Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 495. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 848  —  495. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Valdimars L. Friðrikssonar um leiðbeiningarreglur varðandi uppsagnir starfsmanna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     Hvað líður tillögum að leiðbeiningarreglum varðandi uppsagnir starfsmanna í anda samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158 sem ráðherra fól Rannsóknarsetri í vinnurétti og jafnréttismálum við Viðskiptaháskólann að Bifröst að gera með bréfi dags. 5. maí 2006 og berast áttu ráðuneytinu fyrir lok þess árs, sbr. svar ráðherra við fyrirspurn fyrr á þessu þingi (143. mál)?

    Ráðuneytið óskaði eftir því með bréfi dags. 5. maí 2006 að Rannsóknarsetur í vinnurétti og jafnréttismálum við Háskólann að Bifröst semdi tillögu að leiðbeiningarreglum varðandi uppsagnir starfsmanna í anda samþykktar Alþjóðavinnumálastofnunarinnar nr. 158, um uppsögn starfs af hálfu atvinnurekanda. Óskað var eftir því að tillagan bærist félagsmálaráðuneytinu fyrir lok árs 2006. Haustið 2006 fól ráðuneytið rannsóknarsetrinu að semja frumvarp vegna framkvæmdar á tilskipun Evrópusambandsins sem nauðsynlegt er að leiða í lög áður en yfirstandandi löggjafarþingi lýkur. Þar af leiðandi var setrinu veittur viðbótarfrestur til að skila tillögu að framangreindum leiðbeiningarreglum. Samkvæmt upplýsingum sem ráðuneytinu hafa borist er þess vænst að tillagan liggi fyrir innan skamms. Þá verður hún lögð fyrir samráðsnefnd félagsmálaráðuneytisins, Alþýðusambands Íslands og Samtaka atvinnulífsins um samskiptin við Alþjóðavinnumálastofnunina til umfjöllunar. Markmiðið er að sátt geti tekist með aðilum vinnumarkaðarins hér á landi um að leiðbeiningarreglurnar verði viðmið þegar þær aðstæður skapast að nauðsynlegt kann að vera að segja fólki upp störfum.