Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 654. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1072  —  654. mál.




Nefndarálit



um frv. til l. um breyt. á ýmsum lögum er varða útgáfu leyfa o.fl.

Frá allsherjarnefnd.



    Nefndin hefur fjallað um málið og fengið á sinn fund Dís Sigurgeirsdóttur og Gunnar Narfa Gunnarsson frá dómsmálaráðuneyti, Stefán Skarphéðinsson frá Sýslumannafélagi Íslands, Kjartan Þorkelsson frá Lögreglustjórafélagi Íslands og Jónas Inga Pétursson og Árna Albertsson frá embætti ríkislögreglustjórans.
    Í frumvarpinu eru lagðar til breytingar á ýmsum lögum sem varða útgáfu leyfa af hálfu sýslumanna og lögreglustjóra, en við gildistöku laga nr. 46/2006, um breytingu á lögreglulögum, nr. 90/1996, og lögum um framkvæmdarvald ríkisins í héraði, nr. 92/1989, urðu umfangsmiklar breytingar á skipan lögreglumála. Ein afleiðing þeirra breytinga er að nú fara 11 sýslumenn ekki lengur með lögreglustjórn í umdæmum sínum. Frumvarpið er lagt fram með það í huga að almenningur geti áfram sótt sömu þjónustu við útgáfu leyfa í sínu byggðarlagi, hvort sem sýslumaður hefur einnig með höndum lögreglustjórn eða ekki.
    Nefndin leggur til breytingu á 3. gr. frumvarpsins þess efnis að í stað þess að allir sýslumenn á landinu nema sýslumaðurinn í Reykjavík, en í hans stað lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, gefi út ökuskírteini verði útgáfunni fundinn miðlægur staður hjá embætti ríkislögreglustjórans. Þetta helgast m.a. af því að það er heppilegra í samskiptum við erlenda aðila að hafa einn útgefanda að öllum íslenskum ökuskírteinum.
    Nefndin tók til sérstakrar umfjöllunar ákvæði b- og c-liðar 14. gr. frumvarpsins sem breytir 7. gr. vopnalaga, nr. 16/1998. Þar sem um er að ræða breytingar sem ekki tengjast beinlínis afleiðingum nýskipunar lögreglumála telur nefndin rétt að láta þær bíða heildarendurskoðunar vopnalaga og hvetur til þess að slík endurskoðun fari fram svo fljótt sem verða má.
    Þá tekur nefndin fram að í athugasemdum við frumvarpið er á tveimur stöðum að finna smávægilegar villur. Annars vegar í athugasemdum við 2. gr. frumvarpsins þar sem vísað er til embættis lögreglustjórans og sýslumannsins á Suðurnesjum í stað embættis lögreglustjórans á Suðurnesjum og sýslumannsins á Keflavíkur flugvelli eins og rétt er. Hins vegar ætti í athugasemdum við c-lið 12. gr. frumvarpsins að standa að útgáfa innflutningsleyfa í atvinnuskyni verði falin lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu en ekki „þeim“.
    Nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með breytingum sem gerð er grein fyrir hér að framan og lagðar eru til í sérstöku þingskjali.
    Ágúst Ólafur Ágústsson og Ellert B. Schram skrifa undir álit þetta með fyrirvara sem lýtur að ákvæðum vopnalaga.
    Kolbrún Halldórsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykk áliti þessu.

Alþingi, 6. mars 2007.



Bjarni Benediktsson,


form., frsm.


Guðjón Ólafur Jónsson.


Ágúst Ólafur Ágústsson.


með fyrirvara.



Björgvin G. Sigurðsson.


Birgir Ármannsson.


Ellert B. Schram,


með fyrirvara.



Kjartan Ólafsson.


Sigurður Kári Kristjánsson.


Sigurjón Þórðarson.