          Í tilskipun ráðsins 93/22/EBE frá 10. maí 1993 um fjárfestingarþjónustu á sviði verðbréfaviðskipta ( 5 ) var leitast við að skapa skilyrði fyrir fjárfestingarfyrirtæki og banka með starfsleyfi til að veita tiltekna þjónustu og stofna útibú í öðrum aðildarríkjum á grundvelli starfsleyfis og eftirlits í heimalandinu. Í þessu skyni var stefnt að því í tilskipuninni að samræma kröfur um upphaflegt starfsleyfi og starfrækslu fyrir fjárfestingarfyrirtæki, þ.m.t. viðskiptareglur. Í henni var einnig kveðið á um samræmingu skilyrða sem stýra starfsemi skipulegra markaða.
2)          Á undanförnum árum hafa fleiri fjárfestar orðið virkir á fjármálamörkuðum og þeim stendur til boða stöðugt flóknari og víðtækari þjónusta og gerningar. Með tilliti til þessarar þróunar ætti lagarammi Bandalagsins að ná yfir alla starfsemi sem tengist fjárfestum. Með þetta að markmiði er nauðsynlegt að kveða á um samræmingu sem veitir fjárfestum víðtæka vernd og að heimila fjárfestingarfyrirtækjum að veita þjónustu alls staðar í Bandalaginu á grundvelli eftirlits í heimalandi, þar semfyrir er óskiptur markaður. Í ljósi framangreinds er rétt að ný tilskipun komi í stað tilskipunar 93/22/EBE.
3)          Vegna þess að fjárfestar reiða sig í auknum mæli á persónulegar ráðleggingar er viðeigandi að veiting fjárfestingarráðgjafar teljist til fjárfestingarþjónustu sem þarf starfsleyfi.
4)          Viðeigandi er að skrá yfir fjármálagerninga innihaldi tilteknar hrávöruafleiður og aðrar afleiður sem eru myndaðar og viðskipti fara fram með þannig að gefi tilefni til reglusetningar á sambærilegan hátt og upp kemur í tengslum við hefðbundna fjármálagerninga.
5)          Nauðsynlegt er að koma á heildstæðu reglukerfi fyrir framkvæmd viðskipta með fjármálagerninga án tillits til þeirra viðskiptaaðferða sem notaðar eru við viðskiptin til að tryggja að viðskipti fjárfesta séu vönduð og til að viðhalda heilleika og almennri skilvirkni fjármálakerfisins. Kveða skal á um samfelldan og áhættunæman ramma til að setja reglur um helstu tegundir ráðstafana um framkvæmd fyrirmæla sem stuðst er við á evrópska fjármálamarkaðinum.
        Nauðsynlegt er að viðurkenna nýja kynslóð skipulegra viðskiptakerfa, sem fram hefur komið við hlið skipulegra markaða, og ætti að falla undir þá skyldu að varðveita skilvirka og skipulega starfsemi fjármálamarkaða.
        Í því skyni að koma á sanngjörnum regluramma skal kveðið á um að ný fjárfestingarþjónusta, sem tengist starfsemi markaðstorgs, skuli innifalin.
6)          Setja skal fram skilgreiningar á skipulegum markaði og markaðstorgi sem eru vel samræmdar hver annarri til að endurspegla þá staðreynd að þær sýna sömu skipulegu viðskiptastarfsemina. Skilgreiningarnar skulu útiloka tvíhliða markaðskerfi þar sem fjárfestingarfyrirtæki stofnar til sérhverra viðskipta fyrir eigin reikning en ekki sem áhættulaus mótaðili sem stendur á milli kaupanda og seljanda. Hugtakið „markaðskerfi“ nær yfir alla markaði sem samanstanda af reglum og vettvangi til viðskipta sem og þeirra sem aðeins starfa á grundvelli reglna. Skipulegum verðbréfamörkuðum og markaðstorgum ber ekki skylda til að starfrækja „tæknilegt“ markaðskerfi til að samræma fyrirmæli. Markaður, sem samanstendur aðeins af reglum um þætti sem tengjast aðild, að leyfa viðskipti með gerninga, viðskipti milli aðila, tilkynningar og, þar sem við á, kvaðir um gagnsæi, er skipulegur markaður eða markaðstorg í skilningi þessarar tilskipunar og viðskiptin sem fara fram samkvæmt þessum reglum teljast hafa farið fram samkvæmt markaðskerfi sem gildir á skipulegum markaði eða markaðstorgi. Hugtakið „kaup- og söluhagsmunir“ ber að túlka í víðum skilningi og nær það yfir fyrirmæli, verðtilboð og sýndan áhuga. Krafan um að kaup- eða söluáhugi sé sameinaður í markaðskerfinu með reglum sem eru ekki valfrjálsar og settar eru af markaðskerfisstjóra þýðir að hann er sameinaður samkvæmt reglum markaðskerfisins eða aðferðarlýsingu markaðskerfisins eða innri verklagsreglum (þ.m.t. verklagsreglur fólgnar í tölvuhugbúnaði). Hugtakið „reglur sem eru ekki valfrjálsar“ merkir að samkvæmt þessum reglum starfrækir fjárfestingarfyrirtæki markaðstorg án þess að geta stjórnað samspili þessa áhuga. Í skilgreiningunum er þess krafist að kaup- eða söluáhugi sé sameinaður þannig að það leiði til samnings í þeirri merkingu að framkvæmd fari fram samkvæmt reglum markaðskerfisins eða aðferðarlýsingu markaðskerfisins eða innri verklagsreglum þess.
7)          Markmið tilskipunarinnar er að fjalla um fyrirtæki sem starfa að því eða hafa aðallega þá starfsemi að veita fjárfestingarþjónustu og/eða stunda fjárfestingarstarfsemi í atvinnuskyni. Gildissvið hennar tekur því ekki til aðila sem hefur aðra atvinnustarfsemi.
8)          Aðilar, sem hafa umsjón með sínum eigin eignum og fyrirtækjum en veita ekki fjárfestingarþjónustu og/eða hafa með höndum fjárfestingarstarfsemi aðra en viðskipti fyrir eigin reikning, nema að þeir séu viðskiptavakar eða stundi viðskipti fyrir eigin reikning utan skipulegs markaðar eða markaðstorgs með skipulegum, tíðum og kerfisbundnum hætti með því að veita þriðju aðilum aðgang að markaðskerfi til að stunda viðskipti við þá, skulu ekki falla undir gildissvið þessarar tilskipunar.
9)          Tilvísanir til aðila í textanum ber að skilja svo að þær eigi bæði við einstaklinga og lögaðila.
10)          Vátrygginga- eða líftryggingafélög, sem eru háð viðeigandi eftirliti af hálfu lögbærra varfærniseftirlitsyfirvalda og sem lúta tilskipun ráðsins 64/225/EBE frá 25. febrúar 1964 um afnám hafta á staðfesturétti og rétti til að veita þjónustu á sviði endurtrygginga ( 6 ), fyrstu tilskipun ráðsins 73/239/EBE frá 24. júlí 1973 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum til að hefja og rekja starfsemi á sviði frumtrygginga annarra en líftrygginga ( 7 ) og tilskipun ráðsins 2002/83/EB frá 8. nóvember 2002 um líftryggingar ( 8 ), skulu undanskilin.
11)          Tilskipun þessi gildir ekki um aðila ef starfsemi þeirra felst í því að veita eingöngu móðurfélögum sínum, dótturfélögum sínum eða öðrum dótturfélögum móðurfélaga sinna fjárfestingarþjónustu en veita hana ekki þriðja aðila.
12)          Aðilar, sem veita einungis tilfallandi fjárfestingarþjónustu í tengslum við atvinnustarfsemi sína, skulu heldur ekki falla undir gildissvið þessarar tilskipunar að því tilskildu að starfsemin sé reglufest og viðeigandi reglur banni ekki tilfallandi fjárfestingarþjónustu.
13)          Tilskipun þessi ætti ekki að taka til aðila sem veita fjárfestingarþjónustu sem felst eingöngu í því að stjórna fjárfestingarsjóðum starfsmanna og veita því ekki þriðju aðilum fjárfestingarþjónustu.
14)          Útiloka ber frá gildissviði þessarar tilskipunar seðlabanka og aðra opinbera aðila sem gegna sambærilegu hlutverki, svo og opinbera aðila sem sjá um stjórnun ríkisskulda eða hafa afskipti af stjórnun þeirra, þetta á einnig við um það hvernig lánsfé er ráðstafað til fjárfestinga, þó ekki þær aðila sem eru að einhverju eða öllu leyti í eigu ríkisins og gegna viðskiptalegu hlutverki eða tengjast öflun eignarhluta.
15)          Útiloka ber frá gildissviði þessarar tilskipunar fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu og lífeyrissjóði, hvort sem þau eru samræmd innan Bandalagsins eða ekki, og vörsluaðila eða rekstraraðila slíkra fyrirtækja þar sem um þau gilda sérstakar reglur sem aðlagaðar hafa verið starfsemi þeirra.
16)          Til að geta notið góðs af undanþágunum frá þessari tilskipun skal viðkomandi aðili jafnan fara að skilyrðunum sem mælt er fyrir um vegna slíkra undanþágna. Ef aðili veitir fjárfestingarþjónustu eða stundar fjárfestingarstarfsemi og er undanþeginn þessari tilskipun vegna þess að slík þjónusta eða starfsemi er viðbót við aðalstarfsemi hans þegar hún er metin á grundvelli samstæðu fyrirtækja, skal undanþágan, sem lýtur að viðbótarþjónustu, t.d. ekki ná til hans þegar veiting þessarar þjónustu eða starfsemin hættir að vera viðbót við aðalstarfsemi hans.
17)          Í því skyni að vernda fjárfesta og tryggja stöðugleika á sviði fjárfestinga þurfa aðilar sem veita þá fjárfestingarþjónustu og/eða stunda þá fjárfestingarstarfsemi, sem þessi tilskipun tekur til, að fá starfsleyfi í heimaaðildarríkjum sínum.
18)          Lánastofnanir, sem hafa starfsleyfi samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2000/12/EB frá 20. mars 2000 um stofnun og rekstur lánastofnana ( 9 ), skulu ekki þurfa annað starfsleyfi til að veita fjárfestingarþjónustu eða stunda fjárfestingarstarfsemi samkvæmt þessari tilskipun. Þegar lánastofnun ákveður að veita fjárfestingarþjónustu eða stunda fjárfestingarstarfsemi skulu lögbær yfirvöld staðfesta að hún fari að viðeigandi ákvæðum þessarar tilskipunar áður en starfsleyfi er veitt.
19)          Í þeim tilvikum þar sem fjárfestingarfyrirtæki veitir óreglulega fjárfestingarþjónustu, eina tegund eða fleiri, sem fellur ekki undir starfsleyfi þess eða stundar óreglulega fjárfestingarstarfsemi, eina tegund eða fleiri, sem fellur ekki undir starfsleyfi þess þarf það ekki viðbótarstarfsleyfi samkvæmt þessari tilskipun.
20)          Í þessari tilskipun tekur móttaka og miðlun fyrirmæla einnig til þess þegar tveimur eða fleiri fjárfestum er komið í samband hverjum við annan þannig að kostur gefst á viðskiptum á milli þeirra.
21)          Samkvæmt væntanlegri endurskoðun á rammanum um eiginfjárkröfur í Basel II-samningnum viðurkenna aðildarríki þörfina á að endurskoða hvort líta beri á fjárfestingarfyrirtæki, sem framfylgir fyrirmælum viðskiptavinar á grundvelli umbjóðendajöfnuðar, sem umbjóðendur og þeir falli þ.a.l. undir viðbótarkröfur um lögbundið eigið fé.
22)          Í meginreglunum um gagnkvæma viðurkenningu og eftirlit heimaaðildarríkis er gengið út frá því að lögbær yfirvöld aðildarríkjanna veiti ekki starfsleyfi eða afturkalli starfsleyfi þegar til að mynda efni starfsáætlana, landfræðileg staðsetning eða starfsemi, sem fer fram þá stundina, bendir ótvírætt til þess að fjárfestingarfyrirtæki hafi valið réttarkerfi tiltekins aðildarríkis til að komast hjá strangari ákvæðum sem gilda í aðildarríkinu þar sem það hefur í hyggju að reka eða rekur nú þegar stærstan hluta starfsemi sinnar. Fjárfestingarfyrirtæki, sem er lögaðili, verður að hafa starfsleyfi í aðildarríkinu þar sem það er með skráða skrifstofu. Fjárfestingarfyrirtæki, sem er ekki lögaðili, verður að hafa starfsleyfi í aðildarríkinu þar sem það er með aðalskrifstofu. Að auki skulu aðildarríkin krefjast þess að aðalskrifstofa fjárfestingarfyrirtækis sé alltaf í heimaaðildarríkinu og starfi þar í raun og veru.
23)          Fjárfestingarfyrirtæki, sem hefur starfsleyfi í heimaaðildarríki sínu, skal eiga rétt á að veita fjárfestingarþjónustu eða stunda fjárfestingarstarfsemi alls staðar í Bandalaginu án þess að þurfa að leita eftir sérstöku starfsleyfi frá lögbærum yfirvöldum í aðildarríkinu þar sem það vill veita slíka þjónustu eða stunda slíka starfsemi.
24)          Þar sem tiltekin fjárfestingarfyrirtæki eru undanþegin ákveðnum kvöðum, sem settar eru fram í tilskipun ráðsins 93/6/EBE frá 15. mars 1993 um eiginfjárkröfur fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana ( 10 ), skulu þeim skylt að hafa annaðhvort lágmarksstofnfé eða starfsábyrgðartryggingu eða blöndu af þessu tvennu. Við leiðréttingar á fjárhæðum tryggingarinnar skal taka tillit til leiðréttinga sem gerðar eru í samræmi við ramma tilskipunar Evrópuráðsins og þingsins frá 9. desember 2002 um miðlun vátrygginga ( 11 ). Þessi tiltekna meðferð að því er varðar eiginfjárkröfur skal vera með fyrirvara um viðeigandi meðferð þessara fyrirtækja samkvæmt framtíðarbreytingum á löggjöf Bandalagsins varðandi eiginfjárkröfur.
25)          Þar sem takmarka skal gildissvið varfærnisreglna við þær einingar sem skapa mótaðilaáhættu fyrir aðra þátttakendur á markaði vegna þess að þær halda veltubók í atvinnuskyni skulu einingar, sem stunda viðskipti með fjármálagerninga fyrir eigin reikning, þ.m.t. hrávöruafleiður sem þessi tilskipun tekur til, auk þeirra sem veita viðskiptavinum aðalstarfsemi sinnar fjárfestingarþjónustu fyrir afleidd vöruskuldaskjöl til viðbótar við aðalstarfsemi sína, þegar hún er metin á grundvelli samstæðu fyrirtækja, að því tilskildu að þessi aðalstarfsemi felist ekki í því að veita fjárfestingarþjónustu í skilningi þessarar tilskipunar, ekki falla undir gildissvið þessarar tilskipunar.
26)          Til þess að vernda eignarrétt fjárfestis og sambærileg réttindi í tengslum við verðbréf og réttindi hans að því er varðar fjármuni, sem fyrirtæki er trúað fyrir, skal halda þessum réttindum aðskildum frá réttindum fyrirtækisins. Þessi meginregla kemur þó ekki í veg fyrir að fyrirtækið annist viðskipti í eigin nafni fyrir hönd fjárfestis ef eðli viðskiptanna krefst þess og fjárfestir er því samþykkur, t.d. ef um er að ræða hlutabréfalán.
27)          Þegar viðskiptavinur, í samræmi við löggjöf Bandalagsins, einkum tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/47/EB frá 6. júní 2002 um fjárhagslegar tryggingaráðstafanir ( 12 ), afsalar sér að fullu eignarrétti sínum á fjármálagerningum eða fjármunum til fjárfestingarfyrirtækis í þeim tilgangi að tryggja eða vernda með öðrum hætti raunverulegar eða skilyrtar eða væntanlegar kvaðir, núverandi eða í framtíð, skulu slíkir fjármálagerningar eða fjármunir að sama skapi ekki lengur teljast tilheyra viðskipavininum.
28)          Reglur í Bandalaginu um starfsleyfi útibúa fjárfestingarfyrirtækja, sem hafa fengið starfsleyfi í þriðju löndum, gilda áfram gagnvart slíkum fyrir tækjum. Þau útibú skulu ekki hafa frelsi til að veita þjónustu samkvæmt annarri málsgrein 49. gr. sáttmálans eða staðfesturétt í öðrum aðildarríkjum en þeim þar sem þau hafa staðfestu. Með tilliti til tilvika þar sem Bandalagið er ekki bundið af tvíhliða eða marghliða skuldbindingum er viðeigandi að kveða á um málsmeðferð sem hefur að markmiði að tryggja að fjárfestingarfyrirtæki innan Bandalagsins njóti á gagnkvæmnisgrundvelli samsvarandi kjara í hlutaðeigandi þriðju löndum.
29)          Fjölgun á sviðum starfsemi, sem mörg fjárfestingarfyrirtæki stunda samtímis, hefur aukið líkurnar á hagsmunaárekstrum á milli þessarar mismunandi starfsemi og hagsmuna viðskiptavina þeirra. Því er nauðsynlegt að kveða á um reglur til að tryggja að slíkir árekstrar hafi ekki neikvæð áhrif á hagsmuni viðskiptavina þeirra.
30)          Litið skal svo á að þjónusta sé veitt að frumkvæði viðskiptavinar nema ef viðskiptavinurinn fer fram á hana vegna persónubundinna skilaboða frá fyrirtækinu eða af hálfu þess til þessa tiltekna viðskiptavinar, og þau fela í sér boð eða er ætlað að hafa áhrif á viðskiptavininn að því er varðar tiltekinn fjármálagerning eða tiltekin viðskipti. Hægt er að líta svo á þjónusta sé veitt að frumkvæði viðskiptavinar þrátt fyrir að viðskiptavinurinn fari fram á hana á grundvelli skilaboða sem innihalda hvers kyns kynningu eða tilboð á fjármálagerningum sem eru almenns eðlis og ætluð eru almenningi eða stærri hópi eða flokki viðskiptavina eða hugsanlegum viðskiptavinum.
31)          Eitt af markmiðum þessarar tilskipunar er að vernda fjárfesta. Ráðstafanir til að vernda fjárfesta skulu lagaðar að sérkennum hvers flokks fjárfesta (almennir fjárfestar, fagfjárfestar og mótaðilar).
32)          Þrátt fyrir meginregluna um starfsleyfi í heimalandinu, eftirlit og fullnustu kvaða varðandi rekstur útibúa er viðeigandi að lögbært yfirvald í gistiaðildarríkinu taki á sig ábyrgð á fullnustu tiltekinna kvaða, sem tilgreindar eru í þessari tilskipun, að því er varðar viðskipti sem fara fram í útibúi innan þess yfirráðasvæðis þar sem útibúið er staðsett vegna þess að yfirvaldið er næst útibúinu og er í betri stöðu til að greina og grípa inn í brot á reglum um rekstur útibúsins.
33)          Nauðsynlegt er að koma á skilvirkri kvöð um „bestu framkvæmd“ til að tryggja að fjárfestingarfyrirtæki framfylgi fyrirmælum viðskiptavina með skilmálum sem eru viðskiptavininum hagstæðastir. Þessi kvöð gildir um fyrirtæki sem hafa samnings- eða stofnanabundnar kvaðir gagnvart viðskiptavini.
34)          Til að tryggja heiðarlega samkeppni verða markaðsaðilar og fjárfestar að geta borið saman verð sem krafist er að viðskiptakerfi (þ.e. skipulegir markaðir, markaðstorg og miðlarar) birti. Með þetta að markmiði er þeim tilmælum beint til aðildarríkja að þau fjarlægi hindranir sem gætu komið í veg fyrir sameiningu og birtingu viðeigandi upplýsinga á evrópskum vettvangi.
35)          Þegar fjárfestingarfyrirtæki kemur á viðskiptatengslum við viðskiptavin gæti það beðið viðskiptavininn eða hugsanlegan viðskiptavin að samþykkja jafnframt framkvæmdastefnuna og einnig möguleikann á því að fyrirmæli hans kunni að vera framkvæmd utan skipulegs markaðar eða markaðstorgs.
36)          Ekki skal líta svo á að aðilar, sem veita fjárfestingarþjónustu fyrir hönd fleiri en eins fjárfestingarfyrirtækis, séu fastir umboðsmenn heldur fjárfestingarfyrirtæki þegar þeir falla undir skil greininguna sem kveðið er á um þessari tilskipun, að undanskildum tilteknum aðilum sem kunna að njóta undanþágu.
37)          Þessi tilskipun skal vera með fyrirvara um rétt fastra umboðsmanna til að stunda starfsemi sem fellur undir aðrar tilskipanir og tengda starfsemi að því er varðar fjármálaþjónustu eða fjármálaafurðir sem falla ekki undir þessa tilskipun, þar á meðal fyrir hönd annarra hluta sömu fjármálasamstæðu.
38)          Þessi tilskipun tekur ekki til skilyrða fyrir starfsemi sem er stunduð utan athafnasvæðis fjárfestingafyrirtækisins (sala við húsdyr).
39)          Lögbær yfirvöld aðildarríkjanna skulu ekki skrá eða afturkalla skráninguna þegar starfsemin, sem fer í reynd fram, bendir ótvírætt til þess að fastur umboðsmaður hafi valið réttarkerfi tiltekins aðildarríkis til að komast hjá strangari ákvæðum sem gilda á yfirráðasvæði annars aðildarríkis þar sem hann hefur í hyggju að reka eða rekur nú þegar stærstan hluta starfsemi sinnar.
40)          Í þessari tilskipun skal líta svo á að hæfir mótaðilar séu viðskiptavinir.
41)          Til að tryggja að viðskiptareglum (þ.m.t. reglur um bestu framkvæmd og meðferð fyrirmæla viðskiptavina) sé framfylgt að því er varðar þá fjárfesta sem helst þarfnast þessarar verndar og til þess að endurspegla almennt viðurkennda markaðsvenju í Bandalaginu er viðeigandi að gera það ljóst að fella má viðskiptareglur niður þegar um er að ræða viðskipti sem gerð eru eða komið er til leiðar á milli hæfra mótaðila.
42)          Að því er varðar viðskipti, sem fara fram á milli hæfra mótaðila, skal kvöðin um að birta skilyrt fyrirmæli viðskiptavinar aðeins gilda þar sem mótaðili sendir afdráttarlaust skilyrt fyrirmæli til fjárfestingarfyrirtækis til framkvæmdar.
43)          Aðildarríki skulu vernda rétt einstaklinga til friðhelgi einkalífs við vinnslu persónuupplýsinga í samræmi við tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 95/46/EB frá 24. október 1995 um vernd einstaklinga í tengslum við vinnslu persónuupplýsinga og um frjálsa miðlun slíkra upplýsinga ( 13 ).
44)          Til að uppfylla þau tvö markmið að vernda fjárfesta og tryggja eðlilega starfsemi verðbréfamarkaða er nauðsynlegt að tryggja að gagnsæi í viðskiptum sé náð og að reglurnar, sem mælt er fyrir um í þeim tilgangi, gildi um fjárfestingarfyrirtæki þegar þau starfa á mörkuðum. Til þess að auðvelda fjárfestum eða markaðsaðilum að meta, hvenær sem er, skilmála viðskipta með hlutabréf, sem þeir eru með í skoðun, og til að sannreyna, eftir á, skilyrðin, sem þau fóru fram í samræmi við, skal sameiginlegum reglum komið á um birtingu upplýsinga um viðskipti með hlutabréf sem lokið er og upplýsingagjöf um núverandi tækifæri til viðskipta með hlutabréf. Þessar reglur eru nauðsynlegar til að tryggja skilvirka samþættingu hlutabréfamarkaða aðildarríkja, auka skilvirkni heildarverðmyndunarferlisins fyrir eiginfjárgerninga og aðstoða við skilvirka uppfyllingu kvaða um „bestu framkvæmd“. Þessi atriði gera kröfu um yfirgripsmiklar reglur um gagnsæi sem gildi um öll viðskipti með hlutabréf óháð framkvæmd þeirra af hálfu fjárfestingarfyrirtækis á tvíhliða grunni eða á skipulegum markaði eða markaðstorgi. Kvaðir fjárfestingarfyrirtækja samkvæmt þessari tilskipun um að gefa upp kauptilboðs- og útboðsverð og að framfylgja fyrirmælum á verðtilboði aflétta ekki þeirri kvöð af fjárfestingarfyrirtækjum að senda fyrirmæli til annars viðskiptakerfis ef slík innmiðlun gæti komið í veg fyrir að fyrirtækið uppfylli kvaðir um „bestu framkvæmd“.
45)          Aðildarríkin geta beitt þeirri kvöð að tilkynna beri um viðskipti sem varða fjármálagerninga sem ekki er leyfilegt að stunda viðskipti með á skipulegum markaði.
46)          Aðildarríki getur ákveðið að beita kröfunum um gagnsæi fyrir og eftir viðskipti, sem mælt er fyrir um íþessari tilskipun, á fjármálagerninga aðra en hlutabréf. Í því tilviki skulu kröfurnar gilda um öll fjárfestingarfyrirtæki þar sem aðildarríkið er heimaaðildarríki fyrir starfsemi þeirra á yfirráðasvæði þess aðildarríkis og um þá starfsemi sem fram fer yfir landamæri á grundvelli frelsis til að veita þjónustu. Þær skulu líka gilda um starfsemi sem útibú fjárfestingarfyrirtækja, sem hafa staðfestu á yfirráðasvæði þess aðildarríkis en hafa starfsleyfi í öðru aðildarríki, stunda innan yfirráðasvæðis þess.
47)          Fjárfestingarfyrirtæki skulu öll hafa sömu tækifæri til að komast inn á eða hafa aðgang að skipulegum verðbréfamörkuðum alls staðar í Bandalaginu. Óháð því hvernig viðskipti eru nú skipulögð í aðildarríkjunum er mikilvægt að fella niður tæknilegar og lagalegar hömlur á aðgangi að skipulegum verðbréfamörkuðum.
48)          Til að auðvelda lyktir viðskipta milli landa er viðeigandi að veita fjárfestingarfyrirtækjum aðgang að greiðslujöfnunar- og uppgjörskerfum alls staðar í Bandalaginu óháð því hvort viðskipti hafi farið fram á skipulegum verðbréfamörkuðum í hlutaðeigandi aðildarríki. Fjárfestingarfyrirtæki, sem óska þess að taka beinan þátt í uppgjörskerfum annarra aðildarríkja, skulu uppfylla kröfur varðandi rekstur og viðskipti í tengslum við aðild og varfærnisráðstafanir til að viðhalda snurðulausri og skipulegri starfsemi fjármálamarkaðanna.
49)          Starfsleyfi til að starfrækja skipulegan markað skulu ná til allrar starfsemi sem tengist beint birtingu, meðferð, framfylgd, staðfestingu og tilkynningu fyrirmæla frá því að slík fyrirmæli eru móttekin á skipulegum markaði og þangað til að þau eru leidd til lykta, og til starfsemi sem tengist því að leyfa viðskipti með fjármálagerninga. Þetta skal einnig taka til viðskipta sem fara fram í gegnum viðskiptavaka, sem skipulegur markaður tilnefnir, og samkvæmt markaðskerfum hans og í samræmi við reglurnar sem gilda um þau kerfi. Ekki skal líta svo á að öll viðskipti aðila eða þátttakenda á skipulegum markaði eða markaðstorgi fari fram innan markaðskerfis skipulegs markaðar eða markaðstorgs. Viðskipti, sem aðilar eða þátttakendur gera á tvíhliða grunni og samrýmast ekki öllum kvöðum sem settar hafa verið varðandi skipulegan markað eða markaðstorg samkvæmt þessari tilskipun, skulu talin viðskipti sem fara fram utan skipulegs markaðar eða markaðstorgs að því er varðar skilgreiningu á innmiðlara. Í því tilviki skal kvöð fjárfestingarfyrirtækja um að birta bindandi verðtilboð gilda ef skilyrðin, sem sett eru með þessari tilskipun, eru uppfyllt.
50)          Innmiðlarar kunna að ákveða að veita aðeins almennum viðskiptavinum eða fagviðskiptavinum aðgang að verðtilboðum sínum eða báðum þessum hópum. Þeim skal ekki heimilt að mismuna viðskiptavinum innan þessara hópa.
51)          Í 27. gr. er þess ekki krafist að innmiðlarar birti bindandi verðtilboð fyrir viðskipti sem eru yfir staðlaðri markaðsstærð.
52)          Þar sem fjárfestingarfyrirtæki er innmiðlari með bæði hlutabréf og aðra fjármálagerninga skal kvöðin um að gefa upp verðtilboð aðeins eiga við að því er varðar hlutabréf, með fyrirvara um 46. forsendu.
53)          Það er ekki markmiðið með þessari tilskipun að gera kröfu um beitingu reglna um gagnsæi áður en viðskipti, sem fara fram utan skipulegra markaða, eiga sér stað en einkenni þeirra eru m.a. þau að þau eru sértæk og óregluleg og eru við mótaðila sem fást við heildsölu, eru hluti af viðskiptatengslum sem einkennast af viðskiptum sem eru yfir staðlaðri markaðsstærð og viðskiptin fara fram utan markaðskerfa sem hlutaðeigandi fyrirtæki notar venjulega fyrir viðskipti sín sem innmiðlari.
54)          Stöðluð markaðsstærð í sérhverjum flokki hlutabréfa skal ekki vera í verulegu ósamræmi við einstök hlutabréf í þeim flokki.
55)          Í endurskoðaðri tilskipun 93/6/EBE skulu fastsettar lágmarkskröfur um eigið fé, sem skipulegir markaðir verða að uppfylla til að hljóta starfsleyfi, og samhliða því tekið tillit til eðlis áhættunnar sem tengist slíkum mörkuðum.
56)          Rekstraraðilar skipulegs markaðar skulu einnig geta starfrækt markaðstorg í samræmi við viðeigandi ákvæði þessarar tilskipunar.
57)          Ákvæðin í þessari tilskipun varðandi að leyfa viðskipti með gerninga samkvæmt reglum sem framfylgt er á skipulegum markaði skulu vera með fyrirvara um beitingu tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2001/34/EB frá 28. maí 2001 um opinbera skráningu verðbréfa á verðbréfaþingi og upplýsingar sem birtar skulu um slík verðbréf ( 14 ). Ekki skal komið í veg fyrir að á skipulegum markaði sé beitt strangari kröfum, að því er varðar útgefendur verðbréfa eða gerninga sem til greina kemur að leyfa viðskipti með, en þeim sem gerðar eru samkvæmt þessari tilskipun.
58)          Aðildarríki skulu geta tilnefnt mismunandi lögbær yfirvöld til að framfylgja þeim víðtæku kvöðum sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun. Slík yfirvöld skulu vera opinber sem tryggir að þau séu óháð rekstraraðilum og kemur í veg fyrir hagsmunaárekstra. Aðildarríkin skulu sjá til þess, í samræmi við innlend lög, að lögbæra yfirvaldið hafi viðeigandi fjármuni til ráðstöfunar. Tilnefning opinbers yfirvalds skal ekki útiloka að ábyrgð lögbæra yfirvaldsins sé deilt.
59)          Trúnaðarupplýsingar, sem tengiliður aðildarríkis fær frá tengilið annars aðildarríkis, skulu ekki teljast alfarið innlendar.
60)          Nauðsynlegt er að bæta samleitni valdheimilda lögbærra yfirvalda til að leggja grunn að sambærilegri fullnustu á hinum samþætta fjármálamarkaði. Sameiginlegar lágmarksvaldheimildir ásamt nægilegu fjármagni ættu að tryggja skilvirkt eftirlit.
61)          Til að vernda viðskiptavini og með fyrirvara um rétt viðskiptavina til að höfða mál fyrir dómstólum er viðeigandi að aðildarríkin hvetji opinbera aðila eða einkaaðila, sem eiga að annast lausn deilumála utan réttar, til samstarfs við að leysa deilur yfir landamæri að teknu tilliti til tilmæla framkvæmdastjórnarinnar 98/257/EB frá 30. mars 1998 um meginreglur sem gilda um aðila sem annast lausn deilumála á sviði neytendamála utan dómstóla ( 15 ). Þegar ákvæðum um meðferð fyrir kærur og úrlausn mála utan réttar er hrundið í framkvæmd eru aðildarríkin hvött til að nota það fyrirkomulag um samvinnu yfir landamæri sem þegar er til staðar, einkum kvörtunarnet gegn fjármálaþjónustuaðilum (FIN-Net).
62)          Öll upplýsingaskipti eða -miðlun milli lögbærra yfirvalda, annarra yfirvalda, aðila eða einstaklinga skulu vera í samræmi við reglur um flutning persónuupplýsinga til þriðju landa eins og mælt er fyrir um í tilskipun 95/46/EB.
63)          Nauðsynlegt er að styrkja ákvæði um upplýsingaskipti á milli lögbærra innlendra yfirvalda og að styrkja þá aðstoðar- og samstarfsskyldu sem þau hafa hvert gagnvart öðru. Vegna aukinnar starfsemi yfir landamæri skulu lögbær yfirvöld veita hvert öðru viðeigandi upplýsingar um hvernig þau sinna hlutverki sínu til að tryggja skilvirka framkvæmd þessarar tilskipunar, þ.m.t. við aðstæður þar sem brot eða meint brot kann að varða yfirvöld tveggja eða fleiri aðildarríkja. Við upplýsingaskipti ber að virða ítrustu þagnarskyldu til að tryggja snurðulausa sendingu upplýsinganna og vernd tiltekinna réttinda.
64)          Á fundi sínum 17. júlí 2000 skipaði ráðið vísdómsmannanefnd sem er samstarfsnefnd evrópskra eftirlitsaðila á verðbréfamarkaði. Í lokaskýrslu sinni gerði vísdómsmannanefndin tillögu um nýja aðferð við lagasetningu sem byggir á fjögurra þrepa aðferð, þ.e. rammareglum, framkvæmdarráðstöfunum, samstarfi og fullnustu. 1. þrep, tilskipunin, takmarkast við víðan, almennan „ramma“ meginreglna en 2. þrep felur í sér tæknilegar framkvæmdarráðstafanir sem framkvæmdastjórnin ákveður með aðstoð nefndar.
65)          Með ályktun, sem samþykkt var á fundi leiðtogaráðsins í Stokkhólmi 23. mars 2001, viðurkenndi það lokaskýrslu vísdómsmannanefndarinnar og fyrirhugaða fjögurra þrepa aðferð sem á að gera lagasetningarferli Bandalagsins á sviði verðbréfa skilvirkara og gagnsærra.
66)          Samkvæmt fundi leiðtogaráðsins í Stokkhólmi skal beita annars þreps framkvæmdarráðstöfunum oftar til að tryggja að tæknileg ákvæði verði uppfærð til samræmis við þróun markaðs- og eftirlitsmála, einnig að setja skuli frest á öllum stigum þess starfs sem unnið er á öðru þrepi.
67)          Með ályktun Evrópuþingsins frá 5. febrúar 2002 um framkvæmd löggjafar um fjármálaþjónustu var skýrsla vísdómsmannanefndarinnar sömuleiðis viðurkennd, á grundvelli drengskaparheits, sem framkvæmdastjórnin gaf þinginu sama dag, og bréfs frá 2. október 2001, sem framkvæmdastjóri á sviði innri markaðar ESB sendi formanni nefndar á vegum þingsins um efnahags- og peningamál, um að standa vörð um hlutverk Evrópuþingsins í þessu ferli.
68)          Gerðar skulu nauðsynlegar ráðstafanir til framkvæmdar þessari tilskipun í samræmi við ákvörðun ráðsins 1999/468/EB frá 28. júní 1999 um reglur um meðferð framkvæmdavalds sem framkvæmdastjórninni er falið ( 16 ).
69)          Evrópuþingið skal hafa þrjá mánuði frá því að fyrstu drög að framkvæmdarráðstöfunum eru send til að kynna sér drögin og láta álit sitt í ljós. Þann tíma er þó heimilt að stytta í áríðandi og tilhlýðilega rökstuddum tilvikum. Fari ályktun í gegnum Evrópuþingið á þessu tímabili skal framkvæmdastjórnin endurskoða drögin að ráð stöfununum.
70)          Með það að markmiði að taka tillit til frekari þróunar á fjármálamörkuðum skal framkvæmdastjórnin leggja fyrir Evrópuþingið og ráðið skýrslur um beitingu ákvæða sem varða starfsábyrgðartryggingu, gildissvið reglna um gagnsæi og hugsanlegt starfsleyfi sérhæfðra seljenda hrávöruafleiða til að teljast fjárfestingarfyrirtæki.
71)          Það markmið að skapa samþættan fjármálamarkað, þar sem fjárfestar eru verndaðir á skilvirkan hátt og skilvirkni og heilleiki markaðarins í heild nýtur verndar, krefst þess að gerðar séu sameiginlegar kröfur um reglur er varða fjárfestingarfyrirtæki hvar sem þau hafa starfsleyfi í Bandalaginu og stjórn á starfsemi skipulegra markaða og annarra viðskiptakerfa til að koma í veg fyrir að ógagnsæi eða röskun á einum markaði grafi undan skilvirkri starfsemi evrópska fjármálakerfisins í heild. Sökum þess að auðveldara er að ná þessu markmiði á vettvangi Bandalagsins getur Bandalagið samþykkt ráðstafanir sem eru í samræmi við dreifræðisregluna sem sett er fram í 5. gr. sáttmálans. Í samræmi við meðalhófsregluna, eins og kveðið er á um í þeirri grein, er ekki gengið lengra en nauðsyn krefur í þessari tilskipun til að ná megi þessu markmiði.
SAMÞYKKT TILSKIPUN ÞESSA:

I. BÁLKUR
SKILGREININGAR OG GILDISSVIÐ
1. gr.
Gildissvið

1.     Þessi tilskipun gildir um fjárfestingarfyrirtæki og skipulega markaði.
2.     Eftirfarandi ákvæði skulu einnig gilda um lánastofnanir með starfsleyfi samkvæmt tilskipun 2000/12/EB þegar þær veita fjármálaþjónustu og/eða stunda fjárfestingarstarfsemi sem tilgreind er í:
.    2. gr. (2. mgr.) 11., 13. og 14. gr.,
—    II. kafla II. bálks að undanskildum öðrum undirlið 2. mgr. 23. gr.,
—    III. kafla II. bálks, að undanskilinni 2..4. mgr. 31. gr. og 2..6. mgr. , 8. mgr. og 9. mgr. 32. gr.,
—    48.–53. gr., 61. og 62. gr. og
—    1. mgr. 71. gr.


2. gr.
Undanþágur

1.     Tilskipun þessi gildir ekki um:
a)    vátryggingafélög eins og þau eru skilgreind í 1. gr. tilskipunar 73/239/EBE eða líftryggingafélög eins og þau eru skilgreind í 1. gr. tilskipunar 2002/83/EB eða félög sem stunda endurtryggingastarfsemina sem um getur í tilskipun 64/225/EBE,
b)    aðila sem veita aðeins móðurfélögum sínum, dótturfélögum sínum eða öðrum dótturfélögum móðurfélaga sinna fjárfestingarþjónustu,
c)    aðila sem veita tilfallandi fjárfestingarþjónustu í tengslum við atvinnustarfsemi sína sem er reglufest með laga- eða reglugerðarákvæðum eða siðareglum sem útiloka ekki að slík þjónusta sé veitt,
d)    aðila sem veita ekki fjárfestingarþjónustu eða stunda fjárfestingarstarfsemi aðra en viðskipti fyrir eigin reikning nema að þeir séu viðskiptavakar eða stundi viðskipti fyrir eigin reikning utan skipulegs markaðar eða markaðstorgs með skipulegum, tíðum og kerfisbundnum hætti með því að veita þriðju aðilum aðgang að kerfi til að stunda viðskipti við þá,
e)    aðila sem veita aðeins fjárfestingarþjónustu í tengslum við stjórnun á fjárfestingarsjóðum starfsmanna,
f)    aðila sem veita aðeins móðurfélögum sínum, dótturfélögum sínum eða öðrum dótturfélögum móðurfélaga sinna fjárfestingarþjónustu sem felst aðeins í að stjórna fjárfestingarsjóðum starfsmanna og að veita fjárfestingarþjónustu,
g)    aðila að seðlabankakerfi Evrópu og aðra innlenda aðila sem gegna sambærilegum hlutverkum og aðra opinbera aðila sem sjá um eða hafa afskipti af stjórnun skulda ríkissjóðs,
h)    fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu og lífeyrissjóði hvort sem þau eru samræmd innan Bandalagsins eða ekki og vörsluaðila og rekstraraðila slíkra fyrirtækja,
i)    aðila sem stunda viðskipti með fjármálagerninga fyrir eigin reikning eða veita viðskiptavinum aðalstarfsemi sinnar fjárfestingarþjónustu í hrávöruafleiðum eða afleiddum samningum, sem er að finna í 10. lið C þáttar I. viðauka, svo fremi sem það er viðbótarstarfsemi við aðalstarfsemi þeirra þegar hún er metin á grundvelli samstæðu fyrirtækja og að aðalstarfsemin felist ekki í því að veita fjárfestingarþjónustu í skilningi þessarar tilskipunar eða bankaþjónustu samkvæmt tilskipun 2000/12/EB,
j)    aðila sem veita fjárfestingarráðgjöf meðfram því að veita aðra þjónustu í atvinnuskyni sem ekki fellur undir þessa tilskipun að því tilskildu að ekki sé launað sérstaklega fyrir að veita slíka ráðgjöf,
k)    aðila sem hafa þá aðalstarfsemi að stunda viðskipti fyrir eigin reikning með hrávörur og/eða hrávöruafleiður. Þessi undantekning gildir ekki þegar aðilarnir sem stunda viðskipti með hrávörur eða hrávöruafleiður fyrir eigin reikning eru hluti af samstæðu sem hefur þá aðalstarfsemi að veita aðra fjárfestingarþjónustu í skilningi þessarar tilskipunar eða bankaþjónustu samkvæmt tilskipun 2000/12/EB,
l)    fyrirtæki sem veita fjárfestingarþjónustu og/eða stunda fjárfestingarstarfsemi sem felst eingöngu í því að stunda viðskipti fyrir eigin reikning á mörkuðum fyrir framtíðarsamninga eða valréttarsamninga eða aðrar afleiður og á peningamörkuðum eingöngu í þeim tilgangi að baktryggja stöður á afleiðumörkuðum, eða sem stunda viðskipti fyrir reikning annarra sem eiga aðild að sömu mörkuðum eða gefa upp verð til þeirra sem uppgjörsaðilar á sömu mörkuðum ábyrgjast og þar sem uppgjörsaðilar á sömu mörkuðum ábyrgjast að staðið sé við samninga sem slík fyrirtæki gera,
m)    samtök sem danskir og finnskir lífeyrissjóðir koma á fót í þeim tilgangi einum að stjórna eignum þeirra lífeyrissjóða sem eiga aðild að þessum samtökum,
n)    „agenti di cambio“ en starfsemi þeirra og hlutverk fellur undir 201. gr. ítalsks lagaúrskurðar nr. 58 frá 24. febrúar 1998.
2.     Þau réttindi sem þessi tilskipun veitir taka ekki til þess að veita þjónustu í hlutverki mótaðila í viðskiptum sem opinberir aðilar, sem fást við skuldir ríkissjóðs, annast eða til aðila að seðlabankakerfi Evrópu sem leysa verkefni sín af hendi eins og kveðið er á um í stofnsáttmála og stofnsamþykkt seðlabankakerfis Evrópu og Seðlabanka Evrópu eða sem gegna sambærilegu hlutverki samkvæmt innlendum ákvæðum.
3.     Til að taka tillit til þróunar á fjármálamörkunum og tryggja samræmda beitingu þessarar tilskipunar getur framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 64. gr., með fyrirvara um undanþágur c-, i- og k-liðar, skilgreint viðmiðanir um það hvenær unnt er að ákvarða að starfsemi sé viðbót við aðalstarfsemi á grundvelli samstæðu fyrirtækja og einnig um það hvenær starfsemi teljist vera tilfallandi.

3. gr.
Valfrjálsar undanþágur

1.     Aðildarríki geta kosið að beita þessari tilskipun ekki gagnvart aðilum sem þau eru heimaaðildarríki fyrir:
.    sem er ekki heimilt að taka til vörslu fjármuni eða verðbréf viðskiptavina og er af þeim ástæðum aldrei heimilt að setja sig í skuldastöðu gagnvart viðskiptavinum sínum og
.    sem er ekki heimilt að veita fjárfestingarþjónustu nema þá sem felst í móttöku og miðlun fyrirmæla varðandi framseljanleg verðbréf og hlutdeildarskírteini í fyrirtækjum um sameiginlega fjárfestingu og að veita fjárfestingarráðgjöf sem tengist slíkum fjármálagerningum og
.    við veitingu þessarar þjónustu er eingöngu heimilt að miðla fyrirmælum til:
    i)        Fjárfestingarfyrirtækja sem eru með starfsleyfi í samræmi við þessa tilskipun,
    ii)    lánastofnana sem eru með starfsleyfi í samræmi við tilskipun 2000/12/EB,
    iii)    útibúa fjárfestingarfyrirtækja eða lánastofnana sem eru með starfsleyfi í þriðja landi og eru háð og fylgja varfærnisreglum sem lögbær yfirvöld telja a.m.k. jafnstrangar og reglurnar sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, tilskipun 2000/12/EB eða tilskipun 93/6/EBE,
    iv)    fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu sem eru með starfsleyfi samkvæmt lögum aðildarríkis til að bjóða hlutdeildarskírteini út á almennum markaði og til stjórnenda slíkra fyrirtækja,
    v)    fjárfestingarfélaga með fastan höfuðstól samkvæmt skilgreiningu 4. mgr. 15. gr. annarrar tilskipunar ráðsins 77/91/EBE frá 13. desember 1976 um samræmingu verndarráðstafana, sem ætlað er að vera jafngildar í Bandalaginu og aðildarríki krefjast þegar almenningshlutafélög eru stofnuð og um tilskilið hlutafé og heimilaðar breytingar á hlutafé þeirra í skilningi annarrar málsgreinar 58. gr. sáttmálans, til að vernda hagsmuni félagsmanna og annarra ( 17 ) þar sem verðbréf þeirra eru skráð eða verslað með þau á skipulegum markaði í aðildarríki,
    að því tilskildu að starfsemi slíkra aðila sé reglufest á innlendum vettvangi.
2.     Aðilar, sem falla ekki undir gildissvið þessarar tilskipunar skv. 1. mgr., njóta ekki réttar til að veita þjónustu og/eða stunda starfsemi eða til að stofna útibú eins og kveðið er á um í 31. og 32. gr., eftir því sem við á.

4. gr.
Skilgreiningar

1.     Í þessari tilskipun er merking eftirfarandi hugtaka sem hér segir:
1)    „fjárfestingarfyrirtæki“: lögaðili með reglubundna starfsemi eða viðskipti, sem felast í því að veita þriðja aðila fjárfestingarþjónustu, og/eða sem stundar fjárfestingarþjónustu í atvinnuskyni,
    Aðildarríkjum er heimilt að telja til skilgreiningar á fjárfestingarfyrirtækjum fyrirtæki sem eru ekki lögaðilar, að því tilskildu að:
    a)    lagaleg staða þeirra tryggi þriðja aðila sambærilega vernd og lögaðilar veita og
    b)    þau séu háð sambærilegu varfærniseftirliti sem hæfir rekstrarformi þeirra að lögum.
    Ef slíkir einstaklingar annast þjónustustarfsemi sem felst í því að taka til vörslu fjármuni eða framseljanleg verðbréf þriðju aðila er þó því aðeins heimilt að telja þá til fjárfestingarfyrirtækja í skilningi þessarar tilskipunar með fyrirvara um aðrar kröfur sem eru settar í þessari tilskipun og í tilskipun 93/6/EBE, að eftirfarandi skilyrði séu uppfyllt:
    a)    réttur þriðju aðila til gerninga og fjármuna skal tryggður, einkum ef um er að ræða gjaldþrot fyrirtækisins eða eigenda þess, löghald, skuldajöfnuð eða aðrar aðgerðir af hálfu kröfuhafa fyrirtækisins eða eigenda þess,
    b)    fyrirtæki skal falla undir reglur sem settar eru til að hafa eftirlit með gjaldhæfi fyrirtækisins og eigenda þess,
    c)    ársreikningar fyrirtækisins skulu endurskoðaðir af einum eða fleiri aðilum sem hafa leyfi til endurskoðunar samkvæmt landslögum,
    d)    ef aðeins einn eigandi er að fyrirtækinu verður hann að gera ráðstafanir til að vernda fjárfesta ef fyrirtækið hættir rekstri eftir andlát hans, vegna vanhæfi hans eða annarra sambærilegra ástæðna,
2)    „fjárfestingarþjónusta og -starfsemi“: sú þjónusta og starfsemi sem talin er upp í A-þætti I viðauka og tengist einhverjum þeirra gerninga sem taldir eru upp í C-þætti I. viðauka,
    Framkvæmdastjórnin skal ákvarða í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 64. gr.:
    .    afleiðusamningana sem taldir eru upp í 7. lið í C-þætti I. viðauka og hafa einkenni annarra afleiðufjármálagerninga, m.a. með hliðsjón af því hvort verslað er með þá eða þeir gerðir upp í gegnum viðurkennda uppgjörsaðila eða hvort þeir eru háðir reglulegum veðköllum,
    .    afleiðusamningana sem taldir eru upp í 10. lið í C-þætti I. viðauka og hafa einkenni annarra afleiðufjármálagerninga, m.a. með hliðsjón af því hvort viðskipti eru stunduð með þá á skipulegum markaði eða markaðstorgi, hvort viðskipti eru stunduð með þá eða þeir gerðir upp í gegnum viðurkennda uppgjörsaðila eða hvort þeir séu háðir reglulegum veðköllum,
3)    „viðbótarþjónusta“: öll þjónusta sem talin er upp í B-þætti I. viðauka,
4)    „fjárfestingarráðgjöf“: að veita viðskiptavini persónulegar ráðleggingar annaðhvort að beiðni hans eða að frumkvæði fjárfestingarfyrirtækisins að því er varðar viðskipti í einu eða fleiri tilvikum sem tengjast fjármálagerningum,
5)    „framkvæmd fyrirmæla fyrir hönd viðskiptavina“: að ganga frá samningum um kaup eða sölu eins eða fleiri fjármálagerninga fyrir hönd viðskiptavina,
6)    „viðskipti fyrir eigin reikning“: viðskipti með eiginfjármagn sem leiða til þess viðskipti fara fram með einn fjármálagerning eða fleiri,
7)    „innmiðlari“: fjárfestingarfyrirtæki sem verslar fyrir eigin reikning á skipulegan, tíðan og kerfisbundinn hátt fyrir eigin reikning með því að framkvæma fyrirmæli viðskiptavina utan skipulegs markaðar eða markaðstorgs,
8)    „viðskiptavaki“ er aðili sem starfar á fjármálamörkuðum og gefur sig jafnan út fyrir að vera viljugur að versla fyrir eigin reikning með því að kaupa og selja fjármálagerninga með eiginfjármagni sínu á verði sem hann ákveður,
9)    „eignasafnsstýring“: eignasafnsstýring á grundvelli umboða frá einstökum viðskiptavinum ef slík eignasöfn innihalda einn eða fleiri fjármálagerninga,
10)    „viðskiptavinur“: einstaklingur eða lögaðili sem fjárfestingarfyrirtæki lætur í té fjárfestingar- og/eða viðbótarþjónustu,
11)    „fagviðskiptavinur“: viðskiptavinur sem uppfyllir skilyrðin sem mælt er fyrir um í II. viðauka,
12)    „almennur viðskiptavinur“: viðskiptavinur sem er ekki fagviðskiptavinur,
13)    „markaðsrekandi“: aðili eða aðilar sem stýra og/eða reka skipulegan markað. Markaðsrekandi getur sjálfur verið skipulegi markaðurinn,
14)    „skipulegur markaður“: fjölþætt markaðskerfi, sem er starfrækt og/eða stjórnað af markaðsrekanda sem sameinar eða greiðir fyrir því að mismunandi kaup- og söluhagsmunir þriðju aðila varðandi fjármálagerninga séu sameinaðir – innan markaðskerfisins og í samræmi við reglur hans sem eru ófrávíkjanlegar – þannig að það leiði til samnings um fjármálagerninga sem viðskipti eru leyfð með á markaði samkvæmt reglum hans og/eða markaðskerfum, og hefur starfsleyfi og starfar reglulega og í samræmi við ákvæði III. bálks,
15)    „markaðstorg“: fjölþætt markaðskerfi sem starfrækt er af fjárfestingarfyrirtæki eða markaðsrekanda sem leiðir saman kaup- og söluhagsmuni þriðju aðila á fjármálagerningum . innan markaðskerfisins og í samræmi við reglur þess sem eru ekki valfrjálsar . á þann hátt að það leiði til samnings í samræmi við ákvæði II. bálks,
16)    „skilyrt fyrirmæli“: fyrirmæli hvað varðar kaup eða sölu á fjármálagerningum með fyrirframákveðin verðmörk eða betri og með tilliti til tilgreinds magns,
17)    „fjármálagerningur“: þeir gerningar sem tilgreindir eru í C-þætti I. viðauka,
18)    „framseljanleg verðbréf“: þeir flokkar verðbréfa sem unnt er að versla með á fjármagnsmarkaði að undanskildum greiðsluskjölum sem eru t.d.:
    a)    hlutabréf í fyrirtækjum og önnur verðbréf sem eru ígildi hlutabréfa í fyrirtækjum, sameignarfélögum eða öðrum einingum og innlánsskírteini vegna hlutabréfa,
    b)    skuldabréf eða tryggð skuldaskjöl, þ.m.t. innlánsskírteini vegna slíkra verðbréfa,
    c)    önnur verðbréf sem veita rétt til að kaupa eða selja framseljanleg verðbréf eða leiða til uppgjörs í reiðufé sem ákvarðast með tilliti til framseljanlegra verðbréfa, gjaldmiðla, vaxta eða ávöxtunarkrafna, hrávara eða annarra vísitalna eða mælikvarða,
19)    „peningamarkaðsgerningar“: þeir flokkar gerninga sem viðskipti fara venjulega fram með á peningamarkaði, s.s. ríkisvíxlar, innlánskírteini og viðskiptabréf, að undanskildum greiðslugerningum,
20)    „heimaaðildarríki“:
    a)    þegar um er að ræða fjárfestingarfyrirtæki:
            i)    ef fjárfestingarfyrirtækið er einstaklingur, aðildarríkið þar sem aðalskrifstofa hans er,
            ii)    ef fjárfestingarfyrirtækið er lögaðili, aðildarríkið þar sem það er með skráða skrifstofu,
            iii)    ef fjárfestingarfyrirtækið hefur enga skráða skrifstofu í samræmi við innlend lög, aðildarríkið þar sem það er með aðalskrifstofu,
    b)    ef um er að ræða skipulegan markað, aðildarríkið þar sem skipulegi markaðurinn er skráður eða ef hann hefur enga skráða skrifstofu í samræmi við lög þess aðildarríkis, aðildarríkið þar sem aðalskrifstofa skipulega markaðarins er,
21)    „gistiaðildarríki“: aðildarríki annað en heimaaðildarríkið þar sem fjárfestingarfyrirtæki er með útibú eða veitir þjónustu og/eða stundar starfsemi eða aðildarríkið þar sem skipulegur markaður sér fyrir viðeigandi ráðstöfunum sem auðvelda aðgang fjaraðila eða þátttakenda sem hafa staðfestu í því aðildarríki að viðskiptum í markaðskerfi markaðarins,
22)    „lögbært yfirvald“: yfirvald sem hvert aðildarríki tilnefndir í samræmi við 48. gr. nema annað sé tekið fram í þessari tilskipun,
23)    „lánastofnanir“: lánastofnanir eins og þær eru skilgreindar í tilskipun 2000/12/EB,
24)    „rekstrarfélag verðbréfasjóðs“: rekstrarfélag eins og það er skilgreint í tilskipun ráðsins 85/611/EBE frá 20. desember 1985 um samræmingu á lögum og stjórnsýslufyrirmælum um fyrirtæki um sameiginlega fjárfestingu í framseljanlegum verðbréfum ( 18 ),
25)    „fastur umboðsmaður“: einstaklingur eða lögaðili sem, að fullu og skilyrðislaust, er á ábyrgð eins fjárfestingarfyrirtækis eingöngu, sem hann starfar fyrir og kynnir viðskiptavinum eða líklegum viðskiptavinum fjárfestingar og/eða viðbótarþjónustu, tekur á móti og sendir leiðbeiningar eða fyrirmæli frá viðskiptavini varðandi fjárfestingarþjónustu eða fjármálagerninga, markaðssetur fjármálagerninga og/eða veitir viðskiptavinum eða líklegum viðskiptavinum ráðgjöf varðandi þá fjármálagerninga eða -þjónustu,
26)    „útibú“: starfsstöð önnur en aðalskrifstofa sem er hluti af fjárfestingarfyrirtæki, án réttarstöðu lögaðila, og veitir fjárfestingarþjónustu og/eða stundar fjárfestingarstarfsemi og sem er einnig heimilt að veita viðbótarþjónustu sem fjárfestingarfyrirtækið hefur fengið leyfi fyrir. Allar þær starfsstöðvar, sem komið hefur verið á fót í einu aðildarríki á vegum fjárfestingarfyrirtækis sem hefur aðalskrifstofu sína í öðru aðildarríki, ber að telja sem eitt útibú,
27)    ,,virk eignarhlutdeild“: bein eða óbein eignarhlutdeild í fjárfestingarfyrirtæki sem nemur 10% eða meira af höfuðstóli eða atkvæðisrétti, eins og getið er í 92. gr. tilskipunar 2001/34/EB, eða annað sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun fjárfestingarfyrirtækis sem eignarhlutdeildin er í,
28)    ,,móðurfyrirtæki“: móðurfyrirtæki samkvæmt skilgreiningu í 1. og 2. gr. sjöundu tilskipunar ráðsins 83/349/EBE frá 13. júní 1983 um samstæðureikninga ( 19 ),
29)    ,,dótturfyrirtæki“: dótturfyrirtæki samkvæmt skilgreiningu í 1. og 2. gr. tilskipunar 83/349/EBE, þ.m.t. dótturfyrirtæki dótturfyrirtækis endanlegs móðurfélags,
30)    „yfirráð“: yfirráð eins og þau eru skilgreind í 1. gr. tilskipunar 83/349/EBE,
31)    ,,náin tengsl“: þegar tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar tengjast í gegnum:
    a)    viðskiptahagsmuni en hér er átt við eignarhald á minnst 20% atkvæðisréttar eða eigin fjár fyrirtækis, beint eða með yfirráðarétti,
    b)    yfirráð sem eru tengsl á milli móðurfyrirtækis og dótturfyrirtækis í öllum tilvikunum sem um getur í 1. og 2. mgr. 1. gr. tilskipunar 83/349/EBE eða sambærileg tengsl milli einstaklings eða lögaðila og fyrirtækis; einnig skal litið á dótturfyrirtæki dótturfyrirtækis sem dótturfyrirtæki móðurfyrirtækisins sem fer fyrir þessum fyrirtækjum.
    Þegar svo ber undir að tveir eða fleiri einstaklingar eða lögaðilar eru varanlega tengdir sama aðila með yfirráðatengslum skal einnig litið á það sem náin tengsl milli þessara aðila.
2.     Til að taka tillit til þróunar á fjármálamörkuðum og tryggja samræmda beitingu þessarar tilskipunar er framkvæmdastjórninni, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 64. gr., heimilt að skýra frekar skilgreiningarnar sem mælt er fyrir um í 1. mgr. þessarar greinar.

II. BÁLKUR
STARFSLEYFI OG SKILYRÐI FYRIR STARFSEMI FJÁRFESTINGARFYRIRTÆKJA
I. KAFLI
SKILYRÐI OG MÁLSMEÐFERÐ VIÐ STARFSLEYFISVEITINGU
5. gr.
Kröfur vegna starfsleyfisveitingar

1.     Hvert aðildarríki skal krefjast þess að það að stunda reglubundna fjárfestingarþjónustu eða -starfsemi í atvinnuskyni sé ekki heimilt nema fyrir liggi starfsleyfi í samræmi við ákvæði þessa kafla. Lögbær yfirvöld heimaaðildarríkis, sem tilnefnt er í samræmi við 48. gr., skulu veita slíkt starfsleyfi.
2.     Þrátt fyrir ákvæði 1. mgr. skulu aðildarríki heimila sérhverjum markaðsrekanda að starfrækja markaðstorg að því tilskildu að staðfesting hafi fengist á því að hann fylgi ákvæðum þessa kafla, að undanskilinni 11. og 15. gr.
3.     Aðildarríki skulu gera skrá yfir öll fjárfestingarfyrirtæki. Þessi skrá skal vera aðgengileg almenningi og fela í sér upplýsingar um þjónustuna og/eða starfsemina sem fjárfestingarfyrirtækið hefur starfsleyfi fyrir. Hún skal uppfærð reglulega.
4.     Hvert aðildarríki um sig skal krefjast þess:
—    að fjárfestingarfyrirtæki, sem er lögaðili, hafi aðalskrifstofu sína í sama aðildarríki og það er með skráða skrifstofu,
—    að fjárfestingarfyrirtæki, sem er ekki lögaðili, eða fjárfestingarfyrirtæki, sem er lögaðili en hefur ekki skráða skrifstofu samkvæmt innlendum lögum, hafi aðalskrifstofu sína í aðildarríkinu þar sem það er í raun með starfsemi sína.
5.     Þegar um er að ræða fjárfestingarfyrirtæki, sem eingöngu veita fjárfestingarráðgjöf eða þá þjónustu að taka á móti og senda fyrirmæli samkvæmt þeim skilyrðum sem mælt er fyrir um í 3. gr., er aðildarríkjunum heimilt að leyfa lögbærum yfirvöldum að fela öðrum stjórnsýslu-, undirbúnings- eða viðbótarverkefni sem tengjast starfsleyfisveitingu í samræmi við skilyrðin sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 48. gr.

6. gr.
Gildissvið starfsleyfis

1.     Heimaaðildarríkið skal tryggja að starfsleyfið tilgreini þá fjárfestingarþjónustu eða starfsemi sem fjárfestingarfyrirtækinu er leyfilegt að veita. Starfsleyfið getur náð til einnar eða fleiri tegundar viðbótarþjónustu sem sett er fram í B-þætti I. viðauka. Starfsleyfi skal aldrei veitt eingöngu til að veita viðbótarþjónustu.
2.     Fjárfestingarfyrirtæki, sem leitar eftir leyfi til að rýmka viðskipti sín yfir í frekari fjárfestingarþjónustu eða -starfsemi eða viðbótarþjónustu sem ekki var fyrirséð við upphaflega starfsleyfisveitingu, skal leggja inn beiðni um rýmkun starfsleyfis síns.
3.     Starfsleyfið skal gilda í öllu Bandalaginu og heimila fjárfestingarfyrirtæki að veita þá þjónustu eða stunda þá starfsemi sem það hefur starfsleyfi fyrir alls staðar í Bandalaginu, annaðhvort með stofnun útibús eða frelsi til að veita þjónustu.

7. gr.
Málsmeðferð við að samþykkja og hafna beiðnum um starfsleyfisveitingu

1.     Lögbært yfirvald skal ekki veita starfsleyfi fyrr en það hefur að fullu gengið úr skugga um að umsækjandinn fari að öllum kröfum ákvæða sem eru samþykkt samkvæmt þessari tilskipun.
2.     Fjárfestingarfyrirtækið skal veita allar upplýsingar, þ.m.t. starfsáætlun þar sem fram kemur m.a. hvers konar rekstur er fyrirhugaður og stjórnskipulag, sem nauðsynlegar eru til að gera lögbæru yfirvaldi kleift að fullvissa sig um að þegar upphaflegt starfsleyfi var veitt hafi fjárfestingarfyrirtækið gert allar nauðsynlegar ráðstafanir til að uppfylla kvaðir sínar samkvæmt ákvæðum þessa kafla.
3.     Innan sex mánaða frá því að umsækjandi leggur fram fullbúna umsókn skal honum tilkynnt um hvort starfsleyfi hafi verið veitt eða ekki.

8. gr.
Afturköllun starfsleyfa

Lögbæru yfirvaldi er því aðeins heimilt að afturkalla starfsleyfi, sem veitt hefur verið fjárfestingarfyrirtæki, að slíkt fyrirtæki:
a)    nýti ekki starfsleyfið innan 12 mánaða, afsali sér skýlaust starfsleyfinu eða hafi ekki veitt fjárfestingarþjónustu eða stundað fjárfestingarstarfsemi næstliðna sex mánuði nema hlutaðeigandi aðildarríki hafi kveðið á um að starfsleyfi falli úr gildi í slíkum tilvikum,
b)    hafi fengið starfsleyfi með því að gefa rangar yfirlýsingar eða á annan ólögmætan hátt,
c)    uppfylli ekki lengur skilyrðin fyrir starfsleyfinu, s.s. að þeim skilyrðum sem fram koma í tilskipun 93/6/EBE sé fylgt,
d)    hafi brotið alvarlega og ítrekað gegn ákvæðum sem samþykkt hafa verið samkvæmt þessari tilskipun um skilyrði fyrir starfsemi fjárfestingarfyrirtækja,
e)    falli undir ákvæði í landslögum um afturköllun starfsleyfis að því er varðar mál utan gildissviðs þessarar tilskipunar.

9. gr.
Aðilar sem í reynd fara með stjórn fyrirtækis

1.     Aðildarríki skulu krefjast þess að þeir aðilar sem í reynd fara með stjórn fjárfestingarfyrirtækis hafi gott mannorð og næga reynslu til að tryggja trausta og varfærna stjórnun fjárfestingarfyrirtækisins.
Þar sem markaðsrekandi, sem leitar starfsleyfis til að starfrækja markaðstorg, og aðilarnir, sem í reynd fara með stjórn markaðstorgsins, eru þeir sömu og fara í reynd með stjórn skipulega markaðarins eru þeir aðilar álitnir uppfylla kröfurnar sem mælt er fyrir um í fyrstu undirgrein.
2.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtækið tilkynni lögbæru yfirvaldi um allar breytingar á stjórn þess auk allra upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að meta hvort nýtt starfsfólk, sem tilnefnt hefur verið til að stjórna fyrirtækinu, hafi gott mannorð og næga reynslu.
3.     Lögbært yfirvald skal synja um starfsleyfi ef það telur ekki sýnt að aðilarnir sem í reynd munu fara með stjórn fjárfestingarfyrirtækisins hafi gott mannorð og næga reynslu eða ef hlutlægar ástæður, sem hægt er sýna fram á, eru til að ætla að fyrirhugaðar breytingar á stjórn fyrirtækisins séu ógnun við trausta og varfærna stjórn þess.
4.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að stjórn fjárfestingarfyrirtækja sé í höndum a.m.k. tveggja aðila sem uppfylla kröfurnar sem mælt er fyrir um í 1. mgr.
Þrátt fyrir fyrstu undirgreinina er aðildarríkjum heimilt að veita starfleyfi fjárfestingarfyrirtækjum sem eru einstaklingar eða fjárfestingarfyrirtækjum sem eru lögaðilar og er stjórnað af einstaklingi í samræmi við stjórnskipunarreglur þeirra og innlend lög. Aðildarríkin skulu samt sem áður krefjast þess að annað fyrirkomulag sé til staðar sem tryggir trausta og varfærna stjórn slíkra fjárfestingarfyrirtækja.

10. gr.
Hluthafar og aðilar með virka eignarhlutdeild

1.     Lögbær yfirvöld skulu ekki veita fjárfestingarfyrirtækjum starfsleyfi til að stunda fjárfestingarþjónustu eða fjárfestingarstarfsemi fyrr en þau hafa fengið upplýsingar um nöfn allra hluthafa eða félagsaðila sem ráða beint eða óbeint yfir virkri eignarhlutdeild sem einstaklingar eða lögaðilar, svo og hve stóran hlut þeir eiga.
Lögbær yfirvöld skulu synja um starfsleyfi ef þau telja hluthafa eða aðila með virka eignarhlutdeild ekki hæfa með hliðsjón af því að nauðsynlegt er að tryggja trausta og varfærna stjórnun fjárfestingarfyrirtækis.
Ef náin tengsl eru fyrir hendi milli fjárfestingarfyrirtækis og annarra einstaklinga eða lögpersóna skal lögbært yfirvald einungis veita starfsleyfi ef sýnt er að þessi tengsl koma ekki í veg fyrir að lögbæra yfirvaldið sinni eftirlitshlutverki sínu.
2.     Lögbært yfirvald skal synja um starfsleyfi ef lög og stjórnsýsluákvæði þriðja lands, sem gilda um einn eða fleiri einstaklinga eða lögaðila sem fyrirtækið hefur náin tengsl við, eða vandkvæði tengd fullnustu þeirra koma í veg fyrir að yfirvaldið sinni eftirlitshlutverki sínu með skilvirkum hætti.
3.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að einstaklingar eða lögpersónur, sem hyggjast, beint eða óbeint, kaupa eða selja virka eignarhlutdeild í fjárfestingarfyrirtæki, tilkynni það fyrst lögbæru yfirvaldi í samræmi við aðra undirgrein og greini þeim frá því hve stóran hlut þeir munu eignast. Hlutaðeigandi skal einnig tilkynna lögbæru yfirvaldi ef hann hyggst stækka eða minnka virka eignarhlutdeild sína ef það yrði til þess að atkvæða- eða eiginfjárhlutfall hans næði eða færi niður fyrir 20%, 33%, 50% eða fjárfestingarfyrirtækið yrði eða hætti að vera dótturfyrirtæki hans.
Þrátt fyrir 4. mgr. skal lögbæra yfirvaldið hafa þrjá mánuði hið mesta, frá degi þeim er tilkynning berst um áætluð kaup, eins og kveðið er á um í fyrstu undirgrein, til að andmæla fyrirætlan þessari ef þau telja viðkomandi ekki hæfan til að tryggja fjárfestingarfyrirtækinu trausta og varfærna stjórnun með hliðsjón af skilyrðum sem sett eru um öryggi og hæfni framkvæmdastjórnar fjárfestingarfyrirtækis. Ef lögbært yfirvald andmælir ekki áætluninni getur það ákveðið hvenær henni skuli í síðasta lagi hrint í framkvæmd.
4.     Ef sá er aflar eignarhluta, sem um getur í 3. mgr., er fjárfestingarfyrirtæki, lánastofnun, vátryggingafélag eða rekstrarfélag verðbréfasjóðs með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða móðurfyrirtæki fjárfestingarfyrirtækis, lánastofnunar, vátryggingafélags eða rekstrarfélags verðbréfasjóðs með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða einstaklingur sem hefur yfirráð yfir fjárfestingarfyrirtæki, lánastofnun, vátryggingafélagi eða rekstrarfélagi verðbréfasjóðs með starfsleyfi í öðru aðildarríki, og ef fyrirtækið, sem þessi aðili hyggst öðlast eignarhlut í, yrði dótturfyrirtæki hans eða hann fengi yfirráð yfir því í kjölfar öflunar þessa eignarhluta, skal mat á öflun eignarhlutans ekki fara fram nema að höfðu samráði svo sem kveðið er á um í 60. gr.
5.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að þegar fjárfestingarfyrirtæki fær vitneskju um öflun og ráðstöfun á eignarhlutum í eigin fé þess, sem veldur því að eignarhlutar fara yfir eða undir mörkin, sem tilgreind eru í 1. undirgrein 3. mgr., skuli fjárfestingarfyrirtækið þegar í stað tilkynna lögbæru yfirvaldi þar um.
Fjárfestingarfyrirtæki skulu einnig, a.m.k. einu sinni á ári, tilkynna lögbæra yfirvaldinu um nöfn þeirra hluthafa og aðila sem eiga virka eignarhlutdeild og upphæð þessa hlutafjár líkt og gefið er upp t.d. á aðalfundum hluthafa og aðila eða á grundvelli reglna sem settar eru um fyrirtæki sem hafa framseljanleg verðbréf sem viðskipti eru leyfð með á skipulegum markaði.
6.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að þegar áhrif þeirra aðila, sem um getur í fyrstu undirgrein 1. mgr., eru líkleg til að hafa slæm áhrif á trausta og varfærna stjórnun fjárfestingarfyrirtækis skuli lögbært yfirvald grípa til viðeigandi ráðstafana til að binda enda á það ástand.
Slíkar ráðstafanir geta t.d. verið lögbann, refsiaðgerðir gagnvart stjórnendum og þeim sem ábyrgð bera á stjórnun, eða svipting atkvæðisréttar sem fylgir hlutabréfum hluthafa og aðila sem um ræðir.
Svipaðar ráðstafanir skulu gerðar vegna einstaklinga sem uppfylla ekki þá kvöð að veita upplýsingar fyrir fram vegna kaupa eða aukningar á virkri eignarhlutdeild. Ef eignarhlutdeildar er aflað þrátt fyrir andstöðu lögbærra yfirvalda skulu aðildarríkin, óháð öðrum refsiaðgerðum sem gripið er til, sjá svo um að því sé frestað að viðkomandi fái að neyta atkvæðisréttar síns eða að greidd atkvæði séu ógild eða hægt sé að ógilda þau.

11. gr.
Aðild að viðurkenndu bótakerfi fyrir fjárfesta

Lögbært yfirvald skal staðfesta að eining, sem leitar eftir að hljóta starfsleyfi sem fjárfestingarfyrirtæki, uppfylli kvaðir sínar samkvæmt tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 97/9/EB frá 3. mars 1997 um bótakerfi fyrir fjárfesta ( 20 ) þegar starfsleyfið er veitt.

12. gr.
Stofnfjárframlag

Aðildarríkin skulu tryggja að lögbær yfirvöld veiti ekki starfsleyfi nema fjárfestingarfyrirtækið hafi nægilegt stofnfé í samræmi við kröfurnar í tilskipun 93/6/EBE með hliðsjón af tegund fjárfestingarþjónustunnar eða -starfseminnar sem um ræðir.
Þar til tilskipun 93/6/EBE verður endurskoðuð skulu fjárfestingarfyrirtækin, sem kveðið er á um í 67. gr., lúta eiginfjárkröfunum sem mælt er fyrir um í þeirri grein.

13. gr.
Skipulagskröfur

1.     Heimaaðildarríkið skal krefjast þess að fjárfestingarfyrirtækið uppfylli þær skipulagskröfur sem mælt er fyrir um í 2..8. mgr.
2.     Fjárfestingarfyrirtæki skal setja fram stefnu og málsmeðferð sem nægir til að tryggja að fyrirtækið, þ.m.t. stjórnendur, starfsfólk og fastir umboðsmenn, uppfylli kvaðir sínar samkvæmt ákvæðum þessarar tilskipunar og viðeigandi reglum um einkaviðskipti slíkra einstaklinga.
3.     Fjárfestingarfyrirtæki skal viðhalda og beita skilvirkum skipulags- og stjórnunarráðstöfunum með það fyrir augum að gera eðlilegar ráðstafanir til að koma í veg fyrir að hagsmunaárekstrar, eins og þeir eru skilgreindir í 18. gr., hafi neikvæð áhrif á hagsmuni viðskiptavina þess.
4.     Fjárfestingarfyrirtæki skal gera eðlilegar ráðstafanir til að tryggja að fjárfestingarþjónusta og -starfsemi sé samfelld og reglubundin. Með þetta að markmiði skal fjárfestingarfyrirtækið nota viðeigandi kerfi, tilföng og málsmeðferð sem er í réttu hlutfalli við þetta.
5.     Fjárfestingarfyrirtæki skal tryggja að eðlilegar ráðstafanir séu gerðar til að koma í veg fyrir óþarfa viðbótaráhættu í rekstri þegar það reiðir sig á þriðja aðila til að sinna rekstrarhlutverki sem er nauðsynlegt til að veita viðskiptavinum samfellda og fullnægjandi þjónustu og stunda fjárfestingarstarfsemi á samfelldum og fullnægjandi grunni. Ekki er heimilt að utankaupa mikilvæg rekstrarhlutverk ef það dregur úr gæðum innra eftirlits og getu eftirlitsmanns til að fylgjast með því að fyrirtækið uppfylli allar kvaðir.
Fjárfestingarfyrirtæki skal hafa traustar aðferðir fyrir stjórnun og bókhald, innri eftirlitskerfi, skilvirkar verklagsreglur fyrir áhættumat og skilvirkt eftirlits- og öryggisfyrirkomulag fyrir gagnavinnslukerfi.
6.     Fjárfestingarfyrirtæki skal halda skrár yfir alla þjónustu og viðskipti sem það hefur umsjón með og skulu þær vera nægilega ítarlegar til að lögbært yfirvald geti haft eftirlit með því að farið sé að kröfum þessarar tilskipunar og einkum til að hægt sé að ganga úr skugga um að fjárfestingarfyrirtækið hafi uppfyllt allar kvaðir hvað varðar viðskiptavini og hugsanlega viðskiptavini.
7.     Þegar fjárfestingarfyrirtæki hefur undir höndum fjármálagerninga, sem tilheyra viðskiptavinum, skal það gera viðeigandi ráðstafanir til að vernda eignarrétt viðskiptavina, einkum ef til gjaldþrots fjárfestingarfyrirtækisins kemur og til að koma í veg fyrir að gerningar viðskiptavinar séu notaðir fyrir eigin reikning þess, nema að fengnu ótvíræðu samþykki viðskiptavinarins.
8.     Þegar fjárfestingarfyrirtæki hefur undir höndum fjármuni, sem tilheyra viðskiptavinum, skal það gera viðeigandi ráðstafanir til að vernda réttindi viðskiptavina og koma í veg fyrir notkun fjármuna viðskiptavina fyrir eigin reikning þess nema þegar um er að ræða lánastofnanir.
9.     Þegar um er að ræða útibú fjárfestingarfyrirtækja skal lögbært yfirvald aðildarríkisins þar sem útibúið er staðsett framfylgja kvöðinni sem mælt er fyrir um í 6. mgr. að því er varðar viðskipti sem útibúið framkvæmir með fyrirvara um þann möguleika að lögbært yfirvald heimaaðildarríkis fjárfestingarfyrirtækisins hafi beinan aðgang að þeim skrám.
10.     Til að taka tillit til tækniframfara á fjármálamörkuðum og tryggja samræmda beitingu 2..9. mgr. skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina, sem um getur í 2. mgr. 64. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir sem tilgreina raunhæfar skipulagskröfur sem leggja skal á fjárfestingarfyrirtæki sem veita mismunandi fjárfestingarþjónustu og/eða -starfsemi og viðbótarþjónustu eða samsetningu af þessu.

14. gr.
Viðskiptaferli og lyktir viðskipta á markaðstorgi

1.     Aðildarríkin skulu gera kröfu um að fjárfestingarfyrirtæki eða markaðsrekendur, sem starfrækja markaðstorg, komi á gagnsæjum, ófrávíkjanlegum reglum og málsmeðferð fyrir sanngjörn og skipuleg viðskipti og komi á hlutlægum forsendum fyrir skilvirka framkvæmd fyrirmæla auk þess að uppfylla kröfurnar sem mælt er fyrir um í 13. gr.
2.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki eða markaðsrekendur, sem starfrækja markaðstorg, komi á gagnsæjum reglum varðandi forsendur fyrir því að ákvarða hvaða fjármálagerninga er hægt að stunda viðskipti með innan markaðskerfa þeirra. Aðildarríkin skulu krefjast þess að, þar sem við á, skuli fjárfestingarfyrirtæki eða markaðsrekendur, sem starfrækja markaðstorg, sjá til þess að upplýsingar sé aðgengilegar almenningi eða ganga úr skugga um að aðgangur sé að þeim til að gera notendum þeirra kleift að taka ákvarðanir um fjárfestingar með hliðsjón af því hverjir notendurnir eru eða af hvaða tegund þeir gerningar eru sem viðskiptin varða.
3.     Aðildarríkin skulu tryggja að 19., 21. og 22. gr. gildi ekki um viðskipti sem fara fram samkvæmt reglum um markaðstorg milli aðila eða þátttakenda eða milli markaðstorgs og aðila eða þátttakenda í tengslum við notkun markaðstorgsins. Aðilar eða þátttakendur í markaðstorgi skulu þó uppfylla kvaðirnar sem kveðið er á um 19., 21., og 22. gr. að því er varðar viðskiptavini sína þegar þeir framkvæma fyrirmæli viðskiptavina sinna fyrir þeirra hönd í gegnum markaðskerfi markaðstorgs.
4.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki eða markaðsrekendur, sem starfrækja markaðstorg, komi á og viðhaldi gagnsæjum reglum sem byggðar eru á hlutlægum forsendum um aðgengi að markaðinum. Þessar reglur skulu uppfylla skilyrðin sem komið er á í 3. mgr. 42. gr.
5.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki eða markaðsrekendur, sem starfrækja markaðstorg, upplýsi notendur um ábyrgð þeirra á uppgjöri viðskiptanna sem fara fram á markaðinum. Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki eða markaðsrekendur, sem starfrækja markaðstorg, hafi gert nauðsynlegar ráðstafanir til að auðvelda skilvirkt uppgjör viðskiptanna sem fara fram innan kerfa markaðstorgsins.
6.     Þar sem viðskipti með framseljanleg verðbréf, sem viðskipti hafa verið leyfð með á skipulegum markaði, fara einnig fram á markaðstorgi án samþykkis útgefanda er útgefandi ekki skuldbundinn til að annast upphaflega, viðvarandi eða sérstaka fjárhagslega upplýsingagjöf hvað varðar það markaðstorg.
7.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki eða markaðsrekandi, sem starfrækir markaðstorg, framfylgi án tafar fyrirmælum frá lögbæru yfirvaldi um að hætta tímabundið viðskiptum með fjármálagerning eða fjarlægja hann af markaði skv. 1. mgr. 50. gr.

15. gr.
Samskipti við þriðju lönd

1.     Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni um alla erfiðleika almenns eðlis sem fjárfestingarfyrirtæki þeirra rekast á þegar þau staðfesta sig eða þegar þau veita fjárfestingarþjónustu og/eða stunda fjárfestingarstarfsemi í þriðja landi.
2.     Telji framkvæmdastjórnin, á grundvelli upplýsinga sem henni voru sendar skv. 1. mgr., að þriðja land heimili ekki fjárfestingarfyrirtækjum Bandalagsins raunverulegan aðgang að markaðinum sambærilegum þeim aðgangi sem Bandalagið veitir fjárfestingarfyrirtækjum þess lands getur hún lagt fyrir ráðið tillögur um að það veiti viðeigandi umboð til samningaumleitana til að ná fram sambærilegri samkeppnisaðstöðu fyrir fjárfestingarfyrirtæki Bandalagsins. Ráðið tekur ákvörðun með auknum meirihluta.
3.     Telji framkvæmdastjórnin, á grundvelli upplýsinga sem henni voru sendar skv. 1. mgr., að fjárfestingarfyrirtæki Bandalagsins sem starfa í þriðja landi njóti þar ekki meðferðar sem veiti þeim sömu samkeppnistækifæri og innlendum fjárfestingarfyrirtækjum og skilyrði fyrir raunverulegum aðgangi að markaðinum séu þar ekki uppfyllt getur framkvæmdastjórnin hafið samningaumleitanir í þeim tilgangi að bæta stöðuna.
Við þær aðstæður sem um getur í fyrstu undirgrein er framkvæmdastjórninni heimilt, í samræmi við þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 64. gr., að ákveða hvenær sem er, auk þess að hefja samningaumleitanir, að lögbær yfirvöld aðildarríkjanna skuli takmarka efnissvið ákvarðana sinna eða fresta ákvörðunum um starfsleyfisumsóknir sem fyrir liggja á þeim tíma er ákvörðun um slíkt er tekin, svo og um síðari starfsleyfisumsóknir og um kaup á eignarhlutum af hálfu fyrirtækja sem beint eða óbeint eru móðurfyrirtæki og lúta löggjöf hlutaðeigandi þriðja ríkis. Slíkar takmarkanir eða frestanir skulu ekki taka til stofnunar dótturfyrirtækja fjárfestingarfyrirtækja eða dótturfyrirtækja þeirra sem hafa gilt starfsleyfi innan Bandalagsins, né heldur til þess að slík fyrirtæki eða dótturfyrirtæki kaupi eignarhluta í fjárfestingarfyrirtækjum Bandalagsins. Þessar ráðstafanir mega ekki standa lengur en í þrjá mánuði.
Áður en þriggja mánaða tímabilinu, sem getið er í annarri undirgrein, lýkur og í ljósi niðurstaðna samningaviðræðnanna er framkvæmdastjórninni heimilt að ákveða að framlengja þessar ráðstafanir í samræmi við þá málsmeðferð sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 64. gr.
4.     Ef framkvæmdastjórnin telur að komið hafi upp slíkar aðstæður, eins og um getur í 2. og 3. mgr., skulu aðildarríkin tilkynna henni, að hennar ósk:
a)    um allar starfsleyfisumsóknir fyrirtækis sem er beint eða óbeint dótturfyrirtæki móðurfyrirtækis er lýtur lögum hlutaðeigandi þriðja lands,
b)    í hvert sinn sem þeim er tilkynnt skv. 3. mgr. 10. gr. að slíkt móðurfyrirtæki hyggist öðlast eignarhluta í fjárfestingarfyrirtæki í Bandalagsríki þannig að hið síðarnefnda yrði dótturfyrirtæki þess.
Upplýsingaskylda þessi fellur niður þegar samningur kemst á við hlutaðeigandi þriðja land eða þegar ráðstafanirnar, sem um getur í annarri og þriðju undirgrein 3. mgr., falla úr gildi.
5.     Ráðstafanir, sem gerðar eru samkvæmt þessari grein, skulu vera í samræmi við skuldbindingar Bandalagsins samkvæmt alþjóðasamningum, tvíhliða eða marghliða, um stofnun eða rekstur fjárfestingarfyrirtækja.

II. KAFLI
SKILYRÐI FYRIR STARFSEMI FJÁRFESTINGARFYRIRTÆKJA
1. þáttur
Almenn ákvæði
16. gr.
Regluleg endurskoðun skilyrða fyrir upphaflegri starfsleyfisveitingu

1.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki, sem hefur starfsleyfi á yfirráðasvæði þeirra, uppfylli ávallt skilyrðin fyrir upphaflegri starfsleyfisveitingu sem komið er á í I. kafla í þessum bálki.
2.     Aðildarríkin skulu gera kröfu um að lögbær yfirvöld komi á viðeigandi aðferðum til að hafa eftirlit með því að fjárfestingarfyrirtæki uppfylli skyldur sínar skv. 1. mgr. Þau skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki tilkynni lögbærum yfirvöldum um allar verulegar breytingar á skilyrðum fyrir upphaflegri starfsleyfisveitingu.
3.     Þegar um er að ræða fjárfestingarfyrirtæki, sem veita aðeins fjárfestingarráðgjöf, er aðildarríkjunum heimilt að leyfa lögbæru yfirvaldi að fela öðrum stjórnsýslu-, undirbúnings- eða viðbótarverkefni sem tengjast endurskoðun skilyrða fyrir upphaflegri starfsleyfisveitingu í samræmi við skilyrðin sem mælt er fyrir um í 2 mgr. 48. gr.

17. gr.
Almenn skylda vegna viðvarandi eftirlits

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að lögbær yfirvöld hafi eftirlit með starfsemi fjárfestingarfyrirtækja í því skyni að meta hvort skilyrðum fyrir starfseminni, sem mælt er fyrir um í þessari tilskipun, sé fylgt. Aðildarríkin skulu tryggja að viðeigandi ráðstafanir séu til staðar svo lögbærum yfirvöldum sé gert kleift að afla nauðsynlegra upplýsinga til að meta hvort fjárfestingarfyrirtæki uppfylli þessar skyldur.
2.     Þegar um er að ræða fjárfestingarfyrirtæki, sem veita aðeins fjárfestingarráðgjöf, er aðildarríkjunum heimilt að leyfa lögbæru yfirvaldi að fela öðrum stjórnsýslu-, undirbúnings- eða viðbótarverkefni sem tengjast reglulegu eftirliti með rekstrarkröfum í samræmi við skilyrðin sem mælt er fyrir um í 2 mgr. 48. gr.

18. gr.
Hagsmunaárekstrar

1.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki geri allar eðlilegar ráðstafanir til að greina hagsmunaárekstra sem koma upp milli þeirra, þar á meðal stjórnenda, starfsfólks og fastra umboðsmanna eða einstaklinga, sem beint eða óbeint tengjast þeim með yfirráðarétti, og viðskiptavina þeirra eða á milli einstakra viðskiptavina þegar fjárfestingar- og viðbótarþjónusta er veitt eða samsetning af þessu tvennu.
2.     Þegar skipulags- eða stjórnunarráðstafanir, sem fjárfestingarfyrirtæki hefur gert í samræmi við 3. mgr. 13. gr. til að eiga við hagsmunaárekstra, nægja ekki til að tryggja, svo fullnægjandi þyki, að komið verði í veg fyrir að slíkt skaði hagsmuni viðskiptavinar skal fjárfestingarfyrirtæki skýra viðskiptavini greinilega frá almennu eðli og/eða ástæðum hagsmunaárekstra áður en það tekur að sér að starfa fyrir hans hönd.
3.     Til að taka tillit til tækniframfara á fjármálamörkuðum og tryggja samræmda beitingu 1. og 2. mgr. skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 64. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir varðandi:
a)    skilgreiningu þeirra aðgerða sem ætla mætti með skynsamlegum hætti að fjárfestingarfyrirtæki framkvæmi til að greina, hindra, stjórna og/eða greina frá hagsmunaárekstrum þegar það veitir ýmsa fjárfestingar- og viðbótarþjónustu og samsetningu af þessu tvennu,
b)    það að koma á viðeigandi viðmiðunum til að ákvarða hvaða tegundir hagsmunaárekstra kunni að skaða hagsmuni viðskiptavina eða hugsanlegra viðskiptavina fjárfestingarfyrirtækisins.

2. þáttur
Ákvæði til að tryggja vernd fjárfesta
19. gr.
Skyldur varðandi framkvæmd viðskipta þegar fjárfestingarþjónusta er veitt viðskiptavinum

1.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að þegar fjárfestingarfyrirtæki veitir viðskiptavinum fjárfestingarþjónustu og/eða viðbótarþjónustu, eftir því sem við á, starfi það heiðarlega, af sanngirni og fagmennsku í samræmi við bestu hagsmuni viðskiptavina sinna og fari einkum að þeim meginreglum sem settar eru fram í 2..8. mgr.
2.     Allar upplýsingar, þ.m.t. samskipti vegna markaðssetningar, frá fjárfestingarfyrirtækinu til viðskiptavina eða hugsanlegra viðskiptavina skulu vera sanngjörn, skýr og ekki villandi. Það skal koma skýrt fram í samskiptum vegna markaðssetningar um hvað er að ræða.
3.     Viðeigandi upplýsingar skulu veittar á auðskilinn hátt til viðskiptavina eða hugsanlegra viðskiptavina um:
—    fjárfestingarfyrirtækið og þjónustu þess,
—    fjármálagerninga og fyrirhugaðar fjárfestingaráætlanir, þ.m.t. viðeigandi leiðbeiningar og viðvaranir um áhættuna sem tengist fjárfestingum í þessum gerningum eða að því er varðar tilteknar fjárfestingaráætlanir,
—    viðskiptakerfi og
—    kostnað og tengd gjöld
svo að þeir geti með góðu móti skilið eðli og áhættu fjárfestingarþjónustunnar og þeirrar tilteknu tegundar fjármálagernings sem er í boði og tekið upplýstar ákvarðanir um fjárfestingar í kjölfar þess. Þessar upplýsingar má veita á stöðluðu sniði.
4.     Þegar fjárfestingarfyrirtæki veitir fjárfestingarþjónustu eða stýrir eignasafni skal það afla nauðsynlegra upplýsinga um reynslu og þekkingu viðskiptavinar eða hugsanlegs viðskiptavinar á sviði fjárfestinga sem máli skiptir fyrir þessa tilteknu tegund afurðar eða þjónustu, fjárhagsstöðu hans og fjárfestingarmarkmið til þess að gera fyrirtækinu kleift að mæla með hentugri fjárfestingarþjónustu og fjármálagerningum við viðskiptavininn eða hugsanlega viðskiptavininn.
5.     Aðildarríkin skulu tryggja að fjárfestingarfyrirtæki biðji viðskiptavininn eða hugsanlega viðskiptavininn að veita upplýsingar um þekkingu sína og reynslu á sviði fjárfestinga sem máli skiptir fyrir þá tilteknu tegund afurðar eða þjónustu sem er í boði eða gerð er krafa um til þess að gera fjárfestingarfyrirtækinu kleift að meta hvort fjárfestingarþjónustan eða varan hæfi viðskiptavininum þegar það veitir aðra fjárfestingarþjónustu en þá sem um getur í 4. mgr.
Ef fjárfestingarfyrirtæki telur, miðað við þær upplýsingar sem það fær samkvæmt undirgreininni hér að framan, að afurðin eða þjónustan hæfi ekki viðskiptavininum eða hugsanlega viðskiptavininum skal fjárfestingarfyrirtækið vara viðskiptavininn eða hugsanlega viðskiptavininn við. Þessa viðvörun má veita á stöðluðu sniði.
Ef viðskiptavinurinn eða hugsanlegi viðskiptavinurinn kýs að veita ekki þær upplýsingar sem um getur í fyrstu undirgrein eða ef hann veitir ófullnægjandi upplýsingar um þekkingu sína og reynslu skal fjárfestingarfyrirtækið vara viðskiptavininn eða hugsanlega viðskiptavininn við því að slík ákvörðun geri fyrirtækinu ekki kleift að ákvarða hvort þjónustan eða afurðin hæfi honum. Þessa viðvörun má veita á stöðluðu sniði.
6.     Aðildarríkin skulu heimila fjárfestingarfyrirtækjum, sem veita fjárfestingarþjónustu sem felst eingöngu í því að framkvæma og/eða að taka á móti fyrirmælum viðskiptavina með eða án viðbótarþjónustu, að veita viðskiptavinum sínum þessa fjárfestingarþjónustu án þess að krefjast upplýsinganna eða ákvörðunarinnar sem mælt er fyrir um í 5. mgr. þegar öll eftirfarandi skilyrði eru uppfyllt:
—    framangreind þjónusta tengist hlutabréfum, sem viðskipti eru leyfð með á skipulegum markaði eða á samsvarandi markaði í þriðja landi, peningamarkaðsgerningum, skuldabréfum eða tryggðum skuldaskjölum (að undanskildum þeim skuldabréfum eða tryggðu skuldaskjölum sem eru með innbyggðum afleiðum), verðbréfasjóðum og öðrum fjármálagerningum sem ekki eru samsettir. Verðbréfamarkaður í þriðja landi skal talinn samsvara skipulegum markaði ef hann er í samræmi við samsvarandi kröfur og þær sem komið er á skv. III. bálki. Framkvæmdastjórnin skal birta skrá yfir þá markaði sem teljast jafngildir. Skráin skal uppfærð reglulega,
.    þjónustan er veitt að frumkvæði viðskiptavinarins eða hugsanlega viðskiptavinarins,
.    viðskiptavinurinn eða hugsanlegi viðskiptavinurinn hefur verið skilmerkilega upplýstur um að þegar fjárfestingarfyrirtæki veitir þessa þjónustu sé þess ekki krafist að það meti hæfi gerningsins eða þjónustunnar sem veitt er eða stendur til boða og af þeim sökum njóti hann ekki samsvarandi verndar viðeigandi viðskiptareglna. Þessa viðvörun má veita á stöðluðu sniði,
.    fjárfestingarfyrirtækið uppfyllir skyldur sínar skv. 18. gr.
7.     Fjárfestingarfyrirtækið skal koma upp skrá sem inniheldur skjalið eða skjölin sem fyrirtækið og viðskiptavinurinn hafa gert samkomulag um, þar sem sett eru fram réttindi og skyldur aðilanna og aðrir skilmálar sem fyrirtækið verður að hlíta þegar það veitir viðskiptavininum þjónustu. Réttindi og skyldur aðilanna að samningnum kunna að vera felld inn með tilvísun í önnur skjöl eða lagatexta.
8.     Viðskiptavinurinn verður að fá viðunandi tilkynningar frá fjárfestingarfyrirtækinu um þjónustu þess við viðskiptavini sína. Í þessum tilkynningum skal koma fram, þar sem við á, kostnaðurinn sem tengist viðskiptunum og þjónustunni sem framkvæmd er fyrir hönd viðskiptavinarins.
9.     Þar sem fjárfestingarþjónusta er boðin sem hluti af fjármálaafurð, sem þegar er háð öðrum ákvæðum löggjafar Bandalagsins eða sameiginlegum Evrópustöðlum sem tengjast lánastofnunum og neytendalánum að því er varðar áhættumat á viðskiptavinum og/eða upplýsingakröfur, skal sú þjónusta ekki jafnframt vera háð þeim skyldum sem settar eru fram í þessari grein.
10.     Til að tryggja nauðsynlega vernd fjárfesta og samræmda beitingu 1.–8. mgr. skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 64. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir til að tryggja að fjárfestingarfyrirtæki fari að þeim meginreglum sem þar eru settar fram þegar þau veita viðskiptavinum sínum fjárfestingar- eða viðbótarþjónustu. Framkvæmdaráðstafanirnar skulu taka tillit til:
a)    eðlis þjónustunnar sem er í boði eða veitt er viðskiptavininum eða hugsanlegum viðskiptavininum, með hliðsjón af tegund, markmiði, umfangi og tíðni viðskiptanna,
b)    eðlis fjármálagerninganna sem eru í boði eða til álita koma,
c)    hvort viðskiptavinirnir eða hugsanlegu viðskiptavinirnir eru almennir viðskiptavinir eða fagviðskiptavinir.

20. gr.
Að veita þjónustu í gegnum annað fjárfestingarfyrirtæki

Aðildarríkin skulu heimila fjárfestingarfyrirtæki, sem tekur á móti fyrirmælum um að framkvæma fjárfestingar- eða viðbótarþjónustu fyrir hönd viðskiptavinar í gegnum annað fjárfestingarfyrirtæki, að reiða sig á upplýsingar um viðskiptavin sem sendar eru af síðarnefnda fyrirtækinu. Fjárfestingarfyrirtækið, sem miðlar leiðbeiningunum, ber áfram ábyrgð á heilleika og nákvæmni upplýsinganna sem sendar eru.
Fjárfestingarfyrirtækið, sem tekur á móti fyrirmælum um að framkvæma þjónustu fyrir hönd viðskiptavinar á þennan hátt, skal einnig geta reitt sig á meðmæli að því er varðar þjónustu eða viðskipti sem annað fjárfestingarfyrirtæki hefur veitt viðskiptavininum. Fjárfestingarfyrirtækið, sem miðlar leiðbeiningunum, ber áfram ábyrgð á því að meðmæli eða ráðgjöf sem veitt er viðskiptavininum hæfi honum.
Fjárfestingarfyrirtækið, sem tekur á móti leiðbeiningum eða fyrirmælum frá viðskiptavinum í gegnum annað fjárfestingarfyrirtæki, skal áfram bera ábyrgð á því að ljúka þeirri þjónustu eða viðskiptum sem byggjast á slíkum upplýsingum eða meðmælum í samræmi við viðeigandi ákvæði þessa bálks.

21. gr.
Skyldan til að framfylgja fyrirmælum með skilmálum sem eru hagstæðastir viðskiptavininum

1.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að þegar fjárfestingarfyrirtæki framfylgir fyrirmælum geri það allar eðlilegar ráðstafanir til að niðurstaðan verði sem hagstæðust fyrir viðskiptavini þess, að teknu tilliti til verðs, kostnaðar, hraða, líkinda á framfylgd og greiðslu, umfangs, eðlis eða annarra þátta sem máli skipta fyrir framkvæmd fyrirmælanna. Engu að síður skal fjárfestingarfyrirtækið framkvæma fyrirmæli samkvæmt sérstökum leiðbeiningum þegar þær berast frá viðskiptavini.
2.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki geri skilvirkar ráðstafanir til að fara að ákvæðum 1. mgr. Aðildarríkin skulu einkum krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki komi á og framkvæmi stefnu um framfylgd fyrirmæla sem geri þeim kleift að fá sem hagstæðasta niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína í samræmi við 1. mgr.
3.     Í stefnu um framfylgd fyrirmæla skulu koma fram, að því er varðar hvern flokk gerninga, upplýsingar um þau mismunandi kerfi sem fjárfestingarfyrirtækið notar til að framfylgja fyrirmælum viðskiptavina sinna og þá þætti sem hafa áhrif á val viðskiptakerfis. Þar skulu a.m.k. koma fram þeir kerfisstaðir sem gera fjárfestingarfyrirtækinu kleift að fá ætíð bestu mögulegu niðurstöðu að því er varðar framfylgd fyrirmæla viðskiptavina.
Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki veiti viðskiptavinum sínum viðeigandi upplýsingar um stefnu sína um framfylgd fyrirmæla. Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki afli fyrirframsamþykkis viðskiptavina sinna að því er varðar stefnu um framfylgd fyrirmæla.
Aðildarríkin skulu krefjast þess að þar sem stefna um framfylgd fyrirmæla býður upp á þann möguleika að fyrirmælum viðskiptavina sé framfylgt utan skipulegs markaðar eða markaðstorgs skuli fjárfestingarfyrirtækið upplýsa viðskiptavini sína sérstaklega um þann möguleika. Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki afli fyrirframsamþykkis viðskiptavina sinna áður en þau framfylgja fyrirmælum þeirra utan skipulegs markaðar eða markaðstorgs. Fjárfestingarfyrirtæki geta annaðhvort aflað almenns samþykkis eða samþykkis að því er varðar einstök viðskipti.
4.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki hafi eftirlit með skilvirkni ráðstafana sinna og stefnu um framfylgd fyrirmæla til að geta greint annmarka og leiðrétt þá, þar sem við á. Þau skulu einkum meta reglulega hvort það viðskiptakerfi, sem er hluti af stefnu um framfylgd fyrirmæla, veiti bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavininn eða hvort þau þurfi að gera breytingar á ráðstöfunum sínum til að framfylgja fyrirmælum. Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki veiti viðskiptavinum sínum upplýsingar um verulegar breytingar á ráðstöfunum sínum og stefnu um framfylgd fyrirmæla.
5.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki geti sýnt viðskiptavinum sínum fram á að þau hafi framfylgt fyrirmælum þeirra í samræmi við stefnu fyrirtækisins um framfylgd fyrirmæla, óski þeir eftir því.
6.     Til að tryggja nauðsynlega vernd fjárfesta, sanngjarna og skipulega starfsemi markaða og til að tryggja samræmda beitingu ákvæða 1., 3., og 4. mgr. skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 64. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir varðandi:
a)    forsendur til að ákvarða hlutfallslegt mikilvægi þeirra ólíku þátta sem skv. 1. mgr. má taka tillit til við ákvörðun bestu mögulegu niðurstöðu, að teknu tilliti til umfangs og eðlis fyrirmæla og hvort viðskiptavinur er almennur viðskiptavinur eða fagviðskiptavinur,
b)    þætti sem fjárfestingarfyrirtæki kann að taka tillit til þegar það endurskoðar ráðstafanir sínar til að framfylgja fyrirmælum og þær aðstæður þar sem breytingar á slíkum ráðstöfunum kunna að vera við hæfi. Einkum þætti er ákvarða hvaða kerfi gerir fjárfestingarfyrirtækinu kleift að fá ætíð bestu mögulegu niðurstöðu að því er varðar framfylgd fyrirmæla viðskiptavina,
c)    eðli og umfang þeirra upplýsinga sem láta ber viðskiptavinum í té, skv. 3. mgr., varðandi stefnu þeirra um framkvæmd fyrirmæla.

22. gr.
Reglur um meðferð fyrirmæla viðskiptavina

1.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki, sem hafa leyfi til að framfylgja fyrirmælum fyrir hönd viðskiptavina, ákveði málsmeðferð og ráðstafanir þar sem kveðið er á um skjóta og sanngjarna framfylgd fyrirmæla viðskiptavina miðað við fyrirmæli annarra viðskiptavina eða viðskiptaáreiðanleika (trading interests) fjárfestingarfyrirtækisins.
Samkvæmt þessari málsmeðferð eða ráðstöfunum skal fyrirmælum viðskiptavina, sem eru sambærileg að öðru leyti, framfylgt í samræmi við það hvenær þau voru móttekin af fjárfestingarfyrirtækinu.
2.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að í því tilviki að skilyrtum fyrirmælum viðskiptavinar vegna hlutabréfa, sem viðskipti eru leyfð með á skipulegum markaði, er ekki framfylgt án tafar við ríkjandi markaðsaðstæður skuli fjárfestingarfyrirtæki, nema viðskiptavinurinn gefi skýrar leiðbeiningar um annað, gera ráðstafanir til að greiða fyrir því að skilyrtu fyrirmælunum verði framfylgt eins skjótt og auðið er með því að birta þau þegar í stað þannig að þau séu aðgengileg öðrum markaðsaðilum. Aðildarríkjunum er heimilt að ákveða að fjárfestingarfyrirtæki uppfylli þessa skyldu með því að senda skilyrt fyrirmæli viðskiptavinar til skipulegs markaðar og/eða markaðstorgs. Aðildarríkin skulu kveða á um að lögbær yfirvöld megi aflétta þeirri skyldu að birta skilyrt fyrirmæli ef þau eru umfangsmikil samanborið við venjulega markaðsstærð eins og hún er ákvörðuð í 2. mgr. 44. gr.
3.     Til að tryggja að í ráðstöfunum til verndar fjárfestum og sanngjarnri og skipulegri starfsemi markaða sé tekið tillit til tækniframfara á fjármálamörkuðum og til að tryggja samræmda beitingu ákvæða 1. og 2. mgr. skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 64. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir sem skilgreina:
a)    skilyrði og eðli þeirrar málsmeðferðar og ráðstafana sem leiða til skjótrar og sanngjarnrar framfylgdar fyrirmæla viðskiptavina og þær aðstæður eða tegundir viðskipta þar sem má telja eðlilegt að fjárfestingarfyrirtæki víki frá skjótri framfylgd til að ná betri kjörum fyrir viðskiptavini,
b)    mismunandi aðferðir sem nota má til að staðfesta að fjárfestingarfyrirtæki teljist hafa uppfyllt skyldu sína um að birta ekki strax á markaði skilyrt fyrirmæli viðskiptavinar sem unnt er að framfylgja.

23. gr.
Skyldur fjárfestingarfyrirtækja við tilnefningu fastra umboðsmanna

1.     Aðildarríkin geta ákveðið að heimila fjárfestingarfyrirtæki að tilnefna fasta umboðsmenn í þeim tilgangi að kynna þjónustu fjárfestingarfyrirtækisins, stofna til viðskipta eða taka á móti fyrirmælum frá viðskiptavinum eða hugsanlegum viðskiptavinum og senda þau, afhenda fjármálagerninga og veita ráðgjöf að því er varðar fjármálagerninga og þjónustu sem fjárfestingarfyrirtækið býður.
2.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að þegar fjárfestingarfyrirtæki ákveður að tilnefna fastan umboðsmann sé það að fullu og skilyrðislaust ábyrgt fyrir aðgerðum eða aðgerðaleysi fasta umboðsmannsins þegar hann starfar fyrir hönd fyrirtækisins. Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtækið tryggi að fasti umboðsmaðurinn greini frá því hvaða hlutverki hann gegni og fyrir hvaða fyrirtæki hann er fulltrúi þegar hann hefur samband við viðskiptavin eða hugsanlegan viðskiptavin eða áður en hann á viðskipti við hann.
Aðildarríkin geta heimilað föstum umboðsmönnum, sem skráðir eru á yfirráðasvæði þeirra, að annast umsýslu peninga viðskiptavina og/eða fjármálagerninga fyrir hönd og alfarið á ábyrgð fjárfestingarfyrirtækisins, sem þeir starfa fyrir, innan yfirráðasvæðis þeirra eða, ef um er að ræða aðgerðir yfir landamæri, á yfirráðasvæði aðildarríkis sem heimilar föstum umboðsmanni að annast umsýslu peninga viðskiptavina í samræmi við 6., 7., og 8. mgr. 13. gr. Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki hafi eftirlit með starfsemi fastra umboðsmanna sinna til að tryggja að þau fari að þessari tilskipun þegar þau starfa fyrir milligöngu fastra umboðsmanna.
3.     Aðildarríki, sem ákveða að heimila fjárfestingarfyrirtækjum að tilnefna fasta umboðsmenn, skulu koma á fót opinberri skrá. Fastir umboðsmenn skulu skráðir í opinbera skrá aðildarríkisins þar sem þeir hafa staðfestu.
Ef aðildarríkið, þar sem fasti umboðsmaðurinn hefur staðfestu, hefur ákveðið, í samræmi við 1. mgr., að heimila ekki fjárfestingarfyrirtækjum, sem hafa starfsleyfi frá lögbærum yfirvöldum sínum, að tilnefna fasta umboðsmenn skal skrá þá hjá lögbæru yfirvaldi heimaaðildarríkis fjárfestingarfyrirtækisins sem þeir starfar fyrir. Aðildarríkin skulu tryggja að fastir umboðsmenn séu ekki skráðir í opinbera skrá nema sýnt hafi verið fram á að þeir hafi gott mannorð og viðeigandi almenna, viðskiptalega og faglega þekkingu til að geta greint viðskiptavininum eða hugsanlega viðskiptavininum nákvæmlega frá öllum viðeigandi upplýsingum varðandi þá þjónustu sem er fyrirhuguð. Aðildarríkin geta ákveðið að fjárfestingarfyrirtæki geti sannreynt hvort fastir umboðsmenn, sem þau hafa tilnefnt, hafi gott mannorð og þá þekkingu sem um getur í þriðju undirgrein.
Skráin skal uppfærð reglulega. Hún skal vera öllum aðgengileg til skoðunar.
4.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki, sem tilnefna fasta umboðsmenn, geri viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir neikvæð áhrif sem starfsemi fasta umboðsmannsins, sem ekki fellur undir gildissvið þessarar tilskipunar, gæti haft á þá starfsemi sem fasti umboðsmaðurinn annast fyrir hönd fjárfestingarfyrirtækisins.
Aðildarríkin geta heimilað lögbærum yfirvöldum að starfa með fjárfestingarfyrirtækjum og lánastofnunum, samstarfsaðilum þeirra og öðrum einingum við skráningu fastra umboðsmanna og við eftirlit með því að fastir umboðsmenn fylgi kröfum 3. mgr. Einkum geta fjárfestingarfyrirtæki, lánastofnanir eða samstarfsaðilar þeirra og aðrar einingar undir eftirliti lögbæra yfirvaldsins skráð fasta umboðsmenn.
5.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki tilnefni aðeins fasta umboðsmenn sem skráðir eru í opinberu skrárnar sem um getur í 3. mgr.
6.     Aðildarríkjunum er heimilt að setja strangari kröfur en settar eru í þessari grein eða bæta við kröfum vegna fastra umboðsmanna sem skráðir eru innan lögsögu þeirra.

24. gr.
Viðskipti við hæfa mótaðila

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að fjárfestingarfyrirtæki, sem leyfi hafa til að framfylgja fyrirmælum fyrir hönd viðskiptavina og/eða til að stunda viðskipti fyrir eigin reikning og/eða til að taka á móti og senda fyrirmæli, geti stofnað til eða tekið þátt í viðskiptum við hæfa mótaðila þótt þau séu ekki skuldbundin til þess að uppfylla skyldurnar í 19., 21. og 22. gr. (1. mgr.) að því er varðar þau viðskipti eða viðbótarþjónustu sem tengist þeim viðskiptum beint.
2.     Aðildarríkin skulu, að því er varðar þessa grein, viðurkenna sem hæfa mótaðila fjárfestingarfyrirtæki, lánastofnanir, vátryggingafélög, verðbréfasjóði og rekstrarfélög þeirra, lífeyrissjóði og rekstrarfélög þeirra, aðrar fjármálastofnanir sem hafa starfsleyfi eða eru reglufest samkvæmt löggjöf Bandalagsins eða innlendum lögum aðildarríkis, fyrirtæki sem hafa undanþágu frá því að beita þessari tilskipun skv. k- og l-lið 1. mgr. 2. gr., ríkisstjórnir og opinbera aðila, m.a. aðila sem fást við ríkisskuldir, seðlabanka og yfirríkjastofnanir.
Flokkun aðila sem hæfs mótaðila samkvæmt fyrstu undirgrein skal vera með fyrirvara um rétt slíkra eininga til að óska eftir meðferð, annaðhvort almennt eða á grundvelli hverra viðskipta fyrir sig, sem viðskiptavinir sem eiga í viðskiptum við fjárfestingarfyrirtækið skv. 19., 21. og 22. gr.
3.     Aðildarríkin geta líka viðurkennt sem hæfa mótaðila önnur fyrirtæki sem uppfylla áður skilgreindar, hlutfallslegar kröfur sem taka einnig mið af stærðarmörkum. Ef um er að ræða viðskipti þar sem hugsanlegir mótaðilar eru staðsettir í mismunandi lögsagnarumdæmum skal fjárfestingarfyrirtækið viðurkenna þá stöðu sem hitt fyrirtækið hefur samkvæmt lögum eða ráðstöfunum aðildarríkisins þar sem fyrirtækið hefur staðfestu.
Aðildarríkin skulu tryggja að þegar fjárfestingarfyrirtækið leggur út í viðskipti við slík fyrirtæki, í samræmi við 1. mgr., afli það ótvíræðrar staðfestingar frá hugsanlegum mótaðila á því að hann samþykki að farið sé með hann sem hæfan mótaðila. Aðildarríkin skulu heimila fjárfestingarfyrirtækinu að afla þessarar staðfestingar, annaðhvort sem almenns samþykkis eða samþykkis vegna einstakra viðskipta.
4.     Aðildarríkin geta viðurkennt sem hæfa mótaðila einingar í þriðja landi sem samsvara þeim flokkum eininga sem getið er í 2. mgr.. Aðildarríkin geta einnig viðurkennt sem hæfa mótaðila fyrirtæki í þriðja landi eins og þau sem nefnd eru í 3. mgr. með sömu skilyrðum og kröfum og mælt er fyrir um í 3. mgr.
5.     Til að tryggja samræmda beitingu 2., 3. og 4. mgr., í samræmi við breyttar markaðsvenjur og til að greiða fyrir skilvirkum rekstri innri markaðarins, er framkvæmdastjórninni heimilt, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 64. gr., að samþykkja framkvæmdarráðstafanir þar sem:
a)    skilgreind er málsmeðferð varðandi beiðnir um að fá meðferð sem viðskiptavinir skv. 2. mgr.,
b)    skilgreind er málsmeðferð varðandi öflun beins samþykkis frá hugsanlegum mótaðilum skv. 3. mgr.,
c)    skilgreindar eru fyrir fram ákveðnar, hlutfallslegar kröfur, sem taka einnig mið af stærðarmörkum, sem stuðla að því að telja megi fyrirtæki hæfan mótaðila skv. 3. mgr.

3. þáttur
Gagnsæi og heilleiki markaðar
25. gr.
Skyldan til að vernda heilleika markaða, tilkynna viðskipti og halda skrár

1.     Með fyrirvara um dreifingu ábyrgðar við framfylgd ákvæða tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/6/EB frá 28. janúar 2003 um innherjasvik og markaðsmisnotkun (markaðssvik) ( 21 ) skulu aðildarríkin tryggja að fyrir liggi viðeigandi ráðstafanir sem gera lögbæru yfirvaldi kleift að hafa eftirlit með starfsemi fjárfestingarfyrirtækja til að tryggja að þau starfi heiðarlega, af sanngirni og fagmennsku og á þann hátt sem stuðlar að heilleika markaðarins.
2.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki hafi tiltæk handa lögbæru yfirvaldi í a.m.k. fimm ár viðeigandi gögn varðandi öll viðskipti með fjármálagerninga sem þau hafa framkvæmt, hvort heldur er fyrir eigin reikning eða fyrir hönd viðskiptavinar. Þegar um er að ræða viðskipti sem framkvæmd eru fyrir hönd viðskiptavina skulu skrárnar innihalda allar upplýsingar og lýsingu á viðskiptavininum og þær upplýsingar sem krafist er samkvæmt tilskipun ráðsins 91/308/EBE frá 10. júní 1991 um ráðstafanir gegn því að fjármálakerfið sé notað til að stunda peningaþvætti ( 22 ).
3.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki, sem sjá um viðskipti með fjármálagerninga sem viðskipti eru leyfð með á skipulegum markaði, tilkynni lögbæru yfirvaldi um slík viðskipti eins fljótt og auðið er og eigi síðar en við lok næsta virka dags á eftir. Þessi skylda á við hvort sem þessi viðskipti fóru fram á skipulegum markaði eða ekki.
Lögbær yfirvöld skulu, í samræmi við 58. gr., koma á nauðsynlegum ráðstöfunum til að tryggja að lögbært yfirvald viðeigandi markaðar, að því varðar seljanleika þessara fjármálagerninga, fái einnig þessar upplýsingar.
4.     Í tilkynningunum skulu einkum koma fram upplýsingar um nöfn og fjölda gerninga sem keyptir eru eða seldir, magn, dagsetningu og tíma framkvæmdar og viðskiptaverð og upplýsingar til að auðkenna fjárfestingarfyrirtækin sem um ræðir.
5.     Aðildarríkin skulu kveða á um að tilkynningarnar séu sendar lögbæru yfirvaldi annaðhvort af fjárfestingarfyrirtækinu sjálfu, þriðja aðila fyrir hönd þess eða um samanburðarviðskipta- eða tilkynningakerfi sem lögbæra yfirvaldið eða skipulegi markaðinn eða markaðstorgið hefur samþykkt og viðskiptin fóru fram í. Í þeim tilvikum að viðskiptin séu tilkynnt beint til lögbærs yfirvalds af skipulegum markaði, markaðstorgi eða samanburðarviðskipta- eða tilkynningakerfi, sem lögbæra yfirvaldið hefur samþykkt, má falla frá þeirri skyldu gagnvart fjárfestingarfyrirtækinu sem mælt er fyrir um í 3. mgr.
6.     Þegar tilkynningar, sem kveðið er á um í þessari grein, eru sendar í samræmi við 7. mgr. 32. gr. til lögbærs yfirvalds gistiaðildarríkis skal það senda þessar upplýsingar til lögbærra yfirvalda í heimaaðildarríki fjárfestingarfyrirtækisins nema þau ákveði að þau vilji ekki taka á móti þessum upplýsingum.
7.     Til að tryggja að ráðstöfunum til verndar heilleika markaðarins sé breytt í því skyni að taka tillit til tækniframfara á fjármálamörkuðum og til að tryggja samræmda beitingu 1..5. mgr. skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 64. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir þar sem skilgreindar eru aðferðir og fyrirkomulag við að tilkynna fjármálaviðskipti, snið og efni þessara tilkynninga og forsendur til skilgreiningar á viðeigandi markaði í samræmi við 3. mgr.

26. gr.
Eftirlit með að reglum markaðstorgs og öðrum lagaskyldum sé fylgt

1.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki og markaðsrekendur, sem starfrækja markaðstorg, komi á og viðhaldi skilvirkum ráðstöfunum og málsmeðferð, sem varðar markaðstorgið, til að hafa eftirlit með því að notendur fari að reglum þess. Fjárfestingarfyrirtæki og markaðsrekendur, sem starfrækja markaðstorg, skulu hafa eftirlit með viðskiptum, sem notendur þeirra stofna til, til þess að greina brot á þessum reglum, ótilhlýðilegar viðskiptaaðstæður eða hegðun sem kann að fela í sér markaðssvik.
2.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki og markaðsrekendur, sem starfrækja markaðstorg, tilkynni lögbærum yfirvöldum um umtalsverð brot á reglum sínum eða ótilhlýðilegar viðskiptaaðstæður eða hegðun sem kann að fela í sér markaðssvik. Aðildarríkin skulu einnig krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki og markaðsrekendur, sem starfrækja markaðstorg, veiti lögbæru yfirvaldi viðeigandi upplýsingar án tafar til að rannsaka og lögsækja vegna markaðssvika og að þau veiti yfirvaldinu fulla aðstoð við rannsókn og lögsókn vegna markaðssvika sem eiga sér stað í eða í gegnum markaðskerfi þeirra.

27. gr.
Skylda fjárfestingarfyrirtækja til að birta bindandi verðtilboð

1.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að innmiðlarar hlutabréfa birti bindandi verðtilboð í þau hlutabréf sem viðskipti eru leyfð með á skipulegum markaði þar sem þeir eru innmiðlarar og virkur markaður er til staðar. Þegar um er að ræða hlutabréf sem ekki er til staðar virkur markaður fyrir skulu innmiðlarar gefa viðskiptavinum sínum upp verðtilboð, óski þeir eftir því.
Ákvæði þessarar greinar skulu gilda um innmiðlara ef þeir eiga viðskipti með stærðir upp að staðlaðri markaðsstærð. Ákvæði þessarar greinar skulu ekki gilda um innmiðlara sem eiga eingöngu viðskipti með stærðir yfir staðlaðri markaðsstærð.
Innmiðlarar geta ákveðið þá stærð eða stærðir sem þeir útbúa verðtilboð fyrir. Fyrir tiltekið hlutabréf skal hvert verðtilboð fela í sér bindandi kauptilboðs- og/eða útboðsverð fyrir stærð eða stærðir allt upp að staðlaðri markaðsstærð þess flokks hlutabréfa sem hlutabréfið tilheyrir. Verðið skal einnig endurspegla ríkjandi markaðsskilyrði fyrir það hlutabréf.
Hlutabréfum skal skipt í flokka á grundvelli meðaltals virðis fyrirmæla sem framkvæmd eru á markaðinum fyrir það hlutabréf. Stöðluð markaðsstærð fyrir hvern flokk hlutabréfa skal vera stærð sem er lýsandi fyrir meðaltal virðis þeirra fyrirmæla sem framfylgt er á markaðinum með þau hlutabréf sem teljast til hvers flokks hlutabréfa.
Markaður fyrir hvert hlutabréf skal samanstanda af öllum fyrirmælum sem framfylgt er í Evrópusambandinu að því er varðar þau hlutabréf, að undanskildum þeim sem eru mikil að umfangi miðað við eðlilega markaðsstærð þess hlutabréfs.
2.     Lögbært yfirvald viðeigandi markaðar hvað varðar seljanleika, eins og hann er skilgreindur í 25. gr., hvers hlutabréfs skal ákvarða a.m.k. árlega, á grundvelli meðaltals virðis fyrirmæla sem framfylgt er á markaðinum vegna þess hlutabréfs, hlutabréfaflokkinn sem það tilheyrir. Þessar upplýsingar skulu birtar öllum markaðsaðilum.
3.     Innmiðlarar skulu birta verðtilboð sín reglulega og samfellt á venjulegum opnunartíma. Þeir skulu hafa rétt til að uppfæra verðtilboð sín hvenær sem er. Þeim skal einnig heimilt að draga verðtilboð sín til baka við sérstakar aðstæður á markaðinum.
Verðtilboðið skal birt á þann hátt að það sé aðgengilegt öðrum markaðsaðilum á eðlilegum viðskiptagrundvelli.
Innmiðlarar skulu jafnframt því sem þeir uppfylla ákvæðin, sem sett eru fram í 21. gr., framfylgja þeim fyrirmælum, sem þeim berast frá almennum viðskiptavinum sínum varðandi hlutabréfin sem þeir eru innmiðlarar fyrir, á því verðtilboði sem gildir þegar fyrirmælin berast.
Innmiðlarar skulu framfylgja þeim fyrirmælum sem þeim berast frá fagviðskiptavinum sínum varðandi hlutabréfin sem þeir eru innmiðlarar fyrir á því verðtilboði sem gildir þegar fyrirmælin berast. Þeir geta þó framfylgt fyrirmælunum á hagstæðara verði í rökstuddum tilvikum að því tilskildu að það verð falli innan verðbils sem er opinbert og liggur nálægt markaðsskilyrðum og að fyrirmælin feli í sér meira umfang en almennur fjárfestir stofnar venjulega til.
Innmiðlarar geta enn fremur framfylgt fyrirmælum, sem þeir fá frá fagviðskiptavinum sínum, á öðru verði en því sem er að finna í verðtilboði þeirra, en þurfa þó ekki að fara að þeim skilyrðum sem komið er á í fjórðu undirgrein, að því er varðar viðskipti þar sem nokkur verðbréf eru hluti af sömu viðskiptum eða að því er varðar fyrirmæli sem eru háð öðrum skilyrðum en gildandi markaðsverði.
Þegar innmiðlari, sem gefur aðeins upp eitt verðtilboð eða hæsta verðtilboð hans er lægra en stöðluð markaðsstærð, fær fyrirmæli frá viðskiptavini, sem eru umfangsmeiri en stærð verðtilboðsins en lægri en stöðluð markaðsstærð, getur hann ákveðið að framfylgja þeim hluta fyrirmælanna sem er umfram það sem verðtilboðið tekur til að því tilskildu að þeim hluta sé framfylgt samkvæmt verðtilboðinu nema þegar annað er leyft samkvæmt skilyrðunum í undirgreinunum tveimur hér að framan. Þegar innmiðlari gefur upp mishá verðtilboð og fær fyrirmæli, sem liggja milli þessara tilboða, sem hann kýs að framfylgja skal hann framfylgja fyrirmælunum á einhverju því verðtilboða, sem gefin voru upp, í samræmi við ákvæði 22. gr., nema þegar annað er leyft samkvæmt skilyrðum undirgreinanna tveggja hér að framan.
4.     Lögbær yfirvöld skulu kanna:
a)    hvort fjárfestingarfyrirtæki uppfæri reglulega kauptilboðs- og/eða útboðsverð, sem gefin eru upp í samræmi við 1. mgr., og viðhaldi verði sem endurspeglar ríkjandi markaðsskilyrði,
b)    hvort fjárfestingarfyrirtæki uppfylli skilyrðin um verðumbætur sem mælt er fyrir um í fjórðu undirgrein 3. mgr.
5.     Innmiðlurum skal heimilt að ákveða, á grundvelli viðskiptastefnu sinnar og á hlutlægan hátt, án mismununar, hvaða fjárfestum þeir veita aðgang að verðtilboðum sínum. Í þessu skyni skulu vera til staðar skýrir staðlar sem stjórna aðgangi að verðtilboðum þeirra. Innmiðlarar geta neitað að stofna til viðskiptasambanda við fjárfesta eða rjúfa þau á grundvelli viðskiptaaðstæðna, s.s. vegna lánstrausts fjárfesta, áhættu mótaðila og endanlegs uppgjörs viðskiptanna.
6.     Til að takmarka áhættuna á því að fást við margföld viðskipti frá sama viðskiptavini skal innmiðlurum heimilt að takmarka, án mismununar, fjölda viðskipta frá sama viðskiptavini sem þeir taka að sér með þeim skilyrðum sem auglýst hafa verið. Þeim skal einnig heimilt að takmarka, án mismununar og í samræmi við ákvæði 22. gr., heildarfjölda viðskipta frá mismunandi viðskiptavinum á sama tíma að því tilskildu að það sé einungis heimilt ef fjöldi og/eða umfang fyrirmæla frá viðskiptavinum er töluvert umfram það sem eðlilegt má telja.
7.     Til að tryggja samræmda beitingu 1..6. mgr., á þann hátt sem styður skilvirkt mat á hlutabréfum og hámarkar möguleika fjárfestingarfyrirtækja á að afla bestu kjara fyrir viðskiptavini sína, skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 64. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir þar sem:
a)    tilgreindar eru forsendurnar fyrir beitingu 1. og 2. mgr.,
b)    tilgreindar eru forsendur fyrir því að ákvarða hvenær verðtilboð skuli birt reglulega og samfellt og telst vera aðgengilegt, auk þeirra aðferða sem fjárfestingarfyrirtæki getur notað til að uppfylla skylduna um að birta verðtilboð sín, þ.m.t.:
    i)    í gegnum aðstöðu skipulegs markaðar sem leyft hefur viðskipti með gerninginn sem um ræðir,
    ii)    í gegnum skrifstofur þriðja aðila,
    iii)    með eigin ráðstöfunum,
c)    tilgreindar eru almennar forsendur fyrir því að ákvarða þau viðskipti þar sem viðskipti með nokkur verðbréf teljast vera hluti af sömu viðskiptum eða fyrirmæli sem eru háð öðrum skilyrðum en gildandi markaðsverði,
d)    tilgreindar eru almennar forsendur fyrir því að ákvarða hvaða aðstæður er hægt að telja sérstakar markaðsaðstæður mark sem heimila að verðtilboð séu dregin til baka, svo og skilyrði fyrir uppfærslu verðtilboða,
e)    tilgreindar eru forsendur fyrir því að ákvarða hvert umfang eðlilegra viðskipta almenns fjárfestis skuli vera,
f)    tilgreindar eru forsendur fyrir því að ákvarða hvað telst verulega umfram hið eðlilega, eins og mælt er fyrir um í 6. mgr.,
g)    tilgreindar eru forsendur fyrir því að ákvarða hvenær verð fellur innan þess verðbils sem er opinbert og liggur nálægt markaðsskilyrðum.

28. gr.
Upplýsingagjöf fjárfestingarfyrirtækja eftir að viðskipti eiga sér stað

1.     Aðildarríkin skulu a.m.k. krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki, sem stunda viðskipti annaðhvort fyrir eigin reikning eða fyrir hönd viðskiptavina, með hlutabréf sem viðskipti eru leyfð með á skipulegum markaði, utan skipulegs markaðar eða markaðstorgs, birti umfang og verð þeirra viðskipta og hvenær þau fóru fram. Þessar upplýsingar skulu birtar eins nálægt rauntíma og mögulegt er á eðlilegum viðskiptagrundvelli og á þann hátt að það sé aðgengilegt öðrum markaðsaðilum.
2.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að upplýsingarnar, sem eru birtar í samræmi við 1. mgr., og tímamörkin fyrir birtingu þeirra uppfylli kröfurnar sem samþykktar eru skv. 45. gr. Þegar kveðið er á um það í ráðstöfununum, sem samþykktar eru skv. 45. gr., að tilkynningu um tiltekna flokka viðskipta með hlutabréf skuli frestað gildir það, að breyttu breytanda, um þau viðskipti þegar þau fara fram utan skipulegra markaða eða markaðstorga.
3.     Til að tryggja gagnsæja og skipulega starfsemi markaða og samræmda beitingu 1. mgr. skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 64. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir þar sem:
a)    tilgreindar eru þær aðferðir sem fjárfestingarfyrirtæki getur notað við að uppfylla skyldur sínar skv. 1. mgr., þ.m.t.:
    i)        í gegnum aðstöðu skipulegs markaðar sem hefur leyft viðskipti með gerninginn sem um ræðir eða í gegnum aðstöðu markaðstorgs þar sem viðskipti með umræddan gerninginn fara fram,
    ii)    í gegnum skrifstofur þriðja aðila,
    iii)    með eigin ráðstöfunum,
b)    skýrt er hvernig 1. mgr. er beitt að því er varðar viðskipti sem fela í sér notkun hlutabréfa sem trygginga, lána eða í öðrum tilgangi þar sem skipti á hlutabréfum ákvarðast af öðrum þáttum en gildandi markaðsmati á hlutabréfinu.

29. gr.
Kröfur um gagnsæi á markaðstorgum áður en viðskipti eiga sér stað

1.     Aðildarríkin skulu a.m.k. krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki og markaðsrekendur, sem starfrækja markaðstorg, birti gildandi kauptilboðs- og útboðsverð og hversu mikill viðskiptaáreiðanleiki býr að baki því verði sem er auglýst í gegnum markaðskerfi þeirra að því er varðar hlutabréf sem viðskipti eru leyfð með á skipulegum markaði. Aðildarríkin skulu kveða á um að þessar upplýsingar skuli gerðar aðgengilegar almenningi samkvæmt sanngjörnum viðskiptaskilmálum og samfellt á venjulegum opnunartíma.
2.     Aðildarríkin skulu kveða á um að lögbær yfirvöld geti fellt niður þá skyldu fjárfestingarfyrirtækja eða markaðsrekenda, sem starfrækja markaðstorg, að birta upplýsingarnar sem um getur í 1. mgr., byggt á markaðslíkaninu eða tegund og umfangi fyrirmæla í þeim tilvikum sem skilgreind eru í samræmi við 3. mgr. Lögbær yfirvöld skulu einkum geta fellt niður þessa skyldu að því er varðar viðskipti sem eru umfangsmikil í samanburði við eðlilega markaðsstærð þess hlutabréfs eða tegundar hlutabréfs sem um ræðir.
3.     Til að tryggja samræmda beitingu 1. og 2. mgr. skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 64. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir varðandi:
a)    á hvaða bili kauptilboðs- og útboðsverð eða verðtilboð eru frá tilnefndum viðskiptavaka og hversu mikill viðskiptaáreiðanleiki býr að baki því verði sem gera skal opinbert,
b)    umfang eða tegund fyrirmæla þar sem fella má niður upplýsingagjöf skv. 2. mgr. áður en viðskipti eiga sér stað,
c)    markaðslíkanið, þar sem fella má niður upplýsingagjöf skv. 2. mgr. áður en viðskipti eiga sér stað og einkum hvort beita megi þessari kvöð að því er varðar viðskiptaaðferðir sem markaðstorg notar til að ljúka viðskiptum samkvæmt eigin reglum með tilvísun til verðs sem ákvarðað er utan markaðskerfa markaðstorga eða með reglulegum uppboðum.
Að efni til skulu þessar framkvæmdaráðstafanir vera jafngildar þeim framkvæmdaráðstöfunum sem kveðið er á um í 44. gr. um skipulega markaði, nema þar sem það er réttlætt með hliðsjón af sérstöku eðli markaðstorgsins.

30. gr.
Kröfur um gagnsæi á markaðstorgum eftir að viðskipti eiga sér stað

1.     Aðildarríkin skulu a.m.k. krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki og markaðsrekendur, sem starfrækja markaðstorg, birti verð, umfang og tímasetningu þeirra viðskipta sem farið hafa fram í markaðskerfum þeirra að því er varðar hlutabréf sem viðskipti eru leyfð með á skipulegum markaði. Aðildarríkin skulu krefjast þess að upplýsingar um slík viðskipti séu birtar á eðlilegum viðskiptagrundvelli og eins nálægt rauntíma og mögulegt er. Þessi krafa skal ekki gilda um upplýsingar um viðskipti sem fara fram á markaðstorgi og eru birtar samkvæmt markaðskerfum skipulegs markaðar.
2.     Aðildarríkin skulu kveða á um að lögbært yfirvald megi heimila fjárfestingarfyrirtækjum eða markaðsrekendum, sem starfrækja markaðstorg, að fresta birtingu upplýsinga um viðskipti á grundvelli tegundar þeirra eða umfangs. Lögbær yfirvöld skulu einkum heimila að fresta birtingu vegna viðskipta sem eru umfangsmikil í samanburði við eðlilega markaðsstærð að því er varðar það hlutabréf eða þann flokk hlutabréfs sem um ræðir. Aðildarríkin skulu krefjast þess að markaðstorg afli samþykkis lögbærs yfirvalds fyrir fram vegna fyrirhugaðra ráðstafana um að fresta birtingu upplýsinga um viðskipti og þess að markaðsaðilum og almennum fjárfestum sé greint á skýran hátt frá þessum ráðstöfunum.
3.     Til að koma á skilvirkri og skipulegri starfsemi fjármálamarkaða og tryggja samræmda beitingu 1. og 2. mgr. skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 64. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir varðandi:
a)    umfang og innihald upplýsinga sem birta skal almenningi,
b)    það hvaða skilyrði gilda um það hvenær fjárfestingarfyrirtæki eða markaðsrekendur, sem starfrækja markaðstorg, geta frestað birtingu upplýsinga um viðskipti og hvaða forsendum skal beitt þegar ákveðið er til hvaða viðskipta slík heimild um frestun birtingar tekur sökum umfangs viðskiptanna eða tegundar hlutabréfsins sem um ræðir.
Að efni til skulu þessar framkvæmdaráðstafanir vera jafngildar þeim framkvæmdaráðstöfunum sem kveðið er á um í 45. gr. um skipulega markaði nema þar sem það er réttlætt með hliðsjón af sérstöku eðli markaðstorgsins.

III. KAFLI
RÉTTINDI FJÁRFESTINGARFYRIRTÆKJA
31. gr.
Frelsi til að veita fjárfestingarþjónustu og stunda fjárfestingarstarfsemi

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að fjárfestingarfyrirtæki, sem hefur starfsleyfi frá og er undir eftirliti lögbærra yfirvalda annars aðildarríkis í samræmi við þessa tilskipun og að því er varðar lánastofnanir í samræmi við tilskipun 2000/12/EB, sé frjálst að stunda fjárfestingarþjónustu og/eða -starfsemi auk viðbótarþjónustu á yfirráðasvæði þeirra að því tilskildu að slík þjónusta og starfsemi falli undir starfsleyfið. Viðbótarþjónustu má einungis veita ásamt fjárfestingarþjónustu og/eða -starfsemi.
Aðildarríkin skulu ekki gera frekari kröfur til slíks fjárfestingarfyrirtækis eða lánastofnunar að því er varðar þau málefni sem þessi tilskipun tekur til.
2.     Hvert það fjárfestingarfyrirtæki, sem óskar í fyrsta sinn eftir að veita þjónustu eða stunda starfsemi á yfirráðasvæði annars aðildarríkis eða sem óskar eftir að breyta slíkri þjónustu eða starfsemi, skal koma eftirfarandi upplýsingum til lögbærra yfirvalda heimaaðildarríkisins:
a)    aðildarríkið þar sem það hyggst starfa,
b)    starfsáætlun þar sem einkum er tilgreind sú fjárfestingarþjónusta og/eða -starfsemi og sú viðbótarþjónusta sem það hyggst veita og hvort það hyggst nota fasta umboðsmenn á yfirráðasvæði aðildarríkisins þar sem það hyggst veita þjónustu.
Í tilvikum þar sem fjárfestingarfyrirtækið hyggst nota fasta umboðsmenn skal lögbært yfirvald í heimaaðildarríki fjárfestingarfyrirtækisins, að beiðni lögbærs yfirvalds gistiaðildarríkisins og innan hæfilegs tíma, greina frá því hverjir föstu umboðsmennirnir, sem fjárfestingarfyrirtækið hyggst nota í því aðildarríki, eru. Heimaaðildarríkið getur birt slíkar upplýsingar.
3.     Lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins skal, innan mánaðar frá viðtöku upplýsinganna, senda þær lögbæru yfirvaldi í gistiaðildarríkinu sem tilnefnt hefur verið sem tengiliður í samræmi við 1. mgr. 56. gr. Fjárfestingarfyrirtækið getur þá hafið veitingu fjárfestingarþjónustunnar sem um ræðir í gistiaðildarríkinu.
4.     Ef breytingar verða á upplýsingunum sem komið er á framfæri skv. 2. mgr. skal fjárfestingarfyrirtæki tilkynna þær breytingar skriflega til lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkisins a.m.k. mánuði áður en breytingin kemur til framkvæmdar. Lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins skal tilkynna lögbæru yfirvaldi gistiaðildarríkisins um þessar breytingar.
5.     Aðildarríkin skulu heimila, án frekari lagaskilyrða eða stjórnsýslufyrirmæla, fjárfestingarfyrirtækjum og markaðsrekendum, sem starfrækja markaðstorg frá öðrum aðildarríkjum, að gera viðeigandi ráðstafanir á yfirráðasvæðum sínum til að auðvelda fjarnotendum eða þátttakendum, sem hafa staðfestu á yfirráðasvæði þeirra, aðgang að og notkun á markaðskerfum þeirra.
6.     Fjárfestingarfyrirtækið eða markaðsrekandinn, sem starfrækir markaðstorg, skal tilkynna lögbæru yfirvaldi heimaaðildarríkisins í hvaða aðildarríki ætlunin er að gera slíkar ráðstafanir. Lögbært yfirvald heimaaðildarríkis markaðstorgsins skal senda þessar upplýsingar innan mánaðar til aðildarríkisins þar sem markaðstorgið ætlar að gera slíkar ráðstafanir.
Lögbært yfirvald heimaaðildarríkis markaðstorgsins skal, að beiðni lögbærs yfirvalds gistiaðildarríkis markaðstorgsins og innan hæfilegs tíma, greina frá því hverjir aðilar eða þátttakendur markaðstorgsins, sem hafa staðfestu í því aðildarríki, eru.

32. gr.
Stofnun útibús

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að veita megi fjárfestingarþjónustu og/eða stunda fjárfestingarstarfsemi, auk viðbótarþjónustu, á yfirráðasvæðum þeirra í samræmi við þessa tilskipun og tilskipun 2000/12/EB með stofnun útibús að því tilskildu að sú þjónusta eða starfsemi falli undir starfsleyfið sem fjárfestingarfyrirtækinu eða lánastofnuninni var veitt í heimaaðildarríkinu. Viðbótarþjónustu má einungis veita ásamt fjárfestingarþjónustu og/eða .starfsemi. Aðildarríkin skulu ekki gera frekari kröfur, aðrar en þær sem heimilar eru skv. 7. mgr., um skipulag og starfrækslu útibúsins að því er varðar þau málefni sem þessi tilskipun tekur til.
2.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki, sem óskar eftir að stofna útibú á yfirráðasvæði annars aðildarríkis, tilkynni það fyrst lögbæru yfirvaldi heimaaðildarríkis síns og veiti því eftirfarandi upplýsingar:
a)    á yfirráðasvæði hvaða aðildarríkja það hyggst stofna útibú,
b)    starfsáætlun þar sem fram kemur m.a. fjárfestingarþjónustan og/eða -starfsemin, auk viðbótarþjónustunnar, sem boðin verður og stjórnskipulag útibúsins og hvort útibúið hyggst nota fasta umboðsmenn,
c)    heimilisfang í gistiaðildarríkinu þar sem skjöl eru látin í té,
d)    nöfn þeirra sem bera ábyrgð á stjórn útibúsins.
Í tilvikum þar sem fjárfestingarfyrirtæki notar fastan umboðsmann, sem hefur staðfestu í aðildarríki utan heimaaðildarríkis, skulu slíkir fastir umboðsmenn gegna jafnri stöðu á við útibúið og lúta þeim ákvæðum þessarar tilskipunar sem varða útibú.
3.     Ef lögbært yfirvald í heimaaðildarríki hefur ekki ástæðu til að efast um að stjórnskipulag eða fjárhagsstaða fjárfestingarfyrirtækis sé fullnægjandi, með tilliti til þeirrar starfsemi sem fyrirhuguð er, skal það, innan þriggja mánaða frá viðtöku upplýsinganna, tilkynna lögbæru yfirvaldi í gistiaðildarríkinu, sem hefur verið tilnefnt sem tengiliður í samræmi við 1. mgr. 56. gr., um þær og láta hlutaðeigandi fjárfestingarfyrirtæki vita.
4.     Til viðbótar við upplýsingarnar, sem um getur í 2. mgr., skal lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins senda upplýsingar um viðurkennda tryggingakerfið [bótakerfið] sem fjárfestingarfyrirtækið tilheyrir í samræmi við tilskipun 97/9/EB til lögbærs yfirvalds gistiaðildarríkisins. Ef breytingar verða á upplýsingunum skal lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins tilkynna það lögbæru yfirvaldi gistiaðildarríkisins.
5.     Neiti lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins að veita lögbæru yfirvaldi gistiaðildarríkisins upplýsingarnar ber því að greina hlutaðeigandi fjárfestingarfyrirtæki frá ástæðum fyrir synjuninni innan þriggja mánaða frá því að þeim hafa borist allar upplýsingar.
6.     Þegar tilkynning berst frá lögbæru yfirvaldi gistiaðildarríkisins, eða slík tilkynning berst ekki frá því innan tveggja mánaða frá því að lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins sendi tilkynninguna, er heimilt að stofna útibúið og hefja starfsemi.
7.     Lögbært yfirvald aðildarríkisins þar sem útibúið er staðsett skal taka ábyrgð á því að tryggja að þjónustan, sem útibúið veitir á yfirráðasvæði þess, sé í samræmi við þær kröfur sem kveðið er á um í 19., 21., 22., 25., 27. og 28. gr. og í þeim ráðstöfunum sem eru samþykktar samkvæmt þeim.
Lögbært yfirvald aðildarríkisins þar sem útibúið er staðsett skal eiga rétt á því að kanna ráðstafanir útibúsins og óska eftir breytingum sem nauðsynlegar eru til að gera lögbæra yfirvaldinu kleift að uppfylla kröfur skv. 19., 21., 22., 25., 27. og 28. gr. og ráðstöfunum sem samþykktar eru í kjölfar þeirra varðandi þjónustuna og/eða starfsemina sem útibúið veitir eða stundar innan yfirráðasvæðis þess.
8.     Sérhvert aðildarríki skal kveða á um að þar sem að fjárfestingarfyrirtæki, sem hefur starfsleyfi í öðru aðildarríki, hefur stofnað útibú á yfirráðasvæði þess geti lögbært yfirvald heimaaðildarríkis fjárfestingarfyrirtækisins, í samræmi við ábyrgð sína og eftir að hafa tilkynnt lögbæru yfirvaldi gistiaðildarríkisins um það, annast vettvangsskoðun í útibúinu.
9.     Ef breytingar verða á upplýsingunum, sem gefnar eru skv. 2. mgr., skal fjárfestingarfyrirtæki tilkynna þær breytingar skriflega til lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkisins a.m.k. mánuði áður en breytingin kemur til framkvæmdar. Lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins skal einnig tilkynna lögbæru yfirvaldi gistiaðildarríkisins um þessa breytingu.

33. gr.
Aðgengi að skipulegum mörkuðum

1.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki frá öðrum aðildarríkjum, sem hafa leyfi til að framfylgja fyrirmælum viðskiptavina eða stunda viðskipti fyrir eigin reikning, hafi rétt til aðildar eða aðgangs að skipulegum mörkuðum sem hafa staðfestu á yfirráðasvæði þeirra á grundvelli einhvers af eftirfarandi:
a)    beint með því að stofna útibú í gistiaðildarríkjunum,
b)    með því að gerast fjaraðilar að eða hafa fjaraðgang að skipulega markaðinum án þess að þurfa að hafa staðfestu í heimaaðildarríki skipulega markaðarins ef ekki er gerð krafa um nærveru þeirra til að stunda viðskipti á honum í viðskiptareglum eða markaðskerfum hlutaðeigandi markaðar.
2.     Aðildarríkin skulu ekki setja frekari lagaskilyrði eða stjórnsýslufyrirmæli um fjárfestingarfyrirtæki sem neyta réttarins sem veittur er í 1. mgr. að því er varðar þau málefni sem þessi tilskipun tekur til.

34. gr.
Aðgangur að milligönguaðila, greiðslujöfnunar- og uppgjörsaðstöðu og réttur til að tilgreina uppgjörskerfi

1.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki frá öðrum aðildarríkjum hafi rétt til aðgangs að milligönguaðila, greiðslujöfnunar- og uppgjörsaðstöðu á yfirráðasvæði þeirra til að ljúka eða koma í kring lokum viðskipta með fjármálagerninga. Aðildarríkin skulu krefjast þess að aðgangur þessara fjárfestingarfyrirtækja að slíkri aðstöðu sé háður sömu gagnsæju og hlutlægu forsendunum sem eru án mismununar og gilda um þátttakendur á þessu svæði. Aðildarríkin skulu ekki takmarka notkun þessarar aðstöðu við greiðslujöfnun og uppgjör viðskipta með fjármálagerninga sem fara fram á skipulegum markaði eða markaðstorgi á yfirráðasvæði þeirra.
2.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að á skipulegum mörkuðum á yfirráðasvæði þeirra sé öllum aðilum eða þátttakendum boðinn réttur til að tilgreina kerfi til uppgjörs viðskipta með fjármálagerninga sem fram fara á þeim skipulega markaði með fyrirvara um:
a)    þau tengsl og ráðstafanir á milli tilgreinda uppgjörskerfisins og annars kerfis eða aðstöðu sem nauðsynleg eru til að tryggja skilvirkt og hagkvæmt uppgjör viðskiptanna sem um ræðir og
b)    að lögbæra yfirvaldið, sem ber ábyrgð á eftirliti með skipulega markaðinum, hafi samþykkt að tæknileg skilyrði uppgjörs viðskipta, sem fram fara á skipulega markaðinum í gegnum annað uppgjörskerfi en það sem tiltekið er af honum, séu þannig að þau geri snuðrulausa og skipulega starfsemi fjármálamarkaða mögulega.
Þetta mat hins lögbæra yfirvalds skipulega markaðarins skal vera með fyrirvara um valdsvið seðlabanka til að hafa umsjón með uppgjörskerfum eða öðrum eftirlitsyfirvöldum slíkra kerfa. Lögbært yfirvald skal taka tillit til þeirrar umsjónar/eftirlits sem þessar stofnanir annast svo að forðast megi óþarfa tvíverknað við eftirlit.
3.     Réttindi fjárfestingarfyrirtækja skv. 1. og 2. mgr. skulu vera með fyrirvara um réttindi rekenda kerfa fyrir milligönguaðila, til greiðslujöfnunar eða verðbréfauppgjörs til að synja á lögmætum viðskiptagrundvelli um að umbeðin þjónusta sé gerð tiltæk.

35. gr.
Ákvæði um fyrirkomulag milligönguaðila, greiðslujöfnunar- og uppgjörsfyrirkomulag að því er varðar markaðstorg

1.     Aðildarríkin skulu ekki hindra fjárfestingarfyrirtæki og markaðsrekendur, sem starfrækja markaðstorg, í því að koma á viðeigandi fyrirkomulagi með milligönguaðila eða greiðslujöfnunarstöð og uppgjörskerfi í öðru aðildarríki í því skyni að greiðslujafna og/eða gera upp sum eða öll viðskipti sem markaðsaðilar í þeirra kerfum ganga frá.
2.     Lögbært yfirvald fjárfestingarfyrirtækja og markaðsrekenda, sem starfrækja markaðstorg, má ekki standa gegn notkun milligönguaðila, greiðslujöfnunarstöðva og/eða uppgjörskerfa í öðru aðildarríki nema hægt sé að sýna fram á að það sé nauðsynlegt til að viðhalda skipulegri starfsemi þess markaðstorgs og að teknu tilliti til skilyrða um uppgjörskerfi sem komið er á í 2. mgr. 34. gr.
Til að forðast óþarfa tvíverknað við eftirlit skal lögbært yfirvald taka tillit til umsjónar/eftirlits með greiðslujöfnunarstöðvum og uppgjörskerfum sem þegar fer fram af hálfu seðlabanka sem eftirlitsaðila með greiðslujöfnunar- og uppgjörskerfum eða öðrum eftirlitsyfirvöldum sem hafa valdheimildir í slíkum kerfum.

III. BÁLKUR
SKIPULEGIR MARKAÐIR
36. gr.
Starfsleyfi og gildandi lög

1.     Aðildarríkin skulu áskilja sér rétt til að veita aðeins þeim markaðskerfum sem uppfylla ákvæði þessa bálks starfsleyfi sem skipulegur markaður.
Einungis skal veita starfsleyfi fyrir skipulegan markað þegar lögbært yfirvald hefur fullvissað sig um að bæði markaðsrekandi og markaðskerfi skipulega markaðarins uppfylli a.m.k kröfurnar sem mælt er fyrir um í þessum bálki.
Ef um er að ræða skipulegan markað, sem er lögaðili og er stjórnað eða rekinn af markaðsrekanda öðrum en markaðinum sjálfum, skulu aðildarríkin kveða á um hvernig þeim mismunandi skyldum, sem lagðar eru á markaðsrekandann samkvæmt þessari tilskipun, skuli skipt á milli skipulega markaðarins og markaðsrekandans.
Sá aðili, sem rekur skipulegan markað, skal veita allar upplýsingar, þ.m.t. starfsáætlun þar sem fram kemur m.a. hvers konar rekstur er fyrirhugaður og stjórnskipulag, sem nauðsynlegar eru til að gera lögbæru yfirvaldi kleift að færa sönnur á að skipulegi markaðurinn hafi, þegar upphaflegt starfsleyfi var veitt, gert allar nauðsynlegar ráðstafanir til að uppfylla skyldur sínar samkvæmt ákvæðum þessa bálks.
2.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að sá sem rekur skipulegan markað inni af hendi verk sem tengjast skipulagi og starfrækslu skipulega markaðarins undir eftirliti lögbæra yfirvaldsins. Aðildarríkin skulu tryggja að lögbær yfirvöld endurskoði reglulega hvort skipulegir markaðir uppfylli ákvæði þessa bálks. Þau skulu einnig tryggja að lögbær yfirvöld hafi eftirlit með því að skipulegir markaðir uppfylli ávallt skilyrðin fyrir upphaflegri starfsleyfisveitingu sem sett eru í þessum bálki.
3.     Aðildarríkin skulu sjá til þess að markaðsrekandinn beri ábyrgð á því að tryggja að skipulegi markaðurinn, sem hann stjórnar, uppfylli allar kröfur í þessum bálki. Aðildarríkin skulu einnig tryggja að markaðsrekandinn hafi rétt á því að neyta þeirra réttinda sem eiga við um skipulega markaðinn sem hann stjórnar samkvæmt þessari tilskipun.
4.     Með fyrirvara um viðeigandi ákvæði í tilskipun 2003/6/EB skal opinber réttur um viðskipti, sem fara fram samkvæmt markaðskerfum skipulega markaðarins, vera hinn sami og í heimaaðildarríki skipulega markaðarins.
5.     Lögbæru yfirvaldi er heimilt að afturkalla starfsleyfi, sem veitt hefur verið skipulegum markaði, ef:
a)    hann nýtir ekki starfsleyfið innan 12 mánaða, afsalar sér starfsleyfinu sérstaklega eða hefur ekki starfað næstliðna sex mánuði, nema hlutaðeigandi aðildarríki hafi kveðið á um að starfsleyfi falli úr gildi í slíkum tilvikum,
b)    hann hefur fengið starfsleyfi með því að gefa rangar yfirlýsingar eða á annan ólögmætan hátt,
c)    hann uppfyllir ekki lengur skilyrðin fyrir starfsleyfisveitingu,
d)    hann hefur brotið alvarlega og ítrekað gegn ákvæðum sem samþykkt hafa verið samkvæmt þessari tilskipun,
e)    hann fellur undir ákvæði í landslögum um afturköllun starfsleyfis.

37. gr.
Kröfur varðandi stjórnun skipulegs markaðar

1.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að þeir aðilar sem í reynd stjórna viðskiptum og rekstri skipulegs markaðar hafi gott mannorð og næga reynslu til að tryggja trausta og varfærna stjórnun og starfrækslu skipulega markaðarins. Aðildarríkin skulu einnig krefjast þess að sá sem rekur skipulegan markað tilkynni lögbæru yfirvaldi um hverjir aðilarnir, sem í reynd stjórna viðskiptum og starfrækslu skipulega markaðarins, eru og um allar breytingar á þeim aðilum.
Lögbært yfirvald skal neita að samþykkja fyrirhugaðar breytingar þegar hlutlægar og sannanlegar ástæður eru til að ætla að þær geti ógnað traustri og varfærinni stjórnun og starfrækslu skipulega markaðarins.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja við veitingu starfsleyfis til skipulegs markaðar að aðilinn eða aðilarnir, sem í reynd stjórna og annast rekstur skipulegs markaðar sem hefur þegar starfsleyfi í samræmi við skilyrði þessarar tilskipunar, teljist uppfylla kröfurnar sem mælt er fyrir um í 1. mgr.

38. gr.
Kröfur varðandi aðila sem hafa umtalsverð áhrif á stjórnun skipulegs markaðar

1.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að aðilar sem geta haft umtalsverð, bein eða óbein, áhrif á stjórnun skipulegs markaðar séu hæfir í því tilliti.
2.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að sá sem rekur skipulegan markað:
a)    veiti lögbæra yfirvaldinu, og birti, upplýsingar um eignarhald á skipulega markaðinum og/eða markaðsrekandanum og einkum um deili á þeim aðilum sem eru í aðstöðu til að hafa umtalsverð áhrif á stjórnun og um það hversu víðtækir hagsmunir þeirra eru,
b)    tilkynni lögbæra yfirvaldinu um og birti tilfærslu á eignarhaldi sem leiðir til breytingar á því hvaða aðilar hafa umtalsverð áhrif á starfrækslu skipulegs markaðar.
3.     Lögbært yfirvald skal neita að samþykkja fyrirhugaðar breytingar á ráðandi hlut í skipulega markaðinum og/eða markaðsrekandanum þegar hlutlægar og sannanlegar ástæður eru til að ætla að þær geti ógnað traustri og varfærinni stjórnun og starfrækslu skipulega markaðarins.

39. gr.
Skipulagskröfur

Aðildarríkin skulu krefjast þess að:
a)    á skipulegum markaði séu gerðar ráðstafanir til að greina og hafa stjórn á hugsanlegum neikvæðum afleiðingum á starfsemi skipulega markaðarins eða þátttakendur hans af árekstrum milli hagsmuna skipulega markaðarins, eigenda hans eða rekanda og traustrar starfsemi skipulega markaðarins, einkum þar sem slíkir hagsmunaárekstrar gætu skaðað þau hlutverk sem lögbæra yfirvaldið hefur falið skipulega markaðinum að sinna,
b)    skipulegi markaðurinn sé nægilega vel í stakk búinn til að stýra þeirri áhættu sem að honum snýr, koma á viðeigandi ráðstöfunum og kerfum til að greina alla verulega áhættu fyrir rekstur hans og koma á skilvirkum ráðstöfunum til að draga úr þessari áhættu,
c)    á skipulegum markaði séu fyrir hendi ráðstafanir til traustrar stjórnunar á tæknilegum rekstri markaðskerfisins, þ.m.t. að komið sé á skilvirkri viðbúnaðaráætlun til að fást við hættuna á kerfisröskunum,
d)    á skipulegum markaði séu gagnsæjar og ófrávíkjanlegar reglur og málsmeðferð um sanngjörn og skipuleg viðskipti og að komið sé á hlutlægum forsendum varðandi skilvirka framfylgd fyrirmæla,
e)    á skipulegum markaði séu fyrir hendi skilvirkar ráðstafanir til að auðvelda skilvirk og tímanleg lok viðskipta sem eiga sér stað í markaðskerfum hans,
f)    á skipulegum markaði sé til staðar nægilegt fjármagn, á þeim tíma sem starfsleyfi er veitt og þaðan í frá, til að greiða fyrir skipulegri starfsemi, að teknu tilliti til eðlis og umfangs viðskiptanna sem fram fara á markaðinum og þess hvers eðlis og hversu mikil áhættan er á markaðinum.

40. gr.
Viðskipti með fjármálagerninga leyfð

1.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að skipulegir markaðir setji skýrar og gagnsæjar reglur varðandi það að leyfa viðskipti með fjármálagerninga.
Þessar reglur skulu tryggja að hægt sé að stunda viðskipti með fjármálagerninga, sem viðskipti eru leyfð með á skipulegum markaði, á sanngjarnan, skipulegan og skilvirkan hátt og án takmarkana þegar um framseljanleg verðbréf er að ræða.
2.     Þegar um er að ræða afleiður skulu reglurnar einkum tryggja að við gerð afleiðusamningsins sé gert ráð fyrir réttri verðmyndun og skilvirkum skilyrðum varðandi uppgjör.
3.     Til viðbótar við þær kvaðir sem settar eru fram í 1. og 2. mgr. skulu aðildarríkin krefjast þess að skipulegi markaðurinn komi á og viðhaldi skilvirkum ráðstöfunum til að staðfesta að útgefendur framseljanlegra verðbréfa, sem viðskipti eru leyfð með á skipulegum markaði, uppfylli skyldur sínar í samræmi við lög Bandalagsins að því er varðar upphaflega, viðvarandi eða sérstaka upplýsingaskyldu. Aðildarríkin skulu tryggja að skipulegi markaðurinn geri ráðstafanir til að auðvelda aðilum hans eða þátttakendum að afla upplýsinga sem birtar hafa verið samkvæmt lögum Bandalagsins.
4.     Aðildarríkin skulu tryggja að skipulegir markaðir hafi komið á nauðsynlegum ráðstöfunum til að endurskoða reglulega hvort fjármálagerningar, sem þeir leyfa viðskipti með, uppfylli kröfur þar að lútandi.
5.     Framseljanlegt verðbréf, sem viðskipti eru leyfð með á skipulegum markaði, er síðar hægt að skrá á annan skipulegan markað jafnvel án samþykkis útgefanda og í samræmi við viðeigandi ákvæði tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB frá 4. nóvember 2003 um útboðslýsingu sem birta skal við almennt útboð verðbréfa eða þegar þau eru tekin til skráningar og um breytingu á tilskipun 2001/34/EB ( 23 ). Skipulegur markaður skal tilkynna útgefanda um það að viðskipti fari fram með verðbréf hans á þeim markaði.Útgefandi skal ekki bundinn þeirri kvöð að veita upplýsingar, sem krafist er skv. 3. mgr., beint til skipulegs markaðar sem leyfir viðskipti með verðbréf útgefandans án samþykkis hans.
6.     Til að tryggja samræmda beitingu 1..5. mgr. skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 64. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir þar sem:
a)    tilgreind eru einkenni mismunandi flokka gerninga sem skipulegur markaður skal taka tillit til við mat á því hvort gerningur er gefinn út á þann hátt að samrýmist skilyrðunum, sem mælt er fyrir um í annarri undirgrein 1. mgr., um að leyfa viðskipti inn á ýmsa hluta markaðarins sem hann starfrækir,
b)    skýrðar eru þær ráðstafanir sem skipulegi markaðurinn þarf að taka upp til að hann teljist hafa uppfyllt þá skyldu sína að staðfesta að útgefandi framseljanlegs verðbréfs uppfylli sínar skyldur í samræmi við lög Bandalagsins að því er varðar upphaflega, viðvarandi eða sérstaka upplýsingaskyldu,
c)    skýrðar eru þær ráðstafanir sem skipulegi markaðurinn þarf að taka upp í samræmi við 3. mgr. til að auðvelda aðilum að honum eða þátttakendum að afla sér aðgangs að upplýsingum sem birtar hafa verið samkvæmt skilyrðum sem mælt er fyrir um í lögum Bandalagsins.

41. gr.
Tímabundin niðurfelling og afturköllun skráningar gerninga

1.     Með fyrirvara um rétt lögbærs yfirvalds skv. j- og k-lið 2. mgr. 50. gr. til að krefjast tímabundinnar niðurfellingar eða afturköllunar á skráningu gernings getur sá sem rekur skipulegan markað fellt tímabundið niður eða afturkallað skráningu fjármálagernings sem uppfyllir ekki lengur reglur skipulega markaðarins, nema slík aðgerð væri líkleg til að valda verulegu tjóni á hagsmunum fjárfestanna eða skipulegri starfsemi markaðarins.
Þrátt fyrir þann möguleika að þeir sem reka skipulega markaði tilkynni aðilum sem reka aðra skipulega markaði það beint skulu aðildarríkin krefjast þess að sá sem rekur skipulegan markað, sem fellir tímabundið niður eða afturkallar skráningu fjármálagernings, tilkynni þá ákvörðun og miðli viðeigandi upplýsingum til lögbærs yfirvalds. Lögbæra yfirvaldið skal veita lögbærum yfirvöldum hinna aðildarríkjanna upplýsingar.
2.     Lögbært yfirvald, sem krefst tímabundinnar niðurfellingar eða afturköllunar á skráningu fjármálagernings á einum eða fleirum skipulegum mörkuðum, skal þegar í stað birta ákvörðun sína og veita lögbærum yfirvöldum hinna aðildarríkjanna upplýsingar um það. Lögbær yfirvöld hinna aðildarríkjanna skulu krefjast tímabundinnar niðurfellingar eða afturköllunar á skráningu fjármálagerningsins á skipulegum mörkuðum og markaðstorgum sem starfa undir yfirráðum þeirra, nema ef það kynni að skaða að verulegu leyti hagsmuni fjárfestanna eða skipulega starfsemi markaðarins.

42. gr.
Aðgangur að skipulegum markaði

1.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að skipulegur markaður komi á og viðhaldi gagnsæjum reglum sem mismuna ekki og byggðar eru á hlutlægum forsendum sem stjórna aðgangi eða aðild að skipulega markaðinum.
2.     Í þessum reglum skal tilgreina allar skyldur aðila eða þátttakenda sem uppfylla skal á grundvelli:
a)    skipulags eða stjórnunar skipulega markaðarins,
b)    reglna um viðskipti á markaðinum,
c)    starfsreglna starfsfólks fjárfestingarfyrirtækja eða lánastofnana sem starfa á markaðinum,
d)    þeirra skilyrða sem sett eru gagnvart aðilum eða þátttakendum öðrum en fjárfestingarfyrirtækjum og lánastofnunum skv. 3. mgr.,
e)    reglna og málsmeðferðar varðandi greiðslujöfnun og uppgjör viðskipta sem fram fara á skipulega markaðinum.
3.     Skipulegir markaðir geta samþykkt sem aðila eða þátttakendur fjárfestingarfyrirtæki, lánastofnanir sem hafa starfsleyfi samkvæmt tilskipun 2000/12/EB og aðra aðila sem:
a)    eru hæfir og viðeigandi,
b)    hafa nægilega getu og heimildir til viðskipta,
c)    eru með fullnægjandi skipulagsráðstafanir, þar sem við á,
d)    hafa undir höndum nægilegt fjármagn til að sinna því hlutverki sem þeim er ætlað, að teknu tilliti til þeirra mismunandi fjárhagsráðstafana sem skipulegi markaðurinn kann að hafa komið á til að tryggja fullnægjandi uppgjör viðskipta.
4.     Aðildarríkin skulu tryggja að aðilum og þátttakendum beri ekki skylda til að leggja þær kvaðir, sem mælt er fyrir um í 19., 21. og 22. gr., hver á annan vegna viðskipta sem fara fram á skipulegum markaði. Aðilar eða þátttakendur skipulegs markaðar skulu þó leggja þær kvaðir, sem kveðið er á um í 19., 21., og 22. gr., á viðskiptavini sína þegar þeir framfylgja fyrirmælum þeirra fyrir þeirra hönd á skipulegum markaði.
5.     Aðildarríkin skulu tryggja að reglur um aðgang eða aðild að skipulega markaðinum kveði á um beina þátttöku eða fjarþátttöku fjárfestingarfyrirtækja og lánastofnana.
6.     Aðildarríkin skulu heimila skipulegum mörkuðum frá öðrum aðildarríkjum að gera viðeigandi ráðstafanir á yfirráðasvæðum þeirra til að auðvelda fjaraðilum eða þátttakendum sem hafa staðfestu á yfirráðasvæði þeirra aðgang að og að gera viðskipti á þeim mörkuðum án frekari lagakrafna eða stjórnsýslufyrirmæla.
Skipulegi markaðurinn skal tilkynna lögbæru yfirvaldi heimaaðildarríkisins í hvaða aðildarríki ætlunin er að gera slíkar ráðstafanir. Lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins skal senda þessar upplýsingar innan mánaðar til aðildarríkisins þar sem skipulegi markaðurinn ætlar að gera slíkar ráðstafanir.
Lögbært yfirvald heimaaðildarríkis skipulega markaðarins skal að beiðni lögbærs yfirvalds gistiaðildarríkisins og innan hæfilegs tíma greina frá því hverjir aðilar eða þátttakendur skipulega markaðarins, sem hefur staðfestu í því aðildarríki, eru.
7.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að sá sem rekur skipulegan markað sendi lögbæru yfirvaldi skipulega markaðarins reglulega skrá yfir aðila og þátttakendur á skipulega markaðinum.

43. gr.
Eftirlit með því að reglur skipulegs markaðar og aðrar lagaskyldur séu uppfylltar

1.     Aðildarríkin skulu krefjast þess að skipulegir markaðir komi á og viðhaldi skilvirkum ráðstöfunum og málsmeðferð vegna reglulegs eftirlits með því að aðilar þeirra eða þátttakendur fari að reglum þeirra. Skipulegir markaðir skulu hafa eftirlit með þeim viðskiptum sem aðilar þeirra eða þátttakendur stofna til í markaðskerfum þeirra til að greina brot á reglunum, ótilhlýðilegar viðskiptaaðstæður eða hegðun sem kann að fela í sér markaðssvik.
2.     Aðildarríkin skulu gera kröfu um að þeir sem reka skipulega markaði tilkynni lögbærum yfirvöldum markaðarins um umtalsverð brot á reglum hans eða ótilhlýðilegar viðskiptaaðstæður eða hegðun sem kann að fela í sér markaðssvik. Aðildarríkin skulu einnig gera kröfu um að sá sem rekur skipulegan markað veiti lögbæru yfirvaldi tafarlaust viðeigandi upplýsingar vegna rannsóknar á eða lögsóknar fyrir markaðssvik á skipulega markaðinum og að hann veiti því fulla aðstoð við rannsókn og lögsókn markaðssvika sem eiga sér stað á skipulega markaðinum eða í gegnum markaðskerfi hans.

44. gr.
Kröfur um gagnsæi á skipulegum mörkuðum áður en viðskipti eiga sér stað

1.     Aðildarríkin skulu a.m.k. krefjast þess að skipulegir markaðir birti gildandi kauptilboðs- og útboðsverð og hversu mikill viðskiptaáreiðanleiki býr að baki því verði sem er auglýst í gegnum markaðskerfi þeirra að því er varðar hlutabréf sem viðskipti eru leyfð með. Aðildarríkin skulu krefjast þess að þessar upplýsingar séu gerðar aðgengilegar almenningi samkvæmt sanngjörnum viðskiptaskilmálum og samfellt á venjulegum opnunartíma.
Skipulegir markaðir geta veitt fjárfestingarfyrirtækjum, sem ber skylda til að birta verðtilboð sín í hlutabréf skv. 27. gr., aðgang, með sanngjörnum viðskiptaskilmálum og án mismununar, að þeim ráðstöfunum sem þeir beita til að birta upplýsingar samkvæmt fyrstu undirgrein.
2.     Aðildarríkin skulu kveða á um að lögbær yfirvöld geti fellt niður þá skyldu skipulegra markaða að birta upplýsingarnar sem um getur í 1. mgr., byggt á markaðslíkaninu eða tegund og umfangi fyrirmæla í þeim tilvikum sem skilgreind eru í samræmi við 3. mgr. Lögbær yfirvöld skulu einkum geta fellt niður þá skyldu að því er varðar viðskipti sem eru umfangsmikil í samanburði við eðlilega markaðsstærð þess hlutabréfs eða tegundar hlutabréfs sem um ræðir.
3.     Til að tryggja samræmda beitingu 1. og 2. mgr. skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 64. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir varðandi:
a)    á hvaða bili kauptilboðs- eða útboðsverð eða verðtilboð eru frá tilnefndum viðskiptavaka og hversu mikill viðskiptaáreiðanleiki býr að baki því verði sem gera skal opinbert,
b)    umfang eða tegund fyrirmæla þar sem fella má niður upplýsingagjöf skv. 2. mgr. áður en viðskipti eiga sér stað,
c)    markaðslíkanið þar sem fella má niður upplýsingagjöf skv. 2. mgr. áður en viðskipti eiga sér stað og einkum hvort beita megi þessari kvöð að því er varðar viðskiptaaðferðir sem skipulegir markaðir nota til að ljúka viðskiptum samkvæmt eigin reglum með tilvísun til verðs sem ákvarðað er utan skipulega markaðarins eða með reglulegum uppboðum.

45. gr.
Kröfur um gagnsæi á skipulegum mörkuðum eftir að viðskipti eiga sér stað

1.     Aðildarríkin skulu a.m.k. krefjast þess að skipulegir markaðir birti verð, umfang og tímasetningu viðskipta sem farið hafa fram að því er varðar hlutabréf sem viðskipti eru leyfð með. Aðildarríkin skulu krefjast þess að upplýsingar um slík viðskipti séu birtar á eðlilegum viðskiptagrundvelli og eins nálægt rauntíma og mögulegt er.
Skipulegir markaðir geta veitt fjárfestingarfyrirtækjum, sem ber skylda til að birta upplýsingar um viðskipti sín með hlutabréf í samræmi við 28. gr., aðgang, með sanngjörnum viðskiptaskilmálum og án mismununar, að þeim ráðstöfunum sem þeir nota til að birta upplýsingar samkvæmt fyrstu undirgrein.
2.     Aðildarríkin skulu kveða á um að lögbært yfirvald geti heimilað skipulegum mörkuðum að fresta birtingu upplýsinga um viðskipti á grundvelli tegundar þeirra eða umfangs. Lögbær yfirvöld skulu einkum heimila að fresta birtingu vegna viðskipta sem eru umfangsmikil í samanburði við eðlilega markaðsstærð að því er varðar það hlutabréf eða þann flokk hlutabréfs sem um ræðir. Aðildarríkin skulu krefjast þess að skipulegir markaðir afli samþykkis lögbærs yfirvalds fyrir fram vegna fyrirhugaðra ráðstafana um að fresta birtingu upplýsinga um viðskipti og þess að markaðsaðilum og almennum fjárfestum sé greint á skýran hátt frá þessum ráðstöfunum.
3.     Til að koma á skilvirkri og skipulegri starfsemi fjármálamarkaða og tryggja samræmda beitingu 1. og 2. mgr. skal framkvæmdastjórnin, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 64. gr., samþykkja framkvæmdarráðstafanir varðandi:
a)    umfang og innihald upplýsinga sem birta skal almenningi,
b)    það hvaða skilyrði gilda um það hvenær skipulegur markaður getur frestað birtingu upplýsinga um viðskipti og hvaða forsendum skal beitt þegar ákveðið er til hvaða viðskipta slík heimild um frestun tekur sökum umfangs viðskiptanna eða tegundar hlutabréfsins sem um ræðir.

46. gr.
Ákvæði um ráðstafanir vegna milligönguaðila og greiðslujöfnunar og uppgjörs

1.     Aðildarríkin skulu ekki hindra skipulega markaði í því að gera viðeigandi ráðstafanir vegna milligönguaðila eða greiðslujöfnunarstöðvar og uppgjörskerfis í öðru aðildarríki í því skyni að greiðslujafna og/eða gera upp sum eða öll viðskipti sem markaðsaðilar í þeirra kerfum ganga frá.
2.     Lögbært yfirvald skipulegs markaðar má ekki standa gegn notkun milligönguaðila, greiðslujöfnunarstöðva og/eða uppgjörskerfa í öðru aðildarríki nema hægt sé að sýna fram á að það sé nauðsynlegt til að viðhalda skipulegri starfsemi þess skipulega markaðar og að teknu tilliti til skilyrða um uppgjörskerfi sem komið er á í 2. mgr. 34. gr.
Til að forðast óþarfa tvíverknað við eftirlit skal lögbært yfirvald taka tillit til umsjónar/eftirlits með greiðslujöfnunarstöðvum og uppgjörskerfum sem þegar fer fram af hálfu seðlabanka sem eftirlitsaðila með greiðslujöfnunar- og uppgjörskerfum eða öðrum eftirlitsyfirvöldum með valdheimildir í slíkum kerfum.

47. gr.
Skrá yfir skipulega markaði

Sérhvert aðildarríki skal gera skrá yfir þá skipulegu markaði sem það er heimaaðildarríki fyrir og senda þá skrá til hinna aðildarríkjanna og framkvæmdastjórnarinnar. Senda skal sambærilega tilkynningu vegna allra breytinga á þessari skrá. Framkvæmdastjórnin skal birta skrá yfir alla skipulega markaði í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins og uppfæra hana a.m.k. einu sinni á ári. Framkvæmdastjórnin skal einnig birta skrána á vefsetri sínu og uppfæra í hvert sinn sem aðildarríki tilkynnir breytingar á skrám sínum.

IV. BÁLKUR
LÖGBÆR YFIRVÖLD
I. KAFLI
TILNEFNING, VALDHEIMILDIR OG MÁLSMEÐFERÐ VIÐ LAUSN DEILUMÁLA
48. gr.
Lögbær yfirvöld

1.     Sérhvert aðildarríki skal tilnefna lögbær yfirvöld sem sinna þeim skyldum sem kveðið er á um í ákvæðum þessarar tilskipunar. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni og lögbærum yfirvöldum hinna aðildarríkjanna hvaða lögbæru yfirvöld það eru sem bera ábyrgð á að sinna þessum skyldum og hvernig þær skiptast milli þeirra.
2.     Lögbæru yfirvöldin, sem um getur í 1. mgr., skulu vera opinber yfirvöld með fyrirvara um möguleikann á því að úthluta verkefnum til annarra eininga þegar kveðið er skýrt á um það í 5. gr. (5. mgr.), 16. gr. (3. mgr.), 17. gr. (2. mgr.) og 23. gr. (4. mgr.)
Úthlutun verkefna til annarra eininga en yfirvaldanna, sem um getur í 1. mgr., má ekki fela í sér beitingu almannavalds eða heimildar til að taka ákvörðun sem byggist á mati. Aðildarríkin skulu krefjast þess að lögbær yfirvöld geri allar eðlilegar ráðstafanir fyrir úthlutun til að tryggja að einingin, sem úthlutað er verkefnum, hafi getu og tilföng til að framkvæma á skilvirkan hátt öll verkefni og að úthlutun eigi sér ekki stað nema komið hafi verið á skýrum og skjalfestum ramma um framkvæmd úthlutaðra verkefna þar sem verkefnin, sem framkvæma skal, eru tiltekin og með hvaða skilyrðum þau skuli framkvæmd. Þessi skilyrði skulu fela í sér ákvæði sem skyldar umrædda einingu til að haga starfsemi sinni og skipulagningu þannig að ekki komi til hagsmunaárekstra og að upplýsingar, sem fást þegar verið er að sinna verkefnunum, sem úthlutað var, séu ekki notaðar á óréttmætan hátt eða til að hindra samkeppni. Í öllum tilvikum hvílir endanleg ábyrgð á eftirliti með að samræmis sé gætt við þessa tilskipun og framkvæmdarráðstafanir hennar á lögbæru yfirvaldi eða yfirvöldum sem eru tilnefnd í samræmi við 1. mgr.
Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni og lögbærum yfirvöldum annarra aðildarríkja um hvers konar ráðstafanir sem samið hefur verið um varðandi úthlutun verkefna, þ.m.t. nákvæm skilyrði sem gilda um slíka úthlutun.
3.     Framkvæmdastjórnin skal birta skrá yfir lögbæru yfirvöldin sem um getur í 1. og 2. mgr. í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins a.m.k. einu sinni á ári og uppfæra hana reglulega á vefsetri sínu.

49. gr.
Samstarf milli yfirvalda í sama aðildarríki

Ef aðildarríki tilnefnir fleiri en eitt lögbært yfirvald til að framfylgja ákvæði í þessari tilskipun skal hlutverk þeirra hvers og eins skýrt skilgreint og þau skulu vinna náið saman.
Sérhvert aðildarríki skal krefjast þess að slíkt samstarf fari líka fram milli lögbærra yfirvalda samkvæmt þessari tilskipun og lögbærra yfirvalda sem bera ábyrgð í því aðildarríki á eftirliti með lánastofnunum og öðrum fjármálastofnunum, lífeyrissjóðum, verðbréfasjóðum, vátrygginga- og endurtryggingamiðlurum og vátryggingafélögum. Aðildarríkin skulu krefjast þess að lögbær yfirvöld skiptist á upplýsingum sem eru nauðsynlegar eða skipta máli fyrir þau við að sinna hlutverkum sínum og skyldum.

50. gr.
Valdheimildir sem fela skal lögbærum yfirvöldum

1.     Lögbær yfirvöld skulu hafa allar þær valdheimildir til eftirlits og rannsóknar sem nauðsynlegar mega teljast til sinna hlutverki sínu. Þau skulu beita þessum heimildum innan þeirra takmarkana sem kveðið er á um í innlendum lagaramma þeirra:
a)    með beinum hætti eða
b)    í samstarfi við önnur yfirvöld eða
c)    á eigin ábyrgð með því að úthluta þeim til eininga sem verkefnum hefur verið úthlutað til í samræmi við 2. mgr. 48. gr. eða
d)    með tilmælum til lögbærra dómsmálayfirvalda.
2.     Þeim valdheimildum, sem um getur í 1. mgr. þessarar greinar, skal beitt í samræmi við landslög og þær skulu a.m.k. fela í sér rétt til þess að:
a)    fá aðgang að hvers konar skjölum í hvaða formi sem er og fá afrit af þeim,
b)    krefjast upplýsinga frá hvaða aðila sem er og, ef þörf er á, boða aðila á fund til þess að afla hjá honum upplýsinga,
c)    annast vettvangsskoðun,
d)    krefjast upplýsinga sem til eru um símtöl og gagnaskipti,
e)    krefjast þess að bundinn sé endir á hvers konar háttsemi sem brýtur í bága við ákvæðin sem hafa verið samþykkt til framkvæmdar þessari tilskipun,
f)    óska eftir frystingu og/eða upptöku eigna,
g)    óska eftir tímabundnu banni við atvinnustarfsemi,
h)    krefjast þess að fjárfestingarfyrirtæki með starfsleyfi og endurskoðendur skipulegra markaða leggi fram upplýsingar,
i)    samþykkja hvers kyns ráðstafanir til að tryggja að fjárfestingarfyrirtæki og skipulegir markaðir uppfylli áfram lagaskilyrði,
j)    krefjast þess að viðskiptum með fjármálagerning verði hætt tímabundið,
k)    krefjast þess að hætt verði að stunda viðskipti með fjármálagerning, hvort heldur er á skipulegum markaði eða samkvæmt öðrum viðskiptaráðstöfunum,
l)    vísa málum til saksóknar,
m)    heimila endurskoðendum eða sérfræðingum að annast sannprófanir eða rannsóknir.

51. gr.
Stjórnsýsluviðurlög

1.     Með fyrirvara um málsmeðferð við afturköllun starfsleyfis eða rétt aðildarríkis til að beita viðurlögum á sviði refsiréttar skulu aðildarríkin tryggja, í samræmi við innlend lög, að gerðar verði viðeigandi stjórnsýsluráðstafanir eða stjórnsýsluviðurlögum verði beitt gagnvart aðilum, sem eru ábyrgir, þegar ekki hefur verið farið að ákvæðum þessarar tilskipunar. Aðildarríkin skulu tryggja að þessar ráðstafanir séu árangursríkar, í réttu hlutfalli við brot og letjandi.
2.     Aðildarríkin skulu ákvarða viðurlögin sem beita skal gagnvart skorti á samstarfsvilja við rannsókn sem fellur undir 50. gr.
3.     Aðildarríkin skulu kveða á um að lögbæru yfirvaldi sé heimilt að birta opinberlega upplýsingar um allar ráðstafanir eða viðurlög sem beita skal við broti á ákvæðunum sem hafa verið samþykkt til framkvæmdar þessari tilskipun, nema slík birting kunni að tefla fjármálamarkaðinum í tvísýnu eða valda viðkomandi aðilum óþarflega miklum skaða.

52. gr.
Áfrýjunarréttur

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að unnt sé að áfrýja til dómstóla öllum ákvörðunum sem eru teknar samkvæmt lögum eða stjórnsýslufyrirmælum sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun og að þær séu vel rökstuddar. Réttur til áfrýjunar skal einnig gilda ef engin ákvörðun hefur verið tekin innan sex mánaða frá því að umsókn um starfsleyfi, sem veitir fullnægjandi upplýsingar samkvæmt gildandi ákvæðum, hefur verið lögð fram.
2.     Aðildarríkin skulu kveða á um að einn eða fleiri eftirtalinna aðila geti, eins og ákvarðað er samkvæmt landslögum, í þágu neytenda og í samræmi við landslög, hafið mál fyrir dómstólum eða þar til bærum stjórnsýslustofnunum til að tryggja að ákvæðum landslaga um framkvæmd þessarar tilskipunar verði beitt:
a)    opinberir aðilar eða fulltrúar þeirra,
b)    neytendasamtök sem hafa lögmæta hagsmuni af því að vernda neytendur,
c)    fagfélög sem hafa lögmæta hagsmuni af því að grípa til aðgerða til að vernda félaga sína.

53. gr.
Fyrirkomulag utan dómstóla fyrir kvartanir fjárfesta

1.     Aðildarríkin skulu hvetja til þess að komið verði á viðeigandi og skilvirkri málsmeðferð við að fjalla um kvartanir og leita lausna utan réttar í deilumálum neytenda varðandi veitingu fjárfestingarfyrirtækja á fjárfestingar- og viðbótarþjónustu með aðstoð þeirra aðila sem fyrir eru þar sem við á.
2.     Aðildarríkin skulu tryggja að lög og ákvæði reglna hindri ekki þessa aðila í að hafa með sér skilvirkt samstarf við lausn deilna yfir landamæri.

54. gr.
Þagnarskylda

1.     Aðildarríkin skulu tryggja að lögbær yfirvöld, allir aðilar sem starfa fyrir eða hafa starfað fyrir lögbær yfirvöld eða einingar, sem hefur verið úthlutað verkefnum skv. 2. mgr. 48. gr., sem og endurskoðendur og sérfræðingar sem starfa samkvæmt fyrirmælum lögbærra yfirvalda séu bundin þagnarskyldu. Þeir mega ekki skýra neinum aðilum eða yfirvöldum frá trúnaðarupplýsingum sem þeir fá vitneskju um við að sinna skyldu sinni nema um sé að ræða samantekt eða útdrátt af því tagi að ekki sé unnt að bera kennsl á einstök fjárfestingarfyrirtæki, markaðsrekendur, skipulega markaði eða aðra aðila, þó með fyrirvara um mál sem heyra undir hegningarlög eða önnur ákvæði þessarar tilskipunar.
2.     Þó má skýra frá trúnaðarupplýsingum í málum sem heyra undir einkamálrétt eða verslunarrétt, þar sem fjárfestingarfyrirtæki, markaðsrekandi eða skipulegur markaður hefur verið lýstur gjaldþrota eða neyðst til félagsslita, snerti þau ekki þriðju aðila ef slíkt er nauðsynlegt vegna málsmeðferðarinnar.
3.     Með fyrirvara um tilvik, sem falla undir hegningarlög, mega lögbær yfirvöld, aðilar eða einstaklingar eða lögaðilar, aðrir en lögbær yfirvöld sem taka við trúnaðarupplýsingum samkvæmt þessari tilskipun, aðeins nota þær til að sinna hlutverki sínu eða skyldum þegar um er að ræða lögbær yfirvöld, innan gildissviðs þessarar tilskipunar, eða, þegar um er að ræða önnur yfirvöld, aðila eða einstaklinga eða lögaðila, í þeim tilgangi sem slíkar upplýsingar eru veittar og/eða í tengslum við stjórnsýslu- eða dómsmál sem tengist sérstaklega þessu hlutverki. Þó er yfirvaldinu, sem tekur við upplýsingunum, heimilt að nota þær í öðrum tilgangi ef lögbæra yfirvaldið eða annað yfirvald, aðili eða einstaklingur eða lögaðili, sem miðlar upplýsingunum, samþykkir það.
4.     Um trúnaðarupplýsingar sem fengnar eru, skipst er á eða sendar eru í samræmi við þessa tilskipun skulu gilda ákvæði um þagnarskyldu sem mælt er fyrir um í þessari grein. Þessi grein skal þó ekki komi í veg fyrir að lögbær yfirvöld skiptist á eða sendi trúnaðarupplýsingar í samræmi við þessa tilskipun og aðrar tilskipanir sem gilda um fjárfestingarfyrirtæki, lánastofnanir, lífeyrissjóði, verðbréfasjóði, vátrygginga- og endurtryggingamiðlara, vátryggingafélög, skipulega markaði eða markaðsrekendur eða með samþykki lögbærs yfirvalds eða annars yfirvalds eða aðila eða einstaklings eða lögaðila sem kom upplýsingunum á framfæri.
5.     Þessi grein skal ekki hindra lögbær yfirvöld í því að skiptast á eða senda trúnaðarupplýsingar í samræmi við innlend lög sem voru ekki mótteknar frá lögbæru yfirvaldi annars aðildarríkis.

55. gr.
Tengsl við endurskoðendur

1.     Aðildarríkin skulu a.m.k. kveða á um að hverjum þeim einstaklingi, sem til þess hefur heimild í skilningi áttundu tilskipunar ráðsins 84/253/EBE frá 10. apríl 1984 um löggildingu einstaklinga sem falið er að annast lögmælta endurskoðun bókhaldsgagna ( 24 ), annast í fjárfestingarfyrirtæki það verk sem er lýst í 51. gr. fjórðu tilskipunar ráðsins 78/660/EBE frá 25.júlí 1978 um ársreikninga félaga af tiltekinni gerð ( 25 ), 37. gr. tilskipunar ráðsins 83/349/EBE eða 31. gr. tilskipunar 85/611/EBE eða annað lögboðið verk, skuli skylt að upplýsa jafnharðan lögbær yfirvöld um málsatvik eða ákvörðun varðandi fyrirtækið sem viðkomandi hefur orðið áskynja um í starfi sínu og getur:
a)    falist í því að efnislega er gengið á svig við lög eða stjórnsýsluákvæði sem fjalla um skilyrði fyrir veitingu starfsleyfis eða sérstaklega um starfsemi fjárfestingarfyrirtækja,
b)    haft áhrif á áframhaldandi starfsemi fjárfestingarfyrirtækisins,
c)    leitt til þess að ekki er skrifað upp á reikningana eða að fyrirvarar eru settir.
Þessum sama einstaklingi ber skylda til að upplýsa um málsatvik og ákvarðanir sem hann verður áskynja um í starfi sínu, eins og um getur í fyrsta undirlið, í fyrirtæki sem hefur náin tengsl við fjárfestingarfyrirtækið þar sem hann vinnur framangreint verk.
2.     Ekki skal litið svo á að það athæfi einstaklinga, sem til þess hafa heimild í skilningi tilskipunar 84/253/EBE að upplýsa í góðri trú lögbær yfirvöld um málsatvik eða ákvarðanir skv. 1. mgr., sé brot á þagnarskyldu sem komið hefur verið á með samningi eða lögum og skal ekki kalla þá til ábyrgðar með neinum hætti.

II. KAFLI
SAMSTARF MILLI LÖGBÆRRA YFIRVALDA MISMUNANDI AÐILDARRÍKJA
56. gr.
Samstarfsskylda

1.     Lögbær yfirvöld í hinum ýmsu aðildarríkjum skulu starfa saman þegar nauðsyn ber til svo að þau geti uppfyllt skyldur sínar samkvæmt þessar tilskipun og nýtt valdheimildir sínar sem mælt er fyrir um annaðhvort í þessari tilskipun eða í landslögum.
Lögbær yfirvöld skulu veita lögbærum yfirvöldum annarra aðildarríkja aðstoð. Þau skulu einkum skiptast á upplýsingum og vinna saman að rannsóknar- eða eftirlitsstarfsemi.
Til að auðvelda og hraða samstarfi, einkum upplýsingaskiptum, skulu aðildarríkin tilnefna eitt lögbært yfirvald sem tengilið vegna þessarar tilskipunar. Aðildarríkin skulu tilkynna framkvæmdastjórninni og hinum aðildarríkjunum hvaða yfirvöld hafa verið tilnefnd til að veita viðtöku beiðnum um upplýsingaskipti eða samstarf samkvæmt þessari málsgrein.
2.     Lögbær yfirvöld heima- og gistiaðildarríkis skipulega markaðarins skulu koma á viðeigandi samstarfsfyrirkomulagi þegar, að teknu tilliti til aðstæðna á verðbréfamörkuðum í gistiaðildarríkinu, starfsemi skipulegs markaðar, sem hefur gert ráðstafanir í gistiaðildarríki, er orðin verulega mikilvæg fyrir starfsemi verðbréfamarkaða og að því er varðar vernd fjárfesta í því gistiaðildarríki.
3.     Aðildarríkin skulu gera nauðsynlegar stjórnunar- og skipulagsráðstafanir til að greiða fyrir þeirri aðstoð sem kveðið er á um í 1. mgr.
Lögbær yfirvöld geta notað valdheimildir sínar í því skyni að taka upp samstarf jafnvel þegar atferlið, sem er til rannsóknar, felur ekki í sér brot á gildandi reglum í því aðildarríki.
4.     Þegar lögbært yfirvald hefur gildar ástæður til að gruna að einingar, sem lúta ekki eftirliti þess, hafi brotið eða brjóti gegn ákvæðum þessarar tilskipunar á yfirráðasvæði annars aðildarríkis skal það tilkynna lögbæru yfirvaldi hins aðildarríkisins um það á eins nákvæman hátt og unnt er. Síðarnefnda yfirvaldið skal grípa til viðeigandi aðgerða. Það skal tilkynna lögbæra yfirvaldinu, sem tilkynnir þetta, um niðurstöður aðgerðanna og, eftir því sem unnt er, um mikilvæga þróun á meðan á þessu stendur. Þessi málsgrein er með fyrirvara um valdheimildir lögbæra yfirvaldsins sem hefur sent upplýsingarnar.
5.     Til að tryggja samræmda beitingu 2. mgr. er framkvæmdastjórninni heimilt, í samræmi við málsmeðferðina sem um getur í 2. mgr. 64. gr., að samþykkja framkvæmdaráðstafanir þar sem komið er á viðmiðunum um það hvernig starfsemi skipulegs markaðar í gistiaðildarríki gæti talist verulega mikilvæg fyrir starfsemi verðbréfamarkaða og vernd fjárfesta í gistiaðildarríkinu.

57. gr.
Samstarf um eftirlitsstarfsemi, sannprófanir á staðnum eða rannsóknir

Lögbæru yfirvaldi eins aðildarríkis er heimilt að óska eftir samstarfi við lögbært yfirvald annars aðildarríkis vegna eftirlitsstarfsemi, sannprófunar á staðnum eða rannsóknar. Þegar um er að ræða fjárfestingarfyrirtæki, sem eru fjaraðilar að skipulegum markaði, getur lögbært yfirvald skipulegs markaðar kosið að hafa beint samband við þau og í því tilviki skal það því tilkynna lögbæru yfirvaldi heimaaðildarríkisins um fjaraðilann.
Ef lögbært yfirvald tekur á móti beiðni um sannprófun á staðnum eða rannsókn skal það innan ramma valdheimilda sinna:
a)    annast sannprófanirnar eða rannsóknirnar sjálft eða
b)    heimila yfirvaldinu sem sendir beiðnina að annast sannprófunina eða rannsóknina eða
c)    heimila endurskoðendum eða sérfræðingum að annast sannprófunina eða rannsóknina.

58. gr.
Upplýsingaskipti

1.     Lögbær yfirvöld aðildarríkja, sem tilnefnd hafa verið tengiliðir að því er þessa tilskipun varðar í samræmi við 1. mgr. 56. gr., skulu þegar í stað veita hvert öðru þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að lögbæru yfirvöldin, sem eru tilnefnd í samræmi við 1. mgr. 48. gr., geti sinnt skyldum sínum sem settar eru fram í ákvæðum sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun.
Lögbær yfirvöld, sem skiptast á upplýsingum við önnur lögbær yfirvöld samkvæmt þessari tilskipun, mega tilkynna, þegar samskiptin fara fram, að slíkar upplýsingar megi ekki birta án beins samþykkis þeirra en í því tilviki er því aðeins heimilt að skiptast á slíkum upplýsingum að það sé gert í þeim tilgangi sem yfirvöldin hafa samþykkt.
2.     Lögbært yfirvald, sem tilnefnt hefur verið sem tengiliður, getur sent upplýsingarnar, sem tekið er á móti skv. 1. mgr. og 55. og 63. gr., til yfirvaldanna sem um getur í 49. gr. Þau skulu ekki senda þær til annarra aðila eða einstaklinga eða lögaðila án beins samþykkis lögbæru yfirvaldanna sem birtu þær og aðeins í þeim tilgangi sem þau yfirvöld samþykktu nema aðstæður gefi nægilegt tilefni til. Í því tilviki skal tengiliðurinn þegar í stað tilkynna það tengiliðnum sem sendi upplýsingarnar.
3.     Yfirvöldin, sem um getur í 49. gr., auk annarra aðila eða einstaklinga og lögaðila, sem taka á móti trúnaðarupplýsingum, skv. 1. mgr. þessarar greinar eða skv. 55. og 63. gr., mega aðeins nota þær við að sinna skyldum sínum, þ.e.:
a)    til að fylgjast með því að skilyrði um stofnun og rekstur fjárfestingarfyrirtækja séu uppfyllt og til að auðvelda eftirlit, á samstæðugrundvelli eða ekki, með rekstri slíkrar starfsemi, einkum með tilliti til eiginfjárkrafna sem settar eru fram í tilskipun 93/6/EBE, aðferða fyrir stjórnun og bókhald og innri eftirlitskerfa,
b)    til að hafa eftirlit með því að viðskiptakerfi starfi rétt,
c)    til að beita viðurlögum,
d)    þegar ákvörðun lögbærs yfirvalds er áfrýjað til æðra stjórnvalds,
e)    við málarekstur fyrir dómstóli sem hafinn er skv. 52. gr. eða
f)    í fyrirkomulaginu utan dómstóla fyrir kvartanir fjárfesta sem kveðið er á um í 53. gr.
4.     Í samræmi við málsmeðferðina, sem mælt er fyrir um í 2. mgr. 64. gr., er framkvæmdastjórninni heimilt að samþykkja framkvæmdarráðstafanir um málsmeðferð við upplýsingaskipti milli lögbærra yfirvalda.
5.     Ákvæði 54., 58 og 63. gr. skulu ekki koma í veg fyrir að lögbært yfirvald sendi til seðlabanka, Seðlabankakerfis Evrópu og Seðlabanka Evrópu, sem gegna hlutverki yfirvalda í peningamálum, og, þar sem við á, til annarra opinberra yfirvalda sem bera ábyrgð á eftirliti með greiðslukerfum, trúnaðarupplýsingar sem ætlaðar til framkvæmdar verkefnum þeirra; á sama hátt skal ekki koma í veg fyrir að slík yfirvöld eða aðilar miðli upplýsingum til lögbærra yfirvalda sem þau kunna að þarfnast til að sinna því hlutverki sínu sem kveðið er á um í þessari tilskipun.

59. gr.
Samstarfi neitað

Lögbært yfirvald getur því aðeins neitað að verða við beiðni um samstarf um að framkvæma rannsókn, sannprófun á staðnum eða eftirlitsstarfsemi eins og kveðið er á um í 57. gr. eða að skiptast á upplýsingum eins og kveðið er á um 58. gr. að:
a)    slík rannsókn, sannprófun á staðnum, eftirlitsstarfsemi eða upplýsingaskipti gæti haft neikvæð áhrif á fullveldi, öryggi eða allsherjarreglu viðkomandi ríkis,
b)    dómsmál hafi þegar hafist að því er varðar sömu aðgerðir gagnvart sömu aðilum fyrir yfirvöldum viðkomandi aðildarríkis,
c)    endanlegur dómur hafi þegar fallið í viðkomandi aðildarríki að því er varðar sömu aðgerðir gagnvart sömu aðilum.
Þegar um slíka neitun er að ræða skal lögbært yfirvald tilkynna lögbæra yfirvaldinu, sem leggur fram beiðni, um það og veita eins nákvæmar upplýsingar og unnt er.

60. gr.
Samráð milli yfirvalda fyrir starfsleyfisveitingu

1.     Hafa skal samráð við lögbær yfirvöld hins aðildarríkisins áður en fjárfestingarfyrirtæki er veitt starfsleyfi ef það er:
a)    dótturfyrirtæki fjárfestingarfyrirtækis eða lánastofnunar með starfsleyfi í öðru aðildarríki eða
b)    dótturfyrirtæki móðurfyrirtækis fjárfestingarfyrirtækis eða lánastofnunar sem hefur starfsleyfi í öðru aðildarríki eða
c)    undir stjórn sömu einstaklinga eða lögpersóna og stjórna fjárfestingarfyrirtæki eða lánastofnun sem hefur starfsleyfi í öðru aðildarríki.
2.     Hafa skal samráð við lögbært yfirvald í aðildarríki, sem annast eftirlit með lánastofnunum eða vátryggingafélögum, áður en fjárfestingarfyrirtæki er veitt starfsleyfi ef það er:
a)    dótturfyrirtæki lánastofnunar eða vátryggingafélags með starfsleyfi í Bandalaginu eða
b)    dótturfyrirtæki móðurfyrirtækis lánastofnunar eða vátryggingafélags með starfsleyfi í Bandalaginu eða
c)    undir yfirráðum einstaklings eða lögaðila sem einnig hefur yfirráð yfir lánastofnun eða fjárfestingarfyrirtæki sem hefur starfsleyfi í Bandalaginu.
3.     Viðkomandi lögbær yfirvöld, sem um getur í 1. og 2. mgr., skulu einkum hafa samráð sín á milli við mat á hæfi hluthafanna eða aðilanna, svo og á orðspori og reynslu þeirra einstaklinga sem í reynd stjórna því fyrirtæki sem tekur þátt í stjórnun annarrar einingar í sömu samstæðu. Þau skulu skiptast á öllum upplýsingum um hæfi hluthafa eða aðila og um orðspor og reynslu einstaklinga sem í reynd stjórna viðskiptunum sem skipta máli fyrir önnur lögbær yfirvöld sem koma að málinu vegna starfsleyfisveitingar eða yfirstandandi mats á því hvort skilyrði fyrir starfseminni séu uppfyllt.

61. gr.
Valdheimildir gistiaðildarríkja

1.     Gistiaðildarríki geta krafist þess, vegna hagskýrslugerðar, að öll fjárfestingarfyrirtæki með útibú á yfirráðasvæði þeirra gefi þeim reglulega skýrslu um starfsemi útibúanna.
2.     Gistiaðildarríki geta, þegar þau inna af hendi skyldur sínar samkvæmt þessari tilskipun, krafist þess að útibú fjárfestingarfyrirtækja veiti nauðsynlegar upplýsingar til að unnt sé að hafa eftirlit með því hvort þau fari að þeim reglum í gistiaðildarríkinu sem gilda um þau í þeim tilvikum sem kveðið er á um í 7. mgr. 32. gr. Þó mega þessar kröfur ekki vera strangari en þær sem sama aðildarríki gerir til fyrirtækja, sem hafa þar staðfestu, varðandi eftirlit með því hvort þau fari að sömu reglum.

62. gr.
Varúðarráðstafanir sem gistiaðildarríki skal grípa til

1.     Þegar lögbært yfirvald í gistiaðildarríki hefur skýrar og sannanlegar ástæður til að ætla að fjárfestingarfyrirtæki, sem starfar á yfirráðasvæði þess á grundvelli frelsis til að veita þjónustu, uppfylli ekki þær skyldur sem ákvæði, sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun, hafa í för með sér eða að fjárfestingarfyrirtæki, sem hefur útibú innan yfirráðasvæðis þess, uppfylli ekki þær skyldur sem ákvæði, sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun en veita lögbæru yfirvaldi gistiaðildarríkisins ekki valdheimildir, hafa í för með sér skal það vísa málinu til lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkisins.
Ef fjárfestingarfyrirtækið heldur áfram aðgerðum sem eru greinilega skaðlegar hagsmunum fjárfesta í gistiaðildarríkinu eða skipulegri starfsemi markaða, þrátt fyrir ráðstafanir sem lögbært yfirvald heimaaðildarríkis hefur gert eða vegna þess að slíkar ráðstafanir reynast ófullnægjandi, skal lögbært yfirvald gistiaðildarríkisins, eftir að hafa upplýst lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins um það, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda fjárfesta og eðlilega starfsemi markaða. Þetta skal fela í sér möguleika á því að koma í veg fyrir að fjárfestingarfyrirtæki, sem eru brotleg, eigi frekari viðskipti á yfirráðasvæðum þeirra. Framkvæmdastjórninni skal tilkynnt um allar slíkar ráðstafanir án tafar.
2.     Ef lögbær yfirvöld í gistiaðildarríki komast að raun um að fjárfestingarfyrirtæki, sem hefur útibú á yfirráðasvæði þess, fer ekki að ákvæðum laga eða reglna, sem það ríki hefur samþykkt samkvæmt þeim ákvæðum þessarar tilskipunar sem veita lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríkinu valdheimildir, skulu þau yfirvöld krefjast þess að hlutaðeigandi fjárfestingarfyrirtæki fari að settum reglum.
Hafi hlutaðeigandi fjárfestingarfyrirtæki ekki gert nauðsynlegar ráðstafanir ber lögbærum yfirvöldum í gistiaðildarríkinu að gera allar viðeigandi ráðstafanir til að tryggja að fjárfestingarfyrirtækið sem um ræðir fari að settum reglum. Tilkynna ber lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríkinu um það hvers eðlis þær ráðstafanir eru.
Haldi fjárfestingarfyrirtæki áfram að brjóta þau lög eða regluákvæði, sem um getur í fyrstu undirgrein og í gildi eru í gistiaðildarríkinu, þrátt fyrir ráðstafanir sem gistiaðildarríkið gerir þá getur gistiaðildarríkið, eftir að hafa skýrt lögbærum yfirvöldum í heimaaðildarríkinu frá því, gert viðeigandi ráðstafanir til að koma í veg fyrir eða refsa fyrir frekari brot og, að svo miklu leyti sem nauðsyn krefur, koma í veg fyrir að fjárfestingarfyrirtækið eigi í frekari viðskiptum á yfirráðasvæði þess. Framkvæmdastjórninni skal tilkynnt um allar slíkar ráðstafanir án tafar.
3.     Þegar lögbært yfirvald gistiaðildarríkis skipulegs markaðar eða markaðstorgs hefur skýrar og sannanlegar ástæður til að ætla að skipulegi markaðurinn eða markaðstorgið uppfylli ekki þær skyldur sem ákvæði, sem samþykkt eru samkvæmt þessari tilskipun, hafa í för með sér skal það vísa málinu til lögbærs yfirvalds heimaaðildarríkis skipulega markaðarins eða markaðstorgsins.
Ef framangreindur skipulegur markaður eða markaðstorg heldur áfram aðgerðum, sem eru greinilega skaðlegar hagsmunum fjárfesta í gistiaðildarríkinu eða skipulegri starfsemi markaða, þrátt fyrir ráðstafanir sem lögbært yfirvald heimaaðildarríkis hefur gert eða vegna þess að slíkar ráðstafanir reynast ófullnægjandi skal lögbært yfirvald gistiaðildarríkisins, eftir að hafa upplýst lögbært yfirvald heimaaðildarríkisins um það, gera allar viðeigandi ráðstafanir til að vernda fjárfesta og eðlilega starfsemi markaða. Þetta skal fela í sér möguleika á því að koma í veg fyrir að skipulegi markaðurinn eða markaðstorgið heimili fjaraðilum eða þátttakendum, sem hafa staðfestu í gistiaðildarríkinu, aðgang að ráðstöfunum þeirra. Framkvæmdastjórninni skal tilkynnt um allar slíkar ráðstafanir án tafar.
4.     Allar ráðstafanir, sem samþykktar eru skv. 1., 2. og 3. mgr. og fela í sér viðurlög eða takmarkanir á starfsemi fjárfestingarfyrirtækis eða skipulegs markaðar, skulu vel rökstuddar og þær ber að tilkynna hlutaðeigandi fjárfestingarfyrirtæki eða skipulegum markaði.

III. KAFLI
SAMSTARF VIÐ ÞRIÐJU LÖND
63. gr.
Upplýsingaskipti við þriðju lönd

1.     Aðildarríkjunum er því aðeins heimilt að gera samstarfssamninga um upplýsingaskipti við lögbær yfirvöld í þriðju löndum ef um upplýsingarnar ríkir þagnarskylda í a.m.k. sama mæli og krafist er í 54. gr. Slík upplýsingaskipti skulu eiga sér stað við framkvæmd verkefna þessara lögbæru yfirvalda. Aðildarríkin mega senda persónuupplýsingar til þriðja lands í samræmi við IV. kafla tilskipunar 95/46/EB. Aðildarríkjunum er heimilt að gera samstarfssamninga um upplýsingaskipti við yfirvöld í þriðju löndum, aðila og einstaklinga eða lögaðila sem bera ábyrgð á:
i)    eftirliti með lánastofnunum, öðrum fjármálastofnunum, vátryggingafélögum og eftirliti með fjármálamörkuðum,
ii)    félagsslitum og gjaldþrotaskiptum fjárfestingarfyrirtækja og annarri svipaðri málsmeðferð,
iii)    að annast, sem hluta af eftirlitshlutverki sínu, lögboðna endurskoðun reikninga fjárfestingarfyrirtækja og annarra fjármálastofnana, lánastofnana og vátryggingafélaga eða annast, sem hluta af hlutverki sínu, stjórn bótakerfa,
iv)    eftirliti með aðilum sem tengjast félagsslitum og gjaldþrotaskiptum fjárfestingarfyrirtækja og annarri svipaðri málsmeðferð,
v)    eftirliti með þeim sem sjá um lögboðna endurskoðun reikninga vátryggingafélaga, lánastofnana, fjárfestingarfyrirtækja og annarra fjármagnsfyrirtækja,
þó aðeins að trúnaður ríki um upplýsingarnar sem birtar eru í a.m.k. sama mæli og krafist er í 54. gr. Slík upplýsingaskipti skulu eiga sér stað við framkvæmd verkefna þessara lögbæru yfirvalda eða aðila eða einstaklinga eða lögaðila.
2.     Séu upplýsingarnar upprunnar í öðru aðildarríki er ekki heimilt að afhenda þær án skýlauss samþykkis frá þeim lögbæru yfirvöldum sem hafa sent þær og þá einungis til þeirra nota sem sömu yfirvöld hafa gefið samþykki fyrir. Sama ákvæði gildir um upplýsingar sem lögbær yfirvöld þriðju landa veita.

V. BÁLKUR
LOKAÁKVÆÐI
64. gr.
Nefndarmeðferð

1.     Evrópska verðbréfanefndin, sem komið var á fót með ákvörðun framkvæmdastjórnarinnar 2001/528/EB ( 26 ) (hér á eftir nefnd „nefndin“), skal vera framkvæmdastjórninni til aðstoðar.
2.     Þegar vísað er til þessarar málsgreinar gilda 5. og 7. gr. ákvörðunar 1999/468/EB með hliðsjón af ákvæðum 8. gr. hennar, að því tilskildu að framkvæmdarráðstafanirnar, sem samþykktar eru samkvæmt þessari málsmeðferð, breyti ekki grundvallarákvæðum þessarar tilskipunar.
Tímabilið, sem mælt er fyrir um í 6. mgr. 5. gr. ákvörðunar 1999/468/EB, skal vera þrír mánuðir.
3.     Með fyrirvara um framkvæmdarráðstafanirnar, sem þegar hafa verið samþykktar, skulu ákvæði þessarar tilskipunar um samþykkt tæknireglna og ákvarðana, í samræmi við 2. mgr., falla úr gildi fjórum árum eftir gildistöku hennar. Evrópuþinginu og ráðinu er heimilt, að fenginni tillögu framkvæmdastjórnarinnar, að endurnýja viðkomandi ákvæði í samræmi við málsmeðferðina sem mælt er fyrir um í 251. gr. sáttmálans og skulu þau endurskoða þau í því skyni áður en tímabilinu lýkur.

65. gr.
Skýrslugjöf og endurskoðun

1.     Framkvæmdastjórnin skal fyrir 30. apríl 2006, á grundvelli samráðs við almenning og í ljósi umræðna við lögbær yfirvöld, gefa Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu um hugsanlega rýmkun gildissviðs ákvæða þessarar tilskipunar varðandi gagnsæisskyldur, fyrir og eftir að viðskipti eiga sér stað, vegna viðskipta í öðrum flokkum fjármálagerninga en hlutabréfa.
2.     Framkvæmdastjórnin skal fyrir 30. apríl 2007 leggja fyrir Evrópuþingið og ráðið skýrslu um beitingu 27. gr.
3.     Framkvæmdastjórnin skal fyrir 30. október 2006, á grundvelli samráðs við almenning og í ljósi umræðna við lögbær yfirvöld, gefa Evrópuþinginu og ráðinu skýrslu um:
a)    það hvort undanþágan skv. k-lið 1. mgr. 2. gr. skuli gilda áfram um fyrirtæki sem einkum stunda viðskipti með hrávöruafleiður fyrir eigin reikning,
b)    efni og form sanngjarnra krafna fyrir starfsleyfisveitingu og eftirlit með fyrirtækjum á borð við fjárfestingarfyrirtæki í skilningi þessarar tilskipunar,
c)    það hvort reglur varðandi tilnefningu fastra umboðsmanna sem annast fjárfestingarþjónusta og/eða -starfsemi eigi áfram við, einkum hvað varðar eftirlit með þeim,
d)    það hvort undanþágan skv. i-lið 1. mgr. 2. gr. eigi áfram við.
4.     Framkvæmdastjórnin skal fyrir 30. október 2006 leggja fyrir Evrópuþingið og ráðið skýrslu um hvernig gengur að fjarlægja hindranir sem gætu komið í veg fyrir sameiningu upplýsinga á evrópskum vettvangi sem krafist er að viðskiptakerfi birti.
5.     Á grundvelli skýrslnanna, sem um getur í 1..4. mgr., getur framkvæmdastjórnin lagt fram tillögur að tengdum breytingum á þessari tilskipun.
6.     Framkvæmdastjórnin skal fyrir 30 apríl 2005, í ljósi viðræðna við lögbær yfirvöld, leggja skýrslu fyrir Evrópuþingið og ráðið um það hvort kröfur um starfsábyrgðartryggingu, sem gerðar eru til milliliða samkvæmt lögum Bandalagsins, eigi áfram við.

66. gr.
Breytingar á tilskipun 85/611/EBE

Í stað 4. mgr. 5. gr. tilskipunar 85/611/EBE komi eftirfarandi:
    „4.     Ákvæði 2. gr. (2. mgr.), 12., 13. og 19. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga (*) gilda um þá þjónustu sem rekstrarfélög veita og um getur í 3. mgr. þessarar greinar.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*) Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1“.

67. gr.
Breytingar á tilskipun 93/6/EBE

Tilskipun 93/6/EBE skal breytt sem hér segir:
1)    Í stað 2. mgr. 2. gr. komi eftirfarandi:
    „2.    fjárfestingarfyrirtæki: allar stofnanir samkvæmt skilgreiningu 1. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga (*) sem kröfurnar í sömu tilskipun gilda um, að undanskildum:
            a)    lánastofnunum,
            b)    staðbundnum fyrirtækjum eins og þau eru skilgreind í 20. tölulið og
            c)    fyrirtækjum sem aðeins hafa starfsleyfi til að veita fjárfestingarráðgjöf og/eða taka á móti fyrirmælum fjárfesta og miðla þeim án þess að taka til vörslu fé eða verðbréf sem viðskiptavinir þeirra eiga og sem af þeim ástæðum mega aldrei vera í skuld við viðskiptavini sína.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*) Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1.“
2)    Í stað 4. mgr. 3. gr. komi eftirfarandi:
    „4.     Stofnfé fyrirtækja, sem um getur í b-lið 2. mgr. 2. gr., skal vera 50 000 evrur sem fremi þau njóti staðfesturéttar eða veiti þjónustu skv. 31. eða 32. gr. tilskipunar 2004/39/EB.“
3)    Eftirfarandi málsgreinar bætist við 3. gr.:
    „4a)     Þar til tilskipun 93/6/EB verður endurskoðuð skulu fyrirtækin, sem um getur í c-lið 2. mgr. 2. gr., hafa:
    a)    stofnfé sem nemur 50 000 evrum eða
    b)    starfsábyrgðartryggingu sem tekur til alls yfirráðasvæðis Bandalagsins eða sambærilega tryggingu til að mæta bótakröfum sem leiðir af vanrækslu í starfi, og skal hún nema a.m.k. 1 000 000 evra fyrir hverja kröfu og samtals 1 500 000 evrum á ári fyrir allar kröfur eða
    c)    samsetningu af stofnfé og starfsábyrgðartryggingu sem gefur sambærilegt tryggingu og er að finna í a- eða b-lið.
    Framkvæmdastjórnin skal endurskoða reglulega fjárhæðirnar sem um getur í þessari málsgrein með tilliti til breytinga á evrópskri vísitölu neysluverðs sem Hagstofa Evrópubandalaganna birtir í samræmi við og á sama tíma og leiðréttingar eru gerðar skv. 7. mgr. 4. gr. tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2002/92/EB frá 9. desember 2002 um miðlun vátrygginga.
    4b)     Þegar fjárfestingarfyrirtæki, sem um getur í c-lið 2. mgr. 2. gr., er einnig skráð samkvæmt tilskipun 2002/92/EB verður það að uppfylla kröfuna sem sett er í 3. mgr. 4. gr. þeirrar tilskipunar og verður að auki að hafa:
    a)    stofnfé sem nemur 25 000 evrum eða
    b)    starfsábyrgðartryggingu sem tekur til alls yfirráðasvæðis Bandalagsins eða sambærilega tryggingu til að mæta bótakröfum sem leiðir af vanrækslu í starfi, og skal hún nema a.m.k. 500 000 evra fyrir hverja kröfu og samtals 750 000 evrum á ári fyrir allar kröfur eða
    c)    samsetningu af stofnfé og starfsábyrgðartryggingu sem gefur sambærilega tryggingu og er að finna í a- eða b-lið.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*) Stjtíð. EB L 9, 15.1.2003, bls. 3“.

68. gr.
Breytingar á tilskipun 2000/12/EB

Ákvæðum I. viðauka við tilskipun 2000/12/EB er breytt sem hér segir:
Eftirfarandi málsliður bætist við í lok I. viðauka:
    „Þjónustan og starfsemin, sem kveðið er á um í A- og B-þætti I. viðauka tilskipunar Evrópuþingsins og ráðsins 2004/39/EB frá 21. apríl 2004 um markaði fyrir fjármálagerninga (*), er háð gagnkvæmri viðurkenningu í samræmi við þessa tilskipun þegar hún vísar til fjármálagerninganna sem kveðið er á um í C-þætti I. viðauka þessarar tilskipunar.
    

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


(*) Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1.“

69. gr.
Niðurfelling á tilskipun 93/22/EBE

Tilskipun 93/22/EBE falli hér með úr gildi frá og með 30. apríl 2006. Litið skal á tilvísanir í tilskipun 93/22/EBE sem tilvísanir í þessa tilskipun. Litið skal á tilvísanir í hugtök, sem skilgreind eru í tilskipun 93/22/EBE, eða greinar hennar sem tilvísanir í sambærileg hugtök, sem skilgreind eru í þessari tilskipun, eða greinar hennar.

70. gr.
Lögleiðing

Aðildarríkin skulu samþykkja í síðasta lagi 30. apríl 2006 nauðsynleg lög og stjórnsýslufyrirmæli til að fara að tilskipun þessari. Þau skulu tilkynna það framkvæmdastjórninni þegar í stað.
Þegar aðildarríkin samþykkja þessar ráðstafanir skal vera í þeim tilvísun í þessa tilskipun eða þeim fylgja slík tilvísun þegar þær verða birtar opinberlega. Aðildarríkin skulu setja nánari reglur um slíka tilvísun.

71. gr.
Bráðabirgðaákvæði

1.     Fjárfestingafyrirtæki, sem hafa fengið starfsleyfi fyrir 30. apríl 2006 í heimaaðildarríki sínu til að veita fjárfestingarþjónustu, teljast hafa starfsleyfi að því er varðar þessa tilskipun ef lög þessara aðildarríkja kveða á um að forsenda þess að þau fái að hefja slíka starfsemi sé að þau uppfylli skilyrði sem jafngilda þeim sem sett eru í 9..14. gr.
2.     Skipulegur markaður eða markaðsrekandi, sem hafa fengið starfsleyfi fyrir 30. apríl 2006 í heimaaðildarríki sínu, teljast hafa starfsleyfi að því er varðar þessa tilskipun ef lög þessara aðildarríkja kveða á um að forsenda þess að skipulegi markaðurinn eða markaðsrekandinn (eftir atvikum) fái að hefja slíka starfsemi sé að þau uppfylli skilyrði sem jafngilda þeim sem sett eru í III. bálki.
3.     Fastir umboðsmenn, sem skráðir eru í opinbera skrá fyrir 30. apríl 2006, teljast vera skráðir að því er varðar þessa tilskipun ef lög þessara aðildarríkja kveða á um að fastir umboðsmenn uppfylli skilyrði sem jafngilda þeim sem sett eru í 23. gr.
4.     Litið skal svo á að upplýsingum, sem komið er á framfæri fyrir 30. apríl 2006 að því er varðar 17., 18. eða 30. gr. tilskipunar 93/22/EBE, hafi verið komið á framfæri að því er varðar 31. og 32. gr. þessarar tilskipunar.
5.     Fyrirliggjandi markaðskerfi, sem fellur undir skilgreininguna á markaðstorgi sem rekið er af markaðsrekanda skipulegs markaðar, skal hljóta starfsleyfi sem markaðstorg að beiðni markaðsrekanda skipulega markaðarins að því tilskildu að það uppfylli reglur sem jafngilda þeim sem krafist er í þessari tilskipun um starfsleyfisveitingu og starfsemi markaðstorga og svo fremi beiðnin sé lögð fram fyrir 30. október 2007.
6.     Fjárfestingarfyrirtæki skulu hafa leyfi til að halda áfram að líta á þá fagviðskiptavini, sem fyrir eru, sem slíka að því tilskildu að flokkun hafi verið ákveðin af fjárfestingarfyrirtækinu á grundvelli fullnægjandi mats á sérfræðikunnáttu, reynslu og þekkingu viðskiptavinarins, þannig að nokkuð öruggt sé í ljósi þess hvers eðlis viðskiptin eða fyrirhugaða þjónustan er, að viðskiptavinurinn geti tekið eigin ákvarðanir um fjárfestingar og skilji áhættuna sem í þeim felst. Þessi fjárfestingarfyrirtæki skulu tilkynna viðskiptavinum sínum um skilyrðin sem komið er á í tilskipuninni um flokkun viðskiptavina.

72. gr.
Gildistaka

Tilskipun þessi öðlast gildi á þeim degi sem hún birtist í Stjórnartíðindum Evrópusambandsins.

73. gr.
Viðtakendur

Tilskipun þessari er beint til aðildarríkjanna.
Gjört í Strassburg 21. apríl 2004.
Fyrir hönd Evrópuþingsins, Fyrir hönd ráðsins,
P. COX D. ROCHE
forseti. forseti.

I. VIÐAUKI
SKRÁ YFIR ÞJÓNUSTU OG STARFSEMI OG FJÁRMÁLAGERNINGA
A-þáttur
Fjárfestingarþjónusta og -starfsemi

1)    Móttaka og miðlun fyrirmæla varðandi einn eða fleiri fjármálagerninga.
2)    Framkvæmd fyrirmæla fyrir hönd viðskiptavina.
3)    Viðskipti fyrir eigin reikning.
4)    Eignasafnsstýring.
5)    Fjárfestingaráðgjöf.
6)    Sölutrygging fjármálagerninga og/eða markaðssetning fjármálagerninga á skuldbindandi grundvelli.
7)    Markaðssetning fjármálagerninga sem er ekki á skuldbindandi grundvelli.
8)    Starfræksla markaðstorga.

B-þáttur
Viðbótarþjónusta

1)    Varsla og umsýsla fjármálagerninga fyrir reikning viðskiptavina, þ.m.t. varsla og tengd þjónusta, s.s. reiðufjár-/tryggingarstjórnun.
2)    Veiting lána til fjárfestis til að gera honum kleift að annast viðskipti með einn eða fleiri fjármálagerninga þar sem fyrirtækið, sem veitir lánið, kemur að viðskiptunum.
3)    Ráðgjöf til fyrirtækja um samsetningu höfuðstóls, áætlanagerð og skyld mál og ráðgjöf og þjónusta varðandi samruna fyrirtækja og kaup á þeim.
4)    Gjaldeyrisþjónusta sem tengist því að veita fjárfestingarþjónustu.
5)    Fjárfestingarrannsóknir og fjárhagsgreining eða önnur form almennra ráðlegginga sem tengjast viðskiptum með fjármálagerninga.
6)    Þjónusta tengd sölutryggingu.
7)    Fjárfestingarþjónusta og .starfsemi, auk viðbótarþjónustu, af þeirri tegund sem fellur undir A- eða B-þátt I. viðauka sem tengjast því sem liggur að baki afleiðum sem eru í C-þætti, 5., 6., 7. og 10. lið, ef þau tengjast veitingu fjárfestingar- eða viðbótarþjónustu.

C-þáttur
Fjármálagerningar

1)    Framseljanleg verðbréf.
2)    Peningamarkaðsskjöl.
3)    Hlutdeildarskírteini fyrirtækja um sameiginlega fjárfestingu.
4)    Valréttarsamningar, framtíðarsamningar, skiptasamningar, framvirkir vaxtasamningar og aðrir afleiðusamningar sem tengjast verðbréfum, gjaldmiðlum, vöxtum eða ávöxtunarkröfum eða aðrir afleiddir gerningar, efnahagsvísar, eða fjárhagsráðstafanir sem kunna að verðar gerðar upp efnislega eða með reiðufé.
5)    Valréttarsamningar, framtíðarsamningar, skiptasamningar og aðrir afleiðusamningar sem tengjast hrávörum sem verður að gera upp með reiðufé eða má gera upp með reiðufé ef einn aðilanna kýs það (af annarri ástæðu en vanefndum eða öðru sem jafngildir uppsögn).
6)    Valréttarsamningar, framtíðarsamningar, skiptasamningar og aðrir afleiðusamningar sem tengjast hrávörum sem hægt er að gera upp efnislega að því tilskildu að viðskipti með þá fari fram á skipulegum markaði og/eða markaðstorgi.
7)    Valréttarsamningar, framtíðarsamningar, skiptasamningar, framvirkir samningar og aðrir afleiðusamningar, sem tengjast hrávörum sem gera má upp efnislega og ekki er minnst á í 6. lið C-þáttar og eru ekki til viðskiptanota, sem hafa einkenni annarra afleiðufjármálagerninga, m.a. með hliðsjón af því hvort verslað er með þá eða þeir gerðir upp í gegnum viðurkennda uppgjörsaðila eða hvort þeir eru háðir reglulegum veðköllum.
8)    Afleiðugerningar til yfirfærslu lánaáhættu.
9)    Samningar um fjárhagslegan mismun.
10)    Valréttarsamningar, framtíðarsamningar, skiptasamningar, framvirkir vaxtasamningar og aðrir afleiðusamningar sem tengjast loftslagsbreytum, farmgjöldum, losunarheimildum eða verðbólgu eða öðrum opinberum efnahagslegum hagskýrslum sem verður að gera upp með reiðufé eða gera má upp með reiðufé ef einn aðilanna kýs það (af annarri ástæðu en vanefndum eða öðru sem jafngildir uppsögn), auk annarra afleiðusamninga sem tengjast eignum, réttindum, skyldum, vísitölum og ráðstöfunum sem annars er ekki minnst á í þessum þætti, sem hafa einkenni annarra afleiðufjármálagerninga, m.a. með hliðsjón af því hvort verslað er með þá á skipulegum markaði eða markaðstorgi, þeir gerðir upp í gegnum viðurkennda uppgjörsaðila eða eru háðir reglulegum veðköllum.

II. VIÐAUKI
HVERJIR TELJAST FAGVIÐSKIPTAVINIR AÐ ÞVÍ ER ÞESSA TILSKIPUN VARÐAR

Fagviðskiptavinur er viðskiptavinur sem býr yfir reynslu, þekkingu og sérfræðikunnáttu til að taka sjálfur ákvarðanir um fjárfestingar og meta áhættuna sem þeim fylgir. Til að teljast fagviðskiptavinur verður viðskiptavinurinn að uppfylla eftirfarandi viðmið:
I.     Flokkar viðskiptavina sem teljast fagaðilar
    Eftirfarandi skulu teljast fagaðilar í allri fjárfestingarþjónustu og starfsemi og fjármálagerningum í þessari tilskipun.
    1)    Einingar sem þurfa starfsleyfi eða eru reglufestar til að starfa á fjármálamörkuðum. Litið skal svo á að skráin hér á eftir taki til allra eininga sem hafa starfsleyfi og sinna hefðbundinni starfsemi eininganna sem um getur: einingar sem hafa starfsleyfi frá aðildarríki samkvæmt tilskipun, einingar sem aðildarríki veitir starfsleyfi eða reglufestir án vísunar til tilskipunar og einingar sem ríki utan Bandalagsins veitir starfsleyfi eða reglufestir:
            a)    lánastofnanir
            b)    fjárfestingarfyrirtæki
            c)    aðrar fjármálastofnanir sem hafa starfsleyfi eða eru reglufestar
            d)    vátryggingafélög
            e)    sameiginlegir fjárfestingarsjóðir og rekstrarfélög slíkra sjóða
            f)    lífeyrissjóðir og rekstrarfélög slíkra sjóða
            g)    seljendur hrávöru og hrávöruafleiða
            h)    staðbundnir aðilar
            i)    aðrir stofnanafjárfestar
    2)    stór fyrirtæki sem uppfylla tvær af eftirfarandi kröfum
            heildartala efnahagsreiknings:    20 000 000 evrur
            hrein ársvelta:    40 000 000 evrur
            eigið fé:        2 000 000 evrur
    3)    Ríkisstjórnir og héraðsstjórnir, opinberir aðilar sem stjórna opinberum skuldum, seðlabankar, alþjóðlegar og yfirríkjastofnanir eins og Alþjóðabankinn, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn, Seðlabanki Evrópu, Fjárfestingarbanki Evrópu og aðrar svipaðar alþjóðastofnanir.
    4)    Aðrir stofnanafjárfestar sem hafa það að aðalstarfsemi að fjárfesta í fjármálagerningum, þ.m.t. einingar sem fást við verðbréfun eigna eða önnur fjármögnunarviðskipti.
    Einingarnar sem um getur hér að framan teljast fagaðilar. Þeim skal hins vegar heimilt að óska eftir að ekki verði farið með þá sem fagaðila og fjárfestingarfyrirtæki geta samþykkt að veita meiri vernd. Ef viðskiptavinur fjárfestingarfyrirtækis er fyrirtæki sem getið er hér að framan verður fjárfestingarfyrirtækið að tilkynna það áður en það veitir þjónustu á grundvelli þeirra upplýsinga sem fyrirtækið hefur aðgang að þar sem viðskiptavinurinn er talinn fagviðskiptavinur og farið verður með hann sem slíkan nema fyrirtækið og viðskiptavinurinn komist að samkomulagi um annað. Fyrirtækið verður einnig að tilkynna viðskiptavininum að hann að geti óskað eftir breytingum á skilmálum samkomulagsins til að tryggja meiri vernd.
    Viðskiptavinur, sem talinn er fagfjárfestir, ber ábyrgð á því að biðja um aukna vernd þegar hann telur að hann geti ekki metið eða stjórnað á réttan hátt áhættunni sem er til staðar.
    Aukin vernd verður veitt þegar viðskiptavinur, sem talinn er fagaðili, gerir skriflegt samkomulag við fjárfestingarfyrirtækið þess efnis að ekki verði farið með hann sem fagaðila samkvæmt viðeigandi viðskiptareglum. Í slíku samkomulagi skal tilgreina hvort þetta gildir um eina tiltekna tegund þjónustu eða viðskipta eða fleiri, eða um eina eða fleiri tegundir afurða eða viðskipta.
II.          Viðskiptavinir sem fara skal með sem fagaðila sé þess óskað
II.1.     Viðmiðanir til auðkenningar
        Viðskiptavinum, öðrum en þeim sem um getur í I. þætti, þ.m.t. opinberir aðilar og einstakir einkafjárfestar, kann einnig að vera heimilt að afsala sér hluta þeirrar verndar sem viðskiptareglurnar veita.
        Fjárfestingarfyrirtækjum skal þess vegna heimilt að fara með viðskiptavinina hér að framan sem fagaðila svo fremi viðeigandi viðmiðanir og málsmeðferð hér á eftir sé uppfyllt. Þó skal ekki gert ráð fyrir að viðskiptavinirnir hafi markaðsþekkingu og -reynslu sambærilega þeirri sem er að finna í flokkunum sem skráðir eru í I. þætti. Afsal slíkrar verndar, sem veitt er samkvæmt stöðluðum viðskiptareglum, skal aðeins teljast gilt ef fullnægjandi mat á sérfræðikunnáttu, reynslu og þekkingu viðskiptavinarins, sem fjárfestingarfyrirtækið framkvæmir, tryggir, þannig að nokkuð öruggt sé í ljósi þess hvers eðlis viðskiptin eða fyrirhugaða þjónustan er, að viðskiptavinurinn geti tekið eigin ákvarðanir um fjárfestingar og skilji áhættuna sem í þeim felst.
        Hæfnisprófið, sem lagt er fyrir stjórnendur og yfirmenn eininga sem hafa starfsleyfi samkvæmt tilskipunum á fjármálasviðinu, má telja sem dæmi um mat á sérfræðikunnáttu og þekkingu. Þegar um er að ræða smærri einingar skal einstaklingurinn, sem matið hér að framan á við um vera sá sem hefur leyfi til að annast viðskipti fyrir hönd einingarinnar.
        Við framkvæmd matsins hér að framan skulu að lágmarki tvær af eftirfarandi viðmiðunum uppfylltar:
        —    viðskiptavinurinn hafi stundað umtalsverð viðskipti á viðeigandi markaði næstliðna fjóra ársfjórðunga, að meðaltali a.m.k. tíu sinnum á hverjum ársfjórðungi,
        —    stærð eignasafns viðskiptavinarins, skilgreint þannig að það í því séu innlán í reiðufé og fjármálagerningar, sé yfir 500 000 evrur,
        —    viðskiptavinurinn gegni eða hafi gegnt faglegri stöðu á fjármálasviði í a.m.k. eitt ár sem krefst þekkingar á viðskiptunum eða þjónustunni sem fyrirhuguð er.
II.2.     Málsmeðferð
        Viðskiptavinirnir, sem skilgreindir eru hér að framan, mega því aðeins afsala sér ávinningi af ítarlegu viðskiptareglunum að eftirfarandi málsmeðferð sé fylgt:
        —    þeir verða að tilkynna fjárfestingarfyrirtækinu skriflega að þeir óski eftir því að farið verði með þá sem fagviðskiptavini, annaðhvort almennt eða að því er varðar tiltekna fjárfestingarþjónustu eða viðskipti, eða tegund viðskipta eða afurðar,
        .    fjárfestingarfyrirtækið verður að gefa þeim skýra skriflega viðvörun um þá vernd og þau bótaréttindi fjárfesta sem þeir kunna að tapa,
        —    þeir verða að tilkynna skriflega, í sérstöku skjali sem aðskilið er frá samningnum, að þeim sé kunnugt um afleiðingar þess að tapa slíkri vernd.
        Áður en fjárfestingarfyrirtæki ákveða að samþykkja beiðni um afsal skal þess krafist að þau geri allar eðlilegar ráðstafanir til að tryggja að viðskiptavinur, sem óskar eftir því að farið verði með hann sem fagviðskiptavin, uppfylli viðeigandi kröfur sem fram koma í þætti II. 1 hér að framan.
        Ef viðskiptavinir hafa hins vegar þegar verið flokkaðir sem fagaðilar samkvæmt færibreytum og málsmeðferð sambærilegri þeirri sem um getur hér að framan er ætlunin ekki að samband þeirra við fjárfestingarfyrirtæki verði fyrir áhrifum af nýjum reglum sem samþykktar eru samkvæmt þessum viðauka.
        Fyrirtæki verða að koma á skriflegri innanhússstefnu og málsmeðferð til að flokka viðskiptavini. Fagviðskiptavinir bera ábyrgð á því að tilkynna fyrirtækinu um allar breytingar sem gætu haft áhrif á hver flokkun þeirra er. Fjárfestingarfyrirtæki skal grípa til viðeigandi aðgerða verði því kunnugt um að viðskiptavinurinn uppfylli ekki lengur upphafleg skilyrði fyrir því að farið verði með hann sem fagaðila.
Neðanmálsgrein: 1
(1)    Stjtíð. ESB L 198, 28.7.2005, bls. 45 og EES-viðbætir við Stjtíð. ESB nr. 38, 28.7.2005, bls. 26.
Neðanmálsgrein: 2
(2)    Stjtíð. ESB L 145, 30.4.2004, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 3
(3)    Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 27.
Neðanmálsgrein: 4
(*)    Stjórnskipuleg skilyrði gefin til kynna.
Neðanmálsgrein: 5
(1)    Stjtíð. ESB C 71 E, 25.3.2003, bls. 62.
Neðanmálsgrein: 6
(2)    Stjtíð. ESB C 220, 16.9.2003, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 7
(3)    Stjtíð. ESB C 144, 20.6.2003, bls. 6.
Neðanmálsgrein: 8
(4)    Álit Evrópuþingsins frá 25. september 2003 (hefur enn ekki verið birt íStjórnartíðindum ESB), sameiginleg afstaða ráðsins frá 8. desember 2003 (Stjtíð. ESB C 60 E, 9.3.2004, bls. 1), Afstaða Evrópuþingsins frá 30. mars 2004 (hefur enn ekki verið birt í Stjórnartíðindum ESB) og ákvörðun ráðsins frá 7. apríl 2004.
Neðanmálsgrein: 9
(5)    Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 27. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2002/87/EB (Stjtíð. ESB L 35, 11.2.2003, bls. 1).
Neðanmálsgrein: 10
(6)    Stjtíð. EB 56, 4.4. 1964, bls. 878/64. Tilskipuninni var breytt með aðildarlögunum frá 1972.
Neðanmálsgrein: 11
(7)    Stjtíð. EB L 228, 16.8.1973, bls. 3. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2002/87/EB.
Neðanmálsgrein: 12
(8)    Stjtíð. EB L 345, 19.12.2002, bls. 1.
Neðanmálsgrein: 13
(9)    Stjtíð. EB L 126, 26.5.2000, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2002/87/EB.
Neðanmálsgrein: 14
(10)    Stjtíð. EB L 141, 11.6.1993, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun 2002/87/EB.
Neðanmálsgrein: 15
(11)    Stjtíð. EB L 9, 15.1.2003, bls. 3.
Neðanmálsgrein: 16
(12)    Stjtíð. EB L 168, 27.6.2002, bls. 43.
Neðanmálsgrein: 17
(13)    Stjtíð. EB L 281, 23.11.1995, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 18
(14)    Stjtíð. EB L 184, 6.7.2001, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/71/EB (Stjtíð. ESB L 345, 31.12.2003, bls. 64.).
Neðanmálsgrein: 19
(15)    Stjtíð. EB L 115, 17.4.1998, bls. 31.
Neðanmálsgrein: 20
(16)    Stjtíð. EB L 184, 17.7.1999, bls. 23.
Neðanmálsgrein: 21
(17)    Stjtíð. EB L 26, 31.1.1977, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með aðildarlögunum frá 1994.
Neðanmálsgrein: 22
(18)    Stjtíð. EB L 375, 31.12.1985, bls. 3. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/108/EB (Stjtíð. EB L 41, 13.2.2002, bls. 35).
Neðanmálsgrein: 23
(19)    Stjtíð. EB L 193, 18.7.1983, bls. 1. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/51/EB (Stjtíð. ESB L 178, 17.7.2003, bls. 16).
Neðanmálsgrein: 24
(20)    Stjtíð. EB L 84, 26.3.1997, bls. 22.
Neðanmálsgrein: 25
(21)    Stjtíð. ESB L 96, 12.4.2003, bls. 16.
Neðanmálsgrein: 26
(22)    Stjtíð. EB L 166, 28.6.1991, bls. 77. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2001/97/EB (Stjtíð. EB L 344, 28.12.2001, bls. 76).
Neðanmálsgrein: 27
(23)    Stjtíð. ESB L 345, 31.12.2003, bls. 64.
Neðanmálsgrein: 28
(24)    Stjtíð. EB L 126, 12.5.1984, bls. 20.
Neðanmálsgrein: 29
(25)    Stjtíð. EB L 222, 14.8.1978, bls. 11. Tilskipuninni var síðast breytt með tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 2003/51/EB (Stjtíð. ESB L 178, 17.7.2003, bls. 16).
Neðanmálsgrein: 30
(26)    Stjtíð. EB L 191, 13.7.2001, bls. 45.