Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 327. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 561  —  327. mál.




Svar


fjármálaráðherra við fyrirspurn Björns Inga Hrafnssonar um almenningssamgöngur.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Telur ráðherra koma til greina að fella niður opinber gjöld á rekstur almenningssamgangna?

    Almenningssamgöngur geta falið í sér bifreiðasamgöngur, flugsamgöngur, ferjusiglingar og rekstur mannvirkja eins og Hvalfjarðarganga. Þar sem fyrirspurnin er svo víðtæk og krefst töluverðs tíma ef svara ætti henni samkvæmt því, hefur svarið verið miðað við almenningssamgöngur á höfðuborgarsvæðinu með tilliti til strætisvagna.
    Opinber gjöld á fyrirtæki í strætisvagnasamgöngum á höfuðborgarsvæðinu eru eftirtalin:

Virðisaukaskattur.
    Fólksflutningar, þ.m.t. almenningssamgöngur, falla ekki undir skattskyldusvið virðisaukaskatts, sbr. 6. tölul. 3. mgr. 2. gr. laga um virðisaukaskatt , nr. 50/1988. Í því felst að ekki ber að innheimta virðisaukaskatt af þóknun fyrir fólksflutninga (fargjald).

Tekjuskattur.
    Fyrirtækið sem rekur strætisvagnasamgöngur á höfuðborgarsvæðinu er byggðasamlag, þ.e. fyrirtæki rekið af sveitarfélögum og með ótakmarkaðri ábyrgð þeirra. Það er undanþegið tekjuskatti skv. 2. tölul. 4. gr. laga um tekjuskatt, nr. 90/2003.

Bifreiðagjald og úrvinnslugjald.
    Bifreiðagjald er lagt á samkvæmt lögum um bifreiðagjald, nr. 39/1988, og úrvinnslugjald skv. 5. gr. laga um úrvinnslugjald, nr. 162/2002.

Kílómetragjald.
    Ekki er lagt kílómetragjald á ökutæki sem ætluð eru til fólksflutninga, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 13. gr. laga um olíugjald og kílómetragjald o.fl., nr. 87/2004.

Olíugjald.
    Samkvæmt 6. gr. laga um olíugjald og kílómetragjald o.fl., nr. 87/2004, skal endurgreiða 80% olíugjalds af olíu vegna aksturs almenningsvagna.

    Eins og sjá má á yfirlitinu greiða fyrirtæki í strætisvagnasamgöngum á höfðuborgarsvæðinu eingöngu bifreiðagjald, úrvinnslugjald og 20% af olíugjaldi. Í ljósi þessa er frekari niðurfelling opinberra gjalda ekki fyrirhuguð.