Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 116. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 534  —  116. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um meðlagsgreiðslur.

     1.      Hvernig er fyrirkomulag meðlagsgreiðslna og upphæð lágmarksmeðlags hér á landi samanborið við önnur ríki á Norðurlöndum?
    Fyrirkomulag meðlagsgreiðslna hér á landi er með þeim hætti að meðlag ber að greiða með öllum börnum til 18 ára aldurs þegar barn býr ekki hjá báðum foreldrum sínum. Á það við bæði þegar foreldrarnir fara sameiginlega með forsjá barnsins eftir skilnað eða samvistarslit, og greiðist þá meðlagið til þess foreldris sem barnið á lögheimili hjá, og þegar forsjá barnsins er í höndum annars foreldris. Grundvöllur meðlagsgreiðslna er ýmist samningur foreldra, staðfestur af sýslumanni, úrskurður stjórnvalds eða dómur.
    Upphæð lágmarksmeðlags má aldrei vera lægri en sem nemur barnalífeyri eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma samkvæmt lögum um almannatryggingar, sbr. 55. gr. og 57. gr. gildandi barnalaga, nr. 76/2003. Þessi regla hefur verið í gildi í barnalögum frá því fyrstu barnalögin voru lögfest, lög nr. 9/1981.
    Í svari við þessum lið fyrirspurnarinnar eru ekki niðurstöður samanburðarrannsókna á íslenskum rétti og rétti annarra ríkja á Norðurlöndum enda fellur slíkt utan við þau mörk sem fyrirspurnum eru sett í 49. gr. laga nr. 55/1991 um þingsköp Alþingis.

     2.      Hver er skattaleg staða meðlagsgreiðenda gagnvart meðlagi og bótagreiðslum, svo sem barnabótum og vaxtabótum, hér á landi samanborið við önnur ríki á Norðurlöndum?
    Skattaleg staða meðlagsgreiðanda hér á landi að því er meðlag varðar er sú að meðlag er ekki frádráttarbært frá skattskyldum tekjum. Staða meðlagsgreiðanda að því er varðar bótagreiðslur er m.a. sú að barnabætur renna ekki til meðlagsgreiðanda og meðlagsgreiðslur hafa ekki áhrif á greiðslur vaxtabóta.
    Skattheimta og greiðslur félagslegra bóta falla að öðru leyti utan þeirra málaflokka sem ráðherra ber ábyrgð á.

     3.      Hvaða reglur gilda um skyldu meðlagsgreiðenda til að greiða aukameðlag, hvaða rök liggja að baki þeim reglum, og telur ráðherra ástæðu til að endurskoða þær reglur sem gilda um meðlagsgreiðslur almennt?
    Ef foreldri barns, sem rétt á að fá greitt meðlag með því, telur þörf á hærri meðlagsgreiðslum en einföldu meðlagi (lágmarksmeðlagi) og ekki næst samkomulag foreldra þar að lútandi, má bera mál upp við sýslumann, sbr. 1. mr. 57. gr. barnalaga, eða við dómara að uppfylltum skilyrðum 6. mgr. 57. gr.
    Í 2. mgr. 57. gr. er mælt fyrir um að meðlag skuli ákveða með hliðsjón af þörfum barns og fjárhagsstöðu og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra. Ákvæðið verður þó að skoðast með hliðsjón af 3. mgr. sömu greinar. Í athugasemdum við 57. gr. frumvarps þess sem varð að barnalögum nr. 76/2003 var gerð grein fyrir því að þegar krafa um aukið meðlag hafi verið borin fram hafi verið byggt á þeim sjónarmiðum sem getið er í 2. mgr. Þeim til fyllingar hafi að auki í framkvæmd myndast verklagsreglur sem stuðst hafi verið við við ákvarðanatöku í málum er varða kröfur um aukið meðlag. Þannig hafi ákvörðun um meðlagsfjárhæð almennt verið byggð á upplýsingum og gögnum sem aðilar hafi látið úrskurðaraðila í té um þarfir barns, fjárhag og félagslega stöðu foreldra og aflahæfi þeirra. Sú venja hafi skapast að aðilar leggi fram staðfest ljósrit skattframtala fyrir tvö undanfarandi ár og launaseðla vegna tekna yfirstandandi árs en að jafnaði einnig sérstaka greinargerð um fjárhag og félagslega stöðu, en dómsmálaráðuneytið hafi látið sýslumönnum í té sérstakt eyðublað sem foreldrar fylli venjulega út varðandi fjárhagslega og félagslega stöðu. Ef svo hátti til að krafa um aukið meðlag sé byggð á langvarandi veikindum barns eða foreldris sé sú krafa almennt gerð að frásögn viðkomandi þar að lútandi sé staðfest með læknisvottorði. Hafi meðlagsgreiðandi fjárhagslegt bolmagn til þess að greiða aukið meðlag með barni sínu, að teknu tilliti til atvika máls að öðru leyti, sé viðkomandi gert að greiða aukið meðlag. Dómsmálaráðuneytið hafi árlega látið sýslumönnum í té viðmiðunarfjárhæðir sem hafðar hafi verið til leiðbeiningar við ákvarðanatöku í málum vegna aukins meðlags og hafi meginmarkmiðið með því verið að tryggja að samræmis og jafnræðis sé gætt við ákvarðanatöku í meðlagsmálum, svo sem greint hafi verið í dreifibréfi ráðuneytisins til sýslumanna. Viðmiðunartekjur ráðuneytisns hafi verið framreiknaðar árlega til samræmis við breytingar á vísitölu neysluverðs og sendar sýslumönnum. Í frumvarpinu hafi verið gert ráð fyrir að sá háttur verði áfram hafður á. Þrátt fyrir þessar viðmiðunartekjur ráðuneytisins beri ávallt að gæta að því í sérhverju máli að ákveða fjárhæð meðlags með hliðsjón af þörfum barns og öðrum högum beggja foreldra, þar á meðal aflahæfi þeirra. Viðmiðunartafla ráðuneytisins leysi með öðrum orðum úrskurðaraðila ekki undan skyldubundnu mati á aðstæðum í hverju máli fyrir sig. Tafla ráðuneytisins sem gilti frá 30. apríl 2002 var birt í athugasemdunum og er þar einnig að finna skýringar á því hvernig taflan skuli notuð o.fl., m.a. um aðgang aðila að gögnum sem lögð hafa verið fram.
    Sú tafla sem nú er í gildi er frá 29. maí sl. og er sem hér greinir:

Tekjur á mánuði, u.þ.b. 1 barn 2 börn 3 börn
281.000 Lágmarksmeðlag + 50% Lágmarksmeðlag + 25%
310.000 Lágmarksmeðlag + 75%
340.000 Lágmarksmeðlag + 100% Lágmarksmeðlag + 50% Lágmarksmeðlag + 25%
375.000 Lágmarksmeðlag + 75%
412.000 Lágmarksmeðlag + 100% Lágmarksmeðlag + 50%
453.000 Lágmarksmeðlag + 75%
499.000 Lágmarksmeðlag + 100%

    Í 72. gr. gildandi barnlaga er svo að finna ákvæði um rannsókn máls, þar sem m.a. kemur fram að aðilum beri að afla þeirra gagna sem sýslumaður telur þörf á til úrlausnar máls og að hann geti enn fremur aflað gagna að eigin frumkvæði ef þörf krefur, sbr. 10. gr. stjórnsýslulaga. Frekari heimildir sýslumanns, m.a. til gagnaöflunar, er enn fremur að finna í 72. gr. barnalaga.
    Að því er varðar þörf á því að endurskoða reglur um meðlagsgreiðslur frá grunni, er rétt að minna á að gildandi barnalög eru aðeins þriggja ára gömul. Undirbúningur þeirrar löggjafar var vandaður og vann sifjalaganefnd að samningu frumvarps þess sem varð að barnalögum nr. 76/2003 um langt skeið. Voru fjölmargir kallaðir til við undirbúning og samningu þess, svo sem rakið er í athugasemdum með frumvarpinu. Stórfelldar athugasemdir við núgildandi meginreglur um meðlög komu hvorki fram við undirbúning og samningu frumvarpsins, né við meðferð frumvarpsins á Alþingi, en frumvarpið haggaði lítt við eldri skipan meðlagsmála. Ráðherra hafa borist kvartanir um að ákvarðanir um aukameðlag séu ósanngjarnar. Hvort þær stafa af því að reglur um þetta efni séu illa úr garði gerðar eða ósætti sé um niðurstöðu þeirra sem þurfa að úrskurða á grundvelli reglnanna er matsatriði hverju sinni. Að mati ráðherra er eðlilegt að fylgjast grannt með reynslunni af barnalögunum og huga að breytingum ef haldbær rök eru fyrir því færð, t.d. að bæta megi ákvæði þeirra um meðlög.

     4.      Hve margir meðlagsgreiðendur greiddu aukameðlag árlega frá árinu 2000 til 1. október 2006, annars vegar aukameðlag samkvæmt úrskurðum sýslumannsembættanna og hins vegar sérstakt meðlag, sundurliðað eftir tegundum greiðslna? Hvert er hlutfall hvors hóps um sig af heildarfjölda meðlagsgreiðenda?

    Ekki er vitað hve margir meðlagsgreiðendur greiddu aukameðlag á umræddu tímabili, þ.e. meðlag umfram barnalífeyri samkvæmt lögum um almannatryggingar á grundvelli úrskurða sýslumanna. Aðkoma yfirvalda að þeim málum er takmörkuð við að kveða upp úrskurði en þau hafa engin tök á að fylgjast með því hvort og hve lengi meðlagsgreiðendur eru krafðir um greiðslu á grundvelli úrskurðanna. Sumir þeirra sem greiða aukið meðlag núna gera það á grundvelli úrskurða og staðfestra skilnaðarsamninga sem gerðir voru fyrir allt að 18 árum, en rétt er að hafa í huga að auk þess fjölda sem tilgreindur er í töflunni hér á eftir, greiðir talsverður hópur meðlagsgreiðenda aukið meðlag samkvæmt samkomulagi, gjarnan staðfestu af sýslumanni. Hér að neðan má sjá fjölda þeirra úrskurða sýslumanna sem kveða á um skyldu til að greiða aukið meðlag:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Um sérstök framlög á grundvelli 60. gr. barnalaga var úrskurðað á tímabilinu sem hér greinir:

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Hér á enn frekar við það sem fyrr var rakið að þessar tölur geyma eflaust ekki nema hluta þeirra sem greiða framlög til þess foreldris sem barn býr hjá. Engin ákvæði eru um staðfestingu sýslumanns á slíkum framlögum og algengast að foreldrar geri þau upp sín á milli án nokkurrar aðkomu yfirvalda.

     5.      Telur ráðherra ástæðu til að breyta fjárhæð meðlagsgreiðslna þannig að þær taki meira mið af raunverulegri framfærsluþörf barna?

    Ekki er stefnt að neinni breytingu á þeirri meginreglu að lágmarksmeðlag miðist við barnalífeyri eins og hann er ákveðinn á hverjum tíma en að hækka megi þetta framlag m.a. með tilliti til þess að meðlagsgreiðandi teljist vel aflögufær. Um fjárhæð barnalífeyris fer samkvæmt lögum um almannatryggingar og Alþingi á því ákvörðunarvald um fjárhæð lágmarksmeðlags.