Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 131. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 402  —  131. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Valdimars L. Friðrikssonar um heimilislækna í Suðvesturkjördæmi.

     1.      Hversu margir heimilislæknar eru starfandi í Suðvesturkjördæmi, skipt eftir sveitarfélögum?

    Eftirfarandi upplýsingar um fjölda heimilislækna í sveitarfélögunum í Suðvesturkjördæmi miðast við fyrstu sex mánuði ársins.

Sveitarfélag Læknar Stöðugildi
Hafnarfjörður 15 14,6
Garðabær 6 4,72
Kópavogur 16 15,4
Mosfellsbær 5 5
Seltjarnarnes 9 8,5
Samtals 51 48,22

    Auk þessa hafa verið námslæknar, kandídatar og læknar í sérnámi sem hér segir á þessu sex mánaða tímabili:

Sveitarfélag Kandídatar Mánuðir samtals Læknar í sérnámi Mánuðir
Hafnarfjörður 6 12,78 1 6
Garðabær 2 5
Kópavogur* 3 6,18 1 6
Mosfellsbær 4 12
Seltjarnarnes 3 5
Samtals 18 40,96 2 12
* Inni í tölum fyrir Kópavog er Heilsugæslan í Salahverfi.

    Heilsugæslustöðin á Seltjarnarnesi sinnir auk Seltjarnarness Reykjavík sunnan Hringbrautar og vestan flugvallarins. Íbúar svæðis stöðvarinnar alls voru 15.122 talsins, þar af voru íbúar Seltjarnarness u.þ.b. 4.500.
    Starfandi heimilislæknar á heilsugæslustöðvum eru, eins og áður segir, 51 í 48,22 stöðugildum og miðað við íbúatölu á þjónustusvæðum heilsugæslustöðvanna 1. janúar 2006 þjóna þeir 84.039 manns. Gerir þetta 1.648 manns á hvern lækni eða 1.743 manns á hvert stöðugildi heimilislæknis.
    Eru þá ótalin um tvö stöðugildi lækna við Heilsuverndarstöðina, sem fara út á heilsugæslustöðvar í kjördæminu til að sinna lögbundnum verkefnum stöðvarinnar, svo sem við ungbarnavernd.
    Algengt er að í nágrannalöndum sé miðað við að 1.500–1.750 sjúklingar séu á hvern heimilislækni.

     2.      Hversu margir íbúar í Suðvesturkjördæmi eru án heimilislæknis, skipt eftir sveitarfélögum?

    Ekki er hægt að segja um það með vissu hversu margir eru heimilislæknislausir í hverju sveitarfélagi, þar sem sjúkraskrár eru ekki samkeyrðar. Þess ber að geta að 12 heimilislæknar starfa utan heilsugæslustöðva og hefur fólk af öllu höfuðborgarsvæðinu leitað til þeirra. Upplýsingar um búsetu sjúklinga þeirra eru ekki aðgengilegar. Sjúklingar eru ekki sjálfkrafa afskráðir af heilsugæslustöðvunum, þótt þeir skipti um lögheimili.
    Sú staðreynd að meðaltalsfjöldi sjúklinga á hvern heimilislækni á svæðinu er ekki meiri en um 1.700 manns, sem og að opið er fyrir skráningu sjúklinga á svæðinu, gefur tilefni til að ætla að ekki séu margir án heimilislæknis.