Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 479. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1049  —  479. mál.




Svar



fjármálaráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur um skatta og gjöld af barnavörum.

     1.      Hvað hafði ríkissjóður í tekjur af eftirtöldum barnavörum árið 2006 (2005 ef tekjur ársins 2006 liggja ekki fyrir) í heild og sundurliðað eftir virðisaukaskatti, tollum og vörugjöldum eftir því sem við á:
                  a.      barnabílstólum, hjálmum og öðrum öryggistækjum fyrir börn í umferðinni og vegna slysavarna á heimilum,
                  b.      ungbarnamat,
                  c.      barnafötum, annars vegar fyrir börn yngri en sex ára og hins vegar sex ára og eldri,
                  d.      bleyjum og öðrum hreinlætis- og heilbrigðisvörum,
                  e.      barnavögnum og kerrum,
                  f.      öðrum barnavörum sem ekki falla undir framangreint?

    Ekki er hægt að finna allar tölur sem hér er spurt um í upplýsingakerfum ríkisins. Tvær meginástæður eru fyrir því. Í flokkunarkerfi tollskrár eru barnavörurnar ekki í öllum tilvikum flokkaðar sér heldur tilheyra margar þeirra flokkum sem jafnframt innihalda aðrar vörur. Þá er virðisaukaskattur í verslun ekki flokkaður eftir vörutegundum heldur tegund verslunar, og barnavörur eru seldar í margs konar verslunum.

Tollur og vörugjald.
    Barnavörurnar eru að langmestu leyti innfluttar. Að því marki sem þær flokkast í tollflokka sem ekki innihalda jafnframt annan varning má sjá þau gjöld sem innheimt eru af þeim við komuna til landsins, þ.e. tolla, vörugjöld og virðisaukaskatt. Þær barnavörur sem flokkast í nokkuð „hreina“ barnavöruflokka má sjá í töflu 1. Hér er ekki gerð tilraun til að áætla aðflutningsgjöld af barnavörum í þeim tollflokkum sem innihalda barnavörur og aðrar vörur að auki nema þær síðarnefndu séu óverulegur hluti. Sé blöndunin mjög lítil og talið að flokkurinn innihaldi að megni til barnavörur er hann talinn með í töflunni og í einu tilviki er flokkur talinn með að hluta miðað við áætlaða hlutdeild barnavöru í flokknum. Tölur í töflu 1 geta því talist nokkuð tæmandi fyrir þau gjöld sem við tollafgreiðslu eru lögð á þær ákveðnu vörutegundir sem taflan nær til. Hins vegar er hér alveg sleppt barnavörum í blönduðum tollflokkum, en þar er t.d. allur barnafatnaður í stærri stærðum en 86 og margvíslegar aðrar barnavörur, svo sem barnahúsgögn og ýmsir smáhlutir, því erfitt er eða ómögulegt að aðgreina þær frá öðrum vörum í þeim tollflokkum sem þær tilheyra.
    Af barnavörunum er það nánast eingöngu fatnaður og skór sem ber toll. Fjöldi fríverslunarsamninga gildir um þessa tollflokka en vörur frá svæðum utan gildissviðs þeirra bera 15% toll. Vörugjöld eru almennt ekki lögð á barnavörur, aðeins voru innheimt vörugjöld af einum vöruflokki sem telst til barnavara; ávaxtamauki í krukkum (sjá töflu 1).
    Hér á eftir er yfirlit um barnavörur í tollskrá, flokkað eftir a–f-stafliðum 1. tölul. fyrirspurnarinnar (tollskrárnúmer flokkanna má sjá í töflu 2):
     A-liður. Eina varan hér sem hægt er að greina frá öðrum varningi í tollskrá eru barnabílstólar, sem flokkast alveg sér.
     B-liður. Samkvæmt tollskrá og upplýsingum frá starfsmönnum tollafgreiðslu flokkast ungbarnamatur að miklu leyti í „hreina“ flokka, þ.e. flokka sem innihalda barnamat eingöngu eða að langmestu leyti. Um er að ræða átta flokka alls og má sjá samanlögð gjöld á vörur í þeim í töflu 1. Í tilviki eins flokks eru gjöldin aðeins talin að hluta samkvæmt áætlaðri hlutdeild barnamatar í flokknum. Ekki má gleyma að fæði íslenskra ungbarna er einnig að miklu leyti heimagert úr vörum úr öðrum flokkum, svo sem ávöxtum og grænmeti en þeir fæðuflokkar koma hvergi við sögu í töflu 1.
     C-liður. Í fataflokkum tollskrár er fatnaður ungbarna flokkaður sér. Til ungbarnafatnaðar telst fatnaður í minnstu stærðum, eða til og með stærð 86 (þ.e. 86 sm á hæð eða nálægt 1 1/ 2 árs aldri), og einnig margnota bleiur. Barnaföt í stærri stærðum en 86 eru flokkuð með fullorðinsfötum. Barnaskór eru hins vegar í öllum tilvikum aðgreindir frá fullorðinsskóm og þá miðað við skó fyrir börn upp að 12 ára aldri.
     D-liður. Einnota barnableiur eru í „hreinum“ flokki. Aðrar vörur í þessum lið er ekki unnt að aðgreina frá hliðstæðum vörum ætluðum öðrum aldurshópum.
     E-liður. Barnavagnar og -kerrur og fylgihlutir þeirra eru í sérflokki í tollskrá.
    F-liður. Margar fleiri vörur teljast til nauðsynja þegar barn fæðist en erfitt er um vik að nálgast upplýsingar um innflutning þeirra þar sem flokkunaraðferð tollskrár leiðir til þess að þær lenda í flokkum með öðrum vörum. Dæmi: Skiptiborð, baðborð, barnarúm og -stólar flokkast í hina ýmsu húsgagnaflokka og hið sama á við um smávörur á borð við bleiutöskur, baðsæti, gauma, koppa, pela, snuð o.fl. barnavörur.

Virðisaukaskattur.
    Barnavörur eru seldar bæði í sérverslunum og stórmörkuðum og auk þess apótekum, bensínstöðvum o.fl. sölustöðum. Því er ómögulegt að gera grein fyrir þeim virðisaukaskatti sem er innheimtur af barnavörum öllum og eingöngu þeim. Upplýsingar um innheimtan virðisaukaskatt eftir tegund verslunar skv. ÍSAT 95 staðlinum liggja fyrir hjá ríkisskattstjóra en aðeins tveir flokkar staðalsins tengjast sérverslun með barnavörur sérstaklega, annars vegar með barnafatnað og hins vegar með „barnavagna o.þ.h.“. Tafla 3 sýnir virðisaukaskattskylda veltu og innheimtan virðisaukaskatt í þessum verslunum 2005 (endanlegar tölur) og 2006 (upplýsingar um síðasta tímabil ársins eru ekki komnar inn að fullu og tölur fyrir árið eiga því eftir að hækka). Leggja verður áherslu á að þessar tölur eru byggðar á veltu í ákveðnum verslunum sem selja eingöngu eða að megni til barnavörur, og ná því til ákveðins hluta markaðarins með barnavörur en ekki alls markaðarins. Virðisaukaskattur af barnavörum sem seldar eru í t.d. stórmörkuðum er allur utan við töflu 3.
    Í töflu 1 er auk tolla og vörugjalda sýndur sá virðisaukaskattur sem innheimtur var við tollafgreiðslu á árinu 2006, en hann nemur hluta þess virðisaukaskatts sem varan ber endanlega. Ekki er gerð tilraun hér til að meta álagningu verslunar og þar með endanlegan virðisaukaskatt þeirrar innfluttu barnavöru sem sýnd er í töflunni.

Tafla 1. Aðflutningsgjöld á barnavörur 2006.1
Heimild: Tollstjórinn í Reykjavík.

Innheimt aðflutningsgjöld 2006 (millj. kr.)
Barnavörur skv. tollskrárnúmerum Tollskrárnúmer Tollar Vörugjöld VSK
í tolli

Alls
Barnamatur 8 flokkar (sjá töflu 2 ) 1,2 0,7 13,4 15,3
Barnableiur, einnota 1 flokkur (sjá töflu 2 ) 0,5 86,1 86,7
Barnafatnaður í stærðum 86 og minni 16 flokkar (sjá töflu 2 ) 24,3 56,6 80,9
Barnaskór 13 flokkar (sjá töflu 2 ) 10,8 26,9 37,7
Barnavagnar og -kerrur 1 flokkur (sjá töflu 2 ) 2,8 17,4 20,2
Barnabílstólar 1 flokkur (sjá töflu 2 ) 8,8 8,8
Alls 40 flokkar 39,6 0,7 209,3 249,6
1    Taflan sýnir þær barnavörur sem tollflokkun gerir mögulegt að aðgreina frá öðrum vörum og þau gjöld sem lögð eru á þær við innflutning en ekki við endanlega sölu.


Tafla 2. Tollskrárnúmer barnavara í töflu 1.

Barnamatur Barnableiur,
einnota
Barnafatnaður
í stærðum
86 og minni
Barnaskór Barnavagnar
og -kerrur
Barnabílstólar
1901 1000 4818 4001 6111 1001 6403 1901 8715 0000 9401 2002
2005 1000 6111 1009 6403 2002
2007 1000 6111 2001 6403 3002
2104 2001 6111 2009 6403 4002
2104 2002 6111 3001 6403 5102
2104 2003 6111 3009 6403 5902
2104 2009 6111 9001 6403 9102
2106 9024 6111 9009 6404 1101
6209 1001 6404 1902
6209 1009 6404 2002
6209 2001 6405 1002
6209 2009 6405 2002
6209 3001 6405 9002
6209 3009
6209 9001
6209 9009


Tafla 3. Velta og innheimtur virðisaukaskattur í smásöluverslun
með barnavörur 2005–2006.

Heimild: Ríkisskattstjóri.

Skattskyld velta1 Útskattur Innskattur
Millj. kr. 2005 20062 2005 20062 2005 20062
52.42.3 Barnafataverslun 341,1 328,5 83,4 80,2 72,4 66,3
52.49.6 Smásala á barnavögnum o.þ.h. 367,6 434,6 90,0 106,3 62,5 82,2
Samtals 708,7 763,1 173,5 186,5 134,9 148,5
1    Áætluð velta á sama tímabili meðtalin.
2    Enn vantar nokkrar upplýsingar um veltu fyrir síðasta uppgjörstímabil ársins 2006 og tölur fyrir árið eiga því eftir að hækka.


     2.      Hvað má ætla að niðurfelling skatta, tolla eða vörugjalda af framangreindum barnavörum mundu auka ráðstöfunartekjur ungbarnafjölskyldna mikið?
    Vegna framangreindra vandkvæða á að áætla þau gjöld sem lögð eru á barnavörur er ekki unnt að svara þessum lið fyrirspurnarinnar

     3.      Er ráðherra reiðubúinn til að fella niður skatta, tolla eða vörugjöld af einhverjum af framangreindum barnavörum? Sérstaklega er spurt um öryggistæki, sbr. a-lið 1. tölul.
    Framkvæmd þess að fella niður skatta, tolla eða vörugjöld af barnavörum yrði miklum tæknilegum takmörkunum háð eins og að framan er lýst. Sú alþjóðlega aðferðarfræði og staðlar sem notaðir eru við innheimtu umræddra gjalda gera það einungis að litlu leyti kleift að aðgreina barnavörur frá öðrum vörum. Að mestu er þar um að ræða ákveðnar vörur fyrir börn á 1. og 2. aldursári. Tafla 1 nær til afar takmarkaðs hluta þeirra nauðsynja sem börn á aldrinum 0–16 ára neyta/nota í heild.
    Eins og að framan er rakið eru tollar og vörugjöld almennt ekki lögð á barnavörur og ekki á barnabílstóla. Þær breytingar á virðisaukaskatti sem tóku gildi 1. mars sl. leiða til þess að virðisaukaskattur á allri matvöru og þar með sérframleiddum ungbarnamat (sbr. töflu 1) lækkar úr 14% í 7%. Í því felast því meiri kjarabætur fyrir fjölskyldu sem börnin eru fleiri.