Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 355. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 715  —  355. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Katrínar Júlíusdóttur um námslán fyrir skólagjöldum í íslenskum háskólum og endurgreiðslur námslána.

     1.      Hve há eru árleg útlán Lánasjóðs íslenskra námsmanna vegna skólagjalda í íslenskum háskólum og hvert er hlutfall þeirra af heildarlánum til nemenda við hérlenda háskóla sem taka skólagjöld?
    Einungis er veitt lán vegna árlegra skólagjalda umfram 45.000 kr. og er þá veitt lán fyrir umframupphæðinni. Dæmi:
    Árleg skólagjöld + 100.000 kr.
    Sjálfsfjármögnun – 45.000 kr.
    Veitt lán = 55.000 kr.
    Á námsárinu 2005–2006 voru veitt skólagjaldalán að upphæð 492 millj. kr. til nemenda í íslenskum háskólum. Heildarlán sjóðsins til nemenda í íslenskum háskólum voru 4.755 millj. kr. á námsárinu. Hlutfall skólagjaldalána er því 10,4% af heildarlánum til þessa hóps.

     2.      Hver er kostnaður sjóðsins við þessi lán og hversu mikið er talið að muni verða endurgreitt samkvæmt núgildandi reglum sjóðsins?
    Miðað við núgildandi reglur má gera ráð fyrir að kostnaður LÍN vegna affalla og niðurgreiðslu útlánavaxta sé um 50% skólagjaldalána og þar með að lántakendur endurgreiði að meðaltali um 50% lánanna.

     3.      Hver er talin verða árleg útgjaldaaukning sjóðsins ef tekin verða upp skólagjöld í háskólum sem hið opinbera rekur, miðað við nemendafjöldann námsárið 2005–2006, ef skólagjöldin verða:
                  a.      sambærileg við skólagjöld í íslenskum háskólum sem taka skólagjöld,
                  b.      300 þús. kr.,
                  c.      500 þús. kr.,
                  d.      700 þús. kr.,
                  e.      1 millj. kr.?

    Ef skólagjöld væru tekin upp í ríkisreknum háskólum á Íslandi má gera ráð fyrir neðangreindri útlánaaukningu hjá LÍN miðað við nemendafjölda skólaárið 2005–2006, ef skólagjöld væru:
     a.      220 þús. kr.:* 1.000 millj. kr.
     b.      300 þús. kr.: 1.590 millj. kr.
     c.      500 þús. kr.: 3.300 millj. kr.
     d.      700 þús. kr.: 4.760 millj. kr.
     e.      1 millj. kr.: 9.400 millj. kr.
* Skólagjöld í grunnháskólanámi HR.
    Í framangreindri áætlun er gert ráð fyrir að skólagjöld hafi áhrif á eftirspurn námsmanna eftir námslánum en aðeins hluti nemenda í fullu námi sækir nú um námslán. Gera má ráð fyrir að lánþegum fjölgi um 10% fyrir hverja 100 þús. kr. hækkun skólagjalda. Hér er um gefnar forsendur að ræða þar sem ekki liggja fyrir upplýsingar um hvaða áhrif skólagjöld munu hafa á eftirspurn eftir námslánum né liggur fyrir ákvörðun um skólagjöld í ríkisháskólum, hvað þá upphæðir í því sambandi.

     4.      Hversu mikill yrði kostnaður sjóðsins af slíkri útgjaldaaukningu, hversu mikið er talið mundu verða endurgreitt og á hve löngum tíma?
    Ef gengið er út frá framangreindum forsendum má gera ráð fyrir að endurgreiðsluhlutfall námslána lækki að meðaltali úr 50% eins og nú er í 35–40%. Jafnframt má gera ráð fyrir að meðaltal endurgreiðslutíma lána gæti lengst, en hann er nú áætlaður 22 ár frá útborgun láns. (Með öðrum orðum gæti kostnaður ríkisins numið allt að 60–65% af veittum lánum.) Í þessu samhengi er rétt að benda á að tekjur lánþega að námi loknu hafa áhrif á endurgreiðsluhlutfall námslána og þar með kostnað ríkissjóðs. Ef tekjur aukast er afleiðingin hærri árlegar afborganir, þar sem þær eru tekjutengdar og dregur það úr lækkun endurgreiðsluhlutfalls. Ítrekað skal að hér er einungis um viðmiðunartölur að ræða miðað við gefnar forsendur svo hægt sé að svara fyrirspyrjanda um hugsanleg áhrif skólagjalda í ríkisháskólum á Lánasjóð íslenskra námsmanna.

     5.      Hversu hátt hlutfall af öllum veittum lánum er talið að sjóðurinn fái endurgreitt samkvæmt núgildandi reglum sjóðsins?
    Eins og fram kemur í svari við 2. lið hér að framan er áætlað að lántakendur endurgreiði að meðaltali um 50% af öllum veittum lánum miðað við núgildandi reglur sjóðsins.