Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 605. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1008  —  605. mál.




Svar



umhverfisráðherra við fyrirspurn Birkis J. Jónssonar um störf á landsbyggðinni.

     1.      Hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins hafa orðið til á landsbyggðinni frá samþykkt byggðaáætlunar 2006?
    Byggðaáætlun var samþykkt á Alþingi 3. júní 2006. Hjá ráðuneytinu og stofnunum þess hafa orðið til tvö ný störf á landsbyggðinni frá samþykkt byggðaáætlunar.

     2.      Hverjar eru áætlanir ráðherra um frekari fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni?
    Á Alþingi liggur nú fyrir lagafrumvarp um Vatnajökulsþjóðgarð. Gert er ráð fyrir að uppbygging þjóðgarðsins taki fimm ár og þegar henni verður að fullu lokið verða samtals 12 heilsársstarfsmenn hjá þjóðgarðinum, auk 20 landvarða í tímabundnum störfum yfir sumarið. Einnig skal minna á að metið hefur verið að með tilurð Vatnajökulsþjóðgarðs fjölgi nýjum störfum í landinu um 400–500 árið 2012, þar af verði um þriðjungur í nágrenni þjóðgarðsins.
    Annað verkefni sem umhverfisráðuneytið vinnur að og lýtur að því að efla og fjölga störfum á landsbyggðinni er verkefni tengt Staðardagskrá 21. Þar hefur ráðuneytið styrkt rekstur skrifstofu í Borgarnesi samkvæmt samningi við Samband íslenskra sveitarfélaga, en aukinn stuðningur hefur komið frá iðnaðarráðuneytinu á grundvelli byggðaáætlunar, sem hefur eflt skrifstofuna enn frekar. HInn 15. febrúar sl. skrifaði umhverfisráðherra undir samkomulag við iðnaðarráðherra um áframhald þessa verkefnis í tengslum við byggðaáætlun 2006, til að styðja við innleiðingu Staðardagskrár 21 í fámennum sveitarfélögum á landsbyggðinni.