Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 361. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1187  —  361. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Adolfs H. Berndsens um fjarnámssetur.

    Leitað hefur verið upplýsinga hjá níu símenntunarmiðstöðvum á landsbyggðinni vegna fyrirspurnarinnar, kannaður fjöldi virkra FS-nets tenginga og byggt á öðrum fyrirliggjandi gögnum í vörslu ráðuneytisins. Rekstur svonefndra fjarnámssetra getur verið breytilegur frá einum tíma til annars, háður staðbundinni eftirspurn og aðstæðum. Jafnframt skal tekið fram að aðstæður þar sem hægt er að stunda framhalds- og háskólanám geta verið til staðar án þess að slík starfsemi fari þar fram. Ekki hefur verið gerð tilraun til að meta aðstæður á höfuðborgarsvæðinu.

     1.      Í hversu mörgum og hvaða sveitarfélögum eru rekin fjarnámssetur þar sem hægt er að stunda framhalds- og háskólanám?
    Aðstæður til fjarnáms á framhalds- og háskólastigi eru við allar níu símenntunarmiðstöðvar á landsbyggðinni. Jafnframt eru skráðar FS-nets tengingar við um 30 staði víða um land. Samtals eru því a.m.k. 38 setur þar sem lágmarksaðstæður eru til að stunda framhalds- og háskólanám á landsbyggðinni. Í upphafi árs 2007 eru 27 virk námsetur á landsbyggðinni auk símenntunarmiðstöðvanna.
    Á Vesturlandi eru auk Símenntunarmiðstöðvar Vesturlands í Borgarnesi, fjögur námsver á Hellissandi, í Stykkishólmi, í Búðardal og á Akranesi. Á Vestfjörðum eru auk Fræðslumiðstöðvar Vestfjarða á Ísafirði, fimm námsver á Hólmavík, Patreksfirði, Tálknafirði, Bíldudal og Birkimel. Á Norðurlandi vestra eru auk Farskólans, miðstöðvar símenntunar á Norðurlandi vestra á Sauðárkróki, fjögur námsver á Hvammstanga, Blönduósi, Skagaströnd og Siglufirði. Í Eyjafirði er námsver á Dalvík auk Símenntunarmiðstöðvar Eyjafjarðar á Akureyri. Í Þingeyjarsýslum eru fimm námsver auk Þekkingarseturs Þingeyinga á Húsavík og eru þau á Þórshöfn, Raufarhöfn, Kópaskeri, að Reykjahlíð í Mývatnsveit og að Laugum. Á Austurlandi eru fimm námsver auk Þekkingarnets Austurlands á Egilsstöðum. Þau eru á Vopnafirði, í Neskaupsstað, á Fáskrúðsfirði, Djúpavogi og í Höfn. Á Suðurlandi eru fjögur námsver auk Fræðslunets Suðurlands á Selfossi. Þau eru að Flúðum, á Hvolsvelli, í Vík og á Kirkjubæjarklaustri.

     2.      Hversu margir hafa stundað nám í fjarnámssetrunum á árunum 2003–2006?
    Ekki liggja fyrir heildstæðar eða samanburðarhæfar upplýsingar um það hversu margir hafi stundað nám í fjarnámssetrum utan símenntunarmiðstöðvanna árin 2003–2006. Hins vegar hefur menntamálaráðuneytið tekið saman upplýsingar um fjölda nemenda er stunduðu fjarnám við símenntunarmiðstöðvarnar árin 2000–2005, sjá töflu.

Fjöldi nemenda í fjarnámi við símenntunarmiðstöðvar árin 2000–2005.

Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum
2000 2001 2002 2003 2004 2005
Fjöldi nema í símenntun 1.303 1.186 1.763 1.504 2.639 1.284
Fjöldi námskeiða 76 66 86 81 136 89
Nemendastundir í símenntun 28.456 33.214 22.480 31.153 24.606
Fjöldi nema í framhaldsskóla
Fjöldi nema í háskólanámi 42 53 56 90 70 67
Símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi
2000 2001 2002 2003 2004 2005
Fjöldi nema í símenntun 869 1.198 1.190 1.104 823 1.040
Fjöldi námskeiða 82 97 98 108 72 84
Nemendastundir í símenntun 28.546 24.458 29.290 26.124 18.084 22.479
Fjöldi nema í framhaldsskóla 0 0 0 0 0 0
Fjöldi nema í háskólanámi 2 5 22 48 52 39
Fræðslunet Suðurlands
2000 2001 2002 2003 2004 2005
Fjöldi nema í símenntun 1.595 1.175 1.154 804 1.072
Fjöldi námskeiða 43 36 43
Nemendastundir í símenntun 35.953 12.073 22.480
Fjöldi nema í framhaldsskóla 0 0 0 0 0
Fjöldi nema í háskólanámi 55 90 93 94 90
Fræðslunet Austurlands
2000 2001 2002 2003 2004 2005
Fjöldi nema í símenntun 657 842 1.065 837 935
Fjöldi námskeiða 150 75 96
Nemendastundir í símenntun 25.385 15.746 16.624
Fjöldi nema í framhaldsskóla 36 15 0
Fjöldi nema í háskólanámi 126 130 167 183 200
Fræðslumiðstöð Vestfjarða
2000 2001 2002 2003 2004 2005
Fjöldi nema í símenntun 440 650 551 895 667 794
Fjöldi námskeiða 29 36 44 49 48 58
Nemendastundir í símenntun 12.085 22.033 16.580 25.003 13.555 18.147
Fjöldi nema í framhaldsskóla 0 0 0 27 0 25
Fjöldi nema í háskólanámi 119 126 116 163 155
Fræþing
2000 2001 2002 2003 2004 2005
Fjöldi nema í símenntun 212 263 74 280
Fjöldi námskeiða 28 25 10 38
Nemendastundir í símenntun 3.814 4.275 1.738 14.833
Fjöldi nema í framhaldsskólan. 4 5
Fjöldi nema í háskólanámi 12 25 24 35
Símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar
2000 2001 2002 2003 2004 2005
Fjöldi nema í símenntun 645 1.439 1.075 837
Fjöldi námskeiða 68 112 81 102
Nemendastundir í símenntun 31.699 25.342 35.130
Fjöldi nema í framhaldsskóla 0 8 8
Fjöldi nema í háskólanámi 10 8 11 0
Farskólinn – miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra
2000 2001 2002 2003 2004 2005
Fjöldi nema í símenntun 523 616 750 518 541 651
Fjöldi námskeiða 42 48 45 56
Nemendastundir í símenntun 25.748 15.928 8.913 11.243
Fjöldi nema í framhaldsskóla 0 0 0 0 0
Fjöldi nema í háskólanámi 104 93 109 95
VISKA – Vestmannaeyjar
2000 2001 2002 2003 2004 2005
Fjöldi nema í símenntun 186 311 344
Fjöldi námskeiða 31 26
Nemendastundir í símenntun 11.078 7.304 2835
Fjöldi nema í framhaldsskóla 0 10
Fjöldi nema í háskólanámi 53 73 70

     3.      Liggja fyrir upplýsingar um stofn- og rekstrarkostnað sveitarfélaganna vegna fjarnámssetranna?
    Upplýsingar um stofn- og rekstrarkostnað sveitarfélaganna liggja ekki fyrir nema að takmörkuðu leyti og eru ekki samanburðarhæfar. Hins vegar má benda á að framlög ríkisins til símenntunarmiðstöðvanna vegna rekstrar og greiðslna vegna FS-nets hafa farið hækkandi undanfarin ár úr 63 millj. kr. árið 2001; í 76,5 millj. kr. árið 2002; 81 millj. kr. árið 2003; 91,8 millj. kr. árið 2004; 96,7 millj. kr. árið 2005; 100,7 millj. kr. árið 2006 og í 110 millj. kr. árið 2007.

     4.      Hefur ráðuneytið uppi áform um að koma enn frekar til móts við kostnað sveitarfélaganna vegna þessa?
    Á undanförnum árum hefur ágætt samstarf tekist milli símenntunarmiðstöðvanna og menntamálaráðuneytisins. Fjárveitingar til símenntunarmiðstöðvanna hafa verið auknar og þær hafa einnig verið efldar í tengslum við samkomulag ríkisins við aðila vinnumarkaðarins. Þannig hefur t.d. starfs- og námsráðgjöf verið stórlega efld og mun enn eflast. Aðkoma sveitarfélaganna að þessu verki er afar jákvæð og vonir ráðuneytisins standa til þess að þau muni á komandi misserum sinna þessu starfi af jafnmiklum eða enn meiri áhuga en verið hefur í góðu samstarfi við ráðuneytið.