Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 677. máls.

Þskj. 1043  —  677. mál.



Skýrsla

samgönguráðherra um störf rannsóknarnefndar
sjóslysa (RNS) fyrir árið 2006.


(Lögð fyrir Alþingi á 133. löggjafarþingi 2006–2007.)




    Samgönguráðherra skipar rannsóknarnefnd sjóslysa í samræmi við lög um rannsókn sjóslysa, nr. 68/2000. Nefndarmenn og varamenn þeirra eru skipaðir til fjögurra ára í senn. Nefndarmenn eru nú skipaðir til 31. ágúst 2008. Þeir eru: Ingi Tryggvason héraðsdómslögmaður, formaður, Agnar Erlingsson skipaverkfræðingur, Hilmar Snorrason, skipstjóri og skólastjóri Slysavarnaskóla sjómanna, Pétur Ágústsson skipstjóri og Pálmi K. Jónsson vélfræðingur. Eftirtaldir aðilar eru skipaðir varamenn til sama tíma: Lárentsínus Kristjánsson hæstaréttarlögmaður, varaformaður, Karl Lúðvíksson skipatæknifræðingur, Júlíus Skúlason skipstjóri, Rúnar Pétursson vélfræðingur (sem lést á árinu) og Símon Már Sturluson skipstjóri. Starfsmenn RNS eru Jón A. Ingólfsson forstöðumaður og Guðmundur Lárusson fulltrúi. Á árinu var embætti framkvæmdastjóra breytt í forstöðumann.
    Fjárveiting til nefndarinnar í fjárlögum ársins 2006 var 35,4 millj. kr. Á árunum 1996– 2006 var kostnaður vegna starfsemi nefndarinnar eins og að neðan greinir. Tölur eru á verðlagi hvers árs en sambærilegar þar eð á árinu 2002 hefur verið tekið tillit til óreglulegs 8,4 millj. kr. kostnaðar vegna flutnings á starfsemi nefndarinnar út á land. Lækkun rekstrarkostnaðar milli áranna 2004–2005 er vegna loka á starfslokasamningi við fyrrverandi starfsmann.

1996 8.756.513 kr.
1997 11.555.170 kr.
1998 16.204.272 kr.
1999      14.914.467 kr.
2000      17.659.880 kr.
2001 20.662.317 kr.
2002 24.791.935 kr.
2003 32.367.836 kr.
2004 31.536.540 kr.
2005 24.835.358 kr.
2006 28.847.202 kr.
Rekstrarafgangur: 12.529.165 kr.

    Á árinu 2006 voru haldnir níu fundir og 163 mál afgreidd. Skýrslum sem var skilað með nefndaráliti eru 94 en ekki var ályktað í 69 málum. Skilað var inn til Siglingastofnunar Íslands þremur tillögum í öryggisátt og sérstakar ábendingar gerðar með 14 skýrslum. Tilkynnt og skráð mál hjá nefndinni voru 172. Af málum þessa árs átti eftir að afgreiða 53 um áramót.
    Á töflu I má sjá grófa flokkun á eðli mála í samanburði við síðastliðin tíu ár.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Eins og fram kemur í töflunni eru eðli mála nokkuð sambærileg á milli áranna 2005 og 2006. Færri að skip hafa sokkið frá 2004 en aukist hefur að skip stranda eða taka niðri og fleiri árekstrar hafa orðið. Fjölgun mála frá árinu 2001 má rekja til átaks nefndarinnar í að ná til aðila og efla samstarf við lögregluyfirvöld. Undir liðnum Annað eru skráð þau mál sem ekki falla undir flokkun í þessari töflu og má þar nefna atvik þegar skip fengu í skrúfuna, vélarbilanir eða bilanir í búnaði, skemmdir vegna veðurs, farmskemmdir o.fl.
    Fjögur banaslys urðu á íslensku landgrunni á árinu. Tveir skipverjar fórust þegar eldur kom upp í ljósabekk um borð í togara (mál nr. 06106 hjá RNS) sem var á veiðum á Vestfjarðarmiðum og einn maður fórst á kajak í Hvalfirði (mál nr. 15006 hjá RNS). Þá lést einn skipverji af danska varðskipinu Triton við björgunarstörf við Stafnes. Málið var skráð hjá RNS (16706) en rannsókn málsins er í höndum danskra yfirvalda.
    Eins og áður segir gerði nefndin þrjár tillögur í öryggisátt á árinu til Siglingastofnunar Íslands. Þessar tillögur eru eftirfarandi ásamt málanúmerum:

    Mál nr. 08805, Milla SH 234, tæring finnst í lögn.
    Tillaga: Að Siglingastofnun Íslands hlutist til um að sérstök athugun verði gerð á bátum með frágang þar sem koparnippill er notaður með ryðfríu efni í sjókælilögnum.

    Mál nr. 09405, Gugga SH 80, strandar eftir að stjórnandi sofnar.
    Tillaga: Í ljósi tíðra óhappa sem hafa orðið þegar einn maður hefur verið á siglingavakt og sofnað telur nefndin ástæðu til að gera eftirfarandi tillögu í öryggisátt: Að Siglingastofnun Íslands skoði kosti þess að viðurkenndur vökubúnaður „vökustaur“ verði skyldaður um borð í öll sjóför þar sem einn maður standi siglingavakt enda sé ekki annar viðvörunarbúnaður til staðar.

    Mál nr.01106, Hrönn ÍS 303, vélarvana og dregin til hafnar.
    Tillaga: Nefndin bendir á að samkvæmt Norðurlandareglum er ekki heimilt að hafa drengöt á rafgeymakössum. Við þær útgerðaraðstæður sem íslenskir sjómenn búa við getur verið nauðsynlegt að hafa dren og beinir nefndin því til Siglingastofnunar að skoðaðar verði leiðir til að samhliða kröfunni um sýruheldni sé unnt að koma við dreni þannig að rafgeymar verði ekki fyrir skemmdum vegna sjósöfnunar í kössunum.
    Hægt er að nálgast þessar skýrslur á vef RNS og tengjast þaðan inn á vefsvæði á vef Siglingastofnunar Íslands til að sjá þar afgreiðslu stofnunarinnar á þessum tillögum nefndarinnar.
    Tilkynnt slys á sjómönnum til Tryggingastofnunar ríkisins (TR) á árinu 2006 voru 266 en voru 363 á árinu á undan. Ekki er hægt að fullyrða um að skráning ársins sé alveg rétt en þó er ljóst að um verulega fækkun er að ræða og er það ánægjuleg þróun. Vegna breytinga sem hefur orðið á valkostum útgerða til að aukatryggja áhafnir sínar höfðu á þessu ári og fyrir það næsta um 93 útgerðir valið að gera það annars staðar en hjá TR. Það getur því verið að eitthvað af tilkynningum hafi ekki borist til TR.
    Tafla II sýnir fjölda bótaskyldra slysa samkvæmt tilkynningum til TR frá árinu 1997 til 2006.

Hér er efni sem sést aðeins í pdf-skjalinu.


    Ljóst er að stærstur hluti aðila virðir ekki tilkynningarskyldu sína til RNS eins og þeim ber samkvæmt ákvæðum laga nr. 68/2000, um rannsókn sjóslysa. Stærstur hluti mála RNS kemur frá lögregluembættum á landinu og úr fjölmiðlum.
    Á árinu 2006 voru gefnar út prentaðar skýrslur RNS fyrir árin 2004 og 2005. Með þessari útgáfu var því takmarki náð að prentuð skýrsla RNS verður gefin út árlega í framtíðinni og mun því starf nefndarinnar skila sér með þessum hætti fyrr til sjómanna en áður hefur tíðkast.
    Eftir að vefur RNS var opnaður þann 23. september 2004 hafa heimsóknir á hann aukist jafnt og þétt. Síðastliðið ár voru samkvæmt tölulegum upplýsingum um vefinn um 117.000 heimsóknir, 1,9 milljón síðum flett upp og niðurhal um 44,2 GB. Vinnu við vefinn er enn ekki lokið og tengist það helst frágangi á flokkunarkerfi hans auk ýmissa annarra þátta sem lagt var af stað með. Stefnt er að því að ljúka þessari vinnu fyrri hluta ársins 2007.
    Á árinu 2006 var lagður grunnur að innleiðingu á rafrænum þjónustugáttum fyrir tilkynninga- og úrvinnsluferla á vegum nefndarinnar. Helstu markmið með þessu er:
     *      að auðvelda þeim sem tilkynna slys á sjó til RNS að ganga frá tilkynningum og koma þeim til skila;
     *      að skapa umhverfi fyrir sjómenn um skráningu „Nærri því slys“ og koma á upplýsingastreymi á milli þeirra;
     *      að skapa rafrænt umhverfi fyrir nefndarmenn sem gerir þeim kleift að vinna með rannsóknargögn og önnur skjöl.
    Ljóst er að þessi tækni mun verða mikil hagræðing í starfi nefndarinnar auk þess sem þjónusta við sjómenn mun verða betri.
    Á árinu voru sóttir tveir fundir vegna þátttöku RNS í ráðgjafahóp (Consultative Technical Group for Cooperation in Marine Accident Investigation) hjá European Maritime Safety Agency (EMSA) sem er með aðsetur í Lissabon, Portúgal. Megintilgangur starfs EMSA er að samræma reglur um rannsóknir sjóslysa innan Evrópu og er reiknað með að tilskipun þess efnis frá ESB verði sett á næstu misserum. Til að vinna þetta verkefni fór EMSA þá leið að tileinka sér það besta úr lögum og reglugerðum frá hverju aðildarríki. Það helsta sem er nýtt í væntanlegri tilskipun eru ákvæði um þjálfun rannsóknaraðila, sameiginlegur gagnagrunnur, samstarf, tæknimál og skyldur ríkja.
    Sóttur var árleg ráðstefna hjá samtökunum MAIIF (Marine Accident Investigators International Forum) í Panama. Á þessum ráðstefnum er m.a. farið yfir og kynnt starf hvers aðildarríkis á liðnu ári auk þess sem tekin eru fyrir ýmis málefni sem varðar rannsókn sjóslysa. MAIIF eru alþjóðleg samtök sem voru stofnuð í Kanada 1992 og er megintilgangur þeirra að skapa vettvang til að efla rannsóknir sjóslysa og koma á tengslum og efla samstarf milli rannsóknaraðila. Aðildarríki samtakanna eru nú um 55 og ljóst að stofnun þeirra hefur sannað gildi sitt í samvinnu ríkja við rannsóknir sjóslysa.
    Auk MAIIF hafa verið stofnuð sér samtök í Asíu, MAIFA, árið 1998 og í Evrópu, EMAIF, árið 2005. Þessi samtök halda árlega fundi og starf þeirra er kynnt á fundum MAIIF.