Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 114. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 488  —  114. mál.




Svar


viðskiptaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um eignarhluta og þátttöku viðskiptabankanna í annarri starfsemi.

     1.      Hver var eignarhlutur annars vegar og hins vegar þátttaka bankanna í óskyldum rekstri, sbr. ákvæði 21. og 22. gr. laga um fjármálafyrirtæki, sundurliðað eftir atvinnugreinum og árunum 2003 til 1. júlí 2006? Hve lengi hefur þátttaka bankanna í óskyldri starfsemi staðið?
    Í töflunni sem fylgir svarinu er tilgreindur samanlagður eignarhluti bankanna þriggja í óskyldri starfsemi, sundurliðaður eftir atvinnugreinum samkvæmt skýrslugjöf þeirra til Fjármálaeftirlitsins, sbr. 21. og 22. gr. laga nr. 161/2002. Vakin er athygli á því að undir 22. gr. geta líka fallið fullnustueignir. Um er að ræða upplýsingar frá 30. júní 2004 til 30. júní 2006. Ekki er um að ræða upplýsingar fyrir árið 2003 þar sem leiðbeinandi tilmæli um efnið tóku ekki gildi fyrr en á árinu 2004. Ekki reyndist mögulegt fyrir Fjármálaeftirlitið að gera grein fyrir tímalengd þátttöku í atvinnustarfsemi í hverju tilviki, enda er um samantekt á upplýsingum að ræða.

     2.      Hver er reynsla Fjármálaleftirlitsins af leiðbeinandi tilmælum sem sett voru 2001 um þátttöku viðskiptabanka, sparisjóða og lánafyrirtækja í atvinnustarfsemi?
    Fjármálaeftirlitið gaf út umræðuskjal í október 2003 þar sem sett voru fram drög að leiðbeinandi tilmælum um þátttöku í atvinnustarfsemi. Leiðbeinandi tilmæli um þetta efni voru hins vegar ekki sett fyrr en í júní 2004.
    Segja má að fullnægjandi reynsla hafi verið komin á skýrslugjöf samkvæmt tilmælunum í lok árs 2005. Svo sem fram kemur í árskýrslu Fjármálaeftirlitsins hefur eftirlitið haft þátttöku þessara aðila í atvinnustarfsemi til sérstakrar skoðunar. Einnig hefur komið fram af hálfu Fjármálaeftirlitsins að þess megi vænta að leiðbeinandi tilmæli eftirlitsins verði tekin til endurskoðunar. Ekki tókst að ljúka fyrrgreindri skoðun á árinu vegna annarra verkefna sem tekið hafa meiri tíma en ætlað var en stefnt er að því að henni ljúki á vormánuðum næsta árs.

     3.      Hefur Fjármálaeftirlitið gert athugasemdir við viðskiptabankana um að starfsemi þeirra skv. 21.–23. gr. laga um fjármálafyrirtæki feli í sér hagsmunaárekstra eða gangi gegn ákvæðum laga og reglna sem um slíka starfsemi gilda?
    Fjármálaeftirlitið hefur í ákveðnum tilvikum gert athugasemdir og komið ábendingum á framfæri við eftirlitsskylda aðila varðandi framkvæmd ákvæða IV. kafla laganna og leiðbeinandi tilmæla eftirlitsins.

     4.      Er ástæða til að mati ráðherra eða Fjármálaeftirlitsins að setja í löggjöf hert ákvæði um eignarhluta eða þátttöku banka í óskyldri starfsemi, þ.m.t. ákvæði um hve lengi slík þátttaka eða eignaraðild bankanna getur varað?
    Ráðherra og Fjármálaeftirlitið telja koma til greina að endurskoða viðkomandi ákvæði en benda þó á að þau eru sambærileg þeim sem gilda t.d. í dönskum lögum og að við slíka endurskoðun þyrfti að gæta að samræmi við löggjöf og framkvæmd nágrannaríkja Íslands að þessu leyti.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.