Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 521. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 787  —  521. mál.




Fyrirspurn



til dómsmálaráðherra um símhleranir og eftirgrennslana-, öryggis- eða leyniþjónustustarfsemi lögreglunnar.

Frá Steingrími J. Sigfússyni.



     1.      Telur dómsmálaráðuneytið sig engar almennar skyldur hafa til að upplýsa um símhleranir og eftirgrennslana- eða leyniþjónustustarfsemi lögreglunnar frá því á umliðnum árum?
     2.      Hversu umfangsmikil var þessi starfsemi hvað varðar fjölda þeirra einstaklinga sem símar voru hleraðir hjá og/eða spjaldskrár á grundvelli stjórnmálaskoðana voru færðar um?
     3.      Nákvæmlega hvernig var háttað samvinnu útlendingaeftirlits, lögreglu og dómsmálaráðuneytis við bandaríska sendiráðið og leyniþjónustumenn þar og njósnadeildir hersins í Keflavík?
     4.      Hvernig var háttað samstarfi og samskiptum ráðherra og skrifstofa flokka þeirra við íslenska og bandaríska leyniþjónustuaðila, t.d. varðandi mannaráðningar Bandaríkjahers?
     5.      Hvenær lauk sérstakri eftirgrennslana- eða leyniþjónustustarfsemi hjá lögreglunni eða hefur slík starfsemi farið fram í einhverjum mæli allt til þessa dags og þá hvar og í hvaða umfangi?
     6.      Á grundvelli hvaða lagaheimilda, þ.m.t. fjárheimilda, voru stundaðar símhleranir og rekin eftirgrennslana- eða leyniþjónustustarfsemi?
     7.      Hverjir í stjórnsýslunni höfðu vitneskju um símhleranir og eftirgrennslanastarfsemi lögreglunnar?
     8.      Hyggst dómsmálaráðuneytið upplýsa þá einstaklinga eða eftirlifandi aðstandendur þeirra sem sættu símhlerunum eða öðrum persónunjósnum um það hve lengi eftirlitið stóð og um annað sem máli skiptir í því sambandi?
     9.      Hefur dómsmálaráðuneytið tekið til skoðunar þann möguleika að greiða þolendum þessara aðgerða sem brotið var á bætur hliðstætt og gert hefur verið í Noregi?


Skriflegt svar óskast.


Greinargerð.


    Fyrirspyrjandi hefur í tvígang borið upp spurningar um svipað efni til dómsmálaráðherra, fyrst í utandagskrárumræðu 9. október 2006 (8. fundur) og svo með fyrirspurn sem svarað var, eða öllu heldur ekki svarað, þann 24. janúar sl. (251. mál, þskj. 254). Í bæði skiptin hefur ráðherra vikið sér undan því með öllu að svara:
    Annars vegar kveðst ráðherra skorta þekkingu til þess, þar eð spurningarnar lúti „að löngu liðnum atburðum“ (sem er rangt því að hluta til hefur verið spurt um stöðu þessara mála allt til dagsins í dag) en hann búi „ekki yfir þeirri þekkingu á því hvernig öryggisgæslu ríkisins var háttað fyrir mörgum áratugum“.
    Hins vegar álítur dómsmálaráðherra sér nægja að vísa til nýlegrar „skýrslu sérfræðinga frá ráðherraráði Evrópusambandsins sem gerði úttekt á hryðjuverkavörnum … Íslendinga“. „Af úttektinni má ráða,“ segir dómsmálaráðherra, „að sérfræðingarnir telja lögregluna á Íslandi ekki hafa neinar heimildir til rannsókna án þess að þar búi að baki rökstuddur grunur um saknæmt athæfi. Hér sé því ekki starfandi leyniþjónusta eða rekin leyniþjónustustarfsemi af hálfu lögreglunnar.“ Undir þetta segist dómsmálaráðherra, almennum orðum, geta tekið.
    Í þessum hreinu og kláru undanbrögðum virðist felast sú afstaða dómsmálaráðherra að honum sé ekki á nokkurn hátt skylt að afla gagna eða grennslast fyrir um mál, ekki einu sinni í sínu eigin ráðuneyti eða hjá undirstofnunum þess, til þess að geta svarað fyrirspurnum á Alþingi. Sá skilningur er þó vægast sagt hæpinn þegar 54. gr. stjórnarskrárinnar er skoðuð. Þar segir: „Heimilt er alþingismönnum, með leyfi Alþingis, að óska upplýsinga ráðherra eða svars um opinbert málefni með því að bera fram fyrirspurn um málið eða beiðast um það skýrslu.“ 1. og 51. gr. stjórnarskrárinnar skipta einnig máli í þessu sambandi, en sú fyrri fjallar um það eins og allir vita að Ísland sé lýðveldi með þingbundinni stjórn og sú síðari um rétt ráðherra til setu á Alþingi og þátttöku í umræðum óháð því hvort þeir eru kjörnir þingmenn, til þess meðal annars og ekki síst að geta þar svarað fyrir störf framkvæmdarvaldsins gagnvart þingmönnum og þinginu. Í ljósi þessa er sú krafa sjálfsögð og byggð á stjórnarskrárvörðum rétti alþingismanna og Alþingis sem eftirlits- og aðhaldsaðila með framkvæmdarvaldinu, að dómsmálaráðuneytið afli nú allra tiltækra gagna og rannsaki þau til þess að svara skriflega sérhverjum lið þessarar fyrirspurnar eftir því sem gerlegt er. Viðleitni dómsmálaráðherra til að svara efnislega, eins ítarlega og rétt og frekast er unnt og draga ekkert undan þó óþægilegt kunni að vera, verður prófsteinn á það hvort dómsmálaráðherra Björn Bjarnason hyggst sýna vilja, þó síðbúinn verði, til að virða stjórnarskrárvarinn rétt þingmanna til upplýsinga um opinber málefni eður ei.