Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 154. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 948  —  154. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Björgvins G. Sigurðssonar um forvarnir gegn fíkniefnum og meðferð ungra fíkniefnaneytenda.

     1.      Hver eru framlög hins opinbera til forvarna gegn ólöglegum fíkniefnum nú og hver voru árleg framlög 1995–2005 á núvirði? Hverjir hafa fengið framlögin og hversu mikið hefur hver um sig fengið?
    Spurt er um framlög hins opinbera til forvarna. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu er einungis unnt að svara því sem snýr að ráðuneytinu og stofnunum þess en einnig renna fjármunir til félagsmálaráðuneytis, menntamálaráðuneytis og dómsmálaráðuneytis.
    Ýmsar stofnanir hins opinbera beita sér fyrir forvörnum gegn fíkniefnum án þess að framlög til stofnana séu sérstaklega mörkuð þeim verkefnum. Til dæmis sinnir landlæknisembættið tilteknum þáttum þessa máls með ýmsum hætti. Sama er að segja um heilsugæslustöðvar og ýmsar heilbrigðisstofnanair. Þá hefur ráðuneytið styrkt ýmis verkefni sem tengjast forvörnum af ráðstöfunarfé ráðherra sem er 8 millj. kr. á ári og af öðrum fjárlagaliðum.
    Áfengis- og vímuvarnaráð sem starfar á vegum Lýðheilsustöðvar hefur umsjón með Forvarnasjóði. Tilgangur Forvarnasjóðs er að stuðla að forvörnum gegn áfengis- og vímuefnaneyslu. Hlutverk sjóðsins er að styrkja verkefni á sviði áfengis- og vímuvarna í samræmi við stefnu og forgangsröðun ríkisstjórnarinnar í áfengis- og vímuvörnum hverju sinni. Árlegir styrkir úr sjóðnum eru veittir félögum, samtökum og opinberum aðilum.
    Lýðheilsustöð er miðstöð vímuvarna í landinu. Hjá Lýðheilsustöð er unnið fræðsluefni um áfengi og önnur vímuefni fyrir almenning og stuðlað að samvinnu og samræmingu starfa á meðal allra þeirra sem vinna að vímuvörnum. Sem miðstöð forvarna hefur Lýðheilsustöð verið að eflast og þar með áherslan á forvarnir, meðal annars vímuvarnir. Gildir þetta bæði um stofnunina faglega og fjárhagslega en fjárveitingar til stofnunarinnar hafa hækkað umtalsvert á undanförnum árum. Fjárveitingar til stofnunarinnar voru 146,2 millj. kr. í fjárlögum ársins 2004 og hafa hækkað í 195,4 millj. kr. samkvæmt fjárlögum fyrir 2007.
    Eftirfarandi yfirlit sýnir árleg framlög í Forvarnasjóð á árunum 1995–2007.

Árleg framlög í Forvarnasjóð 1995–2005, millj. kr.

Ár Verðlag ársins Verðlag 2006
1995 29,5 44,1
1996 50,0 73,0
1997 55,0 78,9
1998 55,0 77,6
1999 55,0 75,0
2000 70,6 91,7
2001 80,3 97,8
2002 82,5 95,9
2003 78,6 89,5
2004 82,0 90,4
2005 85,8 90,9
2006 86,5
2007 126,1

    Í eftirfarandi töflu er yfirlit yfir úthlutanir úr Forvarnasjóði árin 1999–2006 ásamt yfirliti yfir framlög sem sjóðurinn hefur veitt til rannsóknaverkefna og til reksturs sjóðsins. Jafnframt fylgir sundurliðað yfirlit um úthlutanir úr Forvarnasjóði.

Árlegar úthlutanir úr Forvarnasjóði 1999–2006, millj. kr.



Ár
Árlegar
úthlutanir
Rekstur og
rannsóknir
1999 35,8 19,2
2000 43,5 27,1
2001 49,2 31,1
2002 43,9 38,6
2003 45,3 33,3
2004 44,6 37,4
2005 40,8 42,8
2006 43,3 43,2

    Eftirfarandi yfirlit sýnir sundurliðun á verkefnum og rannsóknum Lýðheilsustöðvar á sviði forvarna:

Árið 2003:
     *      ESPAD, samevrópsk rannsókn á vímuefnaneyslu 37 landa.
     *      Rannsóknir og greining, könnun á högum ungs fólks.

Árið 2004:
     *      Könnun á áfengisneyslu 15 ára og eldri.
     *      Rannsóknir og greining, könnun á högum ungs fólks.
     *      Viðhorfskönnun foreldra.
     *      Fræðslubæklingur um áfengi og áhrif þess á einstaklinginn. Tveir bæklingar, annar ætlaður fullorðnum og hinn ungu fólki.

Árið 2005:
     *      Notkun tóbaks, áfengis og annarra vímuefna meðal ungmenna í framhaldsskólum.
     *      Rannsóknir og greining, könnun á högum ungs fólks.
     *      Innanhússverkefni:
                  –      Höldum heilanum heilum, fræðslubæklingur og veggspjöld um skaðsemi vímuefna (hönnun, prentun, útgáfa).
                  –      Áfengi engin venjuleg vara – þýðing, prentun og útgáfa á riti um áhrif stefnumörkunar í áfengismálum.
                  –      Ráðstefna vegna útkomu „Áfengi engin venjuleg vara“.
                  –      Gerð auglýsinga um áfengisnotkun.
                  –      Auglýsingar í ljósvaka- og prentmiðlum, gerð þeirra og birting.
                  –      Endurútgáfa á fræðslubækling fyrir ófrískar konur um afleiðingar neyslu áfengis og annarra vímuefna á meðgöngu.
                  –      „Vertu til“, unnið að forvörnum í sveitarfélögum.
                  –      Annar rekstur er viðkemur áfengis- og vímuvörnum, svo sem ráðstefnur og erlent samstarf.

Árið 2006:
     *      HBSC, rannsókn á heilsu og líðan grunnskólanema í 6., 8. og 10. bekk allra skóla á landinu.
     *      DAD, samnorræn rannsókn, könnuð þróun áfengisneyslu og tjón af hennar völdum á Íslandi 1990–2004.
     *      Styrkir til farar á ráðstefnu um forvarnir.
     *      Innanhússverkefni:
                  –      „Ábyrgð – öllum í hag“, verkefni sem snýr að auknu öryggi á skemmtistöðum. Færniþjálfun og aukið samstarf.
                  –      Auglýsingar í ljósvaka- og prentmiðlum.
                  –      Endurprentun á „Höldum heilanum heilum“, fræðsluefni um skaðsemi fíkniefna.
                  –      Skólafræðsla ætluð kennurum og forvarnafulltrúum og öðrum sem koma að málefnum ungs fólks, bæði á heimasíðu og til útgáfu.
                  –      Keyptar sýningar fyrir foreldra á forvarnaleiksýningu SÁÁ.
                  –      Samantekt skýrslu um möguleg áhrif stjórnvaldsaðgerða á áfengisneyslu.
                  –      „Vertu til“ – forvarnir í sveitarfélögum.
                  –      Annar rekstur er viðkemur áfengis- og vímuvörnum, svo sem ráðstefnur og erlent samstarf.

     2.      Hver eru framlög hins opinbera til meðferðar ungra fíkniefnaneytenda á yfirstandandi ári, hver voru framlögin árin 1998–2005 og hver eru áætluð framlög árið 2007?
    Framlög til meðferðar ungra fíkniefnaneytenda eru fyrst og fremst vegna starfrækslu meðferðarheimila fyrir börn og unglinga að 18 ára aldri á forræði félagsmálaráðuneytisins og undirstofnana þess. Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti veitir þó fé til stofnana þar sem veitt er meðferð fyrir áfengis- og vímuefnaneytendur. Framlög til stofnananna eru ekki mörkuð þessum hópi sérstaklega.
    Eftirfarandi yfirlit sýnir framlög ríkisins til Samtaka áhugamanna um áfengisvandamálið, Krýsuvíkurskóla og Hlaðgerðarkots árin 1998–2007.

Ár Samtök áhugamanna um áfengisvandamálið Krýsuvíkurskóli, vist- og meðferðarheimili Hlaðgerðarkot Samtals
1998 239,6 16,4 44,9 300,9
1999 251,0 18,0 46,9 315,9
2000 329,1 24,0 48,3 401,4
2001 356,0 19,1 55,8 430,9
2002 408,9 25,6 61,9 496,4
2003 399,6 38,7 61,8 500,1
2004 453,5 39,9 63,6 557,0
2005 471,3 41,2 65,6 578,1
2006 507,3 48,7 69,9 625,9
2007 576,2 60,9 75,8 712,9

    Auk fyrrgreindra stofnana er meðferð fyrir fíkniefnaneytendur veitt á stofnunum sem heyra undir ráðuneytið. Má þar nefna Landspítala – háskólasjúkrahús og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri en framlög til verkefnanna eru hluti af heildarfjárveitingum til stofnananna. Enn fremur fá margar af smærri stofnunum styrki til meðferðarstarfs, ýmist af ráðstöfunarfé ráðherra eða öðrum fjárlagaliðum ráðuneytisins.