Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 456. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1037  —  456. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Ástu R. Jóhannesdóttur og Þórunnar Sveinbjarnardóttur um tengsl heilsugæslunnar við nýtt þekkingarþorp í Vatnsmýrinni.

     1.      Á hvern hátt vilja stjórnvöld tryggja og styrkja fagleg tengsl Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þess þekkingarþorps sem er að rísa í Vatnsmýrinni?
    Nú er áformað að reisa þekkingarþorp eða vísindagarða á vegum Háskóla Íslands á lóð háskólans í Vatnsmýrinni. Ekki hefur verið rætt um að stjórnvöld styrki sérstaklega fagleg tengsl Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins og þekkingarþorpsins. Slíkt samstarf verður ákvörðun þeirra fyrirtækja og stofnana sem þar munu rísa en ekki er ljóst hverjar þau verða.
    Eigi þingmaður með orðinu þekkingarþorp við uppbyggingu Landspítala – háskólasjúkrahúss og Háskóla Íslands og tengdra stofnana, m.a. rannsóknastofnana, á lóðinni við Hringbraut gegnir öðru máli. Stjórnvöld telja mikilvægt að heilsugæslan eigi sem best og mest fagleg tengsl við þessar stofnanir og geta þau m.a. verið í formi samninga eins og nú er raunin. Gildandi samningar Háskóla Íslands og Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins leggja góðan grunn að slíku samstarfi og eru stjórnvöld hlynnt slíkri samningsgerð og hvetja til framhalds þeirrar vinnu.

     2.      Telur ráðherra það samrýmast eðlilegum vinnubrögðum að um leið og eitt sjúkrahús (í Fossvogi) og rannsóknarstofa (Keldur) eiga að flytjast inn á hið nýja svæði, þá sé miðstöð Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, og þar með sú stærsta á landinu, flutt burtu frá því sama svæði, án umræðu um hvort heilsugæslan eigi heima í slíku þekkingarþorpi?
    Það er skoðun ráðherra að þjónusta heilsugæslustöðva sé þess eðlis að stöðvarnar eigi að vera í öllum hverfum og sem aðgengilegastar íbúunum. Ekki er verið að flytja almenna heilsugæslu úr nágrenni nýja Landspítalans þar sem fyrst og fremst er verið að flytja nokkrar miðstöðvar og miðlæga starfsemi heilsugæslunnar svo og stjórnsýslu Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins.
    Rætt hefur verið um hvort skynsamlegt sé að hafa heilsugæslustöð á lóð Landspítala – háskólasjúkrahúss. Þær hugmyndir hafa verið tvíþættar, annars vegar hefur verði rætt um hvort eigi að staðsetja eina hverfisstöð á lóðinni, og hins vegar hvort tengja eigi heilsugæslu, þ.e. almenna læknismóttöku heilsugæslulækna, við slysa- og bráðamóttöku þannig að sjúklingum megi vísa á milli eftir þjónustuþörf. Fyrri hugmyndinni hefur verið hafnað þar sem hún þótti hafa fleiri ókosti en kosti í för með sér. Hin síðari er enn til skoðunar, enda algengt fyrirkomulag í nágrannalöndum okkar.

     3.      Er það skoðun ráðherra að heilsugæslan eigi ekki heima í slíku þekkingarþorpi?
    Vísað er í fyrri svör hér að framan.