Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 335. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 535  —  335. mál.




Svar


dómsmálaráðherra við fyrirspurn Álfheiðar Ingadóttur um afdrif hælisleitenda.

    Fyrirspurnin er svohljóðandi:
     1.      Hversu margir hafa sótt um pólitískt hæli hérlendis árlega frá 2001 til miðs árs 2006 og hversu mörg börn yngri en 16 ára voru þar á meðal? Hver urðu afdrif umsóknanna og hversu mörgum var veitt hæli?
     2.      Hversu mörg börn hafa hælisleitendum fæðst hér á landi á umræddu tímabili? Hvaða breytingar verða á réttarstöðu hælisleitenda við að eignast barn hérlendis?


    Á 130. og 131. löggjafarþingi komu einnig fram fyrirspurnir frá háttvirtum varaþingmanni Reykjavíkurkjördæmis – suður, Álfheiði Ingadóttur, sama efnis.
    Á 130. löggjafarþingi var einnig samþykkt beiðni 2. þingmanns Norðvesturkjördæmis, Jóhanns Ársælssonar, um skýrslu um þetta efni og var skýrslunni dreift á þinginu. Er vísað til skýrslunnar. Þá spurði 3. þingmaður Reykjavíkurkjördæmis – norður, Guðrún Ögmundsdóttir, um þetta efni á síðasta þingi. Þessi svör eru því að mestu leyti uppfærsla á eldri upplýsingum um þessi mál.

1. Fjöldi hælisleitenda árin 2001–2006.

Árið 2001.
    Árið 2001 komu fram 53 umsóknir um hæli hér á landi, þar af voru 12 börn. Afdrif umsóknanna voru þannig að 35 drógu umsókn til baka eða voru fluttir til fyrra umsóknarríkis, þ.m.t. sex börn, átta fengu dvalarleyfi, þ.m.t. þrjú börn og 10 var synjað, þ.m.t. þremur börnum. Enginn umsækjanda var talinn flóttamaður í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og fékk því enginn þeirra hæli hér á landi.

Árið 2002.
    Árið 2002 sóttu 117 útlendingar um hæli hér á landi, þar af voru 25 börn; fimm fengu dvalarleyfi, þar á meðal tvö börn, 36 umsækjendur voru fluttir til fyrra umsóknarríkis, þ.m.t. átta börn, 61 dró umsókn sína til baka, þ.m.t. 13 börn, og 15 umsækjendum var synjað, þ.m.t. tveimur börnum. Enginn umsækjanda var talinn flóttamaður í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og fékk því enginn þeirra hæli hér á landi.

Árið 2003.
    Árið 2003 sóttu 80 einstaklingar um hæli á Íslandi. Þar af voru 10 börn undir 16 ára aldri, öll í fylgd með foreldrum. Af þeim 80 umsóknum sem lagðar voru fram á árinu 2003 var ákvarðað um veitingu dvalarleyfis af mannúðarástæðum í þremur málum, synjað var um hæli í 21 máli, 26 einstaklingar voru sendir úr landi á grundvelli Dyflingarsamningsins eða Dyflinarreglugerðarinnar og 30 einstaklingar hurfu eða drógu umsóknir sínar til baka. Enginn umsækjanda var talinn flóttamaður í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og fékk því enginn þeirra hæli hér á landi.

Árið 2004.
    Árið 2004 sóttu 76 einstaklingar um hæli á Íslandi. Þar af voru 12 börn undir 16 ára aldri, öll í fylgd með foreldrum. Af þeim 76 umsóknum sem lagðar voru fram á árinu 2004 var ákvarðað um veitingu dvalarleyfis af mannúðarástæðum í þremur málum, synjað var um hæli í 37 málum, 16 einstaklingar voru sendir úr landi á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar, fjórir einstaklingar voru sendir úr landi á grundvelli Norðurlandasamningsins og 15 einstaklingar hurfu eða drógu umsóknir sínar til baka. Nú bíður einn umsækjandi niðurstöðu í máli sínu sem er í kærumeðferð hjá dómsmálaráðuneytinu en umsókn hans um hæli var synjað hjá Útlendingastofnun og hefur meðferð málsins tafist, m.a. vegna heilsubrests viðkomandi. Enginn umsækjanda var talinn flóttamaður í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og fékk því enginn þeirra hæli hér á landi.

Árið 2005.
    Árið 2005 sóttu 87 einstaklingar um hæli á Íslandi. Þar af voru 10 börn undir 16 ára aldri, öll í fylgd með foreldrum. Af þeim 87 umsóknum sem lagðar voru fram á árinu 2005 hefur verið ákvarðað um veitingu dvalarleyfis af mannúðarástæðum í einu máli, veitingu dvalarleyfis til bráðabirgða í einu máli, synjað um hæli í 50 málum, 24 einstaklingar voru sendir úr landi á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar, einn útlendingur var sendur úr landi á grundvelli Norðurlandasamningsins og sex umsækjendur hurfu eða drógu umsóknir sínar til baka. Alls bíða fjórir umsækjendur niðurstöðu í málum sínum hjá Útlendingastofnun. Þá bíður einn umsækjandi niðurstöðu í máli sínu sem er í kærumeðferð hjá dómsmálaráðuneytinu en umsókn hans um hæli var synjað hjá Útlendingastofnun. Enginn umsækjanda var talinn flóttamaður í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og fékk því enginn þeirra hæli hér á landi.

Árið 2006.
    Þann 30. júní árið 2006 höfðu 17 einstaklingar sótt um hæli á Íslandi. Þar af voru fjögur börn undir 16 ára aldri, öll í fylgd með foreldrum. Af þessum 17 umsóknum sem lagðar höfðu verið fram 30. júní 2006 hefur verið ákvarðað um synjun um hæli í 11 málum, tveir umsækjendur voru sendir úr landi á grundvelli Dyflinarreglugerðarinnar, einn umsækjandi hefur horfið og þá bíða þrír umsækjendur eftir niðurstöðu í málum sínum hjá Útlendingastofnun. Enginn umsækjanda hefur á þessu ári verið talinn flóttamaður í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna og hefur því enginn þeirra fengið hæli hér á landi.

2. Börn hælisleitenda sem fæðast hérlendis og áhrif á réttarstöðu foreldra.
    Fáir hælisleitendur hafa eignast barn hér á meðan mál þeirra hafa verið til meðferðar fyrir íslenskum stjórnvöldum. Aðeins er vitað um að tveir hælisleitendur hafi eignast barn hér á landi á undanförnum árum. Annað barnið fæddist hjónum í nóvember árið 2003. Þeirri fjölskyldu var veitt dvalarleyfi af mannúðaraðstæðum og dvelur hún hér enn. Í hinu tilvikinu er um að ræða barn sem fæddist í maí á þessu ári. Maðurinn hafði verið sendur úr landi til Spánar þar sem hann hafði haft dvalarleyfi og lauk þannig hælismeðferð hans. Var það í lok júlí 2005. Eftir að maðurinn var farinn úr landi bárust Útlendingastofnun upplýsingar um að hann ætti von á barni með íslenskri konu búsettri hérlendis.

    Þá hefur Útlendingastofnun fengið upplýsingar um að hælisleitandi sem lokið hefur hælismeðferð hjá Útlendingastofnun en er með umsókn sína í kærumeðferð hjá dómsmálaráðuneytinu eigi von á barni hér á landi. Bárust þær upplýsingar eftir að máli hans lauk hjá Útlendingastofnun 17. ágúst 2006.
    Réttarstaða hælisleitenda breytist ekki hér á landi við það að eignast barn á meðan mál þeirra er til meðferðar hjá íslenskum stjórnvöldum. Ákvæði í íslenskum lögum taka ekki á stöðu hælisleitenda við þær aðstæður. Rétt er þó að geta þess að með lögum nr. 20/2004 var útlendingalögunum breytt í þá átt að bæta réttarstöðu barns flóttamanns, þ.e. hælisleitanda sem telst flóttamaður í skilningi flóttamannasamnings Sameinuðu þjóðanna, fæðist það eftir komu foreldris til landsins. Barnið hefur þá sömu réttarstöðu og foreldri, sbr. 1. mgr. 47. gr. útlendingalaga, nr. 96/2002.
    Hvert mál hælisleitanda er metið sérstaklega og þá með hagsmuni hlutaðeigandi barns og réttindi og skyldur foreldris að leiðarljósi og er þar m.a. horft til gildandi laga um börn og barnavernd, mannréttindasáttmála og annarra viðeigandi réttarheimilda.