Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 514. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 777  —  514. mál.




Tillaga til þingsályktunar



um að kosningaaldur verði 16 ár.

Flm.: Hlynur Hallsson, Kolbrún Halldórsdóttir.



    Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að undirbúa að kosningaaldur verði 16 ár í stað 18 ára.

Greinargerð.


    Árið 1984 var almennur kosningaaldur á Íslandi lækkaður úr 20 árum í 18 ár. Nú er tími til að auka enn þátttöku ungs fólks í lýðræðinu og færa kosningaaldur í 16 ár. Með þessu yrði ábyrgð ungs fólks aukin og því gert kleift að taka þátt í mótun samfélagsins eins og það á réttmæta kröfu á. 16 ára einstaklingur í íslensku samfélagi er orðinn virkur þátttakandi í þjóðfélaginu, hefur lokið grunnskóla og ætti að vera tilbúinn til að taka á sig á þá ábyrgð sem felst í því að kjósa sér fulltrúa á Alþingi og í sveitarstjórnir. Það ætti einnig að vera sjálfsagður réttur þessa unga fólks.
    Í nágrannalöndum okkur er verið að kanna þessi mál og það væri óskandi að Íslendingar tækju frumkvæði í því að auka lýðræði og þátttöku ungs fólks í þjóðfélaginu. Þetta mál er í athugun í Bretlandi og hefur Græni flokkurinn í Englandi og Wales sett þessa kröfu í stefnuskrá sína og það sama hafa Frjálslyndir demókratar í Bretlandi og Þjóðarflokkurinn í Skotlandi gert. Í Finnlandi hefur Miðjuflokkurinn lagt til að tilraun verði gerð á einstökum svæðum í næstu sveitarstjórnarkosningum, sem verða 2008, þar sem 16 ára Finnar fengju að kjósa. Í Svíþjóð hefur Umhverfisflokkurinn haft það á stefnuskrá sinni að lækka kosningaaldur niður í 16 ár til þess að freista þess að auka þátttöku ungmenna í pólitískri umræðu. Í Noregi hefur Frjálslyndi flokkurinn sett þetta mál í stefnuskrá sína og það sama má segja um flokka á hollenska þinginu, í Kanada, Ástralíu og í Austurríki svo nokkur lönd séu nefnd.
    Nú þegar hafa 16 ára ungmenni kosningarrétt í nokkrum löndum, eins og í Brasilíu, Níkaragúa og á Kúbu. Í Króatíu, Serbíu og Svartfjallalandi hafa ungmenni á vinnumarkaði sem eru orðin 16 ára einnig kosningarrétt.
    Norski félagsfræðingurinn Stein Ringen hefur fjallað um þátttöku ungs fólks og barna í lýðræðinu (Citizens, Families and Reform, Clarendon Press, Oxford 1997). Torfi H. Tulinius prófessor við Háskóla Íslands hefur einnig fjallað um málið á áhugaverðan hátt.
    Helstu rökin fyrir því að 16 ára einstaklingar hljóti kosningarrétt eru þau að það muni smám saman leiða til breyttra áherslna í landsmálunum þar sem kjörnir fulltrúar landsins mundu leitast við að verja hagsmuni stærri hluta þjóðarinnar. Kosningarréttur hefði þroskandi áhrif á ungt fólk og það yrði að ábyrgum þátttakendum í samfélaginu.
    Rök gegn því að ungt fólk fái kosningarrétt eru til dæmis þau að börn og unglingar búi ekki yfir vitsmunaþroska til að taka afstöðu í þjóðmálum eða sveitarstjórnarmálum, að þau láti tilfinningar ráða fremur en dómgreindina og séu líkleg til að verða fórnarlömb áróðursmeistara. Öll þessi rök lýsa vantrausti á ungt fólk og hafa reyndar einnig verið notuð á liðnum tímum til að koma í veg fyrir að konur, eignalausir, undirokaðir kynþættir og jafnvel almenningur hljóti kosningarrétt!
    Það er ekki seinna vænna en hefja nú þegar undirbúning að því að ungt fólk fái aukin réttindi í þjóðfélaginu og eitt skrefið í þá átt er að kosningaaldur miðist við 16 ára aldur. Tillagan gerir því ráð fyrir að ríkisstjórninni verði falið að hefja undirbúning að þeirri breytingu að kosningaaldur verði færður úr 18 árum í 16. Að sjálfsögðu þarf að huga að ýmsu í því sambandi, þar á meðal samspili sjálfstæðs kosningarréttar ungmenna við 16 ára aldur og ákvæða laga um sjálfræði sem fyrir allmörgum árum var fært upp í 18 ár, en yrðu að auðvitað víkjandi að þessu leyti.