Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 624. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 930  —  624. mál.




Frumvarp til laga



um breyting á lögum um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, með síðari breytingum.

Flm.: Pétur H. Blöndal, Bjarni Benediktsson, Drífa Hjartardóttir, Guðjón Hjörleifsson, Guðlaugur Þór Þórðarson, Guðmundur Hallvarðsson, Halldór Blöndal,


Sigurður Kári Kristjánsson.


1. gr.

    Eftirfarandi breytingar verða á 30. gr. laganna:
     a.      Á eftir 1. málsl. 1. mgr. kemur nýr málsliður, svohljóðandi: Skylt er að gera skriflega verksamninga við einkaaðila eða sveitarfélög sem fá fjárveitingu úr ríkissjóði til rekstrar sem varir lengur en eitt ár nema nákvæmlega sé kveðið á um verkefnið í reglugerð eða um fjárveitingu í eitt skipti sé að ræða.
     b.      Í stað orðanna „eftirlit með þjónustu“ í 1. málsl. 5. mgr. kemur: hvernig eftirliti verkkaupa með þjónustunni og árangri sé háttað, endurskoðun og bókhald.
     c.      Við greinina bætist ný málsgrein, svohljóðandi:
             Ekkert fé má greiða úr ríkissjóði samkvæmt þessari grein nema öll skilyrði hennar séu uppfyllt.

2. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Greinargerð.


    Í 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins, nr. 88/1997, með síðari breytingum, er einstökum ráðherrum veitt heimild til að gera verksamninga eða samninga um rekstrarverkefni sem eru bundnir til lengri tíma en fjárlagaársins. Í ákvæðinu er kveðið á um almennar kröfur um innihald slíkra samninga.
    Með frumvarpi þessu eru lagðar til nokkrar breytingar á framangreindu ákvæði. Er í fyrsta lagi lagt til að það verði skylda að gera verksamning við einkaaðila og sveitarfélög þegar um rekstur til langs tíma er að ræða nema kveðið sé nákvæmlega á um verkefnið í reglugerð eða ef ekki er ætlunin með fjárveitingunni að taka þátt í stöðugum rekstri heldur veita fé til hans í eitt skipti og svo ekki meir.
    Í öðru lagi eru gerðar auknar kröfur til samningsins um að hann sé með nákvæm ákvæði um hvernig skuli staðið að eftirliti með starfseminni og þeim árangri sem að er stefnt með fjárveitingunni og rekstrinum. Einnig eru settar fram kröfur um að í samningi sé ákvæði um bókhald og hvernig endurskoðun bókhaldsins verði háttað. Í þriðja lagi er lagt bann við því að greiða fé úr ríkissjóði skv. 30. gr. laga um fjárreiður ríkisins nema öll skilyrði greinarinnar séu uppfyllt.
    Reynsla undangenginna ára af framkvæmd fjárreiðulaga hefur verið góð. Þó hafa komið upp mál sem gera kröfu til þess að skerpt sé á eftirliti með greiðslum úr ríkissjóði til einkaaðila. Á það sérstaklega við um faglegt eftirlit, gæðaeftirlit og eftirlit með árangri, sem oft virðist skorta, sem og ákveðnara form varðandi samninga og eftirlit með fjármálum. Á því er tekið í frumvarpi þessu með því að þessi ákvæði eru bundin í lög sem og skýrt ákvæði þess efnis að ekki megi greiða fé úr ríkissjóði nema þessi ákvæði um samning séu uppfyllt.
    Þetta frumvarp tekur mið af stefnu stjórnvalda um að koma sem víðast á samningum um árangursstjórnun. Þó eru opinberar stofnanir undanskildar þótt vel megi hugsa sér að einnig þar ættu þessi ákvæði að gilda. Þá vakna upp spurningar um hvort ekki eigi líka að gera verksamninga um fjárveitingar til verkefnis í eitt skipti. Í slíkum tilvikum er einnig verið að kaupa þjónustu eða verkefni sem ekki er síður ástæða til að skilgreina og semja um, sérstaklega til að skera úr um hvað gerist ef ekki verður af verkefninu eða þjónustan er ekki látin í té eins og til stóð. Þetta er hins vegar flóknara verkefni og er ekki gerð tillaga um að á því verði tekið að þessu sinni.
    Ekki er gerð tillaga um hæfisskilyrði þeirra sem inna eiga verkefnið af höndum eða veita þjónustuna. Þar er við vanda að etja því verkefnin eru svo margbrotin og mismunandi að vandasamt getur verið að setja almenn hæfisskilyrði sem gilda á um þau öll. Þó verður að gera ráð fyrir að þeir sem geri slíka samninga fyrir hönd ríkisins kanni hæfi viðsemjenda sinna og geri til þeirra sæmilegar kröfur.