Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 675. máls.

Þskj. 1031  —  675. mál.



Frumvarp til laga

um breytingu á lögum um sálfræðinga, nr. 40/1976,
með síðari breytingum.

(Lagt fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




1.     gr.
    

    1. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Rétt til að kalla sig sálfræðing hefur hver sá sem lokið hefur kandídatsprófi í sálfræði frá Háskóla Íslands. Ráðherra getur veitt þeim sem lokið hefur sambærilegu prófi í sálfræði frá öðrum háskóla leyfi til að kalla sig sálfræðing. Leita skal umsagnar félagsvísindadeildar Háskóla Íslands og Sálfræðingafélags Íslands áður en slíkt leyfi er veitt.

2. gr.

    2. gr. laganna verður svohljóðandi:
    Rétt til að starfa við sálfræðilega greiningu og meðferð hefur:
     1.      hver sá sem til þess hefur fengið leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra,
     2.      hver sá sem fengið hefur staðfestingu ráðherra á starfsleyfi í landi sem er aðili að samningnum um Evrópska efnahagssvæðið eða stofnsamningi Fríverslunarsamtaka Evrópu, sbr. reglugerð nr. 244/1994.
    Leyfi skv. 1. tölul. 1. mgr. má einungis veita sálfræðingum sem uppfylla skilyrði 1. gr. og hafa lokið eins árs viðbótarstarfsnámi undir handleiðslu á viðeigandi stofnunum hér á landi eða erlendis samkvæmt nánari ákvæðum í reglugerð sem ráðherra setur að fengnum tillögum félagsvísindadeildar Háskóla Íslands og Sálfræðingafélags Íslands. Leita skal umsagnar félagsvísindadeildar Háskóla Íslands og Sálfræðingafélags Íslands áður en leyfi er veitt.

3. gr.

    Lög þessi öðlast þegar gildi.

Ákvæði til bráðabirgða.


    Þrátt fyrir ákvæði 2. mgr. 2. gr. er ráðherra heimilt að veita þeim sem uppfylla skilyrði 1. gr. og hafið hafa nám til kandídatsprófs í sálfræði, eða sambærilegs prófs, að loknu BA-prófi í sálfræði, fyrir gildistöku laga þessara, leyfi til að starfa við sálfræðilega greiningu og meðferð, sbr. 1. tölul. 1. mgr. 2. gr.

Athugasemdir við lagafrumvarp þetta.


    Frumvarp þetta var samið í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu í samráði við Sálfræðingafélag Íslands og sálfræðiskor félagsvísindadeildar Háskóla Íslands.
    Lög um sálfræðinga hafa að mestu verið óbreytt frá því að þau voru sett árið 1976, að öðru leyti en því að með lögum nr. 68/1988 komu inn ákvæði um leyfi til að kalla sig sérfræðing í sérgrein innan sálfræði og með lögum nr. 54/1996 voru málefni sálfræðinga flutt frá menntamálaráðuneytinu til heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins. Mikil breyting hefur orðið á menntun og starfsþjálfun sálfræðinga frá því að lögin voru sett, m.a. var tekið upp nám til embættisprófs í sálfræði við Háskóla Íslands árið 1999 og löngu tímabært að breyta löggjöf til samræmis við það. Einnig hafa orðið miklar breytingar á þeim kröfum sem gerðar eru til sálfræðinga annars staðar á Norðurlöndum. Í því sambandi er bent á að í gildi er samningur milli Norðurlandanna þar sem kveðið er á um gagnkvæma viðurkenningu á starfsréttindum sálfræðinga og því eðlilegt að gera svipaðar kröfur hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum. Hér er því lagt til að kröfur til þeirra sem starfa við sálfræðilega greiningu og meðferð verði samræmdar þeim kröfum sem gerðar eru annars staðar á Norðurlöndum og er þar einkum horft til Danmerkur.
    Samkvæmt núgildandi lögum mega þeir einir kalla sig sálfræðinga sem fengið hafa til þess leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytisins og má einungis veita leyfi þeim sem lokið hafa kandídatsprófi í sálfræði eða öðru hliðstæðu prófi. Lagt er til að þetta verði óbreytt að öðru leyti en því að þeir sem hafa lokið kandídatsprófi í sálfræði frá Háskóla Íslands öðlast við það rétt til að kalla sig sálfræðinga, en þeir sem lokið hafa sambærilegu prófi í sálfræði frá öðrum háskóla þurfa hins vegar, eins og áður, að sækja um leyfi til að mega kalla sig sálfræðing. Meginbreytingin felst hins vegar í því að sækja þarf um leyfi til að mega starfa við sálfræðilega greiningu og meðferð og það leyfi má einungis veita þeim sálfræðingum sem hafa lokið eins árs viðbótarstarfsnámi undir handleiðslu á viðeigandi stofnunum, samkvæmt nánari skilgreiningu í reglugerð. Hér er því skilið á milli réttar til að kalla sig sálfræðing og réttar til að starfa við sálfræðilega greiningu og meðferð. Með þessu eru kröfur til þeirra sem leyfi hafa til að starfa sem sálfræðingar samræmdar þeim kröfum sem almennt eru gerðar í nágrannalöndum okkar og stefnu og samþykktum Evrópusamtaka sálfræðingafélaga (EFPA).

Athugasemdir við einstakar greinar frumvarpsins.


Um 1. gr.


    Hér er lagt til að þeim sem lokið hefur kandídatsprófi í sálfræði frá Háskóla Íslands sé heimilt að kalla sig sálfræðing. Þeir þurfi því ekki að sækja sérstaklega um leyfi til þess, eins og nú er. Þeir sem lokið hafa hliðstæðu prófi frá öðrum háskólum þurfa hins vegar, eins og nú, að sækja um leyfi ráðherra til að mega kalla sig sálfræðing, enda þarf þá að meta hvort um hliðstætt próf er að ræða.

Um 2. gr.


    Hér er lagt til að sækja þurfi um leyfi til að mega starfa við sálfræðilega greiningu og meðferð og að leyfið megi einungis veita sálfræðingum sem lokið hafa eins árs viðbótarstarfsnámi. Með þessu er lagt til að starfssvið sálfræðinga verði lögverndað, en jafnframt gerðar auknar kröfur til þeirra sem öðlast rétt til að starfa sem sálfræðingar. Þetta er í samræmi við almennar kröfur sem Evrópusamtök sálfræðingafélaga (EFPA) gera um sálfræðinám, þ.e. að námið skiptist í þriggja ára grunnám (BA-nám), tveggja ára framhaldsnám (MA- nám) og eins árs starfsréttindanám. Í Svíþjóð er gerð krafa um eins árs starfsréttindanám að loknu sálfræðiprófi (fimm ára námi) sk. „praktist tjänstgöring for psykologlegitimation“ eða PTP. Í Danmörku er gerð krafa um tveggja ára starfsréttindanám að loknu cand. psych. námi (fimm ára námi). Í Noregi er eins árs starfsréttindanám innifalið í háskólanámi sálfræðinga sem samanlagt er sex ár.

Um 3. gr.


    Greinin þarfnast ekki skýringa.

Um ákvæði til bráðabirgða.


    Ekki þykir rétt að auknar kröfur til þeirra sem hljóta leyfi til að starfa sem sálfræðingar taki til þeirra sem hafið hafa nám til cand. psych. eða sambærilegs prófs fyrir gildistöku laganna.



Fylgiskjal.


Fjármálaráðuneyti,
fjárlagaskrifstofa:



Umsögn um frumvarp til laga um breytingu á lögum um sálfræðinga,
nr. 40/1976, með síðari breytingum.

    Með frumvarpinu er lagt til að þeir sem hafa lokið kandídatsprófi í sálfræði frá Háskóla Íslands öðlist við það rétt til að kalla sig sálfræðinga. Þeir sem hafa lokið kandídatsprófi eða sambærilegu prófi í sálfræði frá öðrum háskólum þurfa áfram að hafa til þess leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis. Til að mega starfa við sálfræðilega greiningu og meðferð þarf hins vegar leyfi heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytis og það verður einungis veitt þeim sálfræðingum sem hafa lokið eins árs viðbótarstarfsnámi undir handleiðslu á viðeigandi stofnun. Þetta er í samræmi við kröfur sem gerðar eru annars staðar á Norðurlöndum og einkum í Danmörku. Til að starfa sem klínískur sálfræðingur þurfa sálfræðingar eftir sem áður að hafa sérfræðileyfi í klínískri sálfræði, sbr. reglugerð nr. 158/1990 um sérfræðileyfi sálfræðinga. Til þess að fá slíkt leyfi þurfa sálfræðingar m.a. að hafa lokið framhaldsnámi auk langrar starfsþjálfunar.
    Ekki er gert ráð fyrir að frumvarpið hafi áhrif á útgjöld ríkissjóðs verði það óbreytt að lögum.