Aðrar útgáfur af skjalinu: PDF - Word Perfect. Ferill 680. máls.
133. löggjafarþing 2006–2007.
Þskj. 1287  —  680. mál.




Svar



menntamálaráðherra við fyrirspurn Jóns Bjarnasonar um námsframboð og afdrif starfsmanna eftir sameiningu Tækniháskóla Íslands við Háskólann í Reykjavík .

     1.      Hvaða námsleiðir voru áður kenndar í Tækniháskóla Íslands en hafa nú verið lagðar niður eða er fyrirhugað að leggja niður eftir sameiningu hans við Háskólann í Reykjavík?
    Árið 2005 sameinuðust Tækniháskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík. Gert var ráð fyrir því í upphafi að þær námsleiðir sem kenndar voru í Tækniháskólanum yrðu áfram kenndar við Háskólann í Reykjavík, enda var það hluti af samningi vegna sameiningar að þeir nemendur sem höfðu innritast í Tækniháskólann ættu fullan rétt á að ljúka sínu námi á þeim forsendum sem þeir hófu sitt nám. Einu breytingarnar sem gerðar hafa verið síðan sameiningin átti sér stað er að geislafræði og líftæknifræði færðust yfir til læknadeildar Háskóla Íslands og tölvu- og upplýsingatæknifræði og iðnaðartæknifræði sameinuðust tölvunarfræði og iðnaðarverkfræði enda þær greinar mjög sambærilegar þessum brautum. Það sem hefur hins vegar gerst eftir sameiningu er að námsframboð hefur aukist til muna og býður nú Háskólinn í Reykjavík m.a. upp á framhaldsnám til meistaraprófs í flestum þeim greinum sem kenndar voru við Tækniháskóla Íslands.

     2.      Hver var fjöldi starfsmanna, fastráðinna og lausráðinna, við Tækniháskóla Íslands fyrir sameiningu hans við Háskólann í Reykjavík, sundurliðað eftir starfsheitum?
    Öllum starfsmönnum við Tækniháskóla Íslands var boðið starf við hinn nýja sameinaða skóla. Þeir sem ekki höfðu áhuga á því þáðu biðlaun, samkvæmt áunnum réttindum. Leitað var til forsvarsmanna Háskólans í Reykjavík um svör en þar sem lítill tími gafst til gagnaöflunar bárust svörin ekki í tíma.

     3.      Hversu margir starfsmenn Tækniháskóla Íslands, fastráðnir og lausráðnir, hafa sagt upp eða látið af störfum eftir sameiningu hans við Háskólann í Reykjavík, sundurliðað eftir starfsheitum?
    Leitað var til forsvarsmanna Háskólans í Reykjavík um svör en þar sem lítill tími gafst til gagnaöflunar bárust svörin ekki í tíma.