Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 556. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1023  —  556. mál.




Svar



dómsmálaráðherra við fyrirspurn Valdimars L. Friðrikssonar um kærur í nauðgunarmálum.

    Við vinnslu svars þessa óskaði ráðuneytið eftir upplýsingum hjá ríkislögreglustjóra, sem aflaði upplýsinga í samvinnu við ríkissaksóknara. Embættin söfnuðu saman upplýsingum eins og kostur var.
    Hjá embætti ríkislögreglustjóra liggja ekki fyrir eldri upplýsingar um fjölda kæra vegna brota gegn einstökum ákvæðum hegningarlaga, nr. 19/1940, en frá árinu 1999. Í töflum hér á eftir eru upplýsingar sem teknar hafa verið saman um ætluð kynferðisbrot og er greint frá forsendum við hverja töflu fyrir sig. Almennt ber þó að hafa í huga að miðað er við árið sem ætlað brot er kært til lögreglu sem er ekki endilega það sama og þegar brot var framið. Þannig geta brot hafa staðið yfir í lengri tíma í árum talið en enda sem eitt málsnúmer á því ári sem kæra berst eða rannsókn hefst. Þá ber að taka það fram að þær upplýsingar sem sem fram koma í töflnum taka einnig til brota gegn 197. gr. og 198. gr. almennra hegningalaga.

     1.      Hve margar kærur hafa borist lögreglu um brot gegn ákvæðum 194.–196. gr. almennra hegningarlaga á árabilinu 1990–2006, skipt eftir árum?
    Tafla 1 sýnir kynferðisbrot á landinu öllu 1999–2006 sem falla undir ákvæði 194.–198 gr. hegningarlaga. Þessar upplýsingar byggjast á ársskýrslum ríkislögreglustjórans og er miðað við fjölda skráðra brota í málaskrá.

Tafla 1. Fjöldi kynferðisbrota á Íslandi 1999–2006


sem falla undir 194.–198. gr. almennra hegningarlaga.


Tilkynnt kynferðisbrot 1999–2005 * 2006 2005 2004 2003 2002 2001 2000 1999
Kynferðisbrot, nauðgun (194. gr.) 67 73 51 69 74 51 36 48
Kynferðisbrot, ólögmæt nauðung (195. gr.) 4 2 0 2 2 4 4 0
Kynferðisbrot, misneyting (andlegir annmarkar, rænuleysi) (196. gr.) 28 25 24 26 36 32 17 19
Kynferðisbrot, misneyting (varúðarákvæði, trúnaðarbrot) (197. gr.) 0 2 10 6 6 5 13 10
Misnotkun, kynmök (frekleg misnotkun á aðstöðu) (1. mgr. 198. gr.) 2 1 3 3 0 0 1 0
Kynferðisbrot, önnur kynferðisleg áreitni (2. mgr. 198. gr.) 24 21 3 4 4 11 12 10
Alls 125 124 91 110 122 103 83 87
*Tölurnar fyrir árið 2006 eru bráðbirgðatölur

     2.      Hve margar þeirra leiddu til ákæru og í hve mörgum málum var sakfellt?

    Í töflu 2. má sjá fjölda og afdrif mála sem heimfærð hafa verið undir 194.–198. gr. almennra hegningarlaga og bárust ríkissaksóknara á árunum 1999–2006.

Tafla 2. Fjöldi mála sem heimfærð hafa verið undir 194.–198. gr.
almennra hegningarlaga og bárust ríkissaksóknara 1999–2006.

Kynferðisbrot (194.–198. gr. hgl.)*
Ár Alls Niðurfellt Ákært Sýknað í héraðsdómi Sakfellt í héraðsdómi Áfrýjað Sýknað í Hæstarétti Sakfellt í Hæstarétti Ódæmt í Hæstarétti
1999 26 19 7 3 4 2 0 2 0
2000 39 27 12 4 8 3 0 3 0
2001 29 18 11 5 6 6 1 5 0
2002 58 37 21 5 14 9 2 7 0
2003 65 49 16 11 5 4 1 3 0
2004 43 32 10 3 7 6 0 6 0
2005 52 32 19 8 9 5 0 3 2
2006** 68 48 14 2 8 8 0 1 6
Alls 380 262 110 41 61 43 4 30 8
*Heimild: Ársskýrsla ríkissaksóknara 2004 og 2005
** Tölurnar fyrir árið 2006 eru bráðabirgaðtölur. Í einu máli var hluti felldur niður og ákært að hluta. Sjö mál eru enn í rannsókn.

    Í töflu 1 er hvert brot talið sem eitt mál en í töflu 2 geta fleiri en eitt brot falist í hverju máli.

     3.      Hversu mörg mál voru felld niður, m.a. skv. 112. gr. laga um meðferð opinberra mála þar sem málið hefur ekki talist líklegt til sakfellingar, og hver er staða þeirra sem hafa verið kærðir?

    Í töflu2 kemur fram í öðrum dálki hve mörg mál hafa verið felld niður og hafa þau öll verið felld niður á grundvelli 112. gr. laga um meðferð opinberra mála, nr. 19/1991.
    Varðandi réttarstöðu þeirra sem telja sig hafa verið ranglega kærðir er rétt að benda á XXI. kafla laga um meðferð opinberra mála, en sá kafli fjallar um bætur til þeirra sem sætt hafa ýmiss konar þvingunaraðgerðum í sambandi við opinbert mál en síðan reynst saklausir, svo og til þeirra sem saklausir hafa þolað refsidóm. Rétt er að taka fram að rangar sakargiftir varða viðkomandi refsingu skv. 148. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Sá sem borinn hefur verið röngum sökum á þess kost að koma fram bótakröfu í máli sem höfðað yrði á hendur sakaráberanum. Á undanförnum árum hafa fallið nokkrir dómar í héraði í málum þar sem sakfellt hefur verið fyrir rangar sakargiftir í málum sem þessum. Í þeim málum var talið sannað að um vísvitandi rangar sakargiftir hefði verið um að ræða.