Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 207. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 724  —  207. mál.




Svar



heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra við fyrirspurn Gunnars Örlygssonar um greiðslur fyrir fylgdarmenn langveikra barna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Stendur til að foreldrar langveikra barna fái greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins fyrir tvo fylgdarmenn þegar barn þarf að fara utan í erfiða aðgerð? Ef svo er, hvenær má vænta þess?
     2.      Hversu mikill kostnaður yrði þessu fylgjandi fyrir Tryggingastofnun?


    Fyrirspurnin lýtur að reglugerð nr. 827/2002, um ferðastyrki Tryggingastofnunar ríkisins vegna brýnnar sjúkdómsmeðferðar erlendis. Á umliðnum árum hafa reglur verið á þann veg að greitt er fyrir báða foreldra ef barn þarf að fara til útlanda í erfiða sjúkdómsmeðferð vegna lífshættulegs sjúkdóms. Í ákveðnum tilvikum hefur þá einnig verið greitt fyrir fagfylgd, oftast hjúkrunarfræðing eða lækni. Ef ekki hefur verið um að ræða erfiða sjúkdómsmeðferð vegna lífshættulegs sjúkdóms hefur jafnan verið greitt fyrir annað foreldrið. Á það m.a. við um aðgerðir vegna missmíða á andliti eða eyrum, æðamissmíði í útlimum, skarð í góm og vör, kuðungsígræðslu, rannsóknir, leysimeðferð o.fl.
    Heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra ákvað fyrir nokkru að breyta framangreindri reglugerð í þá veru að ætíð skal greitt fyrir báða foreldra ef barn yngra en 18 ára þarf að fara utan vegna brýnnar sjúkdómsmeðferðar (eða tvo nánustu aðstandendur eftir því sem við á). Tók sú breyting gildi hinn 3. nóvember sl., sbr. reglugerð nr. 904/2006, um (1.) breytingu á reglugerð nr. 827/2002, um ferðastyrki Tryggingastofnunar ríkisins vegna brýnnar sjúkdómsmeðferðar erlendis.
    Framvegis verður því ætíð greitt fyrir tvo fylgdarmenn ef sjúklingur er yngri en 18 ára og þarf að fara í brýna sjúkdómsmeðferð til útlanda.
    Á árinu 2005 var greiddur ferðastyrkur og uppihaldskostnaður vegna 55 barna sem fengu meðferð á erlendu sjúkrahúsi. Kostnaðurinn við það var tæplega 30 millj. kr. Kostnaðarsömustu ferðirnar eru vegna barna sem þurfa báða foreldra og fagfylgd með sér, en það á jafnan við um veikustu börnin og erfiðustu aðgerðirnar. Á árinu var greitt fyrir annað foreldrið í 27 tilvikum. Því má gera ráð fyrir að nýtilkomin reglugerðarbreyting hafi áhrif á ferðastyrk vegna 25–30 barna á ári. Samkvæmt upplýsingum frá Tryggingastofnun ríkisins má ætla að um 10% kostnaðaraukningu verði að ræða.