Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 180. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 725  —  180. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um þjónustu á hjúkrunarheimilum.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvaða þjónusta fyrir hjúkrunarsjúkling er innifalin í daggjaldi á hjúkrunarheimili?

    Daggjöld hjúkrunarheimila eru ákvörðuð samkvæmt reiknilíkani ráðuneytisins og birt í reglugerð ráðherra í upphafi hvers árs. Við útreikning er RAI-mat hjúkrunarheimila lagt til grundvallar ásamt fjárheimildum í fjárlögum.
    Daggjöld á stofnunum sem ekki eru á föstum fjárlögum árið 2006 eru greidd samkvæmt reglugerð nr. 1162/2005. Tryggingastofnun ríkisins annast greiðslu daggjalda til hjúkrunarheimila samkvæmt reglugerðinni. Greitt er gjald til að mæta viðhaldskostnaði húsnæðis sem nýtt er til reksturs á hjúkrunarrýmum. Gjaldið árið 2006 er 2.226 kr. á m 2 á ári og reiknast að hámarki á 60 m 2 á hvert hjúkrunarrými að meðtöldu sameiginlegu rými. Gjaldið reiknast aldrei á stærra rými en sem stærð húsnæðisins nemur.
    Daggjöldum og húsnæðisgjaldi vegna viðhalds er ætlað að standa undir öllum rekstrarkostnaði við þjónustu og kostnaði við að mæta þeim kröfum sem gerðar eru um rekstur hjúkrunarheimilis í lögum, reglugerðum og skilmálablaði ráðuneytisins fyrir hjúkrunarheimili. Daggjöld og húsnæðisgjald vegna viðhalds miðast við að rekstraraðili beri fulla fjárhagslega ábyrgð á öllum rekstri, þ.m.t. greiðslu launa, lífeyrisiðgjöldum vegna starfsmanna, starfstengdum kostnaði eins og t.d. launum staðgengla vegna lengri veikinda, námsleyfa og námskostnaðar, svo og hugsanlegum bótakröfum frá vistmönnum. Hjúkrunarheimili er skylt að vera með sjúklingatryggingu skv. 10. gr. laga nr. 111/2000, um sjúklingatryggingu.
    Daggjald er greitt hjúkrunarheimili fyrir einn vistmann á sólarhring. Daggjald er greitt þrátt fyrir að vistmaður hverfi af stofnun í stuttan tíma, svo sem til aðstandenda yfir helgi eða hátíðir, enda hafi heilbrigðisyfirvöld ekki aukakostnað af dvölinni. Fari vistmaður á sjúkrahús til skammtímainnlagnar er greitt 70% af daggjaldi stofnunar í allt að 30 daga. Ef vistmaður dvelur lengur en 30 daga á sjúkrahúsi ber að sækja um heimild ráðuneytisins fyrir greiðslu daggjalds umfram 30 daga. Við andlát vistmanns eða þegar vistmaður flytur fyrir fullt og allt af stofnun er greitt daggjald í allt að sjö daga.
    Daggjald er greitt stofnun vegna krónískra nýrnasjúklinga þegar þeir vegna blóðskilunar eru innritaðir á Landspítala – háskólasjúkrahús. Sjúkrahúsið greiðir kostnað við lyfjagjöf eins og fyrir aðra blóðskilunarsjúklinga sem skráðir eru inn á sjúkrahúsið. Greiddar eru 890 kr. á dag til viðbótar daggjaldi hjúkrunarheimilis fyrir hvern krónískan nýrnasjúkling sem dvelst á hjúkrunarheimili og þarf blóðskilun á Landspítala – háskólasjúkrahúsi.
    Tryggja ber vistmönnum á hjúkrunarheimilum umönnun á því þjónustustigi sem er eðlilegast og hagkvæmast miðað við þörf og ástand vistmanns hverju sinni og eru í samræmi við þau markmið sem koma fram í 1. gr. laga nr. 125/1999, um málefni aldraðra, og reglugerð nr. 422/1992, um greiðslur öldrunarstofnana fyrir heilbrigðisþjónustu. Hjúkrunarheimili skal tryggja vistmönnum eftirfarandi þjónustu:
     1.      Hjúkrun og aðhlynningu.
     2.      Almenna læknishjálp og sérfræðilæknishjálp.
     3.      Lyf.
     4.      Rannsóknir og myndgreiningu.
     5.      Endurhæfingu, t.d. sjúkraþjálfun.
     6.      Hjálpartæki, þó ekki gleraugu, heyrnartæki eða hjólastóla.
     7.      Sjúkraflutning, annan en þann sem sjúkrahúsi ber að greiða.
     8.      Fullt fæði, sem m.a. tekur mið af manneldismarkmiðum Íslendinga ásamt sérfæði vegna ýmissa sjúkdóma og maukfæði.
     9.      Félagsþjónustu sem er við hæfi vistmanna og tryggir virkni þeirra.
     10.      Sálgæslu eftir viðurkenndum aðferðum, þ.m.t. heimsóknir til deyjandi eða mikið veikra, auk stuðnings við aðstandendur og starfsfólk.
     11.      Fjárvörslu og umsýslu fyrir heimilismenn. Hjúkrunarheimilið skal varðveita og halda utan um vasapeninga vistmanna með tryggum hætti ef vistmaður eða aðstandendur vistmanns óska þess.
     12.      Lín og fatnað. Hjúkrunarheimilið skal sjá vistmönnum fyrir sængurfatnaði, líni, nærfatnaði, hreinlætisvörum og þvotti. Enn fremur er heimilinu skylt að sjá um þvott á einkafatnaði vistmanna. Einkafatnað sem þarfnast meðhöndlunar í efnalaug eða handþvottar er hjúkrunarheimilinu þó ekki skylt að sjá um eða greiða fyrir.
    Vistmönnum skal tryggð fullnægjandi hjúkrunar- og læknisþjónusta, sbr. 1. og 2. tölul. hér að framan, sem tekur mið af þörfum þeirra á hverjum tíma og styðst við viðurkennd viðmið.
    Hjúkrunarheimilið skal skapa þannig umhverfi og andrúmsloft á heimilinu að vistfólki finnist aðstæður vera heimilislegar og notalegar. Stjórnendur heimilisins skulu sjá til þess að starfsfólk sýni virðingu og lipurð í samskiptum við vistmenn. Við val á starfsmönnum skal gera kröfu um hæfileika á sviði mannlegra samskipta.
    Hjúkrunarheimili er heimilt að kaupa sérhæfða heilbrigðisþjónustu og stoðþjónustu af sjálfstætt starfandi aðilum enda tryggt að þeir uppfylli ekki minni kröfur en gerðar eru í skilmálablaði heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins fyrir hjúkrunarheimili.
    Hjúkrunarheimilið framfylgir ákvæðum stjórnsýslulaga vegna þeirrar stjórnsýslu sem heimilinu er falið að annast og er hluti þeirrar þjónustu sem það á að veita. Um réttindi vistmanna að öðru leyti gilda almenn ákvæði laga nr. 74/1997, um réttindi sjúklinga, þ.m.t. ákvæði er lúta að sjálfsákvörðunarrétti sjúklinga.
    Skilmálablað um rekstur og uppbyggingu hjúkrunarheimila aldraðra má finna á vefslóðinni: www.heilbrigdisraduneyti.is/media/Eydublod/Skilmalablad jan.pdf.