Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 425. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 770  —  425. mál.




Svar



utanríkisráðherra við fyrirspurn Jóns Gunnarssonar um svæði sem notuð hafa verið til skot- og sprengjuæfinga.

     1.      Hvar eru þau 73 svæði á landinu sem notuð hafa verið til skot- og sprengjuæfinga Bandaríkjahers frá því í síðari heimsstyrjöld og hve stórt er hvert svæði? Óskað er eftir að svæðin verði sýnd á landakorti.
    Eins og sagði í svari ráðherra við fyrirspurn um svæði sem notuð hafa verið til skot- og sprengjuæfinga (206. mál þessa löggjafarþings) hafa skot- og sprengjuæfingasvæði verið á Íslandi frá því í seinni heimsstyrjöldinni (frá 1940) á 73 svæðum, sem vitað er um. Enn þá er beðið eftir upplýsingum frá Bretlandi um 27 svæði í viðbót og gæti því verið um að ræða samtals 90 svæði sem ná yfir rúmlega 24 þúsund hektara lands. Flest eru á höfuðborgarsvæðinu og Reykjanesi. Nokkur eru á Vesturlandi, Norðurlandi, einkum í kringum Akureyri, og á Austfjörðum. Langstærstu svæðin eru frá því í seinni heimsstyrjöldinni, vegna æfinga breska hernámsliðsins og síðan Bandaríkjamanna.
    Varnarmálaskrifstofa ráðuneytisins, Landhelgisgæsla Íslands og varnarliðið hófu árið 2005 skipulega söfnun upplýsinga og verður könnunum og gagnaöflun áfram haldið. Meðfylgjandi eru kort af þessum svæðum með útskýringum.

     2.      Er hægt að áætla magn skota og sprengna á hverju svæði? Ef svo er, hver er þá staðan á hverju svæði?
    
Þótt mörg þessara svæða séu þekkt þarf sum að rannsaka frekar og önnur hafa ekki verið könnuð. Af þeim 73 svæðum sem skráð hafa verið eru greinargóðar upplýsingar um 29 svæði, 36 svæði frá því í seinni heimsstyrjöldinni eru ókönnuð og átta svæði frá sama tíma hafa verið könnuð lítillega en nauðsyn er á frekari athugunum. Því er ekki unnt að áætla magn skota og sprengna á hverju svæði og ekki hægt að útiloka að fleiri svæði bætist á listann eftir því sem gagnaöflun miðar áfram.

     3.      Hefur verið framkvæmd sprengjuleit og hreinsun á öllum svæðunum? Ef ekki, hvenær er áætlað að gera það á hverju einstöku svæði?
    Sprengjueyðing og þar af leiðandi hreinsun sprengjusvæða er lögum samkvæmt á ábyrgð Landhelgisgæslu Íslands, sem síðan hefur samráð við lögregluyfirvöld á hverjum stað eftir því sem við á. Landhelgisgæsla Íslands sá lengst af eingöngu um svæði utan varnarsvæða, en varnarliðið var með eigin sprengjueyðingarsveit fyrir varnarsvæðin. Sú sveit var lögð niður árið 1998. Samstarfssamningur varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, varnarliðsins og Landhelgisgæslunnar var undirritaður 17. janúar 2001, en samkvæmt honum var það á ábyrgð Landhelgisgæslunnar að kanna ástand varnarsvæða og eyða sprengjum sem þar kynnu að finnast.
    Þess má geta að á árinu 2002 fékk Landhelgisgæslan tæki til leitar að sprengjum undir yfirborði, en það hefur bætt mjög forsendur til leitar. Geta sprengjueyðingardeildar Landhelgisgæslu Íslands til að vinna að sprengjuleit og hreinsun hefur því aukist á umliðnum árum og er unnið samkvæmt stöðlum Atlantshafsbandalagsins, auk alþjóðlegra staðla, um sprengjueyðingu, vottun, þjálfun og notkun búnaðar.
    Erfitt er að áætla hversu langan tíma getur tekið að hreinsa æfingasvæði í landinu. Til viðmiðunar er gert ráð fyrir að ljúka hreinsun 200 hektara á svokölluðu Pattersonsvæði, en þar eru að minnsta kosti tveggja ára vinnu ólokið, auk þess sem þar er þörf á frekari rannsóknum. Hefur verkið þá tekið þrjú ár. Þá er talið að minnsta kosti þurfi að hreinsa 500 af 1500 hekturum á Vogaheiði og að því verði lokið árið 2012. Á næstu fimm árum er mögulegt að gera úttekt á öllum æfingasvæðum jafnframt því sem lokið verður við hreinsun verstu svæðanna.

     4.      Hver er áætlaður heildarkostnaður við leit og hreinsun?
    Erfitt er að henda reiður á heildarkostnað við leit og hreinsun þar sem umfang er ekki að öllu þekkt, sbr. framangreint. Enn fremur er leit og hreinsun svæða mjög háð veðri og takmarkast starfið því aðallega við tímabilið frá vori til hausts.
    Í dóms- og kirkjumálaráðuneyti er í skoðun að fjölga enn frekar í sprengjueyðingardeild Landhelgisgæslunnar og í samvinnu við utanríkisráðuneytið nýta sprengjusérfræðingana til starfa á vegum Íslensku friðargæslunnar yfir vetrartímann. Nú þegar liggur fyrir ákvörðun um að senda sprengjusérfræðinga til Líbanon á þessu ári.

Þekkt bresk og bandarísk skotæfingasvæði á Íslandi 1941 – 2005.
Aðalsvæði stórskotaliðs og léttvopna á landi.

Dökk (blá) skástrikun – svæði í notkun eftir 1951.
Ljós (gul) skástrikun – skotæfingsvæði í seinni heimsstyrjöld.
Grá (græn) skástrikun – æfingasvæði í seinni heimsstyrjöld og æfingasvæði varnarliðs.
(Í pdf-skjali á vefnum eru kortin í lit.)


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     1.      Vogaheiði 1953–1960: Stórskotalið.
     2.      Stapafell V 1960–2005: Sprengjueyðing.
     3.      Stapafell S 1955–1964: Stórskotalið.
     4.      Stapafell NV/Patterson 1953–1986: Sprengjueyðing og æfingar.
     5.      Stapafell SV 1942–?: Stórskotalið.
     6.      Miðnesheiði 1942–?: Stórskotalið.
     7.      Vogastapi 1942–1945: Loftvarnarbyssur.
     8.      Keilisnesi 1942–1945: Flugvélabyssur og flugskeyti.
     9.      Garðskagi 1942–1945: Flugvélavélbyssur.
     10.      Ósar 1942–?: Flugvélabyssur.
     11.      Hafnir 1942–1945: Loftvarnarbyssur.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     1.      Breiðdalur 1941–1945: Stórskotalið.
     2.      Skammidalur 1942–1945: Sprengjuvörpur.
     3.      Sandskeið/Miðdalsheiði 1941–1945: Stórskotalið.
     4.      Geitháls og nágrenni 1941–1945: Stórskotalið.

Önnur æfingasvæði þar sem handvopn hafa verið notuð og t.d. handsprengjur og önnur léttvopn gætu leynst:
    Grafarheiði.
    Vatnsendahvarf.
    Hvaleyri, Hafnarfirði.
    Hvaleyrarhraun.
    Pálshús, Garðabæ.
    Hálogaland.
    Ártún.
    Lágafellshamrar, Mosfellsbæ.
    Helgafell.
    Kópavogur til austurs.
    Kaldaðarnes.
    Akrafjall.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     1.      Kollafjörður 1941–1945: Léttvopn.
     2.      Blikdalur 1941–1945: Stórskotalið.
     3.      Þrándarstaðafjall 1941–1945: Loftvarnarbyssur.

Önnur æfingasvæði þar sem handvopn hafa verið notuð og t.d. handsprengjur og önnur léttvopn gætu leynst:
    NA Brautarholt.
    Kjölur (fallbyssukúlur í allt að 155 mm hlaupvídd hafa fundist víðs vegar um Hvalfjörð).



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     1.      Langá/Tungulækur 1941–1945: Stórskotalið.
Önnur æfingasvæði þar sem handvopn hafa verið notuð og t.d. handsprengjur og önnur léttvopn gætu leynst:
    V-Borgardalur.
    S-Borgardalur .


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     1.      Hrútafjörður 1941–1945: Stórskotalið.
     2.      Reykjaskóli 1941–1945: Stórskotalið.
Önnur æfingasvæði þar sem handvopn hafa verið notuð og t.d. handsprengjur og önnur léttvopn gætu leynst :
    Reykjatangi/Hrútey.
    Á milli Reykja og Þóroddsstaða.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     1.      Sauðanes 1941–1945: Stórskotalið.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     1.      Vaðlaheiði 1941–1945: Stórar loftvarnarbyssur.
     2.      Hlíðarfjall 1941–1945: Stórskotalið.
     3.      Súlur 1941–1945: Stórskotalið.
     4.      Eyjafjarðarárleirur 1941–45: Flugvélasprengjur.
     5.      Garðsdalur 1941–1945: Stórskotalið.
     6.      Staðartunguháls 1941–1945: Stórskotalið.
     7.      Spónsgerði 1941–1945: Stórskotalið.



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


     1.      Strandvegur 1941–1942: Léttvopn.
     2.      Vestdalseyri a. 1941–1945: Léttvopn.
     3.      Vestdalseyri b. Léttvopn.
     4.      Miðtindur 1941–1945: Stórar loftvarnarbyssur.
     5.      Vestdalur 1941–1945: Stórskotalið.
    Önnur æfingasvæði:
    Reyðarfjörður, Hólmar (stórskotalið).
    Egilsstaðir, Ásklif (stórskotlið) .



Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


Yfirlitskort aðalskotæfingasvæða á landi 1941–2005.