Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 646. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1285  —  646. mál.




Svar



samgönguráðherra við fyrirspurn Önnu Kristínar Gunnarsdóttur um ökupróf.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Hvenær er áætlað að bjóða út framkvæmd ökuprófa en núverandi samningur rennur út 1. apríl nk.?
     2.      Er fyrirhugað að endurskoða það fyrirkomulag sem nú er viðhaft við framkvæmd ökuprófa, þ.e. að aðeins einn aðili annist prófin?
     3.      Hverjar eru meginástæður þess að starfsemi tengda ökuprófum þarf að reka með sérleyfi?
     4.      Hver er aðkoma Samkeppniseftirlitsins að núverandi fyrirkomulagi og hvernig er eftirliti háttað með verðlagningu á ökuprófum?


    22. febrúar 2002 var gerður verksamningur milli Umferðarráðs og Frumherja hf. um að Frumherji hf. tæki að sér framkvæmd skriflegra og verklegra ökuprófa á öllu landinu. Gildistíminn var ákveðinn þrjú ár og kveðið er á um að eftir það megi framlengja samninginn um tvö ár í senn. Óski annar hvor samningsaðila ekki eftir að framlengja samninginn þurfi hann að tilkynna það fyrir 1. nóvember og falli hann þá úr gildi 31. mars 2005 eða eftir atvikum 31. mars 2007.
    Samningsákvæðin um gildistímann mótuðust af því að verkkaupa þótti nauðsynlegt að eiga þess kost að geta slitið samningnum á tveggja ára fresti, þar sem það þótti heppilegt með tilliti til framkvæmdar ökuprófa. Að öðru leyti var gert ráð fyrir að a.m.k. fimm ár liðu þar til fyrirkomulagið yrði endurskoðað. Á þeim nótum var samningurinn framlengdur, fyrst til 31. mars 2007 og síðan aftur til 31. mars 2009. Það verður þannig á haustmánuðum 2008 sem í síðasta lagi þarf að taka afstöðu til þess hvort samningurinn skuli gilda lengur en til 31. mars 2009.
    Rétt er að taka fram að Umferðarstofa tók til starfa 1. október 2002 og kom þá í stað Umferðarráðs sem aðili að umræddum verksamningi. Í 112. gr. umferðarlaga, nr. 50/1987, er hlutverki Umferðarstofu lýst, en það er m.a. að annast ökupróf. Umferðarstofu er heimilt að fela öðrum framkvæmd verkefna sem henni tilheyra samkvæmt reglum sem ráðherra setur. Með umræddum verksamningi var öðrum falið að koma að ökuprófum undir umsjón Umferðarstofu.
    Samkeppniseftirlitið hefur ekki komið að málinu. Þegar verksamningurinn var gerður byggðist útreikningur á gjöldum fyrir ökupróf á kostnaðargreiningu Umferðarráðs. Heimilt er að endurskoða gjaldskrá til lækkunar eða hækkunar árlega með tilliti til breytinga á vísitölu neysluverðs. Slíkar breytingar skulu þó samþykktar af Umferðarstofu.