Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 358. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 886  —  358. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á lögum nr. 88/1991, um aukatekjur ríkissjóðs, með síðari breytingum.


Frá efnahags- og viðskiptanefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Völu Rebekku Þorsteinsdóttur frá fjármálaráðuneyti. Þá bárust nefndinni umsagnir frá Neytendastofu og Viðskiptaráði.
    Í 10. gr. laga um aukatekjur ríkissjóðs er veitt heimild til að taka gjald fyrir útgáfu leyfa og skírteina vegna veitingar atvinnuréttinda og tengdra réttinda. Er um að ræða gjald að fjárhæð 5.500 kr. Í 22. tölul. ákvæðisins eru talin upp þau starfsheiti sem lög nr. 8/1996, um löggildingu nokkurra starfsheita í tækni- og hönnunargreinum, gilda um. Á síðastliðnu vori voru gerðar breytingar á þessum lögum sem miðuðu að því að löggilda starfsheiti grafískra hönnuða með því að bæta þeim við upptalninguna í lögunum. Þykir því samræmis vegna rétt að bæta við heimild í lög um aukatekjur ríkissjóðs um gjaldtöku fyrir útgáfu leyfa fyrir grafíska hönnuði.
    Nefndin leggur til viðbætur við frumvarpið, þ.e. að bætt verði inn gjaldtökuheimildum fyrir löggildingu vigtarmanna og rafverktaka. Hér er hvorki um nýja né breytta gjaldtöku að ræða, heldur einungis verið að treysta lagagrundvöllinn fyrir þeirri gjaldtöku sem fyrir er.
    Með hliðsjón af þessu leggur nefndin til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi

BREYTINGU:


    1. gr. orðist svo:
    Eftirfarandi breytingar verða á 1. mgr. 10. gr. laganna:
     a.      22. tölul. orðast svo: Leyfi til arkitekta (húsameistara), byggingafræðinga, grafískra hönnuða, húsgagna- og innanhússarkitekta (húsgagna- og innanhússhönnuða), iðnfræðinga, landslagsarkitekta (landslagshönnuða), raffræðinga, skipulagsfræðinga, tæknifræðinga, tölvunarfræðinga og verkfræðinga.
     b.      Á eftir 29. tölul. koma þrír nýir töluliðir, svohljóðandi:
        30. Löggilding vigtarmanna.
        31. Bráðabirgðalöggilding vigtarmanna.
        32. Löggilding rafverktaka.

    Jóhanna Sigurðardóttir, Sæunn Stefánsdóttir og Ögmundur Jónasson voru fjarverandi við afgreiðslu málsins.

Alþingi, 30. jan. 2007.



Pétur H. Blöndal,


form., frsm.


Dagný Jónsdóttir.


Lúðvík Bergvinsson.



Birgir Ármannsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


Ásta Möller.