Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 325. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 412  —  325. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Björns Inga Hrafnssonar um sameiningu lögregluembætta.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvernig er háttað undirbúningi að sameiningu lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu?
     2.      Hefur verið tekin ákvörðun um staðsetningu höfuðstöðva hins nýja embættis?


    Undirbúningur fyrir sameiningu lögregluembættanna á höfuðborgarsvæðinu hefur staðið yfir frá miðju síðasta sumri. Miklar breytingar eru framundan á höfuðborgarsvæðinu þar sem þrjú stór lögreglulið verða að einu frá og með næstu áramótum.
    Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu var skipaður um mitt síðasta sumar og hefur hann það hlutverk fram að áramótum að undirbúa stofnun hins nýja embættis. Það starf hefur verið viðamikið og tekið til margra þátta og verður nú gerð grein fyrir þeim helstu.
    Í fyrsta lagi hefur grundvallarstefna hins nýja embættis verið mótuð, svo og skipulag og skipurit, sem ráðherra staðfesti til bráðabirgða hinn 5. október sl. Meginmarkmiðið er að auka öryggi og öryggistilfinningu þeirra sem búa, starfa og dveljast á höfuðborgarsvæðinu, auk þess er stefnt að fækkun afbrota á nánar skilgreindum sviðum. Nokkrir lykilþættir eru skilgreindir af hálfu hins nýja embættis til að ná þessum markmiðum en þar á meðal eru aukin sýnileg löggæsla, efld hverfa- og grenndarlöggæsla og forvarnastarf í samvinnu við sveitarfélög, stofnanir, fyrirtæki, félagasamtök og einstaklinga. Jafnframt er að því stefnt að bæta gæði og auka skilvirkni við rannsóknir sakamála. Er til dæmis fyrirhugað að við embættið verði starfrækt sérstök rannsóknardeild og hefur þeim áformum verið fagnað sérstaklega af þeim sem vel til þekkja á því sviði. Þá eru áform um að efla umferðarlöggæslu með því að hafa sérstaka umferðardeild hjá hinu nýja embætti, bæði til halda utan um sérhæfða almenna löggæslu og rannsóknir mála á þessu sviði. Fjölmörg önnur dæmi mætti rekja af þessu tagi en þessar áherslur og skipulag undirstrika það meginmarkmið að auka öryggi og öryggistilfinningu borgaranna á öllum sviðum.
    Í öðru lagi hefur verið unnið að þessum undirbúningi í samvinnu við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu. Lögreglustjóri höfuðborgarsvæðisins hefur fundað sérstaklega með forsvarsmönnum sveitarfélaganna á svæðinu, félagsmálayfirvöldum, hverfaráðum og íbúasamtökum.
    Í þriðja lagi hefur verið unnið að þessum breytingum með aðkomu og þátttöku væntanlegra starfsmanna hins nýja embættis í gegnum sérstaka ráðgjafanefnd, en þar eiga starfsmenn og stéttarfélög fulltrúa. Ráðgjafanefndinni stýrir Ólafur K. Ólafsson, sýslumaður Snæfellinga, en hann stýrir innleiðingu breytinga á skipulagi lögreglunnar á landinu öllu sem sérstakur verkefnisstjóri í ráðuneytinu.
    Undir hið nýja embætti falla allar eignir lögregluembættanna þriggja á höfuðborgarsvæðinu: Þrjár lögreglustöðvar í Hafnarfirði, Kópavogi og Reykjavík auk svæðisstöðva í Mosfellsbæ, Grafarvogi, Breiðholti, Seltjarnarnesi og Garðabæ. Verða allar þessar stöðvar nýttar en höfuðstöðvar embættisins verða a.m.k. til að byrja með á Hverfisgötu 113–115 í Reykjavík.
    Nýbyggingar í þágu fangelsa er forgangsverkefni í byggingarmálum hjá ráðuneytinu, þar á meðal bygging nýs fangelsis á höfuðborgarsvæðinu. Spurning er hvort hagkvæmt er að huga að nýjum höfuðstöðvum fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu í tengslum við nýtt gæsluvarðhalds- og móttökufangelsi. Slíkt sambýli er vel þekkt í nágrannalöndum okkar og hefur reynst vel bæði faglega og fjárhagslega.