Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 679. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1286  —  679. mál.




Svar



heilbrigðisráðherra við fyrirspurn Jóhönnu Sigurðardóttur og Ástu R. Jóhannesdóttur um lokun iðjuþjálfunardeildar geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss.

    Fyrirspurnin hljóðar svo:
     1.      Til hvaða ráðstafana hyggst ráðherra grípa vegna yfirvofandi lokunar iðjuþjálfunardeildar geðsviðs Landspítala – háskólasjúkrahúss og hver er skýringin á lokuninni?
     2.      Hvaða áhrif mun lokunin hafa á sjúklinga sem njóta þjónustu iðjuþjálfunardeildarinnar?
     3.      Má búast við að álag aukist á aðrar deildir, svo sem með auknum innlögnum eða annarri þjónustu, og ef svo er, hvaða deildir og hvað má áætla að álag aukist mikið á hverja deild?
     4.      Hvaða áhrif mun lokunin hafa á starfsfólk sjúkrahússins og eru aðrar deildir mannaðar til að taka við auknu álagi?
     5.      Hve mikið mun það kosta að halda áfram starfi iðjuþjálfunardeildarinnar með því að koma til móts við þann kostnað sem fylgir ráðningu fagfólks í störfin á deildinni á sambærilegum kjörum og iðjuþjálfar fá annars staðar?


    Manneklu gætir á geðsviði eins og á ýmsum öðrum starfseiningum Landspítala – háskólasjúkrahúss. Ein ástæða þess er að illa hefur gengið að ráða nýtt starfsfólk í stað þess sem hættir. Það má að verulegu leyti rekja til þess að mikið framboð er á vinnu í samfélaginu og mikil samkeppni um starfsfólk.
    Eftirfarandi eru svör við einstökum liðum fyrirspurnarinnar:
     1.      Enn sem komið er hefur ekki verið tekin ákvörðun um lokun iðjuþjálfunar geðsviðs við Hringbraut en ljóst er að ef fram fer sem horfir í starfsmannamálum þarf að draga úr starfsemi þeirrar einingar. Á iðjuþjálfunardeild geðsviðs við Hringbraut er fyrirsjáanlegt að aðstoðarmönnum og iðjuþjálfum fækki á næstu tveimur mánuðum. Um skeið hafa fjórir iðjuþjálfar starfað við deildina en nú er einn að hætta vegna framhaldsnáms og annar vegna barneigna. Ekki hefur tekist enn sem komið er að ráða aðra til starfa í þeirra stað en stöðurnar hafi verið auglýstar. Takist ekki að ráða iðjuþjálfa stefnir í að tveir iðjuþjálfar verði í starfi í 1,8 stöðugildum við deildina eftir 1. maí næstkomandi.
             Ráðherra átti fund með forsvarsmönnum iðjuþjálfunardeildar geðsviðs við Hringbraut, sviðsstjóra geðsviðs og forstjóra sjúkrahússins um þennan vanda 12. maí síðastliðinn. Á fundinum kom fram það mat yfiriðjuþjálfa að ef ekki verði fljótlega hægt að ráða starfsfólk muni starfseminni verða lokað þar til starfsmönnum hefur fjölgað aftur. Hefðbundið er að dregið sé verulega úr starfseminni yfir sumartímann vegna sumarleyfa.
             Innan Landspítala – háskólasjúkrahúss verður kannað til þrautar hvort hægt sé að fá aðstoð frá öðrum iðjuþjálfadeildum á spítalanum með því að færa starfsmenn milli deilda tímabundið. Auk þess mun spítalinn leita til annarra heilbrigðisstofnana og kanna hvort mögulegt sé að fá aðstoð til bráðabirgða.
             Takist ekki að fá iðjuþjálfa innanlands verður auglýst eftir iðjuþjálfum erlendis. Oft hefur þurft að leysa mönnun í hjúkrun og sjúkraþjálfun á spítalanum með því að ráða erlenda starfsmenn og er ágæt reynsla af því.
     2.      Iðjuþjálfun er eðlilegur þáttur í meðferð og endurhæfingu sjúklinga á geðsviði og tímabundin lokun deildarinnar, ef af verður, mun hafa þær afleiðingar að draga þarf úr þjónustu við sjúklinga. Iðjuþjálfun á geðsviði eflir og styður fólk til sjálfsbjargar og aukinnar virkni sem er mikilvægt til að ná varanlegum bata og draga úr þörf fyrir endurteknar innlagnir á geðdeildir. Hluti af þjónustu iðjuþjálfunar geðsviðs við Hringbraut er veittur án þess að sjúklingar þurfi að leggjast inn á spítalann og er eðlilegur þáttur í framhaldsmeðferð eftir útskrift.
     3.      Erfitt er að meta hvort álag eykst á aðrar deildir en hugsanlegt er að móttökudeildir verði fyrir auknu álagi vegna lokunar deildarinnar.
     4.      Eins og fyrr segir gætir talsverðar manneklu á geðsviði meðal ýmissa starfsstétta því eftirspurn eftir þjónustu hefur aukist undanfarið. Það leiðir af sér að einstakar deildir munu ekki eiga auðvelt með að taka við auknu álagi við núverandi aðstæður.
     5.      Ekki liggja fyrir upplýsingar um kjör iðjuþjálfa sem starfa utan Landspítala – háskólasjúkrahúss og því var ekki hægt að áætla kostnað sem kynni að fylgja ráðningu fagfólks á öðrum kjörum en nú eru í gildi á spítalanum. Iðjuþjálfar starfa víða í samfélaginu. Starfsvettvangur þeirra hefur víkkað á undanförnum árum og er ekki bundinn við heilbrigðisþjónustuna eins og var um langa hríð. Þeir starfa í vaxandi mæli innan félagsþjónustu, hjá sveitarfélögum og einkafyrirtækjum. Samkeppni um starfskrafta iðjuþjálfa hefur því aukist.

    Í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu fer nú fram umfangsmikil vinna við að móta og framfylgja stefnu í geðheilbrigðismálum í samvinnu við fagfólk og notendahópa. Nauðsyn aukinnar sérhæfingar og fjölbreytileika í meðferðarúrræðum fyrir geðsjúka er ljós. Frekari þróun mikilvægra þjálfunarúrræða samrýmist stefnu heilbrigðisyfirvalda varðandi meðferð og þjálfun geðsjúkra sem kemur fram í heilbrigðisáætlun og megináherslum heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra á sviði forvarna og heilsueflingar.