Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 626. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 934  —  626. mál.




Skýrsla



Íslandsdeildar þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál fyrir árið 2006.

1. Inngangur.
    Fyrsta ráðstefna þingmanna og fulltrúa norðurskautssvæða var haldin í Reykjavík árið 1993, en nokkur samvinna norðurskautsríkja hófst þegar samþykkt var áætlun um umhverfisvernd á norðurslóðum í Rovaniemi í Finnlandi árið 1991. Ráðstefnan í Reykjavík árið 1993 markaði hins vegar upphafið að stofnun þingmannanefndar um norðurskautsmál sem sett var á laggirnar árið 1994. Nefndin er stjórnarnefnd þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem haldin er á tveggja ára fresti. Á ráðstefnunni kemur saman stór hópur þingmanna frá ríkjunum við norðurskaut, sem og sérfræðingar frá ríkisstjórnum, háskólastofnunum og félagasamtökum er láta sig málefni norðursins varða. Eitt meginviðfangsefni þingmannanefndarinnar er að fylgja eftir samþykktum ráðstefnunnar sem og að fylgjast grannt með störfum Norðurskautsráðsins. Þingmannanefndin fundar að jafnaði þrisvar á ári og einn þingmaður frá hverju aðildarríki situr í nefndinni. Þjóðþing Bandaríkjanna, Kanada, Rússlands og Norðurlanda eiga fulltrúa í nefndinni og auk þess á Evrópuþingið fastan fulltrúa. Almennt má segja að helstu verkefni í norðurskautssamstarfi lúti að sjálfbærri þróun og umhverfismálum. Undanfarin ár hefur sérstök áhersla einnig verið lögð á varðveislu menningararfleifðar og lífshátta þeirra þjóðflokka er byggja landsvæðin við norðurskaut, sem og aukna efnahagslega og félagslega velferð og velmegun íbúa norðursins.
    Í fyrstu sneru verkefni þingmannanefndarinnar aðallega að ýmsum málum sem við komu stofnun Norðurskautsráðsins árið 1996, en ráðið byggist á sameiginlegri yfirlýsingu og samstarfi ríkisstjórna aðildarríkjanna átta. Nokkur samtök frumbyggja og ólíkra þjóðarbrota á norðurslóðum eiga fasta fulltrúa í ráðinu. Auk þess eiga ýmis ríki, alþjóðasamtök og frjáls félagasamtök áheyrnaraðild að ráðinu. Jafnvel þótt samstarf norðurskautsríkja eigi sér fremur stutta sögu hefur það fætt af sér margvísleg sameiginleg verkefni og stofnanir. Eftirlit með og mat á umhverfi norðurskautssvæðanna hefur frá byrjun verið forgangsverkefni ráðsins. Fjölmargar vandaðar vísindalegar rannsóknir hafa verið gerðar á vegum vinnuhópa ráðsins, m.a. um mengunarhættu, áhrif mengunar á vistkerfi norðurslóða og varðveislu líffræðilegs fjölbreytileika. Á síðari missirum hefur Norðurskautsráðið í auknum mæli sinnt verkefnum sem miða ekki eingöngu að því að vega og meta mengunarhættu heldur leita leiða við að draga úr mengun á norðurslóðum. Þingmannanefndin hefur á undanförnum árum lagt sérstakan metnað í að hafa frumkvæði að mismunandi verkefnum sem hægt er að leggja fyrir Norðurskautsráðið til framkvæmda.

2. Íslandsdeild þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál.
    Í upphafi árs 2006 var Íslandsdeild skipuð þeim Sigurði Kára Kristjánssyni formanni, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Magnúsi Stefánssyni varaformanni, þingflokki Framsóknarflokks, og Björgvini G. Sigurðssyni, þingflokki Samfylkingarinnar. Varamenn voru Drífa Hjartardóttir, þingflokki Sjálfstæðisflokks, Valdimar L. Friðriksson, þingflokki Samfylkingarinnar, og Dagný Jónsdóttir, þingflokki Framsóknarflokks. Hinn 2. október 2006 við upphaf 133. þings tók Guðjón Ólafur Jónsson sæti Magnúsar Stefánssonar sem aðalmaður í Íslandsdeildinni. Á fundi Íslandsdeildar hinn 5. október var Sigurður Kári Kristjánsson endurkjörinn formaður og Guðjón Ólafur Jónsson kjörinn varaformaður. Formaður situr fyrir hönd Íslandsdeildarinnar í þingmannanefndinni, en í forföllum hans situr varaformaður fundi nefndarinnar. Öll Íslandsdeildin sækir ráðstefnuna sem haldin er á tveggja ára fresti. Íslandsdeild kemur saman eftir þörfum og þá gerir formaður grein fyrir starfi þingmannanefndarinnar og fær hún jafnframt upplýsingar um starf Norðurskautsráðsins. Í upphafi árs gegndi Guðfríður Lilja Grétarsdóttir starfi ritara Íslandsdeildar en Tómas Brynjólfsson tók við af henni 1. febrúar.

3. Áherslur í málefnastarfi og helstu verkefni þingmannanefndar árið 2006.
    Umhverfismál og sérstaklega loftslagsbreytingar hafa verið mjög áberandi í norðurskautssamstarfinu. Undir lok formennskutíðar Íslands árið 2004 var gefin út skýrsla um áhrif loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðinu, Arctic Climate Impact Assessment (ACIA). Skýrslan er fyrsta svæðisbundna allsherjarrannsóknin á loftslagsbreytingum sem birt hefur verið eftir að samningur Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar var gerður. Skýrslan vakti mikla athygli og hefur verið notuð sem eins konar grunnur að alþjóðlegri umræðu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum. Í skýrslunni kemur fram að gríðarlega hraðar loftslagsbreytingar hafa átt sér stað á norðurskautssvæðinu síðustu áratugi og loftslag fer ört hlýnandi. Ekki sér fyrir endann á þessum breytingum og spáð er enn örari þróun í þessa átt á næstu áratugum. Norðurslóðir einkennast af sérlega viðkvæmum vistkerfum og ljóst þykir að þróunin við norðurskaut sé eins konar fyrirboði þess sem verður annars staðar í heiminum. Áætlað er að þær loftslagsbreytingar sem eiga sér stað á 10 ára tímabili á norðurslóðum gerist á 25 ára tímabili annars staðar. Hitastig á norðurslóðum hækkar að jafnaði tvisvar sinnum hraðar en loftslag annars staðar í heiminum. Þótt hitastig sé að jafnaði að hækka á norðurslóðum sem og á jörðinni allri sýnir skýrslan hins vegar að loftslagsbreytingar hafa mismunandi og ójöfn áhrif á ólík svæði jarðar. Á sumum stöðum hlýnar til muna á meðan aðrir staðir kólna þótt meðaltal hitastigs jarðar fari hækkandi. Þessar víðtæku loftslagsbreytingar hafa margs konar afleiðingar, s.s. hækkun yfirborðs sjávar og breytingu sjávarfalla. Hlýnandi hafstraumar leiða svo til enn meiri hröðunar loftslagsbreytinga. Sem dæmi um umfang bráðnunar jökla undanfarna áratugi mætti nefna að bráðnun Grænlandsjökuls jókst um 16% á árunum 1979–2002. Þessi 16% af yfirborði Grænlandsjökuls eru á stærð við Svíþjóð. Ísjakar á Beaufort- og Chuckchi-hafsvæðunum eru sömuleiðis 25% undir minnsta meðallagi sem mælst hefur frá upphafi. Allar spár skýrslunnar sýna að um næstu aldamót verði norðurskautshafsvæðið án íss og klaka að sumarlagi. Plöntutegundir og annað gróðurlendi færist æ norðar með hlýnandi loftslagi og vor- og sumartími lengist.
    Umræða um siglingaleiðir var áberandi á árinu. Með minnkandi hafís á norðurskautssvæðinu og auknum þrýstingi alþjóðavæðingar um sífellt stærri flutningaskip má búast við að siglingaleiðir milli Asíu annars vegar og Evrópu og austurstrandar Norður-Ameríku hins vegar opnist á næstu árum. Þar með styttast siglingaleiðirnar verulega, eða um allt að helming. Auknar siglingar um norðurskautið munu hafa veruleg áhrif á Ísland sem gæti legið vel við sem umskipunarhöfn fyrir þessa miklu flutninga. Þeim tækifærum sem í þessu felast fylgir einnig nokkur áhætta, m.a. vegna meiri hættu á umhverfisslysum, og verulega aukin verkefni fyrir landhelgisgæsluna. Einnig hafa Norðmenn hafið mikla olíu- og gasvinnslu í Barentshafi og þykir líklegt að Rússar fylgi í kjölfarið á komandi árum. Stór hluti þessarar orku verður fluttur með skipum til Norður-Ameríku um íslenska landhelgi.
    Á þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál í Kiruna í Svíþjóð árið 2006 var rætt um hugsanlegan alþjóðasamning um norðurskautið. Nokkur umræða hefur verið um þessi mál á undanförnum missirum í ljósi sífellt hraðari bráðnunar hafíssins á norðurskautinu. Slíkur samningur er til staðar um suðurskautið. Ólíklegt verður þó að teljast að sams konar samningur náist um norðurskautið þar sem ríki á borð við Kanada og Rússland gera tilkall til stærsta hluta svæðisins samkvæmt hafréttarsáttmála Sameinuðu þjóðanna. Þau hafa því lítinn áhuga á að láta binda hendur sínar varðandi nýtingu svæðisins. Hins vegar er mögulega hægt að skýra og bæta þá alþjóðaumhverfissamninga sem ná til norðurskautssvæðisins og nýtingar náttúruauðlinda þess.
    Alþjóðaár heimskautasvæðanna (e. International Polar Year) var undirbúið á árinu en það hefst í þriðja sinn í mars 2007. Vísindamenn frá yfir 60 löndum munu taka þátt í rannsóknum alþjóðaársins. Því er ætlað að leiða til stórátaks í rannsóknum og athugunum á heimskautasvæðum jarðar. Rannsóknir á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á umhverfi, lífríki og samfélag verða í brennidepli á rannsóknarárinu en lögð er sérstök áhersla á þverfaglegar rannsóknir.

4. Fundir þingmannanefndar 2006.
    Þingmannanefndin hélt fjóra fundi á árinu. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður Íslandsdeildar, sat fyrir hönd Íslandsdeildar fundi nefndarinnar í Ottawa í mars, í Kaupmannahöfn í maí og í Kiruna í ágúst, en sá fundur var haldinn samhliða ráðstefnunni um norðurskautsmál. Guðjón Ólafur Jónsson, varaformaður Íslandsdeildar, sótti fund þingmannanefndarinnar í Ósló í nóvember, í fjarveru formanns. Tómas Brynjólfsson, ritari nefndarinnar, sótti fundina ásamt þingmönnunum. Hér á eftir verður gerð stutt grein fyrir fundum þingmannanefndarinnar á árinu.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Ottawa 27. mars 2006.
    Í upphafi fundarins var kynntur nýr framkvæmdastjóri þingmannaráðstefnunnar, Björn- Willy Robstad, lögfræðingur sem starfar hjá norska þinginu. Hill-Marta Solberg, formaður nefndarinnar, stýrði fundinum sem var vel sóttur. Sérstaklega var tekið eftir því að bandaríski öldungadeildarþingmaðurinn Lisa Murkowski mætti til fundarins.
    Fyrsta dagskrármálið var kynning á stefnu Kanada gagnvart norðurskautinu. Í kynningu embættismanns frá kanadíska utanríkisráðuneytinu kom fram að Kanadamenn vilja stefna að því að komið verði á alþjóðlegu regluverki um málefni norðurskautsins. Slíkar hugmyndir voru til umræðu á þingmannaráðstefnunni í Kiruna í ágúst 2006. Kanadamenn vilja einnig að málefni norðurskautsins verði tengd umræðunni um mannöryggi (e. human security). Kanada leggur áherslu á mikilvægi norðurskautsráðsins í þessu starfi. Nokkrar umræður spunnust um tilraunir Kanadamanna til þess að tryggja fullveldi sitt í tengslum við norðurlandamæri ríkisins. Núverandi ríkisstjórn lagði á það áherslu í kosningabaráttunni að Kanada myndi styrkja hernaðarlega stöðu sína á þessu svæði, m.a. með smíði vopnaðra ísbrjóta. Kanadísku þingmennirnir lögðu áherslu á það að lausn deilumála á norðurskautssvæðinu myndi nást við samningaborðið. Að þessari umræðu lokinni var nefndarmönnum kynnt stefna Kanada gagnvart sjálfstjórnarsvæðinu Nunavat í norðurhluta Kanada, en þar búa tæplega 30.000 manns á svæði sem er tvær milljónir ferkílómetra að stærð.
    Undir öðrum dagskrárlið var rætt um alþjóðaár heimskautasvæðanna árin 2007 og 2008. Þar kynntu Kanadamenn undirbúning sinn. Þingmennirnir lögðu áherslu á að litið yrði til félagsvísinda í rannsóknum á alþjóðaárinu. Við það mundi skýrsla Norðurskautsráðsins um sjálfbæra mannlífsþróun á norðurslóðum nýtast vel. Að lokinni kynningu Kanadamanna fóru fram umræður. Þar kom fram í máli Kuupik Kleist, fulltrúa Grænlands á danska þinginu, að dönsk stjórnvöld hefðu ekki sýnt alþjóðaárinu mikinn áhuga.
    Ráðstefnan í Kiruna í Svíþjóð var kynnt í þriðja lið fundarins. Þar var einnig rætt um yfirlýsingu fundarins. Vonast var eftir frekari tillögum nefndarmanna um efni hennar á næsta fundi þingmannanefndarinnar í Kaupmannahöfn 19. maí 2006.
    Fjórði dagskrárliður fundarins fjallaði um starfsemi þingmannanefndarinnar og málefni norðurskautsmála innan einstakra aðildarríkja hennar. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður Íslandsdeildar þingmannaráðstefnunnar og fulltrúi Alþingis í þingmannanefndinni, fjallaði um þróun mála á Íslandi. Hann lagði áherslu á mikilvægi norðurskautsins fyrir Ísland, sem mætti m.a. sjá í fjölda verkefna sem íslensk stjórnvöld hafa unnið að í kjölfar formennskuárs Íslands í Norðurskautsráðinu frá 2002 til 2004. Íslendingar hafa sérstaklega unnið að eftirfylgni með skýrslu um sjálfbæra mannslífsþróun á norðurslóðum.
    Næst var fjallað um sjálfstæða þróun á norðurslóðum. Þar var sérstaklega rætt um þróun upplýsingatækni á norðurskautssvæðinu og málefni barna og unglinga.
    Sjötti dagskrárliður fjallaði um hina norðlægu vídd Evrópusambandsins og mótun nýrrar norðlægrar víddar númer 2. Diana Wallis, þingmaður á Evrópuþinginu, flutti stutta kynningu um málið og hugsanlega þróun þess á næstu missirum.
    Að síðustu var rætt um hugmyndir um hvernig greiða ætti fyrir verkefni á vegum Norðurskautsráðsins, næsta fund nefndarinnar, sem haldinn var í Kaupmannahöfn, og verkefni á vegum undirstofnunar Sameinuðu þjóðanna, UNEP-GRID-Arendal.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Kaupmannahöfn 19. maí 2006.
    Fyrsta dagskrármálið var kynning á áherslum Norðmanna vegna formennsku þeirra í Norðurskautsráðinu frá 2006 til 2008. Vert er að benda á að Svíar munu taka við af Norðmönnum og gegna formennsku í ráðinu frá 2008 til 2010 og Danir svo frá 2010 til 2012. Þrátt fyrir að um sé að ræða þrjú aðskilin formennskutímabil þá munu þjóðirnar hafa með sér víðtækt samráð. Norðmenn fara heldur ekki í grafgötur með áhuga sinn á að stofna skrifstofu Norðurskautsráðsins í Noregi sem yrði starfrækt þar til lengri tíma, en skrifstofan hefur hingað til fylgt formennskuríkinu. Skrifstofa Norðurskautsráðsins verður starfrækt í Tromsö á meðan Norðurlöndin þrjú fara með formennsku. Áhugi Norðmanna á stöðu framkvæmdastjóra þingmannanefndarinnar verður að skoðast í tengslum við þessa stefnu Norðmanna.
    Norðmenn hafa þrjár grunnáherslur á formennskuári sínu. Í fyrsta lagi leggja þeir áherslu á sjálfbæra þróun og nýtingu náttúruauðlinda. Í öðru lagi leggja þeir áherslu á eftirfylgni með rannsóknum á loftslagsbreytingum. Í þriðja lagi leggja Norðmenn áherslu á stofnanauppbyggingu ráðsins, t.d. varðandi skrifstofu ráðsins og fjármögnun vinnuhópa.
    Undir öðrum dagskrárlið var kynning á hinni norðlægu vídd Evrópusambandsins í tengslum við áherslu Finna á þá stefnu í formennskutímabili sínu í ráðherraráði ESB seinni hluta ársins 2006. Fjallað var um fjárframlög til verkefna á vegum Norðlægu víddarinnar og var sérstök áhersla lögð á að ekki væri aðeins horft til Rússlands heldur einnig víðar, m.a. á norðurheimskautssvæðið.
    Í þriðja lagi var fjallað um þingmannaráðstefnuna í Kiruna sem fram undan var í ágúst. Þar var farið yfir undirbúning ráðstefnunnar og fjallað um drög að ályktun hennar. Í umræðum um ályktunardrögin vakti Sigurður Kári athygli á einhliða ákvörðun Bandaríkjanna um brotthvarf varnarliðsins á Keflavíkurflugvelli. Sigurður Kári benti á að með auknum loftslagsbreytingum og minnkandi hafís mætti búast við enn frekari siglingum um norðurhöf, bæði vegna flutninga frá Asíu til Evrópu en einnig vegna aukinnar olíu- og gasvinnslu á svæðinu. Sigurður Kári kynnti stöðu björgunarmála á Íslandi og þær breytingar sem yrðu við brotthvarf Bandaríkjamanna. Sigurður Kári sagði að eftir brotthvarf þyrlubjörgunarsveitar varnarliðsins væru ekki lengur til staðar við Norður-Atlantshafið þyrlur sem gætu tekið eldsneyti á lofti. Sú staðreynd drægi stórlega úr öryggi siglinga og flugumferðar á svæðinu. Hann lagði því til að í ályktun þingmannaráðstefnunnar í Kiruna yrði sérstaklega hvatt til aukinnar samvinnu aðildarríkja Norðurskautsráðins á sviði siglingaöryggis, sérstaklega varðandi leitar- og björgunarmál. Hill-Marta Solberg, formaður stjórnarnefndarinnar, studdi tillögu Sigurðar Kára og var hann beðinn um að móta tillöguna frekar fyrir ályktunardrög sem lögð voru fyrir þingmannaráðstefnuna í Kiruna í byrjun ágúst.
    Svokallaður Galthea-3 leiðangur var kynntur fyrir fundargestum. Í leiðangrinum verður siglt heimskautanna á milli og munu danskir vísindamenn fá tækifæri til að stunda rannsóknir á skipinu á meðan það er til sjós. Í leiðangrinum verður lögð sérstök áhersla á tengslin milli vísindarannsókna, fjölmiðla og skóla.
    Í fjórða lagi var kynning á dönskum verkefnum í tengslum við alþjóðaár heimskautasvæðanna. Danir leggja áherslu á loftslagsbreytingar, Grænlandsísinn og mannlega þáttinn í rannsóknum sínum.
    Í fimmta lagi voru málefni Háskóla norðursins kynnt. Fulltrúi stjórnar skólans lagði áherslu á að góður árangur væri af starfi skólans og mikil aðsókn væri í verkefni á vegum hans, en um 730 nemendur voru við nám í skólanum árið 2005. Líkt og nokkrir aðrir sem kynntu verkefni fyrir nefndinni lagði fulltrúi skólans áherslu á þörf fyrir aukin fjárframlög til skólans.
    Áherslur og erfiðleikar vegna þátttöku hópa frumbyggja í starfi Norðurskautsráðsins voru því næst til umræðu, auk kynningar á vefsvæði ACIA-verkefnisins.
    Að lokum var farið yfir heimskautamálefni í aðildarríkjunum. Þar fjallaði Sigurður Kári um þingmannaráðstefnu Eystrasaltsráðsins sem stóð fyrir dyrum í Reykjavík í byrjun september og ráðningu Kristjáns Kristjánssonar hjá Rannís sem yfirmanns Vísindanefndar norðurskautsins (e. Arctic Science Committee).

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Kiruna í Svíþjóð 4. ágúst 2006.
    Á fundi þingmannanefndar um norðurskautsmál sem fram fór samhliða ráðstefnunni var Hill-Marta Solberg, fulltrúi norska þingsins, endurkjörin formaður nefndarinnar til tveggja ára og Björn Willy Robstad, starfsmaður Stórþingsins, ráðinn framkvæmdastjóri. Næstu fundur nefndarinnar var ákveðinn í nóvember 2006.

Fundur þingmannanefndar um norðurskautsmál í Ósló í Noregi 21. nóvember 2006.
    Fyrsta dagskrárefni fundarins var kynning á alþjóðaári heimskautasvæðanna sem hefst 1. mars 2007 og þátttöku Noregs í verkefnum ársins. Norðmenn stefna að því að vera leiðandi á meðal norðurskautsþjóða og byggja stöðu sína m.a. á framlagi til vísindarannsókna. Olav Orheim, sem leiðir landsnefnd Noregs um alþjóðaárið, sagði miklar væntingar vera til alþjóðaársins og þeirra 200 rannsóknaverkefna sem tengjast því. Meðal annars mætti vænta mikilla framfara varðandi veðurspár á norðurskautssvæðinu og þekkingu varðandi loftslagsbreytingar. Einnig kom fram að fjölmiðlar í Noregi sýndu alþjóðaárinu athygli og búast megi við þónokkurri fjölmiðlaumfjöllun við upphaf alþjóðaársins. Rannveig Guðmundsdóttir, fulltrúi Norðurlandaráðs í þingmannanefndinni, vakti athygli á mikilvægi rannsókna á áhrifum loftslagsbreytinga á fiskstofna. Hún sagði mikilvægt að auka rannsóknir á þessu sviði, sérstaklega þar sem með hlýnandi sjó taki nýir og oft verðminni nytjastofnar við af þeim sem fyrir eru.
    Því næst var rætt um reynsluna af þingmannaráðstefnu um norðurskautsmál sem fram fór í Svíþjóð í ágúst síðastliðnum. Að því loknu kynntu nefndarmenn þróun norðurskautsmála innan ríkja sinna. Diana Wallis, fulltrúi Evrópuþingsins, sagði færri hafa sótt ráðstefnuna í Kiruna en fyrri ráðstefnur. Hún lagði auk þess áherslu á að þingmannanefndin mundi reyna að vekja aukna athygli á starfi sínu með fundum með þingnefndum Evrópuþingsins í tengslum við ráðstefnu um norðlægu víddina sem fram fer í Brussel í lok febrúar 2007. Að sögn Diönu Wallis vekur norðurskautssamstarfið ekki mikla athygli innan Evrópusambandsins. Að hennar sögn hafa málefni Eystrasaltsins skyggt á önnur norðursvæði eftir stækkun sambandsins árið 2004. Danski þingmaðurinn Niels Sindal var sammála Wallis. Hann sagði að norðlæga víddin hefði átt að beinast að norðurskautssvæðinu eftir mótun hennar árið 1998. Stefnan hefði hins vegar í auknum mæli beinst að Eystrasalti. Nefndin var sammála um að mikilvægt væri að vekja að nýju aukna athygli á norðurskautssvæðinu innan stefnunnar. Fundarmenn voru sammála um að fulltrúar í þingnefndinni yrðu að gera meira til þess að vekja athygli á ályktun ráðstefnunnar meðal þjóðþinga sinna og ráðherra, sérstaklega í ljósi lítillar þátttöku framkvæmdarvaldsins í ráðstefnunni.
    Guðjón Ólafur Jónsson fjallaði um aukið samstarf Íslands við önnur ríki varðandi leitar- og björgunarmál. Hann sagði málefni norðurskautssvæðisins njóta síaukinnar athygli á Íslandi, bæði í fréttaumfjöllun og í tengslum við kynningu utanríkisráðherra á skýrslu sinni um utanríkismál á Alþingi. Því næst var rætt um ráðherrafund norðurskautsríkjanna í Salekhard í Rússlandi sem fram fór í lok nóvember 2006. Hill-Marta Solberg kynnti þar afstöðu þingmannanefndarinnar og ályktun ráðstefnunnar frá því í Kiruna.
    Jonas Gahr Störe, utanríkisráðherra Noregs, kynnti því næst stefnu Norðmanna vegna formennsku þeirra í Norðurskautsráðinu frá 2006 til 2008. Norðmenn hyggjast koma á fót skrifstofu með tveimur starfsmönnum í Tromsö til þess að halda utan um formennskutíð sína. Þeir vonast til að önnur ríki á Norðurlöndum muni einnig nýta skrifstofuna. Hún gæti þá orðið vísir að framtíðarskrifstofu Norðurskautsráðsins. Starfsemi þess heyrir undir utanríkisráðuneyti þess ríkis sem fer með formennskuna hverju sinni. Störe sagði að ályktun þingmannaráðstefnunnar hefði haft áhrif á viðræður ráðherraráðsins í Salekhard. Þrjú málefni munu njóta sérstakrar athygli í formennskutíð Noregs. Í fyrsta lagi munu Norðmenn leggja áherslu á þróun sjálfbærrar auðlindanýtingar, sérstaklega á hafinu. Í öðru lagi verður lögð áhersla á loftslagsbreytingar og í þriðja lagi verður litið til stofnanabreytinga innan Norðurskautsráðsins. Guðjón Ólafur spurði ráðherrann um aðgerðir ríkisstjórnanna vegna aukinna siglinga á norðurslóðum, sérstaklega mögulegt aukið samstarf til þess að tryggja öryggi á hafsvæðum norðursins. Störe lagði áherslu á að ríkin þyrftu að auka samstarf sitt á þessu sviði, sérstaklega til þess að tryggja sameiginlega staðla varðandi siglingaöryggi. Störe sagði að Íslandi yrði í framtíðinni í miðju mikillar skipaumferðar og nýs öryggiskerfis norðursvæða.
    Að lokum var ákveðið að nefndin kæmi næst saman í tengslum við ráðstefnu um norðlægu víddina sem haldin verður í Brussel 28. febrúar til 1. mars 2007.

5. Þingmannaráðstefna um norðurskautsmál.
    Sjöunda þingmannaráðstefnan um norðurskautsmál var haldin í Kiruna í Svíþjóð 2.–4. ágúst 2006. Fulltrúar ellefu þinga sóttu ráðstefnuna, ásamt öðrum gestum. Fundinn sóttu fyrir hönd Alþingis Sigurður Kári Kristjánsson formaður Íslandsdeildarinnar, Björgvin G. Sigurðsson og Jón Kristjánsson. Ráðstefnan hófst með því að gestir voru boðnir velkomnir af dr. Björn von Sydow, forseta sænska þingsins, Sylvíu Simma, formanns sænska Samaþingsins, og Runar Patriksson, fulltrúa sænska þingsins í þingmannanefnd um norðurskautsmál.
    Fyrsti dagskrárliður ráðstefnunnar eftir opnunarræður var umfjöllun um stöðu samstarfs á norðurskautssvæðinu. Alexander Ignatiev, sendiherra, flutti fyrst stutta skýrslu um stöðu mála innan Norðurskautsráðsins, en Rússland fór með tveggja ára formennsku í ráðinu til ársloka 2006. Hans Dahlgren frá sænska utanríkisráðuneytinu greindi því næst frá áherslum Svía í norðurskautssamstarfinu. Hann lagði áherslu á að mikilvægt væri að fylgjast náið með þróun loftslagsbreytinga á norðurskautssvæðinu þar sem afleiðinga þeirra gætir fyrr þar en á suðlægari breiddargráðum. Norðurskautssvæðið og atburðir þar skipta því sífellt fleiri ríki máli. Mikilvægi norðurskautsins sem hernaðarsvæðis hefur því vikið fyrir orkuöryggi og sjálfbærri þróun.
    Hill-Marta Solberg, formaður þingmannanefndar um norðurskautsmál, sem er í stjórnarnefnd ráðstefnunnar, fjallaði því næst um starf nefndarinnar frá síðustu ráðstefnu í Nuuk árið 2004. Solberg lagði áherslu á mikilvægi rannsóknastarfs á norðurslóðum og aukinnar menntunar. Þingmannanefndin hefur fjallað ítarlega um skýrslur um áhrif loftslagsbreytinga á norðurslóðum og sjálfbæra mannlífsþróun þar. Auk þess minntist hún á stuðning þingmannanefndarinnar við Háskóla norðurslóða sem er mikilvægt tæki til þess að auka þekkingu á norðurskautssvæðinu. Fjöldi nemenda við skólann tífaldaðist frá árinu 2002 til 2005 og stunda nú um 730 manns nám við skólann. Að lokum var flutt skýrsla um þróun upplýsingatækni á norðurskautssvæðinu. Þingmannanefndin hefur lagt ríka áherslu á frekari nýtingu upplýsingatækni fyrir íbúa norðurskautssvæðisins, m.a. við kennslu og fjarlækningar. Áhersla nefndarinnar á þessi mál varð til þess að Norðurskautsráðið stendur nú að gerð matsskýrslu um þróun upplýsingatækni fyrir strjálar byggðir norðursins. Niðurstöður úr könnuninni eiga að liggja fyrir í lok árs 2008. Íslendingar hafa verið leiðandi í þessu starfi og m.a. unnið vefgátt fyrir norðurskautið á veraldarvefnum.
    Annar hluti ráðstefnunnar var tileinkaður umfjöllun um alþjóðaár heimskautasvæðanna árin 2007–2008. Fjallað var um skipulagningu ársins á vegum sameiginlegrar nefndar Alþjóðaveðurfræðistofnunarinnar (WMO) og Alþjóðavísindaráðsins (ICSU). Lögð er áhersla á þverfaglegar rannsóknir og hefur þingmannanefnd um norðurskautsmál lagt áherslu á þátt félagsvísinda, þ.e. hins svokallaða mannlega þáttar, í rannsóknaráætlunum. Rannsóknir á loftslagsbreytingum og áhrifum þeirra á umhverfi, lífríki og samfélag verða í brennidepli á rannsóknarárinu. Nokkur rannsóknarverkefni voru kynnt og fjallað um mögulegar niðurstöður ársins. Vonast er til að alþjóðaárið geti virkað sem hvati til frekari áherslu á heimskautarannsóknir í framtíðinni.
    Þriðji hluti ráðstefnunnar var tileinkaður alþjóðlegum lagaramma norðurskautssvæðisins og hugsanlegum alþjóðasamningi um norðurskautssvæðið í anda alþjóðasamnings um nýtingu suðurskautssvæðisins. Sigurður Kári Kristjánsson, formaður Íslandsdeildarinnar, var annar stjórnenda umræðanna. Diana Wallis, þingmaður á Evrópuþinginu, lagði áherslu á mikilvægi þess fyrir Evrópusambandið að það tæki virkan þátt í þróun norðurskautssvæðisins. Að hennar mati er ekki mögulegt að koma fram með neinar einfaldar lausnir á þeim vandamálum sem norðurskautið stendur frammi fyrir. Hins vegar sé það skylda þjóðkjörinna fulltrúa að leita lausna, sérstaklega í ljósi hraðra breytinga á norðurskautssvæðinu. Leita verður lausna og vinna að mótun á skýrum lagaramma um nýtingu norðurskautssvæðisins áður en farið verður að berjast um hugsanleg auðæfi svæðisins.
    Hans Corell, sendiherra og fyrrverandi aðstoðarframkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna með umsjón með þjóðréttarmálum, sagði í ræðu sinni að betra væri að fara vel yfir þá samninga sem þegar eiga við um norðurskautssvæðið en að reyna að móta nýjan samning. Hugsanlega væri hægt að fjölga samningum og bæta þá sem fyrir eru, en vinna við nýjan samning yrði vandkvæðum bundin og mundi hugsanlega skila litlu. Hann lagði einnig áherslu á að mikilvægt væri fyrir norðurskautssvæðið að fá sem flest ríki til þess að samþykkja samninga sem ná til svæðisins og nýtingu þess. Mikil umræða varð um þessi mál. Fulltrúar þjóðþinga Kanada og Rússlands voru áberandi í umræðunni enda gera ríkin tvö tilkall til stórra hafsvæða á norðurskautssvæðinu. Þau vilja því ekki nýja alþjóðlega samninga sem binda hendur þeirra frekar við nýtingu þeirra. Þingmennirnir virtust þó til umræðu um styrkingu alþjóðlegra náttúruverndarsamninga sem næðu til hafsvæðisins.
    Fjórði og síðasti hluti ráðstefnunnar fjallaði um opnun nýrra siglingaleiða um norðurskautssvæðið milli Asíu annars vegar og Evrópu og Norður-Ameríku hins vegar. Auknar siglingar um norðurskautssvæðið gætu umbylt efnahagsstöðu svæðisins en einnig ógnað lífríki þess. Að mati ræðumanna er styttra í opnun siglingaleiðarinnar fyrir norðan Síberíu en um eyjasund Kanada eða yfir norðurpólinn. Hins vegar þurfi að gæta varúðar vegna áhrifa aukinna siglinga á lífríkið og veiðivenjur frumbyggja. Bent var á að nauðsynlegt væri að ríkin á norðursvæðum tryggðu að skip á þeirra hafsvæði væru sterklega byggð, en nokkuð hefur borið á skemmtiferðaskipum við Grænland sem smíðuð eru fyrir siglingar í Karíbahafinu. Norðurskautsráðið er að vinna að mati á siglingum á svæðinu í ljósi hlýnunar jarðar sem taka mun mið af þessum þáttum og verður kynnt síðar. Undir lok ráðstefnunnar var samþykkt yfirlýsing þar sem m.a. var kallað eftir auknum fjárframlögum til rannsókna og samstarfs norðurskautsríkja um öryggi á hafinu, sérstaklega leitar og björgunarmál. Þingmenn frá Noregi, Kanada og Rússlandi fögnuðu yfirlýsingunni sérstaklega en íslenskir þingmenn lögðu mikla áherslu á aukið samstarf þjóðanna á þessu sviði. Einnig var lögð rík áhersla á að aðildarríkin mótuðu stefnu við eftirfylgni skýrslu um loftslagsbreytingar á norðurslóðum þar sem niðurstöður skýrslunnar yrðu kynntar á alþjóðavísu. Ráðstefnan skoraði einnig á stjórnvöld norðurskautsríkja að auka aðgerðir til að draga úr gróðurhúsaáhrifum og styrkja fjölþjóðasamninga um umhverfismál norðurskautsins.

Alþingi, 7. febrúar 2007.



Sigurður Kári Kristjánsson,


form.

Guðjón Ólafur Jónsson,


varaform.


Björgvin G. Sigurðsson.