Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 596. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1032  —  596. mál.




Svar



dóms- og kirkjumálaráðherra við fyrirspurn Birkis J. Jónssonar um störf á landsbyggðinni.

     1.          Hversu mörg störf á vegum ráðuneytisins hafa orðið til á landsbyggðinni frá samþykkt byggðaáætlunar 2006?
    Í dóms- og kirkjumálaráðuneyti hefur markvisst verið unnið að því að efla og styrkja sýslumannsembætti utan höfuðborgarsvæðisins. Verkefni hafa þegar verið flutt frá ráðuneytinu til sýslumannsembætta, sbr. meðal annars heimildir í nýsamþykktum lögum um breytingar á ýmsum lögum vegna flutnings verkefna frá dóms- og kirkjumálaráðuneyti til sýslumannsembætta, nr. 143 15. desember 2006, sem gildi tóku 1. janúar 2007. Eins og sjá má af eftirfarandi töflu er um töluverðan fjölda verkefna að ræða.

Verkefni Umfang Staðsetning
Útgáfa Stjórnartíðinda og Lögbirtingablaðs Ritstjóri: 30% starf Ritstjórnarfulltrúi: 1 staða Útgáfa Lögbirtings hefur verið flutt til Víkur (1. jan. 2007)
Innheimta sekta og sakarkostnaðar Alls 11 stöður eru við innheimtumiðstöðina Innheimtumiðstöð hefur verið komið á fót á Blönduósi (2006)
Fullnusta norrænna refsidóma Hjá innheimtumiðstöðinni á Blönduósi (2006)
Framleiðsla vegabréfa 5 stöður Hjá sýslumanninum í Keflavík (2006)
Málefni bótanefndar Formaður: 15% starf Starfsmaður: 1 staða Hjá sýslumanninum á Siglufirði (2006)
Ættleiðingaleyfi 80% starf Hjá sýslumanninum í Búðardal (1. jan. 2007)
Kaupmálaskrá 5% starf Hjá sýslumanni Snæfellinga (1. jan. 2007)
Löggilding fasteignasala 30% starf Hjá sýslumanninum í Hafnarfirði (1. jan. 2007)
Staðfesting skipulagsskráa og eftirlit með sjóðum 25% starf lögfræðings Hjá sýslumanninum á Sauðárkróki (1. jan. 2007)
Happdrættisleyfi
Eftirlit með spilakössum
Að minnsta kosti 20% starf Hjá sýslumanninum á Hvolsvelli (1. jan. 2007)
Útgáfa leyfa og eftirlit með útfaraþjónustum 5% starf Hjá sýslumanninum á Hólmavík (1. jan. 2007)
Dómtúlkar og skjalaþýðendur, löggilding 5% starf Hjá sýslumanninum á Hólmavík (1. jan. 2007)

     2.      Hverjar eru áætlanir ráðherra um frekari fjölgun opinberra starfa á landsbyggðinni?
    Framangreindur flutningur á verkefnum frá ráðuneytinu til sýslumanna þykir hafa tekist vel. Hefur stjórnsýslustigi verið bætt við afgreiðslur mála í þessum málaflokkum og horfir það til aukins réttaröryggis. Auk þess hefur upplýsingatækni fleygt fram og því er ekki loku fyrir það skotið að flytja megi fleiri verkefni frá ráðuneyti til sýslumanna. Hefur því verið ákveðið að ráðast í enn frekari skoðun á því hvaða önnur verkefni þykja til þess fallin að færa til sýslumannsembætta á landsbyggðinni.