Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 633. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1232  —  633. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Sæunnar Stefánsdóttur um framfærslugrunn Lánasjóðs íslenskra námsmanna.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
    Hvað líður endurskoðun framfærslugrunns Lánasjóðs íslenskra námsmanna?

    Úthlutunarreglur LÍN gilda fyrir eitt ár í senn og eru því endurskoðaðar árlega af stjórn sjóðsins. Endurskoðuninni lýkur venjulega í apríl/maí og nýjar reglur taka gildi 1. júní ár hvert en þá hefst nýtt skólaár. Einn veigamesti þátturinn í endurskoðun úthlutunarreglnanna er endurskoðun á framfærslugrunni sjóðsins.
    Undirbúningur að endurskoðun reglnanna fyrir skólaárið 2007–2008 hófst með skipan sérstakrar stjórnarnefndar hinn 9. nóvember 2006, en þá var eftirfarandi tillaga samþykkt í stjórn sjóðsins:
             „Stjórn LÍN samþykkir að skipa nefnd fjögurra stjórnarmanna til að endurskoða forsendur og samsetningu framfærslugrunns sjóðsins og notkun hans til ákvörðunar á árlegri grunnframfærslu námsmanna. Nefndin skal sérstaklega yfirfara tillögur nefndar viðskiptaráðherra um neysluviðmið frá 5. október sl. og hagsmuni LÍN af útgáfu neysluviðmiðs fyrir Ísland. Jafnframt skal nefndin yfirfara yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar frá 22. júní og 9. október sl. og áhrif þeirra aðgerða sem þar eru boðaðar á framfærslugrunn LÍN og samsetningu hans. (Fyrri yfirlýsingin var til að greiða fyrir samkomulagi ASÍ og SA um áframhaldandi gildi kjarasamninga og hin síðari um aðgerðir til að lækka matvælaverð o.fl.)
             Nefndin skal skipuð tveimur fulltrúum námsmannahreyfinganna og tveimur fulltrúum ríkisstjórnarinnar og skila skýrslu til stjórnar fyrir 1. apríl 2007.“
    Nefndin hafði 22. febrúar sl. haldið sex fundi. Starf hennar hefur gengið samkvæmt áætlun. Hún hefur m.a. yfirfarið tekjuþróun námsmanna á síðasta skólaári og fengið fulltrúa frá Hagstofu Íslands og efnahagsskrifstofu fjármálaráðuneytisins á sinn fund. Eftir fyrirhugaða skýrslu nefndarinnar í lok mars nk. mun stjórn LÍN taka afstöðu til tillagna hennar og ljúka endurskoðun úthlutunarreglna sjóðsins fyrir skólaárið 2007–2008.
    Núverandi framfærslugrunnur LÍN og helstu útgjaldaliðir hans byggjast á neyslukönnun Hagstofu Íslands, en hann hefur jafnframt tekið breytingum á undanförnum árum með hliðsjón af sérstakri athugun og endurskoðunarvinnu stjórnarinnar. Honum er ætlað að endurspegla ársútgjöld einstaklings í leiguhúsnæði á Íslandi og er síðan notaður til að ákvarða grunnframfærslu sjóðsins. Hún sýnir lánsþörf námsmanns í leiguhúsnæði á mánuði að teknu tilliti til tekna og árlegs námstíma.
    Í úthlutunarreglum LÍN fyrir skólaárið 2006–2007 var grunnframfærsla hækkuð um 5,9% eða úr 82.500 í 87.400 kr. Flestir aðrir þættir námsaðstoðar hækkuðu einnig, svo sem bókalán og lán vegna maka og barna. Húsnæðisliður framfærslugrunns LÍN var hækkaður sérstaklega með hliðsjón af úttekt námsmannahreyfinganna á húsnæðiskostnaði námsmanna. Fjórða árið í röð var með breytingum á reglum LÍN dregið úr tekjutilliti og hlutfall tekna sem koma til skerðingar á útreiknuðu láni lækkað í 12% en var 40% fyrir fjórum árum. Svigrúm lánþega til að bæta við ráðstöfunartekjur sínar með vinnu á sumrin og samhliða lánshæfu námi hefur þannig verið aukið svo um munar. Námsmenn sem flýta námslokum með sumarnámi geta nú átt rétt á námslánum í allt að 12 mánuði á skólaárinu. Reglurnar eru orðnar aðgengilegri en áður. Einfalt og hóflegt tekjutillit hefur leyst af hólmi margbrotnar reglur um frítekjumörk og undanþágur. Jafnframt hefur með sumarlánum verið leitast við að tryggja afkomu þeirra lánþega sem búa við skerta tekjumöguleika eða vilja leggja áherslu á nám sitt og flýta námslokum.