Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 453. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1035  —  453. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur um húsnæði Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.

     1.      Hefur farið fram þarfagreining á starfsemi, framtíðaruppbyggingu og húsnæðismálum Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, sem sett var á laggirnar um mitt ár 2005, sérstaklega hvað varðar stjórnsýslu hennar og miðlæga þjónustu?
    Hér mun væntanlega átt við húsnæðislýsingu sem ævinlega er gerð áður en leitað er eftir nýju húsnæði fyrir stofnun. Vinna við gerð þessarar húsnæðislýsingar hófst um miðjan nóvember 2005, en undirbúningur hennar fólst m.a. í úttekt á stjórnsýslu heilsugæslunnar og ýmiss konar gagnasöfnun í ráðuneytinu (sjá svar við næstu spurningu).

     2.      Ef svo er, hvenær fór sú þarfagreining fram, hverjir tóku þátt í henni, hvaða gögn liggja fyrir eftir þá greiningu og hver var niðurstaða hennar?
    Eins og áður sagði hófst þessi vinna af fullum krafti um miðjan nóvember 2005. Þessi undirbúningsvinna var í eðli sínu sú sama og unnin hafði verið tvívegis með Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins við undirbúning á leigu húsnæðis fyrir heilsugæslustöðvar í Heima- og Vogahverfi og í miðbæ Kópavogs. Þá var hins vegar verið að leita að húsnæði fyrir heilsugæslustöðvar sem heyra undir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og stýrðu stjórnendur hennar því gangi verksins með ráðgjafa sínum. Við þessa vinnu varð til gagnleg reynsla sem nýttist við áframhaldandi vinnu. Í því tilviki sem hér um ræðir átti Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins sjálf hlut að máli, sem undirstofnun ráðuneytisins, og því eðlilegt að ráðuneytið stýrði sjálft þessu verki.
    Í samráði við Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins réð ráðuneytið arkitekt til ráðgjafar um þær kröfur sem gera þyrfti til væntanlegs húsnæðis með tilliti til skipulags þess, herbergjastærða og annarra krafna. Heilsugæsla höfuðborgarsvæðisins lagði fram upplýsingar um þáverandi fjölda starfsmanna og starfsstöðva ásamt áætlun um væntanlega fjölgun þeirra á næstu árum. Ritun og frágangur húsnæðislýsingar var unnin sameiginlega af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu og heilsugæslunni með aðstoð ráðgefandi arkitekts.
    Fyrirliggjandi gögn að lokinni þessari vinnu og niðurstaða hennar er húsnæðislýsingin, og var hún lögð til grundvallar auglýsingu eftir húsnæði. Húsnæðislýsingin er til m.a. í ráðuneytinu, hjá Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og hjá Ríkiskaupum.
    Gerð húsnæðislýsingar lauk um miðjan janúar og var þá aflað heimildar til að auglýsa eftir húsnæði sem gert var 6. febrúar 2006.

     3.      Hvað gerðu stjórnvöld til að tryggja áframhaldandi starfsemi Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins í Heilsuverndarstöðinni þegar sala hússins var ákveðin?
    Samkvæmt gildandi lögum þarf að auglýsa á almennum markaði eftir húsnæði ef ætlunin er að finna heppilegt fullbyggt húsnæði fyrir opinbera starfsemi og taka það á leigu. Nauðsynlegum undirbúningi vegna auglýsingarinnar er lýst í svari við 2. spurningu hér að framan.

     4.      Var rætt til þrautar við nýjan eiganda hússins um hvort möguleiki væri á samkomulagi þegar lá ljóst fyrir að húsnæðið sem var í boði var ekki hentugt og uppfyllti ekki kröfur í auglýsingu um að starfsemi heilsugæslunnar yrði undir einu þaki og að það lægi á útkanti þess svæðis sem var tilgreint í auglýsingu?
    Eins og áður sagði var undirbúningur að auglýsingu eftir leiguhúsnæði fyrir Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins hafinn síðla árs 2005.
    Alls bárust fjögur svör við auglýsingunni, tvö þeirra voru boð um leigu á húsnæði sem þá var enn óbyggt. Hin svörin tvö voru tilboð frá Landsafli hf. um húsnæði í Mjódd og frá Markhúsi ehf. um leigu á Heilsuverndarstöðinni. Rætt var við báða þessa bjóðendur en leiguverð í tilboði Landsafls var hagstæðara en boð Markhúsa.
    Í tilboði Landsafls fólst leiga á skrifstofuhúsnæði í Álfabakka 16 sem fyrirtækið átti og boð um að finna heppilegt húsnæði fyrir miðstöðvarnar. Ákveðið var að kanna frekar hvað Landsafl gæti boðið. Þegar fyrir lá að til viðbótar skrifstofuhúsnæði í Álfabakka 16 gæti Landsafl boðið húsnæði á 2. hæð í Þönglabakka 1 fyrir miðstöðvar mæðraverndar og heilsuverndar barna var ákveðið að ganga til samninga við Landsafl um leigu á húsnæði fyrir Heilsugæsluna enda var talið að þar með fengist hagkvæm heildarlausn á húsnæðismálum heilsugæslunnar sem fullnægt gæti öllum kröfum sem settar voru fram í húsnæðislýsingunni.     Húsnæðið í Mjódd er nokkuð nálægt því að vera miðsvæðis á þjónustusvæði Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem nær sunnan úr Hafnarfirði, upp á Kjalarnes og út á Seltjarnarnes. Húsnæðið í Mjódd er skammt frá aðalsamgönguleiðum um svæðið án þess þó að þar verði truflun af umferðarhávaða. Þó að húsnæðið sé í tveimur húsum með mismunandi götuheitum eru bæði húsin ásamt nokkrum öðrum tengd saman með yfirbyggðri göngugötu. Fyrir í þessum húsum var miðstöð heimahjúkrunar ( í Álfabakka 16 ) og Heilsugæslustöðin í Mjódd. Þá reka einkaaðilar þar m.a. stóra sérfræðilæknastöð, röntgen- og blóðrannsóknarstofur og þrjú apótek. Við enda göngugötunnar er ein af aðalskiptistöðvum Strætós bs. og allt umhverfis húsin eru rúmgóð bílastæði.

     5.      Hverjir eru eigendur þess húsnæðis sem tekið var á leigu, þ.e. hvaða aðilar standa að Landsafli sem er leigusali?
    Ráðuneytið hefur ekki upplýsingar um hverjir eru eigendur fyrirtækja á hlutabréfamarkaði á hverjum tíma

     6.      Var arkitektinn, sem vann að skipulagi nýja húsnæðisins, ráðinn á vegum hins opinbera eða leigusala? Ef hann var ráðinn á vegum hins opinbera, er umfang og kostnaður verkefnisins þess eðlis að bjóða hefði það út á almennum markaði í samræmi við reglur um opinberar framkvæmdir?
    Arkitektinn var eins og áður sagði ráðinn af heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Áætlaður kostnaður við vinnu arkitekts við gerð húsnæðislýsingar var undir viðmiðunarmörkum um útboðsskyldu þjónustu og hefur sú áætlun staðist.