Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 478. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 974  —  478. mál.




Svar



félagsmálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um erlenda ríkisborgara á vinnumarkaði.

    Við vinnslu þessa svars aflaði ráðuneytið upplýsinga frá Vinnumálastofnun og Vinnueftirliti ríkisins.

     1.      Hve margir erlendir ríkisborgarar komu til starfa á Íslandi annars vegar árið 2005 og hins vegar árið 2006? Í hvaða starfsgreinum voru þeir og hvar búsettir, skipt eftir landshlutum? Hvað má ætla að margir þeirra séu komnir hingað til skammtímadvalar og hve margir til langtímadvalar?
    Samkvæmt tölum frá Hagstofu Íslands störfuðu um 9.010 erlendir ríkisborgarar hér á landi árið 2005. Ekki liggja fyrir nákvæmar tölur fyrir árið 2006 en gera má ráð fyrir að þá hafi um 17.400 erlendir ríkisborgarar starfað á íslenskum vinnumarkaði og er sú niðurstaða byggð á neðangreindum upplýsingum:
    Frá 1. maí 2006 hefur atvinnurekendum borið skylda til að tilkynna til Vinnumálastofnunar um ráðningu ríkisborgara frá Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Kýpur, Möltu, Póllandi, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklandi og Ungverjalandi en 3.999 slíkar tilkynningar hafa borist Vinnumálastofnun. Þá er stofnuninni kunnugt um að 1.800 einstaklingar til viðbótar frá fyrrnefndum ríkjum hafi fengið útgefna kennitölu hér á landi en vinnuveitendur þeirra hafa ekki enn tilkynnt ráðningu þeirra til stofnunarinnar. Stofnunin hefur ítrekað þessa tilkynningarskyldu með bréfum til hlutaðeigandi atvinnurekenda. Starfsmannaleigur hafa tilkynnt um 814 starfsmenn til Vinnumálastofnunar auk þess sem gefin hafa verið út 2.849 tímabundin atvinnuleyfi. Þá eru um 2.000 ríkisborgarar frá gömlu aðildarríkjunum að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið starfandi hér á landi en ekki er skylda að tilkynna ráðningu þeirra til Vinnumálastofnunar. Loks er gert ráð fyrir að af þeim 9.000 erlendu ríkisborgurum sem störfuðu hér á landi á árinu 2005 hafi 6.000 enn verið að störfum árið 2006.
    Í töflunum hér á eftir má sjá skiptingu nýrra tímabundinna atvinnuleyfa á starfsgreinar og atvinnugreinar. Þær gefa þó takmarkaða mynd af stöðu mála 2006 því nauðsynlegt er að taka einnig með í myndina skráningar ríkisborgara frá nýjum aðildarríkjum Evrópusambandsins sem ekki þurftu atvinnuleyfi frá 1. maí 2006. Enn er unnið að úrvinnslu gagna þar um og því liggja ekki fyrir nákvæmar upplýsingar um í hvaða starfsgreinum eða atvinnugreinum ríkisborgarar nýju Evrópusambandsríkjanna störfuðu frá 1. maí 2006. Þó má áætla að flestir hafi starfað við mannvirkjagerð/byggingariðnað, matvælaframleiðslu og annan iðnað, auk þjónustugreina og að um sé að ræða verkafólk, sérhæft iðnverkafólk og iðnaðarmenn að stærstum hluta líkt og raunin var með þá sem fengu atvinnuleyfi.


Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.




Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Í töflunni hér að neðan er yfirlit yfir útgefin atvinnuleyfi á árunum 2005 og 2006 eftir búsetu.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Hér á eftir er greining Hagstofu Íslands á erlendum ríkisborgurum á íslenskum vinnumarkaði árið 2005 eftir atvinnugreinum og landshlutum en tölur frá 2006 liggja ekki fyrir.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.



    Ætla má að þeir sem starfað hafa við virkjanaframkvæmdir séu flestir að störfum í skamman tíma, þ.e. meðan á framkvæmdum stendur. Við byggingu álvers í Reyðarfirði vinna aðallega Pólverjar og gera má ráð fyrir að einhverjir þeirra snúi til annarra starfa í byggingageiranum ef eftirspurn verður áfram mikil á vinnumarkaði. Gert er ráð fyrir að erlendum starfsmönnum við stóriðjuframkvæmdir fækki um 1.550 á árinu 2007 og á árinu 2008 er einnig gert ráð fyrir fækkun meðal erlendra starfsmanna við stóriðju sem gæti numið um 500 manns. Hér er ekki gert ráð fyrir framkvæmdum við stækkun álvers í Straumsvík eða undirbúningi annarra stóriðjuframkvæmda.

     2.      Hvað má ætla að margir erlendir ríkisborgarar verði hér á landi árin 2007 og 2008 ef mið er tekið af áætlaðri stöðu í efnahags- og atvinnumálum?
    Gera má ráð fyrir að á bilinu 13.000–15.000 erlendir starfsmenn verði starfandi á Íslandi á árinu 2007 af þeim u.þ.b. 17.000 erlendu starfsmönnum sem störfuðu hér á landi á árinu 2006. Á árinu 2008 má gera ráð fyrir að milli 10.000 og 12.000 erlendir starfsmenn verði enn starfandi hér á landi.
    Gera má ráð fyrir að eftirspurn dragist saman í byggingarframkvæmdum á almennum markaði, þar sem framboð á íbúðum er mikið og margir af þeim erlendu starfsmönnum sem starfa við þær framkvæmdir fara vafalaust úr landi. Auk þess má gera ráð fyrir að ný tækifæri geti opnast í öðrum ríkjum á Evrópska efnahagssvæðinu og það gæti leitt til fækkunar.

     3.      Hve margir erlendir ríkisborgarar störfuðu annars staðar á Norðurlöndunum á sl. ári sem hlutfall af heildarmannfjölda og hvert er hlutfallið hér á landi?
    Ekki liggja fyrir gögn um fjölda erlendra ríkisborgara á árinu 2006 á vinnumarkaði Norðurlandanna en á árinu 2005 voru hlutföllin eftirfarandi:
    Í Danmörku voru 3,4% vinnuaflsins erlendir ríkisborgarar, í Finnlandi var hlutfallið 1,7%, í Noregi var hlutfallið 4,3% og í Svíþjóð var hlutfallið um 5%. Á Íslandi var hlutfallið 5,5% árið 2005 en hefur hækkað mikið og var að öllum líkindum um 9% á árinu 2006.

     4.      Hvað má ætla að margir erlendir ríkisborgarar af EES-svæðinu hefðu verið ráðnir gegnum innlendar og erlendar starfsmannaleigur ef aðlögunarfrestur um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins hefði verið nýttur til 1. maí 2009?
    Hér á landi hefur verið mikil eftirspurn eftir vinnuafli síðustu ár og því má telja líklegt að álíka margir erlendir ríkisborgarar hefðu streymt til starfa hér á landi og raunin hefur orðið þrátt fyrir að aðlögunarfrestur um frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins hefði verið nýttur til 1. maí 2009. Þar sem fyrrnefndur aðlögunarfrestur náði ekki til þjónustuviðskipta má ætla að ef hann hefði verið nýttur áfram hefði mikil aukning orðið hér á landi í tengslum við þjónustu starfsmannaleiga sem hafa staðfestu í nýju EES- ríkjunum (Eistlandi, Lettlandi, Litháen, Kýpur, Möltu, Póllandi, Slóvakíu, Slóveníu, Tékklandi og Ungverjalandi) þar sem telja verður líklegt að atvinnurekendur hefðu mætt þessari miklu eftirspurn eftir vinnuafli með leigu á erlendum starfsmönnum með milligöngu fyrrnefndra starfsmannaleiga. Með því að nýta ekki aðlögunarfrestinn eftir 1. maí 2006 varðandi frjálsan atvinnu- og búseturétt launafólks innan Evrópska efnahagssvæðisins má því ætla að náðst hafi töluverður árangur í því að styrkja það form að beint ráðningarsamband sé milli launamanns og atvinnurekanda, en slíkt ráðningarform hefur verið ríkjandi á íslenskum vinnumarkaði um langt skeið til heilla fyrir vinnumarkaðinn.

     5.      Hve mörg tilvik komu upp árið 2005 annars vegar og árið 2006 hins vegar þar sem launakjör og aðbúnaður erlendra ríkisborgara var ekki í samræmi við íslenska löggjöf og kjarasamninga á vinnumarkaði?
    Að mati Vinnumálastofnunar má ætla að 50–70% starfsmanna starfsmannaleiga hafi fengið leiðréttingu á launum árið 2006. Gert er ráð fyrir að dregið hafi úr tilhneigingu til að veita þessum starfsmönnum lakari kjör, m.a. vegna aðhalds Vinnumálastofnunar og stéttarfélaga, en mörg slík mál eru leyst fyrir milligöngu stéttarfélaga. Vinnumálastofnun hefur komið með athugasemdir við talsverðan fjölda ráðningarsamninga og hafa þau mál flest verið leyst greiðlega í samvinnu við atvinnurekendur.
    Að því er varðar eftirlit með aðbúnaði starfsmanna greinir Vinnueftirlit ríkisins ekki niðurstöður sínar eftir því hvort starfsmenn eru erlendir ríkisborgarar eða ekki. Vinnueftirlitið hyggur hins vegar á átak á þessu ári þar sem horft verður sérstaklega til vinnustaða þar sem erlendir ríkisborgarar starfa.

     6.      Hvernig er fylgst með því að í útboðum verktaka séu launakjör erlendra ríkisborgara sem starfa á vegum þeirra í samræmi við íslenska löggjöf og kjarasamninga á vinnumarkaði?
    Farið er yfir ráðningarsamninga og þannig fylgst með því að þeir sem koma hingað til lands fái laun í samræmi við íslenska löggjöf. Því til stuðnings er óskað eftir afriti af þjónustusamningi og/eða verktakasamningi. Í upphafi var tilhneiging hjá einstökum fyrirtækjum til að nota starfsmannaleigur sem leið til þess að komast hjá því að greiða laun samkvæmt íslenskum kjarasamningum. Hins vegar hafa lög um starfsmannaleigur sem tóku gildi í janúar 2006 torveldað notkun starfsmannaleiga í þessu skyni.