Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 404. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 890  —  404. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Þuríðar Backman um sölu á Heilsuverndarstöðinni við Barónsstíg.

     1.      Hver var ástæða þess að Heilsuverndarstöðin við Barónsstíg var auglýst til sölu og seld á frjálsum markaði?
    Heilsuverndarstöðin var í sameign borgar og ríkis og átti Reykjavíkurborg 60% í fasteigninni en ríkissjóður 40%. Talsvert er síðan Reykjavíkurborg hætti allri starfsemi í húsinu og þar sem húsnæðið var laust var tekin ákvörðun um að nýta það sem aðsetur stjórnsýslu Heilsugæslunnar í Reykjavík. Þar sem borgin hafði ekki verið með starfsemi í húsnæðinu um árabil en ríkið ákveðið að hefja nýtingu þess fór borgin fljótlega fram á að borg og ríki fyndu leið til að borgin gæti dregið sig að öllu leyti út úr eignarhaldi stöðvarinnar, annaðhvort með því að ríkissjóður keypti hlut borgarinnar eða það yrði selt á markaði.
    Á þeim árum þegar ríkið notaði húsnæðið var það að miklu leyti nýtt sem almennt skrifstofuhúsnæði en auk þess var ýmissi starfsemi á vegum heilsugæslunnar fundinn þar staður. Þar má nefna Miðstöð mæðraverndar sem áður var á Landspítalanum auk ýmissar starfsemi sem nú er að mestu komin til Lýðheilsustöðvar. Talsverður hluti fasteignarinnar var þó um margra ára skeið ekki nýttur undir starfsemi ríkisins, m.a. var efsta hæðin lánuð út sem lestraraðstaða fyrir nemendur Háskóla Íslands.
    Á vegum ríkisins voru gerðar nokkrar kannanir á því hvernig nota mætti húsnæðið til framtíðar vegna þarfa heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og stofnana þess, þar á meðal fyrir stjórnsýslu heilsugæslunnar, Landlæknisembættið, skrifstofur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins, auk ýmissa annarra stofnana og aðila. Samhliða slíkum könnunum á undanförnum árum hafa farið fram athuganir á kostnaði annars vegar vegna kaupa ríkisins á 60% hlut Reykjavíkurborgar í húsnæðinu og hins vegar kostnaði vegna nauðsynlegra breytinga og endurbóta sem slík nýting hefði í för með sér. Niðurstöðurnar hafa verið á þá leið að slíkar lausnir teldust ekki heppilegar eða hagkvæmar fyrir ríkið og betra væri að leita annarra leiða. Í þessu sambandi hefur vegið þungt að húsnæðið sem er um 60 ára gamalt er að mestu leyti í upprunalegu ástandi og horfi og reynslutölur ríkisins varðandi kostnað við endurbyggingu sambærilegra eða svipaðra eigna hafa verið mjög háar. Einnig var horft til þess að húsið er vel og sterklega byggt og ef ætlunin væri að laga húsnæðið að starfseminni en ekki starfsemina að húsnæðinu mætti búast við að slíkar breytingar yrðu ærið kostnaðarsamar. Í tengslum við endurbyggingu eða allsherjar endurbætur á húsnæðinu fyrir heilsugæsluna hefði að öllum líkindum einnig þurft að flytja alla starfsemina til bráðabirgða í annað húsnæði og síðan aftur í húsnæðið að loknum viðgerðum með öllum þeim kostnaði og röskun sem tvöfaldur flutningur starfseminnar hefði í för með sér.
    Með hliðsjón af framangreindu var tekin sú ákvörðun að selja húsnæðið og freista þess að finna annað hentugt húsnæði undir starfsemina. Í því sambandi var einnig haft í huga að umdæmi heilsugæslunnar hafði stækkað til mikilla muna og nær nú jafnframt yfir Hafnarfjörð og Kjalarnes. Því þóttu sterk rök fyrir því að finna mætti betra og hentugra húsnæði fyrir starfsemina með tilliti til almenningssamgangna sem væri nær notendum þjónustunnar.

     2.      Hvert var söluverð fasteignarinnar og hvernig skiptist söluandvirðið milli ríkissjóðs og borgarinnar?
    Söluverð fasteignarinnar var 980 millj. kr. og skiptist í samræmi við eignarhlutföll, þ.e. ríkissjóður fékk 40% andvirðisins en Reykjavíkurborg 60%.

     3.      Hver er áætlaður kostnaður ríkissjóðs vegna flutnings á starfsemi Heilsuverndarstöðvarinnar, í fyrsta lagi í nýtt húsnæði í Mjódd, í öðru lagi þess hluta starfseminnar sem flyst á kvennadeild LSH og í síðasta lagi vegna röskunar á starfseminni á yfirstandandi ári?
    Samkvæmt upplýsingum sem fjármálaráðuneytið fékk frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu, þá nemur beinn kostnaður vegna flutnings heilsugæslunnar í nýtt húsnæði, þ.e. flutningskostnaður, kaup á nýjum búnaði, merkingar og ráðgjafarvinna, samtals um 60 millj. kr. Að mati forstjóra heilsugæslunnar raskaðist starfsemi stöðvarinnar í sem nemur tveimur vikum sem hann hefur metið til u.þ.b. 20 millj. kr.
    Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu losnaði rými á kvennadeild Landspítalans við að glasafrjóvgunardeild flutti þaðan. Ákveðið var að færa til starfsemi í húsinu til að nýta þetta húsnæði sem best og þá jafnframt að færa saman þær göngudeildir og móttökur sem að hluta hafa verið inni á legudeildum kvennasviðs. Fyrir móttöku vegna áhættuþungunar voru endurinnréttuð þrjú skoðunarherbergi og ein snyrting sem hluti af þessari sameiginlegri móttöku. Heildarkostnaður við breytingar á húsnæði og lagfæringar með tilliti til brunavarna var um 2 millj. kr. fyrir þetta verkefni. Þá þurfti að kaupa tvo skoðunarbekki sem kostuðu samtals um 400 þús. kr. Fjárveitingar fyrir þetta verkefni voru teknar af viðhalds- og tækjakaupafé LSH.

     4.      Telur ráðherra koma til greina að kaupa aftur húsnæði Heilsuverndarstöðvarinnar við Barónsstíg?
    Umrætt húsnæði var selt að vel athuguðu máli og hafa húsnæðismál heilsugæslunnar verið leyst með ágætum hætti. Það kemur því ekki til álita að kaupa aftur umrætt húsnæði.