Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 310. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 426  —  310. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Magnúsar Þórs Hafsteinssonar um erlent starfsfólk.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hversu margir karlar og konur með erlent ríkisfang voru starfandi á Íslandi 1. nóvember sl.?
     2.      Hvernig skiptist þessi fjöldi eftir atvinnugeirum (frumvinnsla, iðngreinar, þjónustugreinar)?
     3.      Hvernig skiptust starfandi erlendir ríkisborgarar eftir ríkisfangi?
     4.      Hversu margir starfsmenn hafa verið skráðir mánaðarlega á vegum starfsmannaleigna frá 1. janúar 2005?
     5.      Hvernig skiptust þessir starfsmenn eftir ríkisfangi?


    Við undirbúning þessa svars var upplýsinga aflað frá Vinnumálastofnun.
    Vinnumálastofnun byggir að hluta til tölur sínar á upplýsingum frá Hagstofu Íslands og samkvæmt upplýsingum Hagstofunnar tekur þrjá til sex mánuði að safna saman gögnum þannig að unnt sé að birta tölur fyrir einstaka mánuði. Af þeim sökum liggja upplýsingar um tölur frá því í október ekki fyrir. Að mati Vinnumálastofnunar má þó gera ráð fyrir að af þeim 9.000 erlendu ríkisborgurum sem voru starfandi hér á landi á síðasta ári séu um það bil 6.000 enn starfandi hér, ef miðað er við að margir af þessum 9.000 voru ráðnir tímabundið eða á vegum starfsmannaleigna. Frá 1. janúar 2006 til 1. október 2006 er áætlað að um það bil 10.000 erlendir ríkisborgarar hafi komið til starfa á innlendum vinnumarkaði en af þeim hafi 2.772 fengið tímabundið atvinnuleyfi, 2.449 hafi verið skráðir sem nýir á innlendum vinnumarkaði hjá Vinnumálastofnun og sem ríkisborgarar frá nýju aðildarríkjunum að Evrópska efnahagssvæðinu. Frá starfsmannaleigum hafa Vinnumálastofnun borist 1.056 tilkynningar um erlenda starfsmenn. Því má gera ráð fyrir að um 16.000 erlendir ríkisborgarar starfi hér á landi um þessar mundir.
    Sundurgreining á bakgrunnsþáttum erlendra starfsmanna liggur ekki fyrir en skipting nýrra atvinnuleyfa á tímabilinu janúar til apríl sl. var með eftirfarandi hætti: Frumvinnsla 9%, úrvinnsla 72%; þar af byggingariðnaður 64% og þjónusta 19%. Að mati Vinnumálastofnunar má gera ráð fyrir að svipuð dreifing sé hjá öðrum erlendum ríkisborgurum sem hér starfa en falla utan þess tímabils sem að framan greinir.
    Þeir erlendu ríkisborgarar sem hafa komið til starfa hér á landi á þessu ári hafa ríkisborgararétt í eftirfarandi ríkjum:

Póllandi 6.059
Portúgal 781
Litháen 555
Lettland 453
Þýskaland 438
Svíþjóð 294
Danmörk 195
Bretland 176
Tékkland 138
Ítalía 132
Rúmenía 127
Finnland 117
Slóvakía 114
Frakkland 107
Spánn 76
Noregur 59
Kína 42
Indónesía 42
Bandaríkin 40
Holland 38
Austurríki 37
Írland 28
Ungverjaland 27
Eistland 23
Sviss 18
Belgía 16
Önnur lönd 257
Alls 10.389

    Skráning á grundvelli laga um starfsmannaleigur, nr. 139/2005, hófst í janúar sl. en lögin tóku gildi 1. sama mánaðar. Í lok maí höfðu 675 starfsmenn verið skráðir á innlendum vinnumarkaði á vegum starfsmannaleigna en síðan hafa verið skráðir um það bil 100 starfsmenn á mánuði. Á sama tíma hafa um það bil 20 starfsmenn verið afskráðir en þetta eru starfsmenn sem ljúka störfum hér á landi. Þegar þetta svar var unnið voru 1.024 starfsmenn skráðir á innlendum vinnumarkaði á vegum starfsmannaleigna en þar af var 861 starfsmaður virkur í lok október
    Skipting þessara starfsmanna eftir ríkisfangi er eftirfarandi:

Gömlu EES-löndin:
Portúgal 521
Ísland 67
Þýskaland 63
Danmörk 25
Spánn 11
Svíþjóð 5
Noregur 1
Alls 693
Nýju EES-löndin:
Pólland 173
Litháen 88
Slóvakía 38
Tékkland 27
Ungverjaland 5
Alls 331
EES-lönd alls 1.024